Það er 18. september 2020 og því liðin slétt 50 ár frá því Jimi Hendrix dó, 27 ára gamall, einsog Robert Johnson, Janis Joplin og allir hinir. Hér eru tvö lög af því tilefni.
Author: Eiríkur Örn Norðdahl
id““:““21o3a““
Í gær var Bill Cosby sakfelldur fyrir nauðgun. Ég veit ekki hvað hann var sakfelldur fyrir margar en hann var a.m.k. sakaður um fleiri tugi – ferill hans virðist með því allra viðbjóðslegasta í heimi hinna ríku, frægu og sturluðu, svona ef frá er talinn Jimmy Savile. Af þessu tilefni rifjaði ég áðan upp Bill-Cosby mónólóg Eddies Murphys úr RAW, þar sem hann segir frá því þegar Cosby hringir í sig til að kvarta undan sóðakjaftinum á sér, og er mikið niðri fyrir. Það er eitthvað sem manni finnst ganga upp við að mestu móralistarnir séu oft á tíðum líka mestu skepnurnar – eðli mannsins er hræsnisfullt og hann er gjarn á fela bresti sína frekar en flíka þeim, og góðmennskuyfirvarpið og kurteisin eru góðar fjarvistarsannanir fyrir þá sem vilja stunda myrkraverk. Þess utan er maðurinn líka gjarn á að reiðast öðrum fyrir það sem hann skammast sín mest fyrir í eigin fari (og ég geri alveg grjóthart ráð fyrir að verstu skrímslin meðal okkar viti af ógeðinu í eigin fari og það meiði þá). Ég veit ekki hvort Eddie Murphy er góðmenni – eini alvöru skandallinn í lífi hans kom upp þegar hann var gripinn með trans vændiskonu fyrir um 20 árum. Í kjölfarið gaf Candace Watkins, trans vændiskona, mentor trans vændiskvenna og rithöfundur, út rafbók – In the Closet with Eddie Murphy – þar sem teknar voru saman sögur af viðskiptum Eddies og trans vændiskvenna. Bókin var aldrei prentuð en dreift í gegnum heimasíðu – nú virðist hún horfin af netinu, ég finn a.m.k. hvorki af henni tangur né tetur. Eddie sagðist bara hafa verið að skutla konunni, sem dó ári síðar – af slysförum eftir að hún læsti sig úti sagði lögregla en einhverjir gerðu því víst líka skóna að henni hefði verið hrint út um gluggann (sem lögreglan sagði að hún hefði verið að reyna að komast inn um). Jimmy Savile var þekktur mannvinur og einsog Cosby þekktur fyrir einn fjölskylduvænan sjónvarpsþátt – forsenda Jim’ll fix it var að börn skrifuðu Jimmy óskir sínar og hann lét þær rætast. Í gúglinu hérna áðan rakst ég líka á viðtal sem Ricky Gervais tók við Savile, sem hann kynnir með orðunum: „My next guest is basically the A-team rolled into one. He has the cigar of Hannibal. He’s a ladiesman like Face. He’s got the jewelry of Mr. T and he’s mad like Murdoch. And not in a good way.“ Svo fara þeir að ræða góðgerðarstarf Jimmys, sem er afar hógvær (fyrir þá sem af einhverjum ósennilegum ástæðum þekkja ekki söguna af Jimmy, sem var sennilega eins nálægt því að vera djöfull í mannsmynd og nokkur kemst, er hægt að lesa um glæpina hér).
createdTimestamp““:““2024-05-19T11:58:23.592Z““
Bók vikunnar var Meira eftir Hakan Gunday. Ég ætla að skrifa um hana fyrir Starafugl svo ég segi ekkert um hana sérstaklega hér, annað en að hún meðmælist hart. Hún hafði af mér hin stóru Prix Medici verðlaun í Frakklandi – ég var tilnefndur fyrir Illsku – og ég get bara eiginlega ekkert verið beiskur yfir því, þetta var bara mjög verðskuldað hjá Gunday. „Mikilvæg bók“, einsog maður segir. Allir ættu að lesa hana. *** Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness voru veitt í fyrsta sinn í síðustu viku. Reyndar voru önnur verðlaun sem hétu þessu sama nafni fyrir svona 15-20 árum. Þau voru veitt kannski tíu sinnum fyrir nafnlaus innsend handrit og ráku sig í strand. Bæði voru þau veitt höfundum sem voru ekki í in-crowdinu, sem var vandræðalegt – Eyvindur P. Eiríksson fékk þau eitt árið en fékk svo ekki einu sinni listamannalaun til að klára framhaldið – og svo spurðist út að einhver handrit sem unnu hefðu alls ekki verið send inn í keppnina heldur verið dregin upp úr skúffum útgefenda og höfundunum bara boðin verðlaunin. Af því innsendu handritin voru ekki nógu góð. Svo sögðu sumir að bækurnar væru bara alls ekki nógu góðar – eða að gæði þeirra væru almennt ekki nógu góð, þótt það væru góðar þarna á milli. Þau enduðu einhvern veginn alveg án nokkurs trúverðugleika. En þessi nýju HKL-verðlaun eru alþjóðleg og fyrsti verðlaunahafinn er Ian McEwan. Ég hef verið mishrifinn af bókum hans – ég var hrifinn af Saturday og Hnotskurn en minna af öðrum. Margir hafa orðið til að segja að það sé hálftilgangslaust að veita svona frægum höfundi enn ein verðlaunin. Þá hefur verið fundið að því að hann sé hvítur karl (classic aðfinnsla), að hann skrifi á ensku og hafi ekkert við peningana að gera. Aðrir hafa sagt að það sé taktískt að veita McEwan verðlaunin fyrstum svo þau hafi ákveðna þyngd, svo megi taka vogaðri ákvarðanir síðar. En þetta fer auðvitað allt eftir því hvaða tilgang verðlaunin eiga að hafa. Hvaða prófíl maður vill handa þeim. Ég held það fari illa að veita McEwan verðlaunin ef maður ætlar ekki bara að hafa þetta einhvers konar heimsmeistarakeppni í sagnamennsku – að veita þau bara McEwan týpunum. Það þýðir ekki að verðlaunahafar þurfi allt að vera hvítir karlar frá Vesturlöndum en það þýðir að maður svíkur ekki ákveðna meinstrím fagurbókmenntir sem njóta metsölu, hafa fengist samþykktar af markaðnum – Margaret Atwood getur fengið þau, Chimamanda Ngozi Adichie, Hanif Kureishi, Junot Diaz eða Hilary Mantel kæmu öll til greina. En það myndi gerast sjaldan ef nokkurn tíma að höfundurinn væri manni óþekktur eða viðkomandi væri lítið sem ekkert þýddur eða að bókmenntirnar væru fagurfræðilega erfiðari – Jelinek-týpurnar gætu ekki fengið þetta. Verðlaun geta verið einföld meistarakeppni – þá er ekkert skrítið að sama fólkið vinni aftur og aftur. Öll slík hugsun er afleiðing elítisma og þá eru í alvöru ekki nema svona 10 verðugir höfundar í heiminum á hverjum gefnum tíma – ekki að það séu bara 10 höfundar sem skrifa frábærar bækur heldur eru bara 10 sem sameina að skrifa frábærar bækur og vera miðlægir í kastljósinu. Verðlaun geta líka verið hugsuð til þess að ýta fólki/verkum inn í þetta kastljós – það er oft hugsunin á bakvið nóbelsverðlaunin og þess vegna er svo mikil fýla þegar einhver einsog Bob Dylan fær þau, ekki vegna þess að hann sé ekki frábær heldur vegna þess að virkni verðlaunanna er þá ekki sú sem fólk býst við af þeim. Halldór Laxness fékk þetta bömp og með því fylgdi sæti í eilífðinni. Svo geta verðlaun verið menningarpólitísk í þeim skilningi að þau hampi ákveðinni fagurfræði umfram aðra. Þau gætu t.d. hampað einfaldri sagnalist eða margbrotinni, hampað ljóðrænum sögum eða raunsæjum stíl, hampað vísindaskáldskap, skáldskap kvenna, skáldskap minnihlutahópa, pólitískum skáldsögum eða framúrstefnuljóðum. Bókmenntaverðlaun HKL eiga að veitast höfundi sem stuðlar að endurnýjun sagnalistarinnar – en fyrir það fékk HKL nóbelinn á sínum tíma. Að velja Ian McEwan er að ryðja sér rúms á Bookersvæðinu. Metsölubókasvæðinu. Svo getur vel verið að það verði rokkað á milli popúlískari ákvarðana og vogaðri og þá er maður meira á Nóbelsverðlaunasvæðinu – en þótt þau séu löskuð er ansi mikið af plássinu á því svæði þegar tekið. Verðlaunaupphæðin – 2 milljónir – gefur nú líka til kynna að það eigi að taka þessu mátulega alvarlega. Sennilega er þetta vikukaup fyrir mann einsog McEwan. Dugar ekki til að kaupa sér nýjan bíl. Aðallega finnst mér þessi bestsellerismi leiðinlegur. Færri og færri