TW/Spoiler alert: In Memoriam
Í gær var Vigga hent í sjóinn af handritshöfundum Verbúðarinnar. Ég veit ekki hvað það átti að fyrirstilla. Þarf alltaf að drepa Vigga? Er það kannski aldrei gert? Ég er kannski bara að verða eitthvað ofsóknarbrjálaður. Mér finnst einsog þetta sé orðin lenska. Samt man ég engin önnur dæmi. Ég hafði hann með í Einlægum Önd en ég drap hann ekki. Gekk kannski aðeins fram af honum en hann fékk að lifa.
Ég svaf mjög lítið í nótt. Sólarhringurinn allur í rugli og svo lá ég fram á nótt og las eina og hálfa bók eftir Aðalstein Emil Aðalsteinsson, sem er ekkert skyldur útgefanda sínum Aðalsteini Ásberg, en þess þá meiri frændi mágkonu minnar, Emilíu. Margt af því sem ég las var feykilega gott. Sérstaklega situr í mér smásaga um bíóklúbb eldri manns og yngri og önnur um mann sem fer að vantreysta konunni sinni af feikn og ofsa þegar hann uppgötvar að hún er búin að skipta um pin í símanum sínum (þegar hann ætlar að fara að njósna um samskiptahegðun hennar). Í nokkrum sögunum var trámanu smurt aðeins of þykkt – ég þarf svolítinn forleik áður en ég bjóða mér upp í grát. En ég skil að það sé freistandi.
Þannig var reyndar líka versta senan í Verbúðinni í gærkvöldi. Að vísu ekki mjög trámatískt tráma – þetta var svona splatter þáttarins. Einsog handamissir Sveppa í fyrsta þætti og rassfetamínneysla Ingvars E. Kannski var senan þar sem forsætisráðherra klaufast til að skera fingurinn á sér í bandsöginni ekkert vond en mér fannst samt að hún hefði verið svo ótrúlega miklu betri ef hann hefði ekki skorið sig. Einmitt af því þetta var svo óþægilegt og það var búið að leggja þetta svo harkalega upp. Svona einsog það getur verið meira drama í fótboltaleik ef Maradona mætir að galtómu marki og tekst einhvern veginn að skjóta framhjá, en að hann bara leggi boltann í mitt markið. Ég engdist samt alla senuna, hélt fyrir andlitið og stundi einsog tíu ára strákur af vanlíðan.
Það getur líka sett svo fallega spennu í alla seríuna ef hún leikur sér að því að bregðast væntingum manns annað veifið. En sem komið er hefur ekkert slíkt gerst – þetta er enn allt einsog Syd Field endurvinnsla á Bubbalagi, nema hvað mér finnst kannski yfirstéttin (stjórnmálamennirnir, skipstjórarnir og eigendurnir) sleppa frekar billega frá þessu. Á meðan verkafólkið sem hefur komist í fókus er allt meira og minna heimskir rugludallar, sem má hafa samúð með en bara sem smælingjum, eru kapítalistarnir „töff og umhyggjusamar konur í karlaheimi“, þingmaðurinn er „breyskur en með gullhjarta“ og ráðamenn á Þorbjörginni eru ... hvað eru þeir? Vinalegir lúðar? Leiksoppar? Valdsmennirnir að sunnan – bankastjórarnir – eru reyndar alveg svona klassísk illmenni. Alltaf eitthvað að gefa í skyn að konur eigi nú helst bara að baka kleinur. Og þar sem verkafólkið sem komist hefur í fókus virðist mikið til eiga að vera að sunnan einsog bankastjórarnir má kannski nú leggja þetta upp alveg öfugt við það sem var gert í fyrstu og segja að hér sé sögð sagan um vondu Reykvíkingana og góðu heimamennina sem hefðu ekki getað gert neitt á annan veg. Eru bara að reyna að bjarga sér og sínum. Kannski á eftir að snúa upp á þetta allt saman og gera yfirstéttina svolítið sósíópatískari – það er svona fremur líklegt, myndi ég halda. Eftir því sem þau verða ríkari fjarlægjast þau uppruna sinn. Ég veit ekki hvort það er í takti við raunveruleikann en það er í takti við það hvernig maður segir svona sögu.
Annars hef ég ekki skilið kröggur bæjarins ennþá. Þetta er pínulítið þorp með aflahæsta skuttogarann á landinu sem virðist fram til þessa hvergi hafa landað annars staðar. Ég átta mig ekki alveg á því hverju þarf að bjarga. Einsog saga 9. áratugarins blasir við mér þá var allt morandi í peningum í vestfirskum sjávarplássum á þessum tíma – a.m.k. þar sem var góður togari og útgerð. Pabbi minn var á svona togara (Guðbjarti ÍS) og við létum ekki óðaverðbólgu eða neitt annað stoppa okkur í því að fara í frí til Mallorca þetta sumar.
En þetta er áfram skemmtilegt. Sögur eru alltaf einhver afskræming á sannleikanum og það er kannski bara ágætt – hluti af endurmati á fortíðinni að skella upp varíöntum. Ég velti því í sjálfu sér alveg fyrir mér hvað það þýðir að gera svona, verk sem er líklegt til þess að verða íkonískt – verða hluti af skilningi mjög margra á tilteknum aðstæðum og tímabili. Verk sem gæti orðið ráðandi ímynd. Sögulegur skáldskapur er alltaf í ákveðinni klemmu gagnvart þessu, en mér finnst einsog það sé nýtilkomið að yppta bara öxlum og segja „þetta er nú einu sinni bara skemmtun“. Sem hangir kannski saman við það sem var að tala um hér í þarsíðustu færslu, að list væri alltaf „bara skemmtun“.
Á tíunda áratugnum (þegar ég var í menntaskóla og „heilindi“ – keeping it real, að vera ekki sellát – voru í aðalhlutverki í hugskoti ungs fólks einsog „meðvitund“ – woke – er það núna) man ég eftir heilmikilli umræðu um afbökun Disney og annarra á alls konar sagnaklassík – Mjallhvíti og því öllu saman, en líka sögum einsog Pocahontas, sem höfðu verið sagðar nógu mörgum sinnum til að vera ævintýri út af fyrir sig, en voru líka sögur af raunverulegu fólki af holdi og blóði (sem voru hugsanlega alls ekkert ævintýralegar). Þá var margbent á að auðvitað höfðu öll þessi ævintýri og klassíkerar verið margafskræmd og hver kynslóð átti nánast sína eigin útgáfu. Sem þýddi ekki að breytingarnar væru aldrei problematískar. Það þýddi bara að það væri ekki til nein „sönn“ útgáfa. Sögurnar væru þjóðsögur, ævintýri, í takmörkuðum tengslum við uppruna sinn eða sögulegar heimildir. Í dag eru það reyndar ekki bara þjóðsögur sem flakka – heldur eru t.d. skáldsögur endursagðar fyrir kvikmyndir og leiksvið, lög sem eru útsett upp á nýtt o.s.frv.
Nú ímynda ég mér reyndar að það séu ýmsar sögur sem fólki þykir nógu vænt um til að reiðast breytingum á þeim – kvenendurgerðin á Ghostbusters fyrir nokkrum árum er kannski eitt þannig dæmi. Star Wars er (að ég held) ævintýraheimur sem á að vera nokkuð stabíll og því væri kannski illa tekið ef myndirnar yrðu endurgerðar og sögunni breytt. En á móti kemur að í Marvelheiminum er búið að snúa svo mikið upp á sögurnar að sjálfir snúningarnir eru farnir að vera í aðalhlutverki – t.d. í Spiderman - No Way Home og Spiderman: Into the Spiderverse.
En sem sagt. Kannski erum við sáttari við listræna afbökun á raunveruleikanum – að keyrt sé niður einstefnugötu í vitlausa átt af því það hentar sögunni, Ís-colaflaskan sé í ramma áður en hún var sögulega búin til einfaldlega af því hún skítlúkkar í settinu – en við erum við listræna afbökun á öðrum listaverkum. Mig rámar til dæmis í mikið fjör í kringum það þegar Tom Cruise var ráðinn til að leika Jack Reacher – sem í bókunum á að vera rúmlega tveir metrar á hæð, kjötfjall með ógurlega handleggi, og þess utan áberandi ómyndarlegur. Dan Brown fékk líka margar gusur yfir sig vegna The Lost Symbol, einmitt vegna þess að þar er fólk alltaf að keyra norður götur sem ganga austur-vestur og þar fram eftir götunum. En bæði þessi dæmi eru nú sennilega ríflega áratugsgömul, vel að merkja. Þá virðist reyndar líka oft lagt meira upp úr því í sögulegum sjónvarpsseríum að leikarar líkist persónunum sem þeir eiga að vera að leika – bæði í gervi og atgervi – en að handritið fylgi dokumenteruðum staðreyndum (eða breytingar séu rökstuddar með öðru en hafa skuli það sem skemmtilegra reynist).
Recent Posts
See AllÉg hafði séð fyrir mér að lesa kannski svona 100 síður af Gravity's Rainbow í dag. Ég er búinn með 17 og finnst einsog ég hafi lesið...
Leikurinn endaði 3-1 fyrir óheppni minni. Fluginu í gær var aflýst. Ég fékk samt fría gistingu á gömlu loftleiðum og kvöldmat og tók því...
Comments