top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg

Back in Black

Bon Scott drakk sig í hel. Eða ældi sig í hel. Kvöld eitt í byrjun árs 1979 fór hann á fyllerí með vinum sínum, drapst í bílnum á leiðinni heim (s.s. sofnaði áfengisdauða), var skilinn eftir þar yfir nóttina, gubbaði upp í sig og drapst (s.s. lét lífið). Þar fór góður drengur fyrir lítið.

***

Það er ekki lítið áfall að missa vin. AC/DC höfðu meira og minna búið saman í 5-6 ár þegar þetta gerist – og þótt Bon og Angus lifðu mjög ólíkum lífum utan sviðs þá voru þeir fjarska nánir – og frontuðu sveitina saman. Bon var vanur að ganga um með Angus á öxlunum á brjálæðislegustu köflunum.

***

Það stóð til að leggja niður hljómsveitina þar til mamma Bons bað þá Youngbræður um að láta þetta ekki stoppa sig, það væri ekki í anda Bons og ekki í anda vinskapar þeirra. Og þá fóru menn að litast um og prófa söngvara.

***

Bon Scott hafði einu sinni farið á tónleika með hljómsveitinni Geordie og hrifist mjög af frontmanninum, söngvaranum Brian Johnson, og verið tíðrætt um það við vini sína í AC/DC. Ekki bara væri hann fær um rammhása englaskræki heldur væri hann skemmtilegur sviðsmaður og ótrúlega orkumikill. Þá gerði hann sér lítið fyrir, rumurinn sem hann var, og gekk um með gítarleikarann á öxlunum. „Angus – eigum við ekki að prófa það?“ spurði Bon.

***

***

Það er reyndar merkilegt að það tók víst nokkur ár áður en Brian og Angus urðu nógu nánir til þess að gera þetta saman. Einsog þeir þyrftu að þróa með sér vinskapinn fyrst – og kannski vildu þeir forðast samanburðinn. Heimurinn þekkti þetta múv frá Bon og Angus – þótt Bon hafi fengið það frá Brian (og Brian sennilega frá einhverjum öðrum).

***

Ímyndið ykkur nú að söngvarinn í eftirlætishljómsveitinni ykkar sé dáinn. Þið kaupið nýju plötuna full efa. Það er hægt að skipta um bassaleikara og trommara, rytmasveitina – svo fremi þeir séu ekki lykilmenn í lagasmíðum – en það er afar sjaldgæft að frontmannaskipti heppnist vel.

***

Platan heitir Back in Black – sem undirstrikar að þeir eru komnir aftur. Þetta er ekki nýtt band. Þetta er sama bandið í nýjum fötum. Plötuumslagið er svart.

****

Þið setjið ykkur í stellingar. Lagfærið níðþunga hlemmana á eyrunum. Hækkið í botn. Stillið á 33 1/3 snúninga og látið nálina falla. Fyrst heyrist suð. Síðan kirkjubjöllur í fullar 20 sekúndur. Þetta er jarðarför og upprisa. Gítarplokkið í byrjuninni er ískyggilegt – sínister. Hljómsveitin kemur inn einn maður í einu – fyrst Angus, þá Malcolm, svo Cliff og loks Phil. Þeir sækja smám saman í sig veðrið. Það heyrist ekkert í söngvaranum. Hljómsveitin keyrir sig í gang – gítarplokkið breytist í eitthvert flottasta rokkriff gítarsögunnar. Gítarriff rokksögunnar. En hvernig hljómar þessi helvítis söngvari? Það eru liðnar hátt í tvær mínútur – og það eina sem þú vilt vita er hvernig hljómar söngvarinn. Og hvernig í ósköpunum ætlar hann að verja þá óverjandi ákvörðun að koma í staðinn fyrir Bon Scott, rokkguð?

***

Ég er þrumugnýr, ég er úrhelli. Ég sæki fram einsog fellibylur Elding mín leiftrar yfir himni Þið eruð bara bernsk, en þið eruð feig. Ég tek enga fanga, ég sýni enga miskunn og þið streitist ekki á móti. Ég held á bjöllunni og leiði ykkur til heljar. Ég næ ykkur ykkur, Kölski nær ykkur.

***

Hann ver ekki ákvörðunina – heldur setur á fullt og hefur einfaldlega sókn af miskunnarlausri grimmd, svo rokklendurnar skjálfa og efasemdarmenn gefast upp, fullsigraðir á fyrstu andköfum.

***

Ef svo illa vildi til að þið sneruð plötunni öfugt komust þið ekkert betur undan.

***

***

Reis upp í svörtu, kastaði mér flötum. Ég var of lengi, gleður mig snúa aftur. Já, ég er sloppinn úr snörunni sem hélt mér hér hangandi. Ég starði á himininn og hann ölvaði mig. Afpantið líkvagninn, því ég dey aldrei.

