Untitled
I am Myra Breckinridge, whom no man will ever possess. The new woman whose astonishing history started with a surgeon’s scalpel, and will end… who-knows-where. Just as Eve was born from Adam’s rib, so Myron died to give birth to Myra.
Á dögunum horfði ég á bíómyndina Myra Breckinridge, með Raquel Welch, John Huston og fjörgamalli Mae West (og fleirum auðvitað). Myndin er gerð árið 1970 eftir rómaðri og samnefndri skáldsögu Gore Vidals – sem ég pantaði fyrir nokkru og er að bíða eftir. Eða hugsanlega er hún að bíða eftir mér, á pósthúsinu á Ísafirði (ég er á heimleið frá vikudvöl við kennslu og skriftir í Færeyjum). Bókin fékk frábærar krítískar viðtökur en var umdeild, vegna innihalds – hún var kölluð siðlaust klám og viðbjóður – en Harold Bloom hafði hana með í frægri „kanónu“ sinni.
Kvikmyndin fjallar einsog bókin um samnefndan transa, Myru/Myron Breckinridge, sem fer í aðgerð meðal annars til þess að koma til leiðar „the destruction of the American male in all its particulars“. Aðeins minna abstrakt fjallar hún um tilraun Myru til þess að fá í hendurnar arf, sem tilheyrir Myron, frá ríkum frænda sínum. Myra læst vera eiginkona Myrons, sem sé látin, en frændinn vill ekki heyra á þetta minnst, setur allt í lögfræðing, en leyfir henni að starfa sem kennari í leiklistarskóla sínum – til hálfgerðrar málamyndunar. Þar kynnist hún ungu pari sem hún reynir að forfæra og gengur bróðurpartur myndarinnar út á þann plottpunkt.
American women are eager for men to rape them. And vice versa.
Myra lætur svo heldur betur til sín taka í nauðgunardeildinni í einhverri epískustu pegging senu vestrænnar kvikmyndasögu. Það er rosalegt til þess að hugsa að Raquel hafi leikið í henni – og gert það stórkostlega – því á þessum tíma var alveg áreiðanlega ekki mjög fínt fyrir kynbombu að leika transa. Mae West sagði víst, strax og hún hitti Raquel, að „svona hlutverk“ léki engin „alvöru kona“ og neitaði að birtast í ramma með henni (þær eru saman í senum, en aldrei báðar á skjánum samtímis). Raquel tók þessum ummælum ekki vel og tökur einkenndust af miklum erjum þeirra á millum – og gríðarlegri marijúananotkun annarra leikara og starfsmanna.
Skemmst er frá því að segja að Myra er einn af nánustu ættingjum Hans Blævar sem ég hef fundið hingað til, og bíómyndin er frábær, snargeðveik snilld – og floppaði svo fullkomlega og algerlega að flestir sem að henni komu eyddu ævinni í að sverja fyrir hana. Meira að segja Gore Vidal reyndi að fá nafn sitt fjarlægt af henni („næstversta mynd sem ég hef séð“). Handritið var umskrifað þúsund sinnum og þegar leikararnir hváðu sagði leikstjórinn bara að myndin yrði „very visual“ (sem hún er). Já og Janis Joplin dissaði hana í Dick Cavett Show, þar sem hún var í viðtali MEÐ Raquel við hliðina á sér („It’s so choppy, I just didn’t understand it, it kept changing“ sagði Janis, „Well, it’s about change“ svaraði Raquel snúðug).
4,3 í einkunn á IMDB (The Room er með 3,6). Leikstjórinn fékk aldrei neitt meira að gera (fyrren hann söðlaði um og gerðist leikari).
Ég er viss um að ég verð ekki síður ánægður með skáldsöguna.
Recent Posts
See AllLommi var að skamma mig fyrir að blogga ekki lengur á mánudögum. Hann er ekki á Facebook – þar sem ég er fram að jólum til að „vekja...
Það sló mig fyrir helgi að það væri engin stemning fyrir þessu jólabókaflóði – ekki í kringum mig að minnsta kosti. Það hefur enginn mælt...
Comments