titlar rata út úr bókabúðum – ekki bara færri og færri bækur, heldur taka metsölubækurnar yfir stærri og stærri hluta markaðarins, og þær gera það í krafti áherslu bókmenntaheimsins á að búa til hype í kringum sömu hlutina aftur og aftur. Hér er ekki bara við forlögin að sakast – þótt þau hafi meira vald til að spyrna á móti en flestir – heldur er þetta meinsemd sem nær miklu víðar. Verðlaun sem varpa ljósi á eitthvað nýtt frekar en að fagna því sama þúsundasta skiptið í röð væru viðnám við þessari þróun. *** Ég tók mig til og horfði á Square eftir Ruben Östlund í vikunni. Hún var mögnuð þótt hún hafi ekki verið jafn óþægileg og Play eða Turist (Force Majeure). Kannski var of miklu hrúgað í hana til þess – Play og Turist voru ísmeygilegri, hentu fram einni forsendu og létu mann svo dvelja í henni og kveljast lengi án þess að það gerðist neitt mikið meira. Square er meira tårta på tårta, einsog Svíarnir mínir segja, ofhlaðin – ástandið getur alltaf orðið aðeins skrítnara, aðeins óþægilegra. Mér finnst það ekki endilega verra en það skapar allt annað andrúmsloft og maður tekur hana öðruvísi inn þótt stíllinn og tónninn séu kunnugleg úr fyrri myndum Östlunds. Áhugaverðasti búturinn – eða einn af þeim áhugaverðari – sem hefði getað borið heila mynd í raun, er hlutinn með auglýsinguna sem listasafnið gerir. Listasafnið fær auglýsingastofu til að gera fyrir sig auglýsingu til að vekja athygli á myndlistarverki sem heitir The Square. The Square er einfaldlega ferningur á gólfi sem maður getur stigið inn í og þar eiga allir að njóta sömu réttinda og hafa sömu skyldur gagnvart hvert öðru. Auglýsingastofugosunum finnst þetta augljóslega frekar glötuð og tilgerðarleg hugmynd og segja erfitt að gera fólk spennt fyrir henni. Þeir búa svo til auglýsingu þar sem ung hvít ljóshærð stúlka, betlari, er sprengd í loft upp í miðjum reitnum. Stjórninni finnst þetta svolítið pólitískt vandræðalegt og „mycket problematiskt“ – en svo kemur stjórinn inn, aðalsöguhetja myndarinnar, og hann hefur eiginlega of mikið að gera og nennir ekki að láta stressa sig með þessu, lítur í fimm sekúndur á tillöguna og segir svo bara „jájá, frábært, einmitt það sem við vorum að spá“ og gengur á dyr. Svo auglýsingin er framleidd með samþykki stjórans, sem enginn þorir að andmæla. Einhverjum tíma síðar verður auglýsingin svo viral og stjórinn þarf að svara fyrir þessi ósköp. Á blaðamannafundi stendur upp brún kona með hreim og spyr hvort hann hafi enga samlíðan með betlurum, hvort hann sé bara samviskulaus, og hann umlar eitthvað, biðst afsökunar, þetta sé auðvitað ekki gott, hann ætli að segja af sér. Næst stendur upp blaðamaður – hvítur karl – og spyr hvort hann ætli bara að segja af sér, hvað hafi orðið um tjáningarfrelsið, skyldu safna til að standa með hinu erfiða þegar eitthvað svona smotterí getur orðið til þess að setja fólk alveg af sporinu. Og hann bara umlar og segir ekki neitt. Það sem slær mann er sannferðugleikinn á bakvið þennan skort á núönsum. Að maður geti ekki gengist við að eitthvað hafi verið mistök, maður hafi slegið feiltón, án þess að feiltónninn sé ófyrirgefanleg katastrófa. Öll svör verði vandræðalegt uml. Það er ekkert í stöðunni nema að segja af sér og hverfa inn í skuggana eða rísa á fætur með hnefa á lofti til að berja á … betlurum … og góða fólkinu í nafni málfrelsisins. Eða einmitt bara umla og deyja. Ég festist kannski líka í þessari senu vegna þess að ég var nýbúinn að rekast á nokkurra vikna gamalt mál femínistans Camille Paglia. Paglia – sem hefur á stundum talað um sig sem trans – var í viðtali neikvæð á það sem hún kallar trans-bylgju samtímans: I am highly skeptical about the current transgender wave, which I think has been produced by far more complicated psychological and sociological factors than current gender discourse allows. Þá hefur hún líka „talað niður“ metoo hreyfinguna og fleira. Afleiðing þessa var ákall um að hún yrði rekin úr stöðu sinni sem háskólaprófessor sem fleiri þúsund manns skrifuðu undir. Nú er ég ekki endilega sammála Paglia og raunar ekki alltaf alveg viss hvað hún er að fara. Hún er broddfluga í vestrænni menningu – hefur verið talin meðal stærstu menntamanna samtímans – og hefur gert sér far um að hafa óþægilegar, ögrandi skoðanir. Mörgum finnst það sennilega bara vera eitthvað edgelord-dæmi sem gangi út á að fá athygli – það er yfirleitt svarið – en ég held að samfélag sem á ekki fólk einsog Paglia, sem setur spurningarmerki jafnvel á viðkvæmustu stöðum, óttast ekki alltaf að hafa (sögulega?) á röngu að standa og skirrist ekki við að nefna nöfn eða gagnrýna þá sem standa henni annars nærri í fræðunum (það er erfitt að finna frægan femínista sem hún hefur ekki einhvern tíma gagnrýnt), ég held að þannig samfélag úrkynjist og verði einfeldningslegt og sannast sagna bara dálítið fasískt. Krafan um að fá að svara þessum spurningamerkjum – að fá að takast á við þau, fá plattform til þess að takast á við þau o.s.frv. er mjög eðlileg. Samfélag þar sem allir eru einsog Paglia er ekki heldur samfélag neinna hugmyndafræðilegra átaka heldur samfélag sams konar átomatona og þar sem enginn spyr neins. Það verður að vera díalógur og hann þarf að geta átt sér stað án þess að það sé krafa um að allir séu sammála . Þetta er það sem krakkarnir á twitter kalla cancel culture – sem er hugtak sem maður sér næstum jafn oft í neitunarstaðhæfingum („það er ekki til neitt cancel culture“) og maður sér góða fólkið („there’s no such thing as PC and if there is it’s only correctly applied to nazis“). Og sem betur fer tekst þetta ekki alltaf – þótt krafan um brottrekstur sé ekki gáfulegri fyrir vikið – Paglia hélt vinnunni, en það munaði litlu. *** Ég keypti mér stuttskífuna Bensínið er búið með Langa Sela og Skuggunum á vínyl. Þetta er auðvitað klassa rokkabillí og búgí og ekkert verið að finna upp hjólið – en þetta hittir mig alveg í hjartastað. Hingað til hef ég verið ákafastur yfir síðasta laginu, Salt & Pipar. „Ég nota salt og pipar / (salt og pipar) / því þú ert bara alltof sæt“. Myndmálið í þessu er áhugavert. Hann notar salt og pipar því hún er alltof sæt. Þetta er auðvitað heterónormatíft – rokkabillí er það eiginlega alltaf, ekki síst þegar það er drag einsog hjá John Waters. Ég hef einhvern tíma látið hafa eftir mér að ef ég er með ofurkraft sé það að geta getið mér til um hvar fólk staðsetur sig á kynjarófinu út frá því hvað það setur á diskinn sinn á morgunverðarhlaðborði. Þar koma salt og sæta einmitt mjög sterk til leiks – það er (alla jafna) maskúlín að taka beikon og pulsur, feminín að taka jógúrt, ávexti og sætabrauð. En líkt og í kynjakerfinu eru áhugaverðar undantekningar – það er t.d. maskúlín að hrúga á diskinn sinn bökuðum baunum í dísætri tómatsósu og það er feminín að taka þykkar sneiðar af söltum camembert. (Óþarfi er að taka fram að maskúlín/feminín eiginleikar dreifast svo ójafnt á fólk og eru ekki endilega í samræmi við önnur kyneinkenni, kyngervi eða kynvitund – og engir tveir bera sig eins að við hótelmorgunverðarhlaðborð). Karlmaður í leðurjakka með gel í hárinu notar salt og pipar og lokkaprúður kvenmaður í sixtískjól er augljóslega alltof sæt. Myndmálið er líka áhugavert út frá því að bæði sætan og seltan eru bragðbætir – að baki þeim er annar kjarni, hvort sem það er kjöt eða fiskur eða brauð eða annað. Manneskjan að baki er ekki endilega skrautið sem hún stráir yfir sig – en án þessa skrauts væri hún kannski bragðdauf. *** Kvöldið fyrir sumardaginn fyrsta fórum við Aram Nói á Avengers: End Game. Það var stappfullt út úr dyrum í Ísafjarðarbíó, sem gerist nú ekki alveg nógu oft núorðið, og stemningin var æðisleg. Aram og besti vinur hans, Hálfdán, höfðu eytt deginum í að tússa hver á annan – hann var með „Marvel“ á bringunni, minnir að það hafi staðið „Power Stone“ á bakinu á honum, „Thor“ á annarri kinn og „Thanos“ á hinni og „VS.