***

Það er mikið af setningum í efsta stigi í þessari umfjöllun minni um AC/DC – en það hefur líka með umfjöllunarefnið að gera. AC/DC er ofsaleg hljómsveit og Back in Black er einhver ofsalegasta plata sem hefur verið samin, spiluð og tekin upp.

***

Næsta lag á eftir Hells Bells er Shoot to Thrill. AC/DC eru sérfræðingar í góðum byrjunarleikjum svo upphafslagið hlaut alltaf að vera besta lagið á plötunni. Shoot to Thrill byrjar ekki með neinum bravúr. Þetta er skítsæmilegt riff – alls ekki eitt af þeim bestu – og enginn ástæða til að ætla að það myndi „rætast úr“ laginu meira. AC/DC höfðu fram til þessa ekki þróað lagasmíðar sínar mjög mikið – nema bara úr rólegheitum í æsing og læti. En Shoot to Thrill er einmitt lag sem sækir á. Þar sem því hefði átt að ljúka við venjulegar aðstæður – í upphafi fjórðu mínútu – tekur Angus upp á nýju signatúrmúvi (ég held ég fari rétt með að þetta sé í fyrsta sinn sem hann gerir þetta) sem er svona dempað fingur plokk – og er sennilega frægast úr upphafinu á titillagi næstu plötu, For Those About to Rock. Og lagið neglir mann í hjartað.

***

Svo heldur þetta bara áfram með sívaxandi brjálæði. Hvert ómetanlega gítarriffið rekur annað. Brian er að vísu, einsog ég hef tönnlast á, ekki jafn fínn textasmiður og Bon – en Back in Black er samt langskásta skáldverkið hans, og Hells Bells, Back in Black, Rock ‘N’ Roll Ain’t Noise Pollution, Givin’ the Dog a Bone og fleiri eru mjög fín. Hans stærsti galli er ákveðið naívitet. Bon var einlæg undirheimafígura og sem slíkur „kunni“ hann að vera hættulegur. Í Night Prowler til dæmis, daðrar hann við alls konar vafasama hluti, en stígur aldrei yfir línuna – í Dirty Deeds hótar hann perrum heimsins. En Brian kann þetta ekki – Brian er einrænn tedrykkjumaður, rokkari á sviðinu en ekki í lífinu – og gengur þar með oft miklu lengra, vegna þess að hann þekkir ekki mörkin. Þetta eru bara pósur og þeim fylgir enginn raunveruleiki og þar með engin ábyrgð. Bon lifði lögin sín, það gerði Brian ekki.

***

Þetta er ekki síst augljóst í Let Me Put My Love into You. Sem er eitt af mörgum uppáhaldslögum mínum í öllum heiminum. En hafi nokkurn tímann verið samið lag sem gerir lítið úr nauðgunum, eða daðrar hreinlega við þær, þá er þetta það. Sennilega er það einhvers konar tímanna tákn að enginn hafi bankað í bakið á Brian og sagt „nei, heyrðu, rólex, þetta er alls ekki hægt“.

***

Og svo verður maður reyndar líka að gæta sín á því að rugla ekki ljóðmælanda alltaf saman við skáldið eða líta á kvæði sem einfaldan boðskap. Því má vel halda fram að ljóðmælandi í laginu sé einfaldlega sturlaður, frekar en að Brian sé sjálfur á villigötum. Þá er Let Me Put My Love into You Lolita rokkbókmenntanna. Ef Brian væri færari textasmiður hefði ég gefið því séns. Það er samt ekki. En guð hvað þetta er gott lag.

***

Um þessa plötu hef ég skrifað áður – í seríu sem dó drottni sínum (eða er enn ókláruð eftir því hvernig maður kýs að líta á það). Þar er allt önnur saga um uppruna þess að ég byrjaði að hlusta á AC/DC. Hún er að vísu ekki ósamræmanleg þeirri sem var sögð hér, vegna þess að ég er alls ekki viss um að ég hafi áttað mig á því sem barn að T.N.T. og You Shook Me All Night Long væru lög með sömu hljómsveitinni. Sem gefur samt bara alltaf út sama lagið. En ég er löngu hættur að skammast mín fyrir að fíla AC/DC. Sá fugl er floginn.

Recent Posts

See All

Rock or Bust

Rock or Bust er að mörgu leyti óvitlaus plata. Glúrinn, jafnvel. En hún er líka dálítið mistæk. Fyrstu tvö lögin eru gríðarsterk –...

Black Ice

Black Ice kom út árið 2008 og fékk blíðar móttökur víðast hvar – sumir sögðu hana aðeins of langa (hún er lengsta plata AC/DC) en flestir...

Malcolm Young – RIP

Besta hægrihöndin í bransanum, sögðu krakkarnir í Stereophonics á Twitter í dag. Malcolm Young, sem dó í dag, var oft kallaður hjartað í...

Comentarios


natturulogmalin.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg
bottom of page