Eólus: Mótvindar frelsis

Hér er ýmislegt að gerast. Það glittir í kýklóp. Sítrónusápan hvílir í lundi. Fólkið við vitann er Molly og Leopold á sínu fyrsta stefnumóti löngu áður. Samuel Beckett stendur uppi á húsi. Þar beint fyrir ofan eru skrifstofur Freeman’s Journal og Evening Telegraph. Molly hvílir í rúmi sínu og Bloom tekur til morgunmatinn. Séra Conmee er á stjái. Bókin The Sweets of Sin stendur opin. Í vinstra horninu niðri eru Flann O’Brien og fleiri rithöfundar á frægri ferð um söguslóðir Ulysses sem endaði á einhverjum afar viskílegnum villigötum. Þá er þetta Bloom þarna undir blóminu stóra með bréfið frá Mörthu í höndunum.

Ég segi ekki að það erfiðasta við Aeolus sé að stafsetja heitið á kaflanum rétt en það er allavega á topp fimm listanum. Ef marka má árangur minn (ég kíki alltaf og leiðrétti en virðist ekki geta gert þetta rétt í fyrsta skipti). Enda hefur Sveinbjörn ákveðið að kalla manninn bara Eólus. Hippótesson. Ástvin hinna ódauðlegu guða.

Í kviðu Hómers segir frá því er Ódysseifur hittir vindguðinn Eólus. Eólus gefur Ódysseifi poka fullan af mótvindi sem þá hindrar hann ekki á heimleiðinni – og sendir góðan vestanvind á eftir honum. Þetta er vel að merkja fljótlega eftir að Trójustríðinu l´ýkur, rétt eftir að Ódysseifur sleppur frá kýklópnum Pólyfemusi. Með hjálp hagstæðra vinda sækist ferðin vel og þegar Íþaka er í sjónmáli ákveður Ódysseifur – illu heilli fyrir sig en góðu heilli fyrir sadíska lesendur ævintýra – að fá sér bara ogguponsu lúr. Á meðan lúrnum stendur kíkja skipverjar í pokann, af því þeir telja að þar megi finna fjársjóð, með þeim afleiðingum að mótvindarnir sleppa út og skipið feykist alla leið aftur til baka. Eólus finnst þetta ekki fyndið – „goðagremi veldur því, að þú ert hingað kominn“ – og neitar að hjálpa Ódysseifi frekar. Enn eru sjö ár í að Ódysseifur komist heim.

Sögusvið Eólusarkafla Joyce eru skrifstofur The Freeman’s Journal og The Evening Telegraph – morgunblaðið og síðdegisblaðið deila kontór. Vindur er aðalhreyfiafl og höfuðmyndlíking kaflans. Vindurinn feykir fólki inn og út úr herbergjum. Það er stanslaus umgangur og erfitt að fylgjast með hverjir eru inni á sviðinu. Fólkið sem þeytist fram og til baka blæs líka út úr sér heilum ósköpum af heitu lofti og gaspri og það eru gjarnan fleiri en ein samræða að eiga sér stað samtímis.

Bloom er hins vegar blásið áfram af launaþörfinni – auglýsingasalan er greinilega illa launað skítadjobb og hann ræður litlu og enginn ber minnstu virðingu fyrir honum. En það eru þannig störf sem feykja manni af mestum krafti, störfin sem maður hefur ekki efni á að missa.

Ulysses er í eina af sínum fjölmörgu röndum saga um framfarir og nútíma. Og það hvernig nútíminn tekur við af fortíðinni, breytir venjum og hefðum og hugsunarhætti. Og hún boðar framtíðina sem mun gera það sama við nútímann og hann gerði við fortíðina. Valta yfir hann. Það eru fáir höfundar á þessum tíma – 1914-1922 – sem skrifa af sama áhuga fyrir tækninýjungum og Joyce. Einsog við sáum í síðasta kafla er aðalsöguhetjan, Leopold Bloom, t.d. áhugamaður um vélvæðingu dauðans – og sennilega einlægur í þeim áhuga þótt Joyce sé kannski pínu að gera gys líka. Hér örlar hins vegar fyrir því að Bloom dáist ekki bara að tækninni heldur fyrirlíti eða óttist hana líka. Í prentsmiðjunni kemur til dæmis þessi kafli:

Machines. Smash a man to atoms if they got him caught. Rule the world today.

Örskömmu síðar bætir hann við þessari lýsingu á vélunum:

The machines clanked in threefour time. Thump, thump, thump. Now if he got paralysed there and no one knew how to stop them they’d clank on and on the same, print it over and over and up and back.

Tveimur blaðsíðum síðar koma prentvélarnar enn eina ferðina inn og þá er einsog Bloom sé farinn að skilja þær.

Sllt. Almost human the way it sllt call to attention. Doing its level best to speak. That door too sllt creaking, asking to be shut. Everything speaks in its own way. Sllt.

Ég held að þetta „sllt“ hljóð hljóti að vera skurðarvél. Hvað um það. Í fjórða kafla bókarinnar, þegar við hittum Bloom, á hann í samskiptum fyrst við köttinn sinn sem mjálmar og svo við Molly, sem muldrar orðaleysur – og alltaf skilur Bloom það sem við hann er sagt þótt orðin sé ekki að finna í orðabókum. Hér er undirstrikuð mennska Blooms og þörf hans fyrir tengsl, fyrir að skilja heiminn – en líka lýst ákveðinni kenningu um lestur: Kannski er ekki hægt að lesa (Ulysses/neitt) nema maður treysti eigin innsæi til að túlka upplýsingarnar sem maður fær.

Yfirgengilegur textaveruleiki aldamótanna 1900 tröllríður auðvitað bókinni. Það var ekki að dagblöð og auglýsingar væru nýmæli, þótt ekki væru þau mjög gömul heldur, heldur að það stóð stöðugt fleirum til boða að skrifa, lesa og auglýsa. Út um allt er texti. Á öllum veggjum eru tilkynningar og auglýsingar og skilti og Bloom les það allt. Bloom er svo auðvitað sjálfur auglýsingasali (milligöngumaður milli auglýsenda og Freeman’s Journal, sem gefur út The Evening Telegraph – hleypur á milli og semur um birtingu og vinnur fyrir prósentur). Og sem slíkur hefur hann einlægan áhuga á texta og framsetningu. Hann gengur auk þess um með upprúllað dagblað undir hendinni alla bókina – og það er yfirleitt kallað „newspaper baton“ og á einum stað „freeman baton“ og það er áreiðanlega ekki óviljandi – baton er bæði tónsproti, sá sem í hann heldur s´týrir verkinu, og barefli eða kylfa. Textinn leiðbeinir, stýrir og meiðir jafnvel.

Stephen – sem snýr aftur í Eólus – er menntamaður og skáld og sem slíkur upptekinn af annars konar textagreiningu. Hann íhugar Aristóteles og Boehme og Shakespeare – og raunar er hann í hinum frægu upphafsorðum Próteusar um „the ineluctable modality of the visible“ – („óumflýjanlegan hátt þess sem er sýnilegt“) – að reyna að komast handan hins sjáanlega út í einhvers konar „hreina hugsun“ – hugsun um hugsun, hugsun um heimspeki og listir. Eða í það minnsta að sjá sýnileikann í hinu sýnilega – sjá sig sjá. Það er öfugt við Bloom sem baðar sig í hinu sjáanlega – starir jafn hispurslaust á auglýsingar sem kvenmannsleggi – og er alltaf með hugann við það sem er fyrir framan nefið á honum.

Erindi Stephens í Eólus er að koma til skila aðsendri grein frá yfirmanni sínum, hr. Deasy, um gin- og klaufaveiki. Ekki sínum eigin skrifum, sem þó er gengið eftir. Hins vegar reif skáldið smá rifrildi af pappírnum sem greinin er skrifuð á – í Próteusarkaflanum – og orti á það ljóð sem hann rifjar upp hér þegar ritstjórinn spyr hvers vegna bréfið sé rifið.

On swift sail flaming
From storm and south
He comes, pale vampire,
Mouth to my mouth.

Bókin sjálf vekur líka sífellt meiri athygli á sjálfri sér eftir því sem líður á hana. Fyrst með því að beita óvenjulegum frásagnaraðferðum sem leyfa Joyce að dvelja við og stökkva inn í jafnvel smávægilegustu hugsanir sögupersóna sinna – sem verða þar með texti – og svo síðar með augljósari aðferðum. Þetta verður fyrst dagljóst jafnvel fimm ára börnum í Eólus þar sem frásögninni er skipt upp í fréttir með fyrirsögnum á borð við „Lost Causes Noble Marquess Mentioned“ og „Only Once More That Soap“ sem standa reyndar í misaugljósu samhengi við textann. Textann gæti maður alveg lesið án þeirra einsog hvern annan kafla í þessari bók – og raunar bætti Joyce fyrirsögnunum bara við í próförk til þess að undirstrika textúalítetið og búa mann undir næstu stökk í þá átt. Og auðvitað vegna þess að það er viðeigandi fyrir sögusviðið. Dagblaðaheiminn. Heim framtíðarinnar: auglýsinga og prentlista. Blaðaskrif og auglýsingar eru stöðugt rædd, hávaðinn í prentsmiðjunni og gasprið í blaðamönnunum eru alltumlykjandi. Og á einum stað dáist Bloom líka að því hvernig setjararnir geta raðað upp stöfunum aftur á bak – mangiD kcirtaP – ef bókin hefði verið prentuð í dag hefði Joyce sennilega látið spegla stafina líka.

Félagar Blooms úr jarðarförinni eru farnir á pöbbinn en Bloom hefur ekki efni á að slæpast, hann þarf að sinna vinnunni. Hann er með hugmynd að auglýsingu fyrir te- og vínsalann Alexander Keyes sem felur í sér að endurnýta gamla auglýsingu úr öðru blaði, tvo lykla í kross innan í hring. Sams konar merki mun hafa verið notað af þeim sem studdu írska heimastjórn. Og Bloom segir við yfirmann sinn, Nannetti, að þetta sé daður við slíka pólitík – sem er þeim greinilega öllum að skapi. En heimastjórn þýðir áreiðanlega eitthvað fleira fyrir kokkálnum og ástarbréfaskrifaranum en bara sjálfstjórn þjóðarinnar. Og tveir lyklar í bók um tvo lyklalausa menn – Stephen og Bloom fara báðir að heiman lyklalausir – er nú kannski ekki flóknasta táknið í ljóðráðningabókinni. Nannetti samþykkir auglýsinguna ef Keyes fæst til að kaupa þriggja mánaða endurnýjun. Bloom rýkur af stað til að athuga með það.

Augnabliki síðar tekur Bloom upp vasaklútinn og finnur lykt af sítrónusápunni sem hann keypti fyrir Molly – rifjar upp spurningu Mörthu um hvaða ilmvatn kona hans notar – íhugar í örskotsstund að gera sér upp afsökun fyrir að líta við heima, þar sem Molly bíður Boylans, en hættir jafn harðan við.

Hjá Hómer ferðast Ódysseifur og félagar um langa leið – fram og til baka. Það fer hins vegar enginn mjög langt í Joyce því enda þótt litlu megi muna að Bloom fari til Ballsbridge (sem er dálítið ferðalag) til þess að semja við Alexander Keyes hjá House of Keyes þá ákveður hann á síðustu stundu að hringja og kemst að því að því að Keyes er staddur handan við hornið á uppboðshúsi. Hann rýkur þangað en við erum skilin eftir á skrifstofunni á meðan. Hinir horfa á eftir honum út um gluggann þar sem strákastóð gerir gys að honum og hermir eftir göngulaginu.

– Lítið bara á strákskrípið þarna sem æpir og skrækir fyrir aftan hann, sagði Lenehan, og þér fáið hláturskrampa. Æ hamingjan sanna, hermir meiraðsegja eftir ilsignu göngulaginu og öllu heila klabbinu. Sá kann loddarabrögðin.

Á skrifstofunum er einsog áður segir stöðugur umgangur. Simon Dedalus er þarna en fer fljótlega á barinn. Lenehan – fremur vonlaus týpa sem er í aðalhlutverki í Two Gallants úr Dubliners – reynir að segja orðagrín en gengur illa að koma því til skila og svo reynist það ekkert mjög fyndið. Hynes er að skila af sér greininni um jarðarför Paddys Dignam. Ritstjórinn, Myles Crawford (sem á eftir að þurfa að staðfesta auglýsingasölu Blooms) er þarna, sem og lögfræðingurinn J. J. O’Molloy. Og fleiri og fleiri. Það er rifist um Írland og Róm („Salerna- og holræsasmiðir verða aldrei andlegir feður okkar“) og Grikkland og Egyptaland og Ísrael – og allt má lesa sem komment um Írland og Bretland – og mikið gaman hent að ræðunni hans Dans Dawson sem var nefnd í Hadesarkaflanum. Ætli þetta sé ekki það óþolandi stílbragð sem Þórbergur kallaði „uppskafningu“? Eða var það eitthvað sértækara – í öllu falli mætti það alveg heita uppskafning mín vegna:

Eða virðið aftur fyrir ykkur bugður niðandi lækjarsprænu þarsem hún hjalar álengdar, þótt hún deili við grýtta þvergirðinga, á leið sinni til hinna úfnu vatna í bláu ríki Pósídons, hlykkjast milli mosavaxinna bakka, kæld af mildum andvara, og er lýst upp af dýrlegu sólskini eða líður undir skugga sem varpað er yfir djúphugulan barm hennar hvelfdu laufskrúði skógarrisanna.

