top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg

Raunir kontrabassaleikarans

Djöfull er erfitt að spila á kontrabassa. Ég er búinn að vera að æfa mig seinnipartinn og það eina sem gerist er að ég spila verr vegna þess að ég er orðinn dofinn í vinstri handleggnum. Ég þarf eiginlega bara að ráða við að spila eitt lag en það eru nokkur trikkí smáatriði sem setja mig út af laginu. Ég hef 23 daga.


***


Á laugardaginn verður viðburður á vegum Þúfu hérna uppi í Netagerð. Þar er sem sagt listrými fyrir þá sem ekki þekkja til – alls kyns smiðjur og verkstæði. Þórdís Björnsdóttir, vinkona mín úr Nýhil og alls konar fleiru – við fórum t.d. saman á debutantseminarium í Biskops-Arnö fyrir ... 19 árum – er að gefa út skáldævisögu og túrar landið með aðstandendum forlagsins (sem er miklu meira en forlag sýnist mér – einhvers konar almennt framkvæmdabatterí). Þar les hún upp og Þúfa sýnir stuttmyndir og svo er gestum boðið að vera með – ég verð með hér og les úr ljóðabók sem kemur út næsta vor (staðfest!) og á Hólmavík sá ég að Bergsveinn Birgisson ætlar að lesa. Það er held ég á sunnudag.


Svo hitti ég Benný Sif í Reykjavík um daginn – og þurfti að byrja á því að biðjast afsökunar að hafa ekki svarað í símann, ég svara nefnilega eiginlega aldrei í símann, einu sinni fannst mér það bara leiðinlegt og forðaðist það og svo fór ég að leyfa mér að svara sjaldnar og sjaldnar og nú er þetta nánast orðið að einhverju syndrómi. Ég er alltaf að hitta eitthvað fólk sem er mér reitt fyrir að hafa ekki svarað í símann. Nema hvað þegar ég var búinn að biðjast afsökunar sagði hún mér að hún væri líka að fara á túr (þess vegna var hún að hringja, til að spyrja mig út í eitt og annað um túrinn sem ég fór í fyrra). Hún sagðist minnir mig ætla með einhverjum öðrum líka – en nú er stolið úr mér hver það var.


Og svo er Hallgrímur að fara á túr. Með sýningu sem verður í einhverju leikhúsanna í Reykjavík. Það er eitthvað grand. Þar kostar líka inn. En hann kemur ekki fyrren ég er farinn til Tælands.


Mér finnst mjög gaman ef þetta er að fara að komast í tísku. Á norðurlöndunum er það nú eiginlega regla frekar en undantekning að höfundar taki túr – a.m.k. stuttan. Og sennilega víðast hvar.


***


Þetta var annar undarlegur dagur. Sennilega var ég bara með flensu í morgun. Það bráði af mér en ég var eiginlega bara frekar lélegur. Lagðist aftur í rúmið. Hristi það svo af mér seinnipartinn og fór að sinna hlutum en kannski engu af viti. Hausinn á mér eða hjartað eða hvað það er sem stýrir þessum tilfinningum mínum er líka enn í einhverju limbói. Það er einsog ég nenni eiginlega ekki að vera ég sjálfur. Og mér fallast nú bara hendur yfir því að eiga að vera einhver annar.


Ég er næstum búinn með Skrípið hans Ófeigs. Ég held þetta sé hreinlega besta bókin hans. Ógurlega skemmtileg – alveg til að hlæja að upphátt, hástöfum, lemja á hnéð – stíllinn meistaralegur og sagan einhvers konar fagurfræðileg yfirlýsing – sem fer gjarnan yfir strikið og hefur allar fjarvistarsannanirnar, þetta er skáldskapur ekki kjallaragrein og persónurnar bera ábyrgð á afstöðum sínum, en þegar maður fussar ekki og sveiar þá kinkar maður ákaft kolli. Einmitt svona! Einmitt svona er lífið!

Recent Posts

See All

Netagjörð

Ég skildi ekkert hvers vegna allir voru sestir þegar ég kom. Og viðburðurinn byrjaður og klukkan samt bara í mesta lagi fimm mínútur...

Stjörnur

Það er talsvert rætt um stjörnugjöf í Svíþjóð eftir að Aftonbladet tók hana upp. Í morgun las ég svo þýdda grein eftir norskan sérfræðing...

Comentarios


natturulogmalin.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page