top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg

Niðurtalning

Ef allt fer að óskum kemur ljóðabókin mín út í mars. Hún átti einu sinni að heita mjög ljóðrænum titli en á endanum ákvað ég að láta titilinn ekki þvælast fyrir henni og kalla hana bara Fimm ljóð. Ljóðin í henni – sem vill til að eru einmitt fimm – tala sannarlega saman en mér fannst alltíeinu óþarfi að vera að ákveða fyrir lesandann hvaða þráð væri þægilegast að lesa í gegnum þau, og raunar var titillinn sem ég hafði í huga alls ekki góður þráður, ekki sá mikilvægasti, og það hefur áreiðanlega stýrt ákvörðun minni líka. En það fylgir því líka að kannski langar mig ekkert að segja um bókina, hvorki fyrirfram né eftir útgáfu, langar ekki að vera persónulegur leiðsögumaður neins í gegnum hana – ég held hún krefjist heldur ekki leiðsögumanns, hún krefst þess vona ég bara að maður opni hana og láti berast í gegn.


Mér finnst annars einsog ég hafi komið heim úr Náttúrulögmálatúrnum í gær og því alltof snemmt að fara strax að kynna aðra bók. Ég veit heldur ekkert hvað ég geri. Nema að ég fer áreiðanlega ekki aftur hringinn í kringum landið. Það er búið að bjóða mér að lesa á einum stað í Reykjavík. Ég hlýt að lesa eitthvað á Ísafirði – raunar las ég upp úr henni tvisvar hérna í haust. Akkúrat í dag er ég svo þreyttur – við komum heim frá Bangkok í gærkvöldi, ferðin tók tæplega 40 tíma – að ég nenni ekki einu sinni að hugsa um að fara að standa í einhverju húllumhæi. En ég skal koma hvert sem mér er boðið.


***


Ég las All Fours eftir Miröndu July í fluginu. Ég var mjög hrifin af smásagnasafninu hennar á sínum tíma og ekki síður af The First Bad Man og hafði orðið var við mikið hæp í kringum All Fours svo væntingarnar voru í botni og því kannski ekkert skrítið að maður verði fyrir vonbrigðum. Sem var raunin, sumsé, þrátt fyrir góða spretti. Hún byrjar mjög vel – ímyndunarafl July nýtur sín afskaplega vel á meðan hún er að raða upp sögusviðinu og búa til plottið en úrlausnin, sem tekur alveg síðustu 60% bókarinnar, er einhvern veginn hversdagsleg eða banal. Sviðið minnkar og minnkar og endar bara ofan í naflanum á miðaldra forréttindakonu sem á of mikinn pening og of mikið kúltúrkapítal og hefur of mikinn tíma til þess að velta sér upp úr krísum sínum (sem virka fyrir vikið allar jafn merkilegar – sem þær eru augljóslega ekki) og ofan í þessum nafla er ekkert perspektíf á neitt af þessu, bara rörsýn, sem er í algerri andstöðu við sjóndeildarhringssprengingarnar í upphafi bókar þar sem manni virtist sem nú gæti heimurinn orðið endalaus.


En sprettirnir sem hún á – bæði í mannlegri innsýn og þessum sprengingum í upphafi bókarinnar – gera hana auðvitað vel lestursins virði. Hún er líka til þess að gera fljótlesin miðað við lengd (en hún er samt „of löng“).


***


Undarleg þessi draumslikja sem leggst yfir heiminn þegar maður er þreyttur. Hún er ögrun við veruleikaskynið. Mér finnst ekki einsog ég sé að skrifa þessi orð, mér finnst einsog mig dreymi það eða ég haldi bara að ég sé að því eða ég sé að rifja upp hvort ég hafi gert það, skrifaði ég þessi orð, er ég alveg viss, var það kannski einhver annar sem skrifaði þau og sagði mér bara frá því og í tímans rás hef ég einhvern veginn snúið þessu á haus og finnst núna einsog ég hafi skrifað þau, ég sé að skrifa þau.


Hvað ætli sé að gerast í heilanum á manni þegar manni líður svona? Er líkaminn að skrá þessar minningar af jafn mikilli festu og aðrar – gleymi ég deginum í dag hraðar en öðrum dögum? Ætli þetta sé eitthvað skylt déjà vu? Er eitthvað sekúndubrot þarna á milli þess sem líkaminn tekur á móti upplýsingum og þar til hann skráir þær sem gerir það að verkum að allt virkar einsog minning – einsog endurkall frekar en bein upplifun?


***


Ég veit núna að það er búið að mynda ríkisstjórn. Ég hef fengið meiri fréttir síðasta sólarhringinn en allan mánuðinn þar á undan. Af því að ég hlustaði á útvarpið í bílnum í gær og af því að ég fór í mat til mömmu og pabba. Ég heyrði að Logi væri menningarmálaráðherra – það kom fram í þættinum þar sem RÚV-verðlaunin voru veitt. Og svo spurði ég mömmu og pabba hverjir væru hinir ráðherrarnir og fékk það svona meira og minna upptalið fyrir mig. Svo horfði ég á The Daily Show í morgun og komst að því að það var framin hryðjuverkaárás í New Orleans á áramótunum. Já og mér var líka sagt að Trump ágirnist Grænland. Kannski var það í útvarpsfréttunum. Skógareldarnir í Los Angeles voru líka í útvarpsfréttunum.


Einhvern veginn slær þetta mig allt sem frekar gagnslaus þekking. Eða endurtekin. Í öllu falli finnst mér ennþá áhugaverðari upplifun að fylgjast ekki með fréttum en að fylgjast með þeim. Mér finnst ég læra meira af því að heyra ekki af því sem almennt er álitið að maður ætti að frétta. Það hljómar áreiðanlega undarlega en er samt satt.


***


Í kvöld ætla ég að fara snemma að sofa.

Recent Posts

See All

Samhengislítill næturvaðall

Klukkan er að verða sex. Ég hef verið vakandi frá þrjú. Aldrei þessu vant ekki vegna þess að ég sé andvaka heldur vegna þess að ég er að...

Comments


natturulogmalin.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page