Fleiri textar eru ræddir – meðal annars blaðagreinar eftir mann sem heitir Ignatius Gallaher (úr Little Cloud í Dubliners) sem menn eru afar ánægðir með og A.E. (þeósófistann sem hét réttu nafni George William Russell), sem hefur nefnt Stephen í einhverju viðtali, J. J. O’Molloy vitnar í Seymour Bushe („einhver hnökralausasta málsgrein sem ég held ég hafi nokkurn tímann hlustað á“) og Stephen kemst við og roðnar („þareð blóð hans heillaðist af þokka máls og látbragðs“) og MacHugh vitnar í John F. Taylor, texta sem fær Stephen til að velta því fyrir sér í augnablik hvort hann ætti að gerast blaðamaður – en hafnar því svo. Man þá að hann á pening (hann fékk útborgað hjá hr. Deasy í Nestorkaflanum) og spyr hvort það sé ekki ástæða til þess að færa fundarhöldin út á næsta pöbb. Þeirri uppástungu er tekið með afbrigðum vel.

Stephen segir síðan undarlega dæmisögu um tvær írskar vestumeyjar sem klifra upp í Nelsonsúluna og éta þar plómur og skyrpa steinunum yfir grindverkið. Aðspurður segist hann kalla dæmisöguna „Palestína séð frá Pisgah eða Dæmisagan um plómurnar“. Söguna má sennilega túlka í ljósi textabrotsins eftir Taylor þar sem Írum var líkt við Ísraelsmenn sem neituðu að gangast undir stjórn Egypta. Nelson, sem stendur á súlunni, er breski flotaforinginn Horatio Nelson. Þessi mikilfenglega og risastóra súla var mjög umdeild meðal Íra og var á endanum sprengd af IRA árið 1966 – og ákveðið að gera enga tilraun til þess að laga hana eða endurreisa.

– En dömur mínar og herrar, hefði Móse hinn ungi lagt eyrun við og fallist á þessa lífssýn, hefði hann beygt höfuð sitt og beygt vilja sinn og beygt anda sinn fyrir þessari drambsömu áminningu, þá hefði hann aldrei leitt útvalda þjóð sína burt úr húsi ánauðarinnar né fylgt skýstólpanum á daginn. Hann hefði aldrei talað við hinn Eilífa meðal eldinga á Sínaífjalli né nokkurntíma komið niður með birtu innblásturs geislandi af ásjónu sinni og töflur lögmálsins í fangi sér, meitlaðar á tungu útlagans.

Því má svo halda til haga að þótt Joyce sé í þessum kafla frekar hallur undir sjálfstæðisbaráttu Íra þá gerir hann mjög hressilega upp sakirnar við þjóðrembuna sem henni fylgir síðar í bókinni.

Á leiðinni út rekast félagarnir á Bloom sem er að koma aftur af fundi sínum með Keyes. Bloom segir Crawford að Keyes sé til í tveggja mánaða endurnýjun á auglýsingunni og hvort það sé nóg – en Crawford segir honum að Keyes megi sleikja á sér rassinn. Bloom fattar að Crawford er að fara á barinn og það verði kannski ekki auðvelt að hindra þá för til þess að klára auglýsingasöluna.

Allir á leið í sollinn. Leiða hver annan. Lenehan með siglingakaskeitið þarna fyrir handan að sníkja. Alltaf sama smjaðrið. Ætli Dedalusdrengurinn eigi upptökin að þessu. […] Hirðulaus piltungur.

Bloom býðst til að halda áfram að vinna í auglýsingunni en Crawford endurtekur bara skilaboðin um rassinn á sér.

Ætli blaðamannatýpurnar á leiðinni á barinn séu þá ekki skipverjarnir að opna pokann og Bloom Ódysseifur sem tekst ekki að komast á áfangastað, sem að þessu sinni var að selja þessa auglýsingu. Og hvað var auglýsingin? Tveir lyklar í kross innan í hring: merki fyrir sjálfstætt Írland. Og drykkjuskapurinn í kjaftöskunum var mótvindurinn í pokanum – ég held það sé alveg ljóst að þótt Joyce hafi sjálfur verið frekar góðglaður maður leit hann á áfengisbölið sem mikinn dragbít á Írum. En lyklarnir eru líka lyklarnir sem Dedalus og Bloom vantar – þeir eru báðir bókstaflega lyklalausir og metafórískt heimilislausir menn, annar landlaus gyðingur sem er hafnað af þjóð sinni Írum (og sennilega gyðingum líka), hinn skáld á leiðinni að yfirgefa þjóð sína, halda út í heim – og heimastjórn einsog áður segir eitthvað fleira fyrir kokkálnum Bloom en bara sjálfstjórn þjóðarinnar. Eða fyrir Stephen, sem býr með hinum yfirgangssama Mulligan og er með hinn yfirlátssama Haines sem gest. Dedalus og Bloom eru heimastjórnarlausir menn í fleiri skilningi en einum (eða tveimur).

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * *

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Hades: Undirheimarnir

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

Hades: Undirheimarnir

Þarna í vinstra horni uppi er Glasnevin kirkjugarður. Bloom stendur einn.

En er eg hafði beðizt fyrir og heitið á draugasæginn, tók eg kindurnar og skar þær á háls ofan í gröfina svo dökkur dreyrinn rann; flykktust þá að vofur hinna dauðu drauga neðan úr Myrkheimi: ógefnar meyjar og frumvaxta sveinar, raunamædd gamalmenni, og ungar stúlkur, hugsárar af nýfengnum harmi: margir vopnbitnir menn, vegnir með eirslegnum spjótum, og báru blóðstorkin vopn; þeir komu flokkum saman úr sinni átt hverr, og flykktust að gröfinni með geysimiklum gný; greip mig þá bleikur ótti.

Úr 11. þætti Ódysseifskviðu

Í kviðu Hómers fer Ódysseifur til undirheima – eða særir þá eiginlega fram – og fær þar að vita hvernig sé best að komast heim til Íþöku og að ástæðan fyrir óförum hans hingað til sé sú að Póseidon sé að refsa honum fyrir að hafa blindað son hans, kýklópann Pólyfemus.

Þemað í kaflanum hjá Joyce er einsog gefur að skilja dauðinn. Við höfum vitað frá því í fyrsta kafla að Leopold Bloom er á leiðinni í jarðarför Paddys Dignam klukkan 11. Kaflinn hefst á því að Bloom – sem er nýkominn úr tyrkneska baðhúsinu – og vinir hans, Jack Power, Martin Cunningham og Simon Dedalus, stíga upp í hestvagn sem mun flytja þá þvert yfir bæinn upp í Glasnevin kirkjugarð, þar sem Dignam verður jarðsunginn.

Lesendur Joyce þekkja alla þessa menn. Simon er auðvitað pabbi Stephens – sterkgáfaður, íronískur, skemmtilegur en dómharður og hræðileg fyllibytta sem er flestum í lífi sínu til óþurftar. Hann hefur verið nefndur fyrr í bókinni og kemur líka fyrir í Portrait of the Artist as a Young Man. Power og Cunningham koma fyrir í smásögunni Grace úr Dubliners. Þar reyna þeir, ásamt M’Coy úr síðasta kafla, að fá Tom Kernan til þess hætta að drekka. Við vitum af frásögu M’Coy í síðasta kafla að Tom Kernan er á bender – svo þetta plan hefur ekki tekist sem skyldi.

Okkur verður síðan fljótt ljóst á tóni samræðanna í vagninum að þótt mennirnir fjórir séu vinir þá er Bloom utanveltu. Hinir þrír eru meiri vinir – Bloom er bara „með“.

Vagninn ferðast yfir fjórar ár – eða tvær ár og tvö síki – einsog það eru fjórar ár í Hades.

Eitt af því fyrsta sem gerist er að gömul kona gægist út um gluggatjöld á þá sorgarklæddu félagana í vagninum – „Nefið hvítflatt á rúðunni“ – og Bloom hugsar að þær (konur, væntanlega) séu líklega „glad to see us go we give them such trouble coming“.

Á leiðinni sjá þeir Stephen sem er á leiðinni niður á Sandymount strand – þar sem hann dólar í þriðja kafla (á þessum stað í bókinni renna sögur þeirra saman í tíma). Klukkan er rétt tæplega ellefu að morgni. Bloom kemur auga á Stephen og nefnir það við félaga sína og Simon spyr hvort „lubbinn hann Mulligan“ hafi verið með syni hans í för – og rantar síðan yfir því hvað Stephen umgangist mikinn „trantaralýð“ og kallar Mulligan samansaumaðan falskan djöfuls fant. „I’ll tickle his catastrophe, believe you me“ þýðir SAM skemmtilega sem „Sanniði til, ég skal dusta á honum drundinn.“ Þetta eru bæði svívirðingar sem ég ætla að hafa á hraðbergi héðan í frá.

Annað þema í kaflanum er vel að merkja hræsni – Simon er alger lubbi og landeyða sjálfur og á lítið með að dæma aðra.

Stephen er vel að merkja líka svartklæddur – klæddur sorginni – einsog mennirnir á leiðinni í jarðarförina. En Stephen er svartklæddur til lengri tíma – í ár minnir mig – því hann syrgir móður sína. Stephen og Bloom eru sem sagt báðir í sorgarklæðnaði alla bókina og báðir lyklalausir.

Reiðikast Simons verður til þess að Bloom fer að hugsa um sinn eigin son og hvernig það væri að eiga hann 11 ára gamlan í Etonbúningi. „My son. Me in his eyes. Strange feeling it would be.“ Og svo fer hann að hugsa um það hvernig hann kom undir. Þá hafði Molly staðið við gluggann og fylgst með hundum eðla sig og kallað á Leopold. „Give us a touch, Poldy. God I’m dying for it.“ Það er alveg ljóst að Bloom telur þetta ekki hafa verið fyrirmyndargetnað og hann tekur það samt alfarið á sig að sonur þeirra hafi dáið („If it’s healthy it’s from the mother. If not from the man.“)

Þeir spjalla um hverjir komi í jarðarförina. Martin Cunningham spyr hvort þeir hafi lesið ræðu Dan Dawson’s í blaðinu – Bloom segir nei og tekur upp blaðið en er sagt að líta á þetta síðar (ræðan kemur aftur upp í næsta kafla). Hann skannar þess í stað dánartilkynningarnar. Svo lætur hann hugann reika og augnabliki eftir að honum verður hugsað til Mollyar og Blaze Boylan („He’s coming in the afternoon. Her songs.“) sér Cunningham Boylan og reynir að heilsa honum en fær ekkert svar. („Just that moment I was thinking.}

Herra Bloom skoðaði neglurnar á vinstri hendi sér, síðan þeirri hægri. Neglurnar, já. Er eitthvað meira í hann spunnið sem þeir hún sér? Hrifning. Versti maður í Dyflinni.

Bloom dvelur aldrei lengi við þessar hugsanir um Boylan og Molly. Ekki einu sinni þótt félagar hans fari í framhaldinu að spyrja hann út í söngferðalagið.

Um leið og þeir aka framhjá styttunni af þjóðernissinnanum sir John Gray sjá þeir mann sem er lýst svo: „Hávaxinn svartskeggjaður maður hökti kengboginn við staf sinn.“ Okkur skilst fljótt að þetta sé gyðingur og okurlánari að nafni Reuben J. Dodd og hafa félagarnir um hann ljót orð en segja líka að þeir hafi allir einhvern tíma þurft að snúa sér til hans eða „Well, nearly all of us“, segir Martin Cunningham. Bloom er auðvitað gyðingur og þeir telja greinilega að það þýði að hann sé ekki líklegur til að verða fórnarlömb félaga sinna. Þarna undirstrika þeir hressilega að Bloom er ekki einn þeirra. Kaldhæðnin er svo reyndar líka að Reuben J. Dodd var raunverulegur maður og alls ekki gyðingur þótt margir héldu það. Bloom byrjar ákafur að segja slúðursögu um Reuben og son hans – sem hafi verið í kvennavandræðum og hafi átt að flytja til Manar – en hinir eru alltaf að grípa fram í og á endanum tekur Martin Cunningham að sér að klára söguna, sem er þannig að strákurinn reyndi að drekkja sér á leiðinni en bátsmaðurinn bjargaði honum og fékk eina flórínu að launum (sem þykir smánarlegt).

Jack Power notar tækifærið til þess að fordæma sjálfsmorð – engin smán sé meiri. Cunningham maldar í móinn og talar um tímabundna geðbilun og maður verði að líta á þetta af samúð. Bloom ætlar að segja eitthvað en hættir við. Hann hugsar vel til Cunninghams og nefnir að hann eigi í svolítið erfiðu hjónabandi – konan hans er áfengissjúklingur sem hefur í sexgang selt undan þeim húsgögnin til þess að fjármagna drykkju sína, en alltaf kaupir hann ný „Það gæti fengið steinhjarta til að bráðna.“

Í síðasta kafla komumst við að því að pabbi Blooms er dáinn og það var voðalegt og „kannski honum fyrir bestu“. Nú áttum við okkur á því – í hugsunum Blooms – að hann framdi sjálfsmorð – drakk eitur á hótelherbergi. Og skildi eftir bréf til sonar síns.

Vagninn tefst dálítið þegar þeir mæta nautgripahjörð sem er á leið til slátrunar. Bloom spyr hvers vegna borgin sé ekki með sporvagna til þess að flytja svona nautgripi niður að höfn. Cunningham tekur undir. Þá bætir Bloom um betur og stingur upp á útfararsporvögnum til að flytja syrgjendur í kirkjugarðinn (og nefnir að þannig sé í Mílanó). Power lýst ekkert á það en hinir eru heldur jákvæðari og Cunningham segir að þá myndu ekki gerast atvik einsog einu sinni þegar líkvagni hvolfdi og kistan „skopraði“ út á götuna.

Nú byrjar Bloom aftur að hugsa. Ímyndar sér að vagninn með Dignam velti. Spyr sig hvort líkum geti blætt. Íhugar að fara að heimsækja Millý í Mullingar. En afræður svo að láta það vera: „She mightn’t like me to come that way without letting her know. Must be careful about women. Catch them once with their pants down. Never forgive you after. Fifteen.“ Millikaflinn þarna um konur með buxurnar á hælunum á augljóslega líka við um Molly.

