Einhvern tíma í fortíðinni var verið að tala um „performative masculinity“ í Lestinni. Sem var í þessu tilviki ekki að flexa vöðvana eða spila rafmagnsgítarsóló eða setja brilljantín í hárið eða manspreada eða mansplaina eða neitt af því heldur að lesa bækur á opinberum stað í þeim tilgangi að komast yfir konur. Ekki hvaða bækur sem er, held ég, heldur fyrst og fremst eitthvað sem konur gætu talið karla ólíklega til að lesa – Jane Austen, Simone de Beauvoir, eitthvað þannig. Lestur sem páfuglastarfsemi. Mökunardans. Ég ætla ekki að þykjast muna hvað var sagt og hvað var ekki sagt – kannski er ég bara að endurtaka það sem var sagt, þetta var fyrir áreiðanlega mánuði síðan – en mig minnir að það hafi verið gerð frekar skörp skil milli þess sem er annars vegar einlægt og hins vegar þess sem er performatíft. Óþarflega skörp.
Skömmu eftir að ég heyrði þennan útvarpsþátt var ég staddur á kaffihúsi í Zurich. Í fanginu var ég með þverhandarþykkt smásagnarsafn Flannery O’Connor en á borðinu voru Illness as Metaphor eftir Susan Sontag og White Album eftir Joan Didion. Það sem konurnar á kaffihúsinu, sem dáðust að mér, vissu ekki er að ég var að lesa formálann að smásagnasafninu. Sem var eftir karl.
En sem sagt. Einlægni og performans. Auðvitað getur einlægni verið bæði fölsk og performatív, og sönn og performatív. Þegar ég var um tvítugt las ég The Beauty Myth eftir Naomi Wolf (sem er í dag þekkt fyrir að vera hægritröll en var þá helsti hot shot femínistinn). Ég hafði á henni einlægan áhuga, ekki bara til þess að skilja eitthvað um „stöðu kvenna“ heldur líka til þess að skilja eitthvað um eigin hégóma (allt fólk sem gengur með hatt er í eðli sínu páfuglar) – hvað það þýðir þegar maður reynir að vera fallegur, hvað maður er að gera, hverjum maður er að hlýða og hvern maður er að reyna að heilla (maður hlýðir mest heiminum til þess að ganga í augun á sjálfum sér, en það er líka flóknara og fer í hringi, einsog öll sjálfsmyndarlógík). Ég man ekki til þess að hafa lesið Beauty Myth þar sem til mín sást, en í svona tvö ár á eftir nefndi ég hana áreiðanlega við allar sætar stelpur sem ég hitti. Til þess að vinna inn stig. En það breytir engu um hitt, að mér fannst líka bókin áhugaverð, að ég las hana fyrir sjálfan mig – og hún þjónaði líka þeim tilgangi að sía út vitleysingana.
Hið performatíva gerir það nefnilega – það er í senn fagurfræðileg og heimspekileg yfirlýsing til heimsins og ákall á fólkið sem maður deilir lífssýn með. Sá sem sest á kaffihús með Emmu í þeirri von að laða að sér konu, hlýtur að vilja finna konu sem fílar Jane Austen – að finna einhvers konar sálufélaga – ef hann vildi bara stunda kynlíf með einhverjum eru til umtalsvert markvissari leiðir að því markmiði. Sem svo aftur breytir ekki hinu að ungt fólk er yfirleitt enn að finna sig og sá sem heldur eina vikuna að hann fíli Emmu og vilji elska konur með Austenblæti getur verið farinn að lesa Ayn Rand og dagdreyma um Dagny Taggart hálfu ári síðar. Eða hálfum mánuði þess vegna. Einlægni er líka mótsagnarkennd ef hún fær smá tíma.
Þessa dagana er ég auðvitað að lesa Ulysses mjög performatíft. Hún er bók af því tagi sem maður á erfitt með að þegja um – hún leggur mann undir sig. En ég hef alla tíð lesið svona – haft þörf fyrir að nefna það við fólk hvað ég er að lesa. Segja hvað mér fannst. Finnst. Stundum er það bara til að grobba. Svona einsog maður kemur því að í samræðum hvað maður tekur í bekk. Var ég annars búinn að segja ykkur að ég hljóp maraþon í síðasta mánuði?
Hvað um það. Ég er í liði með fólki sem les á kaffihúsum. Og í lestum. Og á bekkjum. Sá sem hefur ekki gengið á ljósastaur niðursokkinn í bók – og vakið með því athygli umheimsins, ef ekki aðdáun – hefur ekki lifað. Og ég er líka í liði með þeim sem eru að leita sér að sálufélaga. Bólfélaga. Einhverjum til að tala við.
***
Annars er ég í lest. Sem var að renna inn í Höör. Á leiðinni til Karlskrona. Sænski bókatúrinn er búinn og nú bíður mín Pólland. Ég á káetu í skipi til Gdynia í kvöld og verð kominn þangað í fyrramálið. Mér finnst það klassi – í síðustu viku gengum við forleggjarinn minn fram á unga, dálítið drukkna konu í Stokkhólmi sem var að leita sér að eldi til að kveikja í sígarettu, og hún hafði á orði að við litum út einsog „20. aldar rithöfundar“ (s. nittonhundratalsförfattare). Að fara með skipi til næsta lands til þess að fylgja eftir annarri bók er einmitt eitthvað sem 20. aldar rithöfundur gæti tekið upp á að gera.
Takkasímamynd, tekin með takkasímaslinsu, í óásættanlegum gæðum.
Ég er búinn að skrifa svo mikið í dagbókina mína síðustu tvær vikur að ég veit ekki hvort ég get litið á sjálfan mig sem bloggara lengur. Það hefur verið talsverður fortíðarfílingur í lífinu þessa daga í Bláskógabyggð – Rás 1 í gangi allan sólarhringinn, takkasími, aldrei neitt opið í tölvunni nema ritvinnsluforritið. Ég skrifaði meira að segja svolítið af bréfum, fór með þau niður á Selfoss og póstlagði. Fyrstu póstferðina fór ég sama dag og kvennaverkfallið var haldið og það kom í ljós að það vinna sennilega bara konur hjá póstinum á Selfossi – nema karlarnir hafi bara ekki treyst sér til að halda opnu, því það var allavega lokað. En ég gat farið í Pennann handan götunnar og látið tvær ungar konur afgreiða mig um frímerki og umslag, póstlagt bréfin í póstkassa, og látið svo fimm (fimm!) ungar konur afgreiða mig um hræðilegan mat á KFC áður en ég hélt aftur í karlavinnuna mína í bústaðnum. Prósaverksmiðjuna.
Ég ætti kannski að stoppa hér og útskýra titilinn á bloggfærslunni áður en lengra er haldið. Fyrst kvennaverkfallið barst í tal. Það er sem sagt ekki „litla tussudeilan“. Ég tengdist netinu aftur í gær eftir tveggja vikna hlé og fór að kíkja á fréttamiðlana og það fyrsta sem ég rak mig á var sænskur bókmenntadebatt – Svíar eru mjög duglegir við að varpa menningarbombum og starta fæting, sérstaklega miðað við Íslendinga sem eru alltaf að þrátta bara um sömu hlutina (aðallega listamannalaun – við erum með, einhver nettröll eru á móti). Mikið af þessum bombum hafa fallið í útgefnum dagbókum skálda sem hafa verið della frá því Lars Norén byrjaði á þessu fyrir nærri tveimur áratugum – í fimm bókum og sex þúsund blaðsíðum.
Ein af þeim sem hafa gengið í þessi dagbókarbjörg er sænski súrrealistinn Aase Berg – frábært ljóðskáld, algerlega einstök, róttækur femínisti, fædd 1967 – sem gaf út sitt fyrsta bindi fyrir nokkrum árum. Aase Berg skrifar talsvert fyrir Dagens Nyheter, stærsta dagblað Svía, bæði pistla og gagnrýni, og þegar þannig stendur á – að mikilvægt skáld er líka starfsmaður blaðsins (þótt viðkomandi sé ekki inni á ritstjórn) – er hefð fyrir því í sænskum miðlum að ráðinn sé utanaðkomandi gagnrýnandi til þess að rýna í verk þeirra. Þegar dagbókin kom út var fengin yngri kona, Selma Brodrej, fædd 1996, til þess að rýna í bókina. Ég veit ekki margt um hana annað en að hún hefur gefið út feminískt debattrit, Testosteron, sem fjallar aðallega um karlmenn.
Allavegana, Selma var ekkert ægilega ánægð með dagbókarbókina hennar Aase – þótti hún mest bara ómerkileg, fljúga lágt. Það er auðvitað einkenni á venjulegum dagbókarskrifum – stundum eru þær bara um hvað maður át í morgunmat – en þessar útgefnu bækur hafa þótt þurfa einhverja meiri réttlætingu. Fólk talar um prósann hjá Norén, sem hafi verið alveg einstakur, skerandi. Og Selma Brodrej fann ekki neitt þvílíkt hjá Aase Berg. So what, shit happens. En svona dagbækur eru aldrei bara ein og ein – þetta er alltaf spurning um fjölda binda – og nú var Aase Berg að gefa út annað bindi. Og þar er heilmikið talað um Selmu Brodrej og hún aldrei kölluð annað en „lill-fittan“ – eða litla tussan. Og þess vegna logar bókmenntasvíþjóð. Eða logaði – svona gengur hratt yfir. Í gær eða fyrradag skrifaði menningarritstjóri Expressen (eða var það Aftonbladet) að svo til allar sænskar barnabækur sem hafa komið út síðustu 40 árin séu drasl (hér er ég að endursegja grein sem ég hef ekki lesið – en bara séð viðbrögðin við á Facebook). Og það best ég get séð eru allir hættir að tala um fittur og farnir að verja barnabókahöfunda.
Ég át annars egg og ostaslaufu í morgunmat. Það er ekki dæmigert. Ég er að reyna að klára matinn sem ég tók með mér í bústaðinn – sem mun ekki takast. Ég átti von á manni að sunnan með flugi í dag sem ætlaði að keyra bílinn vestur fyrir mig – ég er að fara til Svíþjóðar og Póllands og Nadja er bíllaus – en veðrið bíður sennilega ekki upp á flug. Ég þarf því að huga að því hvað ég geri við bílinn.
Það birtust afar jákvæðir dómar um Naturlagarna í Expressen og Kult Magasin. Engin ástæða til að uppnefna þá gagnrýnendur. Þegar ég var yngri átti ég einhverja gagnrýnendur sem ég sá sem hálfgerða óvini – og gat hreinlega glaðst ef þeim mislíkaði það sem ég skrifaði. En það er langt síðan. Kannski er ég bara ekki nógu edgy lengur. Eða bara ´oþægilega vinsæll. Kannski ætti ég að gefa út dagbækurnar mínar.
Ég komst út á enda í bók. Stuttri skáldsögu. Því fylgja blendnar tilfinningar. Það er hrikalega margt enn óunnið. Þetta er sem sagt ekki góð bók sem stendur, þótt það „standi til bóta“. Og ég er ekki vanur því að vinna svona, að eiga svona mikið óunnið þegar ég kem út á enda. Svona er sjálfsagt tilfinningin að eiga fokhelt hús. Ég hef gjarnan klárað veggina bara alveg áður en ég sný mér að næsta vegg. Er búinn að hengja upp myndir á vesturveggnum áður en ég byrja á suðurveggnum. Flyt inn í hvert horn fyrir sig. Þetta er alveg nýtt. En það er samt gott að vera kominn hingað. Þetta var mjög pródúktíf dvöl.
Mér hefur mikið verið hugsað til nútímans og þeirra ofurkrafta sem hann veitir manni. Gervigreindin er auðvitað augljóst dæmið, en líka bara að geta gúglað, geta komist inn á timarit.is og flett upp í orðabókum á netinu, að hafa ótal sérfræðinga á fb-vinalistanum, bara við fingurgómana. Að geta lesið fréttir í rauntíma af því sem er að gerast bókstaflega út um allan heim. Og þetta nær lengra – það eru ofurkraftar í útvarpstækjum líka, í bílum (og vetrardekkjum) og lestum og flugvélum og skipum. Það eru ofurkraftar í bókasöfnum og hver einasta prentaða bók er saga sem maður þarf ekki að hafa lært utanbókar. Nútíminn gengur út á meiri og meiri ofurkrafta. Við dáumst stundum að því hvernig fólk gat bara lært Hómerskviður og farið með þær – og hugsum hvað minni mannsins hafi hrakað síðan þá. En gleymum því auðvitað að menn kunnu kannski ekki mjög margar bækur. Sami maðurinn kunni ekki heilt bókasafn – sennilega hefur þótt ágætt lífsverk að kunna fjórar-fimm bækur.
Það eru líka ofurkraftar að muna eina langa bók. Að muna eina Ódysseifskviðu. Eða þekkja einhvern sem man hana. Ég las um daginn The Odyssey eftir fjölfræðinginn Stephen Fry (sem ég þekki ekki) og stóð mig að því hvað eftir annað að dást að því hvað hann væri fróður. Ég veit ekki hvers vegna ég trúi því að hann muni svona margt af þessu, kannski af því honum tekst að draga svo margt saman. Hann túlkar kannski ekkert voðalega margt og er takmarkaður að mörgu öðru leyti. Það sem hann hugsar um merkingu Ódysseifskviðu er aldrei byltingarkennt. En hann dregur hana og ýmsan fróðleik henni tengdan mjög vel saman. Og þá er voða gott, fyrir okkur sem þekkjum ekki Stephen Fry, að geta fengið þetta í ódýrri og afar læsilegri flugvallarkilju.
En það sem sagt hvarflaði líka að mér hérna í pródúktífu fortíðinni að það að vera án alls þess erils sem fylgir gervigreindum, símalandi álitsgjöfum, pípandi snjallsímum og viðstöðulausum fréttaflutningi er líka ofurkraftur. Það er ofurkraftur að vera aldrei fastur í umferðinni. En af einhverjum orsökum eru þessir ofurkraftar ekki jafn lokkandi og hinir. Nú er ég ekki bara að tala um mig – þótt ég sé oft illa haldinn af ofurkrafta-FOMO – því ég er líka sannfærður um að það skipti ekki nokkru máli hvort gervigreindin reynist svo orkufrek að hún beinlínis svelti mannkyn og geri út af við líf á jörðinni, hún fær það sem hún krefst.
Á þrítugasta kílómetra hætti hlauparinn á undan mér að hlaupa, gekk út í kant, beygði sig yfir ræsi og ældi rúmmáli sínu í orkudrykkjum og gelum. Fram að því hafði ég aldrei á mínum þrettán ára hlaupaferli upplifað að vera ómótt á hlaupum, sem er víst algeng hliðarverkun langhlaupa – jafnvel þannig að elítuhlauparar telji það að hafa aldrei staðið í áreynsluuppköstum vera til marks um að þeir séu í raun ekki að reyna nógu mikið á sig. Skömmu síðar hlupum við í gegnum einhvern bæ þar sem var talsverð skítafýla – og myndin af unga manninum að gubba í ræsið spilaðist ítrekað í höfðinu á mér. Sjálfsagt er það sumum lesenda minna vonbrigði en öðrum léttir að ég gubbaði aldrei sjálfur og komst í mark á 4 tímum og 42 mínútum. Nadja var litlum tólf mínútum á eftir mér.
Við vorum mætt til Zurich á föstudeginum fyrir hlaup. 3-länder maraþonið – No borders, no limits – hefst í Lindau í Þýskalandi og fer inn í Austurríki, þaðan inn í Sviss og aftur til Austurríkis þar sem því lýkur á íþróttaleikvanginum í Bregenz. En fyrstu nóttina gistum við sem sagt í gömlu heimaborg James Joyce – þar sem Ulysses var að miklu leyti skrifuð. Eftir að við höfðum tékkað okkur inn á hótel röltum við um bæinn og lituðumst um. Nadja keypti sér takkasíma – við erum bæði á þeim buxunum en ég er aðeins skemmra á veg kominn. Átum víetnamskan kvöldmat og fórum snemma að sofa. Ég hafði verið með lágan hita af og til alla vikuna og kvef/nefrennsli. Þetta var afleiðing af bókamessunni sem ég var á fyrir tveimur vikum – bæði umgengni við alla þessa óhemju af fólki og óheilbrigðu líferninu sem fylgir jafnan för minni til Gautaborgar (það er mjög gaman úti á l´ífinu með mínum sænska útgefanda og vini).
Daginn eftir átum við kolvetnaríkan morgunverð og tókum lestina til Lindau. Ég stóð enn í þeirri meiningu að ég hefði bókað hótel fyrir okkur á eyjunni – Lindau Insel –þar sem hlaupið átti að hefjast og þar sem eru sjarmerandi gamlir götusteinsstígar og allt morandi í veitingastöðum. Við vorum komin alla leið lestarstöðina þegar það rifjaðist upp fyrir mér að þegar ég loksins bókaði reisuna hafði allt nema það allra dýrasta verið uppbókað – og ég endaði á að bóka verksmiðjuhótel í einhverju mjög leiðinlegu iðnaðarúthverfi. Ég virðist hreinlega hafa bælt þessi vonbrigði og var í alvöru búinn að steingleyma því þegar við komum á staðinn.
Þegar við höfðum hent inn töskunum okkar á Premier Inn – þar sem var ekkert nema risastórt Tesla stæði, bensínstöð og McDonalds – komum við okkur til Bregenz í Austurríki – 8 kílómetra í burtu, handan landamæranna – þar sem við sóttum númerin okkar, keyptum einhver aukagel (með koffíni) og fórum í pastaveislu með öðrum hlaupurum. Við höfðum ætlað að einfalda okkur hlutina með því að taka leigubíl þangað en umferðin var sturluð svo við sátum heila eilífð í bílnum – svo kom í ljós að bílstjórinn (sem rataði ekki) komst ekki inn á netið í Austurríki og gat þar með ekki tekið á móti kortagreiðslu. Við vorum evrulaus og umferðin var þannig að það var óhugsandi að fara að rúnta eitthvað eftir hraðbanka. Það endaði eftir japl, jaml og fuður með því að við fengum hjá honum símanúmer og bankaupplýsingar og lofuðum að leggja inn á hann – svo fórum við frá borði og skildum kreditkortið hennar Nödju (óvart) eftir í sætinu. Sem var kannski sérstaklega fyndið í ljósi þess að þar með gat hún ekki lengur skilið snjallsímann sinn eftir neins staðar – það er ekki hægt að borga með takkasímum.
Þegar við komum aftur til Lindau reyndum við að hringja í bílstjórann en hann hlýtur að hafa skrifað númerið sitt eitthvað vitlaust niður því við náðum engu sambandi. Við hringdum í fyrirtækið, skildum eftir skilaboð og fórum út að hlaupa – 2 kílómetra, bara rétt til að liðka fæturna. Eftir það ætluðum við að fá okkur kvöldmat á hótelinu en þá kom í ljós að eldhúsið lokaði klukkan átta og við vorum 20 mín´útum of sein.
