Untitled
Dagur fimmtán þúsund (eða þarumbil) í viðstöðulausri bið.
***
Í dag fer ég til tannlæknis. Ég og börnin ætlum í hádeginu. Það verður sennilega það mest spennandi sem gerist í dag fyrir utan hið almenna eirðarleysi.
***
Ég uppfærði kápumyndina hérna í hliðarreitnum. Bakgrunnslitnum var aðeins breytt. Nú held ég bókin sé bara í Þýskalandi að prentast.
***
Ég er eitthvað að glugga í nokkur ljóðasöfn með ljóðum trans- og kynseginfólks. Mikið af fínu stöffi en sosum líka mikið af dóti sem er meira aktivismi og minna ljóð. Ég var að ræða það við einhvern á dögunum hvað ákveðin tegund af pólitískri ljóðlist – eða bókmenntum, eða bara list – væri óþolandi. Og hvað ákveðinn lestur á þannig bókmenntum væri þrengjandi og kæfandi. Þegar verkum er gefið pólitískt heilbrigðisvottorð. Það er afar algengt. Og þá sagði viðkomandi:
„Fyrst heimtuðum við pólitíska list – og svo þegar við fengum hana þá bara OMG gætuði bara gert list!“
Sem er auðvitað alveg rétt. Maður er óþolandi. En ég hef reyndar aldrei skilið hvernig list getur verið ópólitísk. Ég skil hins vegar ágætlega hvenær hún hættir að vera list og verður bara predikun eða skammir eða hæ-fæv á félagann – og kannski ætti maður að hafa minna óþol fyrir því, það er kannski kitsch en það þjónar þó einhverjum tilgangi og sennilega vildi maður ekki heldur vera alveg án þess frekar en annarrar pólitíkur og aktivisma. Óþolið sprettur sennilega bara af því að mörkin skortir – það er ekki gerður greinarmunur.
***
Krafan um pólitíska list – eða list sem reynir ekki að hunsa pólitíkina, búa til heim án hennar, einsog list reynir oft að búa til heim án tækniframfara, hliðarveröld sem er nostalgísk og snertingarlaus við raunveruleikann – felur auðvitað heldur ekki í sér að hún eigi ekki að vera list. Hún þarf samt að vera list. Og merking listar er aldrei einhlít, aldrei einföld.
***
Var það póstmódernisminn sem kenndi að maður ætti ekki að gera greinarmun heldur leggja hluti að jöfnu? Mér er sagt að svo sé en mér er líka sagt að það sé bæði einföldun og misskilningur. En þetta er kannski skylt þeirri hugmynd að maður leggi Tinnabækurnar og Shakespeare að jöfnu? Ég er ekki yfir það hafinn að vilja spekúlera í fleiru en fínni list – t.d. Guns og AC/DC – en ég held það sé samt mikilvægt að gera greinarmun á Guns og … segjum Ursulu Le Guin … segjum … JM Coetzee … og það er alveg hægt að gera það án þess að láta einsog Guns sé þar með ómerkilegri en Le Guin.
***
Það er líka merkilegt hvernig slamskáldin – þau sem skrifa augljóslega fyrir svið – eru meira á predikunarlínunni en hin. Það er einsog sviðið beinlínis krefjist þess að maður sendi einfaldari skilaboð. Og kannski krefst það þess líka að það sé hægt að klappa mann niður – maður geti farið út í sal og setið og fengið sér bjór og spjallað án þess að ljóðið hangi í loftinu allt kvöldið, nema sem eitthvað stuð.
***
En jæja, ég þarf að drífa mig til tannsa.
Recent Posts
See AllLommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja...
Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt...
Commentaires