Það eru tveir mánuðir liðnir frá því ég síðast gaf skýrslu um hálfsárslanga bókmenntaviðskiptabannið sem ég setti á mitt eigið góða kyn. Auðvitað er þetta viðskiptabann undirorpið alls kyns undanþágum – fyrir það fyrsta les ég einsog allir aðrir frekar stefnulaust það sem lendir á Facebookflæðinu mínu og þar lendir helvíti mikið af bókmenntum, aðallega ljóðum, og ég les þau jafnt þótt þau séu skrifuð af fólki með typpi, á typpinu, með typpinu, einsog það teljist ekki með af því það er á tölvuskjá. Í öðru lagi er ég alls ekki fullkomlega frjáls um hvað ég les – bókmenntir eru líka vinnan mín. Fyrri mánuðinn þurfti ég meðal annars að lesa heila bók eftir sjálfan mig upphátt, tvö leikrit (bæði eftir karlmenn), og þrjá risastóra hauga af ritsmíðum – ljóðum, smásögum og fyrirlestrum – fyrir eitt námskeið þar sem ég var að kenna, annað námskeið þar sem ég þurfti að velja inn þátttakendur (og verður haldið eftir rúma viku) og fyrir ráðstefnu sem ég sótti í Finnlandi. Eftir höfunda af öllum hugsanlegum kynjum, þjóðernum og ekki síst aldri. Nema hvað. Fyrri mánuðinn las ég sem sagt bara eina einustu skáldsögu og gerði það á lúshægu tempói. Everything I never told you eftir Celeste Ng, frá Bandaríkjunum. Dóttir Lee fjölskyldunnar finnst drukknuð úti á stöðuvatni og enginn veit hvers vegna – hún byrjar svolítið einsog þriller – og svo kemur í ljós að foreldrar vita eiginlega ekkert um dóttur sína og bókin verður einhvers konar íhugun. Ég féll ekki fyrir þessu. Það er eitthvað við bandarísk ritlistarskrif, þetta er of fíníserað, búið að umskrifa það of oft og einhvern veginn einsog það sé aldrei hjólað í sjálfa hugmyndina – meira að segja átökin verða tilgerðarleg og ég finn ekki fyrir kjötinu og blóðinu. Það var þó ein sena þar sem móðirin fer í dagbækur dóttur sinnar og uppgötvar að þær eru allar tómar – dóttirin hafði sest niður og þóst skrifa í þær árum saman, raðað þeim snyrtilega í hillurnar, merkt þær með dagsetningum, en aldrei skrifað neitt. Sem var þrúgandi. Og svo voru einhverjar pælingar um merkingu þess að vera af asískum ættum í Bandaríkjunum (einsog pabbinn í fjölskyldunni) – en svo sem ekkert nýtt. Seinni mánuðinn las ég svolítið meira fyrir sjálfan mig. Þar má fyrsta nefna En Plastig Trea eftir Petru Hulova – hún er tékknesk og ég las bókina sem sagt á sænsku, titillinn myndi útleggjast Plastkennd þriggja herbergja íbúð eða álíka. Bókin er eiginlega bara einræða vændiskonu sem býr í téðri íbúð. Hulova fetar einhverja ótrúlega fína slóð milli þess að fegra starfið og fordæma það, sýna það „einsog það er“ (eða einsog maður ímyndar sér að það geti verið). Merkilega mikið af reiðinni (ekkert pun) í bókinni (sem er góður skerfur af) vísar annars út úr íbúðinni og út í samfélagið og margar kaldranalegustu og skörpustu einræðurnar snúa að stöðu vændiskonunnar sem neytanda í neyslukapphlaupinu (þegar hún fer í tískubúðirnar að eyða peningunum). Mjög gott. Það væri líklega rangt að segja að ég hafi lesið Gone with the Wind eftir VANESSU PLACE (altso, ekki Margaret Mitchell). Verkið, sem er einhvers konar konseptljóð, og er stundum bara kallað GWTW, gekk út að tweeta allri skáldsögunni (eftir Margaret Mitchell). Vanessa, sem er bandarískur lögfræðingur og konseptskáld sem hefur aðallega unnið með texta um kynferðisofbeldi, byrjaði á þessu árið 2009 og lauk því fyrir svona tveimur vikum. Þetta vakti enga sérstaka athygli lengst af en einhvern tíma fyrr í sumar, eftir að Kenny Goldsmith var húðskammaður fyrir að lesa rímixaða krufningarskýrslu Michaels Brown sem sitt eigið ljóð, lenti hún í pólitísku hakkavélinni – var rekin úr skipulagningarnefnd fyrir AWP ráðstefnuna, afbókuð á upplestra og hátíðir, og almennt úthúðað á internetinu. Vegna þess sem sagt að bókin er alveg hryllilega rasísk og að Vanessa sé í verkinu að endurfremja rasískan gjörning. Ástandið varð nógu alvarlegt til þess að NCAC (National Coalition Against Censorship) sá sér ástæðu til þess að gera athugasemdir við meðferðina. Hvað um það, svo lauk þessu og fjallað var um Vanessu – sem er svo nístandi gáfuð og riskí að ég svitna bara af því að hugsa um hana – í Dismagazine , þar sem hún sagði meðal annars: [GWTW] is in part about social media, and the way social media works,” says Place. “And social media is an aesthetic medium. What happens when you have overt antagonism or antagonistic content, on social media? On the surface, it’s so much based on affinity, and liking, and following, and a sense of community. But at the same token, the only way to consistently affirm your community is by having something to rally against. And then we can find out who our friends really are. It’s predicated on [the fact that] we all think the same thing. We don’t go to social media to be confronted by things we don’t understand or don’t agree with, which is maybe why we go to museums, or conferences, or universities. Do we really want museums and galleries, especially museums, to be curating based upon what people know they already like? Annars er alveg óhætt að mæla með allri greininni í Dismagazine. En ég las auðvitað ekki öll tweetin heldur las ég bara brot og brot og óhemju af greinum um gjörninginn þar sem hann var krufinn og (fyrst og fremst) fordæmdur. Og ég hef aldrei lesið Gone with the Wind eftir Margaret Mitchell, hef ekki einu sinni séð myndina. Bókin sem ég las best þennan mánuðinn var Vitsvit eftir Athenu Farrokhzad, sem er sænsk af írönskum ættum. Af því ég er að þýða hana. Og þá heitir hún Hvítsvíta – sem er ekki fullnægjandi þýðing en það eru engar fullnægjandi þýðingar á neinu. Hér er lítið ófullnægjandi sýnidæmi: Faðir minn sagði: Væri hægt að keppa í píslarvætti myndi móðir þín gera allt til að tapa Móðir mín sagði: Hjartað er ekki einsog hnéð sem má beygja að vild Faðir minn sagði: Jafnvel haninn sem ekki galar fær að sjá sólarupprásina Móðir mín sagði: En ef hænan verpir ekki verður hún borin fram í kvöldverð Þá las ég Landið sem ekki er til sem er úrval ljóða eftir Edith Södergran í þýðingu Njarðar P. Njarðvík. Ég hef ótrúlega lítið lesið Södergran þótt ég eigi einhvers staðar heildarsafnið á sænsku en það er samt skrítið að lesa þetta á íslensku – ekki vont, bara skrítið, mér sýnist Njörður gera þetta vel og af vandvirkni. En stundum finnst mér líka einsog ég búi einfaldlega ekki yfir nægri hugarró til að lesa Södergran einsog hún á skilið. Ég hneigist til þeirra ljóða sem búa að orðagnótt og það eru nokkur þannig þarna, nokkrir óðir sálmar – viðkvæmu ljóðin höfða síður til mín. Eða kannski höfða þau síðar til mín. En eitthvað einsog þetta er mjög gott: Afsakið þumalinn. Í gær keypti ég mér svo tvær ljóðabækur í Stokkhólmi (eiginlega þrjár, en sú þriðja bíður haustsins, eða ein og hálf gerir það). Det här är hjärtat er nýjasta ljóðabók hinnar sænsku Bodil Malmsten og sú fyrsta í 22 ár. Bókin fjallar um dauðann – og er stórkostleg, sérstök tegund af kímnisorgarblöndu. Snöggþýtt dæmi. Mér er svo illt Hversu illt?
Á skalanum einn til tíu
Hversu illt?
Hvers illt er þér
núna? Það er sorgarþjálfinn í Ropsten
alla óhelga miðvikudaga
fyrir 15 þúsund kall á tímann Maður tekur leið 55 á
lokastoppistöðina
Ropsten Hjarta mitt brestur
Mér er svo illt — Sársaukinn situr í heilanum
segir sorgarþjálfinn
Ekki í hjartanu
Sársauki er bara
tilfinningin Hugsaðu um eitthvað annað
Andaðu
Einbeittu þér að einhverju utan við sjálfa þig
Sæstu við ástandið Manneskjan mín er dauð
Ég vil vera dauð — Settu það í orð
segir sorgarþjálfinn
í Ropsten
í Ropsten
í Ropsten Gráttu!
Láttu það vaða
Talaðu um það
og þá líður þér betur Mér líður verr
Ég vil fara heim Síðasta ljóðabókin, sem ég las bara hálfa af hákynjafræðilegum ástæðum, er Nervsystem, safn af ljóðum ungra danskra skálda í sænskri þýðingu. Strákarnir bíða fram í október – en ég las ljóð eftir Maju Lee Langvad (sem ég hef þýtt og þekki vel og dýrka), Amalie Smith, Julie Steen Knudsen, Louise Juhl Dalsgaard, Asta Olivia Nordenhof og Olgu Ravn. Við fyrsta lestur hreifst ég mest af Knudsen og Nordenhof en ég held að það geti líka verið vegna þess að þær séu aðgengilegastar við fyrstu sýn. Ég er að spá í að redda mér eitthvað af þessum ljóðum á upprunamálinu og þýða og læt því vera að birta nein dæmi núna. Svo las ég líka Ljósmóðurina eftir Kötju Kettu frá Finnlandi – sem ég á að skrifa um fyrir TMM og kemur út í haust. Eða ég á að skrifa um Kötju, sem er að koma á bókmenntahátíð (hvar ég verð líklega fjarri góðu gamni sjálfur). Ég hugsa að ég segi þess vegna sem minnst um bókina núna, nema að tungumálið sem hún er skrifuð á er ótrúlega magnað og þýðing Sigga Karls er brjálæðislega góð, einhver besta þýðing sem ég hef lesið lengi. Hér er skýrsla fyrir fyrsta mánuðinn og hér fyrir annan .
