Untitled
Jæja. Mánudagur. Það er úr mér mestur hrollur. Þetta er allt að smella saman, held ég. Ég er allavega að skrifa eitthvað og mér líst yfirleitt best á þetta þegar ég er að skrifa. Frekar en þegar ég er bara að lesa og vorkenna mér fyrir að vera heilalaust fífl.
***
Nú er að vísu mikill lestur framundan. Ég komst út á enda í bókinni í Færeyjum (sem þýðir ekki að ég sé búinn, vel að merkja, hvergi nærri) og er búinn að lesa mig einu sinni í gegn, prenta handritið út og nú liggur það á púltinu sem Valur bróðir smíðaði handa mér – og ég er búinn að stilla bókastandinum sem Haukur Már gaf mér upp fyrir ofan, þar sem ég get raðað lesnum síðum jafn óðum.
***
En ég hef verið að skrifa aðeins í leikritið, sem sagt. Sem er auðvitað löngu, löngu, löngu tilbúið (ég komst út á enda á því í október).
***
Leikritið Hans Blær verður frumsýnt 10. mars. Ég leit við í Tjarnarbíó á mánudaginn fyrir viku og sýnist þetta allt vera á bærilegri leið. Handritið hefur tekið talsverðum breytingum – textinn er enn næstum allur minn en það er búið að afbyggja hann hér og þar, búa til ramma sem henta sýningunni, salnum, leikarahópnum, sviðsmyndinni og svo framvegis. Ég er enn að skrifa styttri texta til að stoppa í göt og lesa í gegnum breytingartillögur. Ég kann auðvitað ekkert að skrifa leikrit, einsog ég hef margoft sagt – sennilega oftast við Vigga, leikstjórann. Ég fer aldrei í leikhús. Hef ekkert vit á þessu. Besta senan sem ég skrifaði í leikritið hefði sennilega tekið 40 mínútur í flutningi – ef leikararnir hefðu drifið sig – og hún hefði verið frábær þannig. En það hefði eiginlega ekki verið pláss fyrir neitt annað. Nú er hún – tja, fimm mínútur, giska ég. Það er passlegt. En þið trúið ekki hvað ég var sniðugur í 40 mínútna útgáfunni. Leikhúsið hreinlega hrundi um sjálft sig í eilífum snúningum. Var næstum jafn gott og bók. Ég verð eiginlega að láta að setja bara upp þessa senu einhvern tíma.
***
Ég reikna ekki með því að það fari nema svona þriðjungur af þeim texta sem ég skrifaði á svið. Án þess að ég hafi góða yfirsjón yfir það.
***
Í leikhúsi er líka alltaf verið að einfalda hlutina. Ef maður missir þráðinn í bók les maður bara setninguna/síðuna/kaflann aftur. Ef maður missir þráðinn í leikhúsi er maður bara búinn að vera restina af sýningunni. Skilur ekki neitt. Þetta hentar mér mjög illa því bókmenntir mínar ganga allar meira og minna út á að flækja hlutina og rugla í hinu smávægilega (sem vekur talsvert minni eftirtekt á leiksviði). Ég sker að vísu grimmt niður texta sem ég skrifa en hvergi nærri eins grimmt og í leikhúsinu. Stundum er textinn í leikverki líka ekkert nema beinagrind – aukmerkingalaus – sem sýningin er svo byggð utan á. Sérstaklega þar sem leikhópurinn hefur fengið að fitla við verkið (einsog er sannarlega raunin með Óskabörn ógæfunnar, sem eru fiktsjúk). Þar með verður öll aukmerking á forræði leikhópsins sem setur verkið upp. Í stað þess að setningarnar bíti sig í rassinn og snúist í hringi bíta augngoturnar bendingarnar í rassinn og rassarnir snúast í hringi um sviðsmyndina. Í sjálfu sér meikar það sens. Þetta er leikhús.
***
Samband bókmennta og leikhúss er annars mjög infekterað, held ég. Mjög óheilbrigt á báða bóga. Best væri ef leikverk væru bara lesinn upphátt og leikarar færu bara allir að mæma.
***
En svo finnst mér líka bara gaman að ranta. Rantið er vanmetið listform.
***
Ég er að lesa frekar skemmtilega bók. Næstum búinn. Cock and Bull eftir Will Self. Tvær nóvellur. Önnur um konu sem fær skyndilega lim og hin um mann sem fær skyndilega kuntu. Í hnésbótina! (Konan fær liminn bara á kuntuna). Ég hef kannski einhver orð um hana hérna í næstu viku. Eða einhverja aðra úr Hans Blævar hillunni. Ég er líka búinn að gera mér ansi drjúgan lista af kvik- og heimildamyndum til þess að horfa á á næstu vikum og mánuðum. Og margt eftir í hillunni líka og eitthvað enn hreinlega í körfunni á Amazon.
Recent Posts
See AllLommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja...
Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt...
コメント