Ég verð að viðurkenna að nú var ég farinn að halda að það hvíldi einhver bölvun á þessum hlaupaplönum okkar. Það munaði minnstu að við kæmumst aldrei af stað – Aino, sem átti að fá að fara í lúxuspössun hjá ömmu sinni og afa á Spáni – fótbrotnaði fyrir tveimur vikum og það virtist frekar ólíklegt á tímabili að hún gæti verið án okkar. Hún er þó mjög sjálfstæð og var farinn að bjarga sér vel áður en við fórum – og endaði glöð í pössun hjá vinkonum sínum, hverra foreldrum við erum afar þakklát (plús að við mútuðum henni með nýjum fataskáp).
Hvað um það. Það skiptir sem sagt miklu máli, er mér sagt, að maður borði góða máltíð kvöldið fyrir langt hlaup. En það skiptir líka máli að fara snemma að sofa og það var ljóst að við gætum ekki gert bæði. Við létum okkur því hafa það að borða á bensínstöðinni – samlokur og brezel. Vöknuðum svo snemma og fengum okkur stóran morgunmat.
Við lentum vel að merkja í svipuðu veseni í 10km hlaupinu í Bangkok í desember – þar var ég búinn að finna ítalskan veitingastað nálægt hótelinu okkar en þegar til kastanna kom reyndist hann lokaður og við átum eitthvað lélegt tacos. Næst hringi ég og bóka borð og hef allt á hreinu.
Ég var áreiðanlega með hita áður en ég fór að sofa. Ég er ekki viss um að ég hafi nokkurn tíma íhugað að leggja ekki af stað – ekki af neinni alvöru – en ég var mjög meðvitaður um að það gæti allt eins verið að ég myndi örmagnast eða fá háan hita/hjartslátt í sjálfu hlaupinu og þurfa að hætta. Ég margsló því upp og eina ráðið sem internetið gaf mér var að ef ég væri með hita ætti ég alls ekki að hlaupa. Í ofanálag glaðvaknaði ég eftir þriggja tíma svefn og lá svo meira milli svefns og vöku en beinlínis svaf síðustu fjórar klukkustundirnar.
Þegar ég fór á fætur vissi ég samt ekki hvernig mér leið – ég veit það aldrei þegar ég er nývaknaður, það tekur mig alltaf a.m.k. hálftíma að fá stöðuna á hreint. Við átum stóran morgunverð – aðallega brauð – og ég beið þess að finna sótthitann renna yfir mig en hann kom aldrei. Mér leið satt að segja bara ágætlega, sérstaklega miðað við hvað ég hafði lítið sofið. Ég var samt óþægilega stressaður í strætónum að upphafslínunni – með úrið á handleggnum var ég auk þess mjög meðvitaður um að hjartslátturinn var óþarflega hraður. En þegar við vorum komin á staðinn lækkaði hann aftur og mér fór að líða vel.
Ég man ekki hvað hún heitir hljómsveitin sem spilar við startið en hún hefur víst spilað þar í ein átján ár – gamaldags forbítlarokk – og byrjaði þremur korterum áður en allt fór í gang. Við notuðum tímann til að losa okkur við fatapokann okkar og gera okkur almennilega klár. Einsog vænta má var rafmögnuð eftirvænting í loftinu.
Þegar við tókum af stað ætlaði ég að kveikja á strava í úrinu mínu til að geta fylgst með tíma og vegalengd og hjartslætti en af því ég hef verið að fikta í alls konar „ekki-vera-alltaf-á-netinu-stillingum“ fór það ekki í gang – það var víst einhvers konar hvíldartími sem ég kunni ekki að slökkva á – og ég byrjaði hlaupið bölvandi þessu í sót og ösku. Sem er kannski ekki til fyrirmyndar. Kveikti svo á strava í símanum í staðinn og svo stuttu síðar spurði úrið hvort ég væri að hreyfa mig og hvort ég vildi að Apple Health mónitoraði það fyrir mig – sem ég þáði og var þá farinn að taka upp hlaupið á tveimur vígstöðvum. Sem var alltílagi en þýddi líka að þegar ég kom í mark voru bæði tækin svo gott sem batteríislaus. Það er víst líka ástæða fyrir því að svo fáir hlauparana voru með Apple Watch – líftími rafhlöðunnar við þessar aðstæður er ekki nema um fimm tímar. Langhlauparar eru með alvöru dedikerað íþróttaúr.
Og hvernig lýsir maður síðan svona hlaupi? Maður hleypur. Setur einn fótinn fram fyrir hinn í fimm tíma – það er létt í byrjun og verður síðan erfiðara. Leiðir okkar Nödju skildu mjög snemma og eiginlega óvart – ég þvingaðist aðeins út í kant og þurfti að stökkva fram úr nokkrum og fann hana svo ekki þegar ég ætlaði að komast aftur til hennar. Við ætluðum aldrei að hlaupa hlið við hlið svo það kom ekki að sök en ég hefði þó viljað kveðja. Mér leið vel og byrjaði hraðar en ég hafði ætlað mér, sem mér er sagt að sé óráð, maður eigi alltaf að fylgja planinu. En ég veit ekki hvort það hefði breytt miklu. Veðrið var til fyrirmyndar – skýjað, rúmlega tíu gráður, dálítill andvari – og hlaupið er til þess að gera flatt. Við hlupum fljótlega út úr Þýskalandi og inn í Austurríki – það kvarnaðist úr hópnum fyrst þegar 10 og 15K fólkið beygði af og svo síðar þegar hálfmaraþon fólkið sneri við en við hin héldum áfram inn í Sviss. Þar var frekar stuttur rúntur – kannski 3-4 kílómetrar, á að giska – og allur í slaufum og brekkum. Það var líklega einmitt eftir slaufurnar og brekkurnar sem fór að draga svolítið af mér en þá var ég kominn um 30k, sem er líka það lengsta sem ég hef hlaupið áður – og hljóp þá talsvert hægar (7.19 minnir mig – mínútur á km – vs. 6.25 sirka fyrir þennan kafla).
Margt bar fyrir augu og leiðin var afar falleg. Við hlupum meðfram Bodensee og í gegnum Bregenz og þaðan áfram til bæjar sem heitir því viðeigandi nafni, Hard, og þaðan til bæjar sem heitir því enn meira viðeigandi nafni Fußach, til Höchst (allt mjög viðeigandi) – í Sviss fórum við í gegnum St. Margrethen, sem er bara venjulegt bæjarnafn, það best ég veit. Hlauparar voru af öllum stærðum og gerðum – einn tók fram úr mér sem var áreiðanlega ekki nema svona átta ára (og hefur væntanlega verið í 10k – en það er sama, 10k er fáránlega langt fyrir átta ára barn) og það var talsvert af ellilífeyrisþegum. Af og til tók líka fram úr manni einhver epískur elítuhlaupari – þeir hlaupa á sirka tvöföldum hraða við alla aðra og voru margir með mótor- eða reiðhjólafylgd. Ég átta mig ekki á því hvers vegna þeir fóru ekki allir af stað fremstir í fylkingu (einsog þó flestir þeirra gerðu).
Á einum stað hljópum við framhjá hóruhúsi. Á öðrum í gegnum timburlager. Á þeim þriðja útileikhús. Víða voru litlar kirkjur og við eina þeirra var stór trékross með „hangandi spýtukarli“ alveg við veginn – þá vorum við öll tekin að þjást til kunna verulega að meta samstöðu karlsins. Á kafla var skógarbrunalykt í loftinu – eða einhvers konar trébruni. Við hlupum yfir Rín. Alls staðar var fólk úti í kanti að hvetja mann áfram – og fólk með alls konar skemmtiatriði. Sums staðar var bara gettóblaster og plakat úti á götu. Annars staðar heil lúðrasveit að spila Beyoncélög. Í St. Margrethen hljóp ég einn í fangið á svona þrjátíu uppstríluðum klappstýrum sem blöstuðu tónlist og dönsuðu sem mest þær máttu til að hvetja mig áfram. Svo voru rapparar að rappa. Fleiri hljómsveitir. Ferðadiskó. Gamlar konur sem hristu kúabjöllur. Og hrópandi fólk með alls konar skilti með innilegum kveðjum og allra handa hótfyndni.