Ísafjörður
Yfirleitt er þrennt nefnt til sögunnar þegar landsbyggðarflótti er annars vegar. Í fyrsta lagi er því haldið fram að lífið í smábæjum sé einhæft líf og þar sé lítið við að vera. Í öðru lagi að þar sé lítið um vel launaða atvinnu (ergo: öll álverin sem hið opinbera vill prumpa út um allt land). Í þriðja lagi að þar sé lítið um atvinnu fyrir menntafólk. Ég er ekki viss um að þetta sé satt – í það minnsta er það ekki alveg sjálfgefið. En fólksfækkunin er samt staðreynd. Ég er frá Ísafirði – við eigum engin álver, eða neitt sambærilegt – og þar hefur mannfjöldaþróunin verið svona: 1970: 3.005 íbúar
1980: 3.352 íbúar – 11% fjölgun (þjóðinni fjölgaði um 12%)
1990: 3.498 íbúar – 4,3% fjölgun (þjóðinni fjölgaði um 11,6%)
2000: 3.138 íbúar – 10,3% fækkun (þjóðinni fjölgaði um 9,1%)
2010: 2.909 íbúar – 7,3 % fækkun (þjóðinni fjölgaði um 13,8)
2015: 2.719 íbúar – 6,5% fækkun (á fimm árum – þjóðinni fjölgaði um 3,6%) Á níunda áratugnum var gríðarleg verðmætasköpun á Ísafirði – mikið um vel launaða vinnu – en lítið um það sem maður gæti kallað „menningu“, að minnsta kosti í borgaralega skilningnum. Það var mikið fyllerí og böll og áreiðanlega margt við að vera annars – og að alast upp á þessum tíma voru hálfgerð forréttindi, krakkar gengu sjálfala um bæinn í stórum hópum og léku sér í rústum af gömlum skipum og hálfbyggðum nýjum húsum. En annars var Ísafjörður held ég svona smábær einsog maður sér í bandarískum bíómyndum – einhæft atvinnulíf og unga fólkið dreymir um að komast út í heim. Eða í það minnsta til Reykjavíkur (hljómsveitin Reykjavík! er einmitt eftir þessum draumi, með upphrópunarmerki og öllu). Það var svipað uppi á teningnum framan af tíunda áratugnum – ég rifjaði það upp nýlega að þegar ég gekk í menntaskóla áttu svo að segja allir bíl sem á því höfðu á annað borð áhuga, og greiddu hann út í hönd, enda sóst eftir skólafólki (og öllu fólki) í vinnu. Bæjarrónarnir þurrkuðu sig alla jafna upp í nokkra daga annað veifið til að geta unnið og þannig sparað fyrir næsta túr. En frystihúsin byrjuðu að fara á hausinn og um miðjan áratuginn settu snjóflóðin strik í reikninginn – fyrst fór skíðasvæðið og sumarbústaðabyggðin á Ísafirði og einn dó, svo komu snjóflóðin í Súðavík og á Flateyri þar sem létust vel á fjórða tug í viðbót. Ég man árin fram undir aldamót sem kæfandi og vonlausan tíma – einsog allir vildu bara komast í burtu. Árið 1999 kom Bónus – ég hef svo sem ekki vit á því en mér er sagt það hafi munað nokkru um matarverð. Árið 2003 opnaði Langi Mangi – fyrsta alvöru kaffihúsið á Ísafirði. Sama ár var tónlistarhátíðin Við Djúpið haldin í fyrsta sinn. Ári síðar byrjaði Aldrei fór ég suður og þá var líka í fyrsta sinn haldin leiklistarhátíðin Leikur einn, sem ári síðar fékk nafnið Act Alone. Mýrarboltamótið hefur verið haldið frá 2006, sama ár og Háskólasetrið byrjaði að starfa. Árið 2008 var loksins lokið við að malbika veginn um Ísafjarðardjúp, sem hafði verið tekin í notkun árið 1975. Þegar konan mín keyrði hann fyrst, tveimur árum fyrr, gat hún ekki líkt honum við annað sem hún þekkti en fjallvegi í Afganistan. Internetið kom. Ég fékk það 1995. Því verður eiginlega ekki lýst hversu róttæk breyting það er, þegar maður býr á hjara veraldar. Þegar ég var sautján ára opnaðist mér gluggi og út úr glugganum spratt heimur – og ekki síst bókmenntir, ekki síst ljóð. En hvað um það. Í dag eru milljón veitingastaðir, tónlistarhátíðir og guð veit ekki hvað á Ísafirði og í nágrannasveitum. Viðburðirnir hlaðast að vísu mest á bjartari hluta ársins en veitingastaðirnir eru flestir opnir yfir vetrartímann, þeim fylgja smærri tónleikar og það er hægt að fara í Skúrinn til að horfa á leiki og það er hægt að spila Pub Quiz og svona – það er í öllu falli ekkert sambærilegt við hvernig það var þegar ég var að alast upp, þegar Sjallinn var bara opinn fyrir fyllerí á helgum en opnaði svo sem veitingastaður/kaffihús (og einsog einhver nefndi þegar ég var í menntaskóla var eitthvað pínulítið ósmekklegt að éta úr sér þynnkuna sitjandi í sama sófa og maður horfði á fólk gubba, kela og putta hvert annað í kvöldið áður). Það mæta áreiðanlega færri í bíó núna en áður – það er eiginlega það eina – og það er búið að loka vídeóleigunum. Skítt með vídeóleigurnar en bíóið má aldrei deyja. Og kannski gubbar fólk minna á almannafæri. Puttar hvert annað bara heima. Sennilega eru tekjurnar lægri. Mér finnst líklegt að menntunarstigið sé hærra. Hvað um það. Ég er að reyna að koma orðum að einhverri mótsögn hérna; fólki fækkar á sama tíma og mér finnst sjálfum einsog það hafi aldrei verið jafn aðlaðandi að búa á Ísafirði. Ekki bara Ísafirði sem slíkum, reyndar, heldur smábæjum almennt – það er ódýrara, lífið er einfaldara (maður er fljótari að sinna erindum, skjótast í heimsókn o.s.frv.). Og það er gerlegt án þess að missa af öllum heiminum (eiginlega væri óskandi að maður gæti misst aðeins meira af honum). Vöruúrvalið er kannski ekki það sama og í sérvöruverslununum í Reykjavík – en ég lendi voða lítið í vandræðum, þótt mér finnist gaman að elda og þá stundum „framandi“ mat (og kem oft við í sérvöruverslununum þegar ég á leið um borgina og birgi mig upp á því sem mig vantar). Samanborið við að búa í úthverfi – meira að segja idyllísku úthverfi einsog hér í Västerås eða norður í Oulu – hefur smábærinn alltaf vinninginn. Það er svo miklu meira fyrirtæki að færa alla fjölskylduna frá a til b – jafnvel þótt maður sé á bíl. Og þótt ég kysi kannski heldur stórborg – Berlín eða Helsinki – ef við værum barnlaus, þá, já þá erum við ekki barnlaus. Ég veit það ekki. Kannski er þetta bara eitthvað sem ég hef bitið í mig. Smábæjernishyggja. Ég átta mig á því að ég nýt ákveðinna forréttinda vegna starfs míns – ég get tekið það með mér hvert sem er – en ég þarf líka að ferðast mikið og ég gæti alveg þegið millilandaflugvöll sem væri nær en í sjö klukkustunda akstursfjarlægð (eða dálítið áreiðanlegra og ódýrara innanlandsflug). En ef maður ætlar að búa á þeim útnára sem Ísland er, þá er allt eins gott að fara alla leið. Það verður hugsanlega meira moj fyrir Nödju að redda sér vinnu sem hana langar að vinna – hún er komin í hlutastarf sem frönskukennari í vetur, en það er bara hlutastarf. Sem stendur tökum við því sem áskorun frekar en ókosti. En fólki sem sagt fækkar. Kannski er engin sérstök ástæða til að hafa af því áhyggjur. Ég er bara ekki viss. Ísafjörður leggst ekkert í eyði í minni lífstíð – og vandamálið er varla í sjálfu sér að þar sé færra fólk, heldur það einhæfa og fátæklega líf sem á að fylgja fámenninu. Þegar það er ekki raunin, þegar lífið verður þvert á móti ríkulegra – þá skiptir kannski ekki neinu máli þótt eitthvað af fólki flytji í burtu. Eða ég veit það ekki.
Lokkur úr hári Schillers
Fyrir þremur árum síðan kom ég ásamt hópi norrænna höfunda til smábæjarins Marbach í Þýskalandi, sem er meðal annars frægur fyrir að vera fæðingarstaður ljóðskáldsins Friedrichs Schiller. Þar í grenndinni er að finna mikið safn um Schiller sem og þýsku bókmenntaarkífurnar og safn sem þeim fylgir – Safn nútímabókmennta – þar sem má skoða frumritin af Réttarhöldunum eftir Kafka og Berlin Alexanderplatz eftir Döblin, auk fleiri verka. Þar eru líka dauðagrímur af frægu fólki – t.d. af nafna Schillers, Nietszche. Arkífurnar sjálfar eru baksviðs, fyrst og fremst ætlaðar fræðimönnum. Þangað fengum við líka að fara, af því við erum sérstök, og þar fengum að handfjatla alls kyns merkilega gripi – til dæmis smásögu eftir Kafka, Der Riesenmaulwurf. Á Schillersafninu handan við grasflötina sáum við fötin hans Schillers (hann var mjög lágvaxinn) og lokk úr hári hans – en hið vinsæla ljóðskáld sendi gjarna æstustu kvenkyns aðdáendum sínum slíkan dýrgrip að gjöf. Sem sagt. Frumrit að skáldverkum. Dauðagrímur. Föt skálds og lokkur úr hári hans. * * * Mér hefur lengi þótt hugmyndin um frumritið – eða eintakið – mjög heillandi, sem og þær hefðir og venjur sem skapast í kringum það – hvað við upplifum sem orginalt eða einstakt. Íslenskan á ekkert nógu gott orð yfir autencitet – eitthvað sem er ekta, ekki tilbúið, ektleiki. Sú hugmynd er líka alveg mögnuð – í Víetnam eru allar túristaferðir auglýstar með orðinu authentic og mér sýnist svipað uppi á teningnum á Íslandi. Á meðan staðreyndin er auðvitað sú að Dunkin’ Donuts í Hafnarstræti eru ekkert minna authentic íslenskir en eitthvað lífrænt gistihúsabýli útálandi. Kannski er stærsti sannleikurinn um okkur eitthvað mjög plebbalegt og mjög fjarri því sem við myndum segja um okkur ef við fengjum bara að ráða sjálf. En eintakið. Eintakið er gætt ektleika en tilvist þess er brigðul – eintakið getur eyðilagst. Þegar ég var barn eyðilagði bróðir minn einu sinni fyrir mér hatt – aflagaði hann. Foreldrar okkar ætluðu að bæta mér þetta upp með því að gefa mér hattinn hans, sem var næstum alveg eins. En það hefði ekki skipt neinu máli þótt hann hefði verið alveg nákvæmlega eins – hatturinn minn var ónýtur og hann kæmi aldrei aftur. Það er hefð fyrir því í myndlist að búa til skort svo hvert verk sé einstakt eða einstakara. Þannig eru flest myndlistarverk gerð í einungis einu eintaki – skemmist það er listaverkið horfið. Önnur eru fjöldaframleidd í takmörkuðu upplagi. Víða eru lög um það hversu mikið megi fjölfalda verk áður en það hættir að vera „einstakt“ – og hættir að njóta lagalegrar verndar sem slíkt. Þannig lög eru ekki í gildi á Íslandi, það ég viti, en í Bandaríkjunum er miðað við töluna 200. Ef þú framleiðir meira en 200 ertu farinn að búa til vöru sem lýtur öðrum reglum – litið er svo á að eintakið þarfnist ekki lengur sérstakrar verndar. * * * Okkur hryllir við hugmyndinni um bókabrennur, þær eru tákn um ægilegustu ritskoðun og kúgun sem fyrirfinnst. Og sannarlega var sú staða eitt sinn uppi að þær gátu kostað mannkyn mikil gæði. Við gleymum ekki bókasafnsbrunanum í Alexandríu svo glatt. Hins vegar eru t.d. bókabrennur nasista og allar aðrar bókabrennur eftir að fjöldaframleiðsla bóka hófst líklega fyrst og fremst hálf kjánalegar – og á stafrænni öld beinlínis sprenghlægilegar. Maður eyðir nefnilega ekki bók svo glatt. Dæmisaga. Fyrir mörgum árum síðan bjó ég með besta vini mínum í Berlín og hann ákvað að ljóðabókin sem hann var að skrifa væri ekki nógu góð. Þetta var honum nokkuð áfall en hann ákvað að byrja upp á nýtt með hreint borð. Hann eyddi öllum skjölum af tölvunni sinni, náði síðan í útgáfuna sem hann hafði prentað út og brenndi hana síðu fyrir síðu í stofunni okkar, sem fylltist af reyk og við vorum báðir hóstandi og rauðeygir áður en yfir lauk – líklega megum við þakka fyrir að hafa ekki brennt ofan af okkur hverfið. Þegar hann lokið sér af varð ég að tilkynna honum að ég ætti líka eintök af þessum ljóðum. Ekki væri nóg með að þau væru í tölvunni