“ á enninu. Og svo fór hann bara ber að ofan í bíó. Ég píndi hann að vísu til að fara í jakka á leiðinni, sem kom sér vel því þótt það sé stutt ganga fyrir okkur þurftum við að standa úti í biðröð í svolítinn tíma. Inni í salnum lagði hann svo jakkann á hnén á sér og þá leit eiginlega út einsog hann væri bara alls ber með jakkann yfir því allra heilagasta. Myndin var sirka einsog við mátti búast. Ég hef sennilega séð megnið af þessum Marvelmyndum og þar af auðvitað undanfara þessarar, Infinity War. Þetta er svona öllu-tjaldað-til-dæmi og formúlan nánast svo grjóthörð og skriðþunginn í hinum myndunum nógu mikill til að þetta hefði aldrei getað klúðrast illa – eða verið neitt öðruvísi en nákvæmlega einsog það var. Hún var þrír tímar að lengd og það voru sprengingar og rómantík og þunglyndi og síendurtekinn sigur við ólíklegar aðstæður, kryddað með örlitlum vonbrigðum og svona hálftíma löngum ljúfsárum en hamingjusömum endalokum. Við feðgar fórum mjög glaðir heim. *** Sumardagurinn fyrsti var svo eins konar menningarreisa. Við fórum fjölskyldan inn í Holtahverfi í svimandi rjómablíðu til að spila cornhole og borða corn dogs hjá amerískri vinafjölskyldu okkar – ásamt fleiri vinum. Það var líka boðið upp á kryddaða kjúklingavængi, doglausar corn dogs með súrum gúrkum í staðinn, hummus og grænmeti og búrbon-límonaði og bjór. Þetta var eins konar æfingar-„tailgate“ fyrir aðra vinafjölskyldu sem er að fara að flytja til Bandaríkjanna í maí. *** Við börnin kláruðum að lesa Elías eftir Auði Haralds og Valdísi Óskarsdóttur. Hún fjallar um samnefndan dreng sem er að fara að flytja með fjölskyldu sinni til Kanada í tvö ár, svo pabbi hans geti smíðað brýr. Fjölskyldan sem ég nefndi hér að ofan, sem er að flytja til Arlington í Bandaríkjunum, er einmitt fjölskylda besta vinar Arams – Hálfdáns Ingólfs, sem tússaði sig með honum fyrir bíóið – og hún er að flytja í tvö ár svo mamma hans Hálfdáns geti búið til sárabindi úr fiskroði fyrir bandaríska hermenn. Og alla sem gætu þurft á slíku sárabindi að halda. Svo þetta var viðeigandi lestur fyrir okkur. Það er mjög gaman að lesa svona fjölskyldusögur með krökkunum. Bæði til að sjá það sem hefur breyst og það sem hefur alls ekki breyst. Fólkið í Sitji-guðs-þríleik Guðrúnar Helgadóttur er okkur mjög fjarri í tíma og aðbúnaði, með barnaskarann og peningaleysið og fjarverandi pabbann og sambúð með ömmu og afa, og fyllibyttum á öðru hverju heimili. En fólkið í Elías er allt í einhverju nútímastressi sem er kunnuglegt. Foreldrarnir gera alls konar plön og eiga í flóknum samskiptum við aðra – aðallega Möggu móðursystur í þessu tilviki, sem vill öllu ráða en er líka mjög hjálpleg – og Elías finnst bæði gaman að vera hluti af veröld fullorðna fólksins og að sleppa úr henni. Ég spurði Aram og Aino hvað væri mest ólíkt samtímanum í Elíasi og Aino sagði að foreldrarnir væru svo ruglaðir – sem mér fannst hughreystandi – og Aram bætti við að Elías þyrfti að passa foreldra sína svo mikið. Við Nadja hljótum að vera svona ofsalega stabíl eða góð í að fela hvað við erum klikkuð. Fyrst og fremst er Elías auðvitað sprenghlægileg bók, bæði fyrir börn og fullorðna. Lestrarfyrirkomulagið með börnunum á heimilinu er þannig að ég og Nadja lesum fyrir þau til skiptis og við lesum ólíkar bækur – Nadja á sænsku og ég á íslensku. Nadja les alltaf sitthvora bókina fyrir þau en hjá mér skiptumst við á að velja bækur og lesum eina í einu. Ég valdi Elías og ætla að halda áfram að velja Elías þegar kemur aftur að mér – það eru a.m.k. tvær bækur til viðbótar í flokknum. Aram valdi Flóttann mikla eftir Indriða Úlfsson, sem við fundum hjá ömmu og afa, og erum nýbyrjuð á. Aino, sem á að velja næst ætlar að taka myndskreyttar sögur úr Þúsund og einni nótt, sem hún fékk í afmælisgjöf. Þar sem við lesum ekki nema annað hvert kvöld – og tæplega það, það fellur alltaf eitthvað úr, stundum er annað þeirra að gista hjá vini og þá lesum við eitthvað annað en kaflabókina, og stundum er ég ekki heima o.s.frv. – þá tekur stundum sinn tíma að komast heilan hring. *** Föstudagsfjölskyldumyndin var Rise of the Guardians. Aino valdi að þessu sinni. Myndin fjallar um Jack Frost sem er eirðar- og tilgangslaus ofurvera í heimi þar sem börn trúa bara á Jólasveininn, Páskahérann, Herra Sandmann og Tannálfinn. Jack færir fólki vetur og stuð. Ljótikallinn sækir að þessum barnaguðum og ætlar að kreista gleðina úr hjörtum þeirra og eina von þeirra er hjá Jack Frost, sem kallinn í tunglinu útnefnir „varðmann“ ásamt áðurnefndum ofurverum (þótt enginn trúi á hann). Hún fór svolítið mikið innum eitt augað og útum hitt. Kannski var það vegna þess að ég var að byrja að verða lasinn – þá rennur allt saman fyrir mér. Ég get t.d. ekkert lesið þegar ég er með hita. Það var áhugavert að þótt ljótikallinn yrði aumkunarverður í endann þá var samt lífið murkað gersamlega úr honum – það var engin siðbót, engin fyrirgefning. Meira að segja Thanos fékk smá samúð – var tragískur. Ljótikallinn var bara vondur. Og ætti kannski ekki að koma á óvart. *** Kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins horfði í gær á Kona fer í stríð. Það var mitt val að þessu sinni og við vorum hvorugt búin að sjá hana. Kona fer í stríð var góð þegar hún var góð, sem var oft, en vandræðaleg þegar hún var það ekki og heilt yfir var myndmálið svolítið hingað og þangað fyrir mig. Annað en Square fannst mér hún ekki bera ofhleðslu – einsog hún vildi segja manni allegoríu en væri svo alltaf að berjast út úr henni líka. Svona einsog ef það væri hliðarsaga í Animal Farm að Snækollur væri líka að reyna að ættleiða. Það er einsog hún vilji vera of margar aðrar myndir í einu og nái ekki að sætta áhrifavalda sína. Eina stundina er það Kusturica en þá næstu er maður að horfa á Amelie og svo er maður að horfa á skandinavískt persónudrama um barnlausa konu sem vantar lífsfyllingu (barn!) og síðan pólitíska allegóríu. Einhvern veginn fannst mér vanta að hún blómstraði almennilega í eina áttina – sennilega hefði það bara getað verið í Kusturica áttina, það er eina formið sem getur borið hitt líka, að hún yrði sannanlega absúrdísk en daðraði ekki bara við það. Stundum var líka einsog það væri verið að löðrunga mann með myndmáli sem ég náði einhvern veginn aldrei að púsla saman. Halla (nafnið!) er á flótta undan lögreglunni, eftir að hafa fellt rafmagnsstaur (sem ég held reyndar að geri ekkert gagn) að álveri og felur sig fyrst undir álteppi fyrir hitamyndavélum og svo undir íslensku sauðskinni fyrir drónamyndavél. Þegar hún er á leiðinni til að gefa sig fram stoppar hún leigubílinn og fer út í hraun og gubbar á íslenska náttúru (skömmu áður blæðir henni líka í íslenska náttúru – einum dropa). Þar á eftir tekur hún myndina af stelpunni sem