2025

Kæru landsmenn. Nær og fjær. Til sjávar og sveita.

Ég hóf árið í Bangkok. Hélt upp á áramót með sænsk-kínversku tengdafjölskyldunni í háhýsinu þar sem þau búa. Svona ári síðar er það eftirminnilegasta við Tæland hlaupatúrarnir í Benchakitti Park og langir, langir göngutúrar um borgina – svokallað flannerí, sem borgin býður annars ekki upp á, þetta er flannerí úti á götu í miðri umferðinni hóstandi upp úr sér eldsneytisgufum og kjötbrasi. En það er gaman að ganga um og stara á fólk og hluti.

Ég var varla kominn heim þegar minn gamli vinur, Ásgeir H., tilkynnti okkur um yfirvofandi dauða sinn og bauð í kveðjupartí. Hann dó svo n´óttina fyrir partí. Ég var einhvers staðar inni í Ísafjarðardjúpi þegar síminn hringdi og ég fékk fréttirnar – ég var að reyna að muna það í gær hver hefði hringt, en ég hef bara ekki hugmynd, það hvarf ofan í einhverja hít. Partíið hélt samt sínu striki og ég líka – á leiðinni til Akureyrar keyrði ég fram á strandaðan hval. Stærðar skepnu. Það var enn snemma morguns og ég hef sennilega verið fyrstur „á vettvang“ – ég fór út og velti fyrir mér hvort ég ætti að hringja í einhvern, tilkynna eitthvað, en gerði á endanum ekki annað en að væflast í kringum þennan dauða hval í svona 40 mínútur. Þetta var áreiðanlega súrrealískasta upplifun ársins – mér fannst þetta ofan í allt saman svo klisjukennt, einsog sena úr illa skrifaðri bíómynd, maður fer að kveðja vin sinn sem liggur fyrir dauðanum og keyrir fram á dauðan hval á leiðinni.

Ásgeir var annar tveggja meðlima Nýhils sem létust á árinu. Í árslok dó Böðvar Yngvi Jakobsson, Oberdada von Brutal. Ég hafði fyrir löngu missti samband við Bödda sem hafði verið í ógæfu lengi – á Nýhilárunum hafði hann yfir sér Burroughs-áru og það fór miklum sögum af reynslu hans af hinum ýmsu efnum. Hann var hins vegar til þess að gera heill á þessum árum – bæði þegar við túruðum landið og þegar við bjuggum á sama tíma í Helsinki – að minnsta kosti miðað við það sem síðar átti eftir að verða. Ég sá Bödda fyrst í Hemma Gunn – þá var hann barn og kom í þáttinn til þess að sýna sinn undraverða hæfileika, að geta talað afturábak. Það var hægt að henda í hann heilu setningunum sem hann endurtók síðan afturábak. Á Nýhilárunum söng hann gjarnan eitthvað afturábak – mjög oft Öxar við ána og kannski stundum við undirleik Dóra á Dórófóninn.

Nú skömmu fyrir jól lenti ég á tilraunatónleikum á Ísafirði þar sem dönsk listakona söng nokkur lög afturábak, tók þau upp og spilaði þau svo áfram. Hún sagðist líka hafa verið svona barn, sem talaði afturábak, og ég var furðu snortinn og langaði að fara og segja henni frá Bödda en gerði það aldrei. Maður verður svo feiminn þegar maður er snortinn.