minni í Berlín, heldur væri eintak af þeim í tölvu móður minnar á Ísafirði, útprent einhvers staðar í dótinu mínu þar, og geisladiskur sem hann hafði sent mér þar sem hann hafði lesið flest ljóðin inn – mp3 af þeim upplestrum væri að finna í það minnsta þremur tölvum, kannski fleirum. Ég gæti ekki einu sinni með góðu móti eytt þeim, þótt ég vildi. Hér þyrfti engan Max Brod, þetta sæi meira og minna um sig sjálft. Og það þarf ekki tölvuöld til. Í Sovétríkjunum var reynt að banna bækur. Það var reynt í Kína. Það hefur verið reynt úti um allt – en frá því að fjöldaframleiðslan hófst hefur það mér vitanlega aldrei tekist nema að litlu leyti. Bannaðar bækur fá oft miklu meiri dreifingu en þær sem eru leyfðar. * * * Úr Der Riesenmaulwurf eftir Franz Kafka. Nema hvað. Eintök, frumrit. Það er hægt að eyðileggja frumrit – svona einsog það er hægt að svíða lokkinn úr hári Schillers. Bókmenntaverk eru hins vegar ekki frumritin af sjálfum sér. Öxar við ána breytist ekkert þótt við syngjum upp í rassinn á Stjána. Stundum eru gerðar breytingar á bókum í útgáfusögu þeirra – einsog t.d. þegar Íslendingasögurnar eru gefnar út með nútímastafsetningu, eða þegar biblían er endurþýdd svo hún samræmist betur ríkjandi siðferði. Stundum er líka spólað til baka því breytingarnar þykja svik við frumverkið, sérstaklega ef um er að ræða nútímabókmenntir og breytingarnar voru gerðar í trássi við vilja (lifandi) höfundar. Breytingar af þessu tagi þurrka hins vegar sjaldnast út frumverkið, koma ekki í staðinn fyrir það – nema svo illa vilji til að frumverkið hafi aldrei komið út nema í mýflugumynd og öll eintök af því gufi upp eða gleymist. Það á í sjálfu sér auðvitað við um mörg verk. Á þann hátt „hverfa“ flestar bækur – ekki á bókabrennum heldur ofan í gleymskuhyl, svo minnir á orð Rays Bradburys, höfundar Fahrenheit 451, um að það sé verri glæpur að lesa ekki bækur en að brenna þær. En það eru ekki þær bækur sem við leggjum okkur fram um að vernda – við erum eiginlega alveg sátt við að þær hverfi bara, þá er meira pláss fyrir nýtt efni – og við sinnum því skammarlega lítið að hjálpa lifandi rithöfundum að sleppa undan ritskoðun, þar sem raunverulega hættan liggur. Það er miklu auðveldara að koma í veg fyrir að tiltekin bók sé skrifuð en að útrýma henni þegar hún er komin út. * * * Mynd: Ingvar Högni Ragnarsson. Fyrir nokkrum árum fengu þrír listamenn fé frá útlenskri barónessu og keyptu mikla og stóra bók eftir Eggert Pétursson sem hafði að geyma skýringamyndir af flóru Íslands – málverk sem mörgum þykja miklar gersemar. Bókin sem var nú kölluð upp á latínu Flora Islandica og seld ríku fólki og/eða forföllnum og mjög sparsömum aðdáendum – verðið var í öllu falli ekkert fyrir verkalýðsstéttina (annað en upprunalega handbókin sem myndirnar voru gerðar fyrir). Listamennirnir tóku bókina – eitt eintak af 500 sem voru gefin út – og sulluðu í hana matarleifum, í anda seyðfirska listamannsins Dieters Roth sem vann mikið með bæði bókverk og rotnandi matvæli. Þetta verk, sem listamennirnir kölluðu Fallegustu bók í heimi, sýndu þeir á sýningunni Koddu. Allt varð brjálað – Nýló fjarlægði verkið, það var sett upp aftur annars staðar og bla bla bla. Þessari narratífu er hægt að gúgla ef maður hefur búið í helli síðustu árin. Þegar ég gaf út ljóðabálkinn Súblímatvatn árið 2007 – sem er rímix á Tímanum og vatninu eftir Stein Steinarr, mikið til út frá aðferðum Oulipista – grunaði mig ekki að hann hefði farið í taugarnar á neinum. Það var sannarlega heldur ekki ætlunin – það hvarflaði ekki einu sinni að mér að það væri hægt að pirra fólk með þessu, og kom ekki á daginn fyrren mörgum árum síðar að nokkrum hefði sárnað. Þá var ég með stuttu millibili bæði konfronteraður fyrir að hafa unnið þessi „helgispjöll“ og fékk veður af almennari hneykslun í gegnum þriðja aðila (hún hefur samt varla verið mjög almenn, þá hefði ég nú orðið var við hana á sínum tíma – og þetta er þrátt fyrir allt úr ljóðabók, sem seldist reyndar ágætlega en ekkert í líkingu við neinar skáldsögur, Ich habe nie ein Schiller gewesen). * * * En hvað þá – hvaðan kemur reiðin? Fólk tengist stundum listaverki djúpum persónulegum böndum og þar með hættir verkið að vera jarðneskt fyrir þeim og verður þess í stað heilagur gripur. Fólki finnst það hafa komist í tæri við guðdóminn – finnst listaverkið beinlínis fullkomið og að allar „breytingar“ á því séu eins konar árás, kannski á það sjálft, tilfinningar þeirra, kannski á listina sem slíka, kannski á guðdóminn og fullkomleikann. Eitthvað sem var hreint og fagurt er ekki hreint og fagurt lengur – svona einsog maður sé neyddur til að hlusta á einhvern spila Led Zeppelin falskt og illa og klappa fyrir því á eftir. Eða einhver helli meinlausum matarlit í Strokk. Hinar raunverulegu afleiðingar skipta þá engu máli – skaðinn skeður í hugarheimum eða hjartanu. Því auðvitað stendur bálkurinn Tíminn og vatnið ósnertur eftir Súblimatvatn – rétt einsog málverk Eggerts Péturssonar af flóru Íslands eru ósnert eftir Fallegustu bók í heimi. Meira að segja Stairway to Heaven er enn til – og hefur þó engu listaverki verið eins ægilega misþyrmt í gegnum tíðina. Flora Islandica er til í 499 eintökum og einhvers staðar eru meira að segja til af málverkunum frumritin og afrit í Flóru Íslands, sem er til á öðru hverju heimili í landinu. Flora Islandica lifir þetta allt af. * * *
Wilson Bentley hét maður fæddur 1865 sem varð frægur fyrir að vera fyrstur til að ná almennilegum ljósmyndum af snjókornum. Hann ber ábyrgð á þeirri mynd sem við höfum í höfðinu af útliti snjókorna – sem symmetrískum undrum. Nokkrar mynda hans má sjá hér að ofan. Einhverjum árum eftir að hann varð frægur fyrir myndir sínar kom annar maður á sjónarsviðið, Gustav Hellmann. Hann reyndi hvað hann gat að ná svipuðum myndum og Bentley en tókst aldrei – snjókornin hans voru alltaf brotin og aflaga, aldrei fullkomin. Hann konfronteraði Bentley með þetta og komst að því að Bentley hafði ekki bara manipúlerað myndirnar sem hann tók heldur líka sjálf snjókornin – lagað þau til, potað í þau með verkfærum. Fullkomin snjókorn eru afar sjaldséð. Bentley leit hins vegar á sig sem natúralista og svaraði þannig fyrir sig að fullkomnunin væri hin eina rétta mynd snjókornanna, brotin og aflögunin væru afbrigðileg, og nær öll snjókorn væru þannig undantekning frá reglunni (sem væri fegurðin). Þótt vísindin hafi á endanum tekið undir með Hellmann – því einsog annars staðar í lífinu er það hið afbrigðilega sem er satt, mergðin, en ekki platónska frummyndin, lífið er skítugt og marið – þá má segja að Bentley hafi unnið fagurfræðilega slaginn. Snjókorn eru fullkomin – tákn fyrir margbreytileika hins fullkomna, symmetrísk og skammær, en alltaf heil, aldrei brotin. * * * Og Schiller. Hárið af Schiller. Friedrich. Dauðagríma Nietzsches.
Réttarhöldin eru aldrei gefin út einsog Kafka gekk frá þeim. Hann gekk náttúrulega heldur ekki frá þeim – ekki til útgáfu, bara gekk í burtu frá þeim. Og það var brot á sæmdarrétti hans að gefa verk hans út. Hann vildi þetta aldrei. Gott fyrir mig en glæpur gegn Franz. En Schiller. Friedrich. Hárið af Schiller. Sem gerði einhvern tíma einhverja stelpu vitlausa af þrá. Gerði ótal stelpur vitlausar af þrá. Lokkurinn var tákn um eitthvað – að hún væri sérstök. En hvað ef hún var ekki sérstök, hvað ef önnur hver fjósakelling í Þýskalandi fékk líka lokk. Hvað ef hárið af Schiller var sjálft ekkert sérstakt?
Ungu ljóðskáldin og norðurlöndin
Nýlega kom út á sænsku safnrit með ljóðum ungra danskra skálda, sem hafa vakið athygli, og upp úr því spratt umræða um stöðu ungra ljóðskálda í Svíþjóð – þar sem stóru forlögin eru skömmuð fyrir að sinna ekki yngri ljóðskáldum. Þetta kallast auðvitað að einhverju leyti á við stöðuna á Íslandi, sem verið var að ræða á dögunum, um launasjóðinn og unga fólkið sem þar er meira og meira jaðarsett. Og það fer ekkert á milli mála að danska senan er mjög sterk. En það virðist mér sænska senan vera líka – í öllu falli hafa sprottið upp úr þessum debatt spurningar sem skipta máli, um jaðar og miðju, kyn og kynþátt, um „kúltúrbörn“ (fólk sem á foreldra í listageiranum) vs. óinnvígða, avant-garde útgáfu vs. bransabókaútgáfu, frelsi og helsi, Svíþjóð vs. Danmörk. Eitt sló mig sérstaklega. Þegar verið er að tala um ung ljóðskáld er aðallega verið að tala um „nittitalister“. Það er að segja ljóðskáld fædd á tíunda áratugi síðustu aldar. Sem væru þá í mesta lagi 25 ára. Ég hangi ekki jafn mikið í Reykjavík og ég gerði einu sinni – en ég man ekki eftir einu einasta útgefnu ljóðskáldi á Íslandi sem á afmælisdag eftir 1. janúar 1990. (Nú fór ég og sló þessu upp. Það eru tveir höfundar hjá Meðgönguljóðum – Krista Alexandersdóttir og Kristófer Páll Viðarsson, bæði fædd 1992 – hverra ljóð ég hef ekki lesið; en ég styrkti þau á Karolinafund um 100 evrópskar og fæ þá þessar bækur í laun ef verkefnið fjármagnast – og fleira, vel að merkja, þetta er góður díll – ég efast um að það sé nokkuð að gerast annars staðar). En í Danmörku og Svíþjóð er vel að merkja ekki verið að tala um litlu forlögin (rök „kúltúrbarnsins“ Jacks Hildén, sem er sonur Bengts Ohlsson, fæddur 1989 og inni á stóru forlagi, voru að avantgardið væri frjálsara án forlaganna) – það er verið að tala um stóru forlögin. Og það bara slær mig. Hversu oft gefa stóru forlögin („atvinnuforlögin“) á Íslandi út nýjar ljóðabækur eftir unga höfunda? Hefur það gerst frá því Kristín Svava kom út? Tvöþúsundogsjö, það annars hedóníska ár. Hvað þá reyndar að það komi út þýðingar á ljóðum ungra skálda frá nágrannalöndunum (fyrir utan Yahya auðvitað). Hér eru annars greinarnar fyrir þá sem lesa sænsku: Svenska förlag sviker de unga poeterna – Anna Axfors Det är inte synd um unga svenska poeter – Jack Hildén Poeter stöpta i samma form – Kristian Lundberg Nu kan vi göra vad vi vill – Sara Abdollahi og Anna Axfors
Lifibrauð til umhugsunar: Starfslaun og nýliðun í bókmenntum
