top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg

Nóvember

„Maður starir í tómið“, strigi, 2024.
Go away you rainsnout Go away blow your brains out November

Það fór auðvitað einsog það hlaut að fara. Nóvember kominn og ég farinn að íhuga að raka af mér skeggið. Í Bandaríkjunum eru menn rétt að byrja að spara. Mér finnst einsog þetta sé farið að íþyngja mér. Ég er að verða svo framþungur. Einsog það sé ekki nóg eitt og sér að veturinn gangi í garð. Ég var að vísu búinn að gefa ljósmyndara sem sérhæfir sig í að taka myndir af skeggjuðum körlum vilyrði um að hann mætti taka af mér mynd áður en ég skæfi þetta af andlitinu.


Annars er lífið bara skroll. Fréttir og fréttir og fréttir og einstaka status með ógurlegum skammti af því sem internetið vill troða upp á mann þar á milli. Alls konar sniðugheitum sem eru hönnuð til þess að grípa athygli manns. Sumt er auglýsingar fyrir drasl sem mann vantar ekki, annað fyrir drasl sem mann gæti vantað, en flest er ekki einu sinni að reyna að selja manni neitt og hefur engan sjáanlegan tilgang annan en að afvegaleiða hugsanir manns. Kannski er þetta einhver framtíðarsúrrealismi – eitthvað viðstöðulaust grín á kostnað vitundarinnar. Ég er allavega ekki viss um að ég sé að græða mikið á þessu.


Einu sinni þegar ég var svona 10-11 ára var ég úti að ganga, ég man það mjög skýrt, og það hvarflaði að mér – eiginlega var það meira staðfastur grunur, jafnvel volg vissa – að allir í heiminum nema ég væru geimverur (eða vélmenni) og ég þátttakandi í einhvers konar rannsókn eða tilraun, hverrar tilgangur var aldrei ljós og skipti engu máli. Mér skilst að þess konar sólipsismi sé ekki óalgengur hjá börnum – þetta gerist þegar maður byrjar að geta hugsað abstrakt, að sjá heiminn bara út frá sjálfum sér einsog enginn annar sé til er fyrsta skrefið í þá átt að geta sett sig í spor annarra, að skilja hvað sjónarhorn er – en ég er ekki frá því að í dag hvarfli stundum að mér að öll tölvusamskiptin séu bara samskipti við gervigreind og algóritma, sem er eiginlega það sem ég hélt að væri raunveruleikinn þarna árið 1988. Og hafði rangt fyrir mér. En hef rétt fyrir mér núna. Núna er ég þátttakandi í einhverri tilraun frá því snemma á morgnana og þar til ég rekst á einhvern af holdi og blóði – ég held enn að kjötfólk sé raunverulegt, þið leiðréttið mig ef svo er ekki – sem er kannski orðinn mikill minnihluti samskipta.


Ég hef síðan alltof mikinn áhuga á að vita hvernig fólki gengur í kosningunum vestanhafs og líka þeim sem verða hér í miðju hafinu og svo auðvitað hvernig fer í jólabókaflóðinu – hver vinnur jólabókaflóðið! – til þess að slökkva á miðlunum og hætta að skrolla. Arnaldur er búinn að selja 20 milljón bækur. Að vísu bara nokkrar í ár og allar þeirra í dag. Kannski vinnur Trump vestanhafs og Miðflokkurinn á Íslandi (ég er ekki að líkja Arnaldi við Trump eða Miðflokkinn en Miðflokkurinn og Trump eru augljóslega af sama sauðahúsi). Ég er áráttuvera og ég á eftir að leyfa vélinni að gera út af við mig á endanum.



Recent Posts

See All

Netagjörð

Ég skildi ekkert hvers vegna allir voru sestir þegar ég kom. Og viðburðurinn byrjaður og klukkan samt bara í mesta lagi fimm mínútur...

Stjörnur

Það er talsvert rætt um stjörnugjöf í Svíþjóð eftir að Aftonbladet tók hana upp. Í morgun las ég svo þýdda grein eftir norskan sérfræðing...

Comments


natturulogmalin.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page