Tónleikar og tómleikar og tilfinningar
Blúsbloggið vendir kvæði sínu í kross – sem er reyndar mikið tekið stílbragð í blús – og lætur blússöguna vera í dag og er þess í stað á persónulegu nótunum. En það er reyndar líka mikið tekið stílbragð í blús.
Þannig er mál með vexti að blúsbloggarinn ætlar að spila á tónleikum seint í júlímánuði. Ég – því það er ég sem er blúsbloggarinn, ég sem er fyrstupersónumaðurinn og þriðjupersónumaðurinn – hef ekki spilað á „alvöru“ tónleikum síðan ég tók tvö lög með Hallvarði Ásgeirssyni á minningartónleikum um Johnny Cash í Þjóðleikhúskjallaranum 2003. Og eiginlega eru það einu tónleikarnir sem ég hef sungið á um ævina og ég söng bara annað lagið. Á þessum tónleikum, sem verða haldnir í litlu rými á stór-Ísafjarðarsvæðinu, mun ég að öllum líkindum leika 4-5 lög sjálfur og svo tvo dúetta með Skúla mennska frænda mínum sem svo tekur við með 4-5 lög til viðbótar. Eða kannski tek ég 4-5, svo hann 4-5 og svo við 2-3 saman. Þetta hefur ekki verið rætt. Dúettarnir er eitt mál en mér er farið að vaxa mjög í augum að standa einn á sviði (sem er að vísu ekkert svið, bara horn í bókabúð).
Reyndar, þegar ég skrifa þetta, sé ég að þetta á ekki að vera neitt mál. Ég þarf bara að anda með nefinu. Þegar ég bað Skúla um ráð við stressi stakk hann upp á reglulegri hreyfingu og fjallgöngum. Þegar ég spurði hvort Muddy Waters hefði stundað fjallgöngur gaf hann mjög sterkt í skyn að Muddy hefði hugsanlega notið aðstoðar fíkniefna. Ekki veit ég hvað Howlin\’ Wolf gerði – sennilega naut hann sín bara á sviðinu, því annars var hann mikill taugaveiklunarsjúklingur og var meðal annars sendur heim úr hernum í stríðinu vegna viðstöðulítilla hysteríukasta. Sennilega þættu honum áhyggjur mínar hlægilegar. En ég er að hugsa um að taka þetta til mín með göngutúrana.
Í grunninn er þetta blanda af einhverjum mótsagnakenndum tilfinningum. Ég er afslappaður vegna þess að ég finn ekki til neinnar þarfar til að vera tónlistarmaður og þarf þess vegna ekki að sanna mig neitt. Hins vegar ber ég auðvitað ábyrgð á því að vera ekki að kalla til fólk til að hlusta á mig ef ég er ekki æfður og a.m.k. bærilega spilandi. Ég þarf ekki að sigra heiminn en mig langar ekki að gera mig að fífli. Og svo er ég stressaður því einu sinni ætlaði ég að verða tónlistarmaður og sá 15 ára strákur er ennþá í mér einhvers staðar – þessum nærri 42 ára gamla manni sem er sennilega að þessu í einhverju súrrandi midlife-crisis.
Ég veit líka að sjálfsmat manns er alltaf einhvers konar undarlegur bræðingur á ofmati og vanmati. Og fyrst og fremst treysti ég því kannski bara ekki neitt að ég sé dómbær á það sjálfur hvort ég eigi erindi upp á svið (eða s.s. út í horn). En ég hef líka haft sterkan tendens til þess að eltast við það sem mér finnst óþægilegt, alveg frá því ég var krakki – ég réð mig t.d. upprunalega á sambýli upp úr tvítugu vegna þess að mér fannst óþægilegt að umgangast mikið fatlað fólk og ég vissi að ég vildi ekki fara í gegnum lífið þannig. Ekki að það sé sambærilegt annars – það þarf enginn að geta spilað tónlist til að vera ekki dikk.