hún ætlar að ættleiða, rífur upp mosa (!!!) og treður ljósmyndinni – sem er kemískt sorp, vel að merkja, og brotnar ekki auðveldlega niður í náttúrunni – inn í mosann. Svo kallar hún sig „Fjallkonuna“ – og ég bara get ekki neitt sem heitir fjallkona. Í bandarísku endurgerðinni yrði hún þá skallaörninn. Það er bara ekki hægt. Forsætisráðherrann heitir Jón Hreggviðsson, hundurinn heitir Kona – og það er bara svo margt svona, verður algerlega ómeltanlegt í pólitískri allegoríu, en hefði verið áhugavert í Roy Anderson mynd eða hjá Buñuel, þar sem ekki er krafist sams konar stöðugrar rökmiðju. Í allegoríunni gerir maður ráð fyrir að púslið eigi að ganga upp – hér eru symbolísku púsluspilin meira einsog þau hafi orðið til á thinktank-fundi á auglýsingastofu eftir aðeins of marga kaffibolla. Mér fannst samt mjög gott touch að láta alla sem leika löggur í myndinni vera grínista – Ari Eldjárn, Helga Braga, Þorsteinn Guðmundsson og Dóri DNA leika löggurnar í myndinni. Svo er Jón Gnarr forsetinn og ég var ekki viss hvort það ætti að vera tenging við hina grínistana og hans hlutverk er öðruvísi en þeirra – það er meira grín í því. Kjarnapersónur myndarinnar – sérstaklega Halla og meintur frændi hennar, Halldóra Geirharðs og Jóhann Sigurðarson – voru annars mjög trúverðugar persónur, þótt þau væru problematísk, og afar vel leikin, einsog við er að búast. Grunnsagan er góð og breyskleikar aðalsöguhetjunnar eru áhugaverðir – að hún rjúki út í reiðikasti til að taka eitt tilgangslaust lokaáhlaup á stóriðjuna, og rammi það nánast einsog hún sé þá að fórna lífsfyllingu sinni (ættleiðingardótturinni sem býr í Úkraínu) án þess að taka nokkuð tillit til örlaga þeirrar væntanlegu dóttur eða systur sinnar eða annarra meðreiðarsveina. Hún er rosa merkileg hugsjónakona á sama tíma og hún virkar algerlega vafin upp í eigið egó – allt við þessa ættleiðingu rammast inn af hennar eigin þörfum. Stemningin í myndinni er á köflum mögnuð, það er flott tempó og hin tekníska leikstjórn er upp á tíu. Einsog venjulega á íslensk náttúra stórleik. Tónlistin er frábær – ég er enn að gera upp við mig hvort ég sé sammála Nödju um að hljómsveitin, sem birtist í mörgum senunum, hafi verið ofnotuð. Ég hefði sennilega ekki hugsað út í það ef hún hefði ekki nefnt það. En mér finnst líka mjög gaman að horfa á fólk spila á hljóðfæri. Ég spurði mig svolítið út í þessi úkraínsku þjóðlög – ég geri ráð fyrir að þetta séu úkraínsk þjóðlög. Einhvern tíma skrifaði ég eitthvað um útlendinga frá stórþjóðum sem koma til Íslands til þess að fá útrás fyrir þjóðrembu sem þeir geta ekki leyft sér heima fyrir. Vinstrisinnaður Bandaríkjamaður sem getur ekki heilsað fánanum kemur til Íslands til þess að falla í stafi frammi fyrir fjalli og fyllast Wagnerískum ofsa; sama gildir um Þjóðverja og Kanadamenn og fleiri. Þetta er svona nationalism by proxy. Mér fannst úkraínsku þjóðlögin – sungin af þremur „fjallkonum“ – vera svolítið þannig, einsog stand-in fyrir íslensk þjóðlög sem hefði verið tabú að hafa þarna. Aukapersónur myndarinnar – forsætisráðherra, konan á ættleiðingarskrifstofunni, spunameistarar í sjónvarpinu, leigubílstjóri í Keflavík og aðrir fulltrúar „samfélagsins“ voru hins vegar ótrúverðugar klisjur. Þegar leigubílstjórinn fór að tala um lattelepjandi listaspírur frussaði ég af kjánahrolli. Þegar forsætisráðherra er spurður um loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar og snýr sér út úr spurningunni með því að tala um alvarleika ofbeldis var ég mest hissa – það eru allir forsætisráðherrar með staðlað svar um „metnaðarfulla loftslagsáætlun sína“ og „mikilvægi þess að standa vörð um jörðina“, alveg burtséð frá því hversu mikil alvara er á bakvið slík svör. Forsætisráðherrar eru ekki svona lélegir í augljósasta spuna. Ræða forseta á Þingvöllum sló mig líka undarlega – var hann að bera saman aftökur á Þingvöllum forðum daga og aftökur kínverska ríkisins? Slíkt hefði verið diplomatískt stórslys – leikurinn snýst um að láta, einsog Vigdís gerði og var frægt, sem mannréttindi séu afstæð og kínverska stjórnin í raun mannúðleg. Að konfronta kínversk stjórnvöld svona, þótt það sé gert í rænuleysi, er miklu líkara þeim mótmælum sem Jón Gnarr – sem leikur hér forseta – gerði í raun og veru sem borgarstjóri, og í alls engu rænuleysi. Ég „lendi“ oft í því þegar ég hugsa og skrifa um íslenskar myndir að hljóma einsog mér hafi þótt þær verri en mér þótti þær. Þegar kreditlistinn rúllaði í gær og Nadja spurði mig hvað mér hefði þótt sagði ég „já, þetta var bara nokkuð gott“. Og þrátt fyrir allar þessar aðfinnslur þá var þetta bara nokkuð gott – setti heilasellurnar af stað og fékk mann til að hugsa. *** Gítarleikari vikunnar er enginn annar en Langi Seli sjálfur.
id““:““5j16a““
*** Í dag eru liðin 30 ár frá því Appetite for Destruction kom út. Síðan þá hefur fátt verið gert af viti. *** Því fögnuðu Gunsliðar með tónleikum á Appollo í New York í gær. Það var hægt að hlusta á þá í streymi en engir miðar voru seldir – bara boðsmiðar. *** Í dag förum við Aram líka til Berlínar. Í augnablikinu er ég að leggja lokahönd á þýðingu á texta eftir vinkonu mína Maju Lee Langvad, sem er gestur á bókmenntahátíð í Reykjavík í haust. Aram er að spila nýja Zeldaleikinn í Nintendotölvu frænda síns. Það hefur ansi margt breyst frá því ég spilaði gamla Zeldu leikinn – sem kom einmitt út ÁRI ÁÐUR en Appetite. *** Ég sá að útgefandi nokkur í Danmörku var að velta því fyrir sér hvers vegna rithöfundar ferðuðust svona mikið á hátíðir og þvíumlíkt og tók það til mín, enda ferðast ég frekar mikið. Við þessari spurningu útgefandans eru tvö svör. *** Annars vegar er ekki endilega leiðinlegt að ferðast – til dæmis á bókmenntahátíðir í skandinavískum útnárum – því staðirnir geta verið áhugaverðir sem og fólkið sem maður hittir þar. Ef ég hefði ekki þegið boð á Nordic Summer hátíðina í Jurbarkas sumarið 2008 hefði Illska sennilega orðið allt öðruvísi bók. *** Hins vegar borga útgefendur afar illa, einsog þeim danska hlýtur að vera ljóst – það er lítið upp úr þessu að hafa nema fyrir Rowlingana. Ég hef talsvert af tekjum mínum af upplestrum og þátttöku í bókamessum og bókmenntahátíðum. Og mig munar satt best að segja um hvern tíkall. *** Frá Västerås er það að frétta að rúmenska konan sem betlar fyrir utan Råby Centrum er farin að selja bláber. Ég man aldrei hvað hún heitir og er of feiminn til að eiga í miklum samskiptum við hana en Nadja hefur svolítið kynnst henni og hún man alltaf eftir okkur þegar við komum. Sennilega er þetta fimmta eða sjötta sumarið sem hún kemur. Hún er jafnaldri okkar og á þrjú börn í Rúmeníu sem hún skilur eftir. Þetta er bölvað helvítis líf og hún virkar ansi þreytt þótt hún sé líka glaðvær. *** Leiðinlegast er að sjá þegar fólk fer að þrátta við hana eða útskýra fyrir henni yfirlætislega hvernig hún gæti komið lífi sínu á rétt ról – einsog hún hafi aldrei velt því fyrir sér sjálf. Svíar geta verið alveg rosalegir útskýrendur. Um daginn stóð yfir henni einhver kelling í ábyggilega hálftíma, með fingur á lofti. Ég hugsa að hún hafi meint vel. *** Við keyptum auðvitað bláber til að hafa með morgunjógúrtinni. Þau voru góð. Kannski ekki jafn stórfengleg og Costcoberin, sem ég heyri svo vel af látið, en vel frambærileg engu að síður.
id““:““ffrm4″“
Háð er hollt.
Grínið gott.
