Endum saman

Frá öðrum janúar hef ég unnið frá sex á morgnana til sex síðdegis alla daga og nú er mig farið að langa í sumarfrí. Er ekki alveg að koma sumar? Eða allavega helgi? Verða ekki helgar í ár?

Ég er að fást við alls konar. Mest hluti sem ég fæ greitt fyrir. Illa greitt, það er eiginlega allt illa greitt í þessum bransa, en samt greitt. Fljótlega greitt, skulum við segja, því skáldskap fær maður víst líka greitt fyrir maður, fær bara ekki greitt fyrir hann fyrren eftir dúk og disk. Og verr – maður fær illa greitt fyrir margt í þessu lífi en fátt jafn illa og fyrir skáldskap. Og maður veit heldur ekkert hvað maður fær fyrren svona tveimur-þremur árum eftir að maður gefur út bókina, sem tekur kannski álíka tíma að skrifa. Mig vantar ekki pening 2029, mig vantar pening í febrúar. Og í mars og svo í apríl, maí, júní – og svo framvegis.

Ég var lækkaður í launum af listamannalaunasjóði frá og með síðustu mánaðamótum. Ég er búinn að væla undan þessu hérna áður en stundum þarf maður bara að ítreka harm sinn. Í ár fæ ég greidd laun í níu mánuði en ekki tólf en ég þarf eftir sem áður að borga af húsnæðis- og bílalánum í tólf mánuði og ég þarf að borða mat í tólf mánuði og það meikar ekkert sens að fara aftur í rækjuna fyrir þrjá mánuði, það ræður mann enginn í neina alvöru vinnu upp á að maður ætli að hætta aftur eftir þrjá mánuði. Skilaboðin sem maður fær – sem maður heyrir – þegar maður er lækkaður svona í launum eru líka ekki nú skalt þú vinna minna, ekki meira en 75% heldur þvert á móti nú skalt þú gjöra svo vel að vinna meira, viljirðu ekki vera á þessum sultartekjum um alla framtíð. Vinna meira og fá minna borgað og þakka fyrir hvern einasta eyri.

Ef ég ætla líka að skrifa skáldskap er s.s. eins gott ég sé mikið í vinnunni. Ykkur að segja átti ég nefnilega bara frekar erfitt með að ná endum saman í fyrra á fullum listamannalaunum. Holan stækkaði yfir árið og árið endaði líka á óvæntum lífeyrissjóðsreikningi sem ég hafði ekki efni á. Samanlagt reiknaðist mér til að ef ég ætlaði að komast út úr 2026 á fótunum þyrfti ég að fylla upp í fjögurra milljón króna holu. Tekjumissir vegna samdráttar á spenasviði – stálmunar – er helmingur af þessu, restin er skuldir sem hafa orðið til meðan ég var í meiri tekjum. Ég leyfði mér reyndar ýmislegt í fyrra – ferðin til Sviss var dýrust. Og kontrabassinn. Ég mætti einhverju af þessu með því að selja talsvert af dótinu mínu – ekki þó kontrabassann. Mér til varnar þá hélt ég að Náttúrulögmálin yrðu gefin út víðar – þau hafa bara verið seld til Svíþjóðar. Það eru heilmikil vonbrigði. (Ég var líka búinn að væla undan því). Ég hélt ég yrði ríkur.

En sem sagt. Ef maður vinnur á togara fær maður hlut. Skipstjórinn fær tvöfaldan hlut og háseti fær einn og svo voru til hálfdrættingar einu sinni sem fengu hálfan hlut. Það voru yfirleitt unglingar. Ég er ekki alveg kominn þangað, ég er þrírfjórðudrættingur.

Í dag er ég samt mest búinn að nota tímann til þess að stara ofan í tómið. En tómið lítur alltaf undan.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *