Rock or Bust
Rock or Bust er að mörgu leyti óvitlaus plata. Glúrinn, jafnvel. En hún er líka dálítið mistæk. Fyrstu tvö lögin eru gríðarsterk – titillagið og svo Play Ball, sem er með dásamlega fínu búggípikki, og Stevie gengur bara bærilega að herma eftir Malcolm frænda í bakgrunninum. Malcolm var auðvitað búinn að semja bróðurpartinn af plötunni með Angusi áður en ógæfan náði endanlega yfirhöndinni (af hverju segir maður ekki yfirhendinni?) En Stevie spilar þetta.
***
***
Það er ágætt að hafa í huga (og sést svo sem á myndbandinu) að alltaf þegar Brian (eða Bon, nú eða Axl) segir ball eða balls þá er hann að tala um hreðjarnar á sér og þegar hann segir gun eða guns eða war eða eitthvað álíka þá er hann að tala um skaftið sem hann skýtur með, svo að segja, liminn á sér eða liminn almennt – hinn karlmennska heteró-sís getnaðarlim. Þannig er þetta bara, ég veit það er ekki móðins, og þaðan af síðar þessar fáklæddu konur á púlborðunum en hvað getur maður sagt? Þeir hafa aldrei beinlínis skammast sín fyrir neitt og alls ekki að verða einhvers konar dirty old men – í orði ef ekki á borði, allavega ó-#metoo-aðir ennþá – og ég er, einsog kom fram hérna fyrir einhverjum pistlum síðan, alveg hættur að fyrirverða mig fyrir þá eða aðdáun mína á þeim. Þetta er bara alltílagi.
***
En svo er ágætt að hafa LÍKA í huga að Youngfjölskyldan eru miklir Glasgow Rangers aðdáendur – og Brian er frá Newcastle þar sem fólk trúir ekki á neitt nema brúnan bjór og knattspyrnu. Einsog svo gjarnan fjallar myndlíkingin ekki bara á það sem hún bendir heldur líka um sjálfa sig. Tíminn er kannski einsog vatnið, en hann er samt ennþá tíminn. Þessi knöttur er líka knöttur og þessi leikur líka leikur.
***
Önnur góð lög á plötunni eru Babtism by Fire (borið fram „bap“ + „tissem“ + „bæfæ“) Emission Control (sem fjallar um bíla, ekki loftslagsmál – Brian er ökuþór og bílanöttari, með annan besta tímann í Top Gear keppninni) og Sweet Candy. Hard Times er fínt.
***
***
***
Restin er fillerar. Platan er samt bara 35 mínútur. Sérstaklega er mér illa við Rock the Blues Away og Dogs of War (sem ég held að myndi útleggjast Limir kynmakanna – þetta er ekkert æðislega flókið) og Got Some Rock’n’Roll Thunder.
***
Það er samt eitthvað fallegt við þessa æðislegu og algeru hollustu við hugmyndina um rokk. Og meðvitund um sögu rokksins og stöðu sína í henni.
***
Einsog við munum, sem höfum verið að fylgjast með, þá er fyrsta lagið á fyrstu plötu AC/DC It’s a Long Way to the Top (If You Wanna Rock’n’Roll). Þegar hér er komið sögu er leiðin orðin 40 ára löng og margt gengið á. Bon er auðvitað dauður fyrir ríflega 30 árum. Plötuskiptingin er jafnari – Bon á sex plötur og Brian tíu. Menn hafa farið í meðferð – verið reknir og snúið aftur – þeir hafa náð sturluðum hæðum í lagasmíðum (Powerage, Highway to Hell og Back in Black) og vandræðalegum lægðum (Flick of the Switch, Fly on the Wall), risið á ný (Razors Edge) og náð einhverri undarlegri og traustri, fyrirsjáanlegri myndu einhverjir segja, siglingu – og allt án þess að breyta nokkurn tíma formúlunni. Það er ótrúlega lítill munur á AC/DC lögum sem rista mann í sundur og AC/DC lögum sem floppa fullkomlega. Þetta er eltingaleikur við fínlegasta fullkomleika, á gríðarstórri skepnu – behemoth, heitir það skepnan í Jobsbók (ýmist nykur eða flóðhestur á íslensku) – og hann næst ekki nema endrum og eins og stundum þegar hann nær skriðþunga raðast niður meistaraverkin hvert á fætur öðru.