Valdið vont. Úr Litlu hugsanabókinni eftir Guðberg Bergsson. Ég er flúinn að heiman. Kominn með skrifstofu úti í bæ fram í miðjan næsta mánuð. Út af myglunni, sem lagast ekkert, sama hvað ég geri. Versnar bara, ef eitthvað er. Það eru nokkrir dagar í kosningar. Ég hef enn ekki gert upp við mig hvort ég kýs Vinstri-Græn, sem nýjustu upplýsingar herma að séu klámsjúk (gott ef ekki hreinlega kúkaklámsjúk), eða Pírata, sem eru byssuóðir gervistærðfræðingar. Kannski úllendúllendoffa ég bara. Saga Nýhils: Áttunda brot brotabrots brotabrotabrots
2002 gaf Nýhil út þrjár bækur. Fyrst kom Heimsendapestir, sem ég hafði þegar fjallað um, en síðan Spegilmynd púpunnar: Greatest Shits eftir Hallvarð Ásgeirsson og þá heimspekiritið Aðilafræðin eftir Hauk Má Helgason. ljóðabókin Nei, nú slæ ég þessu upp og þá segir internetið að bók Varða hafi ekki komið fyrren 2003. Hugsanlega er það rétt. Það gæti líka verið að Aðilafræðin – sem var BA-ritgerð Hauks – hafi komið eftir áramótin líka. Maður man aldrei neitt. Já, jú – 21. janúar, 2003, segir Tímarit.is. Haukur fer svo í viðtal í febrúar í tilefni af því að hann hafði verið valin – ásamt alþjóðlegu einvalaliði – til þess að gera útvarpsleikrit fyrir BBC World. Þar kemur í fyrsta sinn nokkur opinber útskýring á Nýhil – ef frá er talinn vefurinn sem opnaði sennilega rétt fyrir áramót. – Þú hefur einnig staðið fyrir ýmsum uppákomum, bókaútgáfu o.fl. í nafni Nýhil. Hvað er það? „Nýhil er félagsmiðstöð launbúddískra róttæklinga með aðalbækistöðvar í Berlín. Okkur þykir lífið alltof ágætt til að taka það mjög alvarlega. Eða taka systemin alvarlega; peningasystemið, vinnusystemið, velsæmissystemið. Það er auð- veldara að sjá þau utan frá þegar maður stendur raunverulega, landfræðilega, utan þeirra. Nýhil hefur hingað til staðið sig best sem bókaútgáfa, með þrjár útgefnar bækur og einn DVD-disk á síðasta hausti: Heimsendapestir, ljóðabók eftir Eirík Örn Norðdahl, Aðilafræðin er heimspekirit eftir mig og Draumar um Bin Laden leikrit eftir Steinar Braga. DVD-diskurinn geymir vídeólistaverk frá Halldóri Arnari Úlfarssyni, myndlistarnema í Helsinki og Reykjavík. Fleira er á leiðinni, t.d. erum við Grímur Hákonarson trúlega að fara að gera hvor sína stuttmyndina, undir merkjum Nýhils. Nýhilkvöldin sem við höfum haldið í Berlín og Reykjavík slá tempó í starfið, með mixi af upplestrum og tónlist frá vinum okkar.“ – Draumar um Bin Laden kom að mig minnir aldrei út sem sjálfstætt verk en Áhyggjudúkkur hafði komið út hjá Bjarti þarna um jólin og við vorum í skýjunum yfir henni og í kjölfarið í talsverðum samskiptum við Steinar – sem urðu meðal annars til þess að ég skrifaði formála að leikritinu (og bætti við einhverjum texta, aðallega neðanmálsgreinum). Verkið var svo prentað í Af Stríði sem kom út snemma um haustið 2003. Tveimur dögum fyrir viðtalið – 13. febrúar – birtist þessi tilkynning í horni í Morgunblaðinu: Gunnar Þorri er Pétursson, bókmenntafræðingur, Ófeigur er Sigurðsson rithöfundur, Varði er áðurnefndur Hallvarður Ásgeirsson – sem síðar hefur aðallega einbeitt sér að tónsmíðum og gítarleik, Bjarni Delirium Klemenz er rithöfundur, Pétur Már trommaði síðar í Skátum, Stína er Kristín Eiríksdóttir og mér finnst sennilegt að Alli sé Aðalsteinn Jörundsson – sem í dag er þekktur sem AMFJ og er þekktari fyrir að vera „power noise musician“. Þetta er fyrsti viðburður Nýhils á Íslandi og einhvers staðar eru til upptökur af honum – en við í Berlín vorum augljóslega fjarri góðu gamni, a.m.k. fýsískt. Á listann vantar mann sem ég kann ekki frekari deili á en hann las þýðingar á leiðarvísum, meðal annars fyrir traktora, sem höfðu verið þýddir úr rússnesku. Já, ég fann þetta hérna í arkífunum. Fyrst traktoragaurinn. Haukur Már tók líka upp lestur á texta sem var spilaður af teipi – og Varði rímixaði þann texta og rímixið var líka spilað. Ég á líka upptökur af Hauki að lesa, eina af Gunnari Þorra og tvær í viðbót af Traktoragaurnum. En ég veit ekki alveg hvað er óhætt að birta hérna í leyfisleysi. Myndin af Hauki er tekin í íbúðinni okkar við Prenzlauer Allée, mér sýnist hann liggja á dýnunni minni frekar en inni hjá sér – hugsanlega var herbergjaskipanin svona allra fyrstu dagana og við skiptum síðar. Ég held að ég hafi ekki getað sofið útréttur í hinu herberginu, sem var minna, eiginlega pínulítið – tæplega tveir sinnum tæplega tveir metrar. Þau voru að vísu jafn breið en það stærra var mjög langt – sennilega 8-9 metrar, sinnum tæplega tveir. Mér vitanlega eru ekki til nein dokument um Nýhilkvöldin í Berlín – ég hef aldrei séð mynd eða heyrt upptöku þaðan. Ein saga – sem tengist dokumentasjón: Þennan vetur ákvað Haukur Már einu sinni að endurfæðast sem skáld. Hann tók handritið að ljóðabókinni sem hann hafði unnið að síðustu misserin og brenndi það síðu fyrir síðu í stofunni hjá okkur, sem fylltist af reyk og þetta varð allt hálfgert kaos en með miklu harðfylgi og talsverðri þrjósku og stórum opnanlegum stofugluggum og járnruslafötu tókst honum samt að brenna allt. Svo eyddi hann skjalinu í tölvunni sinni – mundi þá að ég átti annað eins og bað mig að gera hið sama. Sem ég gerði, áður en ég tilkynnti honum að ég ætti líka útprent af handritinu sem hefði orðið eftir á Ísafirði og geisladisk sem hann hafði sent mér, með upplestrum á flestum ljóðunum í bland við hljóðabréf og upplestra á ljóðum úr Heimsendapestum (sem hann var að ritstýra þegar hann sendi mér bókina). Sennilega er 2002 árið sem hlutir hættu að hverfa endanlega úr heiminum. Samt er svo lítið til af því í dag. Handritsútprentið fannst aldrei, svo ég muni – en ég á hljóðupptökurnar.