Og það verður eiginlega bara að hafa það ef þetta reynist ekki mönnum bjóðandi.
Ég gekk í tónlistarskóla í sennilega 7-8 ár. Ég er ekki alveg viss. Ég byrjaði tíu ára og hætti einhvern tíma á menntaskólaárunum. Og á tónlistarskólaárunum þurfti maður að fara upp á svið tvisvar á ári og spila. Oftast spilaði ég reyndar með einhverjum öðrum og síðan á menntaskólaárunum lék ég í nokkrum hljómsveitum sem áttu það sameiginlegt að æfa meira og minna aldrei og búa mest bara til hávaða. Og svo hætti ég bara við að verða tónlistarmaður (mig minnir að ég hafi bara horfst í augu við að ég hefði ekki næga hæfileika – styrkleikar mínir væru annars staðar – en í því er líka einhver sorg). Í nokkur ár eftir menntaskóla dró ég með mér kassagítar allt sem ég fór, bara til að glamra, og notaði hann meira að segja nokkrum sinnum til að eiga fyrir mat þegar ég bjó í Berlín – spilaði á neðanjarðarlestarstöðvum, aðallega frumsamið efni sem er meira og minna löngu gleymt (fyrir utan þetta). En þá var ég löngu byrjaður að skrifa af alvöru og gítarinn var meira bara einsog að eiga síma í dag – eitthvað til að hafa í höndunum þegar manni leiddist (þegar maður var ekki að safna fyrir kebab og kindl).
Fyrir fjórum árum keypti ég mér svo aftur alvöru gítar (Héðinn, ódýri Yamaha-gítarinn minn sem ég hef alltaf átt, hefur mikið tilfinningalegt gildi en eiginlega ekkert annars). Það var Epiphone SG. Og fyrir tveimur árum fékk ég Gibson SG í afmælisgjöf frá Nödju og þá keypti ég mér líka alvöru magnara og síðan hefur gítörunum fjölgað nokkuð – ég smíðaði tvo rafmagnsgítara, seldi Epiphoninn fyrir Telecaster sem ég seldi síðan fyrir Stratocaster, keypti mér ódýran parlour gítar sem ég skildi eftir í Hondúras og keypti svo aðeins fínni (en alls ekki dýran) Alvarez Delta parlour gítar. Það er með honum sem ég syng mest og það var þegar ég kom til Hondúras sem ég ákvað að fara að gera eitthvað í því að ég gæti ekki (get ekki) sungið. Því maður á að geta lært allt, eða þannig. Í vetur eignaðist ég síðan líka Harley Benton resonator-gítar (það sem margir kalla dobro).
Svo gerist það í vetur að Eyþór Jóvinsson, eigandi gömlu bókabúðarinnar á Flateyri, kemur að máli við mig og spyr hvort ég sé ekki til í eitthvað „sprell“ í búðinni í sumar. Hann ætli að vera með talsverða dagskrá. Ég segi auðvitað jújú, nýbúinn að gefa út bók, og alltaf til í sprell. Þegar hann hefur svo samband við aftur mig í byrjun mánaðarins til að útfæra þetta nánar finnst mér alltof langt síðan bókin kom út og einhvern veginn egósentrískt eða skrítið að fara að kalla fólk út á upplestur – bara á mig í dagskrá sem þarf að taka hátt í klukkustund. Það nennir enginn að hlusta á einn höfund lesa í meira en fimmtán mínútur og undantekning ef slík uppákoma er ekki misheppnuð. Svo ég þarf að láta mér detta eitthvað skemmtilegra í hug. Og af því ég er að fara að flytja hafði ég engan tíma til þess að setja upp neina dagskrá heldur – gera eitthvað nýtt frá grunni – og það hefði ekki nýst mér annars staðar heldur af sömu sökum. Og þá bara datt ég niður á þessa uppástungu – ég kann nokkur lög, fæ Skúla frænda með mér, og þá erum við með dagskrá sem hvorki of stutt né grútleiðinleg. Sem bæði Skúli og Eyþór tóku vel í og þá er ég bara fastur. Það er talsverð huggun í að hafa Skúla með sér – við spiluðum fullt saman í gamla daga, erum góðir vinir og hann hefur bæði róandi nærveru og mikinn reynslubrunn að miðla úr. Svo er líka bara alltaf gott að hafa makker. Á móti kemur að samanburðurinn er mér aldrei í hag – en það er svo sem enginn að búast við því heldur.