Næst koma þeir að stað þar sem framið var morð og ræða það – morðinginn var sekur en sýknaður. Bloom veltir fyrir sér hrifningu fólks á svona löguðu. „Menn eru sólgnir í að lesa um það. Mannshöfuð finnst í garð. Hún var klædd í. Hvernig hún varð við dauða sínum. Síðasti glæpurinn. Vopnið sem beitt var. Morðinginn gengur enn laus. Vísbendingar.“

Eitt sem er vert að nefna: Bloom er alltaf með sápuna sem hann keypti handa Molly í vasanum. Stundum truflar hún hann – hann hefur setið á henni alla ferðina. Nú koma þeir í kirkjugarðinn og hann notar tækifærið til þess að flytja hana í brjóstvasann.

Bloom finnst jarðarförin lítil. Martin Cunningham segir Power frá því að sér hafi dauðbrugðið þegar hann fór að tala um sjálfsmorð fyrir framan Bloom – það kemur í ljós að Power hafði ekki hugmynd um sjálfsmorð föður hans.

Næst fara þeir að ræða líftryggingu Dignams og barnafjöldann sem hann skilur eftir sig. Cunningham ætlar að safna peningum fyrir börnin og Bloom gefur duglega í sjóðinn. John Henry Menton, vinnuveitandi Dignams, hefur skráð sig fyrir pundi.

Séra Coffey les yfir líkinu („I knew his name was like a coffin. Domine-namine.“ Bloom veltir því fyrir sér hvers vegna presturinn sé svona þaninn, einsog hann sé fullur af gasi, og að það hljóti að vera allt fullt af gasi og eiturgufum á svona stað. „Down in the vaults of saint Werburgh’s lovely old organ hundred and fifty they have to bore a hole in the coffins sometimes to let out the bad gas and burn it it. Out it rushes: blue. One whiff of that and you’re a goner.“ Dauðinn: Bráðdrepandi.

Bloom finnst annars lítið til Coffey koma. Finnst þetta allt frekar andlaust og leiðinlegt og virðist ekki alveg skilja hvernig nokkur maður nennir þessu eilífa kirkjuhjakki.

Á einum stað nefnir Simon að „hún“ sé grafin þarna – konan hans, heitin, móðir Stephens – og á öðrum nefnir Bloom að hann eigi reit þarna, þar sem foreldrar hans hvíla, og sonurinn Rudy sem dó ellefu daga gamall.

John Henry Menton spyr hver Bloom sé og Ned Lambert svarar því og þeir virðast sammála um að Molly sé alltof „finelooking woman“ fyrir hann. Menton segist hafa lent upp á kant við Bloom einu sinni í keiluspili. Bætir svo um betur gagnvart Bloom og kallar hann „halanegra“.

Blaðamaðurinn Hynes segir brandara um mann sem kom fullur í kirkjugarðinn að leita að leiði vinar síns og kvartaði svo undan því að jesúlíkneskið við leiðið væri alls ekkert líkt honum.

Bloom hugsar málin einsog honum er vant – hingað og þangað. Hugsar um auglýsinguna fyrir Keyes sem hann þarf að selja. Molly virðist hafa truflað hann þegar hann var að skrifa heimilisfangið á svarbréfið til Mörthu. Hvort það væri hægt að ná sér í „unga ekkju“ á þessum stað. „Ástir innanum legsteina“. „In the midst of death we are in life.“ Svo fer hann að íhuga hvort ekki væri hægt að spara pláss með því að grafa fólk upprétt. Og hvort líkin séu ekki góður áburður – grasagarður borgarinnar er rétt hjá. Einhver hefur sagt honum að valmúi vaxi vel í kínverskum grafreitum og sá valmúi verði besta ópíumið. En það sé auðvitað mikið af möðkum í jörðinni. Hugsar um grafarana í Hamlet (það ku vera stytta af frægum írskum leikara í garðinum, klæddum upp einsog Hamlet).

Og þá er komið að kallinum í Macintosh frakkanum. Regnfrakka hefur SAM það í fyrstu – sem það kannski er – en allavega hefur nafnið þýðingu. Bloom sér hann álengdar og veltir því fyrir sér hver þetta sé. Hann kemur svo aftur og aftur fyrir í bókinni án þess að því sé nokkurn tíma svarað hver hann sé eða neinn eigi (eftir því sem ég man best) nokkur samskipti við hann. Sumir segja að þetta eigi að vera vofan af föður Bloom – einsog vofa föður Hamlets ofsækir hann – aðrir að þetta sé Joyce sjálfur (hann var á kreiki í Dublin þennan dag, 16. júní, 1904, þetta er dagurinn sem hann fór á fyrsta stefnumótið með eiginkonu sinni Noru Barnacle). Því verður aldrei svarað en gátan er þarna. Og Bloom telur „bera hausana“ (karlana) og kemst að því að þeir eru tólf, þrettán með Macintosh-manninum: „Tala dauðans.“

Ofan í gripasporvagna fyrir naut til slátrunar og útfararsporvagna til að flytja líkin í kirkjugarðinn þar sem þau ætti helst að grafa upprétt veltir Bloom því nú fyrir sér hvort ekki sé hægt að straumlínulaga þetta ferli enn frekar:

Aumingja Dignam! Hinsta hvíla hans í jörðinni í þessum kassa. Þegar hugsað er til þeirra allra virðist það vera hreinasta sóun á tré. Allt sundurnagað. Það mætti finna upp fallegar líkbörur með rennibraut og fellihurð svo hægt væri að skurra þeim niður. Já, en þá kynnu menn að heimta hver sína eigin rennihurð. Þeir eru svo smámunasamir.

Í smástund hefur hann svo áhyggjur af því að verið sé að grafa Dignam lifandi. Og stingur upp á lausn á því líka:

Það ættu að vera lög um að hjartað sé gegnumstungið til öryggis eða höfð sé rafmagnsbjalla eða sími í kistunni og einhvers konar loftrenna úr segldúk.

Blaðamaðurinn Hynes kemur og man greinilega ekki hvað Bloom heitir – en spyr bara um fornafnið til að fá bæði. Bloom biður hann að skrifa líka niður nafn M’Coys, einsog hann var beðinn um í síðasta kafla. Hynes spyr hvort hann viti hver þetta sé þarna maðurinn í … „the Macintosh?“ spyr Bloom og Hynes, viðutan, svarar: „M’Intosh. Ég veit ekki hver hann er. Heitir hann það?“ Þegar Bloom svarar er Hynes horfinn á braut.

Það er mokað í gröfina. Syrgjendur halda sinn veg. Félagarnir rölta yfir að gröf „Leiðtogans“ – Charles Stewart Parnell. Sá kemur ítrekað fyrir í Ulysses og raunar hinum ´bókunum líka. Hann var eins konar frelsishetja sem miklar vonir voru bundnar við áður en hann lenti í slaufun fyrir að vera í tygjum við gifta konu (í strangkaþólsku landi). Hann missti æruna en gafst ekki alveg upp en lagði svo hart að sér í næstu kosningabaráttu að hann veiktist – stóð úti í rigningunni of lengi – fékk lungnabólgu og drapst. Hann er einhvern veginn í senn píslarvottur frelsisbyltingarinnar og allar hennar brostnu vonir.

Herra Power segir:

„Sumir segja að hann sé alls ekki í gröfinni. Að kistan hafi verið fyllt grjóti. Að hann birtist aftur einn góðan veðurdag.“

Hynes segir að svo verði ekki. „Friður sé með dufti hans.“

Bloom byrjar aftur að velta vöngum. Hugsar meðal annars um að það þyrfti að taka upp raddir hinna látnu svo maður gleymi þeim ekki.

Eftir mat á sunnudögum. Leggja veslings gamla langafa á fóninn. Kraahraark! Hallóhallóhall, enhvaðþaðergaman kraark virkilegaman hallóhalló égeróg kopþsj. Minnir mann á röddina einsog ljósmyndin minnir mann á andlitið.

Í lok kaflans snýr Bloom sér að Menton til þess að segja honum að hann sé með beyglu í hattinum. „John Henry Menton starði á hann stutta stund án þess að hræra legg eða lið.“ Það er ekki fyrren Martin Cunningham bendir honum á beygluna að hann réttir hana og þakkar (Martin) fyrir.

„Herra Bloom var daufur í dálkinn og dróst nokkur skref afturúr til að heyra ekki um hvað þeir voru að tala.“

Svo ganga þeir að hliðinu og yfirgefa Hades.

Af öllum köflum Ulysses er Hades sá sem á sér flestar beinar samsvaranir í kviðu Hómers. Og þetta er líka fyrsti kaflinn sem Joyce byrjaði að plotta – upprunalega átti þetta að vera smásaga um kokkálaðan gyðing sem fer í jarðarför og þaðan með vinum sínum á krá þar sem gert er lítið úr því að hann sé alvöru Íri (seinni hlutinn kemur síðar). Og hefði þá líklega endað í Dubliners.

Dignam er Elpinor, stríðsmaður Ódysseifs sem datt fullur í sjóinn og drukknaði (það er talað um að hjartað hafi drepið Dignam en af ítrekuðum vísbendingum í gegnum bókina má fullyrða að það sem hafi drepið hjartað hafi verið brennivínsdrykkja).

Cunningham er Sýsifos – sá sem veltir steininum ítrekað upp fjallið til þess að endurtaka leikinn síðar. Konan hans, fyllibyttan, er brekkan og húsgögnin eru steinninn.

Árnar eru fjórar, einsog áður segir.

Reuben, sem gaf bátsmanninum flórínu – bátsmaðurinn er Karon (sem þiggur mynt til að flytja menn yfir Styx – sú mynt er gjarnan lögð á augu hinna látnu).

Séra Coffey er hundurinn Cerberus – honum er lýst sem hundslegum. Og það er bara fyrir hans orð/blessun sem maður fær að fara yfir í ríki hinna dauðu.

John O’Connell – raunverulegur maður – er umsjónarmaður kirkjugarðsins og sjálfur Hades, undirheimakóngur. Hades er giftur frjósemisgyðju og kona O’Connells hefur borið honum átta börn.

Parnell er Agamemnon – hjúskaparbrot kostuðu hann lífið (Agamemnon er reyndar myrtur af eiginkonu sinni og elskhuga hennar).

Menton er Ajax sem neitaði að tala við Ódysseif út af einhverjum gömlum smámunum.

Og svo framvegis.

Við færumst sífellt nær Bloom, sem er einhvern veginn alltaf í senn þjakaður en samt að axla byrðina. Hann er ægilega breyskur og mannlegur og það er alveg lífsins ómögulegt annað en að finna til með honum. Honum finnst að hann hafi stuðlað að dauða sonar síns. Konan hans er að fara að halda framhjá honum. Dóttir hans, sem hann er náinn, er að fjarlægjast og fullorðnast. Vinir hans eru lélegir vinir. Hann er gyðingur og Írar hafa upp til hópa fordóma gagnvart gyðingum. Og hann er gyðingur en samt kaþólikki og á ekkert samneyti við aðra gyðinga (í sláturhúsinu um morguninn ætlar hann eitthvað að fara að tala við slátrarann, sem er gyðingur, en lætur það svo vera á síðustu stundu). Og finnst trúarbrögð öll hálfgert húmbúkk – en samt stundum vinalegt húmbúkk. Borgin í kringum hann er þjökuð af áfengissýki og fátækt en hann hefur ekki einu sinni vit á að drekka það frá sér. Og einsog honum finnst þetta allt erfitt sligar það hann ekki – það sigrar hann ekki – það er einsog hann andvarpi svolítið, sjái ljósu hliðarnar, dökku hliðarnar, skrítnu hliðarnar, og taki svo annað skref, haldi áfram. Honum þykir augljóslega vænna um fólkið í kringum hann en fólkinu þykir um hann og kannski líður honum betur þess vegna – það fyllir hann a.m.k. ekki beiskju. Hann nýtur kærleikans og sennilega er það kærleikinn sem bjargar honum.

Bloom fær hins vegar engar vísbendingar um það í heimi hinna dauðu um það hvernig hann eigi að komast heim, né heldur fær hann neinar upplýsingar um það hvers vegna allt gangi á afturfótunum hjá honum. Það er ekkert samsæri, enginn Póseidon sem hefur lagt á hann bölvun. Ég held ég taki samt undir með bloggaranum „Kelly“ á Blooms&Barnacles sem skilur kaflann svona:

The rituals on offer to soothe the grief of losing a friend are of no use to Bloom because he doesn’t believe in their power – they’re simply a bunch of nominedomines. He doesn’t have intimate connections with his fellow mourners to lean on for support. Even poor Paddy seems like an acquaintance at best. Odysseus traveled to the underworld to learn his fate from the seer Tiresias, but Bloom leaves Glasnevin with no such illumination. He re-emerges, instead, with the knowledge of pain of the living world and his place within it. He is not engulfed in supernatural horror or a fear of hell. He does the most life-affirming thing that he can: he goes on living.

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * *

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

Lótusæturnar

Púslið. Þarna hægra megin má sjá Stephen horfa út á hafið á Sandymount Strand og fyrir ofan hann er Bloom að horfa upp pilsið hennar Gerty McDowell, þar fyrir ofan er flugeldasýningin og svo þessir elskendur undir vitanum sem ég er ekki alveg viss hvað sé – Blazes Boylan er reyndar með svona hatt – en mér finnst ég eigi að vita þetta og það rifjast ábyggilega upp.