createdTimestamp““:““2024-05-24T11:48:21.555Z““
createdTimestamp““:““2024-05-08T17:16:08.396Z““
createdTimestamp““:““2024-05-23T14:27:37.240Z““
Bókaklúbbur barnanna kláraði Tímakistuna fyrir helgi. Ég valdi og var alveg ógurlega ánægður með hana. Ég var einhvern veginn búinn að heyra misjafnar sögur um hana og bjóst því aldrei við því að hún væri jafn góð og hún er – kannski að hún hafi ekki haldið dampi allan tímann, kannski það hafi komið í henni smá febrúar í síðasta fjórðungi, en hún lifði það alveg af á þrususkriðþunga eftir frábæran fyrrihluta. Börnin voru líka kát en ekki kannski jafn kát og ég. Grunnpunkturinn í sögunni er kistan í titlinum. Ef maður fer í kistuna stoppar tíminn. Þannig getur maður sleppt öllum rigningardögum lífsins. Sagan gerist fyrst og fremst í fortíðinni þegar enginn er í kistunni annar en ein prinsessa, sem er metin svo hátt að lífi hennar megi engan veginn sóa, og hún missir þannig af lífinu, ástvinum sínum og öllu hinu. En hún gerist líka í framtíðinni eftir að kisturnar verða almenningseign og allir hafa lagst í hýði til að bíða af sér kreppuástand – sem lýkur auðvitað aldrei af því enginn nennir að leggja á sig erfiðið sem fylgir því að vinna sig upp úr kreppu, allir ætla bara að bíða hana af sér einsog hvern annan rigningardag. Það vildi til að daginn sem ég byrjaði á bókinni rakst ég á tilvitnun í Andra Snæ á vegg hjá dönskum vini mínum – úr danskri þýðingu á einhverju, man ekki hverju – þar sem Andri vitnar í einhvern rithöfund (man ekki hvern, man ekki neitt!) sem sagði að maður þyrfti að lifa þremur lífum. Einu til að lesa, einu til að skrifa og einu til að bara lifa. Andri bætir svo því fjórða við: Einu lífi til að skutla börnunum í ballett og fótbolta. Allt kristallar þetta auðvitað upplifunarþrána sem einkennir samtímann – og sjálfsuppfyllingarþrána kannski líka. Ég ræddi það við Nödju um daginn að það væri svo sjaldan sem við gerðum ekki neitt. Þegar ég var lítill fór maður oft á rúntinn með foreldrum sínum – eða ég gerði það allavega – og var ekki á leiðinni neitt. Hér fyrir vestan þvældist maður milli fjarða, fór og keypti ís í Brúarnesti, í Reykjavík enduðum við oft á lulli um bílasölur. Ef við fjölskyldan í Tangagötunni förum upp í bíl eða bara upp á hjól eða reimum á okkur skóna erum við alltaf á leiðinni eitthvað. Meira að segja þegar við förum bara í göngutúr þá er markmiðið heilsan. Það er alltaf markmið, alltaf tilgangur – og maður er eftir því þreyttur og lúinn og burnoutaður og kvíðinn. Þetta er Tímakistan okkar – við breytum rigningardögunum í sólskinsdaga, breytum febrúar í eitthvað ævintýri, af því það þarf alltaf að vera ævintýri, má aldrei vera friður. Afleiðingarnar eru kannski ekki jafn slæmar og í Tímakistunni en ég held samt þetta sé ekki gott. *** Héraðið eftir Grím Hákonarson, Óli Pétur – Undir áhrifum eftir Baldur Smára Ólafsson og Fjölni Baldursson og Girl eftir Lukas Dhont eru að mörgu leyti mjög ólík verk. Þau eru samt öll realísk lífsreynsluverk – raunveruleg, byggð á raunverulegum atburðum, eða trúverðug samtímaheimild – og hefðu öll getað komið aðalatriðum sínum til skila í mannlífsviðtali eða Facebookstatus. Mikilvægi þeirra getur legið í boðskapnum eða innsýninni en listfengi þeirra liggur í öðru. *** Það var kvikmyndaklúbbur fullorðna fólksins sem horfði á Girl. Myndin fjallar um sextán ára transstúlku og ballerínu í Belgíu. Nadja valdi. Ég man ekki hvort ég hef lesið eitthvað um að hún hafi verið umdeild, þessi mynd, en mér finnst það sennilegt. Þótt ekki væri nema bara vegna þess að leikstjóri og stjarna myndarinnar eru bæði sís-karlmenn (eða strákur og karl). Þegar við bætist að myndin er mjög brútal og nærgöngul á líkama Löru finnst mér einsog hún hljóti að hafa ýft fjaðrir. Ég nefni það ekki vegna þess að mér finnist það aðalatriði, til hnjóðs eða lofs, en það kannski segir eitthvað um hana. Lara byrjar á hormónum í upphafi myndar og stefnir á aðgerð í framhaldinu. Hún misþyrmir hins vegar líkama sínum – borðar ekki, sefur ekki, teipar niður kynfærin á sér og fær sýkingar, tekur of stóra skammta af hormónunum sínum gegn læknisráði og þar fram eftir götunum. Þess utan gengur hún afar nærri sjálfri sér í ballettinum – er ævinlega alblóðug og marin eftir strangar æfingar. Afleiðingin er sú að læknirinn tjáir henni að hún sé ekki í neinu ástandi til að undirgangast erfiðar skurðaðgerðir. Það aftur veldur henni meiri harmi sem veldur því að hún gengur enn harðar að sjálfri sér, borðar minna, meiðir sig meira og svo framvegis. Myndin byrjar í raun sem einföld reynslusaga en verður smám saman að einhverju meira, nær öðrum skriðþunga og öðlast táknrænni víddir. (Þetta er ekki diss á reynslusagnaformið heldur bara lýsing á því hvernig ég sá myndina). Ég ætla ekki að dæma um hvort þær víddir séu lýsandi fyrir transferlið eða kynama en ég held ég treysti mér alveg til að segja að þær séu lýsandi fyrir ákveðnar hliðar hins mannlega ástands – sársaukann sem getur falist í því að eiga líkama. Líf Löru, sem annars er útlits einsog eitthvað kvenlegt ídeal úr Jane Austen sögu – grönn, ljóshærð, glaðleg, yfirveguð (á yfirborðinu) – leysist upp í stríð við líkama sinn, sem hún getur augljóslega ekki beinlínis unnið. Hvert högg á andstæðinginn er högg á hana sjálfa. Úr verður mikil og blóðug píslarsaga. Endirinn er bara alltílagi. Hugsanlega hefði ég frekar kosið að myndin yfirgæfi bara Löru á einhverjum hversdagslegri tímapunkti. En hún er víst byggð á sannsögulegum atburðum og þá er verið að fylgja einhverjum raunveruleika, reikna ég með. Niðurstaðan er að vísu hvorki sigur né tap – en það er eitthvað við þessa „lokabardaga“, kannski sérstaklega í svona myndum, sem virkar ótrúverðugt. *** Ég sá Héraðið í Ísafjarðarbíó. Grímur Hákonar er gamall vinur minn – ég skrifaði í Testamentið, sem hann ritstýrði, ég var aukapersóna í Varði Goes Europe, ferðaðist með þeim til Þrándheims, Grímur var stofnmeðlimur í Nýhil og hékk svolítið í Berlín þegar ég bjó þar (og hann í Prag) og hann var einn af nokkrum kommum sem ég umgekkst mikið þegar ég fór suður. Meðal hinna var Erpur Eyvindarson – og ég hló upphátt þegar ég sá að kaupfélagið í Héraðinu hét Kaupfélag Erpsfirðinga. Þótt nafngiftin komi sennilega af búinu þar sem myndin er tekin upp frekar en að þetta sé uppgjör milli Erps og Gríms, sem ég held að hafi verið bekkjarfélagar í gamladaga. Það eru fallegar stemningar í Héraðinu og góður húmor. Einhvern veginn vinna samt húmorinn og ljóðrænan aldrei nógu vel saman, frekar að þau dragi hvert úr öðru. Sagan um samskipti konunnar við kaupfélagið er að mestu leyti trúverðug (og reyndar sönn, skilst manni) og hefði neglt mann, hugsa ég, ef sjálfsmorð karlsins hefði verið betur undirbyggt. Myndin gerir því skóna að hann hafi drepið sig vegna þess að hann meikaði ekki lengur að vera samsekur kaupfélaginu – en við fáum aldrei að sjá hversu kúgaður hann er eða slíkar afleiðingar af klögum hans að það réttlæti sjálfsmorð. Allur skaði er ekonómískur og fjarri miðju sögunnar – við missum af harminum. Nú veit ég vel að fólk drepur sig oft alveg meira og minna að ástæðulausu, en í þessari tilteknu mynd er þetta samt nöfin sem restin á að hreyfa sig um – kannski hefði verið áhugavert að fara bara meira út í það hvort hann hafi ekki bara drepið sig af því hann var þunglyndur og í burnouti. En hitt er einhvern veginn skilið eftir hjá manni sem skýringin. Í myndinni er gert pláss fyrir boðskap Kaupfélagsins, einsog Grímur nefndi í einhverju viðtali, en hann er samt bara fluttur sem vondukallaboðskapur. Það er alveg sama hvaða rök Svarthöfði ber á borð – tilfinninga- eða ísköld – þau lifa ekki af þá staðreynd að hann er Svarthöfði og vill ekkert nema illt. Siggi Sigurjóns – sem er ekkert minna en stórkostlegur sem kaupfélagsstjórinn – fær að flytja sín rök en myndin sjálf tekur skýra afstöðu gegn þeim. Svar Ingu við mögulegu hruni innviða í sveitinni ef kaupfélagið ber sig ekki er bara að allt sé ódýrara annars staðar og börnin vilji ekki búa í sveitinni og panti sitt dót af Amazon. Nú held ég það sé alveg rétt að svona kaupfélög séu óttalegar mafíur og svífist oft einskis – en það á líka við um stórmarkaðina fyrir sunnan sem grafa undan kaupfélaginu og það á sannarlega við um Amazon. Þetta er einkenni á kapítalismanum frekar en bara kaupfélaginu – og lausnin er ekki endilega að það vanti samkeppni (þótt einokunarkapítalismi sé sannarlega eitt ljótasta form kapítalismans). Þessi veruleiki er flókin en einhvern veginn birtist hann manni í Héraðinu einsog hann sé einfaldur – einsog veruleikinn í sveitinni hafi frosið árið 1950. Að því sögðu fannst mér myndin að mörgu leyti mjög góð. Það er eitthvað í stóra boganum sem klikkar og myndir treystir ekki áhorfandanum til að taka afstöðu með Ingu og undirstrikar því um of réttlátan málstað hennar – en sögupersónur eru vel skrifaðar og vel leiknar, allar senurnar í myndinni eru góðar og hún er stappfull af fegurð, ljóðrænu og húmor. *** Óli Pétur – Undir áhrifum er stutt heimildarmynd eftir Baldur Smára Ólafsson og Fjölni Baldursson. Sá fyrrnefndi er líka æskuvinur minn en hefur ekki nema að litlu leyti lagt fyrir sig kvikmyndagerð. Myndin er gerð að ósk söguefnisins, Óla Péturs Jakobssonar, sem ég kannaðist við líka. Óli var eins illa haldinn af alkóhólisma og nokkur maður getur orðið, og alkóhólisminn dró hann til dauða áður en búið var að klippa myndina. Myndin samanstendur fyrst og fremst af viðtölum við tvo æskuvini Óla og svo myndböndum af Óla á götunni í Reykjavík með vinum sínum þar, sem eru allir rónar einsog hann. Hún segir manni sosum ekkert nýtt hvorki um sjúkdóminn eða götulífið í Reykjavík eða reiðina sem býr í því fólki, vonbrigðin og kærleikann og samstöðuna sem einkennir líf þeirra. Hún sýnir manni Óla einsog hann var á lokametrunum og eins einkennilega og það nú kannski hljómar þá sér maður hvað hann átti mikla fegurð til í sér, mikla mýkt og gæsku, meira að segja þegar hann var á botninum. Baldri og Fjölni tekst í þessari mynd að ná af honum snappsjotti – birta mannlýsingu, portrett – og á sama tíma fær maður líka brot úr samfélögum, annars vegar litlu horni Ísafjarðar á níunda áratugnum og hins vegar litlu horni Reykjavíkur samtímans. Mér fannst myndin mjög falleg, þótt það spili kannski rullu að þetta sé fólk sem maður þekkir. Myndin er öll á YouTube . *** Ljóðabókin Fugl/Blupl eftir Steinunni Arnbjörgu Stefánsdóttur er önnur ljóðabók hennar. Sú fyrri hét Uss. Sæmundur gefur báðar út. Ég mundi ekki nema óljóst eftir Uss og fór og náði í hana upp í skáp þegar ég var búinn að lesa Fugl/Blupl. Hún var góð en átakalausari en Fugl/Blupl, þar sem flakkið milli einhvers sem er einsog naíft normkor – rosalega tilþrifalaus en indæll texti: Á þessu hjóli er ég eins og
drottning í hásæti mínu og þess sem er ákafari listræna: Sniglaslefið tindrar í dagsbirtunni.
