Who made Who
Who made Who er náttúrulega ekki nein venjuleg breiðskífa – heldur að hálfu leyti best-of, 20% instrumental, 20% endurreisn tveggja laga af hinni misheppnuðu Fly on the Wall og svo titillagið, Who made Who – sem vill til að er besta lag sveitarinnar í 2,9 plötur, frá fyrsta lagi For Those About to Rock (en slær þó ekki út nema eitt og eitt lag af þeim sem AC/DC gaf út fyrir þann tíma).
***
Platan var gefin út sem soundtrack fyrir bíómyndina Maximum Overdrive sem Stephen King skrifaði og leikstýrði sjálfur – gersamlega útúrkókaður. Ég hef ekki séð myndina og King kallar hana sjálfur „moron movie“ en hann sem sagt hélt og heldur sennilega enn mikið upp á AC/DC (sennilega verið of kókaður til að heyra mikið hvað var að gerast á þessu niðurlægjandi tímabili í ferli sveitarinnar). Myndin er einhvers konar sci-fi dystópía þar sem alls konar tæki lifna við í kjölfar þess að einhver halastjarna fer of nálægt jörðinni (eða álíka, söguþráðurinn er svo mikil steypa að mér sortnaði fyrir augum þegar ég reyndi að lesa hann).
***
En platan þá. Mér heyrist vera búið að poppa svolítið upp mixið á Hells Bells og For Those About to Rock en ég myndi ekki hengja mig upp á það. You Shook Me All Night Long var alltaf poppað. Ride On er eina lagið hérna sem Bon Scott syngur. Sennilega þurfti kontrast fyrir myndina og þetta er eini kontrastinn, sirkabát, sem AC/DC eiga í handraðanum.
***
Gítarlögin tvö – D.T. og Chase the Ace eru bæði príma, enda leysir það ansi mörg vandamál hjá bandinu að þurfa ekki að eltast við söngmelódíur og þess lags hégóma. Sérstaklega er Chase the Ace flott – rosalegt gítarsóló. Hér að neðan má líka sjá brot úr bíómyndinni.
***
***
Lögin tvö af Fly on the Wall – Nervous Shakedown og Sink the Pink – eru skömminni skárri í rímixinu. En ég veit ekki hvort það er eitthvað meira. Sennilega er Sink the Pink alltílagi lag og Nervous Shakedown undir meðallagi.
***
Í titillaginu byrjar svo að móta fyrir gítarstefinu fræga í Thunderstruck. Angus er svolítið gjarn á að endurtaka sig og fullkomna það smám saman – þannig mótar líka fyrir For Those About to Rock stefinu í Shoot to Thrill, einsog ég nefndi áður. Þetta er ekki endilega spurning um sömu nótur heldur svipaða tækni og stemningu. Lagið er annars einsog ég segi mjög fínt, þótt þeir megi fara að hrista af sér eitísið sem fór þeim aldrei vel, og textinn aldrei þessu vant ekki vandræðalegur.
who made who, who made you who made who ain’t nobody told you who made who, who made you if you made them and they made you who pick up the bill and who made who
Og myndbandið er frábært (Stephen King leikstýrði því ekki).
***
Recent Posts
See AllRock or Bust er að mörgu leyti óvitlaus plata. Glúrinn, jafnvel. En hún er líka dálítið mistæk. Fyrstu tvö lögin eru gríðarsterk –...
Black Ice kom út árið 2008 og fékk blíðar móttökur víðast hvar – sumir sögðu hana aðeins of langa (hún er lengsta plata AC/DC) en flestir...
Besta hægrihöndin í bransanum, sögðu krakkarnir í Stereophonics á Twitter í dag. Malcolm Young, sem dó í dag, var oft kallaður hjartað í...
Comments