Byrjum á sjálfhverfunni og þá er hún frá: Allar götur síðan Jón Magnússon birti grein sína Ísland fyrir Íslendinga? árið 2006 hef ég verið í svo til viðstöðulausu áhyggjukasti yfir uppgangi fasista í norður Evrópu. Þróunin byrjaði auðvitað miklu fyrr – kannski var vendipunkturinn í Danmörku þegar Pia Kjærsgaard varð málsmetandi stjórnmálamaður og kannski gerðist það ennþá fyrr, fyrir minn tíma. Það hjálpaði ekki til að flest árin á eftir var ég búsettur í Finnlandi og Svíþjóð, þar sem ég fylgdist með sigrum Hinna sönnu Finna og Svíþjóðardemókratanna, þeir fyrrnefndu verandi hægri popúlistar af framsóknarskólanum en þeir síðarnefndu snyrtilegri nasistaflokkur. Og allan þennan tíma hef ég ítrekað spurt mig: Hvernig fara fasistar að því að sigra? Hverjir styðja þá – eða réttara sagt, hvers vegna styður nokkur þá? Ég veit ekki hvort ég hef komist að nokkurri niðurstöðu – kannski á raunveruleg hugsun sér heldur aldrei endanlega niðurstöðu – en ég er engu að síður tilbúinn til þess að fullyrða sumt, með eðlilegum fyrirvörum.
Fasisminn á uppsprettu sína annars vegar í vilja til yfirgangs sem fyllir upp í alla tilvist þeirra sem hann stunda, svona einsog loft fyllir upp í blöðru, og hins vegar í hræðslu og óöryggi kjósenda sem hinir fyrrnefndu og réttnefndu fasistar færa sér í nyt. Þeir sem kjósa fasistaflokka eru samkvæmt rannsóknum að jafnaði þeir sem telja sig hafa eitthvað að óttast sem enginn sinni almennilega um – sem upplifa sig að miklu eða nokkru leyti utan annarrar réttindabaráttu, eða sem hluta af tapaðri réttindabaráttu. Oft eru það hvítir, gagnkynhneigðir ómenntaðir eða iðnmenntaðir karlmenn, skuldugir og örvæntingarfullir, fólk í hverfandi byggðalögum í frumframleiðslustörfum og illa stöddum atvinnuvegum, veikir og heilsuveilir þrælar og öreigar.
Ef við ætlum að sigrast á fasismanum er mikilvægt að við horfumst í augu við að „þetta fólk“ – sem við í menntuðu millistéttinni öðrum oft alveg jafn harkalega og „þetta fólk“ aðrar útlendinga („þetta er hvítt og heimskt og atvinnulaust landsbyggðarpakk sem hlustar á Útvarp Sögu, stundar dagdrykkju og reykir filterslausar sígarettur“) – óttast oft heiminn með réttu, hræðsla þeirra er ekki úr lausu lofti gripin þótt hún bitni á þeim sem síst skyldi. Breytingar á samfélagsháttum, svo sem þær sem eiga sér stað með fjölmenningu, femínisma, umhverfisvernd og svo framvegis, hafa meiri áhrif á líf hinna úrræðalitlu, hinna ruggandi og uggandi stétta sem ekki eiga höfði að halla í ídentítetspólitíkinni (og eru gerðar afturreka þegar þær reyna). Í örvæntingu pakka þær síðan í vörn um hagsmuni þar sem þær telja séns á sigri. Það er nefnilega hægt að sigra hælisleitendur með rembingi – en það þarf breiðari samstöðu til að fella auðvaldið.
Mikilvægi þess að svara frambjóðendum fasista af festu verður sennilega ekki ofmetið. Það þarf að standa skilyrðislausan vörð um þau mannréttindi á Íslandi sem við þó búum við (það er létt að gleyma því að fulltrúar allra flokka drógu úthlutun á lóð til moskunnar í einn og hálfan áratug, að allir flokkar hafa kóað með og borið ábyrgð á stefnunni í málum hælisleitenda og flóttamanna – og sú stefna skítfellur á gæskuprófinu). Þar þarf að mæla af yfirlætislausri festu fyrir samstöðu.
Ég held síðan – og líklega er það erfiðara skref – að einnig sé rík ástæða til þess að hlusta á ótta þeirra sem kjósa fasistana, að ljá honum eyra og sýna honum skilning. Að taka hann til greina án þess að gefa eftir. Það gagnast ekki smælingjum eða launaþrælum til lengri tíma litið að kjósa yfir sig fasista, en á meðan vinstrið hlær eða hvæsir einfaldlega að áhyggjum þeirra eru engar líkur á að þeim stuðningi verði hnekkt. Því jafnvel þótt hægt væri að garga guðsóttann í kjósendur framsóknarflokksins þá sætum við uppi með bælt samfélag á eftir – sú krafa um hlýðni og pólitíska hollustu sem kennd er við rétthugsun er líka fasísk.
Við búum í samfélagi ójöfnuðar og í slíku samfélagi er auðvelt að ala á hræðslu, einmitt vegna þess að þar er margt að óttast. Hinn fasíski vilji til yfirgangs má sín lítils í samfélagi þar sem fólk býr við sæmilegt öryggi, þar nær hann einfaldlega engri fótfestu. Til þess að losna úr krónískri varnarstöðu gegn fasismanum verðum við að tryggja öryggi þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu og boða allsherjar samstöðu alþýðu – þar sem borgarbúar gera ekki lítið úr áhyggjum landsbyggðarfólks og öfugt, þar sem karlmenn gera ekki lítið úr áhyggjum kvenfólks og öfugt, þar sem innflytjendur (eða talsmenn þeirra) gera ekki lítið úr áhyggjum „heimskra hvítra karla“ og öfugt. Forsenda slíks samfélags er jöfnuður. Því ekkert annað bítur á fasismanum.