Mikill tími hefur farið í það hingað til að reyna að ákveða hvaða lög ég vil taka. Ég kann nokkur lög en man texta illa (þarf að laga það) og vegna þess að ég er vanur að spila bara heima í stofu er nánast inngróið í mig að byrja bara aftur ef ég geri mistök – sem er auðvitað alveg bannað á tónleikum, þá heldur maður bara áfram, finnur aftur leiðina inn í lagið. Í möppunni minni eru kannski 30 lög. Sum þeirra syng ég nokkuð verr en ég syng önnur og þau afskrifast þess vegna. T.d. Dead Shrimp Blues. Það er alltílagi að ég rauli þau heima áfram en þau eiga ekki erindi við aðra. Önnur hefur mér bara aldrei tekist að spila almennilega í gegn með söng og spili – t.d. Last Kind Words eftir Geeshie Wiley. Enn önnur hef ég bara nánast ekkert æft – þau bara enduðu í möppunni af því þau voru á dagskrá, einsog Lasse Liten Blues eftir Cornelis Vreeswijk. Og svo þykir mér misvænt um þau.
Á endanum tókst mér að stytta listann yfir lögin sem mig langar að spila einn niður í (dúettana ákveðum við Skúli í sameiningu):
Walking Blues – eftir Son House (en eiginlega Robert Johnson lag – útgáfan mín er hræringur) Statesboro Blues – Blind Willie McTell Soul of a Man – Blind Willie Johnson Death Letter – Son House Hard Time Killing Floor Blues – Skip James How Long How Long Blues – Leroy Carr / Scrapper Blackwell St. James Infirmary – óþekktur höfundur en mín útgáfa minnir mest á mikið einfaldaða útgáfu af útsetningu Josh White (ég strömma – hann er með geggjað spilerí en líka band á bakvið sig til að halda þessu saman).
Þetta eru ekki fjögur lög samt og jafnvel þótt ég kæmist upp með fimm eru þau heldur ekki fimm. Heldur sjö. Sennilega dettur Death Letter út næst. Og svo Hard Time Killing Floor Blues. En ég veit það ekki, þetta rokkar til og frá. St. James Infirmary er auðveldast að spila – það þekkja það líka flestir. En þar með er það líka mesta „trúbadoralagið“ – sem er ekki galli við réttar aðstæður en á kannski ekki heima á „tónleikum“. Walking Blues kann ég best. Mér var hælt fyrir að syngja Soul of a Man. Mér finnst gaman að syngja Statesboro Blues og gaman að spila How Long How Long Blues. En bæði eru krefjandi. Hard Time Killing Floor Blues er eitthvert fallegasta lag sem ég veit og ég kemst alveg í gegnum það en það er bara ekki jafn fallegt og það getur orðið og því kannski alltaf vonbrigði. Mér finnst Death Letter geggjað og mér finnst ég alveg komast upp með að spila það en það er mjög sloppí gamaldags delta-blús pönk og ég veit ekki hvort fólk hefur smekk fyrir því – og það er hætt við að maður virki klaufalega þegar maður spilar það einmitt af því það er sloppí. Þar kemur hégóminn inn í. Þið eruð kannski tveir-þriðju vatn en ég er tveir-þriðju hégómi.
Commenti