Skáldað á Ísafirði: Arnrún frá Felli
Það er barið að dyrum. „Já!“ segir Þóra. Enginn kemur. „Gerið svo vel!“ segir hún hátt. Hurðinni er lokið hægt upp, og inn kemur Jón skósmiður. „Hér er þá enginn“, segir hann og skimar í kringum sig. „Kallið þér mig engan“, segir Þóra brosandi, og snýr í skyndi við á sér svuntunni. „Enginn gestur átti ég við; mér heyrðist þér vera að tala við einhvern og segja já.“ „Góði Jón minn! Það var rétt, að ég sagði „já“, en vitið þér ekki að það þýðir: Gerið svo vel að ganga í bæinn.“ „Ég hefi nú vanist því, að fólk segði þá: „Kom inn“; ætíð var það sagt á honum Ísafirði.“ Jón var alinn upp á Ísafirði. „Já, á Ísafirði“, segir hún og grettir sig. „En hér í Reykjavík segja allir mentamenn: „já“. Einn læknirinn byrjaði á því, og þá sögðu allir: Já!“
Það er ekki nema með dálitlum fimleikum sem ég geri Arnrúnu að Felli að ísfirsku skáldi – þarf kannski ekki reyk og spegla, en aðeins þarf ég nú að teygja mig samt. Hún hét réttu nafni Guðrún Tómasdóttir. Hún var fædd árið 1886 að Einifelli í Mýrasýslu og fór þaðan 19 árum síðar til þess að nema ljósmóðurfræði í Reykjavík. Þar var hún í tvö ár áður en hún hélt til Kaupmannahafnar til frekara náms. Að því loknu fór hún til Ísafjarðar og var þar ljósa í ein átta ár – nær allan þrítugsaldurinn.
Það er á þessu tímabili sem hún hefur að birta eftir sig ljóð og smásögur í tímaritum, sem margar gerast á „Sandfirði“ sem á ýmislegt sameiginlegt með Ísafirði, og a.m.k. ein á „Brimtanga“ sem á sér sennilega fyrirmynd í Bolungarvík. Aðrar sögur hennar gerast í Reykjavík og í Ameríku – en frá Ísafirði hélt Arnrún til Bandaríkjanna, þar sem hún kynntist miklum menntamanni, Charles F. Bjarnason, málvísindaprófessor við Harvard. Í minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu í byrjun árs 1973, hálfu ári eftir að hún lést, kemur fram að í hjónabandi þessu hafi henni gefist „verðug tækifæri til að þroska það sem í henni bjó“ – enda hafi hún fengið að vélrita alla fyrirlestra þessa gáfaða manns í nærri 30 ár.
Sögur Arnrúnar birtust einkum í Iðunni og Eimreiðinni framan af en síðar í tímaritum Vestur-Íslendinga í Ameríku. Mér sýnist hún smám saman hætta að gefa út eftir því sem líður á þriðja áratuginn – sennilega vant við látin að vélrita fyrirlestra – og tekur ekki saman sögur í bók fyrren 1956, sjötug að aldri, og hefur þá verið ekkja í sjö ár. Þó virðast sögur hennar og skáldskapur hafa notið nokkurra vinsælda og þegar hún kemur til Reykjavíkur frá Ísafirði með Lagarfossi 1917 er þess sérstaklega getið í Morgunblaðinu að hún sé komin, skáldkonan.
Þá er eitthvað rýnt í sögur hennar í dagblöðum og um þær rætt, þó engin sé bókin til að fjalla um.
Í skáldkvennatali skald.is er sagt um smásagnasafn Arnrúnar, Margs verða hjúin vís, að þar séu 13 sögur sem séu með fyrstu Reykjavíkursögunum (og er þá væntanlega miðað við útgáfutíma í tímaritum en ekki útgáfu safnsins):
Aðalpersónur flestra sagnanna eru ungar, fjörmiklar stúlkur og má segja að um nýja kvenmynd sé að ræða. Guðrún skrifaði stíl sem samsvarar vel sögusviði og efni. Hún notar „nýtískulegt“ málfar með orðatiltækjum og slettum úr borgarmáli. Hún nær upp hraða í frásögn með því að sleppa smáorðum og tengingum, t.d. í samtölum. Frásagnarmáti hennar er víða gamansamur, jafnvel þótt efnið sé „háalvarlegt“.