Ég hef alla jafna ekki treyst á gel í langhlaupum – bara troðið banönum í vestið – en gerði það núna. Hafði keypt nokkur í Nettó á Ísafirði áður en ég fór en ákvað að bæta á mig a.m.k. tveimur með koffíni til að eiga smá aukaorku – þegar Feidippides hljóp upprunalega maraþonið á sínum var hann einsog frægt er hvorki með gel né banana og féll þess vegna niður örendur um leið og hann kom í mark. Það er skemmst frá því að segja að þessi koffíngel sem ég keypti eru einhver mesti viðbjóður sem ég hef innbyrt um ævina – einsog að drekka þriggja daga gamalt kaffi upp úr klósettstól, sem hefur ekki verið þrifinn lengi. En koffínið hjálpaði ábyggilega til. Eftir 33km sett ég líka upp heddfóna og kveikti á músík – shuffle á gömlum hlaupaplaylista sem skilaði mér þessu fyrst af öllu:
Með tónlistinni græddi ég áreiðanlega tvo-þrjá ókeypis kílómetra bara upp á stemninguna, áður en fór að hægja á mér aftur. Síðustu fimm kílómetrana hljóp ég bara frekar bugaður. Stoppaði á öllum drykkjarstöðvum og gekk meðan ég hellti ofan í mig vatni. En þetta er undarleg tilfinning – að halda bara áfram. Og að átta sig á því að maður sé í alvöru að komast í mark. Eftirvænting eftir því að „fá“ að hætta að hlaupa og stolt yfir því að hafa gert þetta – áður en maður er einu sinni kominn í mark. Ég hef lengi hlaupið þótt ég hafi ekki „tekið þátt í hlaupum“ en fyrir fjórtán mánuðum var ég kominn í frekar slæmt form – fór út að hlaupa í Svíþjóð, hljóp tæpa 3k í sól og brekkum og var gersamlega búinn á því á eftir, og skildi ekki hvernig mér hefði tekist að glopra svona niður ágætis hlaupaformi. Og þá ákvað ég að finna mér einhverja áskorun – og spurði Nödju (sem er miklu meiri íþróttamaður en ég) hvort hún vildi ekki koma með mér í maraþon að ári. Sem hún samþykkti dálítið treglega, enda hlaup ekki hennar eftirlætis íþrótt. Og fjórtán mánuðum síðar var maður bara að koma í mark.
Síðustu fimm hundruð metrana gaf ég aðeins í, tók það síðasta sem ég átti – og hljóp inn á íþróttaleikvanginn í Bregenz. Ég fór yfir marklínuna. Staulaðist í fangið á einhverjum strák sem hengdi á mig medalíu – ég fékk enga medalíu í Vesturgötuhlaupinu í sumar, sem mér fannst svolítið fúlt, mest sennilega af því ég var ekki íþróttabarn og á ekki haug af medalíum einsog t.d. Nadja (þær eru reyndar allar týndar en það er önnur saga). Ég fékk eina fyrir 60m hlaup sjö ára drengja árið 1985 – brons. Silfur fyrir að veiða minnsta fiskinn í veiðikeppni 9 ára (gull fékk sá sem veiddi stærsta fiskinn og brons sá sem veiddi flesta – ég samdi ekki reglurnar). Og svo ekkert fyrren ég fékk þátttökumedalíu fyrir 10km í Bangkok nú um jólin og nú þessa, sem mér þykir mjög vænt um.
Tíminn minn var 4 klukkustundir og 42 mínútur. Sem mér finnst bara harla gott. Ég hafði hugsað að við bestu aðstæður myndi ég ná þessu á fjórum og hálfum en verstu eitthvað rúmlega fimm.
Kominn í mark gekk ég bara um í dálitla stund einsog höfuðlaus – og fótalaus – hæna. Nadja var enn að hlaupa og ég einhvern veginn bara frekar lost. Ég vissi ekki alveg hverju ég átti að búast við. Í Bangkok voru ekki bara steinefnadrykkir í boði heldur líka alvöru máltíðir – þá fékk ég mér risa pad thai, enda verð ég oft feykilega svangur af langhlaupum. Eftir Vesturgötuna voru próteindrykkir og steinefnadrykkir og áreiðanlega snakk og eitthvað. Ég gekk í átt að tjöldunum og þar var eiginlega ekkert nema kók og saltstangir. Svo beið ég eftir Nödju sem kom í mark 12 mínútum á eftir mér. Við vorum bæði frekar ringluð af þreytu og fæturnir alveg búnir. Fórum út af leikvanginum og gengum í gegnum veitingatjöldin og leituðum að trukkunum með fatapokana. Þegar þeir fundust – eftir talsverða leit – fór Nadja í sturtu en ég lét duga að skipta í þurran bol og fór og settist í eitt veitingatjaldið. Þar var ekki hollustunni fyrir að fara – og eitthvað mjög þýskt við þetta allt saman, sveitta feitabollukarla í maraþongallanum að troða í sig kartöflumjölsborgurum og pommes með bjór og bregða sér af og til út í sígó.
Nadja var furðulegt nokk ekkert svöng svo við ákváðum að halda bara aftur heim á hótel. Við rákumst á tvær sænskar vinkonur, eldriborgara, sem höfðu hlaupið mörg maraþon – meðal annars uppstrílaðar sem strumpar í Liège – og spjölluðum við þær á leiðinni út á brautarstöð. Þær voru mjög skemmtilegar.
Á hótelinu þreif ég mig loks og svo fórum við og fundum okkur pizzeriu í gamla bænum – leigubíllinn fór fyrst með okkur á hótel þar sem yfirmaður leigubílafyrirtækisins hafði skilið eftir kortið hennar Nödju. Mann langaði eiginlega að vera með medalíuna á sér, ekki bara til að grobba sig heldur líka svo að fólk skildi hvers vegna maður gekk einsog maður væri með glerbrot í skónum.
Mánudagurinn var líka erfiður fyrir fæturna. Ég fann vel að merkja ekki mikið fyrir 30k hlaupinu í sumar daginn eftir og hef ekki fengið svona miklar harðsperrur áður. Þetta er stærra stökk en maður heldur – önnur skepna. En það er ekki mælt með að maður æfi lengri vegalengdir en 30k vegna meiðslahættu.
Þennan dag þurftum við líka að koma okkur til Zurich og að gamalli venju var ég ekki með tösku heldur stóra bakpokann. Sem var kannski ekkert mjög skemmtilegt á þreyttum fótum. Í Zurich fórum við síðan í nudd, sem var mjög næs. Þriðjudagurinn var svo talsvert skárri og nú er ég orðinn frekar eðlilegur – fyrir utan að ég þurfti skyndilega langan lúr um miðjan dag. Bara krassaði algerlega. Kannski finnst einhverjum það skrítið en mér finnst gaman að taka svona eftir líkama mínum – og hugsa um það hvernig hann bregst við bæði álaginu og því hvernig er farið með hann fyrir og eftir. Og ég fer áreiðanlega aftur í maraþon einhvern daginn – þótt Nadja segist ekki ætla í meira en hálft þá á ég vini sem eru spenntir fyrir heilu, t.d. fyrir vínsmökkunarmaraþoninu í Médoc. Sjálfum finnst mér líka Loch Ness maraþonið spennandi og Berlínarmaraþonið og mér finnst spennandi tilhugsun að fara í eitthvert amerískt hlaup líka.
En þær pælingar bíða betri tíma. Nú er ég aðeins að ráfa um sögusl´óðir James Joyce í Zurich – það verður líka skýrsla um það – fer heim á föstudag og við tekur intensíf skriftörn í bústað. Svo eru meiri bókakynningar í útlöndum. En ég verð svo sem með skóna með mér.
Ég veit ekki hvort mér finnst nóbelsverðlaunahafar sérstaklega skemmtilegir. Það er allavega eitthvað upp og ofan hvað ég næ sambandi við verk þeirra – Coetzee og Saramago eru kannski þeir sem ég hef helst aðdáun á. Og Dylan en það voru samt fáránleg verðlaun, einhvern veginn. Ég er enginn sérstakur HKL maður en átti svo sem tímabil þar sem ég hélt upp á Heimsljós og Gerplu. East of Eden var einu sinni uppáhalds bókin mín.
Nú renni ég yfir listann og sé að þetta eru nú ekki beinlínis höfundar sem mér hafa þótt leiðinlegir heldur. Orhan Pamuk fíla ég. Af þeim sem hafa fengið þetta í minni lífstíð eru ekki nema 4-5 sem ég hef ekkert lesið. Og kannski bara einn – Modiano – sem ég náði alls engu sambandi við.
Af þeim sem taldir eru líklegir held ég mest upp á Don DeLillo en það er samt eitthvað í mér sem vill hvorki að risastór höfundur né ameríkani fái þetta. Um Pynchon gildir sama – þar er ég reyndar mest Crying of Lot 49 maður, hitt hef ég hreinlega ekki haft tíma eða heilasellur til að skilja enn (ég hef samt plægt mig í gegnum Gravity’s Rainbow).
Af ´Íslendingum væri það helst Sjón – að öðrum ólöstuðum, þetta er ekki bara spurning um gæði heldur líka bókmenntategund, nóbelsverðlaun eru ekki fyrir hvernig bækur sem er, Sjón skrifar þessa bókmenntategund og hann er að mínu mati „nógu góður“. Reyndar er Anne Carson líka Íslendingur. Ef annað hvort þeirra fengi þetta þá væru Íslendingar búnir að rústa höfðatölumetinu næstu 200 árin a.m.k.
Af höfundum sem aldrei eru nefndir myndi ég nefna Will Self. Ali Smith – er hún ekki stundum nefnd? Mér þætti það líka skemmtilegt. En svo segir það eitthvað um sýn manns á bókmenntirnar að það sem manni dettur í hug er helst enskumælandi höfundar. Arnon Grunberg er hollenskur höfundur sem ég fékk dellu fyrir en eiginlega er það mest ein bók – The Jewish Messiah – sem ég náði svona góðu sambandi við.
Kraznahorkai hef ég ekki lesið nógu mikið – bara eina stutta bók – en ég hef trú á honum. Ko Un er aftur á lista sé ég – eftir nokkur ár af kansli – og ég held mikið upp á ljóðin hans. En það er kannski ekki gott fyrir kvennabaráttuna að hann vinni. Cesar Aira er frábær – mjög sérstakur, auðlesnar bækur sem eru allar um 100 síður og leysast allar upp í vitleysu. Mér finnst Murakami fínn – þótt hann sé, einsog einn vinur minn sagði um Ishiguro, „middle of the road höfundur“. Og einsog með Dylan þá er hann bara svo stór að það er kjánalegt að vera að hengja á hann orður. Sama gildir um Isabel Allende. Yoko Tawada er á listanum og Colm Toibin og Carl Frode Tiller – allt fínir höfundar. Og fleiri! Það er víst nóg til af góðum höfundum. Vonandi fær einhver þeirra verðlaunin á morgun.