Þótt kaflarnir í Ulysses eigi sér samsvaranir í köflum Ódysseifskviðu þá birtast þeir ekki í sömu röð. Hins vegar byrja sögurnar og enda á svipuðum stað. Segja má að atburðarásin sé í réttri (eða réttari) röð hjá Joyce af því stór hluti Ódysseifskviðu er Ódysseifur að rekja raunir sínar fyrir Alkinóa í endurliti. Því má svo halda til haga að Joyce skrifaði ekki nein kaflaheiti inn í bókina, þeir eru bara kallaðir þetta (Próteus, Kalypsó, Lótusæturnar o.s.frv.), út frá skema sem Joyce sannarlega gerði – og þetta eru lausar vísanir en ekki harðar, Ulysses er ekkert paint-by-numbers og það er ekki víst að allir lyklar í Hómer opni neitt hjá Joyce.

Hvað sem því líður er fimmti þáttur Ulysses Lótusæturnar.

Í kviðu sinni segir H´ómer frá því er Ódysseifur kom að eyju „Lótófaga“. Þar tók hann land og sendi menn sína að athuga með heimamenn, sem reyndust meinlausir en gáfu mönnunum lótus að éta. Lótusinn gerði þá svo værukæra að þá langaði ekki lengur að sigla heim. Ódysseifur dró þá aftur út í skip („svo nauðugt, að þeir grétu“) með hörðu og hreinlega batt þá við árarnar.

Joyce notar þessa sögu sem stökkpall að því að skrifa um vímu og það sem kalla mætti sjálflækningar – ópíum fólksins í víðustu skilgreiningu: lótusinn sem slævandi meðal við óförum hins mennska ævintýris. Og sendir sinn Ódysseif – Leopold Bloom – edrú af stað:

By lorries along sir John Rogerson’s quay Mr Bloom walked soberly, past Windmill lane, Leask’s the linseed crusher, the postal telegraph office.

Þýðing SAM – sem er að mestu leyti frábær, fyrir utan að vera þrekvirki – hefur þetta „rölti ráðsettur“ sem mér finnst alls ekki nógu gott. Það er kannski ekki auðvelt að þýða „soberly“ en það þyrfti samt að hafa vísun í að vera allsgáður – og rölti er allavega of kæruleysislegt. En þetta er auðvitað hálfóþýðanleg bók og þótt ég hnýti hér af og til í lausnir SAM þá er það úr óþægilega þægilegri stöðu manns sem þurfti ekki að gera þetta sjálfur, hefði aldrei getað það og aldrei einu sinni þorað.

Það fyrsta sem Bloom sér er reykjandi smástrákur með fötu af görnum (það er óljóst hvort hann er kyrr, t.d. að hreinsa garnirnar, eða hvort hann er að flytja þær eða hvað – en margir lesa í þetta eitthvað, af einhverjum orsökum, og fullyrða í allar áttir hvað hann hafi verið að gera). Bloom íhugar að segja honum að ef hann hætti ekki að reykja hætti hann að vaxa en ákveður að láta það vera – l´ífið sé víst nógu erfitt án þess að fullorðnir karlar séu nöldrandi yfir smámunum (les: leyf fólkinu að njóta sinna lótusblóma). Svo gengur hann áfram og fer framhjá The Belfast and Oriental Tea Company – sem hefur augljósar tengingar við lótusinn. Þá dagdreymir hann um te og ilmolíur og um ljúfa lífið í austrinu þar sem allt sé betra en heima í eymdinni.

Í kaflanum á undan fengum við að vita að Bloom væri með eitthvað í hattinum. Nú kemur hann á pósthús, tekur fram hlutinn – nafnspjald – réttir afgreiðslumanninum. Nafnið á nafnspjaldinu reynist vera dulnefni Blooms – Henry Flower. Henry fær greinilega ekki sín bréf heim einsog Leopold heldur á pósthúsið. Áður en Bloom er afhent bréfið óttast hann að hann hafi kannski gengið of langt í síðasta bréfi og það verði ekkert svar. En það reynast sem sagt óþarfa áhyggjur.

Hann stingur bréfinu á sig og áður en hann fer skoðar hann auglýsingaskilti frá hernum á veggnum. Bloom, sem selur auglýsingar, er alltaf að skoða auglýsingar og lesa texta (þetta er eitt af því sem ég tengi mest við – ég er meira að segja gjarn á að lesa upphátt á skilti þegar ég er á gangi, samferðamönnum mínum til undantekningalausrar ánægju og upplýsingar). Þar lýsir hann hermönnunum meðal annars svona: „Half-baked they look: hypnotised-like.“ Altso, þeir hafa greinilega komist í lótusinn.

Næst rekst Bloom á kunningja sinn, M’Coy að nafni. Sá kom meðal annars fyrir í smásögunni Grace í Dubliners þar sem hann fékk það hlutverk að reyna að fá Tom Kernan nokkurn til að hætta að drekka. Bloom virðist ekki mikið um hann gefið og það er sterklega gefið í skyn að hann sé þjófóttur (og steli skjalatöskum, hvað sem það á að þýða). M’Coy segist hafa rekist á tvo aðra menn sem við þekkjum líka úr Dubliners – Bob Doran, sem þar sængaði hjá konu og lét svo móður hennar neyða sig til að giftast henni og hefur síðan hrunið mjög hressilega í það einu sinni á ári og drekkt þannig sorgum sínum; og Bantam Lyons, sem birtist þar mest í framhjáhlaupi. Þetta er í sögunni The Boarding House. M’Coy færir Bloom þær fréttir að Bob Doran sé á rassgatinu. Hann blaðrar og blaðrar og á meðan er Bloom að reyna að girnast með glyrnunum óþekkta konu handan götunnar.

High brown boots with laces dangling. Well turned foot. […] He moved a little to the side of M’Coy’s talking head. Getting up in a minute.

„Getting up in a minute“ á auðvitað líka við Bloom og hans … ástríður, skulum við segja … en það á aðallega við að konan er að stíga upp í hestvagn (og þá missir hann sjónar á henni).

Svo spyr M’Coy hvað sé að frétta af Molly og þá fer Bloom (enn eina ferðina) að hugsa um auglýsingu – í þetta sinn slagorð:

What is home without
Plumtree’s Potted Meat?
Incomplete.
With it an abode of bliss.

Það þarf vonandi ekki mikið ímyndunarafl til þess að skilja hvað þetta dósakjöt á að fyrirstilla. Og einsog við vitum verður Molly innan skamms alsæl. Alsæluð. Og við vitum að það er ekki Bloom sem alsælar hana og er sennilega ekki einu sinni fær um það.

SAM þýðir slagorðið þannig að það sé „dugleg húsfreyja“ sem sé „stygg og stúrin“ án dósakjötsins – og sú þýðingaskekkja verður kannski til þess að vekja athygli mína á því sem þarna stendur aðeins nákvæmlegar: Það er ekki bara húsfreyjan heldur heimilið sem er ekki fullkomnað án „dósakjötsins“. Og á þessu heimili á Leopold líka heima og raunar Milly einnig – það er heimilisfriðurinn sem er í húfi, ekki bara nautn húsfreyjunnar. Og sennilega er það þess vegna sem Bloom gerir ekkert í því þótt hann viti að Molly eigi von á Blazes Boylan.

Bloom svarar M’Coy og segir að hún sé að fara í söngferðalag og M’Coy – sem greinilega veit allt, Dublin Joyce er slúðurtunna – spyr: „Who’s getting it up?“ Aftur er hér standpínulíking – og þetta „up“ er gegnumgangandi í bókinni uppfrá þessu, shorthand fyrir standpínu, a.m.k. í minni sóðalegu túlkun (Joyce er oft með góðar fjarvistarsannanir fyrir sínum dónaskap, þótt það sé alls ekki alltaf þannig) – en í bókstaflegri merkingu er M’Coy auðvitað bara að spyrja um skipuleggjandann. Sem vill til að er sami maður og væntanlegi elskhuginn, flagarabeinið hann Blazes Boylan.

M’Coy nefnir að konan hans sé líka söngkona og það er augljóst á hugsunum Blooms (eftir að M’Coy er farinn) að honum þykir sá samanburður ekki alveg eðlilegur – enda séu þær fullkomlega ósambærilegar konur og enn ósambærilegri söngkonur (Bloom-hjónunum í hag – Leopold metur sína konu mjög hátt og elskar hana heitt).

Loks ræða þeir jarðarför Dignams og M’Coy biður Bloom að láta skrá sig „á samúðarlistann“ („put down my name at the funeral“ er það í orginalnum – blaðamaðurinn Hynes tekur niður nöfn fyrir grein í blaðinu, þar sem þuldir eru upp viðstaddir). M’Coy segist ætla að reyna að koma en það er greinilegt að hann ætlar alls ekki að reyna.

Bloom gengur áfram. Sér auglýsingu (!) fyrir leikhús. Frú Bandman Palmer leikur Leu í kvöld en lék Hamlet í gærkvöldi.

Male impersonator? Perhaps he was a woman. Why Ophelia committed suicide?

Það er dálítið um kynskipti síðar í bókinni – en þetta er áhugaverðast fyrir þær sakir að seinna mun Stephen líka eiga í löngum samræðum um eðli Hamlets (sú kenning var að vísu viðruð stuttlega minnir mig í upphafsköflunum í Martello-turni). Sú kenning snýst eiginlega um að Hamlet sé afi sinn – og á meta-levelinu um það hver sé staðgengill Joyce í Ulysses. Og ef Hamlet getur verið kona þá geta aðrir í feðgatvennum Joyce líka verið það – Dedalus/Íkarus, Bloom/Rudy, Bloom/Stephen, Hamlet/kóngurinn, Ódysseifur/Telemakkos, Stephen/Simon og svo framvegis.

Upp úr þessu verður Bloom hugsað til pabba síns og það er ljóst að pabbi hans er dáinn og það hefur bæði verið voðalegt og „kannski var það honum fyrir bestu“.

Tvisvar á göngutúrnum fer Bloom að raula lögin sem hann veit að Molly er að fara að syngja – flagarasönginn úr Don Giovanni og Love’s Old Sweet Song. Þannig – og á fleiri vegu – sjáum við að ástarfundur hennar með Blazes Boylan er honum alltaf ofarlega í huga án þess að hann hafi beint orð á honum.

Bloom stoppar afsíðis við lestarstöðina og dregur upp bréfið til Henry Flower. Það reynist frá konu sem kallast Martha Gifford (sem er kannski ekki áreiðanlegra nafn en Henry Flower – hún svaraði víst upprunalega kalli eftir ritara í smáauglýsingu). Martha segist mjög reið og sér þyki leitt að honum hafi ekki líkað síðasta bréf frá henni. Svo talar hún um að refsa honum, kallar hann „naughty boy“, spyr hvenær þau geti hist, biður um lengra bréf (og endurtekur að hún muni refsa honum ef hann hlýði ekki). Í ps.inu biður hún hann að segja sér hvers konar ilmvatn konan hans noti.

Sennilega er þetta eini staðurinn í kaflanum þar sem segja má að Bloom ölvist. Martha er hans lótus – eða kannski perversjónin sem slík, að gera það sem er bannað. Við sjáum það auðvitað ekki utanfrá, af því við erum í hausnum á Bloom, en það má gera sér það í hugarlund útfrá textanum (það var blóm fast við bréfið, hann heitir Bloom, kallar sig Flower, svo er l´ótusinn auðvitað blóm):

Angry tulips with you darling manflower punish your cactus if you don’t please poor forgetmenow how I long violets to dear roses when we soon anemone meet all naughty nightstalk wife Martha’s perfume.

Hins vegar íhugar hann hvort hann eigi að hitta hana og ákveður að gera það ekki. „Thank you: not having any.“ Heilindi Blooms eru lykilatriði í persónuleika hans – hann vill gjarnan stíga á ´línuna en aldrei yfir hana.

Í kjölfarið rifjar hann upp dónavísu um tvær drósir sem týndu títuprjóni úr nærbuxunum sínum og gátu ekki haldið þeim uppi („keep it up“). Aftur, þetta up, en nú líka tengt vergirni kvenna.

Næst hugsar hann aðeins um kapítalismann og ekki síst gróðann af ölgerð. Þá sér hann auglýsta messu hjá séra John Conmee og ráfar þar inn. Séra Conmee var raunverulegur maður og birtist undir sínu eigin nafni bæði hér og í A Portrait of the Artist as a Young Man – Stephen leitar til hans eftir að séra Dolan hýðir hann (og fer frá honum sáttur við að séra Dolan verði áminntur). Nema hvað. Bloom hlýðir á messuna, veltir fyrir sér guðdómnum – sem reynist vera enn einn lótusinn (nema hvað). Ekki bara messuvínið (sem hann segir „aristókratískara“ en hefðbundnari drykkir, svo sem Guinnes) heldur líka skriftirnar og allt hitt:

Confession. Everyone wants to. Then I will tell you all. Penance. Punish me, please. Great weapon in their hand.

Eftir messuna þarf hann að drífa sig. Hann hefur lofað að láta útbúa smyrsli fyrir Molly og fer í apótek – þar er allt fullt af lótus, auðvitað, lyfjum og jurtum og allra handa smyrslum. Bloom reynist ekki muna uppskriftina að smyrslinu en reynir að rifja hana upp og kemur einhverju upp úr sér. Hann er ekki með flösku undir smyrslið en ætlar að koma aftur síðar – hann gleymir því þegar þar að kemur – tekur með sér sápu líka og lyfsalinn segir best að hann borgi bara bæði þegar hann komi til að sækja smyrslið. Lótusinn veldur vel að merkja gleymsku hjá Hómer – smyrslið (sem tengist kannski ilmvatninu sem Martha spurði út í – er allavega vellyktandi) hverfur ofan í óminnishegrann.

Fyrir utan rekst hann á Bantam Lyons. Sá fær lánað dagblað sem Bloom er búinn að vera með í höndunum frá því hann fór að heiman. Bantam vill skoða veðhlaupasíðuna og athuga með eitthvað franskt hross. Bloom svarar að hann hafi ætlað að henda blaðinu – „throw it away“ – Bantam hváir hressilega – og Bloom endurtekur að hann hafi ætlað að henda því. „Ég tek áhættuna“ segir Bantam og rýkur í burtu. (Síðar kemur í ljós að það er hross sem heitir Throwaway í keppninni – og Bantam heldur að Bloom hafi verið að gefa honum heitt tipp um hver vinni veðhlaupin – sem eru enn annar lótusinn – og koma ítrekað upp í bókinni).