Í febrúar var tilkynnt að Náttúrulögmálin hefðu fengið tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Þegar sú tilkynning berst er maður sjálfur búinn að vita þetta í rúmlega ár. Núna er einhver sem klæjar í að fá að monta sig í febrúar – og þráir að vinna næsta haust. Ég vann ekki þessi verðlaun og fann ekki heldur fyrir því að þau hefðu aukið áhuga á bókinni, sem er víst yfirlýstur tilgangur verðlaunanna. Það var löngu ákveðið að hún kæmi út í Svíþjóð og að ég fylgdi henni eftir þar, hún kom hvergi annars staðar út og mér var ekkert annað boðið og ef frá er talin grein í Morgenbladet í Noregi varð ég ekki var við að hún væri svo mikið sem nefnd á nafn. Þetta var sjónarmun skárra þegar ég var tilnefndur fyrir Illsku á sínum tíma – þá fékk ég eitt boð til Helsinki og þá var voða fín verðlaunaathöfn í Stokkhólmi, þar sem maður fékk að hitta fólk og gista á fínu hóteli með konunni sinni og borða góðan mat í góðu yfirlæti og fagna með þeim sem unnu. Í þetta skiptið fékk ég kópípeist tölvupóst.

Þegar tilkynnt var um verðlaunin var ég hins vegar netlaus úti í sveit. Ég vissi sem sagt bara að ég hefði ekki fengið þau, en ekki hver hefði fengið þau, og hlustaði forvitinn á fréttir í útvarpi (sem ´ég gerði reyndar allan tímann). Það kom tilkynning í öllum fréttatímum og var rætt í svo til öllum útvarpsþáttum – Víkingur Heiðar hafði fengið tónlistarverðlaunin – en aldrei sagt stakt orð um bókmenntirnar eða aðra flokka sem Íslendingar unnu ekki. Ég ákvað að standast freistinguna að hringja í einhvern og spyrja og leyfa því bara að ráðast hvenær maður sem hlustar á alla fréttatíma og flesta menningarþætti í ríkisútvarpinu fengi þessar upplýsingar. Það var liðin nærri vika þegar það kom fram í Bara bókum í viðtali við Móheiði Geirlaugsdóttur að Vonbjørt Vang hefði fengið þau. Og þá gladdi mig einlæglega að þau hefðu farið til Færeyja – þótt ég væri auðvitað ennþá tapsár, ég er bara ekki merkilegri en það.

Bókmenntagiggin í ár voru nokkur. Fimm ljóð kom út í febrúar og ég hélt útgáfuhóf á Ísafirði og í 12 tónum í Reykjavík, las upp hjá Skriðu á Patreksfirði og mætti á Ljóð & vini í Mengi. Bókmenntahátíð Flateyrar fór fram í fyrsta sinn – veg og vanda af henni hefur skáldið Helen Cova. Þar spjölluðum við Sjón á sviði. Ég hafði beðist undan því að stýra umræðum en lýst mig annars viljugan til að leggja hönd á plóg og Helen stakk upp á þessu við mig. Sjón er síðan svo generös að þetta endaði mest á að vera spjall um Náttúrulögmálin – þótt ég reyndi að koma hans bókum að líka – og um bókmenntaskrif almennt. Það var gaman og eftirminnilegt og ég las líka aðeins úr Fimm ljóðum. Ég las líka úr henni á viðburði þar sem Vestfjarðastofa tilkynnti um styrki, mætti á menningarhátíðina Haustgildi á Stokkseyri – sem gamall nýhilvinur, Pétur Már Guðmundsson, stóð fyrir – og las svo upp í Víðsjá undir lok árs.

Síðasta sumar – eða vor kannski? – fór ég með hóp fólks í ferð um sögusvið Náttúrulögmálanna og Brúarinnar yfir Tangagötu. Það var í fyrsta skipti sem ég geri nokkuð því líkt  – a.m.k. gegn greiðslu, og ekki bara af því það veður á mér – og gekk held ég ágætlega. Ég fékk líka til mín hóp af dönum heim í stofu og talaði … blandinavíska er ekki alveg rétta orðið, því þetta voru bara danska og sænska í einhverjum graut. En mest um ljóð.