Ég er svolítið einsog undin tuska og kenni samtímanum um. Það er sjálfsagt óverðskuldað en ég er nýbúinn að lesa tvær sænskar bækur sem eru fremur krítískar á samtímann – tæknina – og því leitar hugurinn þangað. Sú fyrri heitir Ingen Surf og er eftir kunningja minn Jonas Gren – sem er þekktari sem ljóðskáld (ég hef þýtt eftir hann ljóð sem birtust á Starafugli). Þetta er „bók almenns eðlis“ – einhvers konar debattrit sem stefnt er gegn snjallsímavæðingunni frekar en internetinu sem slíku. Jonas tekur þar saman það sem maður veit: þetta helvítis tæki hertekur stöðugt athygli fórnarlamba sinna með því að hneppa þau í dópamínþrældóm og rænir þau þannig sálarrónni, einbeitingunni, sköpunargleðinni og hamingjunni. Það sem kemur manni kannski mest á óvart er hversu lítið umdeilt þetta reynist – Jonas rekur ýmsar skoðanakannanir sem sýna að við viljum flest losna við snjallsímana, samfélagsmiðlana, sítenginguna. Við hötum þetta helvítis drasl. Við viljum vera frjáls en veljum að vera það ekki – af því að við fáum dópamín, völd, athygli* og ákveðna ofurkrafta í skiptum fyrir andlega ró, tíma til að melta og íhuga.
* Bara athygli annarra. Við missum okkar eigin. Það eru skiptin.
Ég er sem sagt að hugsa um að ganga í takkasímasamfélagið. Það krefst smá undirbúnings. Og felur ekki endilega í sér heldur að maður noti aldrei internetið eða samfélagsmiðla – heldur bara að maður skipi þeim út í horn og kenni þeim að hlýða sér en ekki öfugt.
Hin bókin heitir Allting Växer og er eftir Lyru Koli, sem ég þekki reyndar líka lítillega – hún og kona sem heitir Mikaela Blomquist eru með sænskt hlaðvarp og þær komu til Ísafjarðar í vor til þess að taka viðtal við mig. Þetta er vísindaskáldsaga sem gerist í óskilgreindri nærframtíð eftir loftslagshamfarir – í einhvers konar búbblu – þar sem allir eru sítengdir í gegnum ígræðslur, sem stýra líka hormónabúskap fólks svo það þarf enginn að vera leiður nema þegar hann vill það (sem er stundum – maður vill kannski geta farið að grenja í bíó og þá skrúfar maður bara frá). Fólk er reyndar líka í alls konar samtalsmeðferðum til þess að díla við tilvistarkreppur sínar. Manni fer fljótt að finnast einsog allt mannlegt sé í raun ónáttúrulegt.
En þar sem er dystopísk framtíð er líka andspyrnuhreyfing sem vill snúa aftur til „náttúrunnar“ en er ekki – frekar en við í dag – viss um það hvað náttúran sé, hvað sé náttúrulegt og hvað ónáttúrulegt. Þetta er fremur sínísk bók því þótt fólkið í henni sé fullt af von og vonbrigðum og jafnvel byltingaranda þá eru útleiðirnar alls ekki ljósar og gremjan sem það veldur kalla á öfgar og mannfyrirlitningu.
Mjög eftirtektarverð bók og umhugsunarverð. Eitt af því sem aðalsöguhetja bókarinnar, Jossi, gerir er að leita að textanum við Evert Taube lagið Sjösala vals, sem hún finnur og muldrar svo mikið blómanöfnin í textanum – gullviva, mandelblom, kattfot og blå viol. Hún skilur þau ekki af því í framtíðinni tala allir ensku, en þau segja henni eitthvað og hún veltir fyrir sér hvernig þau líti út. Hún fer svo líka á stúfana eftir laglínunni sem hún finnur ekki. Íslendingar þekkja fæstir þennan texta – en þeir kannast ágætlega við laglínuna og mín kynslóð sérstaklega við þessa útgáfu:
Einsog fram kom í umræðunni um Páfagaukagarðinn í vor tilheyri ég bókmenntaelítunni í þessu landi. Ég lánaði að vísu eintakið mitt og hef ekki séð það síðan og því ekki getað gert það sem mig hefur langað að gera – að athuga hvort að appelsínugula endurútgáfan sé sama bókin og sú bláa, en um það er ég alls ekki viss – en hún skilar sér sjálfsagt. Hins vegar fékk ég nú enn eina ferðina senda nýja bók og þessi var ekki merkt Akörn heldur Rögnu Sigurðardóttur, sem ég held talsvert uppá og þess vegna hef ég sennilega fengið svona „áhrifavaldaeintak“.
Bók Rögnu heitir Útreiðartúrinn og er einsog tvær til þrjár glæpasögur í einni – sögur sem er gert að spegla hver aðra.
Aðalsagan segir af sambandi feðga. Pabbinn/sögumaðurinn er miðaldra og sonurinn unglingur á erfiðu skeiði, afundinn og leiðist allt, sérstaklega ef það kemur frá pabba hans. Sonurinn lendir ásamt vini sínum í barsmíðum út af einhverri tik-tok áskorun – og eiginlega allt við það reynist föður hans frá fyrstu stundu óleysanleg ráðgáta, sem flækist svo bara og flækist eftir því sem líður á bókina, og raunverulegri ráðgáta skýtur upp kollinum. Um hana er víst best að segja sem minnst á meðan fólk hefur ekki haft ráðrúm til að lesa bókina sjálft.
Næsta saga segir af forföður þeirra feðga sem var sakaður um að hafa myrt mann í ölæði seint á nítjándu öldinni. Sá lýsir sig saklausan en viðurkennir samtímis að muna alls ekki hvað gerðist. Margir kaflar bókarinnar gerast á þeim tíma – en áherslan er ekki síst á ástarsamband hins meinta morðingja við konu sem hann hefur nýtrúlofast (og barnað í þeim sama útreiðartúr og morðið á sér stað). Eiginlega er hennar sjónarhorn mest ofaná.
Þriðja glæpasagan er sagan af einelti föðurins en löggan sem fylgir syni hans heim eftir barsmíðarnar reynist vera gamall „vinur“ – maður sem beitti hann einhvers konar andlegu ofbeldi þegar þeir voru börn með því að ýmist draga hann til sín eða ýta honum frá sér, virkar einsog einhvers konar sósíópati – og gaslýsir hann alltaf þegar hann reynir að taka það upp. En vegna þess að maður fær söguna bara frá pabbanum og hún er upprifjun á einhverju sem gerðist fyrir mörgum áratugum er maður heldur aldrei alveg viss sjálfur hvað snýr upp og hvað niður í þeim samskiptum.
Þessar fléttur eiga það sameiginlegt að fjalla um ofbeldisverk sem eru ekki alveg jafn klippt og skorin og maður gæti haldið í fyrstu og þar sem fórnarlömbin eru auk þess einhvers konar þátttakendur í eigin ofbeldisverkum (án þess að ég vilji fara út í einhverja fórnarlambssmánun hérna!)
Stígandinn í bókinni er hægur og Ragna skrifar sem fyrr af fágun og yfirvegun, flugeldalaust, svo það kemur manni sjálfum ekki minnst á óvart þegar maður er alltíeinu farinn að ofanda. Ég veit ekki hvort það er rétt að kalla þetta stúdíu á ofbeldismenningu – eiginlega finnst mér Ragna ekki vera að skrifa út úr þannig samhengi, ekki til þess að koma með einhverja risa yfirlýsingu um eðli ofbeldis, heldur sé hún frekar að segja okkur eitthvað um sársaukann og vonleysið og hvernig þau systkinin særa fram eyðileggingarkraftinn í fólki. En þetta er ekki einföld bók heldur og ég á áreiðanlega eftir að melta hana lengi – og svo lesa hana aftur.
Hnotskurn: Hræðileg bók (sérstaklega fyrir fólk sem á eða hefur átt eða ætlar að eiga unglinga) en framúrskarandi skáldsaga.
Eftir því sem ég kemst næst birtist Útreiðartúrinn í bókabúðum ekki á morgun heldur hinn. Ef ég væri þið myndi ég mæta strax við opnun.
Öll þessi ritlaunaumræða gerir ekkert annað en að triggera í mér frekjuna. Ég vil fá föst ritlaun sem ég þarf ekki að sækja um á hverju ári og ég vil að þau séu svona a.m.k. 40-50% hærri en þau eru – að lágmarki. Ég nýt bara talsverðrar velgengni – bý ódýrt, lifi sparlega – en ég er samt alltaf blankur. Kemur alltaf minna inn en fer út.
***
Það er búið að reka Davíð Smára. Þjálfara Vestra. Ég hef lítið fylgst með íslenskum fótbolta fyrren rétt svo síðustu misseri og skil þennan bransa ekki enn almennilega. Skil ekki hvernig trúnaðurinn virkar. Mér fannst frekar erfitt að horfa á Matta Villa – son Villa nágranna míns – spila með Víkingi á móti Vestra. Alveg fáránlegt eiginlega. Það er áreiðanlega enn skrítnara fyrir pabba, sem er Víkingsmaður frá fornri tíð. Mér finnst líka sem Spursari til svona tíu ára fáránlegt að Son sé að spila fyrir Los Angeles og Harry Kane sé með Bayern München. Og nú langar mig mest að fara bara að halda með næsta liði sem Davíð Smári þjálfar. En ég vil helst að allir sem leiki með Vestra leiki þá í því liði líka. Kannski þýðir þetta að ég skilji ekki fótbolta. Og sennilega er ég bara orðinn of gamall til að læra það.