Í Morgunblaðinu á dögunum birtist umfjöllun eftir Kjartan Má Ómarsson þar sem fram kom að á árunum 1995-2004 hafi starfslaunasjóður rithöfunda úthlutað 216 mánuðum til höfunda undir þrítugu en næstu tíu ár þar á eftir hafi sami hópur einungis fengið 39 mánuði. Þetta eru í sjálfu sér ekki nýjar fréttir – ég held að „Nýhilkynslóðin“ hafi kvabbað sig vitlausa á þessu, þótt staðan hafi í sjálfu sér verið ögn skárri 2005-2009 þegar „yngri höfundum“ var úthlutað 24 mánuðum, en hún var 2010 – 2014 þegar sama hópi var einungis úthlutað 15 mánuðum (og ekki krónu fyrsta og síðasta árið). Árið 2015 var svo 6 mánuðum úthlutað. Ég lét hafa eftir mér í þessari grein að þjóð sem ekki sinnti yngri höfundum, fagurbókmenntaþýðingum og menningarpressu væri þjóð hvers bókmenning væri í hættu – og þá skiptir litlu hversu sterkt við „stöndum“ í augnablikinu – rétt einsog við getum átt atvinnumenn í fótbolta úti um allar trissur og verið með á alþjóðlegum mótum, ef við hunsum grunnstoðirnar er stutt í að allt heila klabbið hrynji um sjálft sig. Við erum 350 þúsund sálir og það er eiginlega kraftaverk að íslensk menning skuli til sem nokkurn veginn sjálfstætt fyrirbæri – hún er það ekki og verður ekki nema fyrir stuðning ríkisins og einhvers konar þrjósku fólksins. Það er mikilvægt að þeim peningum sem eytt er í menningu sé eytt af skynsemi og skipting þeirra taki mið af því að við ætlum ekki bara að vera hérna næstu þrjú árin heldur næstu aldirnar og vonandi lengur. Og sú meining mín stendur alveg jafnt þótt öllum sé ljóst að það vanti meiri peninga – ef það þarf að herða sultarólina þá þurfa allir að herða hana jafnt. En þjóðin stækkar og þótt hún sé enn lítil er rétt að menningarlífið stækki til samræmis – og það gerir það auðvitað að einhverju leyti. Við erum heilum fimmtungi fleiri en við vorum árið 1995. * * * Þegar Auður Jóns, Andri Snær, Steinar Bragi, Gerður Kristný, Mikael Torfason, Guðrún Eva og allir hinir höfundarnir sem voru undir þrítugu og launaðir á fyrra samanburðartímabilinu komu fram á sjónarsviðið gerðist það með dálitlum látum – að minnsta kosti upplifði ég það þannig, sem unglingur. Auður var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir sína fyrstu bók, Stjórnlausa lukku, önnur bók Andra var Bónusljóð – sem seldist í guðveithvaðstóru upplagi – og kom út á sama tíma og Engar smá sögur, sem var gefin út af Máli og menningu í sérstakri seríu sem var tileinkuð ungum höfundum – þar var Kristján B. Jónasson, síðar ritstjóri á Forlaginu og útgáfustjóri Crymogeu, með skáldsöguna Snákabana og Gerður Kristný með sína aðra bók, Regnboga í póstinum og ritröðinni var haldið áfram a.m.k. árið eftir með skáldsögunni Óskaslóðin eftir Kristjón Kormák. Hugsanlega voru líka fleiri bækur þarna sem ég er búinn að gleyma. Kristjón var 21 þegar bókin kom, Guðrún Eva var 22 með Á meðan hann horfir á þig ertu María Mey (og vakti talsverða athygli). Fölskum fugli Mikaels Torfasonar var fylgt úr hlaði með lúðrablæstri – Hallgrímur Helgason vígði hann fljótlega sem mikilvægasta höfund íslensks samtíma – „besta íslenska skáldsaga sem ég hef lesið í mörg ár“ – Huldar Breiðfjörð kom fram 26 ára með Góða íslendinga, sem fékk feykimikla fjölmiðlaumfjöllun. Þegar ég hitti Steinar Braga fyrst fór ég á hnén og seldi honum bók – ég beinlínis tignaði hann. Þá hefur hann verið svona 26-27 ára (og ég þremur árum yngri). Hann var dularfulla götuskáldið sem seldi bækur sínar á börum, maðurinn á bakvið Augnkúluvökva og þarna var litli ég að selja honum bók á bar. Að undanskildum Augnkúluvökva, sem Nykur gaf út, og Bónusljóðum, sem Bónus gaf út, komu þessar bækur allar út hjá stærri forlögum. Því fylgir augljóslega ákveðið kúltúrkapítal sem maður getur tekið með sér í launasjóðinn, fyrir utan tilnefningar, dóma og almenna athygli. Mér sýnist að frá og með Nýhil gefi flestir ungir höfundar mestmegnis út hjá smærri forlögum – núorðið mest Tungli og Meðgönguljóðum. Sirka helmingur Nýhilhöfunda gaf reyndar líka út hjá M&M eða Bjarti. Meðgönguljóðabækurnar eru augljóslega mjög stuttar og Tunglbækurnar ekki fáanlegar nema í litlu upplagi og bara seldar í útgáfuhófinu – hvorugt er sérlega hentugt fyrir höfunda sem eru að reyna að koma ár sinni fyrir borð. En á þessu eru svo auðvitað undantekningar. Hjá JPV kom Sverrir Norland með Kvíðasnillingana 28 ára, Kári Tulinius með Píslarvotta án hæfileika 29 ára og Hildur Knútsdóttir Slátt 27 ára, Bjartur gaf út Þar sem vindarnir hvílast eftir Dag Hjartarson 26 ára, Uppheimar gáfu út Fiðrildi, myntu og spörfugla Lesbíu eftir Magnús Sigurðsson, 24 ára, Vaka-Helgafell gaf út Flugan sem stöðvaði stríðið eftir Bryndísi Björgvinsdóttur 29 ára (sem er áreiðanlega sú í þessari upptalningu sem hefur vakið mesta athygli síðan) – og ég er áreiðanlega að gleyma mörgum. * * * Einhvern veginn sýnist mér bæði ljóst að höfundarnir séu almennt að debutera eldri en áður, að þeir eigi heilt yfir erfiðara með að komast inn á stóru forlögin (sem þjóna þrátt fyrir allt hlutverki hliðvarðar) og að fjölmiðlar sýni þeim minni athygli. Auðvitað getur vel verið að bækurnar séu einfaldlega ekki þess eðlis að þær fangi ímyndunarafl þjóðarinnar á sama hátt og bækur Huldars, Mikka, Auju og Evu – það er enginn áskrifandi að virðingu eða athygli, þótt hún sé augljóslega ekki heldur „bara verðskulduð“, það er ýmislegt sem þarf að koma til, ekki síst tilviljanir og heppni, en líka bara strúktúr sem tekur við fólki. Hvað sem því líður er þetta á endanum summa kúltúrkapítals sem maður kemur með inn á borð hjá starfslaunasjóðnum – eða þannig held ég að það eigi að virka (og það getur varla virkað öðruvísi). Þá er algengara að ungir höfundar komi fyrst út í kilju, frekar á vorin en á haustin, og að þeir sinni frekar sölubókmenntum (þótt íslenskar fantasíubækur hafi kannski ekki verið að seljast mikið hingað til, finnst mér afar líklegt að þær seljist a.m.k. tvisvar til þrisvar sinnum betur en frumraunir í fagurbókmenntum, ef ekki er tekið tillit til gæða). Kjartan gerir því skóna að þær „faglegu“ reglur sem nefndin þarf að fara eftir – um útgáfu verka, viðurkenningu og listrænt gildi hamli nýliðun. Ég er ekki alveg viss um að það sé rétt, a.m.k. ekki ef við berum bara saman þessi tvö tímabil. Aujurnar og Mikkarnir fengu einfaldlega miklu meiri viðurkenningu fyrir verk sín heldur en Sverrirarnir og Hildarnar, alveg frá fyrsta hvelli. Þau uppfylltu kröfurnar og rúmlega það. Svo er alls ekki óheyrt að höfundar fái starfslaun án þess að hafa gefið neitt út – þótt það sé að sönnu sjaldgæft (t.d. fékk Soffía Auður Bjarnadóttir áður en hún debuteraði). Og þá má líka hafa í huga að sjóðurinn veitir ekki heldur öllum laun yfir þrítugu, sem eiga það skilið – þess er skemmst að minnast að Hermann Stefánsson er launalaus og það er ekkert minna en skandall og skömm. * * * Sú kynslóð sem nú harkar og er að fara að heltast úr lestinni er líka fyrsta kynslóðin til að hafa átt möguleika á því að hljóta námslán til að skrifa. Og þótt námslán komi ekki í staðinn fyrir tekjur þá gera þau manni samt kleift að draga andann og borga leiguna á meðan maður skrifar (ég skráði mig sjálfur tvisvar fyrir námslánum í nám sem ég stundaði aldrei, til þess að geta fengið yfirdrátt og nokkra mánuði til að skrifa – áður en ég fór svo aftur í rækjuna, sambýlin eða næturvörsluna og greiddi upp skuldir – því ég fékk auðvitað aldrei nema yfirdráttinn, enda tók ég aldrei nein próf). Þá voru heldur engir nýræktarstyrkir fyrren nýlega – þótt þeir séu í sjálfu sér varla upp í nös á ketti (og fari mest í að niðurgreiða kostnað og áhættu forlaga – sem þurfa þá ekki sjálf að greiða höfundum ritlaun). * * * Ég þekki marga skandinavíska rithöfunda og flestir þeirra hafa sínar aðaltekjur af einhverju öðru en að skrifa bækur – þótt þeir hafi vissulega margir hærri tekjur fyrir bókarskrifin en við. Þeir kenna ritlist, skrifa gagnrýni og pistla um menningarmál (á sirka fimm til tíföldum íslenskum taxta) fyrir dagblöðin, þýða bækur, halda námskeið, ferðast um og lesa upp (þetta er sérstaklega tekjudrjúgt í Noregi – en almennt er það líka miklu betur borgað en á Íslandi), sinna lausamennsku á fréttablöðum, ritstýra tímaritum, kenna við háskóla (eru akademíkerar) og svo framvegis og svo framvegis. Rithöfundar víðast hvar harka, þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það alltaf – og höfundur sem lifir á hinum fáránlega lágu starfslaunum rithöfunda á Íslandi harkar líka, nema svo vel vilji til að hann sé einmitt ungur, barnlaus, skuldlaus og svo framvegis (ég er sjálfur tiltölulega nýbúinn að rembast í gegnum greiðslumat, þar sem mér varð dagljóst nákvæmlega hvers ég er virði og það er ekki mikið, og gengur mér þó bara nokkuð vel). Í spjallinu við Kjartan nefndi ég ekki bara mikilvægi nýliðunarinnar heldur líka þýðingu fagurbókmennta og menningarpressu. Við þetta mætti bæta tilvist jaðarbókmennta. Hið síðastnefnda mun sennilega aldrei gefa neinum neinar tekjur, svo heitið geti – og raunar blómstra þær á Íslandi í augnablikinu, ekki síst meðal yngri höfunda, Björk Þorgrímsdóttir, Ásta Fanney Sigurðardóttir og fleiri eru að brillera, sjálfum finnst mér það langfrjóasta senan, þótt hún verði varla langlíf (þetta er ástæðan fyrir því að Ísland á enga „framúrstefnuhefð“ – það er engin strúktúr til að viðhalda flippinu fram yfir þrítugt). Aukin áhersla á þýðingu fagurbókmennta og lausamennsku í menningarpressu – ef við gætum fundið einhverja peninga til að fjármagna það – gæti verið skynsamlegasta lausnin á öllum þremur (jafnvel fjórum) vandamálunum. Ungir höfundar fengju leið til að fjármagna „bókmenntalífsstílinn“ á meðan þeir vinna að fyrstu verkum sínum og „komast á spenann“; þeir gætu jafnvel lært ýmislegt mikilvægt á leiðinni og fengju meira andrými en 3-6 mánaða spretthlaup á starfslaunum gæti nokkurn tíma veitt. Það er auðveldara að henda hálfónýtu handriti og byrja upp á nýtt ef maður sér ekki fram á að þetta sé hugsanlega eini sénsinn sem maður fær – og það er líka auðveldara að leyfa sér skrítnari hluti, óvenjulegri, taka meiri fagurfræðilega sénsa. Við fengjum síðan fleiri þýddar fagurbókmenntir sem myndu blása nýju lífi í okkar eigin bókmenntir. Og við fengjum betri og áhugaverðari menningarpressu, ef henni væri sinnt af því fólki sem ann menningunni mest (þessu fylgir auðvitað líka dálítill take-down kúltúr, en átök eru góð og bráðholl). Þá mætti eyða meiri pening í að styrkja upplestra (ekki síst upplestraferðalög, svo bókmenntirnar komist út úr 101) með það að markmiði að fólk fái laun – og svo framvegis og svo framvegis. Búa til strúktur þar sem fólki er kleift að vinna sér inn einhverjar tekjur með menningarharki (t.d. mætti byrja að rukka inn á öll þessi ljóðakvöld – eða í það minnsta láta söfnunarbaukinn ganga með ráðlögðu gjaldi – þar ætti undantekningalaust að selja bækur skáldanna og barir mættu hunskast til að gefa upplesurum frían bjór og kaffi svo þeir gangi út í plús einsog annað starfsfólk). * * * En það þarf samt að stækka starfslaunasjóðinn – ungu höfundarnir sem ég nefndi hér að ofan eru allir alveg að verða gamlir – þeir eru að heltast úr lestinni því þeir eiga börn sem þurfa að borða. Skandinavískari strúktúr gæti hins vegar bjargað ungu höfundunum sem eru yngri en þeir. Svo þarf að stækka þýðingarsjóð – helst margfalda hann – og hvetja dagblöðin til að ráða fleiri lausapenna í menningarblaðamennskuna, ekki bara til að gagnrýna heldur til að taka viðtöl og halda úti debatt (og í guðanna bænum ekki fleiri generíska heimsósómapistla, ég veit þetta fær læk og smelli, en þetta er bara alveg komið gott).
