top of page
Illska-scaled.jpg
BruinyfirTangagotuna_72pt.jpg
frankensleikir.jpeg
Einlægur Önd.png
Oratorek_72pt.jpg
Plokkfiskbokin1.jpg
thjonn-thad-er-fonix-i-oskubakkanum-minum.jpg
hnefi löng.jpg
HansBlaer_72.jpg
BLANDARABRANDARAR.jpg

Malcolm Young – RIP

Besta hægrihöndin í bransanum, sögðu krakkarnir í Stereophonics á Twitter í dag. Malcolm Young, sem dó í dag, var oft kallaður hjartað í AC/DC. Ekki nóg með að hann hefði samið – ásamt litla bróður sínum – hvert einasta lag sem sveitin gaf út, heldur var hann rytma- og riffstjórinn í þessu öllu saman og púlsaði þess utan á sviði – einsog hjarta – á meðan Angus þaut út um allt og baðaði sig í sviðsljósinu (einsog hvað … limur?). Malcolm hélt skrokknum gangandi. Angus skapaði kaos en Malcolm viðhélt kosmósinu. En utan sviðsins var því öfugt farið – Malcolm hætti í sveitinni um stutt skeið árið 1988 til þess að díla við alkohólisma sem var löngu farinn úr böndunum, á meðan Angus drakk aldrei og er mesta séntilmenni nema þegar hann er í skólabúningnum. Vitglöpin sem tortímdu Malcolm að lokum mátti rekja til óheilbrigðra lífshátta. Hann var ekki nema 64 ára.

***

Malcolm sagði einhvern tíma að það væru bara tvær rokk-og-ról-sveitir eftir í heiminum. Stones og AC/DC. Allir aðrir spiluðu bara rokk en hefðu ekkert ról. Að það vantaði svíngið – spilamennskan væri stíf, lokuð. Það eru nokkur ár frá því hann greindist með vitglöp og hann hefur setið á elliheimili frá því hann hætti í sveitinni – tilneyddur, síðasta túrinn lærði hann ÖLL lögin upp á nýtt fyrir hverja einustu tónleika, hann gat ekki munað þau öðruvísi. Undir það síðasta mun hann hafa verið hættur að bera kennsl á nokkurn mann. Nema Chuck Berry. Það var það eina sem var eftir – hann þekkti tónlistina og ekkert annað.

***

Í gær fórum við að pöbb og drukkum eitthvað fram á nótt. Þegar við stóðum fyrir utan og reyktum síðustu sígarettu kvöldsins sneri ég mér að Lise og Marie og sagði: Það er verið að spila lagið mitt.

***

Hann gat fengið tvo hljóma til að virka einsog fjóra, fjóra til að hljóma einsog átta, og hafði einhvern undarlegan talent til þess að næstum einsog umbreytast í hægri höndina á sjálfum sér. Dóri vinur minn kenndi mér einu sinni að lykillinn að aikido snerist um að færa vitund sína út í þá útlimi sem maður væri að hreyfa – þannig gæti maður beitt meiri styrk ef maður hefði hugann í höndinni á sér á meðan maður lyfti, frekar en ef einbeitingin og fókusinn væri öll upp í haus. Að hausinn stoppaði mann, drægi úr manni máttinn, og því flytti maður vitundina þangað sem hún ætti að vera. Malcolm var alltaf með vitundina í hægri höndinni – þar var stjórnstöðin, nöfin í líkama hans og sálu.

***

Fólk heyrir oft ekki í Malcolm fyrir Angus. En ef það hlustar þá skilur það hvers vegna margir helstu rokkgítarleikarar síðustu 30 ára tilbiðja manninn (Scott Ian, Dave Mustaine og James Hetfield eru bara þrjú dæmi). Thunderstruck er sennilega eitthvert fallegasta samspil sem þeir bræður áttu – ég hef nefnt það áður, að svona fallegur einshljóms rytmi hafði ekki verið sleginn síðan Bo Diddley samdi lagið um sjálfan sig. Og hefur ekki verið sleginn síðan.

***

***

Malcolm er annar Youngbróðirinn til þess að deyja á meðan þessu AC/DC skrifaskeiði mínu stendur. George Young, sem pródúseraði margar plötur sveitarinnar, og var heimsfrægur með Easybeats áður en AC/DC var einu sinni stofnuð, dó fyrir tæpum mánuði. Áður létust Stephen (1989) og Alex (1997) – og nú er Angus einn eftir. Angus skrifaði tilkynningu á heimasíðu sveitarinnar í dag og lauk henni svona:

As his brother it is hard to express in words what he has meant to me during my life, the bond we had was unique and very special.

He leaves behind an enormous legacy that will live on forever.

Malcolm, job well done.

***

Recent Posts

See All

Rock or Bust

Rock or Bust er að mörgu leyti óvitlaus plata. Glúrinn, jafnvel. En hún er líka dálítið mistæk. Fyrstu tvö lögin eru gríðarsterk –...

Black Ice

Black Ice kom út árið 2008 og fékk blíðar móttökur víðast hvar – sumir sögðu hana aðeins of langa (hún er lengsta plata AC/DC) en flestir...

Stiff Upper Lip

Ferill AC/DC spannar eitthvert mesta siðspillingartímabil 20. aldarinnar. Þegar hann hefst árið 1974 er til þess að gera nýbúið að opna...

コメント


natturulogmalin.jpg

Fáðu tilkynningu þegar
bloggið er uppfært:

bottom of page