top of page

Nýjar og betri leiðir til sjálfsdýrkunar

Einsog lesendur vita er ég í grunninn í það vökulasta/wokeasta þótt ég hafi litla þolinmæði fyrir húmorsleysi, gefi listinni nánast takmarkalausan frípassa og finnist systkini mín á vökuslóðum stundum mjög snögg að teygja sig eftir vopnunum – ekki að andstæðingar þeirra í afturhaldssömu rottuholum internetsins séu skárri, því síður, þeir eru verri, en eiga þetta sameiginlegt með fólkinu í skotgröfunum handan víglínunnar að vilja helst tæma magasínið áður en nokkrar eiginlega staðreyndir eru ljósar, í takti við einhverjar fyrirframgefnar hugmyndir um lögun heimsins. Betra að skjóta fyrst og spyrja svo. Þolinmæðin á undir högg að sækja.


Hvað um það. Til marks um vökula lífssýn mína finnst mér til dæmis algert lykilatriði að maður virði kynvitund fólks og ávarpi það nákvæmlega einsog það vill láta ávarpa sig. Ég get satt best að segja varla ímyndað mér meiri óþarfa fávitaskap en að miskynja fólk viljandi. Upp á síðkastið hefur hins vegar komið upp í mér ægilegur mótþrói varðandi það hvernig fólk kemur „fornöfnum sínum“ til skila. Ég get nefnilega ekki með nokkru móti samþykkt að fólk gegni almennt „fornöfnum“ frekar en „fornafni“ – altso, þegar fólk tilkynnir öðrum að það noti „hún-fornöfn“ eða að „fornöfnin“ þeirra séu „hann/honum“ og þar fram eftir götunum. Hann og honum eru nefnilega ekki tvö fornöfn heldur eitt í tveimur föllum (af fjórum). Ég heiti til dæmis ekki nöfnunum „Eiríkur, Eirík, Eiríki, Eiríks“ – heldur nafninu Eiríkur, sem síðan beygist eftir kúnstarinnar reglum.


Þetta er auðvitað smit úr amerísku – þar sem er enn meiri lenska að spyrja „what are your pronouns“ og allir skrifa „she/her“ neðst í tölvupóstinn sinn (í viðeigandi kyni) – væntanlega af því ameríkanar skilja ekki fallbeygingar. Það er að minnsta kosti eina ástæðan sem mér dettur í hug. Ég bar þetta undir vökula vini mína í Svíþjóð og þeir sögðu að þar tíðkaðist alls ekki að tala um þetta svona – einsog hon og henne væru sitthvort fornafnið – samt beygja þeir ekki heldur nafnorð.


Hér ætti maður kannski að halda því opnu að fólk geti gegnt fleiri en einu fornafni – t.d. bæði hún og hán. Altso, ef hvort heldur sem er gengur – það truflar mig ekki neitt. Það er bara þetta með að hann og honum sé „fornöfn“ frekar en „fornafn“.


***


Ég hef mikið verið að hugsa um internetið upp á síðkastið. Ekki það ég hafi komist að neinni niðurstöðu! Internetið er bara einsog það er. Þetta blogg er 20 ára gamalt í ár – hefur verið á ólíkum stöðum og megnið af því glatast í einhverjum flutningum en það eru 20 ár nú í ágúst frá því ég stofnaði síðu á blog.central.is og kallaði hana Fjallabaksleiðina. Þá var slagorðið „Með bakfjall í framrassinum“. Kannski hef ég verið að hugsa um bloggið vegna þess að það kom til mín maður í brúðkaupi á dögunum til þess að lýsa ánægju með Fjallabaksleiðina og þetta var maður sem ég hafði ekki hugmynd um að hefði nokkurn tíma lesið bloggið mitt – auðvitað veit maður það aldrei, ég veit ekkert hver les þessi orð, en þetta er maður sem ég hef þekkt lítillega öll þessi 20 ár.