Menning og rétttrúnaður
Háskólaprófessor missir vinnuna fyrir að blóta í tímum , óþægilegar senur í óperum eru lagaðar að fínlegum taugum áhorfenda , ungt framfarasinnað fólk krefst þess að það verði sjálft varað við óþægilegu innihaldi bóka og að fólki sem hefur sannanlega setið af sér glæpi sína verði meinuð innganga í landið hreina og fagra (og til vara bannað að flytja verk sín), rithöfundar verða útlagar vegna ljóða sinna – hátíðum aflýst þeirra vegna og þeir reknir úr stöðum sínum – jafnvel eftir að þeir hafa afneitað verkum sínum , listamenn missa styrki og eru reknir úr fagfélögum , ritskoðun klassískra bókmenntaverka (fyrir fullorðna) nær absúrdískum hæðum , stór hópur þenkjandi rithöfunda mótmælir því að tímarit – hvers starfsfólk var sallað niður af extremistum fyrir skopteikningar – fái tjáningarfrelsisverðlaun fyrir að halda áfram útgáfu þrátt fyrir ógnina, listaverk eru fjarlægð af alþjóðlegum listamessum vegna þess að þau ógna taugum sífellt úttaugaðri almennings og/eða yfirvalda, skandalaþorsti fjölmiðla og/eða almennings er slíkur að margir hafa einfaldlega gefist upp á að tala við pressuna, teiknarar og ljóðskáld fara ekki um nema í lögreglufylgd, listamenn eru dæmdir til fangelsisvistar fyrir verk sín, myndlistarsýningum er lokað og svo framvegis og svo framvegis og svo framvegis og svo framvegis. Afsakið, nú kemur fyrsta mótsögnin. Þessi veruleiki pólitísks rétttrúnaðar – sem ég trúi því varla að nokkrum finnist ekki kúgandi ef hann gefur sig að því að hugsa um það – gefur ekki einhlíta mynd af heiminum. Það eru alls kyns góðar ástæður fyrir því að fólk er viðkvæmt fyrir (öllum mögulegum) rasisma og (allri hugsanlegri) kvenfyrirlitningu – svo tvö algeng mótíf hneykslunarsamfélagsins séu tekin sem dæmi. Þeir sem standa í þeirri baráttu eru langþreyttir, vonlitlir og slæptir með réttu – fólk deyr, það er ofsótt og kúgað – og þeim er vorkunn að grípa í öll hálmstrá, reyna að vinna á þeim vígstöðvum þar sem sigur getur unnist þegar hann vinnst ekki þar sem það skiptir máli (les: ef þú getur ekki komið í veg fyrir að löggan drepi svart fólk geturðu komið í veg fyrir að hvítt fólk skrifi ljóð um það ). Sem þýðir svo aftur ekki að alla móðursýki megi réttlæta með þeim rökum að það sé eitthvað að – þú veist, ef maður lemur einhvern fyrir að vera fáviti þýðir það hvorki að hann sé ekki fáviti né að maður hafi mátt lemja hann. Það þýðir stundum bara að maður hafi gefið sig heimskunni á vald og allir séu í mínus. * * * Eitt af mikilvægustu hlutverkum listamanna er að standa á mörkum hins sæmilega – eða að fara langt yfir mörkin – og hugsa af einhvers konar eðlishvöt frekar en beinlínis vitrænt; listamenn eru ekki vísindamenn, ekki einu sinni félagsvísindamenn, stefna ekki að tilteknum niðurstöðum heldur pota í hluti og sjá hvort þeir hreyfist, í besta falli klikkaðir vísindamenn , leika sér með eld og allt sem er eldfimt, allt sem skapar spennu. Þetta er ekki hættulaus staður og það eiginlega segir sig sjálft að hver sá listamaður sem leyfir sér að taka minnstu áhættu – eða fjalla um pólitík af því ábyrgðar- og tillitsleysi sem listinni er náttúrulegt – er líklegur til að koma sér reglulega í vandræði. Að því sögðu eru auðvitað fjölmargir listamenn mjög góðir í eins konar sýndaráhættu – að láta líta svo út sem þeir séu mjög hættulegir á meðan þeir synda með straumnum hæ-fævandi (eða öllu heldur <3-andi) krádið sitt. Sá listamaður sem ekki tekur áhættu afrekar síðan aldrei neitt. Það eru bara prestar sem ögra aldrei kórnum. Listamenn safna saman heiminum, safna hugsunum, reynslum, möguleikum og raða þeim síðan saman án þess að vita alltaf (eða nokkurn tíma?) hverjar afleiðingarnar verða. Stundum er afurðin einfaldlega rasísk, stundum full af kvenfyrirlitningu – en miklu oftar orka verk sem fjalla um rasisma eða kvenfyrirlitningu tvímælis einmitt vegna þess að þau standa á línunni, þar sem sprengikrafturinn er mestur. Verk sem fjallar um rasisma eða kvenfyrirlitningu getur ekki verið ósnert af rasisma eða kvenfyrirlitningu. * * * Á tímum byltingarnauðsynjar – þegar svart fólk er skotið á götu afleiðingalítið, þegar fátæklingar drukkna í miðjarðarhafinu, þegar konum er nauðgað, þegar kapítalið bryður smælingja undir tönn – myndast fljótlega krafa um skýra, einarða og miskunnarlausa stefnu, krafa um sósíal-realíska list eða sambærilega; list sem getur stappað stálinu í fólkið og varpað ljóma á byltinguna svo hún verði ekki bara nauðsynleg heldur líka fýsileg. Á meðan upplausnin þjónar enn einhverjum tilgangi – eða í þeim kreðsum þar sem hún gerir það – getur list takmarkaðs tvímælis (betur þekkt sem einföld kaldhæðni) þjónað sem skemmtiatriði en þó einvörðungu á meðan hún einskorðar sig við að beinast að valdinu sem á að leysa upp – sem er gott og blessað, þótt það sé takmarkandi. Listamaðurinn verður trúður sem framkallar lófasköll . Dæmi: þegar John Oliver úthúðar hvítu hyski fyrir að vera heimskt og ljótt. Það er oftast ekkert sérlega fyndið – en flest sæmilega vel meinandi fólk (les: við sem erum ekki hvítt hyski heldur meðvituð) er sammála honum um heimskuna (og kannski ljótuna líka). Og hlær og klappar, retweetar og lækar. Því bragðarefirnir þurfa líka viðurkenningu, það þarf að klappa róttæku listamönnunum á bakið svo þeir sigli byltingunni í rétta átt. Þeir stýra sér ekki sjálfir þótt þeir stýri öðrum. En hefur list raunverulegra tvímælis eitthvert gildi í sjálfri sér? Er einhver sérstök réttlæting fyrir því að standa á mörkum hins segjanlega og reyna að tala án sjálfsmeðvitundar? Ég er hreinlega ekki viss – ekki í þeim skilningi að ég geti orðað það kognitíft hvers vegna mér finnst þessi staður mikilvægur (jafnvel „samfélagslega mikilvægur“). Ég gæti talið upp dæmi um listaverk sem hefðu þanið út rými hins mögulega svo lífið varð betra á eftir – nær öll barátta minnihlutahópa er óhugsandi án þeirra, í baksýnisspeglinum – ég gæti skrifað eitthvað um mikilvægi listaverka sem hópnarratífu og mikilvægi þess að sú narratífa sé breið og gefi rétta (óþægilega) mynd af samfélaginu, frekar en réttláta (þægilega) mynd af samfélaginu. En ég er ekki alveg viss um að það liggi yfir höfuð á kognitífa sviðinu. Mér bara finnst það – einsog drottinn leit heiminn og lýsti hann harla góðan af sýndinni einni. Ég get alveg leitað að réttlætingum fyrir afstöðu minni og sumar þeirra eru áreiðanlega ágætar en enginn þeirra trompar „fólk er drepið og því nauðgað, hættu að vernda rasista og ofbeldismenn, nú er komið nóg“ – enginn þeirra talar einu sinni við slíkar yrðingar því tungumál listarinnar er annað en þetta. Ég er ekki viss um að hún geti réttlætt sig. Og oft grunar mig að allar tilraunir til þess að réttlæta hana hljóti að vera skaðlegar. * * * Samfélagsleg menningargagnrýni er augljóslega annars konar afl með tilkomu internetsins. Þegar Bret Easton Ellis ræddi við Ezra Koenig úr Vampire Weekend um aumingjakynslóðina (unga fólkið) og viðkvæmni fyrir gagnrýni – eftir að BuzzFeed ákvað að hætta að birta neikvæða gagnrýni – benti Koenig einfaldlega á að aðstæður listamanna til að fylgjast með og bregðast við gagnrýni á verk sín væri allt önnur í dag en fyrir 30 árum. Nú væri maður taggaður á Twitter strax og gagnrýnin birtist og yrði viðstöðulaust og óumflýjanlega hluti af umræðunni um hana. Fyrir 30 árum hefði maður (sem frægur tónlistarmaður) bara fengið bunka af greinum frá umboðsmanninum sínum á nokkurra vikna eða mánaða fresti, og slíkan bunka væri einfaldara að hunsa. Maður var ekki bombarderaður með viðbragði heimsins við því sem maður gerði – gat ekki átt von á pípandi tilkynningu við allar hugsanlegar aðstæður – maður tókst á við hana í ákveðnu rými en fór svo út úr því rými og þar átti maður frið og ró. Ef við færum þetta yfir á pólitískari menningargagnrýni (frekar en bara gæðarýni) þá þýðir það að hópur fólks getur búið til talsvert óveður í kringum tiltekinn listamann – eða þær stofnanir sem hann starfar í skjóli af, listasöfn, forlög o.s.frv. – og á endanum fer þetta að verða spurning hversu mikils vesens þetta sé virði, hvenær listamaðurinn fari að ritskoða sjálfan sig, óþægilegu agnúana, miðla málum, og „æi þetta skiptir kannski engu máli“ verður að viðstöðulausu mali sem svo blandast sífellt háværari kröfu um afþreyingargildi verka og úr verður … ekkert. Svona einsog bandaríska skáldsagan þessa dagana – grípandi, vel skrifuð, skemmtileg, sorgleg en einhvern veginn bara tóm og átakalaus. * * * Ég held að flestir sem hafi nokkurn tíma haft skoðun á skjön við kunningja sína – eða bara langað að segja að eitthvað væri drasl, taka djúpt í árinni – kannist við að þurrka út statusinn áður en maður birtir eða hreinlega eyða honum rétt í tæka tíð áður en skítstormurinn hefst. Eða að hafa haldið honum inni og síðan eytt tveimur dögum í að verja hann – og hugsað: af hverju í andskotanum hélt ég ekki bara kjafti? Ég er ekki endilega að tala um eitthvað sem skiptir neinu ægilegu máli – bara svona lágmarks andstöðu út af tilfallandi tittlingaskít. Að manni finnist maður geta sagt að karlmenn fari almennt illa út úr forræðismálum eða verði líka fyrir talsverðu ofbeldi um ævina – eða biðja fólk að slaka einfaldlega aðeins á, eitthvað sem kom illa út hafi verið vel meint og það sé jafnvel í lagi að taka meiningu fólks alvarlega, að stundum segist fólk ekki vera rasistar (en) vegna þess að það sé einfaldlega ekki rasistar. Verði konu á að vera ósammála karlmanni og leyfi hann sér að svara konu fullum hálsi er ekki þar með sagt að hann sé hrútskýrandi pungur; ekki frekar en hún er þar með tæfa með kjaft (þótt auðvitað komi hvorutveggja til greina, heimurinn er fullur af hrokafullum fíflum – mörg þeirra gera meira að segja gagn, eru lífríki andans nauðsynleg, einsog býflugur og rottur). Eitt helsta einkenni internetsins er hversu hratt það getur brugðist við áreiti – stundum nánast einsog það væri sjálfstæð lífvera. Slagsmálin um leiðarstef samræðunnar, þ.e.a.s. hvað „okkur“, sem oft á tíðum merkilega samræmdri netveru, finnst um tiltekið málefni verða þess vegna oft mjög snörp. Oft snýst þetta um að verða fyrstur til að ná skriðþunga, fyrstur til að vera með viðbragð sem vekur athygli – og lýtur þá ekki ósvipuðum lögmálum og smelludólgafréttir vefmiðlana. Eftir því sem tiltekin skoðun hefur fengið fleiri retweet eða læk er líklegra að þeir sem eru á öndverðri skoðun einfaldlega þegi – því rifrildið er sjaldnast þess virði, yfirleitt alltaf of frekt á tíma og andlega orku. Við könnumst áreiðanlega flest við að fylgjast með narratífum fæðast og slúðrinu breiða úr sér á félagsmiðlum og í fjölmiðlum og allir berjast við að búa til trúverðugustu söguna. Eitt dæmi er þegar hasstöggum á Twitter er „rænt“ í nafni einhvers málstaðar eða skoðunar. Á dögunum var t.d. tekið viðtal við EL James – höfund 50 Shades of Grey – á Twitter. En viðtalið var varla hafið þegar það fór af sporinu og fólk um allan heim kepptist við að vera sniðugt og kvikindislegt á hennar kostnað – ýmist með því að gera því skóna að sadómasókisminn í bókum hennar væri ekki nógu saklaus (ekki samkvæmt helstu leiðarvísum) eða að hún væri einhvers konar fábjáni. Nú ætti ég kannski að taka fram að þessi hálfa fyrsta Greybók sem ég las var ekki góð – eiginlega alveg vandræðalega vond – en mér þykir líka s&m krítíkin svolítið grunn og einfeldningsleg (hún felur meðal annars í sér að s&m sé eitthvað eitt og öll s&m sambönd líti eins út; sem og að narratífa um eitthvað sé upphafning á því sama; að bækur fjalli alltaf um það sem er á yfirborðinu o.s.frv. – þetta er bara heimskulegur bókstafstrúarlestur múgs). Og ég held að um slíkt verði bókmenntagagnrýni að fjalla – þar er engin ástæða til að draga úr höggunum, enda fengist við verkið, maður á mann. Hins vegar held ég að tignun illa skrifaðra bóka og metsölubransinn með sínu ritstjórnarleysi sé ekki á ábyrgð EL James nema að mjög litlu leyti og ég sé eiginlega ekkert sniðugt eða fyndið við að 20 þúsund manna hópefli hjóli í hana með hótfyndni og útúrsnúninga að vopni; það er eiginlega skilgreiningin einelti (enda innbyggt í ferlið að hún gæti aldrei svarað fyrir sig). * * * Síðan er það þetta með að geyma tvær (eða fleiri) hugsanir í höfði sér, þótt þær stangist að einhverju leyti á. Mér er nefnilega líka spurn hvort marga listamenn og rithöfunda – einsog stjórnir bókmenntahátíða sem afbjóða höfundum og listasafna sem loka sýningum eftir undirskriftalista og ópera sem snyrta til verkin til að friða múginn – skorti ekki einfaldlega þann kjark sem til þarf til þess að gera verk sem nokkru skipta? Því þótt mér finnist allir þessir undirskriftalistar óþolandi og ég geri mér grein fyrir því að sjálfsritskoðun sé hættuleg þá er líka hættulegt að við látum einsog hún sé eðlileg eða ásættanleg. Kannski þarf meiri kjark nú en fyrir þrjátíu árum. Það þarf áreiðanlega meira þol, ef maður ætlar að nenna að standa í stappi við alla sem eru ósáttir við mann, eða nenna að láta þá fara í taugarnar á sér þótt maður svari engu, eða einfaldlega nenna innri mónólógnum í hvert sinn: er það áskrift að 48 tíma pirringskasti að pósta þessu? Og bíða svo milli vonar og paranoju eftir viðbrögðum. Það er átak þótt ekkert gerist. Ég á ekki við að listin eigi öll eða þurfi að vera transgressíf – ég er hvorki að kalla á kúk né piss – ég á við að listin hljóti að verða standa vörð um tvímælið, um hið ambivalenta, að listinni beri skylda til að vera viðstöðulaust flækjandi og ögrandi. Og listamaður sem getur ekki staðið uppi í hárinu á hinum móralska meirihluta – eða listamaður sem er háður kreðsunni sem fagnar honum – ætti líklega að finna sér aðra vinnu.