Ég fór á Bókamessuna í Gautaborg. Og svo nokkrum vikum síðar í lítinn túr – Stokkhólm, Gautaborg, Malmö og Lund. Þaðan hélt ég áleiðis til Póllands. Tók bátinn frá Karlskrona til Gdynia, sem var eftirminnileg ferð, og tók svo þátt í menningarhátíð í Gdansk og las upp í sendiráðinu í Varsjá. Einsog venjulega var þetta upp og ofan – það voru 1500 manns á Bokens dag í Malmö en mættu bara tveir í sendiráðið í Varsjá (menningarfulltrúinn hafði sagt upp þremur vikum fyrr, Sendiherrann var í Hvíta-Rússlandi, aðstoðarmaður hans í Úkraínu, en ritarinn sem tók á móti mér fullvissaði mig um að það hefði verið gerður „event á Facebook“.) Einsog venjulega var fólkið skemmtilegast – í Svíþjóð á ég mikið af vinum sem mér þykir gaman að hitta og í Póllandi kynntist ég þýðandanum mínum, Jacek Godek, sem er mikill öndvegismaður, sem og útgefandanum mínum hjá Marpress, Fabian.

Þetta var líka tónlistarár. Ég lenti í fyrsta sinn á vínyl. Lék á bassa í fáeinum lögum á plötunni Á floti með Gosa. Hér erum við fyrir rúmlega ári á RÚV:

Við lékum svo líka á útgáfutónleikum í Edinborgarhúsinu og komum fram á Aldrei fór ég suður. Þar las ég líka ljóð með vinum mínum í Reykjavík! sem er eitthvað sem ég átti upprunalega að gera á sömu hátíð 2005 – en dagskráin riðlaðist eitthvað og þegar ég var kallaður upp á svið var ég bara fullur á Langa Manga að hugsa um eitthvað allt annað.

Í október kom Laugardagshjartað saman í annað sinn til þess að flytja dagskrá til heiðurs Tom Waits. Það var að minnsta kosti jafn gaman og í fyrra skiptið – og í hléinu var ákveðið með handauppréttingu að taka Dylan næst. Æfingar fyrir það eru við það að hefjast og salurinn er bókaður 28. febrúar.

Ég lagði fyrir allan síðasta vetur og keypti mér kontrabassa í vor. Nadja og Sigga Gísla komu keyrandi með hann að sunnan í mars. Síðan þá hef ég varla snert önnur hljóðfæri og alls ekki án þess að biðja kontrabassann afsökunar á eftir. Þegar ég fékk svo í byrjun desember svar úr listamannalaunasjóði upp á 25% launaskerðingu á næsta ári seldi ég reyndar stærstan hluta hljóðfæra og græjusafnsins – sem var skítt en það koma betri dagar síðar með sól í heiði og það allt saman.

Í september hélt Aram úr landi til að stunda nám við tónlistarmenntaskóla í Svíþjóð. Það var sárt að sjá á eftir honum þótt planið væri bara að hann færi í ár. Hann hefur nú gert okkur ljóst að hann vilji vera öll þrjú árin sem er auðvitað mjög erfitt (fyrir mig, ekki hann) en ekki verður heldur vel séð hvernig hægt sé að neita honum um það. Ekki þannig að hann fyrirgefi manni, allavega – það væri alveg hægt að læsa hann inni. Að loknum menntaskóla fer svo fólk yfirleitt í háskóla og það gerir enginn hér. Feels like the end of an era. Mér skilst að ljóðabókin hennar Vónbjartar Vang fjalli um það að missa ungling yfir í fullorðinsárin – ég var að vona að ég ætti nokkur ár eftir með honum en maður hefur miklu minna yfir lífinu að segja en maður heldur. Ég þarf allavega alveg áreiðanlega að lesa þessa ljóðabók, sem mér skilst að Móheiður sé að þýða (einu sinni kunni ég reyndar ágæta færeysku, þegar ég vann í Tórshavnar Skipasmiðju og drakk á Mími).