Bloom dregur engan með sér aftur út á sjó, bindur engan við árarnar og enginn fer að gráta. Allir halda bara áfram að taka sinn lótus og slævast. Hann ákveður hins vegar að fara í tyrkneska baðhúsið og þrífa sig fyrir jarðarförina og kaflinn endar á þessum sjálfsástarorðum, þar sem hann sér sjálfan sig fyrir sér í baðinu (sem er kannski einhvers konar brottsiglingarlíking):

He saw his trunk and limbs riprippled over and sustained, buoyed lightly upward, lemon-yellow: his navel, bud of flesh: and saw the dark tangled curls of his bush floating, floating hair of the stream around the limp father of thousands, a languid floating flower.

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

Ulysses: Kalypsó

Ramminn á Ulysses-púslinu samansettur.

Ég hef nefnt að Kalypsó væri eftirlætiskaflinn minn í Ulysses. Frásagnaraðferðin er passlega brjáluð og talsverður léttir eftir erfiðan Proteus, þar sem intellekt hins unga Stephens fær að skríða í yfirgír. Og það sem meira er, í Kalypsó kynnumst við líka fyrst aðalsöguhetju bókarinnar, auglýsingasölumanninum Leopold Bloom, sem og eiginkonu hans, söngkonunni Molly – sem er einhvers konar nöf í bókinni, eða hjarta hreinlega, viðfang lengst af en fær svo að vera innilegasta og kannski byltingarkenndasta persónan fyrir rest. En það er þessi rólegi, hlýi, snjalli og passlega pervertíski hugur hans Leopold Blooms sem birtist hér – og það er af honum sem ég hrífst. Frásagnaraðferð Joyce – að skjóta inn hugsunum hér og þar, oft án þess að útskýra við hvað þær eigi, og taka þær svo aftur upp aftur af og til í skeytastíl – gerir tvennt. Annars vegar birtist heildarmyndin af sögunni hægt sem veldur því líka að þegar hún er kominn á skrið er skriðþunginn mikill. Hins vegar þá performerar hún miklu eðlilegri upplifun af heiminum en gerist í hefðbundnum skáldsögum og því fylgir alveg furðulega mikil nánd – þegar maður er kominn inn. Manni finnst ekki bara að maður þekki Leopold Bloom þegar maður er búinn með Ulysses, eða að maður hafi leikið hann – manni finnst pínulítið einsog maður hafi verið hann. Það eru töfrar.

Leopold og Molly búa á Eccles stræti nr. 7. Leopold er nývaknaður, stendur í eldhúsinu, hugsar til morgunverðar og sinnir kettinum – og fílósóferar um ketti einsog hann fílósóferar um allt, hversdagslega og mótsagnakennt og vinalega en án þess að ritskoða sig. Fyrst segir hann ótrúlegt að fólk telji ketti vitlausa, hún sem skynjar allt, hugsar hann, en í næstu setningu segir hann köttinn alveg hræðilega vitlausan. Og sér enga ástæðu til þess að hafa orð um mótsagnakenndar hugsanir sínar.

Molly liggur í rúminu – og sést raunar lítið annars staðar alla bókina. Leopold spyr hvort hún vilji eitthvað í morgunmat og hún svarar með einhverju muldri „mn“ og raunar má halda því til haga að kötturinn svarar honum með álíka mjálmi svo enginn talar við Leopold með orðum fyrstu síðurnar, þótt hann tali og aðrir svari með sínum hætti. Og þótt Molly og kötturinn muldri bara og mjálmi þá skilur Leopold alltaf hvað þau eru að reyna að segja. Hans helsta karaktereinkenni – ofan í lágværa skömm og greddu – er samlíðan, þolinmæði og skilningur gagnvart verum heimsins og þeirra mjálmi.

Muldur Mollyar þýðir nei, hún vill ekkert (mjálm kattarins var já, ég er svangur). En Leopold, sem hefur kaflann á að lýsa dálæti sínu á innyflamat, ákveður að fara til slátrarans til að kaupa sér svínsnýra sem hann hyggst steikja með smjöri og pipar. Slátrarinn er, vel að merkja sennilega gyðingur – og selur samt svínsnýru – og Leopold er sjálfur af gyðingaættum í föðurætt og á það eftir að skipta máli í sögunni.

Hjá slátraranum kynnumst við fyrst holdlegum fýsnum Leopolds sem horfir á konuna fyrir framan sig í röðinni með sinni sérstöku tegund af greddu, sem er einhvern veginn alltaf í senn kurteisleg og ruddaleg (Woods er nafnið á vinnuveitanda stúlkunnar, sem hann virðist kannast við – en það er líka standpína, hér og síðar).

His eyes rested on her vigorous hips. Woods his name is.
Wonder what he does. Wife is oldfish. New blood. No followers allowed.
Strong pair of arms. Whacking a carpet on the clothesline. She does whack it, by George. The way her crooked skirt swings at each whack.

The ferreteyed porkbutcher folded the sausages he had snipped off with
blotchy fingers, sausagepink. Sound meat there like a stallfed heifer.

Þetta er mjög holdlegt allt án þess að Leopold sé mikið að tala um hana beint. Viðurinn. Nýtt blóð. Flengingarnar. Pylsur og pylsulitir fingur. „Beinlaust hold þarna, einsog á stríðaldri kvígu“ (einsog það er´ í þýðingu SAM). Örlitlu síðar beinir hann orðum sínum beint að henni – þegar hann langar að drífa sig og elta hana út til að geta horft á eftir henni – „behind her moving hams. Pleasant thing to see first thing in the morning.“

Leopold er dálítið með kynlíf á heilanum. Það skýrist að hluta af því að þau Molly hafa ekki átt holdlegt samneyti frá því þau misstu nýfæddan son sinn, Rudy, ellefu árum fyrr, og sorgin sem því fylgir veldur því að Leopold óttast að eignast annað barn. Það er gefið í skyn að hið sama gildi um Molly en hún virðist ekki láta óttann stoppa sig (og raunar er ekki ólíklegt að Leopold finni ekki til sama ótta gagnvart öðrum konum – en hann er engu að síður uppteknari af að horfa og að eiga í fjarsamböndum).

Það er einhvers konar masókisti líka í Leopold – ekki bara í mottuflengingarfantasíunum. Þegar stúlkan hjá slátraranum er horfin án þess að gefa honum auga til baka hugsar hann: „The sting of disregard glowed to weak pleasure within his breast.“ Og í upphafi kaflans þegar hann er að tala um hvað hann elski innyflamat endar hann málsgreinina á orðunum: „Most of all he liked mutton kidneys which gave to his palate a fine tang of faintly scented urine.“ Þráin og nautnin í Leopold eru alltaf blönduð einhverju létt pervertísku – einhverju blæti – og það er alltaf dálítil bæling með líka. Á leiðinni heim þráir hann líka að komast aftur í návígi við hold Mollyar – sem hann mun samt ekki snerta. Hann langar að langa og langar að neita sér um úrlausn sinna fýsna.

Þegar Leopold kemur aftur heim bíða tvö bréf og eitt póstkort í anddyrinu. Annað bréfið og póstkortið eru frá Milly, dóttur Leopolds og Molly – bréfið til pabba en póstkortið til mömmu. Hitt bréfið er frá Blazes Boylan sem er kaupsýslumaður og umboðsmaður og verðandi elskhugi Mollyar. Það er margoft gefið í skyn að Leopold geri sér grein fyrir að þau séu að draga sig saman og hann er af einhverjum orsökum ekki beinlínis mótfallinn því, þótt hann sé kannski ekki heldur hrifinn af því. Hugsanlega er það vegna væntumþykju fyrir Molly, hugsanlega vegna þess að hann hafi haldið framhjá sjálfur og sé með samviskubit, hugsanlega vegna þess að þetta framhjáhald sé bara allt orðið normalíserað, hugsanlega bara af því hann er masókisti. Í bréfinu kemur fram að Blazes sé væntanlegur klukkan 16 (þessi kafli gerist sirka milli 8 og 9 að morgni).

Molly er vel að merkja minniháttar stjarna. Hún er söngkona á leiðinni á túr með Blazes. Það virðast allir í bókinni þekkja til hennar og margir dást að henni og hugsanlega þrá hana og einhverjir telja sig kannski vita að Leopold sé kokkáll – það er reglulega gefið í skyn. Hún þykir enn afar fögur – hún er 33 ára (en Leopold 38).

Leopold spyr hvað hún eigi að syngja og hún nefnir La Ci Darem – sem er tælingarsöngur úr Don Giovanni – og Love’s Old Sweet Song sem er lag um að jafnvel hin þreyttu og öldnu þurfi að elska.

Molly er búin að lesa bók sem heitir Ruby, Pride of the Ring – sem er ekki raunveruleg en mun eiga sér fyrirmynd í sögu um stúlku sem er misnotuð í sirkus – og biður Leopold að útskýra fyrir sér orð sem hún rakst á í bókinni – metempsychosis –  sálflutning þann sem á sér stað við endurholdgun. Leopold útskýrir það en man ekki orðið „reincarnation“ fyrren seinna. Svo biður hún hann að útvega sér nýja bók eftir sama höfund.

Molly biður svo Leopold að útvega sér „aðra bók“ eftir mann sem heitir Paul de Kock („nice name“ segir hún, sem er talsvert óbældari en maður hennar). Sá var franskur metsöluhöfundur sem skrifaði bókmenntir sem þóttu heldur ómerkilegar – þunnildisleg afþreying – en vakti sennilega öfund meðal kollega sinna því bæði Dostójevskí og Thackeray sáu sér ástæðu til þess að hreyta í hann ónotum (ein af söguhetjum Dostó í Fátæku fólki segir meira að segja að bækur Paul de Kocks séu ekki „við hæfi kvenna“ – sem gerir hann auðvitað að viðeigandi höfundi fyrir Molly).

Bæði Ruby og de Kock eiga eftir að skjóta upp kollinum í hugsunum Leopolds yfir daginn.

Nýrað er farið að brenna á pönnunni þegar Leopold stekkur aftur niður í eldhús. Þar tekur hann til morgunverðinn og les bréfið frá dóttur sinni. Milly, 15 ára, er í Mulligar á ljósmyndanámskeiði. Hún hefur það gott á námskeiðinu, hefur kynnst dreng og Leopold veltir því fyrir sér hvort hún sé byrjuð að gera dodo með strákum.

Í lok kaflans tekur Leopold með sér tímarit á kamarinn. Þar kúkar hann „í hægðum sínum“, fremur grafískt, og les smásögu í blaðinu. Hann öfundar höfundinn af höfundalaununum og lætur sig dreyma um að skrifa sjálfur í blaðið – jafnvel með Molly. Þannig á hann, einsog Stephen, sína eigin skáldadrauma.

Quietly he read, restraining himself, the first column and, yielding but resisting, he began the second. Midway, his last resistance yielding, he allowed his bowels to ease themselves quietly as he read, reading still patiently that slight constipation of yesterday quote gone. Hope it’s not too big bring on piles again.

Þeir draumar botna þó í því að Leopold rífur söguna úr blaðinu og skeinir sér með henni. Ef það er ekki táknrænt fyrir eitthvað þá er ekkert táknrænt fyrir neitt.

Kaflinn endar á orðunum „Poor Dignam“ – sá hefur verið nefndur tvisvar á hlaupum – klukkan 11 ætlar Leopold að fara í jarðarför þessa kunningja síns. Af þeim sökum endar Leopold lyklalaus – lyklarnir eru í hversdagsbuxunum – einsog Stephen (sem lætur Buck Mulligan fá sinn lykil).

Í Kalypsó hluta Ódysseifskviðu lendir Ódysseifur – sem er að reyna að komast heim til Íþöku – hjá dísinni Kalypsó sem heldur honum föstum og býður honum eilíft líf í skiptum fyrir að vera hjá sér. Hún heldur honum föngnum í heil sjö ár og neyðir hann til að sofa hjá sér. Það er ýmislegt sem rímar í þessum frásögum þótt allt krefjist það dálítilla túlkunarfimleika. Maður upplifir Leopold ekki beinlínis fastan í hjónabandi sínu – nema að svo miklu leyti sem allir eru fastir í hjónabandi kaþólskunnar á þessum tíma – og ekki neyðir Molly hann til samræðis. Auk þess er Eccles stræti augljóslega ekki bara eyja Kalypsó heldur líka Íþaka – þangað stefnir hann aftur. Ódysseifur er að koma heim úr Trójustríðinu en Leopold hefur ferðalag sitt á sama stað og það endar. En kannski sér Joyce hjónabandið sem kalypsóskt ástand og Leopold sem mann sem er meðvirkur með örlögum sínum – ófær um að sjá kvöl sína öðruvísi en sem nautn. Í Ódysseifskviðu grípa guðirnir inn í og láta Kalypsó sleppa Ódysseifi en í Ulysses fer Leopold einfaldlega af stað til að sinna erindum dagsins – ekki síst þessari jarðarför hans Dignams. Kannski er það dauðinn að frelsa hann. Dauðinn sem vili guðanna.

Hvað sem því líður er hann lagður af stað.