Einhvern tíma var bloggið sakað um að vera botnlaus hít sjálfhverfu og narsissisma. Ekki þetta blogg sérstaklega, heldur bloggið sem slíkt. Sú tíð er auðvitað liðin – en þessar hugsanir mínar um internetið hafa nú samt oft botnað í hugsunum um narsissisma, sem á nú fyrst og fremst heima á félagsmiðlunum, einsog hefur sjálfsagt ekki farið framhjá neinum. Ég er ekki endilega að hugsa um fólkið í Frægir á instagram á DV og því öllu saman heldur annars konar narssisma, þann sem blasir ekki endilega við eða á sér önnur birtingarform. David Foster Wallace tekur t.d. stutt rant um narssissíska mannvini (philanthropists) í Infinite Jest – sem er í sjálfu sér líka vel þekkt tegund, mannvinurinn sem virðist nærast á eigin gæsku og jafnvel eigin píslarvætti, mannvinurinn sem hefur alla málstaði fyrst og fremst sem bakgrunnsmynd að eigin sögu, mannvinurinn sem dreymir ekki endilega um sigur síns málstaðs heldur að fá að njóta hetjuljómans sem fylgir fólki á borð við Martin Luther King eða Gretu Thunberg. Í dag er sumt af þessu fólki reynar hálfvegis runnið saman við Frægir á instagram estetíkina – einhvern veginn alltaf hálfnakið á einhverri snekkju að gera deadlifts/spila á hljóðfæri fyrir Palestínu/umhverfið/hinseginfólk og/eða konur.


Svo eru líka svona lítillætis-narssisistar, sem eru kannski ekki jafn áberandi – þó held ég að fólk flissi stundum svolítið að þeim í laumi. Það er að segja narsissistarnir sem eru alltaf að auglýsa á samfélagsmiðlum hvað þeir séu nú lausir við ýmsa nútímakvilla, svo sem einmitt hégóma eða þátttöku í lífsgæðakapphlaupinu, hvað þeir séu bara mikið í núinu og jarðtengdir annað en firrtir nútímamennirnir í kringum þá – og halda sennilega að þeir séu að auglýsa dýpt sýna en eru bara að svamla í grynningunum og heimta læk. Einsog hinir. Einsog allir.


***


Annars er hégómi eitthvað sem rís mikið og fellur í mínu lífi, eftir árstíðum og aðstæðum, reikna ég með. Mér líður best þegar hann er á undanhaldi en ég get ekki alveg án hans verið. Á öðrum endanum hangir hégómi saman við sjálfsvirðingu og einhverja tilfinningu fyrir því að geta púslað sjálfum sér saman – en hinumegin er hann bara sturluð dópamínfíkn með öllum klassískum einkennum fíknisjúkdóma (þráhyggju fyrir uppfyllingu fíknarinnar, sjálfseyðingarhegðun og afneitun á öllu saman).


Listheimurinn er auðvitað hégómadrifinn – mann langar að eiga hlutdeild í dýrðinni, til þess er maður að þessu – en heimur rithöfunda er auðvitað líka mjög einrænn. Maður performerar mest bara í lokuðu herbergi – að miklu leyti sennilega vegna þess að manni finnst það þægilegast. En maður hefur kannski einmitt þess vegna meiri tíma til þess að gægjast fram í sal til að fylgjast með viðbrögðum og verða svolítið nojaður – þegar maður stendur á sviði getur maður takmarkað einbeitt sér að fólkinu sem er að horfa, af því maður er einbeita sér að því sem maður á að vera að gera. Rithöfundurinn getur eytt eins miklum tíma og hann vill í að rýna í einhver komment á Bókagulli eða Goodreads eða í faglegri gagnrýni. Og gert sig vitlausan.


En hann getur líka sleppt því. Það er bara spurning um dagsform. Altso, maður getur sleppt því að lesa gagnrýni og komment – maður sleppir því ekki að gera sig vitlausan, það er ekki hægt, a.m.k. ekki að minni reynslu, maður finnur bara nýjar leiðir til þess. Nýjar og betri leiðir.

Comments


natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page