Þá ber að halda því til haga að einungis tvær sagnanna í Margs verða hjúin vísari falla að þessari lýsingu. Fjórar gerast í Reykjavík en þar af er ein um stúlku sem er dauðveik og alls ekki fjörmikil og ein fjallar eiginlega bara um karla – það er Einkennisbúningur Reykjavíkur sem er dásamleg saga, hittir á einhvern fagurfræðilegan skurðpunkt súrrealískrar snilldar og íslenskrar fyndni. Tvær – Bifreið nr. 13 og Fiskur í alla mata – fjalla síðan um dálítið frakkar dömur, a.m.k. á síns tíma vísu, en fjörmestu stúlkurnar í skrifum Arnrúnar birtast í tveimur smásögum sem hún undanskilur í safninu – en hefðu verið með því besta þar, ef þær hefðu fengið að fljóta með. Annars vegar er það sagan Þóra, sem vitnað er til hér í upphafi færslunnar og birtist í Iðunni vorið 1917, og hins vegar Ragna, sem birtist þar tveimur árum síðar en ku hafa legið óbirt á skrifstofu tímaritsins í þrjú ár.
Hér verður sennilega að nefna að þrátt fyrir sitt dásamlega fjör er Þóra kannski ekki lengur „stúlka“ – a.m.k. er hún ekkja. Árið 1917 gat kona reyndar hæglega orðið ekkja fyrir tvítugt en því er sennilega ekki fyrir að fara hér. Sagan Þóra er örstutt ástarsaga með hröðum stíganda – léttleikandi og dásamleg – og mér fannst strax einsog ég væri að lesa eitthvað eftir formóður Kristínar Ómarsdóttur. Það var þessi saga sem kveikti mér forvitni að lesa meira eftir Arnrúnu og finna bókina hennar – sem fannst í kjallara Bókasafnsins. Ragna er annars eðlis og hortugri og sennilega séð um að skapa Arnrúnu það orðspor sem vísað er til í skáldkvennatalinu – enda var hún svo svakaleg að það þurfti að birta hana með formála:
Reykjavíkurdrós, rifin upp úr roði, hortug og ófeilin – það lýsir því ágætlega. Þessi saga ætti að vera í öllum yfirlitsritum, ásamt helst Þóru og Einkennisbúningi Reykvíkinga líka og jafnvel Fyrsta fundinum.
Mér sýnist svo að eftir því sem Arnrún eldist og þroskast aflæri hún mörg af áhugaverðustu höfundareinkennum sínum – sögurnar verða lengri og líkari „einhverju öðru“. Það er í sjálfu sér algengt – og stundum kallað ritlistarheilkenni, því slíkt umhverfi getur fóstrað tendensinn – að höfundar sem ekki er sérstaklega hampað fyrir það sem skilur þá frá öðrum höfundum fari fljótlega að líta á það sem vankanta og agnúa sem þurfi að sníða burt.
En Arnrún verður þrátt fyrir þessa tilhneigingu aldrei neitt sérlega lík neinum öðrum. Sögur Arnrúnar eru allar áhugaverðar, bæði að frásögn og stíl, og þótt þær séu ekki undantekningalaust frábærar eru þær líka sprúðlandi heimild um þann heim sem hún lýsir. Þessi innsýn í borgaralegt líf sæmilega velmegandi Vestur-Íslendinga var alveg ný fyrir mér þótt ég næði minni tengingu við Ameríkusögurnar flestar. Þá þótti mér sagan Fyrsti fundurinn – sem fjallar um fund í sandfirska kvenfélaginu Vonarljós áhugaverð ekki síst vegna þess að Arnrún var mikilvirk í ísfirska kvenfélaginu Ósk á Ísafirði, sem stofnaði Húsmæðraskólann (þar sem Arnrún kenndi heilsufræði). Í sögunni leysist fundurinn eiginlega upp í slúður og baktal – í hvert sinn sem einhver hinna góðu frúa þarf að bregða sér afsíðis byrja hinar að baktala hana miskunnarlaust. Sem er auðvitað sprenghlægilegt. Fínu frúrnar sem keppast svo mikið um að vera merkilegar að þær verða fyrir rest alveg hræðilega ómerkilegar. Og þá fær „Snæmundur læknir“ sem sagður er fullur af innihaldslitlu „alþýðuskjalli“ líka gusur – þar hlýtur Arnrún að vera að vísa í Vilmund landlækni, sem var líklega ekki samtíða henni á Ísafirði nema þá í augnablik (hann kom árið sem hún fór).
Þó má geta þess að kvenfélagið Vonarljós fær gott umtal um sig í annarri sögu – þær stöllur veita fátækri og sárveikri stúlku á Brimtanga styrk, þótt félaginu sé nú eiginlega bara ætlað að starfa í Sandfirði.
Comments