Dánarrannsóknir og morðtilraunir
– vaðið á ljóðum á skítugum skónum Úr 3. tbl TMM, 65. árgangi, 2004 Ég drep í sígarettunni hálfreyktri (glóðin datt af) og kveiki mér í nýrri. „I might leave in a bodybag, but never in cuffs” rappar einhver svertingi í eyrun á mér, og ég reyni að muna hvenær skáld var síðast kært fyrir ljóð. Mér sýnast ljóðskáldin svo lútersk í sálum sínum að láti þau út úr sér þó ekki sé nema eitt dónalegt orð, stingi þau skottinu undireins milli lappa sér og hörfi inn í órætt myrkur ljóðrænuleysis, með silkiklút um hálsinn, faðma rauðvínsglösin og brosa feimin þegar gagnrýnendur klípa þau krúttlega í kinnarnar. „Oo, hvað þú ert dónalegur…” Kannast einhver við þessa mynd? Eða þá hina, þá klifun, þá síbylgju, að ljóðið eigi að vera „skorinorð hugsun”, ljóðið sé til sjálfs sín vegna… hið smáa hvísl í rokinu, í besta falli þungt og höfugt eins og rauðvínið í skuggunum, en umfram allt „ratar ljóðið til sinna” – það er að segja: ljóðið sem er ekki allra. Því það er „sinna”. Þjónar ákveðnum herrum. Ljóð er andstaðan við popp. Ljóð eru ekki léttvæg, og þeim á maður ekki að taka með hálfkæringi, heldur mara hálfur á kafi í einni ljóðabók um aldir alda. Menningarpostuli á næsta borði hagræðir klútnum og segist vera lengur að lesa eitt ljóð eftir Sigfús Daðason, en að rumpa sér í gegnum ritsafn Dostojevskís, og mér verður hugsað til góðs vinar míns sem hefur eytt mörgum árum í að lesa Dostojevskí ofan í kjölinn. Ég á ekki von á honum upp úr því hafi í bráð. Mér finnast ljóð vera popp. Mig langar í ljóð með rafmagnsgítar. Og tunguna út í loftið. Ljóð með krúttkynslóðar-lopahúfu og iMac. Ég les í blaðinu um barkaþræðingu ljóðsins, Kristján B. Jónasson yrkir í TMM (gamla): „Klassísk ritklif þeirra [sem ræða ljóð]felast í umsnúningi neikvæðra formerkja: „líkið andar”, „ljóðið er ekki á heljarþröm”, „andlátsfréttirnar eru ýktar”, „þrátt fyrir að ljóðið eigi að vera við dauðans dyr” er það „sprækt og frískt”.” Ég fæ það á tilfinninguna að Ljóðið sé í öndunarvélinni af því ljóðskáldin eru gegnsýkt af vemmilegheitum, ljóðandi út úr sér lífinu eins og lífið lifi í eyðunum, skera burt orð úr setningum þar til setningarnar sjálfar verða að daufum skugga sín sjálfra – ljóðið vart nema kviðlingurinn af sjálfu sér orti góður maður – og mig grunar að líf þessara skálda séu síður en svo sá dans og mikilfengleiki sem líf geta verið, að eyðurnar í skáldskapnum séu til komnar af eyðilegum lífum skáldanna, eyðilegum hugum þeirra. Ég stend á fætur, borga kaffibollann, pakka saman lappanum og valhoppa af stað í gegnum bæinn beinustu leið upp á heilsugæslustöð. Með beyg í hjarta. Nei, með ótta í hjarta. Líkt og röðulsetrið brennur ekki á mér. Á heilsugæslustöðinni er mér vísað á gjörgæsludeildina af vinalegum hjúkrunarfræðingi. Ég lít inn í stofuna gegnum rúðu á veggnum. Ljóðið er fölt, einhver hefur breitt yfir það fána lýðveldisins upp að haus og bundið það fast við stuðul og staf. Læknirinn, sem skyndilega stendur við hliðina á mér, segir í hálfum hljóðum: „Ég veit ekki hvort við getum gert nokkuð fleira. Við höfum haldið hvert ljóðakvöldið á fætur öðru, tæmt alla sjóði og keypt hverja skruddu sem hefur verið gefin út síðustu hundrað árin. Við höfum meira að segja reynt að horfa undan, til að sjá hvort það væri að þykjast. En allt kom fyrir ekki, ljóðið er vart með lífsmarki. Hefur ekki sagt neitt markvert í árafjöld, stumrar upp úr sér Tímanum og vatninu á góðum degi – stundum held ég það sé hreinlega ekki með réttu ráði – auk þess er höfuð þess þyngra en svo að herdeildir sjúkraliða fái lyft. Það ku nefnilega hellt fullt af myrkri.” Ég dæsi. Kristján hafði kannski rétt fyrir sér? Er þetta formerkjavandamál? Maður blæs varla lífi í dauðar glæður, þegar hægt er að snúa sér að næsta bálkesti. Kveikja nýja elda. „Má ég líta inn?” spyr ég og læknirinn opnar hurðina fyrir mér. „Já. En hafðu hægt um þig, ljóðið er þreytt, og þrátt fyrir verkjalyfjasúpuna á það hægt um tjáningu.” Ég lofa og sver í bak og fyrir (Guð og Föðurlandið!), skýst eins og eldibrandur inn fyrir hurðina og skelli í lás á eftir mér. Læknirinn gapir framan í mig í gegnum rúðuna, furðu lostinn. Ég brosi, hneigi mig, og vind mér svo að sjúkrarúminu. Á hálfrar mínútu fresti heyrist píp í hjartalínuritinu, Ljóðið er með augun aftur, og slöngu upp í munninum. Ég losa hana varlega upp úr kokinu og hvísla að því einhverjar illa ígrundaðar ásakanir. Gerist dónalegur í orðavali, jafnvel svo að mér blöskrar. Svo tala ég hærra. En Ljóðið bærir ekki á sér. Ég fleygi slöngunni á rúmið og læt mig detta niður í leðurstól við hliðina á sjúkrarúminu, sveittur með andlitið í greipum mér. Djöfull. Andskotans djöfull. Ég tek upp fartölvuna, og tengist netinu í gegnum símainntak við hliðina á sjúkrarúminu. Ég skrifa stuttan tölvupóst, og stíla hann á Skáldið. Ég veit ekki hvort Ljóðinu er eðlilegt að vera svona viðkvæmt, svona veikt fyrir vírusum og innrásum og árásum, en ákveð að taka neikvæða pólinn í hæðina, til að komast að því hvort Skáldið sé tilbúið að leggjast í skotgrafirnar fyrir Ljóðið. Hvers vegna er íslensk ljóðlist svona léleg? Hvers vegna lestu ljóð, hvers vegna les nokkur ljóð? Ljóðið í rúminu rumskar, hóstar stuðlum og höfuðstöfum, sem flækjast kyrfilega um hálsinn á því, og mér sýnast þeir vera eftir Kristján Þórð eða Hallgrím Helga. Eitthvað hversdagslegt í upphöfnu formi. Eins og póstmóderníski brandarinn um sjálft sig. Að öðru leyti heyrist ekkert. Sigmundur Ernir hélt því fram í einhverju viðtali, að það væri óþarfa misskilningur að skáld þyrftu að vera fyllibyttur, sagðist sjálfur yrkja betur edrú. Nú ætla ég ekki að fara að halda því fram að skáldum sé hollt að drekka, enda er það misskilningur og skarplega athugað hjá Sigmundi að menn yrki betur edrú. En það er falinn í þessum orðum einhver meinleysisboðskapur. Einhver smáborgaraleg kredda. Ljóðskáld ýfir ekki fjaðrir. Ljóðskáld berst ekki í bökkum (eða bokkum). Ljóðskáld yrkir bara. En það er ekkert bara. Skortur á viðfangsefnum er að eyðileggja ljóðið. Óræðar myndir ríða húsum, án þess að merkja eitt né neitt. Njörður P. Njarðvík vann ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð um að strjúka einhverri konu og „hlusta með hendinni”. Höfuð þess ljóðs var einhvern veginn hvorki þungt, né léttleikandi, það var varla kviðlingurinn af sjálfu sér. A poem should not mean but be. Og vissulega má færa fyrir því rök að þetta sigurljóð hafi ekki þýtt neitt. En vera þess rétt náði þreytulegum geispa. Ljóðið var ekki spennandi á neinn máta, það hafði ekkert að segja neinum, það hafði ekki til að bera neina sérstaka formfegurð (nema íhaldssemi og uppkokkun úr löngu ortum ljóðum geti talist formfegurð), í því var engin tilraun til að leika sér með tungumálið (sem er helsti kostur ljóða: formið býður uppá nánast hvað sem er – ljóð ætti aldrei að þurfa að verða eftirlíking af sjálfu sér, eða uppiskroppa með stílbrögð). Í sem stystu máli: Fugl, fiskur? Hvorki né! En Njörður er varla vandamálið. Vond skáld geta ekki verið vandamálið, nema öll skáldin séu vond. Og því fer fjarri, það er allt morandi í ágætis skáldum. Og meðal þessara ágætis skálda eru jafnvel nokkur mjög góð, á stangli má finna frábær ljóð. Og ég ætla ekki að lasta neinn fyrir að vera lélegt skáld, það er ekkert að því að reyna og mistakast. En ef öll ljóðin sem bárust voru verri en þau sem unnu, þá hefði átt að sleppa verðlaunagjöf. Ég stend á fætur og geng að sjúkrarúminu. Ljóðið er löðursveitt, á síðasta snúningi. Ég strýk því um ennið og hugsa um Sigfús Daðason. Allt þetta höfuð. Segir alltaf færri og færri orð… ég skelli óvart upp úr. Og roðna svo af skömm. „Þú ert indælis Ljóð,” hvísla ég varlega. „Manstu Sigfús? Eða Dag? Þekkirðu Kristínu Eiríks? Hún er góð stelpa, er það ekki?” Ljóðið svarar engu. Ég brosi og andvarpa. Það er ljúft, þrátt fyrir allt. Ég man þegar ég sá ég ástralska ljóðskáldið John Tranter á bókmenntaráðstefnu í Berlín. Hann er stuttur í loftinu, miðaldra og gráhærður með há kollvik í vestispeysu og skyrtu (minnir helst á fjárbónda einhvernveginn, ég held honum færi vel að keyra traktor og klappa þessum krúttlegu ám sem þeir eiga hans megin í heiminum), með gamansemi í svipnum, og maður fær það á tilfinninguna að hann sé að gera grín að manni þegar hann segist ljóðskáld. Hann er í hreinni andstöðu við ímynd ljóðskáldsins, ekkert sérlega gáfulegur í framan, ekki tekinn af drykkju, hvorki vemmilegur né brenndur og harður. Hann er bara „svona kall”. Hann fitlaði við fingurna á sér og brosti út í annað, þegar hann var spurður hvað honum fyndist um að ljóðskáld stunduðu pólitík í verkum sínum: „Only a fool would trust a poet.” Og mér varð ljóst að þessi óskáldlegi maður var mesta skáld sem ég hafði séð um ævina. Hann var skáld í hverjum þræði. Og nota bene, þá er hann afskaplega pólitískur í verkum sínum. Ljóðið opnar augun stutta stund, lítur á mig og mér finnst skyndilega eins og mér standi hætta af því. Samt er það ekki líklegt til stórvirkja. Bara ský í buxum, lítið og brothætt. Leysist sundur og lokar augunum. Milan Kundera heldur því fram í skrifum sínum um skáldsöguna (með stóra s-inu) að skáldsagan deyi ekki þannig að fólk hætti að skrifa sögur, heldur þegar hún byrjar að endurtaka sjálfa sig. Þegar fólk er hætt að eiga í samræðu hvort við annað. Skáldsagan orðin að klisjunni um sjálfa sig (er nokkuð eins klisjukennt í bókmenntaumræðunni og að vísa til Kundera?) Ég held því ekki fram að íslensk ljóðskáld kunni ekki að tala saman, en af einhverjum orsökum fer lítið fyrir þessari samræðu þeirra. Hún er í versta falli stillt og snotur, og í besta falli exklúsíf, skilur út undan, sem er eins og við vitum versta tegund eineltis. Auðvitað er þetta ekki einhlítt, víða eru menn sem berja sér á brjóst áður en þeir hefja upp raust sína, sem hvísla ekki bara í samræðum heldur æpa stundum yfir hæðirnar. En stjórnin, hið ráðandi afl ljóðlistarinnar, er ekki hrifin af látum. Stjórnin lækkar rostann í Hallgrími Helga, Stefáni Mána, Eyvindi Pétri og Steinari Braga, yndislegum róttæklingum af öllum tegundum og segir „sussubía, krakkar, ekki þessi læti…” og þeir sitja eftir sárir á hálfum launum. „Hey krakkar, ég er með hugmynd, af hverju skrifið þið ekki eins og Sigurbjörg, eða Sigtryggur…” Pent og fínt. Sneitt og skorið. Og kurteist. Vandvirkni á ekki að vera eyðileggjandi afl, eins og svo oft verður raunin. Vandvirkni snýst ekki bara um að skera niður, fækka orðum og ritskoða burt skoðanir, heldur og að bæta við, þykkja, stækka, skýra, breiða út hugmyndirnar útvíkkaðar og endalausar. Ég veit