Razors Edge
Þetta eru nokkrir dyggir félagar í Norður Kóreska landhernum. Fáir dátar eru jafn agaðir eða búa yfir jafn tígulegri og fágaðri göngutækni. Margir þeirra eru vel að merkja ekki þeir heldur þær. Þau, þeir, þær handleika líka talsverðan sprengikraft, einsog sjá má á myndinni.
***
Þetta er hins vegar tasmaníudjöfullinn. Hann er óagaður og býr yfir litlum þokka (en dálitlum sjarma samt) – hann er miklu nær því að vera einhvers konar náttúruafl. Það er hægt að nota hann sem vopn – einsog hermennina hér að ofan – en það er ekki hægt að ætlast til þess að hann þrammi í takt.
***
Angus Young er í senn norður kóreskur hermaður og tasmaníudjöfull. Hann er fær um brjálæðislega agaðan og teknískt fullkominn gítarleik – en stundum er honum einfaldlega sigað á tónlistina með ekkert nema botnlaust kaosið sér til handargagns. Lykilriffið í Thunderstruck, opnunarlagi Razors Edge, er dæmi um hið fyrrnefnda. Þar má segja að hann krosspikki á einum streng (sem er mótsögn, vel að merkja) af dæmalausri fingrafimi. Hann plokkar hverja nótu – engin pull-off og engin hammer-ons. Laglínan er eitt af mörgum dæmum um kántríáhrif í lagasmíðum sveitarinnar. Undir þessu leikur Malcolm bróðir hans einhvern fallegasta einshljómsrytma frá því Bo Diddley samdi lagið um sjálfan sig um árið.
***
Það er ótrúlega gaman að horfa bara á þá hreyfa sig. Malcolm dúar allur, Cliff púlsar, Angus snýst í hringi og þýtur um einsog það sé kviknað í honum og Brian belgir sig á meðan hinn nýráðni Chris Slade hamrar trommurnar af miklum móð. Þegar lagið er búið er Cliff líka alveg móður. Það eru fáar sveitir sem jafn rækilega breytast í tónlistina sem hún spilar – renna saman við hana.
***
Chris trommar reyndar aftur fyrir hljómsveitina í dag – tók við af fyllibyttunni og dópistanum Phil Rudd þegar hann í annað sinn lagði líf sitt í rúst í hittifyrra. Og Chris er ekkert síðri en Phil (annað en Simon Wright sem spilaði megnið af níunda áratugnum og gat ekki trommað rokk frekar en Mathías Hemstock, einsog þeir eru nú ágætir í annað).
***
Razors Edge er augljóst kombakk fyrir sveitina sem hefur ekki haldið tempói – ekki náð að kjarna sig sem skyldi – frá Back in Black. Líkt og fyrir Back in Black hefur hér orðið stór breyting í söngmálum – þótt ekki hafi verið skipt um söngvara er þetta í annað sinn í sögu sveitarinnar sem skipt er um textahöfund. Fyrst tók Brian auðvitað við af Bon en hér taka bræðurnir við af Brian – sem er hreinlega settur af. Þetta kom bæði til af því að hann er ekki góður textasmiður, oft hreinlega mjög vandræðalega lélegur, en líka af því Brian stóð í miðjum skilnaði – og raunar fær maður á tilfinninguna að sá skilnaður sé kjarninn í textanum við Moneytalks.
The claim is on you The sights are on me So what do you do That’s guaranteed Hey little girl, you want it all The furs, the diamonds, the painting on the wall Come on, come on, love me for the money Come on, come on, listen to the moneytalk
***
Hann kærði sig víst heldur ekkert um að taka aftur við textakeflinu. Sagðist guðs lifandi feginn að vera hættur að þurfa að gera sig að fífli.
***
Hvað sem því líður er áhugavert að veita því athygli að líkt og Back in Black hefst á vísun í þrumuveðrið – „I’m rolling thunder, pouring rain/ I’m coming on like a hurricane“ – sem myndlíking fyrir endurfæðinguna, rafurmagnið sem blæs þrótti í þennan Frankenstein riðstraums og jafnstraums, sjálfan lífgjafann – þá byrjar Thunderstruck (augljóslega) á sama máta, þar sem þruman er ákölluð í taktföstum og þungum regndansi. Thunder! Thunder!