Ég fór í fyrsta sinn á fótboltaleik hjá Vestra í vor – og það var í Vestmannaeyjum. Þar bundumst við Siggi og Gunni vinir mínir líka ákveðnum hlaupabræðralagsböndum. Ég fylgdist síðan vel með boltanum, mætti á flesta leiki hér heima og einn útileik til, og fylgdi Vestra þannig til sigurs í Mjólkurbikarnum og niður úr Bestu deild í 1. deild. Á næsta tímabili verður liðið sem sagt með í Evrópukeppninni en ekki með í efstu deild í heimalandinu – ég veit ekki hvort það er einsdæmi, en það er varla algengt. It was the best of times, it was the worst of times.

Á leiðinni heim frá Vestmannaeyjum keyrði ég á gæs. Þetta var á Barðaströndinni einhvers staðar. Það var rökkvað. Ég kom yfir blindhæð og sá þrjár gæsir á malbikinu, bremsaði einsog var óhætt – allar nema ein komust nógu hátt til að sleppa undan bílnum. Framrúðan fór í mask. Við fórum út að leita að gæsinni en hún var horfin. Daginn sem ég kom heim opnaði ég nýtt blogg Arndísar Þórarinsdóttur – og las þar nýja færslu sem fjallaði um frétt frá árinu 2007 um mann sem hafði fengið gæs í framrúðuna. Það var ekki alveg jafn skrítið og að keyra fram á dauða hvalinn en það var alveg svolítið skrítið samt.

Ég hljóp meira á árinu en nokkurn tíma fyrr um ævina. Fyrir rúmlega ári síðan fórum við Nadja í Bangkok Midnight Marathon (og hlupum 10k). Síðasta sumar fór ég svo í Vesturgötuna. Og í október hlupum við fullt maraþon – 3-länder maraþonið sem fer í gegnum Sviss, Austurríki og Þýskaland. Slagorðið er vel að merkja „no borders“ – sem er ólíkt vinalegra en það hefði getað verið (t.d. „Der Anschluss“). Þessum hlaupum fylgdu líka þrotlausar æfingar – ég hljóp upp um öll fjöll og firnindi hér heima, upp á skíðasvæði og til Bolungarvíkur, og alls staðar annars staðar þar sem ég kom.

Þetta var mjög ánægjulegt og ég vona að ég geti líka hlaupið eitthvað á nýja árinu – a.m.k. farið Vesturgötuna aftur, þótt ekki verði neitt úr því að ég fari til Frakklands að hlaupa næsta haust með Sigga og Gunna, einsog til stóð. Ég var með þrjár utanlandsferðir á planinu – sem var í sjálfu sér alltaf mjög metnaðarfullt og ólíklegt til þess að ganga upp – og slaufaði þeim öllum þegar launaniðurstaðan barst. En já, sól í heiði og það allt saman. Verst er líklega að komast ekki í Ulyssesferðina til Dublin (annað árið í röð) en það verður þá bara skemmtilegra þegar maður loksins kemst. Einhvern tíma hlýtur þessi starfi að skila manni einhverjum peningum. Og Bloomsdegi getur maður fagnað á Ísafirði líka – einsog við Ingi Björn sýndum fram á í Tangagötunni þann 16. júní síðastliðinn.

Svo má alveg halda því til haga líka að þegar við Nadja fórum í hlaupið stöldruðum við við í Zurich og þar fór ég í dálitla Joyce pílagrímsferð – fór að gröfinni og svona.

En ég er samt fúll að vera blankur. Mér finnst ég of gamall til að vera blankur og mér finnst mér ganga of vel til að ég sé blankur og ég vænti þess varla að mér gangi nokkurn tíma betur heldur, svo ætli ég verði þá ekki bara alltaf blankur. Þetta er as good as it gets.

En ég sótti líka um residensíu á ónefndum stað langt í burtu, sem á eftir að koma í ljós hvort ég fæ – og ég er boðinn til Zagreb í vor og norður Svíþjóðar í sumar. Svo það er ekki einsog ég verði bara heima hjá mér. Einsog mér finnst það nú reyndar líka ágætt.