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti

Ég byrjaði aftur á Ulysses í vikunni. Í þriðja sinn. Og þriðju útgáfu. Fyrst – fyrir rúmu ári – las ég Cambridge Centenary útgáfuna með löngum ritgerðum um hvern kafla og alls konar glósum. Það er stærsta bók sem ég á. Hún er hálfgert húsgagn. Svo las ég þýðingu SAM – eða eiginlega samtímis, meðfram. Nú er ég að lesa Wordsworth Classics útgáfuna sem er ívið þægilegri ferðafélagi en Cambridge-mublan og sem ég keypti í svona setti – af því mig vantaði Finnegans Wake og Dubliners og það var ódýrara að kaupa settið með Ulysses og Portrait en þessar tvær stakar. Ég er búinn með formálann eftir Cedric Watts – sem var ágætis upprifjun en kannski engin uppljómun – og fyrstu þrjá þættina, Telemakkus, Nestor og Proteus. Sirka 50 síður – tveir fyrstu þættirnir eru til þess að gera venjulegur texti en sá þriðji er fyrsta vitundarflæði bókarinnar.

Hvað gerist í þessum þáttum? Eiginlega eru fræ að öllum helstu þemum og tæpt á því sem skiptir Stephen Dedalus mestu máli. Móðir hans er dáinn og það kemur fram að hann neitaði að biðja með henni á dánarbeðinu – af því hann hefur látið af trúnni. Þeir sambýlingarnir Buck Mulligan ræða þetta í Martello-turni og Buck álasar Stephen fyrir. Stephen virðist líka með samviskubit og í öllu falli neitar hann að klæðast öðru en svörtu – sem Buck finnst fyndið í ljósi hins.

Hjá Buck og Stephen gistir englendingurinn Haines. Sá er í Dyflinni til að nema gelísk mál og menningu og Buck og Stephen (eða kannski bara Buck?) siga honum á mjólkupóstinn, fullorðna konu, af því hún sé sérdeilis gott eintak af þvottekta Íra. Hún reynist auðvitað ekkert vita og ekki heldur kunna neina írsku. Í þessu kristallast eitthvað um samband hins imperíalíska við nýlenduna – heimsveldið hefur þurrkað út tungu heimamanna og svo snúið aftur til þess að hafa á henni lærðan áhuga, jafnvel ákveðið blæti, en þá er svo komið að heimamaðurinn er orðinn eitthvað annað, eitthvað sem vekur ekki sama áhuga lengur. Um þessa kúgun hefur Haines líka hin fleygu orð: „It seems history is to blame“ (sem ríma við orð Stephens síðar í kaflanum, þegar hann segir við hr. Deasy, yfirmann sinn í barnaskólanum: „History is a nightmare from which I’m trying to awake“). Skömmu áður hefur Stephen líka sagt við Buck að írsk list sé einsog brotinn spegill – „the cracked lookingglass of a servant“. Og það er í þann spegil kannski sem Haines horfir.

Annað við Haines er að hann þolir ekki gyðinga – þetta stef kemur aftur og aftur upp í bókinni. Allt versta fólkið í henni reynist vera gyðingahatarar. Og Leopold Bloom – sem er aðalhetjan í flestum köflunum – er auðvitað af gyðingaættum þótt hann praktíseri ekki.

Annar þátturinn gerist í skólanum þar sem Stephen kennir. Hann lætur skóladrengina fara með ljóð og leggur síðan fyrir þá gátu:

The cock crew
The sky was blue:
The bells in heaven
Were striking eleven.
Tis time for this poor soulto go to heaven.

Svarið, einsog þið hafið sjálfsagt getið ykkur til, er „the fox burying his grandmother under a holly bush“. Djók. Þetta er óleysanlegt rugl – og kannski fyrsta óleysanlega ruglið í bókinni (það verður nóg af því seinna). Fyrsta hreina ljóðræna upplausnin, skulum við segja, það er kurteislegra en „rugl“.

Svo fer hann að hitta skólastjórann til að fá laun og láta messa yfir sér um sparnað. Hr. Deasy er líka gyðingahatari sem endar sína innkomu í bókina á því að spyrja Stephen hvers vegna Írar hafi aldrei ofsótt gyðinga, og svarar gátunni sjálfur: Af því þeir hleyptu þeim aldrei inn til að byrja með. Í Ódysseifsskemanu er hr. Deasy Nestor – vitringurinn sem sonur Ódysseifs heimsækir og vonast til að geti sagt sér hvar faðir hans sé staddur. Hr. Deasy er skólastjóri í skólanum þar sem Stephen kennir og ætti að geta verið hinum unga Dedalusi einhvers konar mentor – en líkt og Nestor stendur hann á gati, veitir engin svör, bara meira tóm.

Þriðji þáttur fyrsta kafla segir frá gönguferð Stephens um Sandymount strand. Hér blandast saman það sem hann sér, það sem hann upplifir, það sem hann heyrir og svo framvegis. Hugsanir hans birtast manni einsog hugsanir gera – samhengislaust, vaða úr einu í annað, hugsa um fortíðina og skömmina og framtíðina og væntingarnar og allt sem fyrir augu ber jafn óðum og í einni bendu. Meðal annars hugsar Stephen um skáldsögur sem hann langar að skrifa og eiga allar að heita eftir bókstöfum – X og Q og svo framvegis – en Stephen er auðvitað staðgengill höfundar (og staðgengill Hamlets og Jesú Krists og fleiri). Hann sér dauðan hund, fólk sem er að tína skelfisk, konu sem hefur fest upp um sig pilsið og virðist vekja með honum einhverjar tilfinningar (þetta rímar við uppljómunina sem Stephen verður fyrir þegar hann sér konu við svipaðar aðstæður í lokin á A Portrait of the Artist as a Young Man og líka við glápið í Leopold Bloom síðar í Nausicaa kaflanum – og allt gerist á þessari sömu Sandymount Strand). Hann hugsar talsvert um drukknun og eðli drukknunar – hvað hún geri við líkama og sál – og að lokum borar hann í nefið og klínir horinu á stein. Og einhvern tíma um svipað leyti tekur hann ákvörðun um að snúa ekki aftur í Martello-turn um kvöldið – hann þolir hvorki Buck né Haines.

Mér finnst einsog þessi lestur hafi verið meiri glíma í fyrra. Mér var hins vegar talsverð nautn að stíga aftur inn í þennan heim og þetta rann allt mjög vel – meira að segja Proteus. Og ég hlakka mikið til að byrja á næsta kafla, Calypso, sem var minn eftirlætis í fyrra – sérstaklega upphafið. Þá birtist líka Leopold Bloom og með honum ný og æsileg þemu – skömm og hömluleysi. Bloom er heldur ekki jafn mikill intellektúal og hinn ungi Dedalus – hann er í sjálfu sér alveg jafn fastur í hausnum á sér, fastur í hugsunum sínum, en hann er ekki stanslaust að reyna að skilja þær eða setja þær í samhengi við heimsbókmenntirnar. Ætli maður að skilja innri mónólóg Dedalusar að einhverju marki þarf maður helst að vera með fimm doktorspróf í klassískum bókmenntum og tungumálum. Ekki þar fyrir að það er ýmislegt óskiljanlegt sem gerist í kollinum á Bloom líka – það er bara annars eðlis.

Að feðra föður sinn

Það eru tvenns konar rithöfundar í heiminum. Þeir sem þykjast vera skrítnari en þeir eru og þeir sem þykjast vera venjulegri en þeir eru.

***

Ulysses myndin frá 1967 með Milo O’Shea, Maurice Roëves og Barböru Jefford er mikið fyrirtak – eiginlega alveg dásamleg. Það er reyndar vel hugsanlegt að maður þurfi að hafa lesið bókina til þess að njóta hennar – og klámið er allt skorið út eða straumlínulagað, einsog við er að búast, en það hefði verið í anda bókarinnar að halda því, leyfa Bloom bara að rúnka sér í fullri reisn og Nighttown fantasíunum að spora út í argasta klám. En hafa allt hitt samt eins. En það hefði líka verið meiri áskorun.

Ég horfði líka á Heddu Gabler eftir Ibsen – uppfærslu aðlagaða fyrir sjónvarp með Ingrid Bergman í aðalhlutverki. Ég hef aldrei kynnt mér Ibsen neitt og geri það bara af því Joyce (sem ég er með á heilanum þessa dagana, einsog einhver kann að hafa tekið eftir) dýrkaði hann – lærði meira að segja norsku til þess að geta skrifað honum bréf á sínu eigin máli – til þess að tilkynna honum að hann gæti óhræddur farið að deyja, það væri kominn arftaki, hann myndi sjá um bókmenntirnar héðan í frá. Joyce var þá 19 ára og hafði nýverið skrifað afar lofsamlegan leikdóm um eitt af verkum Ibsens og Ibsen hafði litist svo á textann að hann skrifaði ritstjóranum og lofaði leikdómarann.

En sem sagt. Hedda Gabler? Mér fannst þetta nú heldur þunnt. Í sjálfu sér var uppsetningin ekki góð en þetta plott er líka alveg fáránlega dramatískt – ógurlegar póseringar yfir gáfum gáfumenna og viðkvæmum tilfinningum borgarastéttarinnar. Mér fannst verst hvað það voru fáir sem enduðu á því að fremja sjálfsmorð og voru það engu að síður þónokkrir. Óþolandi fólk. Og lélegur texti. Eftir að hafa horft á alla Hamlettanna um daginn með leikurum á öllum aldri – og eftir umræðu sem ég hef rekið mig á um aldur aðalleikarans í „netflix-seríu augnabliksins“, Ripley – þá fannst mér líka áhugavert að sjá Ingrid Bergman leika konu sem átti svo augljóslega að vera miklu yngri. Ég sló því upp áðan og Hedda var skrifuð 29 ára en Ingrid lék hana 48 ára. Það var reyndar ekki jafn truflandi og að sjá 41 árs Laurence Olivier leika þrítugan Hamlet – sennilega af því leikkonan sem lék mömmu hans var sjálf ekki nema þrítug. Tom Ripley á vel að merkja að vera 25 ára en er leikinn af 47 ára manni. Mér finnst reyndar vandræðalaust að aldra þann karakter. Annað en með Heddu og Hamlet þá er ekki þessi unglingslegi vanþroski lykilþáttur í persónuleika hans – þeirri tegund vanþroska fylgir mikill kraftur og sjarmi í ungu fallegu fólki, og hann getur gert að verkum að það kemst upp með ýmislegt sem það kæmist ekki upp með síðar (eftir einhvern tiltekinn aldur hættir fólk að komast upp með að „lofa góðu“ og samfélagið hættir að gúddera hortugheitin í þeim sem sæt).

***

Svar: Það þarf skáld til að skipta um // ljósar perur.

***

Ég dragnast í gegnum múrsteininn hans Richards Ellmans um Joyce. Þetta er feikna áhugavert og brjálæðislega vel gert – en líka rosalega ítarlegt og stundum ber túlkunargleðin sérfræðinginn ofurliði. Ég er að fara til Napóli eftir tvær vikur og ætlaði að endurlesa The Skin eftir Curzio Malaparte fyrir ferðina og jafnvel frumlesa líka Gomorrah eftir Roberto Saviano en það er spurning hvort það verður nokkuð af því. Ég er líka að fara til Grikklands eftir viku og læt duga að vera nýbúinn að lesa Odysseif!

Annars fór ég í bókabúð í Aþenu í fyrra og lét mæla með fyrir mig The Flaw eftir Antonis Samarakis – sem er einsog Kafka hittir Chandler hittir …. segjum bara Schnitzler. Kannski fer ég í einhverja álíka meðmælaferð í Skopelos.

Ellmann er augljóslega – einsog ævisagnahöfundar þurfa áreiðanlega oftast að vera – frekar mikið í „ævisögulegu aðferðinni“. Hann leitar fyrirmynda í lífi Joyce að öllu sem hann hefur skrifað og rekur hvernig ólíkar persónur séu samansettar úr t.d. pabba hans, honum sjálfum, einhverjum vini o.s.frv.

Joyce skrifaði auðvitað talsvert um „sjálfan sig“ – sérstaklega undir heitinu Stephen Dedalus – og svo er frægustu bókmenntafræðiskrif hans sjálfs ræða Dedalusar um hver sé fyrirmynd Hamlets, þar sem fram kom að Shakespeare væri draugurinn, faðir Hamlets, og raunar sem skapari/faðir draugsins líka afi Hamlets. En þá ber auðvitað að hafa í huga að þá ræðu flutti ekki Joyce (þótt hann hafi sagt eitthvað líkt sjálfur) heldur staðgengill hans Dedalus. Og vegna þess að Joyce skrifaði þetta er líka freistandi að skoða „föðurinn“ í Ulysses, Leopold Bloom, sem hinn eiginlega Joyce-staðgengil bókarinnar – og það má sannarlega finna hellings mikið af sjálfsævisögulegum smáatriðum til þess að ýta undir þá kenningu (Joyce og Nora sváfu til dæmis andfætis einsog Leopold og Molly).

Ef Joyce er þá Bloom er hann líka skapari/faðir Blooms og þar með afi Dedalusar! Sem er hann sjálfur! Og svo er auðvitað forvitnilegt að Leopold skuli ekki heita Ulysses – Stephen, sem smíðar sér vængi og flýgur burt frá Dublin, fær að heita Dedalus. Hver er þá Ulysses?

Og auðvitað er þetta meðal þess sem Joyce dregur fram í lesendum sínum – löngun til þess að uppgötva einhverjar tengingar (sennilega er engin kenning um Joyce lengur ný, en það er gaman að hugsa sig fram til einhvers sem maður vissi ekki sjálfur um áður). Ellmann er sem sagt vorkunn.

***

Ljóðskáld, ljóðmælandi og plús-x komu inn á bar.