ekki hvort íslensk skáld eru svona miklar smásálir, en það geislar ekki beinlínis af ljóðum þeirra. Innhverf og einhverf, lokuð og feimin við að láta í sér heyra („sound of like you’ve got a pair” hrópaði liðþjálfinn í Full Metal Jacket, og allt í einu var hvergi skáld að finna: „I bet you could suck a golfball through a gardenhose.”). Skáld gegn stríði hvísla í mótstöðunni, merkilegt nokk. Skáld eiga ekki að vera friðarsinnar, þó þau séu á móti stríðum, skáld eiga að vera byltingasinnar (og nei, þetta er ekki stafsetningarvilla: krefst byltinga í fleirtölu). Gandhi var ekki friðarsinni, þó hann væri mótfallinn ofbeldi. Gandhi háði glæsilegustu orrustu nútímans. Ef maður á ekki erindi upp á dekk, ef maður ætlar ekki að taka til hendinni, þá á maður að halda sig til kojs. Halda sig til skúffs. Þegar við hrópum „RÆS!!!” viljum við engar mannleysur um borð. Enga geispa uppi á dekki, þakka þér fyrir. Engin andvörp. Annars verður einhver settur frá borði í næstu höfn. Skyndilega pípir tölvan. Ég sest niður, set hana í fangið á mér og hristi af mér skjávarann. Ljóðskáldið er komið á msn messenger, spjallforrit lífsins. Í boði Microsoft. Ljóðið á sjúkrarúminu hóstar og kveinar. Skáldið er ekki bara annar, heldur og margur. Allir er ljóðskáld/lesandi. Hvaða læti! Hvaða læti! Hvaða píp! Útskýrðu mál þitt! Ég hrekk upp. Þarf maður að standa við orðin tóm? Útskýra mál mitt? „Uhh. Hérna… ég er ekkert að trufla, er það?” Nei, í margblessuðum bænum, ég er í hálfri vinnu við að hangsa á kaffihúsum. En vildirðu samt gjöra svo vel að koma þér að efninu. Skorinorðar hugsanir, skorinorðar spurningar! „Hvað varð þess valdandi að þú fékkst áhuga á ljóðum?” Mér líður eins og ég sé Gísli Marteinn að taka viðtal við einhvern sem ég hef aldrei hitt. Í skemmtiþætti, þetta sé það sem heitir í Washington, „human interest story”. Ég var alltaf hæst í bekknum. [1] Það var auðveldara en að byrja að reykja. [2] „Gott og vel. Þú varst hæst í bekknum. Hvað gæti verið meira viðeigandi? Ekki geta skáldin farið að falla? Var ekki sömu sögu að segja um Rimbaud? Alltaf hæstur í bekknum! Reyndar held ég hann hafi lært að reykja og ríma um svipað leyti. Orti jafnvel í reykbólstrum. Á fullum báti (í franskri rauðvínsmerkingu, frekar en drekkhlaðinni íslenskri merkingu). En hvers vegna er íslensk ljóðlist svona léleg?” Leiðandi viðhorf eins og koma fram í spurningum þínum gagnast engum, sérstaklega ekki þér ef þú vilt í raun og veru fá álit þeirra sem þú spyrð. Þú býður mér ekki að segja álit mitt á ljóðinu, heldur aðeins að verja hvers vegna það er svona lélegt. [3] Ég áttaði mig skyndilega á að ég þurfti að breyta um taktík. Gerast aðgangsharður, vera Morley Safer frekar en Barbara Walters. Egill Helgason frekar en Gísli Marteinn. „Nei heyrðu mig nú, þú getur tekið afstöðu til spurningarinnar, eða formerkjanna, eftir því sem þér sýnist, en ekki víkja þér undan. Ekki dæma sjálfa(n) þig úr leik með undanbrögðum. Myndi ég fara inn í brennandi hús með þér? Inn í krakkbæli með Ljóðskáld mér til varnar? En svona í alvöru, okkar á milli, mano a poeta, off the record, í fyllstu einlægni, on the q.t and very hush hush, af hverju er íslensk ljóðlist svona léleg?” Af þrúgandi hefð og hræðslu við dóma fyrst og fremst. Af hræðslu við að sýna inn í sig, hreyfa sig öðruvísi og láta ljós skína inn í sig og gegnum sig. Af leti við að lesa erlend ljóð og setja í skynvinnsluvélina. Af þreytu og leiða. [4] „Hefur eitthvað gengið á, sem ég veitti ekki athygli? Hvers vegna er ljóðið þreytt?” Af því að rembingsháttur og kaldhæðnisleg hótfyndni er það sem ræður för. Þegar hjartað er fjarlægt og ekkert er að segja þá hefur ljóðið lítinn tilgang annan en að vera skrautmunur. [5] „Rembingsháttur og þrúgandi hefð? Hreyfir sig ekki öðruvísi, og skreytir sig fjöðrum? Jahérna hér, og þetta úr innsta hring, frá Ljóðskáldinu sjálfu! Hér sit ég í makindum á gjörgæslunni, með dauðvona Ljóð í sjúkrarúmi; ég hef fjarlægt barkann úr hálsi þess. Á ég að koma honum aftur fyrir, eða leyfa ljóðgarminum að drepast?” Ljóðið í öndunarvélinni er ekki the poem it used to be … og hvort það lifir eða deyr er nokkuð afleiðingalaust nema fyrir stétt afburðavælukjóa sem yrði atvinnulaus og myndi alla angra. Þetta læt ég trúlega ekki hafa eftir mér á prenti. [6] „Og sei sei. Þú þorir víst ekki að hreyfa þig öðruvísi… frekar en aðrir… þorir ekki að láta hafa eftir þér skoðanir þínar á prenti. Í innsta hring er Ljóðskáldið vísast bara afburðavælukjói, skáldið ekki nema skrautfjaðrirnar á baki sjálfu sér, eða hvað? Ertu ekki í mótsögn við sjálft þig? Yrkir en trúir ekki á ljóð?” Herdeildir plebba pikka upp plebbafrasann – hafður er eftir dálkahöfundi, Kolbrúnu Bergþórsdóttir, til dæmis, í plebbapirringskasti – „X er ekki bara óskiljanlegur, hann er í mótsögnvið sjálfan sig,” sem er slæmt og gott og vel, og þetta festist, viðkomandi verður einskis-konar og settur hjá garði íslenskra bókmennta sem eiga jú umframallt að „segja góða sögu og hafa húmor” og Frakkar geta ort þögnina en við Íslendingar, eins og þeir segja þorskamenn fyrir vestan, við tölum nú bara íslensku hérna, skilurðu, öll í sama bátnum o.s.frv.! [7] „Öll í sama bátnum! Og þú dirfist að rugga. Í guðanna bænum, blessaður, kallarðu þetta skrautfjaðrir? Þetta er bara dónaskapur! Þú ert ekki einn í bátnum, væni. Og list þín kannski bara hjákátleg, eftir alltsaman, að loknu uppklappi og frumsýningarpartíi?” Öll list er almennt léleg og leiðinleg í öllum greinum. Mestöll tónlist er drasl, mestöll myndlist er drasl og mestöll ljóðlist er drasl. [8] „Og er þá ekkert gott að finna? Hvergi mýrarljós í sjónmáli? Erum við bara að misþyrma líki? Enn eitt Neskaupstaðarmálið… Ljóðið er kannski bara löngu dautt, og þessi hér á rúminu sekur um að þykjast vera ljóð. „Impersonating á poem”, eins og þeir segja í Texas. Hvað með allt sem ort hefur verið? “ Flest athyglisverðustu verk síðustu 25 ára hafa verið prósaverk, með undantekningum þó. Síðasta raunverulega grundvallarstórvirki íslenskrar ljóðsögu, Ljúgðu Gosi, ljúgðueftir Steinar Braga fór til dæmis fullkomlega fyrir ofan garð og neðan hjá öllu bókmenntaapparatinu. Ástæðan er einföld. Lesendurnir eru svo lélegir. Kreppa ljóðlistarinnar er að lesendahópurinn hefur engan sjálfstæðan smekk, heldur apar upp ljóð sem líkjast þeim ljóðum sem þeir muna eftir að var teflt fram af kennurum þeirra í menntaskóla og háskóla: þ.e. hið innhverfa, hnitmiðaða, myndvísa ljóð. Þessi kreppa lestursins er alls staðar fyrir hendi, nema kannski helst í þeim löndum þar sem söngurinn er enn þá raunverulegt element í þjóðlífinu. [9] „Ertu að gera at í mér? Bera lesendur ábyrgðina? Og skáldið sleppur? Skáldið gott en lesandinn ekki læs… skrifar skáldið þá ekki ólæsilegan texta? Er notendaviðmót ljóðsins ekki bara ónothæft? Eitthvað sem ómögulegt er að vinna á, nema maður leggi á sig að mennta sig í ljóðlist? Og hvað þá með plebbann? Á hann að skilja hvað þú ert að tala um? Er hægt að afplebba plebba sem fær ekki að vera með í samræðunni?” Verk sem er skilið um leið og það kemur út fyrir jól er dautt eftir jól. Og verk sem er skilið af höfundinum er dautt. Og verk sem er skilið af lesandanum er dautt. Og sannleikurinn verður ekki skilinn. Og allt sem er skilið er dautt. [10] Skaldid appears to be offline. Það fór. Skáldið aftengdist. Lokaorðið var ‘dautt’. Og mér fannst það einhvern veginn táknrænt. Skáldið hafði af mér síðasta orðið, af eintómri frekju, og valdi til þess þetta orð: dautt – til að ljúka samræðunni. Við hlið mér fjarar lífið úr Ljóðinu, óskiljanlega, og ég velti því fyrir mér hvort lífið felist í því að deyja á órannsakanlega vegu. Líf einstaklings er aldrei nokkurn tímann jafn áþreifanlegt og rétt í þá mund sem hann er að hrökkva upp af. Aldrei er því veitt jafn mikil eftirtekt og einmitt í andarslitrunum. Langar í mig í föðurmorð? Jafnvel mjög vanhugsað föðurmorð? Að sópa hefðinni undir teppið, og fara að leika mér eins og fullorðinn maður, frekar en barn sem enn býr í foreldrahúsum? Fyrir utan gluggann stendur læknirinn og horfir á mig bænaraugum, hvort ég vilji ekki taka úr lás. Stundum finnst mér þessi mannúð standa okkur fyrir þrifum. Þessi ljóðúð, þessi eilífi velvilji við lélegan kveðskap. Að bókadómar hljómi upp á að Eyjólfur hressist vonandi, eða að skáldið eigi eftir nokkurn þroska… eða hvað það er. Ég vil frekar vera kallaður skuggaboxari [11] , en ungskáld. Að vera ungskáld er að vera ekki tekinn alvarlega. Að vera hálfskáld. Táningur. Ekki fyllilega með. Að vera kallaður skuggaboxari er að minnsta kosti fyllilega eitthvað. Tilraun manns er tekið af heilum hug, og þá fordæmd eða prísuð eftir því hversu vel hún kemst til skila. En ég óska engum þess að vera kallaður ungskáld. Og ég nenni ekki að eyða tíma mínum í að vorkenna deyjandi ljóðum. Og gleymum ekki, hér á dánarbeðinu, öllu lífinu. Öllu þessu ótrúlega iðandi ljóðlífi. Sumarið 2003 fékk ég að ferðast um landið með hópi af mögnuðum skáldum, og lesa upp fyrir alls konar fólk. Sumsstaðar var meira að segja mjög mikið af alls konar fólki að hlusta, og sumsstaðar hlustaði það í margar klukkustundir. Góðum línum var ekki fagnað með golf-klappi, heldur gólfstappi og húrra-hrópum. Ljóðið var allt í einu alveg feykilega skemmtilegt, og þetta hóstandi lík hérna við hliðina á mér var hvergi nærri. Lá fyrir dauðanum þá sem nú. Fólk hlustaði ekki með höndunum, heldur eyrunum, hló ekki bara að bröndurum í ljóðum heldur af skínandi gleðinni. Átakagleðinni. Samt var ekki að sjá að þetta væru „einfaldari” ljóð, né heldur voru þau bundin eða óheyrilega mystísk, og þetta voru ekki brandaraljóð. Heldur þung höfuð eins og beljur að vori. Skoppandi höfuð upp um allar hlíðar og meðfram öllum lækjum. Allt í einu voru skáldin ekki gamlir karlar, menntaskólakennarar menntaskólakennaranna minna, heldur ungt fólk með krúttkynslóðar-lopahúfur og rafmagnsgítara. Leðurjakka og iMac. Án þess að aldurinn þurfi að skipta máli. Þetta er nefnilega hægt. Vonleysi dánarbeðsins getur verið víðs fjarri. En til að halda því fjarri þurfa ljóðin líka að vera góð og skáldin óhrædd við að yrkja. Og það eru vissulega ekki allir sem yrkja óhræddir. Það er jafnvel minnihluti. Jóhann Hjálmarsson orti fyrir ekki alltof löngu: „Kannski er best að leyfa því [ljóðinu] að sofa, að minnsta kosti sumum ljóðum. Hvaða skáld kannast ekki við þessa baráttu, vafann sem svo erfitt er að sigra? Án hennar yrðu ekki til ljóð, aðeins orð á haugi málsins. Það er kannski erfitt að skera úr þessu, einkum nú þegar skáld virðast svo oft rekin áfram af heimtufrekju orðanna.”