***
Bókamessan í Gautaborg var skemmtileg. En ég er mjög lúinn á eftir. Mannþröng og fuglabjargshávaði er ekki alveg minn tebolli. Svo verða kvöldin stundum svolítið löng. En þau eru líka skemmtilegasti hlutinn af þessu og sá eini sem ég kann eitthvað á. Ég fór á silent disco (allir með heyrnartól) og söng Livin’ on a Prayer með útgefandanum mínum í karókí (ekki silent, því miður). Og í þrjá hátíðarkvöldverði með ólíkum höfundum og útgefendum og bókmenntadiplómötum. Hitti svona 300 kunningja í ólíkum mannhöfum – nikkaði, knúsaðist, tók í hendur, stutt spjall, óp í gegnum hávaðann á einhverjum bar. Tvö samtöl á sviði, tveir ljóðaupplestrar, mörg hot shots og talsvert af frönskum pylsum í 7-Eleven. Gautaborgarpósturinn tók á móti mér þegar ég kom í bæinn með fjarska fallegum dómi um Náttúrulögmálin. Öll eintökin sem útgefandinn tók með á messuna ruku út – Grimwalkerhjónin, sem einhverjir kannast kannski við, keyptu síðasta eintakið. Daginn sem ég kom heim birtist svo líka ægilega skemmtilegur dómur í Kyrkans Tidning – en guðfræðingar hafa auðvitað sérstakt sjónarhorn á þessa bók. Og gaman þegar þeir ná henni. Mér skilst það sé líka von á dómi í Expressen og svo verð ég bara að sjá hvernig fer með restina – söluna og athyglina. Það er mjög hátt til lofts í sænskum bókmenntaheimi.
***
Meðan ég var að spóka mig í útlöndum datt Aino og fótbrotnaði. Eða fékk sprungu í bein og var sett í gips. Það var hringt í okkur í morgun og við beðin að koma í aðgerð klukkan hálffimm. Sem er auðvitað ógerlegt af því aðgerðin er í Reykjavík. En við förum á morgun og þurfum að leggja út 160 þúsund krónur fyrir ferðum og gistingu. Og ég þarf að taka tveggja daga frí frá vinnu. Svo stendur í upplýsingapdfinu að greitt verði fyrir aðgerðina samkvæmt gjaldskrá. Sem ég veit ekki hver er. Ég held við fáum þetta allt endurgreitt á endanum en það verður kannski ekki fyrren eftir 12 vikur. En ég þarf samt að borga fyrir þetta núna og borga vextina af yfirdráttarláninu næstu 12 vikurnar. Konan mín er sænsk og ég skammast mín fyrir að vera íslenskur þegar svona kemur upp á.
Í gær fór líka Play á hausinn en sama barn átti miða til að fara að heimsækja ömmu sína og afa á Spáni. Það bjargaðist líka en það var ekki heldur ókeypis, þótt ég hafi ekki þurft að leggja út fyrir því sjálfur.
***
Ég er heima í tíu daga. Eða tæplega það ef talin er með þessi Reykjavíkurferð. Svo er það maraþon í Þýskalandi/Austurríki/Sviss (Drei-länderinn svokallaði). Tveggja vikna skriftafrí í bústað. Tveggja vikna kynningartúr um Svíþjóð og ein vika með Heimsku í Póllandi. Svo er bara farið að styttast í jól.
***
Í sænskum fjölmiðlum tekst fólk á um að hversu miklu leyti blaðamenn og orðræða þeirra um palestínumenn og stuðningsfólk palestínska málstaðarins afmennski það fólk. Vinstrimönnum finnst augljóst að orðræðan sé afmennskandi og þar með hættuleg en því hafna hægrimenn með öllu. Í bandarískum fjölmiðlum tekst fólk á um að hversu miklu leyti vinstrimenn (eða demókratar) og orðræða þeirra um repúblikana og stuðningsmenn MAGA-málstaðarins afmennski það fólk. Hægrimönnum finnst augljóst að orðræðan sé afmennskandi og þar með hættuleg en því hafna vinstrimenn með öllu.
Ég veit hvað mér finnst. Mér finnst alltílagi að kalla MAGA-fólk fasista af því mér sýnist það leggja stund á fasíska pólitík og ég held að þau séu alls ekki einlæg þegar kemur að því að óttast orðræðuna – þau eru bara að fella pólitískar keilur. Og mér finnst mikilvægt að rætt sé um fórnarlömb hamslauss hernaðar Ísraelsmanna af nærgætni og kærleika – að minnt sé á að þau eru ekki tölur á blaði heldur fólk – en að sama skapi má alveg reiðast sænskum kjallarahöfundum sem eiga það til að láta þetta allt snúast um sig og sína sýn á réttlætið. Eða sýn okkar hinna á þau sem fulltrúa réttlætisins.
***
Í dag er alþjóðadagur þýðenda. Það er orðið svo langt síðan ég þýddi nokkuð af viti sjálfur að ég get varla talið mig í þeim hópi. En ég á fjarska marga góða þýðendur sem ég er mjög þakkl´atur – John Swedenmark vann nýlega þrekvirki með þýðingu sinni á Náttúrulögmálunum á sænsku og margt hef ég líka heyrt gott um nýlega þýðingu Jaceks Godek á Heimsku þótt ég geti ekki lesið hana sjálfur. Svo eru allir hinir – Eric Boury, Jean-Christophe Salaün, Nanna Kalkar, Vicky Alyssandrakis, Anna Gunnarsdotter Grönberg, Enrique Bernárdez, Roula Georgakoupoulu, Betty Wahl, Tina Flecken, Alexander Sitzman, Jón Bjarni Atlason, Tapio Koivukari, Daria Lazic, Anna von Heynitz og Anita R¨ubberdt. Og svo allir hinir sem hafa þýtt stök ljóð eða greinar. Þýðendur eru hinar ókrýndu og ósýnilegu kempur bókmenntanna – án þeirra værum við öll bara eitthvað að garfa í naflanum á okkur.
Annars hef ég tekið eftir því upp á síðkastið að fólk er farið að forðast að tala um þýðendur og þýðingar og leitar í önnur orð. Einn segist „endursegja“ ljóð. Aðrir „útleggja á íslensku“. Og svo framvegis. Einu sinni var önnur hver bók ekki þýdd heldur „íslenzkuð“. Ég skil eiginlega ekki tilhneiginguna. Ætli fólki finnist það að þýða of hátíðlegt? Eða of hversdagslegt?
Ég þurfti að fara í margar búðir í Västerås áður en ég fann eintak af tímaritinu Vi Läser – sem var einu sinni til alls staðar. Hins vegar er það tímanna tákn að í öllum búðunum var tímaritið Skriva til. Vi läser er tímarit um lestur – fyrir þá sem elska að lesa bækur. Skriva er tímarit fyrir þá sem vilja skrifa sjálfir. Einhvern tíma var sagt um íslensk ljóðskáld að þau hefðu flest margfaldan áhuga á eigin ljóðum en ljóðum per se – og jafnvel alls engan áhuga á ljóðum annarra, þú fyndir hvergi færri ljóðabækur en í hillum þeirra sem ortu sjálf. Þetta voru auðvitað ýkjur og að svo miklu leyti sem sannleikskorn var í því að finna var það auðvitað líka misjafnt manna á millum. Mér sýnist hins vegar að á síðustu árum þá hafi áhuginn á því að skrifa prósa farið fram úr áhuganum á því að lesa prósa. Í Svíþjóð birtist þetta meðal annars í mikilli fjölgun hégómaforlaga – „vanity press“ heitir það á ensku,og nær yfir forlög sem borga ekki höfundum sínum ritlaun heldur þiggja sjálf greiðslu fyrir að gefa út bækur þeirra. Stundum er það „trygging“ – þannig að höfundurinn eigi að fá pening þegar hann slær í gegn. Á alvöru forlagi fær maður greiddar óafturkræfa fyrirframtryggingu – hún er í sjálfu sér skítur á priki og krónutalan hefur ekki hækkað á þeim 20 árum sem ég hef gefið út (sem að gefnu tilliti til verðlagsþróunar þýðir að fyrirframgreiðslur eru í dag um þriðjungur af því sem þær voru 2004). Einhver gæti sagt að þessi upphæð skipti engu máli en hún er allavega hvati fyrir forlögin að selja lágmarksfjölda eintaka – að ná upp í fyrirframgreiðsluna áður en bókmenntaverkið er afskrifað upp í gróðann af næsta reyfara.
En það þarf sem sagt að þræða verslanir til að finna Vi Läser. Ég man líka eftir því að fyrir mörgum árum var ritdeila í sænskum fjölmiðlum um nýja danska ljóðlist – og að hversu miklu leyti ný sænsk ljóðlist stæði henni að baki – altso ljóð ungra skálda. Tilefnið var útgáfa antológíu nýrra danskra ljóða á sænsku. Og þrátt fyrir að allir á menningarsíðunum hefðu á þessu skoðun var hægara sagt en gert að útvega sér eintak af bókinni – og var ég þá í Stokkhólmi og fór í stærstu bókaverslanir landsins. Og það var ekki vegna þess að bókin væri uppseld, hún hafði bara ekki verið pöntuð inn.