***

Menningarstríðin halda áfram. Einu sinni var Eurovision ein til tvær kvöldstundir yfir sjónvarpinu. Nú eru ótal undankeppnir, símakosningar og símakosningasvindl, blogg og youtuberásir, sérstakir sjónvarpsþættir um undankeppnirnar í öllum hinum löndunum og nú síðast siðferðislegt sprengjusvæði. Fokkins Eurovision. Það er líka allt á hvolfi í Svíþjóð út af nýjum lögum um kynskráningu. Lágmarksaldur til þess að sækja um breytingu á kynskráningu var í dag færður niður í 16 ár – en foreldrar þurfa samt að sækja um. Hitt skiptir sennilega meiru að fólk þarf ekki lengur að vera með greindan kynama til þess að fá að breyta kynskráningu heldur á nú að duga stutt læknisskoðun. Lögin á Íslandi eru vel að merkja þannig að allir yfir 15 ára aldri geta sótt um breytta kynskráningu án nokkurra hindrana og foreldrar barna undir 15 ára geta sótt um fyrir viðkomandi. Þeir sem eru yfir 18 ára geta bara sótt um breytta kynskráningu einu sinni. Einhvern tíma voru Svíar nú mest líberal í þessum efnum.

Völundarhús Rorschachs

Djasshausinn úr síðustu færslu var æfur eftir endursögn mína á forvitni hans um Ulysses í samdrykkjunni (gr. Συμπόσιον) á mánudagskvöld. Ég sagði einsog glöggustu lesendur minnast að hann hefði spurt hvort það væri eitthvað meira í henni en „vísanir og vesen“ – sem var í sjálfu sér hluti þess sem hann sagði – en ég sleppti úr því sem honum þótti vera lykilhluti spurningarinnar, og sneri að því hvort verk af þessu tagi væru kannski áþekk blekklessuprófum heilsugæsluforstjórans Hermanns Rorschachs.

Um þessi próf segir Vísindavefurinn meðal annars:

Rorschach-prófið er stundum notað af klínískum sálfræðingum, geðlæknum eða öðrum klínískum sérfræðingum til að reyna að skyggnast inn í hugarheim skjólstæðinga sinna, kynnast tilfinningum þeirra og löngunum og kanna tengsl þeirra við aðra. Sérfræðingurinn gæti sagt eitthvað á þessa leið: „Fólk sér ýmiss konar hluti út úr þessum myndum. Segðu mér hvað þú sérð, hvaða hugsanir það vekur og hvað þær tákna fyrir þig.“ Sérfræðingurinn reynir svo að finna þemu í svörum fólks, til að mynda hvort þau snúist flest um ofbeldi, kvíða eða kynlíf. Einnig athugar hann hvort fólk veiti smáatriðum myndanna athygli eða horfi fremur á heildarmyndina, og hvort fólk hiki við að svara hvað því detti í hug þegar það sér vissar myndir.

Hvað varðar spurningu djasshaussins gekk hún út á að ákvarða hvort Ulysses væri hugsanlega svo torskilin að maður læsi bara úr textanum það sem maður vildi, enda illmögulegt að komast að því hvað rithöfundurinn meinti –  hún væri þannig meira einsog einhvers konar Rorschach-próf fyrir lengra komna. Þessu svaraði ég að mig minnir á þá leið að í raun væru öll listaverk þeim galdri gædd að við læsum sjálf merkingu í þau, bækur þyrftu ekki að vera torlesnar til þess, það ætti jafnt við um Bláu könnuna og Ulysses. Kannski tökum við því sem gefnu þegar við lesum Bláu könnuna að okkur sé frjálst að túlka hana að eigin vilja og færa rök fyrir því út frá því sem stendur í bókinni einmitt vegna þess að við eigum gott með að ná utan um allt sem í henni stendur – annars vegar vegna þess að hún er a.m.k. við fyrstu sýn frekar hrein og beint og hins vegar vegna þess að hún er svo stutt að jafnvel minnislausir fábjánar einsog ég gætu sennilega lagt hana alla á minnið á innan við korteri.

Rorschachprófið er hins vegar ekki hreint og beint – frekar en Ulysses – og þess vegna þarf að gera fólki ljóst fyrirfram að það eru engin rétt og röng svör. Ef blekklessan minnir þig á magðalenukökurnar sem móðir þín færði þér einu sinni í rúmið er það bara rétt – og skiptir engu þótt þær minni næsta mann á hirðfífl úr barnæsku þess, einhvern taumlausan galgopa sem hafi djöflast með hann á bakinu. Svo einfalt er það yfirleitt ekki í listum – og nánast aldrei í löngum prósaverkum. Lausnirnar eru kannski ekki algildar, og stundum eru þær mjög loðnar, en þær eru til staðar. Kaflarnir í Ulysses byggja t.d. mismikið á ólíkum þáttum Odysseifskviðu og þeir gera það á ólíkan máta – Sírenukaflinn er í einhverjum skilningi hálfgert hljóðaljóð, á meðan Kýklópurinn birtist sem æfur þjóðernissinni og Odysseifur fer aldrei að Villuhömrum þótt Ulysses noti tækifærið. Stephen Dedalus ER heldur ekki Telemakkus og Leopold Bloom ER ekki Odysseifur – þeir eru ekki heldur Hamlet og Kládíus, James Joyce og faðir hans, Guð og Jesús – þeir eru bara Dedalus og Bloom. (Dedalus er heldur ekki James Joyce en það segir okkur eitthvað um Joyce að hann hafi valið alter-egói sínu nafn frægasta völundarhússmiðs goðafræðinnar – sem smíðaði líka vængi Íkarusar, sem notandinn skemmdi með gáleysislegri túlkun á notkunarmöguleikum þeirra). En okkur er boðið að spegla aðstæður þeirra og þá sjálfa í öðrum aðstæðum og öðrum sögupersónum – að bera þetta saman. Þetta er sérstaklega relevant þegar James Joyce er annars vegar vegna þess að hann beitti parallax (snara: „sýndarhliðrun, breyting á afstöðu tiltekins hlutar til annarra hluta þegar hann er skoðaður frá mismunandi stöðum“) grimmt í bókum sínum – ekki síst með því að sýna okkur sama atburðinn oftar en einu sinni, en líka með því að raða örlögum söguhetja sinna ofan á örlög annarra söguhetja. Án ólíkra sjónarhorna verður engin sýndarhliðrun – og án hennar engin dýpt (eða a.m.k. ekki jafn mikil).

Tökum sem dæmi tvær frægar senur úr sitthvorri bókinni. Ég hef áður fjallað um Násikusenuna þegar Leopold Bloom starir á Gerty McDowell á ströndinni – senan er skrifuð út frá Gerty sem nýtur þess að láta horfa á sig, og beygir sig meira að segja fram svo Bloom sjái upp um pilsið á henni, meðan hann fróar sér og fær það um leið og það hefst flugeldasýning niðri í bæ (þetta er kaflinn sem Ulysses var upphaflega bönnuð vegna – svo komu aðrir enn verri).

Í The Portrait of the Artist as a Young Man er svo sena þar sem Stephen Dedalus ráfar niður á strönd í mikilli tilvistarkrísu. Eftir að hafa skriftað mjög hressilega um lostafullar hugsanir sínar og gjörðir og eignast þar með endurnýjað tækifæri til himnaríkisvistar í framtíðinni gerist hann um hríð ógurlega guðrækinn, af umhyggju fyrir ódauðlegri sálu sinni, enda þykist hann vita að þótt hann fari ekki til helvítis verði dvölin í hreinsunareldinum varla stutt. Svo vel gengur honum í þessari guðrækni að jesúítarnir sem reka skólann taka hann á endanum á eintal og spyrja hvort hugsast geti að hann hafi verið útvalinn af Guði til þess að gerast prestur. Í fyrstu ölvast hann af tilhugsuninni en boðið verður samt á endanum til þess að hann lætur af guðrækninni – hann áttar sig á því að þetta er ekki eðli hans, hann hefur verið að gera sér þetta upp, hann mun falla (og kannski eru prestarnir heldur ekkert merkilegir). Það er í þessu ástandi sem hann kemur niður á strönd og sér þar stúlku sem hefur vaðið út í sjó og er með pilsið upp um sig – langt upp á mjaðmir. Stephen hefur ekki svo mikið sem litið framan í kvenkyns veru vikum saman – hann hefur horft niður fyrir sig þegar hann gengur eftir götum og gætt sín að öllu leyti að láta ekki lostann ná tökum á sér. Og það er ekki beinlínis losti sem heltekur hann þarna á ströndinni, frammi fyrir þessum lærum, heldur einhver hugmynd um fegurðina. Hann horfir á hana – hlutgerir hana – í dálitla stund. Svo verður hún vör við hann:

She was alone and still, gazing out to sea; and when she felt his presence and the worship of his eyes her eyes turned to him in quiet sufferance of his gaze, without shame or wantonness. Long, long she suffered his gaze and then quietly withdrew her eyes from his and bent them towards the stream, gently stirring the water with her foot hither and thither. The first faint noise of gently moving water broke the silence, low and faint and whispering, faint as the bells of sleep; hither and thither, hither and thither; and a faint flame trembled on her cheek.

—Heavenly God! cried Stephen’s soul, in an outburst of profane joy.

Svo snýr hann sér undan og hleypur í burtu og sofnar á endanum úrvinda af ástríðu annars staðar á ströndinni. Það er á þessari stundu sem Stephen finnur köllun sína, að vera listamaður – hann bæði hafnar og fagnar lostanum, hafnar og fagnar hinu guðdómlega – „He felt above him the vast indifferent dome and the calm processes of the heavenly bodies; and the earth beneath him, the earth that had borne him, had taken him to her breast.“ Einsog að með því að játast augnaráði hans hafi stúlkan gefið honum leyfi til þess að finna til losta án þess að vera saurugur.

Senuna með Bloom og Gerty má útvíkka með því að lesa hana saman við uppljómun Dedalusar – þetta er ekki sama senan, en ólík viðbrögð þeirra, sextán ára unglingsins og fertuga karlsins (sem hafa báðir óþroskaðar langanir til þess að skrifa) við „holdsins lystisemdum“ segja eitthvað um persónuleika þeirra og aðstæður. En það er ekki heldur neitt „rétt svar“ í þeim samlestri – bara stækkun myndlíkingarinnar og nokkrar áberandi spurningar um samband hafs og erótíkur, um hold og klæðnað, sjálfsstjórn og hedónisma, list og losta og bælingu. Og þar sem að Gerty kaflinn byggir á Násikukaflanum í Odysseifskviðu er alveg spurning hvort það megi líka lesa „fuglastúlku“-kaflann í Portrettinu út frá Násiku – að mörgu leyti passar hann nefnilega betur.

Eftir að Odysseifur sleppur frá Kalypsó, sem hefur haldið hann sem elskhuga í sjö ár, lendir hann í sjávarháska og skolar loks upp á eyjunni Skerju, þar sem Feakar eiga heima. Þar ræður ríkjum Alkinóus nokkur og á hann dóttur sem heitir Násíka. Stríðsgyðjan Aþena, sem er að reyna að koma Odysseifi heim til sín í trássi við vilja Neptúnusar, fer að hitta unglingsstúlkuna Násíku og segir henni að fara niður á strönd (ekki reyndar fyrren hún er búin að skamma hana fyrir að taka aldrei til í herberginu sínu!) Þar finnur Násíka Odysseif nakinn og fer með hann til föður síns, þar sem hann rekur sögu sína frá því Trójustríðinu lauk (hér koma sögurnar um kýklópana og sírenurnar og lótusæturnar og allt hitt). Þegar hann hefur sagt sínar sögur fær Alkinóuss honum skip og hann kemst loksins heim. Násíka og Odysseifur fella vel að merkja hugi saman en Odysseifur lætur ekki freistast – hann á konu heima sem bíður og skilur hana eftir með góð ráð um það hvernig velja skuli annan mann.

Hér finnst mér Dedalus og Odysseifur að mörgu leyti líkari en Bloom og Odysseifur. Í fyrsta lagi af því Dedalus fellur ekki í freistni þótt hann felli hug til stúlkunnar en ekki síst vegna þess að þessi atburður verður í báðum tilvikum til þess að Dedalus/Odysseifur fer og segir heiminum/Feökum sögur sínar. Og það verður þeim til frelsunar. Þá má sjá Trójustríðið sem lostatímabil Dedalusar, veruna hjá Kalypsó sem guðræknitímabilið og sjávarháskann sem tilvistarkrísuna sem skolar honum upp á þessa strönd.

Það þarf kraftmeiri túlkun – meira Rorschach – til að koma Bloom hérna fyrir. Svo er auðvitað líka áhugavert að í báðum dæmum hjá Joyce er það nekt stúlkunnar sem vekur losta – en hjá Hómer er það nekt mannsins sem vekur ógn (vinkonur Násiku flýja) sem stúlkan yfirstígur. En raunar má sjá heilmikla storkun við samfélagsleg gildi – og hugrekki – í því hvernig Gerty sýnir upp um sig og því hvernig fuglastúlkan horfir á Dedalus til baka og fylgist með tignun hans án skammar eða girndar. Hvað segir þetta okkur um Hermann Rorschach? Sennilega ekki nokkurn skapaðan hlut.

TL;DR útgáfan af þessari færslu er að auðvitað sé list túlkanleg en hún sé þó tilraun til að vekja ákveðið samhengi og hugrenningartengsl frekar en bara eitthvað samhengi og einhver hugrenningartengsl. Og hún á helst ekki að hafa eina afmarkaða merkingu – merking skáldsögu verður til í samstarfi við lesandann og best er ef báðir leggja sig svolítið fram. Og Joyce lagði sig mikið fram.

Torlestur

Í gær vorum við Aino ein í kvöldmat og ég eldaði kjúkling eftir uppskrift frá vini mínum Alberti „eldar“ . Á meðan ég var að preppa og svo gera salatið þegar kjúklingurinn var kominn í ofninn horfði ég á spjall þeirra Johns Banville og Will Self – ásamt stýrlinum (hann var stýrill, frekar en spyrill, og það er eiginlega betra) Carlo Gébler um Dubliners. Self og Banville voru ekki alveg á sömu línu um gæðin í ferli Joyce – hvort hann hefði batnað eða versnað – og ég veit ekki hvort það var rétt skynjað hjá mér að Self hefði eiginlega ekki þorað að hjóla í Írann sem dæmdi eiginlega allt eftir fyrsta þriðjung Ulysses sem glatað. En þetta var fjarska gott spjall og ánægjulegt að fá afstöðu einhvers sem dýrkar Joyce en þolir ekki Ulysses.