***
Þeir eru líka orðnir gamlir karlar. Ég held þetta sé eina platan þar sem raunverulega er hægt að tala þannig um þá. Ekki að þeir séu ekki ennþá strákslegir og vanþroska, að Angus flissi ekki einsog skítugur skólastrákur að eigin neðanbeltishúmor. En þeir eru orðnir ansi fótalúnir og þunnhærðir.
***
En platan heitir Rock or Bust og maður lætur það ekki buga sig. Maður lætur ekkert buga sig. Maður lætur það ekki buga sig þegar Malcolm verður svo slæmur af vitglöpunum að hann getur ekki spilað lengur – maður ræður Stevie frænda í staðinn fyrir hann. Maður lætur það ekki buga sig þegar Phil Rudd er handtekinn fyrir hótanir og massífa fíkniefnaeign – maður ræður Chris Slade aftur, sem spilaði fyrst á Razors Edge og er eini maðurinn sem trommar eitthvað líkt jafn fast og Phil. Svo drífur maður sig í stúdíóið og á túrinn og lætur það ekki buga sig þegar Brian missir heyrnina – maður rifjar upp að Guns N’ Roses voru gjarnir á að kovera Whole Lotta Rosie og ræður Axl, enda hefur hann ekkert betra að gera. Maður lætur það ekki buga sig þegar Guns N’ Roses koma saman aftur – heldur raðar saman tveimur heimstúrum hverjum ofan í annan og skutlar Axl, óáreiðanlegasta manninum í skemmtanabransanum til þessa, manninum sem hefur hingað til aldrei mætt á neina tónleika á réttum tíma – á milli með einkaþotum og lætur það ganga upp (og kennir honum loks að mæta á réttum tíma – sem hann hefur gert síðan). Maður lætur það ekki buga sig þegar Axl fótbrýtur sig á fyrstu tónleikunum með Guns – á sjálfum Troubadúrnum – heldur fær lánað fyrir hann hásæti og heldur skemmtuninni áfram. Því það er Rock or Bust sem gildir. Fjörutíu ára behemoth á fullum skriðþunga og það fær hann ekkert stöðvað.
***
***
Svo klárar maður túrinn og grefur bræður sína tvo í röð, fyrst George og svo Malcolm.
***
Hvort eitthvað verður í framhaldinu veit enginn. Axl segist ætla að vera til taks fyrir Angus á meðan þess er óskað. Cliff, sem er 68 ára, segist hættur fyrir fullt og allt. Chris er 71 árs. Phil 63 ára. Stevie 61 árs. Angus 62 ára. Axl er ekki nema 55 ára, af 1962 árganginum (jafnaldri Sjóns og meirihluta þeirra sem dóu í Codexnum). Mér finnst sennilegt að Angus viðhafi sömu reglu og hingað til – einhverjir meðlimir sveitarinnar munu hittast eftir nokkur ár með hljóðfærin og athuga hvort eitthvað gerist. Ef eitthvað gerist – þá getur hvað sem er gerst. En í raun er líklegra að þeir hittist bara, fái sér bjór og spili púl, knúsi hver annan svolítið og fari svo aftur hver í sitt heimshornið.
***
Ég gerði playlista með bestu lögunum. 32 lög, að meðaltali 2 per plötu, og aldrei færra en eitt af hverri. Til að hafa fleiri en tvö lög af einhverri plötu þurfti ég að sleppa einu góðu af einhverri annarri. Það var hrikalegt að eiga við sumar – ég neyddist t.d. til að sleppa Live Wire. Who Made Who bjargar mér – því þar næ ég inn Hells Bells og Ride On, en verð þá að sleppa hinu ágæta titillagi (sem er eina nýja lagið á plötunni, fyrir utan instrumentals). Og Fly on the Wall og Flick of the Switch gátu aldrei fengið nema í mesta lagi eitt.
***
***
Svo skulum við bara muna lögmálið. Þetta er helvítis hellings vinna og það verður ekki létt og það á allur fjárinn eftir að drífa á daga okkar, en það gæti orðið gaman samt – ef við látum ekki bugast.
Recent Posts
See AllBlack Ice kom út árið 2008 og fékk blíðar móttökur víðast hvar – sumir sögðu hana aðeins of langa (hún er lengsta plata AC/DC) en flestir...
Besta hægrihöndin í bransanum, sögðu krakkarnir í Stereophonics á Twitter í dag. Malcolm Young, sem dó í dag, var oft kallaður hjartað í...
Ferill AC/DC spannar eitthvert mesta siðspillingartímabil 20. aldarinnar. Þegar hann hefst árið 1974 er til þess að gera nýbúið að opna...
Commentaires