Stiff Upper Lip
Ferill AC/DC spannar eitthvert mesta siðspillingartímabil 20. aldarinnar. Þegar hann hefst árið 1974 er til þess að gera nýbúið að opna flóðgáttir kynlífs, eiturlyfja, áfengis og myrkra húsasunda og þær standa einfaldlega galopnar út öldina – utangarðsmenningin ryður sér rúms í öllum hverfum. Unglingar eru fullari en áður, fólkið lauslátara og fríkin markera sér svæði miðsvæðis í tilverunni. Með Stiff Upper Lip kveðja AC/DC þessa gullöld og allan hennar harm og hefja aðlögunargönguna löngu inn í öryggiskröfur 21. aldarinnar – safe space andans og holdsins, með sínum reykingabönnum, öryggisbeltum og kúltíveruðum kraftbjórum. Það er ekkert að óttast lengur.
***
Stiff Upper Lip er líka síðasta verulega góða plata sveitarinnar. Að minnsta kosti fram til þessa (það hefur enn ekkert verið gefið upp um hvort þeir séu hættir, þótt sveitin sé að sönnu löskuð). Það er rosalega mikil sing-along stemning í þessu, viðlögin eru endurtekin ad deliriam og platan þéttsetin mögulegum smáskífulögum. Þrjú voru gefin út, en auk titillagsins voru það Safe in New York City og Satelite Blues (sem er alls ekki eitt af mínum eftirlætis – ég hefði miklu frekar hent í lírukassarokksmellinn Can’t Stand Still, sem fékk ekki einu sinni að vera með í liveprógraminu – eða Damned).
***
I warn you ladies, I shoot from the hip, I was born with a stiff … stiff upper lip syngur Brian út um glottið á sér í titillaginu á meðan Angus hristir mjaðmirnar og kinkar kolli svo þessi sperrtasta efrivör í bransanum dúar undan. Dónaskapurinn ríður húsum, röftum og öðru sem verður á vegi hans – einsog fyrr.
***
Kannski er Stiff Upper Lip Bonaðasta Brianplatan.
***
Ári eftir að platan kom út var Safe in New York City sett á lista Clear Channel yfir lög sem innihéldu „vafasaman texta“. Þetta var i kjölfar árásanna á Tvíburaturnanna (en sveitin átti fyrir sex önnur lög á listanum sem höfðu ekkert með New York að gera). Sem er auðvitað skrítið. Ætli New York búar hefðu ekki einmitt haft gott af því að láta peppa í sig dálitlu trausti?
***
All over the city and down to the dives Don’t mess with this place it’ll eat you alive Got lip smackin’ honey to soak up the jam On top of the world ma’ ready to slam
I feel safe in New York City I feel safe in New York City
***
Annars meintu Youngbræður þetta víst allavega að hálfu kaldhæðið. Þeim hafði alltaf þótt New York vera fremur kaotísk borg og ótrygg en nú voru allir stanslaust að tala um hvað hún væri „örugg“ – í kjölfar borgarstjóratíðar Rudys Giuliani og no tolerance stefnunnar. Í einhverjum skilningi fjallar lagið um árekstrana þarna á milli líka – hvernig maður getur átt heimkynni sín í siðspillingunni og fundist maður óöruggur utan hennar. Þannig má a.m.k. lesa ljóðið fyrir mína parta. Stærstan hluta 20. aldarinnar áttu fríkin og utangarðsmennirnir ekkert annað athvarf – en svo er sjálfur utangarðurinn gentrífieraður, hreinsaður upp og illgresin fjarlægð.
***
„I feel safe in a cage in New York City“. Myndbandið nær kjarna þessa ágætlega. Fimm atvinnuutangarðsmenn fastir í umferðargöngum með fimmtán þúsund löggum í viðbragðsstöðu og löggubílum með sírenurnar á. Loksins seif.
***
Damned er á svipuðum slóðum – þetta er Veröld sem var nýrrar aldar. Það er verið að binda endi á siðspillinguna og þeir sem tilheyrðu henni eru á leiðinni á sorphauga mannkynssögunnar, ef ekki hreinlega bannfærðir til helvítis.
Don’t smoke don’t fight don’t light no cigarettes Or else you’ll wind up in the can No jokes no rights sit tight don’t fool around You are a guest of Uncle Sam Stand up look right don’t slouch and stand at ease Allow no sex above the knees When I snap you jump into the master plan I’ll be damned Well I’ll be damned
***
Stiff Upper Lip kemur út sama ár og fyrsta alvöru vestræna reykingabannið er sett á – í Kaliforníu árið 2000 en er að mestu samin 2-3 árum fyrr. Stemningin vafrar inn á þetta svæði en textarnir eru þó flestir fyrst og fremst klassískir rokktextar – og kannski aldrei jafn klassískir og einmitt hérna. Can’t Stand Still gæti verið fiftísrokk – og takið eftir gítarsólóinu, þetta er Malcolm!
***
Lagasmíðarnar eru enn blúsaðri en áður en það er líka helvíti mikið Nashville í mörgu hérna og alls kyns spes trix – teknískt nákvæmlega endurtekin riffin verða stundum einsog þau séu lúppuð og minna þá á lírukassa (Can’t Stand Still og Hold Me Back) eða hreinlega nikku (viðlagið í Meltdown). Sándið er frekar hreint – AC/DC spilar miklu hreinna sánd en margir halda – og það er stóri bróðir, George Young, sem snýr tökkunum einsog í gamla daga, en í þetta sinn án félaga síns, Harry Vanda.
***
Ég hef stundum haldið því fram að lög verði betri og rokkaðri við það eitt að heita eitthvað með „rock“ í titlinum – og með þeim rökum að þetta geri enginn nema hann geti staðið við það, þetta sé ekkert sem maður blöffi – en það kom mér nokkuð á óvart að uppgötva að „jazz“ í titli virðist hafa svo til sömu áhrif. Það gerir lagið vel að merkja ekki neitt djassaðra, heldur bara rokkaðra, eða jafnvel aðeins blúsaðra.
Recent Posts
See AllRock or Bust er að mörgu leyti óvitlaus plata. Glúrinn, jafnvel. En hún er líka dálítið mistæk. Fyrstu tvö lögin eru gríðarsterk –...
Black Ice kom út árið 2008 og fékk blíðar móttökur víðast hvar – sumir sögðu hana aðeins of langa (hún er lengsta plata AC/DC) en flestir...
Besta hægrihöndin í bransanum, sögðu krakkarnir í Stereophonics á Twitter í dag. Malcolm Young, sem dó í dag, var oft kallaður hjartað í...
Comments