Bókamessan í Gautaborg er á helginni. Þangað fór ég fyrst fyrir 15 árum og hef áreiðanlega farið 5-6 sinnum síðan en það eru orðin nokkur ár síðan síðast – og þegar ´eg fór síðast var alls engin eiginlega bókamessa og ég f´ór ekki einu sinni til Gautaborgar heldur Malmö þar sem var streymi. Ég er pínu peppaður en líka ekki – bókamessur eru eiginlega líka hræðilegar. Þúsundir manns sem streyma í gegnum risastóra sali einsog uppvakningar í bókahafi – og á hverjum bás er einhver aumingjans rithöfundablók að tala á sviði sem er á stærð við lítið eldhúsborð fyrir framan fjóra tóma stóla og einn áhorfanda, sem er oftast einhver sem hann tók með sér, vinur eða elskhugi. Ég hangi yfirleitt mest í Rum för poesi sem er salur afsíðis þar sem eru bara ljóðaupplestrar.
Síðast þegar ég var á svæðinu var allt krökkt í nasistum líka – nasistatímarit á messugólfinu og Norræna mótstöðuhreyfingin [svo] með svona 40 manna kröfugöngu fyrir utan. Og fleiri þúsund manns að mótmæla nasistunum – og nokkur hundruð löggur að passa að mótmælendamótmælendurnir myndu ekki rífa nasistana á hol.
En þetta verður áreiðanlega mestmegnis gaman. Ég þyrfti bara helst að hvílast aðeins áður en ég fer – á fimmtudag. Helgin var mjög intensíf – Tom Waits tónleikar á laugardag og ferðadagur á sunnudag frá 8 og fram yfir miðnætti. Og ansi orkufrekt langhlaup í gær. Og ég svaf sem sagt illa í nótt og er dálítið einsog draugur.
***
Á dögunum birtist Q&A um haustbækur á Vísi – rætt var við tvær konur og tvo karla. Og sennilega var nú reynt að pólarísera kynjunum svolítið – í öllu falli voru konurnar báðar úr bókmenntaheiminum, María Elísabet Bragadóttir, rithöfundur, og Ingibjörg Iða Auðunnardóttir, gagnrýnandi í Kiljunni; en karlarnir voru Bergþór Másson bitcoin-trúboði og Hjörvar Hafliðason, hlaðverpill. Það eru svona dálkar líka í Vi Läser og ég var að lesa þá áðan og fór að hugsa hvort ég ætti að stela spurningunum og svara þeim sjálfur – en rek mig þá á að spurningarnar sem karlarnir fengu voru greinilega ekki alveg einsog þær sem konurnar fengu. Eiginlega virðist hlaðverpillinn ekki hafa fengið neinar spurningar – það er bara einsog einhver hafi kveikt á honum og hann svo bara blaðrað almennt um lestur sinn. Og trúboðinn fær stytta útgáfu af spurningalista kvennanna.
Annars sá ég að fólk var að fjargviðrast yfir bókum trúboðans – og þessum (vísvitandi) framkallaða mun á kynjunum – og kannski mest því að hann hefði valið Ayn Rand. Ég hef ekki lesið Fountainhead en ég þekki fullt af vinstrisinnuðu fólki sem hefur lofað hana – á tímabili var alltaf verið að mæla með henni við mig. Enda er þetta, eftir því sem ég kemst næst, eins konar listamanna-übermensch bók og vinstri-bóhem hafa alltaf verið ginnkeypt fyrir Nietszcheískum hugmyndum um snilligáfu. Ég hef alveg trú á að Fountainhead geti verið ágæt. Ég hef hins vegar lesið Atlas Shrugged og hún er í einu orði sagt vond. Í fleiri orðum sagt er hún hræðilega löng, allur hennar boðskapur, allt erindi hennar við lesanda, birtist strax á fyrstu síðu og er svo endurtekinn í þúsund síður þar á eftir – sögupersónurnar eru ekkert nema farartæki fyrir þessar frekar banal kaupsýslumannadýrkun, „flatari en pappírs-Pési“ – og ég fullyrði að það er ómögulegt að njóta hennar nema maður sé gersamlega dolfallinn yfir þessum boðskap.
Annað sem Bergþór nefnir er ágætt – „Nietzsche, Houellebecq, Knausgaard, Didion, Laxness og Pétur Gunnarsson.“
En spurningarnar voru sem sagt þessar (en svörin mín):
Er einhver go-to haustbók sem þú leitar í?
Nei. Ég þori ekki að sverja fyrir það en ég held að almennt þyki mér snemmhaustin alls ekki g´óður tími til lestrar – ég er alla jafna órólegur á þessum árstíma. Þetta skánar svo síðla hausts þegar nýju skáldsögurnar byrja að koma. Besti tíminn til að lesa er janúar-febrúar. Þá er ég í essinu mínu og einbeitingin í botni.
Hvað einkennir góða haustbók? Og hvað vill maður út úr haustlestrinum?
Þessu er auðvitað ekki auðsvarað (sjá svar 1). En ég gæti trúað að á haustin sé ég ginnkeyptari fyrir einfaldari bókum – og jafnvel þolinmóðari gagnvart væmni og þvíumlöguðu. Stórum og ofsafengnum tilfinningum.
Hvað er verið að lesa þessa dagana?
Ég er að lesa Ulysses og sitthvað henni tengt – sögu Írlands og handbækur. Auk þess er ég að lesa Dottern eftir Lenu Andersson og Doppelganger eftir Naomi W… nei ég meina Naomi Klein.
Er eitthvað sem þú mælir sérstaklega með fyrir fólk sem er að leita sér að einhverju að lesa?
Ég er mjög spenntur að fara fljótlega að lesa Rúmmálsreikning III eftir Solvej Balle – fyrstu tvær voru frábærar. Mæli með þeim.
Nú ætla ég að segja svolítið sem við fyrstu sýn virkar mótsagnakennt – og væri nú svo sem ekki mér ólíkt, ég elska mótsagnir – en er það ekki. Ég held að það hafi sjaldan verið jafn mikilvægt og nú að segja einfaldlega sannleikann án þess að ýkja – hafi yfirveguð orðræða einhvern tíma skipt máli er það nú. Og ég held að það sé allt að verða krökkt af pípandi fasistum.
Það að kalla einhvern fasista er eðlisólíkt því að kalla viðkomandi skrímsli að því leytinu til að skrímsli eru ekki til, en fasistar eru til og hafa alltaf verið til, í einhverri mynd. Að kalla einhvern fasista er ekki að segja þá færa um hvað sem er – færa um að réttlæta helförina eftirá, heldur færa um að réttlæta helförina fyrirfram, áður en það er komið í ljós að hún er helförin, meðan hún er enn bara skipulagðar „lausnir“ á vandamálum sem fasistarnir sjá ofsjónum yfir, ekki síst vandamálinu að samfélagið sé ekki nógu einsleitt, að innan þess séu ólíkir hópar. Nasistar Þýskalands 1935 hefðu aldrei gengist við því að vera nasistar 1955 – þeim hefði sárnað ásökunin. Og raunar könnuðust fæstir þeirra við að hafa verið nasistar 1935 og fannst mjög ómálefnalegt að vera alltaf að draga það upp, einsog það skipti einhverju máli árið 1955.
***
Ég hef aldrei svo ég muni eytt neinum af Facebook vegna skoðana þeirra. Mér hefur þótt fólk vera þreytandi vitleysingar – jafnvel þannig að ég hafi íhugað að slökkva á þeim bara, loka þau úti, á þeirri forsendu fyrst og fremst að það geri andlegri heilsu minni ekki gott að vera í stanslausu sambandi við dýpsta og reiðasta óöryggið í öðru fólki. Manni – a.m.k. mér – er það ekki eðlislægt yfir höfuð að vera í svona miklu sambandi við svona margt fólk, að vera á þessum stanslausa borgarafundi sem félags- og fréttamiðlar eru orðnir, og hvað þá þegar áróður sem maður hefur ímugust á er farinn að smjúga inn um allar glufur.
Ég á marga FB-vini sem ég veit ekkert hvernig ég eignaðist – sennilega er það fylgifiskur þess að vera hálfopinber persóna. Sumir skjóta aldrei upp kollinum en aðrir verða nöfn í hausnum á mér. Sigurður. Kristín. Njáll. Og svo framvegis. Og nú opna ég varla Facebook lengur án þess að glenna upp augun og klóra mér í kollinum og spyrja mig svo: Er Sigurður/Kristín/Njáll líka orðin(n) fasisti? Eða líka kominn út úr skápnum sem fasisti eða hvað maður á að kalla það – ég hallast að því að maður sé það sem maður gerir og sé maður í skápnum með pólitíska óbilgirni sína í garð hinna ýmsu þjóðfélagshópa þá sé maður ekki fasisti. Maður verður það þegar maður byrjar að beita henni – þegar maður veifar henni stoltur. En það eru heimspekilegar spurningar sem ég skal geyma til betri tíma.
Og allt hangir þetta saman við þróunina vestanhafs. Sem er orðin þróunin beggja vegna hafsins og í því miðju. Hvernig sem maður svo hanterar það.
Stundum eru þessar færslur mínar hérna alveg frámunalega leiðinlegar. Ekki veit ég hvað veldur. Það er ekkert samhengi milli þess að það sem ég hafi verið að skrifa um daginn hafi verið leiðinlegt – það er einsog þetta gangi á einhverjum allt öðrum mótor. Af og til hvarflar að mér að hætta að blogga og fara frekar að skrifa vandaðri pistla – eitthvað með byrjun, miðju og endi, eitthvað með samfelldri röksemdafærslu – og stundum meira að segja heiti ég sjálfum mér að byrja á því. Í sjálfu sér snýst það ekki um vettvanginn – þessir pistlar gætu allt eins birst hér – en það skiptir engu máli af því ég fell alltaf frá þessum áformum hvort eð er.
Það sem er leiðinlegt er ekki endilega leiðinlegt fyrir mig samt. Náttúrulögmálin hafa fengið mjög lofsamlega umfjöllun í Svíþjóð og voru „boktips“ frá Mariu Maunsbach í Babel – sænsku kiljunni – á helginni. Það er gaman fyrir mig. En mjög takmarkað gaman fyrir aðra, sérstaklega ef þeir eru ekki einu sinni Svíar og vita ekki hvað Babel er, hafa aldrei heyrt minnst á Mariu Maunsbach. Svo hljóp ég líka 30 km í gær, með Nödju, sem var ekki gaman fyrir mig og enn minna gaman fyrir ykkur. En samt gaman fyrir mig. Samt ekki gaman fyrir ykkur.
Á laugardaginn verða Tom Waits heiðurstónleikarnir endurteknir. Það er gaman fyrir mig og verður gaman fyrir ykkur – ef þið mætið – en er áreiðanlega ekkert gaman að heyra mig tala svona mikið um. Plögg er leiðinlegt. Samt er eiginlega allur samtíminn plögg, það af honum sem er ekki grobb (30km! Babel!).
***
Ég las pistil Sifjar Sigmarsdóttur um bækur sem vörur á markaði – Sérvitringar, afætur og „sellát“ – og varð hugsi um margt. Það er þarna ákveðin mótsögn í afstöðu minni til þessara spurninga. Jafnvel margar mótsagnir.
Bækur eru vara en bókmenntir eru það ekki, sögur eru það ekki, hugsanir eru ekki vara. Að minnsta kosti ekki vara einsog hver önnur vara. Ekki einsog smjörlíki. Og línan sem skilur bókina frá bókmenntunum er augljóslega ekki skýr.
Það er samt absúrd að ríkið geti ákveðið einhliða hvað það greiðir fyrir afnot af bókum – útlán á bókasöfnum. Sem ríkið sem sagt gerir. Á hverju ári kemur ný tala – þetta er það sem fæst fyrir útlán. Svona virka ekki heldur aðrir menningarstyrkir – ekki t.d. endurgreiðsla kvikmyndaiðnaðarins. Eðlilegast væri að samið væri við RSÍ um tiltekna tölu og hún svo bundin einhverri vísitölu.
Sellát-ásakanir minna mig alltaf á níunda áratuginn. Þá var mikið ákall um hreinleika, og stigveldi – Offspring voru selláts og póserar, Green Day ekki, Green Day voru selláts og póserar, Nirvana ekki, Nirvana voru selláts og póserar, Pavement ekki, Pavement voru selláts og póserar nema þarna einn meðlimurinn (ekki Malkmus, hann er ofmetinn) og kannski eitt lag, sem var live og bara til á bootleg, og þú hefur ekki heyrt, bara ég, það er mjög vanmetið. Og svo framvegis.
En ég sakna þess líka að listamenn hafi ákveðin heilindi. Sé eftir öllu samneyti Nýhils við Landsbankann, það var glatað og illa launað. Og það voru líka allar hinar bankaauglýsingarnar með listamönnum á fyrirhrunsárunum. Og allt #samstarfið á instagram í dag. Og öll skemmtilegu lögin í bílaauglýsingunum. Af því það er líka eitthvað heilagt við þær tilfinningar sem maður bindur listaverkum (og by association listamönnum) sem vanhelgast þegar tilfinningatengingin er víruð föst í eitthvað drasl. Eitthvað smjörlíki. Einhvern bílstuðara sem rýkur með mann af stað. Ég lagði ekki ást mína á lagið til þess að láta það lokka mig til að eyða pening í dót sem mig langaði ekki í.
Og samt er sennilega betra að selja lag í auglýsingu en að eiga ekki fyrir leigunni. Að ég tali ekki um að eiga ekki fyrir mat. Og þótt það væri bara eitthvað af þeim minniháttar lúxus sem við köllum að geta notið þess að vera til – skór sem halda vatni, námskeið fyrir börnin, útaðborða á brúðkaupsafmælinu. Það er ekkert rómantískt við að vera fátækur, ekkert gaman.
Og endurtökum það samt. Bókmenntir eru ekki vara. Listamenn eiga að heiðra heilindi sín – en þau mega vera þeirra heilindi, maður skilgreinir það sjálfur, og aðdáendur þeirra mega verða fyrir vonbrigðum með hetjurnar sínar, listamennirnir mega verða fyrir vonbrigðum með sjálfa sig og hetjurnar sínar.
Það eru í mér jólabókaflóðsónot og þó er ég ekki með í jólabókaflóðinu. Ég gaf út bók í vor og þótt það sé „í ár“ þá á ég ekki von á því að vera dreginn neitt inn í jólabókastemninguna og það er ekki hennar vegna heldur. Það er ekki heldur vegna útgáfu Heimsku – Głupota – í Póllandi. Ég les ekki pólsku og hef ekki hugmynd um hvers konar viðbrögðum ég á von á – fá bækur marga dóma? Nýjar bækur eftir erlenda höfunda sem enginn hefur heyrt minnst á? Ég hef heilmikið lesið upp í Póllandi í gegnum tíðina en alltaf ljóð og aldrei komið út á bókarformi fyrren nú. Hins vegar er Náttúrulögmálin að koma út í Svíþjóð og Svíþjóð er það næsta sem ég kemst því að eiga mér vara-fósturjörð – konan mín er sænsk, börnin mín hálfsænsk, ég hef gefið út sjö bækur í Svíþjóð og tekið þátt í óteljandi viðburðum þar í landi, þekki álíka marga sænska höfunda og ég þekki íslenska (það eru kannski ýkjur, en ekki miklar), og ég veit hvaða heimasíðum ég á að endurhlaða viðstöðulaust í bið eftir umfjöllun. Já og ég er fluglæs á málið. Og ég mun fara heilmikið til Svíþjóðar í haust í tengslum við útgáfu bókarinnar – sem er alls ekki alltaf raunin, það er alveg upp og ofan, stundum gefur maður út bók í útlöndum og heyrir aldrei nokkurn skapaðan hlut af henni. Ég fer reyndar líka til Póllands og les upp bæði í Gdansk og Varsjá.
***
Ég er búinn með Circe. Kláraði kaflann einhvern tíma í síðustu viku og hlustaði svo á megnið af honum í bílnum líka – ég var að lesa upp á Stokkseyri í fyrradag, fór í road trip. Ég veit ekki hvaða tökum er best að taka hann. Hann er ekki erfiður í sama skilningi og Proteus eða Oxen of the sun. Hann er bara langur og fullur af smáatriðum sem hægt er að staldra við. Hversdagslegasta útlegging á honum gæti hæglega orðið lengri en bókin öll. Og svo tefur mig líka letin.
***
Annað sem ég hlustaði á í bílferðinni minni var How to be alone eftir Jonathan Franzen – ritgerðasafn, dálítið köflótt, sumt mjög gott og annað síðra, líður fyrir viðbúinn samanburð við David Foster Wallace, sem var betri í þessum sömu þemum, sömu þankabönum (þeir voru miklir vinir). Í henni talar hann á einum stað um „Bloomsday“ og á við dag sem er fullkomlega dokumenteraður niður í minnstu smáatriði. Það er ekki nýtt fyrir mér að fólk tali þannig um Ulysses, að hún sé þessi dagur – 16. júní, 1904 – dokumenteraður í drep. Og Joyce sagði sjálfur að Dublin mætti endurbyggja frá grunni út frá síðum Ulysses. Til að gera langa sögu stutta þá er brandarinn fyndinn en bæði auðvitað þvæla. Það er af og frá að við vitum allt sem gerist í lífum (eða hugum) Leopolds Bloom og Stephen Dedalus þennan dag – við vitum ekki einu sinni allt sem á daga þeirra drífur. Bæði eru eyður – kaflarnir byrja ekki allir þar sem síðasta lauk, og tímasetningin er stundum svolítið á reiki – og svo er gjarnan bara fylgst með öðrum þeirra. Við vitum kannski hvar hinn er á meðan en ekki endilega hvað hann er að gera eða segja. Aukinheldur eru kaflar þar sem skilningarvit þeirra eru brengluð og aðrir þar sem lýsingarnar á því sem þeir eru að gera eru með slíkum stíllegum heljarstökkum að sá sem segist hundrað prósent viss um hvað hafi átt sér stað – í jarðbundnasta skilningi dokumentasjónar – er að ljúga.
Joyce sækir á djúpið – hann er ekki að kortleggja einn dag eða einn mann eða eina borg. Hann er að kortleggja hræringarnar í innra lífi tveggja manna – og meira að segja sú kortlagning er gloppótt þótt hún sé impónerandi í umfangi sínu.
***
11 dagar í Tom Waits endurtekt. 12 dagar í fyrsta Svíþjóðartúr – með bókamessunni í Gautaborg. Einn mánuður og þrír dagar í maraþon. Eftir það fer ég í tveggja vikna útlegð til þess að einbeita mér að næstu bók. Og svo aftur á flakk. Einhvern tíma verður svo allt rólegt.