Ég var duglegur að sinna húsinu í sumar. Málaði hálft hús og öll grindverk og tók til í garðinum og smíðaði utan um grillið. Aram hjálpaði til þegar hann var ekki að vinna á Tjöruhúsinu. Við skutumst líka til Svíþjóðar til þess að fagna Jónsmessu og sjá Green Day og Weezer í Stokkhólmi.

Ég sá talsvert af eftirminnilegum myndum – One Battle After Another, Bugonia og Sisu: The Reckoning standa upp úr. Mickey 17 og The Phoenician Scheme líka (öfugt við flesta finnst mér Wes Anderson verða betri og betri). Einhver lifandis ósköp horfði ég líka á Netflix-seríur, sem ég þarf nú að fara að nótera hjá mér svo ég gleymi þeim ekki strax – það eina sem ég man er Stranger Things, sem ég endurhorfði á á hausttúrnum, og finnst eiginlega frábært og betra í endurhorfi en frumhorfi. Sérstaklega fjórða vertíð. Það er líka talsvert afrek að fara svona vel með vísanir og nostalgíu – maður er að verða mjög þreyttur á ódýrum nostalgíulausnum, ég er oft byrjaður að ranghvolfa augunum strax og ég heyri lag sem ég þekki. En þetta er vefnaður, metnaðarfullur og merkingarþrunginn – það er hægt að lesa í allt. Ég hafði talsverðar áhyggjur af því að fimmta vertíð færi í skolpið út af löngu hléi en þær reyndust óþarfar – þau hafa reyndar ennþá einn þátt til þess að klúðra þessu.

Eina annað sem ég man í bili er Black Rabbit – hún var líka mjög góð. Ég veit ekki lengur hvað mér fannst um Adolescence – gott stöff en líka eitthvað off.

Og lesið? Ulysses, mest, og handbækurnar um Ulysses. Ég byrjaði á Goodreads fyrir nokkrum árum eftir að hafa lesið grein um að það væri svo miklu sniðugra en Facebook – ég er ekki sannfærður um að sú sé raunin en held áfram að „logga“ bækur, ofan í heimilisbókhaldið þar sem við skrifum öll niður það sem við höfum lesið. Ég veit ekkert hvers vegna en nú stemmir þetta ekki – ég er greinilega ekki nógu samviskusamur. Goodreads telur 50 bækur en lestrardagbókin í Tangagötunni segir að ég hafi lokið við 64 bækur (ég er líka að klára Dune, sem ég hef ekki lesið í 20 ár, svo ætli þær verði ekki 65). Annars er „bók“ f´áránlegasta mælieining sem ég þekki. Ulysses er ekki skráð kláruð – né heldur handbækurnar – vegna þess að ég er ekki kominn út á enda í ár (en hún er skráð 2024, vel að merkja, því þá las ég hana fyrst).

Ég setti mér eitthvað markmið í byrjun árs um að lesa á ´ólíkum tungumálum og að taka fyrir ljóðskáld í hverjum mánuði. Ég stóð ekki við þetta. Tók að vísu Gyrði, Appollinaire og Lindu Vilhjálms – en hætti svo markvissum höfundalestri. Og las ekkert á þýsku, dönsku eða norsku – og miklu minna á frönsku en ég ætlaði.

Eftirminnilegast:

Fyrstu ljóðabækur Gyrðis, endurútgefnar af Dimmu, eru fullkomlega dásamlegar. Ég hafði ekki skoðað þessar bækur síðan ég var unglingur – en skrifaðist einhvern tíma á við Gyrði, fyrir tæplega 20 árum, um að það þyrfti að endurútgefa þetta, aðallega af því ég átti þær ekki. Og las þær nú og fann ekki bara Gyrði þarna heldur líka sjálfan mig – skáldið sem mig langaði að vera þegar ég var á þrítugsaldri. Og skáldið sem alla ætti að langa að vera (og öll skáld ættu helst að vera á þrítugsaldri, vel að merkja). Ég þekki engar ljóðabækur á íslensku sem ég kann betur að meta en þessar. Svarthvít axlabönd. Tvíbreitt svigrúm. Einskonar höfuð lausn. Bakvið Maríuglerið og Blindfugl/Svartflug.

