
Þegar ég var í Nam. Altso, veturinn 2014-2015, þegar við fjölskyldan höfðumst við í Hoi An, las ég oft enska dagblaðið Viet Nam News, sem er ríkisfjölmiðill í þessu annars ágæta einræðisríki, þar sem kommúnistaflokkurinn ræður lögum og lofum. Það var alls konar í þessu blaði. Alþjóðafréttir, enski boltinn, greinar um menningarmál (heilsíða um Kraftwerk t.d.) og sjónvarpsdagskráin. Innanum var svo áróður, bæði um víetnamska sögu og víetnamskan samtíma. Megnið af þessu var auðvitað fegrun þótt blaðið væri kannski ekki mjög óforskammað – þetta var ekkert endilega verra en það sem Íslandsstofa gæti gefið út. Bara svona við erum frábær og lifum nú í vellystingum en höfum komist yfir mikla erfiðleika, enda erum við hetjur.
Ég man hins vegar eftir að hafa staldrað við frétt þar sem sagt var frá því að nokkrir einstaklingar hefðu verið dæmdir fyrir að pósta gagnrýni á yfirvöld á Facebook. Þetta voru nokkurra mánaða dómar, kannski jafnvel skilorðsbundnir, og það var sagt frá þeim bara einsog mennirnir hefðu verið handteknir fyrir þjófnað. Og ég skildi þetta ekki alveg í fyrstu. Af hverju var víetnamski kommúnistaflokkurinn að játa á sig að hafa sett fólk í fangelsi fyrir að gagnrýna yfirvöld? Ekki var það mjög fegrandi?
Svarið blasti svo auðvitað við eftir smá umhugsun: Vegna þess að víetnamski kommúnistaflokkurinn vildi að fólk vissi hverjar afleiðingarnar af andófi voru.
Vietnam News er ekki bara blað fyrir túrista. Það er líka ætlað þeim sem eru kallaðir „viet kieu“, ameríkönum og frökkum af víetnömskum ættum sem hafa flutt aftur „heim“ en kunna oft málið illa. Það fólk þarf að vita að maður má ekki bara pósta hverju sem er á Facebook (reyndar var Facebook „bannað“ – en það var mjög auðvelt að komast framhjá því og það virtust allir vera á Facebook – hið sama mátti ekki segja um heimasíðu BBC sem af einhverjum orsökum var rosalega mikið lokuð og ég komst aldrei inn á). Ég áttaði mig líka smám saman á því að það voru ekkert allir handteknir fyrir andóf – bara rétt nógu margir til þess að fólk væri meðvitað um að það gæti gerst.
Allavega. Fyrir þremur dögum skutu SS-sveitir Donalds Trump konu sem heitir Renée Good. Hún var að mótmæla brottvísunum, sat í bílnum sínum og blokkeraði götu. Upp að henni komu menn með alvæpni, hún fór í panik og reyndi að komast undan en var skotinn þrívegis í andlitið af manni sem síðan kallaði hana fokkins tík. Um klukkustundu síðar byrjuðu háttsettir bandarískir stjórnmálamenn að halda því fram að hún væri hryðjuverkamaður, hún hefði keyrt yfir einn SS-manninn, eða allavega gert heiðarlega tilraun til þess, á sama tíma og þeir lofsungu SS-manninn sem ættjarðarvin og hetju. Það var ekkert sérstakt samræmi í því sem þeir sögðu – en það var allt í þessum anda.
Síðan þá hefur fólk verið að þrátta um það á internetinu hvort konan hafi raunverulega ætlað að keyra á manninn, hvort hann hafi verið í hættu, hvort einhverjum öðrum hafi staðið hætta af henni, jafnvel allsherjarreglu og hvort bandarískir stjórnmálamenn í MAGA hreyfingunni ætlist til þess að við gleypum við hverju sem er – hvort við séum komin á eitthvað post-truth skeið í mannkynssögunni þar sem einungis það sem Flokkurinn segir getur verið satt. Ef að Flokkurinn segi t.d. að konan hafi verið froðufellandi hryðjuverkamaður sem nauðsyn hafi krafist að væri stoppuð – by any means necessary – þá sé það nýi sannleikurinn.
Mig grunar hins vegar að misræmið milli þess sem gerðist og þess sem yfirvöld halda fram skipti hérna lykilmáli og okkur sé alls ekki ætlað að „trúa“ öðru en því sem við sáum heldur að verða vitni að því að það skiptir engu máli hverju við trúum, sannleikurinn er ekki annar en við höldum að hann sé, við þurfum ekki að trúa því að 2+2=5, heldur eigum við að trúa því að 2+2=4 en segja að 2+2=5, til þess að skilja að það erum ekki við sem ráðum og að það skiptir engu máli hvað okkur „finnst“ jafnvel um fullkomlega hlutlægar og mælanlegar staðreyndir.
Að sama skapi skiptir máli að Renée Good var ekki vopnuð, ekki að hóta neinum og ekki úr neinum þeim þjóðfélagshóp sem almennt verður fyrir þeim fordómum að vera talinn agressífur, hættulegur, sem lögreglan er skilyrt til að óttast. Hún var ekki blökkumaður, ekki karlmaður, ekki hávaxin og sterkbyggð, ekki tattúveruð með hanakamb, ekki ógnandi. Hún var soccer mom Karen í SUV – týpan sem ætlar ekki að skalla þig heldur vill fá að tala við yfirmanninn og ætlar svo sannarlega að skrifa harðorða umsögn á TripAdvisor. Og hún ætlar að leggja bílnum sínum hérna þangað til að þið farið að haga ykkur. Það eina sem hefði sýnt vald MAGA meira en að skjóta þessa konu – þrívegis í andlitið – hefði verið ef þau hefðu skotið barn fyrir sömu sakir. Skilaboðin eru skýr: Þetta eru afleiðingarnar við andófi og enginn getur reiknað með því að sleppa við þær.
Það eru vel að merkja engar líkur á að SS-sveitir Donalds Trump fari nú að taka upp á því að skjóta alla sem mótmæla. En þær munu halda áfram að minna á sig svo allir þar í landi séu meðvitaðir um að þetta getur gerst (og að þeir sem toga í gikkinn þurfi ekki að óttast afleiðingarnar af ættjarðarást sinni – Trump-hollustan frelsar).