top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg

Sweet Home Chicago – lengri leiðin

Þegar maður gúglar frægasta blúslagi allra tíma – Sweet Home Chicago – eru Blues Brothers það fyrsta sem kemur upp. Ég er nú gjarn á að halda uppi vörnum fyrir þá Dan Akroyd og John Belushi, að ekki sé minnst á þá stórkostlegu hljómsveit sem þeir rusluðu saman fyrir þessa afar skemmtilegu bíómynd, en það er samt svolítið sorglegt. Mig minnir að í myndinni tileinki þeir lagið Magic Sam sem á einmitt eina frægustu útgáfu lagsins á rafmagnsöld – af meistaraverkinu West Side Soul frá 1967.



Lagið er hins vegar „eignað“ Robert Johnson og var tekið upp árið 1936. Ég segi eignað vegna þess að sennilega hefði hann aldrei fengið þetta skráð á sig í dag – því þótt það eigi enginn jafn mikið í endanlegri útgáfu lagsins og hann þá stal hann því meira og minna öllu og setti saman eftir eigin höfði. 

Textinn fjallar um mann sem er að reyna að tæla með sér ástkonu sína úr bænum – lofar henni gulli og grænum skógum í paradís, ef hún bara fylgi sér til „back to the land of California“ og „from there to Des Moines, Iowa“ og loks til „my sweet home, Chicago“. Þetta er svo vægt sé til orða tekið lengri leiðin frá deltunni til Chicago einsog sjá má á þessu korti. 


Fólk hefur mikið klórað sér í hausnum yfir þessum ferðaplönum Roberts. Fyrst eftir að hann fór að vekja athygli (eftir andlát sitt) reiknuðu menn bara með fávísi hans, að hann væri bara að kalla upp nöfn fjarlægra staða út í loftið – en burtséð frá því að vera ansi nákvæmt og gott skáld var Robert á stöðugum faraldsfæti og þótt hann færi aldrei alla leiðina til Kaliforníu þá ætti honum nú samt að hafa verið ljóst hversu langt úr leið hún væri. Aðrir hafa stungið upp á því að hann eigi kannski við Chicago EÐA Kaliforníu (það er hugsanlegt að maður komi við í Des Moines á leiðinni til Chicago, þótt það sé ekki alveg í leiðinni). Svo hafa sumir stungið upp á því að hann noti nöfn staðanna einfaldlega sem ljóðræn samheiti yfir staði þar sem sleppa megi undan Jim Crow rasisma suðurríkjanna – hvort sem er til norðurs eða vesturs. Bara meðan við erum ekki um kyrrt. Enn önnur kenning gengur út á að hann eigi við California Avenue í Chicago. Skemmtilegasta kenningin – sem á sér stoð í gegnumgangandi kímni í textagerð Roberts – er að hinn kasanóvíski ljóðmælandi komi upp um svikult bullið í sjálfum sér með augljósu ruglinu, hann sé augljóslega fæðingarhálfviti sem engin kona með minnstu sjálfsvirðingu myndi fylgja út í sjoppu, hvað þá lengra. 

Á las á dögunum Chronicles eftir Bob Dylan og þar eyðir hann nokkru púðri í að ræða Robert Johnson. Ég man ekki nákvæmlega hvernig hann orðar það en hann túlkar Robert fullkomlega bókstaflega – segir að Phonograph Blues fjalli um mann sem verður fyrir því óláni að nálin á plötuspilaranum hans ryðgar og Dead Shrimp Blues fjalli um ófarir manns í rækjuiðnaðinum. Í fyrsta lagi er áhugavert að hann skuli velja að tjá sig um þau tvö lög Roberts sem fjalla (undir rós) um getuleysi – sem var óvenjulegt – og í öðru lagi má taka þessu sem sneið til þeirra aðdáenda Dylans sjálfs sem eru gjarnir á að oftúlka lögin hans og gleyma því að þau eru fyrst og fremst það sem þau eru. Orðin ekki endilega staðgenglar annarra orða – maður rænir myndlíkinguna líka einhverju með því að skipta henni einfaldlega út fyrir „rétta merkingu“. Ef við tökum Dylan-aðferðina á þetta fjallar lagið þá bara um mann sem ætlar að fara til Chicago í gegnum Kaliforníu og Des Moines. Sem er auðvitað líka skemmtilega ruglað. 