Einhvernveginn hef ég það á tilfinningunni að „heimtufrekja orðanna”, njóti alls ekki sannmælis. Að það sé sjálf sköpunargáfan, sköpunargleðin, sem Jóhann vill setja í hlekki. En það er misskilningur að öll góð ljóð séu ort af vandvirkni, ekki get ég ímyndað mér vandvirkan Rimbaud, eða Tristan Tzara, vandvirkan Allen Ginsberg eða Jack Kerouac. Að minnsta kosti ekki þesslags vandvirkni sem heldur aftur af „heimtufrekju orðanna”. Wise men say, only fools rush in… Orðin berast til mín úr útvarpinu frammi á gangi. Elvis Presley syngur, og ég veit þetta er rétt. Það eru bara flón sem drífa sig. Flón sem stoppa ekki til að hugsa. Flón sem kjósa föðurmorð og heimtufrekju orðanna fram yfir skorinorða hugsun, færri og færri orð. But I can’t help… … falling in love with you… Skyndilega er bankað. Ég lít upp og sé að læknirinn snýr baki í mig. Það er bankað aftur, en ég sé engan banka. „Psst, ég er hérna…” Ég lít við, Skáldið er hálft komið inn um gluggann sem snýr að götunni. „Mér fannst óverjandi að láta þig dúsa hérna, komdu, ég þekki sæta stelpu sem þú þarft endilega að hitta…” Það bjástrar við að troða sér innum alltof lítinn gluggann. Ég geng framhjá sjúkrarúminu, og horfi á Ljóðið í síðasta skipti. Það er fölt og sveitt og blátt í framan og allt í einu finnst mér dauðinn eðlilegasti hlutur í heimi. Hringrás lífsins, eins og hjá Disney. Það kemur nýr Konungur Ljónanna á eftir þessum. Í S-Ameríku gildir sú þumalputtaregla að ef maður drepur forsætisráðherrann, þá verður maður sjálfur forsætisráðherra. Mér finnst þetta allt svo eðlilegt. Deyr fé, frændur, feður, og jafnvel orðstír og ljóð. Skáldið réttir mér höndina. Við horfum út á bílastæðið. Það eru fjórar hæðir niður á malbikið. „Geronimo?” spyr Skáldið. „Geronimo,” svara ég og sýp hveljur. Um leið og ljóst er orðið að Ljóðið hefur endanlega gefið upp öndina, er sýnilega dautt, hérnamegin og þarnamegin, stökkvum við yrkjandi út um gluggann. Eins og beljur að vori. Í fjarska heyrist sungið: Raindrops keep falling on my head… [1] Ónefnt ljóðskáld [2] Kristian Guttesen [3] Davíð A. Stefánsson [4] Þórunn Valdimarsdóttir [5] Þorleifur Örn Arnarson [6] Haukur Már Helgason [7] Steinar Bragi [8] Ófeigur Sigurðsson [9] Kristján B. Jónasson [10] Steinar Bragi [11] Í dómi sínum um ljóðabók mína Heimsendapestir sagði Geirlaugur Magnússon að ég væri skuggaboxari. Ég var reyndar kominn á fremsta hlunn með að fara heim til hans og gefa honum einn eða fleiri á ‘ann, til að afsanna þessa kenningu hans. En svo stóðst hún náttúrulega. Næst þegar ég hitt Geirlaug ýlfraði ég eins og hvolpur og seldi honum nýju bókina mína. Að vera ljóðskáld er það sama og að vera skuggaboxari.
Hin beittu tól
Til að stjóra ríki þarf stjórnlist,
til vopnasmíði þarf óvenjulega hæfni.
En til að sigra heiminn,
þarf maður að vera frjáls við að vera upptekinn.
Hvaðan veit ég, að svona gengur með heiminn?
Því fleiri hlutir sem eru til í heiminum, sem maður má ei gera,
því fátækara verður fólkið.
Því fleiri beitt tól sem fólkið hefur,
því meiri hrörnun húss og ríkis.
Því meir sem fólk iðkar list og kænsku,
því meir ber á illum fyrirboðum.
Því fleiri lög og reglugerðir,
því meir um þjófa og ræningja. Því mælir kallaður:
Ef við gerum ekkert,
þá breytir fólk af sjálfu sér.
Ef við elskum kyrrðina,
þá verður fólk af sjálfu sér rétt.
Ef við gerum ekkert,
verður fólk af sjálfu sér ríkt.
Ef við erum laus við þrár,
þá verður fólk af sjálfu sér einfeldið. Lao Tze – Bókin um Veginn
Sjökvist / Helsinki
Í dag gengum við frá kaupum á þessu húsi við Tangagötu 22 á Ísafirði eftir alls kyns fjármálafimleika og vesen. Við flytjum inn um miðjan ágúst. Mér skilst að húsið sé kallað Sjökvist, því á því séu alls sjö kvistir – í merkingunni „útbygging með glugga út úr þaki húss“ – að meðtaldri súðinni, en það gæti líka verið komið af því að inni í húsinu er óvenju mikið af kvistum í merkingunni „rót af trjágrein, ójafna, hnúskur, e.k. eitill í viði, leif af trjágreinarrót e.þ.h.“, einsog sjá má á þessari mynd: Sjökvist er auðvitað viðeigandi nafn á hús undir hálfsænska fjölskyldu. En húsið – sem hefur bara í dag verið kallað nöfnunum Blómahúsið, Hvergiland, Helsinki, Pinnahúsið og nokkrum fleirum – er samkvæmt pappírum byggt árið 1898. Málið er samt víst ekki svo einfalt, því það stendur að mér skilst svo gott sem ekkert eftir af því húsi – það var byggt yfir það og kringum það og það svo rifið innan úr. Megnið af þessu húsi er frá áttunda áratugnum – bílskúrinn er samkvæmt pappírum sagður frá 1975, ætli það sé ekki bara best að miða við það. Að vísu er það friðað einsog það hafi verið byggt 1898, vonandi verður það manni ekki fjötur um fót í framtíðinni. Ég hef aldrei komið inn í húsið – sendi fólk sem ég treysti til að skoða það, gaumgæfði myndir. En ég þekki það auðvitað mjög vel – Hilmar Magnússon, æskufélagi minn (og formaður Samtakanna ’78), bar út á þessum enda götunnar ásamt Árna bróður sínum, en ég átti síðustu húsin og svo Fjarðarstræti og Austurveg, sem þýddi að ég þurfti að ganga þarna framhjá á hverjum einasta degi í nokkur ár. Þar fyrir utan er þetta ekki nema skotspöl frá æskuheimili mínu – ég flutti tvisvar sinnum fyrstu 21 ár ævinnar og það var í bæði skipti á milli herbergja (og í seinna skiptið var ég að flytja til baka í herbergið sem ég átti heima í fyrst). Svo minnir mig að Valur bróðir hafi tekið við blaðburðarúntinum af Árna og Hilmari. Það eru liðin 38 ár frá því foreldrar mínir festu kaup á Sundstræti 19 á Ísafirði. Í Morgunblaðinu árið 1981 var gerð dálítil frétt um Ísfirðinga sem voru að gera upp húsin sín – ég rakst á þetta fljótlega eftir að ég uppgötvaði timarit.is (og kannaðist þá við það, líklega eiga foreldrar mínir einhvers staðar afrit sem ég hef séð) og hef oft sýnt fólki þessa hérna mynd af okkur mömmu og pabba fyrir utan húsið (ég veit ekkert hvar Dóra stóra systir mín eða Valur bróðir, sem þá hefur verið eins árs eru): Ég var eitthvað að delera um íbúðakaupin á Facebook áðan og ákvað að sýna þessa mynd og renndi í leiðinni stuttlega yfir greinina. Þá rak ég augun í næstu grein við hliðina, í sama greinarflokki, og þar má sjá húsið okkar – Sjökvist eða Helsinki, eða hvað við köllum það. Að vísu ekki í aðalhlutverki en það er þarna samt, og fyrir miðri mynd, fyrir miðri opnu, skorið í sundur af síðuskiptum. Einsog það hafi alltaf verið manni ætlað. Það er greinilega enn ómálað. Og mér skilst að það þurfi nú að mála það fljótlega núna líka – það bíður vorsins. Húsið þar fyrir aftan, þetta hvíta stóra, er svo hús litla bróður míns og fjölskyldunnar hans – en einsog máltækið segir, þá er hver ber að baki sér nema búi við hliðina á litla bróður sínum. Það vill líka til að hann er laghentur smiður og ég hef í hyggju að breyta bílskúrnum við Sjökvist / Helsinki í skrifstofu og á áreiðanlega eftir að reyna þolinmæði hans gagnvart stóra bróður til hins ítrasta næstu misserin. Það vill til að það er auðvelt að lempa hann með bjór og góðum mat.
Fyra frågor … | Skånska Dagbladet
Vad skriver du på just nu? – Jag har precis skrivit färdigt en kort bok man kanske kunde kalla för en ”diet dystopi” – det vill säga, världen har ändrats och blivit sämre/svårare, men inte så jätte, jätte mycket. I denna framtid finns det lite fler kameror och vem som helst kan när som helst koppla in sig till vilken kamera som helst, och genom facial recognition söka upp vem man vill. Lite som Facebook på steroids. Boken handlar sedan inte minst om vad som händer i ett sånt samhälle, när systemet kraschar och man plötsligt INTE ser varandra längre, och ingen ser en själv. Den heter Heimska (Dumhet/Idioti) och kommer på isländska nu i september Fyra frågor … | Skånska Dagbladet