***
Það er líka áhugavert að harðgiftu gítarleikararnir Young & Young – sem nú eru þess utan báðir skrjáfaþurrir, eftir að Malcolm kom úr meðferð – semja eiginlega bara texta um fyllerí og uppáferðir. Sem er sennilega það sem áheyrendur þeirra vildu heyra.
***
Angus er ekki alltaf besti sólógítarleikarinn – sólóin á plötunum er flest kompóneruð en hann eltir þau aldrei nema að hluta á tónleikum, sleppir sér frekar lausum og gerir … bara eitthvað, sýnist mér. Það er ekkert orð sem lýsir þessu betur en dýrslegt, eins klisjulegt og það nú er (sérstaklega þegar ég er búinn að segja það svona tuttugu sinnum). En auðvitað fer þetta líka eftir því hvað maður kallar „besti“ – hvað er best. Það er enginn gítarleikari, fyrr eða síðar, sem hefur spilað af jafn miklum sprengikrafti – og það eru fáir sem hitta mig jafn rækilega í hjartastað. Eða þú veist, hittir mig í loðinn og ljótan punginn. Hér er eitt besta dæmið af Razors Edge (allra, allra bestu dæmin eru samt af live upptökum frá áttunda áratugnum – nánast hverri sem er – og sólóið í titillaginu er líka helsturlað, það er hér aðeins neðar).
***
There’s fightin’ on the left And marching on the right Don’t look up in the sky You’re gonna die of fright Here comes the razor’s edge You’re livin’ on the edge Don’t know wrong from right They’re breathin’ down you’re neck You’re runnin’ out of lives Here comes the razor’s edge
***
Razors Edge er einn af bestu textum AC/DC frá upphafi – sem er ekki lítið sagt, því þótt Brian hafi ekki samið góðan texta í heilan áratug þegar hér er komið sögu þá er Back in Black mikið ljóðverk og sjöundi áratugurinn með Bon í fararbroddi náttúrulega dásemd. En það er eitthvað við þessa myndlíkingu hér – um rakvélarblaðið sem ég sé fyrir mér að maður eigi von á af himnum ofan, einsog guð ætli að sléttraka jarðkringluna. Lagið er líka með einhverjum austrænum áhrifum – það er talsvert mikið af svona smá snerti af hinu og þessu í lögum AC/DC, eiginlega alveg frá upphafi (t.d. sekkjapípurnar í It’s a Long Way to the Top) og verður meira á næstu plötum – köntrí, búgí, blús og rokk segir sig sjálft, en lírukassamúsík, þjóðlög og alls kyns heimstónlist koma meira á óvart.
***
„Versti“ texti plötunnar kemur svo strax á eftir Razors Edge, einsog til að kolefnisjafna ljóðrænuna í Razors Edge (þeim finnst ekkert mjög auðvelt að taka sig alvarlega). Lagið Mistress for Christmas fjallar um núverandi forseta Bandaríkjanna og kvensemi hans. Í einhverjum skilningi er hann auðvitað alveg frábær, og lýsandi fyrir Donald, en líður líka fyrir hvað lagið sjálft er mikið jingle.
I like female form, in minimum dress Money to spend with a capital “S” Get a date with the woman in red Wanna be in heaven with three in a bed He got it, I want it They got it, I can’t have it But I want it, but it don’t matter She got it and I can’t get it I want a mistress for Christmas
***
Við fyrstu hlustun þótti mér sem seinni hluti plötunnar – b-hliðin – væri of latur, lögin hefðu mætt afgangi. En eftir því sem að ég rifjaði hann betur upp því betri finnst mér hann. Are You Ready, auðvitað, Got You By the Balls, Good Bye and Good Riddance to Bad Luck – þetta eru allt massalög þótt þau séu ekki Thunderstruck eða Razors Edge. Og boðar helvíti gott fyrir gjöfulan tíunda áratuginn.
***
Og svo er hún kláruð á þessum strangheiðarlega blússrokkslagara – þetta gæti verið Mugisonlag.
Recent Posts
See AllRock or Bust er að mörgu leyti óvitlaus plata. Glúrinn, jafnvel. En hún er líka dálítið mistæk. Fyrstu tvö lögin eru gríðarsterk –...
Black Ice kom út árið 2008 og fékk blíðar móttökur víðast hvar – sumir sögðu hana aðeins of langa (hún er lengsta plata AC/DC) en flestir...
Besta hægrihöndin í bransanum, sögðu krakkarnir í Stereophonics á Twitter í dag. Malcolm Young, sem dó í dag, var oft kallaður hjartað í...
Comments