Robert gæti líka hafa átt við California lestarstöðina í Chicago. 

Lagið er mikið einkennislag fyrir borgina. Í seinni tíma útgáfum, frá Roosevelt Sykes 1955, hefur ferðaáætlunin einfaldlega verið leiðrétt svo að núna ætlar ljóðmælandi ekkert til Kaliforníu lengur, heldur bara „that same old place / sweet home Chicago“. Mér finnst það nú óþarflega ferkantað. 

Upprunalega fjallar lagið reyndar alls ekkert um Chicago, heldur smábæinn Kokomo, Indiana. Fyrst til að taka það upp var söngkonan Madlyn Davis, árið 1927, en fyrir kæruleysi framleiðandans heitir lagið í hennar flutningi Kokola Blues – sem mig grunar að kæti mjög blúsglaða íbúa bæjarins Kokkola í Finnlandi, en bær með þessu heiti hefur aldrei fundist í Bandaríkjunum. En hún syngur mjög greinilega „Kokomo“. 

„Don\’t you wanna go / to that eleven light city / that sweet old Kokomo“ biðlar Madlyn til manns síns. Ári síðar syngur svo Scrapper Blackwell (sem er þekktastur fyrir að vera sidekick Leroy Carr)  – og er talinn líklegur höfundur lagsins – sinn Kokomo Blues. Textinn er að mestu leyti annar þótt laglínan sé sú sama og fjallar nú um mann sem á í erjum við frú sína og biðlar ýmist til hennar að koma með sér til Kokomo eða virðist ætla að yfirgefa hana og fara þangað einn (enda sé hún aldrei góð við hann). 

And I\’ll sing this verse, baby, I can\’t sing no more  I\’ll sing this verse, baby, I can\’t sing no more  My train is ready and I\’m going to Kokomo           

– 

Hvorugt þessara laga náði neitt viðlíka vinsældum og Old Kokomo Blues með James Arnold – en lagið varð svo vinsælt (meðal svartra í suðurríkjunum) í hans meðförum að hann var aldrei kallaður annað uppfrá þessu en Kokomo Arnold. Hann tekur brot úr textanum frá Madlyn – brotið hér að ofan – og prjónar saman við annars vegar flökkuerindi einsog „I don\’t drink because I\’m dry / don\’t drink because I\’m blue / the reason I drink mama / is I can\’t get along with you“ og hins vegar reikningserindi sem rata inn í klassíkina: „Now one and one is two, mama / two and two is four / you mess around here pretty mama / you know we got to go“. Hefðin býður að maður reikni sig aðeins áfram – Arnold endar í „eleven and one is twelve / you mess around here mama / you going to catch a lot of hell“. Blúsbræðurnir fara í „Nine and nine is eighteen / look there brother baby and see what I\’ve seen“. 

Hér er kannski rétt að geta þess áður en lengra er haldið að Kokomo, Indiana, er mikilvægur bær í sögu Ku Klux Klan – fjórum árum áður en Madlyn syngur sinn blús um hvað sig langi til Kokomo er þar haldin stærsta KKK ráðstefna allra tíma, þar sem talið er að um 200 þúsund manns hafi mætt. Og valið á bænum var ekki tilviljun. Sagt er að ríflega helmingur bæjarbúa hafi verið meðlimir í klaninu og það hafi ráðið lögum og lofum þarna langt fram eftir 20. öldinni – bærinn hefur verið sagður „heimkynni Klansins“. Þetta er auðvitað forvitnilegt í ljósi þess hvers lags ódáinsvellir bærinn er í öllum þessum lögum – þar er bæði framtíðina að finna og þar verða allar erjur að engu. 


Á leið okkar frá Kokomo og aftur til Chicago verðum við að gera örlitla lykkju á leið okkar og nefna tvö-þrjú lög sem eiga líka talsvert í útgáfu Roberts. Hið fyrra er Honey Dripper Blues no. 2 með Edith North Johnson frá 1928 – sem er klassískt fyrirtaks hokum – og svo Red Cross Man með Lucille Bogan. Þar er melódían eiginlega alveg komin og undirspilið er í búggífílingnum sem einkennir Sweet Home Chicago með Robert Johnson (og enn nákvæmari fyrirmynd að búggíinu má finna í öðru Honey Dripper Blues með Roosevelt Sykes).  

