Íslenski draumurinn
Hvað segir það um mann ef maður hefur það að markmiði í lífinu að það leiti enginn til manns í vandræðum? Að maður beinlínis vilji vera náunginn í hverfinu sem enginn biður um bolla af sykri eða afnot af sláttuvél? Eða maðurinn í fjölskyldunni sem enginn myndi vilja gista hjá á ferðalagi? Vinurinn sem er aldrei beðinn um að hjálpa í flutningum? Foreldrið sem er aldrei beðið um að skutla? Bæjarbúinn sem er aldrei beðinn um að leggja hönd á plóg með eitt eða neitt – af því hann hefur lýst því yfir að hann muni ekki hjálpa, vandamál annarra komi honum ekki við? Þetta er svo undarleg afstaða að ef manni birtist svona illmenni í barnabók myndi maður dæsa yfir „boðskapnum“ – þarf í alvöru að troða því ofan í fólk að hluti af því að vera almennileg manneskja sé að leggja sitt af mörkum til þess að sem flestir hafi það bærilegt?
Sem kallar á spurninguna: Hvaða barnabækur las eiginlega Sigmundur Davíð þegar hann var barn? Hvernig getur maður haft það að markmiði að enginn sæki um hæli á Íslandi? Eða í Danmörku? Danmörk og Ísland eru meðal ríkustu og öruggustu landa í heiminum og það eru 117 milljóns í vergangi vegna átaka sem má að stórum hluta rekja til pólitískra, efnahagslegra og hernaðarlegra ákvarðana sem voru og eru teknar á vesturlöndum, ákvarðana sem hafa gjarnan verið teknar til þess að viðhalda auðæfum okkar og áhrifum? Er þetta einu sinni umdeilt?
Ég er ekki að segja frekar en nokkur annar að við eigum að taka á móti „öllum“ eða öllum sem vilja koma – sem eru ekkert einu sinni mjög margir, miðað við stærðina á hópnum öllum – en hvernig dettur manni í hug að það geti verið uppskrift að velgengni í stjórnmálum að gera út á að auglýsa kaldlyndi sitt og segjast bara ekki ætla að gera neitt? Að vandamál annarra séu ekki okkar vandamál? Hér er ekki til neinn helvítis sykur og sláttuvélin er ekkert leikfang og ekki komst þú til að hjálpa mér að flytja og þessi sófi er nú ekki gerður til að sofa á honum? Er það í alvöru „Íslenski draumurinn“ – að við læsum sveitabýlinu fyrir bágstöddu ferðafólki sem er að reyna að brjótast í gegnum blindhríðar heimsins? Hvernig getur uppspretta stolts – eða ættjarðarástar! – legið í að skilgreina sig út frá kaldlyndi og kjarkleysi, að maður ætli bara ekki að fást við vandamálin sem lífið kallar mann til þess að leysa? Stolt fær maður af afrekum sínum og það eru engin afrek merkilegri en að hjálpa öðru fólki að lifa mannsæmandi lífi. Af uppgjöf og kaldlyndi uppsker maður skömm – skömm annarra, sannarlega, en líka skömm á sjálfum sér. Sem er hugsanlega sýnu verra.
Ekki að það séu fréttir að Miðflokkurinn sé fullur af ... fyrirgefið orðalagið ... getulausum aumingjum.
Recent Posts
See AllÞað er allt á kafi í drullu. Falla aurskriður úr fjöllunum allt í kringum okkur. Áðan rakst ég á vin minn sem var búinn að sitja fastur...
Comments