Ulysses. Ennþá og sennilega alltaf héðan í frá. Ég vísa bara í færslurnar.

Þessi upptalning á ekki bara að vera klassík, en ég endurlas líka Lolitu á árinu. Og sá hana enn eina ferðina með nýjum augum.

Staðreyndirnar. Ég las hana í handriti rúmlega ári fyrir útgáfu og leist ekkert á hana. Haukur Már er einn minn allrabesti vinur til nærri þrjátíu ára og ég ætlaði varla að þora að lesa útgefnu bókina þegar hann gaf mér hana – því ég gæti þagað yfir því við ykkur ef mér þætti hún ekki góð, en ég hefði ekki getað þagað yfir því við hann. Þær áhyggjur voru svo allar óþarfi. Þegar ég lagði hana frá mér var mín fyrsta hugsun að sennilega væru Staðreyndirnar jafnvel betri en Tugthúsið – ég veit ekki hvort ég stend við það, en bækur geta líka verið ansi rosalegar án þess að toppa Tugthúsið.

Í nýjum íslenskum bókum var þetta fyrst og fremst frábært ljóðaár. Hvalbak, Félagsland, Mara kemur í heimsókn, Þegar við vorum hellisbúar, Gakk, Tími til neins, Þyngsta frumefnið, Fyrir vísindin – þær „gólfuðu“ mig allar. Veggjuðu mig. Himinhöndumtóku mig. Ég á eftir að lesa Postulín, Draugamandarínur og Láka rímur – en það stendur til og ég hef heyrt vel af þeim látið.

Tónleikar. Sunna Gunnlaugs í Edinborg. Reykjavík! og The Diversion Sessions með Bob úr Pavement – og allur sá viðburður með bíósýningu og öllu. Sigmar Matthíasson ásamt hljómsveit í hömrum. Chögma í Edinborg. Ulla í Tjöruhúsinu. Spacestation á Húsinu. Osgood/Blak/Poulsen tríó í Edinborg. Allt öðruvísi upplifun en líka geggjað var að fara á Green Day og Weezer með Aram.

Og hvað blasir við 2026? Ég er að berjast við skáldsögu. Vonandi næ ég út á enda á næstu mánuðum. Er líka að klára þýðingu og væntanlega verða þær fleiri. Ég hef gott af peningunum. Ég þarf að skrifa a.m.k. eina stóra grein fyrir erlent tímarit. Mig langar að vera með útvarpspistla á árinu, en ég veit ekki hvort maður getur bara pantað það (og ég held það hafi því miður lítil áhrif á fjárhaginn). Langaði jafnvel að starta bara hlaðvarpi en það óx mér í augum og svo finnast mér hlaðvörp eiginlega leiðinleg. Það skrítna við að fá minni laun er samt að eiginlega finnst manni þá að maður þurfi nú að vinna meira. Til þess að fá einhvern tíma aftur full laun. Annars hefur mig lengi langað í langt fr´í. Daðra líka oft við að segja þetta bara gott, án þess að ég viti sjálfur hversu mikil alvara er á bakvið það.

Mér finnst gaman að setja mér áramótaheit, jafnvel þó ég standi ekki við þau – sem ég geri samt oftast. En núna dettur mér bara ekkert í hug. Ég ætla allavega ekki í frí heldur að þræla mér út og ég er ekki heldur hættur. Kannski kemur eitthvað upp í hugann fyrir miðnætti annað kvöld.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *