top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg

Tæland

Rúmlega vika eftir af Tælandsdvölinni. Hvað þarf að færa til bókar?


  1. Miðnæturmaraþonið – sem var 10 kílómetrar hjá mér og ekki meira en 21 hjá neinum – var feykilega skemmtilegt. Ég veit að mörgum finnst hræðilegt að hlaupa og það er stundum hræðilegt að hlaupa – best er auðvitað að sitja, það vita allir – en þetta var samt skemmtilegt. Ég hef aldrei tekið þátt í svona íþróttaviðburði og hef ekki fengið medalíu frá því ég var 10 ára og fékk silfurverðlaun í dorgveiðikeppni fyrir að veiða minnsta fiskinn (fyrstu verðlaun voru fyrir stærsta og þriðju fyrir flesta). Þar á undan fékk ég að vísu bronsverðlaun í 60 metra hlaupi 6-7 ára drengja. Og nú á ég þrjár medalíur. Mig langar helst að ganga með þá nýjustu öllum stundum og alltaf vera í Bangkok Midnight Marathon bolnum mínum.


  2. Einsog gefur að skilja hef ég fengið mikið af góðum mat. Ég er þó ekki jafn yfirgengilega hrifinn og ég var af matnum í Víetnam. Kannski hef ég ekki ratað á réttu staðina. Maturinn er víðast hvar góður – bara ekki jafn frábær jafn víða og ég hafði reiknað með. En væntingarnar voru auðvitað í botni svo ég get sjálfum mér um kennt.


  3. Ég hef lesið svolítið. Kláraði Gravity's Rainbow, sem var átak – hún er stundum mjög skemmtileg og stundum mjög leiðinleg. Las líka Njálu – hún var alltaf skemmtileg og miklu skemmtilegri en ég hafði reiknað með, kannski skemmtilegasta Íslandssagan. Báðar voru þær hluti af átaki sem gekk út á að lesa í ár 12 af þeim bókum sem mér fannst að ég ætti að hafa lesið en hafði ekki lesið (hinar tíu voru Ulysses, Infinite Jest, Dalalíf, Karitas án titils, Stríð og friður, Mrs. Dalloway, árstíðafjórleikur Ali Smith (tæknilega fjórar bækur), Money eftir Martin Amis, Jane Eyre og House of Leaves). Ulysses ætla ég svo að lesa aftur fljótlega og fara í ferð á Bloomslóðir og Dedalusar- til Dyflinnar í vor með tveimur vinum mínum.


    Ég las líka Orbital eftir Samönthu Harvey sem mér skilst að skipti fólki í fylkingar. Pólaríseri. Ég var frekar hrifinn af henni. Hún minnti mig á ferðalag sem ég fór í einu sinni til Parísar með vini mínum þar sem við eyddum viku í að sitja úti í glugga í íbúðinni sem við höfðum fengið lánaða, reykja sígarettur, drekka svart kaffi, maula bagettur og drekka rauðvín. Nautnina af hinu fyrirsjáanlega. Nautnina af augnablikinu. Nautnina af því að það gerist ekkert og maður þurfi ekki á því að halda. Nautnina af því að veröldin bara malli. En mér finnst ekkert skrítið að margir meiki hana ekki – það er ekkert dópamínkikk í henni, hún einhvern veginn bara er.


    Aðfangadagsbókin mín var Friðsemd eftir Brynju Hjálmsdóttur. Sem er svolítið einsog ef Douglas Adams hefði skrifað The Crying of Lot 49. Algert æði. Fyndin og rugluð og falleg og fullkomlega laus við að taka sig alvarlega. Ég bókstaflega sporðrenndi henni – og held hún verði mjög eftirminnileg, einhvern veginn engu lík.


    Nú er ég að lesa Memories of the Memories of the Black Rose Cat eftir Veeraporn Nitiprapha. Tælenskt töfraraunsæi hefur auðvitað annan blæ en suður amerískt en byggingin er samt kunnugleg – ættarsaga, 3-4 kynslóðir, ástir og ævintýri, stríð og sorgir. Ég er ekki frá því að ég sé hrifinn af þessu. Mig hefur líka langað að fara að endurlesa 100 ára einsemd í dálítinn tíma – ætli það komi ekki að því á nýja árinu. En það breytir líka öllu í kringum mig – hérinu nú, núinu hér – að lesa tælenska skáldsögu – og breytir miklu fyrir mig að hún sé alvöru tælensk en ekki eitthvað vestrænt eat-love-pray-sull eða bók eftir þriðju kynslóðar expat í Kaliforníu/London/Marseille sem er alinn upp á sögum ömmu sinnar og fetisjerar sjálfan sig í gegnum hálf-ímyndaða útgáfu af gamla landinu, einsog er raunin um mikið af „asískum“ eða „afrískum“ bókum og ég er farinn að hafa fjarska litla þolinmæði fyrir. Nitiprapha er verðlaunaður metsöluhöfundur sem býr hér og skrifar á tælensku – það er samhengi sem skiptir máli í heimi þar sem allt er að renna saman, öll hugsun að verða eins. Og einsog í öllum svona ættarsögum – eða vel flestum – liggur mikil saga undir og maður lærir hér mikið um Tæland á 20. öldinni.

  4. Þetta eru þrír staðir sem við höfum dvalið á hingað til og verða líklega ekki fleiri. Bangkok er ógurleg stórborg og eiginlega margir staðir og maður nær líklega aldrei að sjá nema brot af þeim. Við erum í Sukhumvit sem er einhvers konar miðbær. Umkringd verslunarmiðstöðvum á alla kanta. Hér eru djammgötur og götur þar sem nuddstofurnar eru augljóslega ekki bara nuddstofur og aðrar götur þar sem nuddstofurnar eru greinilega fyrst og fremst nuddstofur. Hér eru krár og veitingastaðir – bæði vestrænir og tælenskir og annars lags. Það eru aldrei meira en 20 metrar í næstu kannabisverslun og aldrei meira en 5 metrar í næsta Seven-Eleven. Samt er túristamettunin alls ekki svo mikil – það er miklu túristaþéttara í miðbæ Reykjavíkur en hér.


    Ayutthaya var ég eitthvað búinn að tala um. Musteri og dýralíf og það var mikil hátíð þegar við vorum í bænum – aðalgarðurinn fullur af bleikum fílum og sölubásum með djúpsteikt skordýr. Mikil túristaborg en langstærstur hluti túristanna asíubúar og sennilega flestir tælendingar. Mikið af fólki í sparifötum – einstaka í cosplay-búning – að láta mynda sig við musterisrústirnar.


    Koh Phayam er lítil eyja. Varla nema 6-7 kílómetrar að lengd og kannski 3 á breidd. Við vorum á strönd sem var kannski ekki afskekkt – enda varla hægt – en við skulum segja afsíðis. Þar voru samt nokkrir gististaðir og allir með sinn eigin veitingastað og auk þess barinn Hippie Bar, sem er eins konar risavaxinn trékofi sem byggingarreglugerðir hefðu bannað hvar sem er annars staðar. Þar eru börn bönnuð eftir klukkan 14 á daginn. Koh Phayam virðist vera talsverð djammeyja – og hér eru túristarnir svo til allir hvítir – en okkar afsíðis strönd var róleg og næs (Hippie Bar var á hinum enda strandarinnar og þar var að vísu dálítil dúnka-dúnka músík á jóladagskvöld þegar „DJ Svensson Technotronic“ lék lausum hala). Snorklið var frekar lélegt en það var gaman að sigla í kringum eyjuna – ég núvitundaði mig í botn, ber að ofan liggjandi á þilfarinu, starandi út í ljósbláan alheiminn meðan sjórinn gekk yfir bátinn. Börnin léku sér talsvert á alls konar brimbrettum á stóru ströndinni hinumegin á eyjunni. Annars var þetta mest afslöppun (og ákveðið frí í því að netið var lélegt og 4G notkun kostar morðfjár).


  5. Jólin. Við héldum þau. Á Heaven Beach. Ég pantaði mér kjúkling og franskar. Svo fórum við í kofann okkar til að opna gjafir. Ég fékk stefnumót við klæðskera (ég fer í fyrramálið), frumsamið ljóð, penna sem er merktur „elsku pabbi“, spa-heimsókn með Nödju og tælenskan stuttermabol. Við krakkarnir gáfum Nödju nýjan kindil í stað þess sem glataðist, ég gaf henni fallegt hálsmen, Aram fékk miða á Green Day og Weezer í Stokkhólmi í sumar og Aino fékk ýmislegt smálegt og dekurdag með mömmu sinni í Bangkok. Í dag átum við svo jólaskinku sem Nadja og pabbi hennar keyptu í IKEA – og graflax og hofmeistarasósu og allar græjur.


Ég er ábyggilega að gleyma einhverju sem ég ætlaði að nótera hjá mér. Það kemur þá vonandi bara með næst.

Recent Posts

See All

Niðurtalning

Ef allt fer að óskum kemur ljóðabókin mín út í mars. Hún átti einu sinni að heita mjög ljóðrænum titli en á endanum ákvað ég að láta...

Samhengislítill næturvaðall

Klukkan er að verða sex. Ég hef verið vakandi frá þrjú. Aldrei þessu vant ekki vegna þess að ég sé andvaka heldur vegna þess að ég er að...

Kommentit


natturulogmalin.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page