Samhengislítill næturvaðall
Klukkan er að verða sex. Ég hef verið vakandi frá þrjú. Aldrei þessu vant ekki vegna þess að ég sé andvaka heldur vegna þess að ég er að reyna að snúa sólarhringnum við. Snúa sólarhringnum enn meira við, meina ég. Ætli klukkan sé ekki að verða ellefu að kvöldi á Ísafirði? Sem þýðir að ég hef farið á fætur um það leyti sem kvöldfréttirnar ... nei það eru líklega áratugir frá því kvöldfréttir voru klukkan átta. Það er samt veruleikinn sem ég er alinn upp við. Kvöldfréttir klukkan átta. Ekkert sjónvarp á fimmtudögum. Prins Póló í opnum álpappírsumbúðum (súkkulaðistykkið, ég reikna með að strákurinn hafi verið í Don Cano galla eða í versta falli Henson). Good times. Í mínum heimi verða eðlilegar kvöldfréttir alltaf klukkan átta.
Ég er svolítið þreyttur. Á morgun – altso, aðra nótt – er Bangkok Midnight Marathon og strax og það er búið brunum við út á flugvöll.
***
Ég hef ekkert fylgst með fréttum. Bókstaflega ekki neitt. Ekki heldur horft á kvöldfréttir eða hlustað á útvarp. Það eina sem ég veit um síðustu tvær vikurnar er það sem fólk hefur sagt mér. Tengdafaðir minn sagði mér t.d. eitthvað um að ... uh ... Google kannski ... hefði fundið upp einhvern tölvukubb sem væri ... hvað sagði hann? Það var einhver ægileg tala. Og tölvukubburinn var svo mörgum sinnum kraftmeiri en næstkraftmesti tölvukubburinn í heiminum. Þetta mun breyta öllu. Svo var víst einhver rappari skotinn í Svíþjóð. Steinar Bragi sagði eitthvað í Lestinni sem fór fyrir brjóstið á fólki á Facebook – kannski hugsanlega að fólkið í Kiljunni væri ómarktækir gamlingjar. Og að hann hefði fundið upp gervigreindina. Svo fékk hann þann dóm í þeim sama þætti að hann ætti bestu bók ársins. Halldór Armand er áfram skiljanlega svekktur að fá ekki listamannalaun og stillir því, að því mér er sagt, þannig upp að það sé vegna þess að hann skrifi bækur sem eru fagurfræðilega, siðferðislega og/eða pólitískt of langt frá meginstraumnum, misbjóði úthlutunarnefndinni – hann sé eins konar Burroughs/Celine/Duras sinnar kynslóðar. Ég veit ekki hvort það er búið að mynda ríkisstjórn en mér finnst það ólíklegt.
Er forsvaranlegt að segja svona fréttir? Sem eru ekki fréttir. Fréttir sem berast manni frá öðru fólki – frekar en í gegnum skjái, hátalara eða pappír – eru ekki fréttir heldur slúður. Eða upplýsingaóreiða. Ég veit ekki einu sinni hvort bókmenntafréttirnar hafa verið í fréttunum eða bara á Facebook eða bara í einhverju kaffihúsaspjalli. Einu sinni hélt ég hérna lestrardagbók – skrifaði jafn óðum um allt sem ég var að lesa, meðan ég var að lesa það – og fékk bágt fyrir vegna þess að eðli málsins samkvæmt var ég yfirleitt að skrifa um bækur sem ég var ekki búinn með. Þetta er kannski svipað. Nema þetta sé meira einsog ég sé að skrifa um bækur sem einhver hefur bara sagt mér frá. Ég var þó allavega byrjaður á þessum bókum þarna í gamla daga.
Ég veit ekki einu sinni af hverju ég er að missa. Stríðin geisa væntanlega enn? Af og til eru hælisleitendur sendir úr landi. Einhver er „svarti folinn“ á metsölulistanum en annars er Arnaldur alltaf í fyrsta sæti. Vinsælustu bækurnar (sem eru ekki krimmar) unnu bóksalaverðlaunin – Hallgrímur og Gunnar, kannski? Það var áreiðanlega a.m.k. ein Kristín tilnefnd til Fjöruverðlaunanna.
***
Ég er mjög þreyttur. Planið er að reyna að sofna klukkan sex í dag og vakna svo klukkan þrjú. Úthvíldur í það skiptið. Mörgum finnst ekkert mál að hlaupa tíu kílómetra en mér finnst það heilmikið.
Comments