Það er alþekkt trix í lagasmíðum að droppa örnefnum – af einhverjum orsökum resonerar það hjá hlustendum. En til þess þurfa hlustendur sennilega að þekkja örnefnið og ef maður var ekki í Klaninu á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar er ósennilegt að maður hafi heyrt á Kokomo minnst. Elijah Wald skrifar einhvers staðar eitthvað á þá leið að það sé ekki heiglum hent að skrifa hittara um jafn ómerkilegan stað – hann nefnir ekki Kokomo með Beach Boys, úr bíómyndinni Cocktail, sem ómaði viðstöðulaust í útvarpinu þegar ég var svona tíu ára en hlýtur að hafa haft það í huga. Raunar hefur mér líka dottið í hug að lagahöfundarnir hafi tekið því sem áskorun – hvort það væri yfir höfuð hægt að semja hittara um jafn mikið skítapleis og Kokomo. Í laginu þeirra er Kokomo reyndar „off the Florida Keys“ sem auðveldar sennilega rómantíkina – og auk þess er vísað til ábyggilega fjörutíu annarra sumarleyfisparadísa. (Svo má líka spyrja sig hvort höfundar Kokomo – sem voru ekki Beach Boys vel að merkja – hafi verið að senda einhver leynileg skilaboð með nafninu á laginu). 

Fyrsta tilraun til þess að færa lagið yfir á kunnuglegri og viðkunnanlegri slóðir er Baltimore Blues með Charlie McCoy frá 1934. 

Baltimore var sannarlega ein af hinum fyrirheitnu borgum norðursins en lagið er kannski bara of hversdagslegt – það er of lítill galdur í þessu. Þá varð Baltimore heldur ekki síðar stærsta og mesta blúsborg sögunnar, einsog Chicago, og það hefur áreiðanlega haft helling að segja um það hvort lagið var koverað oftar þegar fram liðu stundir. Lagið sem Robert tekur upp tveimur árum síðar – í herbergi 414 á Gunterhótelinu í San Antonio – er hins vegar algerlega himneskt. Mér er alveg sama hvað maður er búinn að heyra þessu misþyrmt oft af misgóðum stuðsveitum, þetta er alltaf jafn best:

Sweet Home Chicago er gefið út af Vocalion í júlí árið eftir og kom þá á plötu með Walkin\’ Blues á hinni hliðinni. Og vakti svo sem enga æðislega athygli fyrren löngu síðar. Kannski ekki fyrren eftir að Junior Parker gerði fyrstu „nútíma“ útgáfuna 1958 – og setti meira swing í það. Þá voru Tommy McClennan og Walter Davis báðir búnir að reyna sig við það, 1939 og 1941, með púsli úr hinum útgáfunum líka. Svo náði Robert sjálfur flugi þegar King of the Delta Blues Singers kom út árið 1961 – en það er ekki fyrren seinni platan, King of the Delta Blues Singers II, kemur út sem Sweet Home Chicago í hans útgáfu verður almennt aðgengilegt. Það er 1970 – sem er einhvern veginn alveg ofsalega seint. Auðvitað voru gömlu 78 plöturnar til og alls kyns bootleggar í umferð – og hugsanlega (jafnvel sennilega) var lagið búið að birtast á einhverri safnplötu. En það er sama. 

Lagið er talsvert afslappaðra með Robert en það er leikið síðar – með rafmagnsgíturum, lúðrasveitum, munnhörpuleikurum, samsöngi og 25 mínútum af sólóum. Robert leikur svo ljúft á gítarinn að það er nánast einsog hann sé að spila á nælonstrengi. Falsetturöddin er kraftmikil en rembingslaus. Það eru nánast engar tiktúrur í gítarleiknum, endurtekningin er dáleiðandi og tempóið er grjóthart. Þetta er lag sem er í senn ómögulegt að leika eftir og ómögulegt að „gera nýtt“. Þreyttasta lumman í bókinni og fallegasta djásnið. Kannski er það líka einmitt vegna þess að maður er orðinn svo vanur því að heyra það flutt með bravúr og látum að manni þykir enn vænna um það svona brothætt og fínt. 

Aukaefni:









Comments


natturulogmalin.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page