top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg

Flick of the Switch

Highway to Hell, Back in Black og For Those About to Rock eru allt mjög grand plötur með stóru sándi og miklu flugeldum. Eða réttara sagt miklum fallbyssuskotum og þungbærum bjölluhljómi. Þetta eru þær þrjár plötur sem Mutt Lange pródúseraði og eftir þær þrjár voru AC/DC komnir með nóg. Þá langaði ekki að dútla sér í stúdíói mánuðum saman. Þá langaði að gera eitthvað beisik. Og pródúseruðu Flick of the Switch því sjálfir.

Þegar ég var í menntaskóla keypti Teddi vinur minn sér Camaro Trans Am (leiðrétt). Ísfirskir unglingar áttu (margir, ekki allir) alltaf fáránlega mikla peninga – það var næg vinna, við bjuggum hjá foreldrum okkar, og Teddi var alltof reglusamur til að drekka þá alla einsog við hinir (ég átti bara Mitsubishi Colt). CamaroTransAminn drakk samt dálítið mikið af peningunum hans. Nema hvað – þegar maður fór á rúntinn með Tedda þurfti maður alltaf að sitja kyrr í bílnum í svona tíu mínútur eftir að hann startaði honum og áður en maður keyrði af stað. Annars drap hann bara á sér. Þetta var rosalegt tryllitæki og það var alveg svolítið kikk að sitja bara í honum, finna allan þennan kraft streyma í gegnum sig og keyra svo varlega af stað þegar bíllinn var tilbúinn. Þetta lag er svolítið einsog að fara á rúntinn með Tedda sumarið 1997. No bullshit, en samt einhvern veginn svo mikið bullshit. Og ég meina það mjög vel.

Sumarið 1995 fór ég á Mitsubishi Coltinum mínum upp á Breiðadalsheiði (þessa sem er yfir Vestfjarðagöngunum). Þar var malarvegur og frekar skuggalegur á köflum en efst á þessum hæsta fjallvegi landsins var líka langur beinn spotti. Þar keyrðum við Skarpi vinur minn einu sinni – eða ég keyrði, ég get ekki kennt neinum um nema sjálfum mér – og ég kreisti dolluna upp í 140 kílómetra hraða áður en ég missti stjórn á bílnum á mölinni, svo hann flaut bara stjórnlaust áfram út í eilífðina. Ég vissi betur en að nauðhemla og bað bara bænirnar upp á að við færum ekki út af. Sem við gerðum ekki (ég átti eftir að fara út af á þessari heiði síðar sama sumar, en það var bara á 40). Landslide er doldið einsog að fara á rúntinn yfir Breiðadalsheiðina með Skarpa.

Veturinn 2004 gaf ég út fyrstu skáldsöguna mína og keypti mér bíl fyrir fyrirframgreiðsluna. Vegna þess að ég er ekki Camilla Läckberg var fyrirframgreiðslan mín bara rétt svo temmileg og dugði fyrir 1989 módeli af Nissan Pulsar, sem gerði mér þann greiða reglulega að bila, aðallega þegar ég keyrði í gegnum Hólmavík – sem ég gerði ansi oft. Ég endaði sennilega á að gefa öllum bifvélavirkjum í Hólmavík eintak af Hugsjónadruslunni fyrir aðstoðina – sem var alla jafna mjög lipur og ódýr. En einu sinni komst ég í gegnum Hólmavík og upp á Steingrímsfjarðarheiðina – sem gegnir hlutverki erkióvinar í lífi mínu í dag, en ég hafði enn ekki lent neitt sérstaklega illa í henni þá. Ég slapp líka yfir hana þrautalaust í þetta sinn, þótt það væri snjóþungt. Í Ísafjarðardjúpi var hins vegar flughált – það var hnausþykkt skautasvell yfir öllu og svo snögghlýnaði og fór að rigna. Ég keyrði allt djúpið í fyrsta gír – fór sennilega aldrei hraðar en 20 km á klukkustund. Á einum tímapunkti ætlaði ég að fara út að pissa en áttaði mig á því að ég gat ekki stöðvað bílinn – ef ég stöðvaði hann þá rann hann bara í burtu, hvort sem var á jafnsléttu eða annars staðar. Og þá ekkert að gera nema bara að halda honum á yfirvegaðri siglingu og vona að maður kæmist þetta á þolinmæðinni. Það skall svo á vetrarnótt – þetta var í desember og ég var að koma úr því að túra landið sem upphitunaratriði fyrir Ödda Mugison – og tunglið lýsti upp djúpið og það var enga aðra bíla að sjá. Deep in the Hole er svolítið svona, einsog að rúnta einn um djúpið á 20 km hraða undir tunglinu og nóttinni.

Einu sinni húkkaði ég mér far á þýskri bensínstöð. Eða – ég húkkaði mér alls ekkert far. Ég steig út úr bílfari – það var mjög fínn Benz og bílstjórinn var að koma frá Amsterdam, útúrkókaður og hafði æpt á mig yfir brjálæðislega hátt stillta Lenny Kravitz rokkið sitt að það væri alveg frábært dóp í Amsterdam aftur og aftur í tvo-þrjá tíma. Þegar hann setti mig úr á þessari bensínstöð, sem ég man ekkert hvar var – nálægt Hamborg allavega – stoppaði mig Marokkómaður sem sat á gangstéttinni með kaffibolla og sagðist ánægður með gítarinn minn, kassagítarinn Héðinn, eða nánar tiltekið límmiða á honum sem á stóð „Alle Menschen sind Ausländer – fast überall“ (allt fólk er útlendingar, næstum alls staðar) og spurði hvort ég (og kærastan mín) værum að leita að fari. Ég jánkaði því og hann sagðist mjög þreyttur – hefði keyrt í meira en sólarhring – og spurði hvort við værum nokkuð með bílpróf. Sem við vorum með (kærastan meira að segja með meirapróf). Hann sagðist ætla að keyra aðeins lengra en svo væri gott ef við gætum tekið við stýrinu.

Hann var ekkert að grínast með að hann væri þreyttur – hann dottaði við stýrið á Mazdadruslunni sinni á fimm mínútna fresti, hrökk við á 150 km hraða og sló sig utan undir, teygði sig í kaffibollann, og alltaf spurðum við hvort við ættum ekki að taka við, þetta væri ekki nógu gott, hann gæti hvílt sig. Hann sagði jájá, jájá, skiptum á næstu bensínstöð – og brunaði svo framhjá henni (kannski sofandi). Eftir nokkrar klukkustundir af þessu ákvað hann einfaldlega að stoppa og sofa í bílnum, enda komið kvöld, og við kærastan fórum inn í eitthvað rjóður til að sofa sjálf. Badlands er svolítið einsog að keyra eftir Autobahn með syfjuðum Marokkómanni – furðu spennandi – og Brainshake er einsog að keyra eftir Autobahn með útúrkókuðum Þjóðverja.

Recent Posts

See All

Rock or Bust

Rock or Bust er að mörgu leyti óvitlaus plata. Glúrinn, jafnvel. En hún er líka dálítið mistæk. Fyrstu tvö lögin eru gríðarsterk –...

Black Ice

Black Ice kom út árið 2008 og fékk blíðar móttökur víðast hvar – sumir sögðu hana aðeins of langa (hún er lengsta plata AC/DC) en flestir...

Malcolm Young – RIP

Besta hægrihöndin í bransanum, sögðu krakkarnir í Stereophonics á Twitter í dag. Malcolm Young, sem dó í dag, var oft kallaður hjartað í...

Comments


natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page