Töfraskjaldbakan er ekki farin. er miklu meira. Það er einsog Steinunn sé að þreifa sér leið í átt að einhverjum svona William Carlos Williams fílingum. Annars vegar í hjólböru- og ísskápastemningum og hins vegar í meiri Paterson. Ég fíla þetta mjög vel og ekki síst að það sé ósamræmi og spenna, rödd bókarinnar sé stundum einsog hana dreymi og stundum einsog hún sé glaðvakandi. *** Ég skrifa nú ekki alltaf um matinn sem ég ét á veitingastöðum. En við fórum í Flatey á síðustu helgi og átum þar sælkeramatseðil. Ég fékk matseðil 2 minnir mig – krækling í forrétt, tacos með reyktum silungi (minnir mig) í sörpræs, lamb í aðalrétt og súkkulaðiköku á eftir. Þetta var ein allra besta máltíð lífs míns og sérstaklega var kræklingurinn engu lagi líkur. Nadja var sammála mér og við eyddum máltíðinni mest megnis í að ræða bestu máltíðir sem við hefðum fengið áður (margar þeirra voru í Víetnam – mín besta var mexíkósk paella í New York og eftirlætis Nödju á einhverjum svínslega dýrum veitingastað í Frakklandi áður en við kynntumst). Ég kann annars lítið að rýna í mat. Hann var góður. Kræklingurinn var mjög stór og bráðnaði bókstaflega í munni – og auðvitað úr firðinum. Það var svolítið kikk í soðinu/sósunni. *** Gítarleikari vikunnar er Geeshie Wiley. Það er til slatti af gömlum blússöngkonum – og fyrstu vinsælu blústónlistarmennirnir voru konur með stórar hljómsveitir á bakvið sig, Ma Rainey, Bessie Smith og þær allar. Deltablúsgítarleikararnir, sem eru kannski samt aðeins eldri og upprunalegri, slógu ekki í gegn fyrren seinna. Í þeim hópi eru afar fáar konur og þær sem eru þar eru flestar annað hvort bara söngkonur eða píanóleikarar og söngkonur, einsog til dæmis Louise Johnson. En Geeshie Wiley er sem sagt undantekning hérna – líkt og Memphis Minne og Elvie Thomas, vinkona Geeshiar og ferðafélagi. Geeshie tók upp sex lög fyrir Paramount og Elvie tók upp tvo – og svo hurfu þær bara, eða þannig. Það veit enginn hvað þær hétu í raun eða hvar þær fæddust eða dóu, þótt það séu alls konar kenningar, og það eru engar myndir til af þeim heldur. Mér finnst Geeshie algerlega geggjuð og þetta er besta lagið hennar, eða allavega það frægasta.
id““:““ai20s““
Who made Who er náttúrulega ekki nein venjuleg breiðskífa – heldur að hálfu leyti best-of, 20% instrumental, 20% endurreisn tveggja laga af hinni misheppnuðu Fly on the Wall og svo titillagið, Who made Who – sem vill til að er besta lag sveitarinnar í 2,9 plötur, frá fyrsta lagi For Those About to Rock (en slær þó ekki út nema eitt og eitt lag af þeim sem AC/DC gaf út fyrir þann tíma). *** Platan var gefin út sem soundtrack fyrir bíómyndina Maximum Overdrive sem Stephen King skrifaði og leikstýrði sjálfur – gersamlega útúrkókaður. Ég hef ekki séð myndina og King kallar hana sjálfur „moron movie“ en hann sem sagt hélt og heldur sennilega enn mikið upp á AC/DC (sennilega verið of kókaður til að heyra mikið hvað var að gerast á þessu niðurlægjandi tímabili í ferli sveitarinnar). Myndin er einhvers konar sci-fi dystópía þar sem alls konar tæki lifna við í kjölfar þess að einhver halastjarna fer of nálægt jörðinni (eða álíka, söguþráðurinn er svo mikil steypa að mér sortnaði fyrir augum þegar ég reyndi að lesa hann). *** En platan þá. Mér heyrist vera búið að poppa svolítið upp mixið á Hells Bells og For Those About to Rock en ég myndi ekki hengja mig upp á það. You Shook Me All Night Long var alltaf poppað. Ride On er eina lagið hérna sem Bon Scott syngur. Sennilega þurfti kontrast fyrir myndina og þetta er eini kontrastinn, sirkabát, sem AC/DC eiga í handraðanum. *** Gítarlögin tvö – D.T. og Chase the Ace eru bæði príma, enda leysir það ansi mörg vandamál hjá bandinu að þurfa ekki að eltast við söngmelódíur og þess lags hégóma. Sérstaklega er Chase the Ace flott – rosalegt gítarsóló. Hér að neðan má líka sjá brot úr bíómyndinni. *** *** Lögin tvö af Fly on the Wall – Nervous Shakedown og Sink the Pink – eru skömminni skárri í rímixinu. En ég veit ekki hvort það er eitthvað meira. Sennilega er Sink the Pink alltílagi lag og Nervous Shakedown undir meðallagi. *** Í titillaginu byrjar svo að móta fyrir gítarstefinu fræga í Thunderstruck. Angus er svolítið gjarn á að endurtaka sig og fullkomna það smám saman – þannig mótar líka fyrir For Those About to Rock stefinu í Shoot to Thrill, einsog ég nefndi áður. Þetta er ekki endilega spurning um sömu nótur heldur svipaða tækni og stemningu. Lagið er annars einsog ég segi mjög fínt, þótt þeir megi fara að hrista af sér eitísið sem fór þeim aldrei vel, og textinn aldrei þessu vant ekki vandræðalegur. who made who, who made you
who made who
ain’t nobody told you
who made who, who made you
if you made them and they made you
who pick up the bill and who made who Og myndbandið er frábært (Stephen King leikstýrði því ekki). *** #ACDC
id““:““8m3uo““
da Dum dum dum. Þótt flestir blúsar séu tólf bör með viðsnúningi (turnaround) er það samt yfirleitt þetta sem kemur fyrst upp í hugann þegar fólk almennt hugsar um blústónlist. da Dum dum dum. Eða da Dum da Dum dum. Stundum kallað i-iv-iii framvinda og hefur verið endurtekin svo oft með litlum breytingum að þeir sem eru viðkvæmir fyrir blústónlist fá útbrot í öðrum hljómi, en hinir gæsahúð. Frá Hardworkin man með Cramps yfir í Rocky Mountain Way með Joe Walsh yfir í Bad to the Bone með George Thorogood yfir í milliriffið í Murrmurr eftir Mugison (með tvisti). Það mætti jafnvel bæta hérna við Green Onions riffinu – sem er næstum því da Dum dum dum riffið aftur á bak – og er varíant sem sést næstum jafn oft. Fyrsta da Dum dum dum lagið er auðvitað Hoochie Coochie Man með Muddy Waters en samið – einsog nánast annað hvert blúslag á 20. öldinni – af bassaleikaranum Willie Dixon. Muddy Waters fæddist í Mississippi – var skírður McKinley Morganfield, en fékk drullupollsviðurnefnið eftir sínu helsta áhugasviði í æsku (að leika í drullupollum) – og bjó þar og vann fram á fullorðinsaldur, á Stovall-plantekrunni í þessum einherbergiskofa. Hann byrjaði að spila á gítar þegar hann var sautján ára og var undir miklum áhrifum frá Son House og sótti í að sjá hann spila við hvert tækifæri. Hér verður maður enn og aftur að hafa í huga að Son House var ekki vinsæll tónlistarmaður fyrren eftir að hann „enduruppgötvaðist“ 1964 – hann tók upp sín helstu lög rétt um það leyti sem kreppan skall á og plötubransinn hrundi og náði ekki meiri vinsældum en svo að af þeim fjórum plötum sem hann gaf út (fjórar plötur = átta lög – hann tók upp níu lög en það níunda var ekki gefið út) er bara til eitt einasta eintak af tveimur þeirra. Að hann skuli hafa haft náið samneyti og mikil áhrif á tvo frægustu blúsmenn seinni tíma – jafn líka og ólíka og Robert Johnson og Muddy Waters – er