Rósavín og villisvín*
Ég er snúinn heim eftir langa helgi í Fuveau í Provence héraði. Þar var ég í góðum félagsskap íslenskra höfunda – Einar Már, Eva Björg, Yrsa og Ragnar Jónasson héldu mér uppi á snakki um bókmenntir, sjálfsmynd, dauðann og barnauppeldi; að ónefndum Óla, manni Yrsu, sem hélt hreinlega allri sýslunni upp á snakki enda framúrskarandi selskapsmaður sem við hin vorum dugleg að beita fyrir okkur einsog félagslegri lensu til þess að rjúfa brynjur heimamanna og flytja okkur fréttir úr hjörtum þeirra.
Við sexmenningarnir vöktum langt fram á nótt alla dagana og vorum rekin fram úr eldsnemma á hverjum morgni til þess að sitja við áritunarborð á bókamarkaði – það má nánast heita að við höfum áritað sleitulaust frá 10 til 17-18 síðdegis tvo daga í röð og er þó ekki Fuveau nein stórborg (þótt hún liggi nærri Aix-en-Provence). Sumir komu og keyptu bækur og lýstu yfir áhuga sínum á Íslandi – spurðu hvort það væri „meira af Íslandi“ í þessari bók eða hinni bókinni, einn vildi vita hvort ég gæti mælt með góðu hóteli þar sem sjá mætti Norðurljósin, annar fékk framburðarkennslu (ð, þ, ll og rn) og þriðji var að leita að höfundi sem hann minnti að héti Erlendur (ég gekk með hann yfir að Arnaldarborðinu og mælti með Mýrinni). En svo komu líka nokkrir sem tóku það sérstaklega fram að þeir hefðu engan áhuga á Íslandi, væru ekki á neinu Íslandsmissjóni og vissu ekkert um þetta land, sem væri sennilega líka mjög óáhugavert, en hefðu séð skrifað um hina eða þessa bókina mína (mest þá Illsku og Troll – Hans Blæ) og vildu kynna sér málið frekar. Hvort það væri satt að ég „risti samtímann á hol“ í bókum mínum? Ég játti bara öllu sem mér þótti líklegt að myndi auka bóksölu mína og hróður. Svo mættu meira að segja nokkrir með útþvæld og lesin eigin eintök til þess að fá í þær krot – og ein kona sem hafði lesið allar bækurnar mínar (sem eru til á frönsku – fjórar alls) á rafbók en keypti sér Illsku í vasabroti bara til þess að eiga ílát undir eiginhandaráritunina.
Svona gaman er þetta ekki alltaf. Þegar ég sat daglangt við álíka borð í Nantes fyrir hálfu ári kom svo til enginn – nema Alain Mabanckou reyndar, sem vildi heilsa mér, og ég lét hann árita bók fyrir mig en ekki öfugt. Ég var reyndar alveg nógu upp með mér að Alain Mabanckou skildi vita hver ég væri til að sitja glaður við borðið fram eftir degi.
Við gistum skammt utan við bæinn á litlu sveitahóteli með sundlaug sem kom sér vel þegar búið var að sleppa okkur úr bókamarkaðstjaldinu. Herbergin voru stór og mikill skógur umleikis hótelið, með tilheyrandi dýralífi. Einu sinni fór miklum sögum af því hvað franskt þjónustufólk á veitingastöðum og hótelum væri dónalegt við útlendinga sem kynnu ekki málið – að þeir litu á útlendinga (og kannski ekki síst skandinava) sem hálfgerða (eða algera) plebba. Ég hef lítið orðið var við þessar týpur þrátt fyrir ítrekaðar frakklandsheimsóknir, sennilega eru þær komnir á válista – en á þessu mikla lúxushóteli var sem sagt einn svona þvottekta dónalegur Frakki sem vildi alls ekkert fyrir neinn gera, alveg sama hvað hann var beðinn um. Átentískara verður það ekki. Nú á ég bara eftir að hitta alvöru franskan pervert og þá er ég kominn með bingó.
Eini hængurinn við allan þennan lúxus og skemmtilega félagsskap var að ég hafði ég sama og engan tíma til að lesa. Náði þó að pæla mig í gegnum Myndir í Bruegel – þýðingar Árna Ibsen á ljóðum Williams Carlos Williams – sem ég hafði ekki lesið lengi. Og þar er einmitt ort um Provence (en það mundi ég ekki þegar ég stakk bókinni í töskuna) – í ljóði sem heitir „To Ford Madox Ford (in Heaven)“. Nú myndi ég vitna í þýðinguna en ég skildi hana eftir heima. Það vill hins vegar til að ég er með orginalinn á skrifstofunni þar sem ég sit:
Is it any better in Heaven, my friend Ford, than you found it in Provence? I don't think so for you made Provence a heaven by your praise of it to give a foretaste of what might be your joy in the present circumstances.
Þannig var þetta. Himnaríki líkast.
Á leiðinni í gegnum Reykjavík fór ég svo í partí til Steinars Braga og hitti ljóðskáld sem hafði verið tekinn í gegn – eða „kallaður út“, einsog það heitir – af kynninum á opnum mæk í Berlín á dögunum fyrir að nota orðið „hóra“ í ljóði, sem aftur minnti mig á WCW sítat sem Einar Már hafði á takteinum um að þótt fátt væri að frétta í ljóðum hefðu margir látist á skorti af því sem þar væri að finna – en það orð (eða sögnin to whore) birtist einmitt líka aðeins neðar í þessu Provence-ljóði hans WCW:
The world is cleanly, polished and well made but heavenly man is filthy with his flesh and corrupt that loves to eat and drink and whore – to laugh at himself and not be afraid of himself knowing well he has no possessions and opinions that are worth caring a broker's word about and that all he is, but one thing, he feeds as one will feed a pet dog.
Sigfús Daðason orti líka um þetta hérað í bókinni Provence í endursýn en var kannski ekki alveg á himnaríkisnótum:
Salon er mér ennþá þegar hún líður fram hjá rétt eins og ég man að mér sýndist síðast: Hveragerði nokkuð ofvaxið og víst formfastara að nokkru.
Og Ófeigur Sigurðsson svaraði Sigfúsi í bókinni Provence í endursýningu:
Ég nýt mín ég virkilega nýt mín hérna á sundlaugarbakkanum með sólgleraugu eins & Steinn Steinarr á myndinni frá Mallorca
*Yfirskrift þessarar færslu er tillaga Ragnars Jónassonar að enn óskrifaðri ferðasögu okkar sexmenninganna til Provence. Við þá tillögu bætti afbrotafræðingurinn Einar Már: „Greinilega tvennt sem þurfum að vera góð í: að forða vandræðum og valda vandræðum! To live outside the law you must be honest!“ Í sem stystu máli og án þess að koma óorði á neinn eða setja af stað einhver óþarfa sakamál má segja að þetta hafi allt einmitt gengið svolítið út á rósavín og villisvín, en auk þess komu nauðungarvistun, leðurblökur, ættarmót, kókaínreykingar og spariskór með jarðarberjalykt við sögu. Ég leyfi ykkur að fylla í eyðurnar sjálfum en vísa að öðru leyti á ljóð Ófeigs Sigurðssonar í áðurnefndri Provence í endursýningu, sem heitir „Hvað gera íslenzk skáld andspænis villisvíni?“.
Recent Posts
See AllDagskráin á Opinni bók var frábær í ár. Helmingur höfunda var heimamenn – Didda, mamma og Gylfi Ólafsson – og helmingur gestir – Offi,...
Comments