Venjulegt fólk
Ég sá því haldið fram um daginn að mennirnir sem nauðguðu Gisèle Pelicot hafi verið venjulegir. Þessu til sönnunar var tiltekið við hvað þeir hefðu unnið, hvað þeir voru gamlir, hvers konar bakgrunn þeir höfðu og svo framvegis. Og þeir höfðu sem sagt unnið venjulegar vinnur, voru á öllum aldri og höfðu ólíkan, en venjulegan, bakgrunn. Og ég spurði sjálfan mig hvað þetta þýddi og við hverju viðkomandi hefði búist. Hefði komið minna á óvart ef þetta hefðu allt verið einhvers konar smáglæpamenn, rumpulýður – eða ef þeir hefðu allir verið sturlaðir yfirstéttarmenn í smókingjökkum, svona Eyes Wide Shut týpur? Hvað hefði þurft til að þessir menn teldust ekki venjulegir? Og svo rann það upp fyrir mér, já einmitt, það sem gerir þessa menn óvenjulega er að þeir eru nauðgarar. Það sem gerir fólk venjulegt eða óvenjulegt er ekki að vera rafvirkjar eða húsverðir eða bara menn heldur hvernig það bregst við í veröldinni, hvað það gerir, hvað það gerir ekki. Rafvirki gæti t.d. verið óvenjulegur fyrir að njóta þess að fá straum eða fyrir eitthvað óvinnutengt einsog t.d. að sleikja klósettsetur eða eitthvað sakleysislegt og sætt einsog að vilja helst dansa alla dansa afturábak eða eitthvað hræðilegt einsog að nauðga. Þá segjum við ekki lengur: þetta er venjulegur maður, heldur þetta er óvenjulegur maður og því til sönnunar bendum við ekki á að hann sé rafvirki heldur á það að hann hefur vísvitandi og af hvötum sem hljóta að teljast óvenjulegar nauðgað annarri manneskju.
Annars er þetta algengt viðkvæði úr bandarískum true crime kúltúr – eða þaðan þekki ég það helst – að fjöldamorðinginn hafi verið / geti verið / sé venjulegi maðurinn í næsta húsi. Það er áreiðanlega mjög paranojuvekjandi að temja sér þann hugsunarhátt að hrottaleg ofbeldisverk geti verið framin af hverjum sem er, hvenær sem er og hvar sem er. Jafnvel þótt það sé fullkomlega raunsætt mat: óvenjulegt fólk er miklu víðar en maður heldur, óvenjulegir hlutir gerast oft, fólk, sérstaklega annað fólk, er fært um ýmislegt óvenjulegt. Maður missir þannig auðveldlega sjónar á því að ofbeldi er ekki reglan; og fer jafnvel að leggja saman tvo og tvo og óttast venjulegt fólk og krefjast róttækra aðgerða sem verji mann fyrir venjulegu fólki – enda sé það stórhættulegt – hættir jafnvel að fara óskjálfandi úr húsi. Um það eru mýmörg dæmi, þannig fólk er líka óvenjulegt en reynist líka úti um allt ef maður fer að gefa þeim auga.
Recent Posts
See AllEf allt fer að óskum kemur ljóðabókin mín út í mars. Hún átti einu sinni að heita mjög ljóðrænum titli en á endanum ákvað ég að láta...
Comments