eiginlega með ólíkindum. Þegar maður svo bætir því við að Son House lærði sjálfur mikið af Charley Patton – sem var sá þvottekta deltablúsari sem mestum vinsældum náði á sinni tíð – er óskiljanlegt að hann skuli ekki hafa vakið meiri athygli samtímamanna sinna annarra. En það er önnur Ella! Þegar þjóðfræðingurinn Alan Lomax birtist á Stovall plantekrunni 1941 og vildi taka upp Muddy Waters var Muddy þegar árinu eldri en Robert Johnson var þegar Robert dó – 28 ára gamall. Þá lék Muddy enn í deltastílnum – en var sparsamur á nótur, duglegri á bassanóturnar en háu nóturnar, og leyfir röddinni að njóta sín. Meðal laganna sem hann spilaði fyrir Lomax var eitt sem heitir einfaldlega Country Blues. Textinn þar er að mörgu leyti sá sami og í Walking Blues eftir Son House, sem Robert Johnson hafði tekið upp og er gjarnan kennt við hann, og laglínurnar skyldar, en Muddy hefur áreiðanlega lært af höfundinum. Þegar Eric Clapton tekur upp Walkin’ Blues fyrir Unplugged plötuna sína notar hann hvorki útsetningu Son House eða Robert Johnsons heldur einmitt þetta Country Blues eftir Muddy. Þá útsetningu lærði ég sjálfur í Tónlistarskólanum á Ísafirði þegar ég var svona 15-16 ára og spila enn af og til. Hún er mjög fín, hvað sem líður áliti manns á Unplugged-plötu Claptons. Muddy fékk síðan tvö eintök af plötunni og tuttugu dali. Hann fór með hana beint í næsta glymskratta, lék hana aftur og aftur – sagði frá því sjálfur að það hefði verið ólýsanlegt að heyra sjálfan sig syngja og spila á upptöku – fyrst þá hefði verið óhugsandi að sinna öðru en tónlist. Tveimur árum síðar, 1943, var Muddy svo mættur til Chicago, tilbúinn til að takast á við framtíðina. Einsog svo margir aðrir var hann mörg ár í harki – keyrði vörubíl og vann í verksmiðju á daginn en spilaði um kvöld og helgar. Hann komst hins vegar fljótlega í vinfengi við vinsælasta blúsarann á svæðinu, Big Bill Broonzy, og fékk að hita upp fyrir hann og tók síðan upp einhverja tónlist fyrir Chess með settlegu kombói. Á þessum tíma var rafmagnsgítarinn að ryðja sér rúms í blústónlistinni, þótt menn væru ekki alveg búnir að uppgötva hvers hann var megnugur – það sem heillaði var fyrst og fremst meiri hljómstyrkur á fjölmennari tónleikum, böllum og partíum. Plötufyrirtækin höfðu hins vegar takmarkaðan áhuga á skerandi hávaðanum í rafmagnsgítarnum – svo lítinn raunar að helsti gítarleikari Chicagotímabilsins, Buddy Guy, sem byrjaði að spila fyrir Chess-útgáfuna 1959, fékk ekki vinnu nema sem sessjónleikari í bakgrunni hjá öðrum fram til 1967. Af því hraður gítarleikurinn var einfaldlega afgreiddur sem hávaði. Muddy var hjá Chess einsog Buddy og svo margir aðrir og fékk fyrstu árin ekki að nota sína eigin hljómsveit í stúdíóinu. Sú hljómsveit, sem fylgir honum loks á plötum frá 1953, er einhver frægasta blússveit allra tíma. Little Walter á munnhörpu (og svo Junior Wells), Jimmy Rogers á gítar, Elga Edmunds á trommur, Otis Spann á píanó og oftar en ekki Willie Dixon á bassa. Fyrir utan Elga er enginn þarna sem á sér ekki sína eigin hittara – fyrir utan að vera í þessu ofsalega bandi – og þegar hann leikur fræga tónleika á Newport Jazz Festival sjö árum síðar eru allir í bandinu nema Otis (sem var orðinn hljómsveitarstjórinn) komnir með sólóferil í fúll svíng. Eftir að Muddy tók upp Hoochie Coochie Man með þessu bandi árið 1954 – og slær þá fyrst endanlega í gegn, 41 árs gamall – kom annar Chicago-blúsari, líka fæddur í Deltunni, Bo Diddley með lagið I’m a Man og notaði sama (eða svipað) da Dum dum dum riff til að bera það uppi. Það er einhver ruglingur með það hverjir nákvæmlega spiluðu undir hjá Bo en að öllum líkindum var píanóleikarinn sá sami og hjá Muddy – Otis Spann. Í sjálfu sér er þetta mjög ólíkt öðrum lögum Bos – sem voru mikið til leikin í sérstökum takti sem kallaður er Bo Diddley-bítið (nema hvað). Þessu svaraði Muddy ári seinna með laginu Mannish Boy – sem er hans frægasta, auk Hoochie Coochie Man og I Got My Mojo Working – og aftur er það sama riffið sem ber lagið uppi. Því hefur stundum verið velt upp hvers vegna það sé ekki í höfundarétti – hvers vegna hver hljómsveitin á fætur annarri megi bara velta sér upp úr því óbreyttu án þess að borga kóng né presti. Í því sambandi er áhugavert að athuga að á meðan Hoochie Coochie Man er skrifað á Willie Dixon og I’m a Man er skrifað á Bo Diddley er Mannish Boy skrifað á Muddy Waters og Bo Diddley – en ekki Willie Dixon. Þar munar sennilega öllu að textinn í Mannish Boy er unninn beint upp úr I’m a Man en textinn þar er bara rétt svo „innblásinn“ af Hoochie Coochie Man. Willie virðist ekki hafa gert neitt mál úr þessu (en kærði og vann Led Zeppelin löngu seinna, fyrir að stela úr You Need Love fyrir Whole Lotta Love). Maður verður að hafa í huga að frumleiki er ekki endilega grunntónn blússins, eða í það minnsta ekki frumleiki í sömu merkingu og lögð er í orðið frá og með Bítlunum, sirka. Blústónlistin er alþýðutónlist – folk – og sem slík er höfundarréttur ekki aðalatriði og hreinlega óljóst hver samdi hvað. Margir helstu blústónlistarmennirnir voru vanir því að spinna mikið á staðnum – úr brunni riffa og ljóðlína – og meðal annars þess vegna er merkingin í mörgum eldri blúsanna svolítið mikið á reiki. Ljóðlínur rekast á af því höfundarnir eru margir og sömu erindin rata inn í mörg lög og öllum var skítsama hver samdi hvað. Þá fengu þeir sem tóku upp lög fyrir plötufyrirtækin borgað per lag – og síðan ekki söguna meir. Höfundarréttur var yfirleitt skráður á hvíta manninn sem tók lagið upp. Hvítu mennirnir gerðu kröfu um lágmarksfjölda frumsaminna laga – yfirleitt fjögur – þegar þeir bókuðu tónlistarmenn í upptökur. Þannig myndaðist þrýstingur á tónlistarmennina að hámarka fjölda frumsaminna laga með öllum tiltækum ráðum – Big Bill Broonzy tók upp ábyggilega 200 lög, en ef þú myndir þurrka burt lög sem eru „næstum eins“ og eitthvað annað sætu ekki eftir nema svona 50 stykki. Solid lög að vísu. Á böllum var kannski sama lagið leikið samfleytt í hálftíma – hent inn erindi hér og þar, sum frumsamin, önnur stolin – og það var ekkert í heiminum eðlilegra en að vísa í eitthvað annað lag með því að hirða úr því línu og línu eða byggja nýtt lag á gömlum grunni. Þessa sér svo stað í alls konar tónlistartrakteringum á 20. öld – frá því hvernig Bob Dylan leyfði sínum eigin lögum og koverum að vera fljótandi og breytast ár frá ári yfir í það hvernig Public Enemy stöfluðu saman vísunum með því að sampla austur og vestur. Frumleikinn sem sótt er í og menn stæra sig af er meira frumleiki í merkingunni „primal“ – og hefur að gera með sánd og einkenni og heilindi. Þennan eiginleika að það er alveg sama hvað Muddy Waters myndi reyna að dulbúa sig – því við myndum þekkja þetta mojo hvar sem er.