Fyrir þá sem ekki vita þá skrifaði Joyce sem sagt fjögur prósaverk. Fyrst kom Dubliners (Í Dyflinni, í þýðingu SAM) – smásagnasafn um fólk í Dyflinni. Hann sendi hana fyrst til útgefanda 1905 en hún kom ekki út fyrren 1914, út af erjum um málfar og umfjöllunarefni, aðallega í sögunni Two Gallants, sem fjallar um tvær ólystugar týpur sem ætla að féfletta „léttúðardrós“ sem annar þeirra er í tygjum við. 

Maður gæti sagt að þetta væri fremur „venjuleg“ bók en hún mun samt að mörgu leyti byltingarkennd í frásagnartækni og umfjöllunarefni. Í fyrsta lagi er hún um mjög „venjulegt“ fólk – ekki kónga, ekki hetjur, ekki fólk sem lifir óvenju dramatískum lífum – heldur bara fólk sem er venjulegt (en samt einstakt) og gerir venjulega hluti. (Að vísu mun Joyce hafa haldið því réttilega fram einhvern tíma að það væri ekki til neitt „venjulegt fólk“ – og segja má að bækur hans sýni það). Þá færir hann sjónarhorn bókarinnar fremur frjálslega til og beitir mikið því sem heitir á ensku „free indirect speech“ – eða frjálst óbeint ávarp og lýsir sér þannig að í miðri setningu frá ósýnilegum 3. persónu höfundi birtist formálalaust hugsun sem augljóslega tilheyrir persónunni sem er verið að segja frá.

Þetta er ekki nærri því jafn torlesanlegt og maður gæti ímyndað sér. Dæmi: Hann lagði niður skófluna og þurrkaði svitann af brá sér. Mun þessu eilífa striti aldrei linna? Það sem sagt þarf ekki að setja hugsunina í gæsalappir eða skrifa „hugsaði hann“ – við föttum þetta alveg svona, þó engin greinileg skil séu sett í textann. Joyce er ekki fyrstur til að beita þessu þótt hann hafi gert mikið af því – Jane Austen gerði þetta til dæmis mikið. Joyce gengur svolítið lengra – í því að hann fer með okkur fjær persónum sínum á milli, skapar fjarlægð til þess eins að steypa okkur svo ofan í persónurnar fljótlega síðar.

Næst kemur Portrait of the Artist as a Young Man (Æskumynd listamannsins í þýðingu SAM). Hún kemur fyrst út í köflum í tímariti (1914-1915) og svo á bók ári síðar. Þetta er hálfævisöguleg skáldsaga þar sem kynnumst Stephen Dedalus, fulltrúa Joyce, og fylgjum honum í gegnum unglingsárin. Hann er miklum gáfum gæddur og þegar faðir hans, Simon Dedalus, er ekki í tómum vandræðum sækir hann jesúískan heimavistarskóla með sér talsvert ríkari drengjum. Stephen er gríðarlega trúaður en líka andsetinn af losta og smám saman flæðir þessi trúarlega og kynferðislega orka út í þrá hans að verða listamaður.

Bókin er intensífari en Dubliners og höfundurinn eftirlátssamari við tungumálið – stundum brestur á með mónólógum, ræðum frá prestum eða þjáðum hugsunum Stephens, sem eru jafnvel lengri en heilu sögurnar í Dubliners. Setningarnar eru líka lengri og óstýrilátari – lýsingarnar ítarlegri, þroskaðri en líka óhóflegri – og tungumálið fylgir þroska Stephens, orðaforðinn stækkar eftir því sem líður á bókina. Will Self held ég hafi sagt að textinn í Portrait væri þannig að hann gæti verið skrifaður af færum fagurbókmenntahöfundi í dag – þarna væru uppfylltar (og kannski að miklu leyti líka skapaðar) allar þær kröfur sem við gerum til fagurbókmenntatexta á 21. öldinni. Og bætti við eitthvað á þá leið að hjá Joyce (og hugsanlega öllum alvöru nútímahöfundum) væru sögurnar ekki UM eitthvað tiltekið, heldur væru þær sjálfur hluturinn, hið tiltekna.

Ulysses er frægasta verk Joyce. Hún byrjaði að koma út í köflum árið 1918, kom út í heild 1922 en var bönnuð mjög víða í hinum enskumælandi heimi – þar sem hún birtist fyrst (í löglegri útgáfu og óritskoðuð) 1934. Í sjálfu sér er söguþráðurinn einfaldur. Tveir menn, ungi drykkfelldi listamaðurinn og gáfumennið Stephen Dedalus og kokkkálaði gyðingurinn Leopold Bloom ráfa í sitthvoru lagi um Dyflinni frá morgni og fram á nótt. Þeir eru byggðir á grunni Telemakkusar og Odysseifs í Odysseifskviðu Hómers. Annar er föðurlaus – eða á vonlausan föður – og hinn sonarlaus – missti sinn eina son ellefu daga gamlan fyrir áratug – og við bíðum þess að þeir finni hvor annan, faðirinn og sonurinn. Heima hjá Bloom bíður Molly, eiginkona hans, elskhuga síns (og þetta veit Leopold).

Maður eyðir gjarnan mestu tíma í að ræða frásagnartæknina í þessari bók – enda er hún gersamlega trufluð, í öllum mögulegum merkingum þess orðs, og það gerast að minnsta kosti tíu byltingar áður en yfir lýkur. Þetta er svolítið einsog sami maðurinn hefði fundið upp bíboppið, tólf tóna tónlistina, pönkið og ambient techno og sett það allt á sama tvöfalda albúmið – sem á sama tíma segði magnþrungna sögu um eðli og sorgir mannsins og rammaði inn margslunginn pólitískan veruleika fullan af augljósum og duldum átökum á meðan hann undirstrikaði og spáði fyrir um firringu nútímamannsins næstu hundrað árin. Að minnsta kosti. Þetta er þannig bók.

Það slær mig fyrst núna þegar ég skrifa þetta að Dubliners, Portrait og Ulysses birtust (eða byrjuðu að birtast) á einungis fjórum árum. Dubliners kemur öll í einu 1914 og fyrstu kaflar Ulysses byrja að birtast 1918. En nærri þrír áratugir líða frá því það á fyrst að gefa Dubliners út og þar til Ulysses berst frjáls um heimsins höf (og auðvitað viðeigandi að Ulysses sé týndur í stríði og á hafi í nærri tvo áratugi, einsog nafni sinn).

Finnegan’s Wake hef ég ekki lesið. Hún kom út 1939, tveimur árum áður en Joyce dó. Það tók hann 17 ár að skrifa hana og hún ku innihalda fjöldann allan af ólíkum tungumálum, auk tilbúinna orða og endalausu upplýsingaflæði – hér er Joyce farinn að innbyrða svo mikið af upplýsingum að hann ræður ekki við að lesa þær sjálfur, er með fólk í vinnu við að lesa bækur og endursegja sér mikilvægu hlutanna (ég hef séð svona þjónustur auglýstar á YouTube í dag – hræðileg hugmynd). Tungumálið á henni er mjög torskilið og hún þykir miklu erfiðari viðfangs á allan hátt en Ulysses. Hún gengur líka í hring – fyrsta setningin í henni byrjar í miðju kafi („riverrun, past Eve and Adam’s, from swerve of short to bend of bay, brings us by a commodious vicus of recirculation back to Howth Castle and Environs“) og sú síðasta er augljóslega fyrri hlutinn af sömu setningu („A way a lone a last a loved a long the“). Það er vel að merkja á dagskránni að lesa hana. Nánar um það síðar!

Nema hvað. Banville sem sagt hélt því eiginlega fram að Joyce hefði farið versnandi sem höfundur og raunverulegasta snilldarverk hans væri Dubliners – hann er alls ekki einn um að finnast það, vel að merkja, þótt hann bæðist ítrekað afsökunar á þessari heresíu – og sagði að Joyce hefði misst tökin á einhverju mennsku eftir því sem leið á ferilinn. Self maldaði meira í móinn en hann mótmælti, sem er honum ólíkt – mjög þráttgjarn maður.

Svo í gærkvöldi var ég staddur í samdrykkju (gr. Συμπόσιον) með tryggum lesanda þessa bloggs sem fór að spyrja mig út í bókina. Ég man ekki hvernig hann orðaði það en hann vildi vita hvort Ulysses væri eitthvað meira en vísanir og vesen – hvort fróunin væri svipaðri því að hlusta á stórfenglega tónsmíð eða leysa erfiða krossgátu. Sem er í sjálfu sér svipuð spurning og Banville hefur spurt sig fyrir fordæmingu og svarað alveg öfugt við mig – sem finnst síðustu tveir þriðjungarnir á Ulysses vera þeir „mennskustu“. Þótt fyrsta senan með Bloom um morguninn í fjórða kafla sé raunar með því fallegasta sem ég hef lesið þá erum við enn svo langt frá honum. Þegar við erum farin að upplifa þrár hans í Nausicaa kaflanum eða komin ofan í óraplágur hans í hinu endalausa karnivali í kaflanum Circe – þvílíkt kaþarsis! – og fylgjumst svo með honum skríða aftur upp í hjá Molly sinni í Íþöku – þá erum við, einsog einhver orðaði það, farin að þekkja Bloom betur en við þekkjum nokkurn annan, að meðtöldum okkur sjálfum. Og ef það er ekki mennskt, menscht, human þá er engin mennska til.

En svo er þetta auðvitað persónulegt og spurning um einhvern bakgrunn – hvað hefur maður lesið, hvað er maður vanur að lesa, hvers krefst maður af lestrarupplifuninni og hvað er dílbreiker. Það er sannarlega ýmislegt sem flækir lestur Ulysses og stundum er þetta einsog að ráfa um í myrkum helli án vasaljóss (en ef maður vill er nóg af vasaljósum til). Fyrir sumum er djass eða pönk líka bara hávaði á meðan fyrir öðrum eru þau æðst lista, fegurst í ómstríðleika sínum og færust um að tjá angist og unað hins mannlega ástands, og langdýpst í sinni empatíu (þess má geta að áðurnefndur tryggur lesandi er mikill djasshaus en þolir ekki pönk).

Ég hef tvisvar lesið Dubliners. Fyrst fyrir 25 árum og svo aftur um daginn, beint í kjölfarið á Ulysses – og ég rek mig á að ég hef eiginlega farið of áreynslulaust í gegnum hana og þar með gleymt sögunum óþarflega hratt. Ég bara svona sporðrenndi henni án þess að finna af henni bragðið almennilega. Sem er auðvitað alls ekki nógu gott – og ég ætla að lesa hana aftur mjög fljótlega til þess að bæta upp fyrir þetta.

Hið samhengislega líf

Áðan heyrði ég ungling æpa á vin sinn úti á götu að þetta (hvað sem „þetta“ nú var) væri það „samhengislegasta sem [hann hefði] á ævinni upplifað.“ Og það var á honum að heyra að nú væri komið nóg – hann gæti bara ekki meira samhengi.

Svona líður mér oft. Einsog dagana skorti fleiri tilviljanir. Þetta var augnabliki eftir að ég gekk framhjá hópi leikskólastúlkna og heyrði eina þeirra hvísla að vinkonu sinni „hann er mjög suspicious“.

Ég var að sönnu með sólgleraugu og hatt og þannig fólk er jafnan mjög suspicious. En kannski var hún ekki að tala um mig. Það er kannski óþarfa sjálfhverfa – kannski mér hafi liðið eitthvað suspicious.

Sjálfur tala ég oft um að hitt eða þetta sé „söspekt“ og meina það saman, en segi þetta vegna þess að mér finnst þessi -cious ending falla illa að máli mínu.

Á laugardaginn var ég á Aldrei fór ég suður þegar til mín kom ónefnd íslensk stórstjarna (það var krökkt af þeim á svæðinu, eðli málsins samkvæmt) til þess að þakka mér fyrir Náttúrulögmálin. Viðkomandi stjarna lagði meira að segja upp mikla stílgreiningu og hafði augljóslega velt því fyrir sér hvað hún ætlaði að segja – þetta var ekki úr lausu lofti gripið, heldur sýndi skilning og innsæi, og var afar höfðinglega mælt. Eftir dálítil ræðuhöld, sem ég þakkaði fyrir með kurteislegum hneigingum – við stórstjarnan erum málkunnug en þekkjumst ekki beinlínis, pissuðum einu sinni í kross að sumarnóttu fyrir margt löngu síðan og höfum aldrei orðið nánari en sem því nam – hætti stjarnan að tala í miðri setningu og sagði við félaga sína, sem stóðu þarna líka, að hún þyrfti að fara. „Eiríkur er svo órólegur.“ Ég hváði. „Það er svo óróleg orka í þér“, hélt stjarnan áfram. Ég baðst velvirðingar, kannaðist við þetta – var eitthvað vandræðalegur – og sagði, einsog ég geri oft, að það væri ekki tilviljun að ég ynni við að fá ofsjónir, lokaður einn inni í herbergi, stundum dögum, jafnvel vikum (!), saman, ég kynni ekkert að vera innanum fólk og reyndi að gera ekki of mikið af því. „Þú ert ekkert innanum fólk“, sagði stjarnan þá. Ég leit í kringum mig. Ég veit ekki hvað það voru mörg þúsund manns á svæðinu. „Ha?“ sagði ég (við vorum samt ekki í hávaðanum, ég heyrði ágætlega, við stóðum við barinn frammi, en samt umkringd fólk). „Þú ert ekki…“, sagði stjarnan og hikaði í augnablik. „… innanum fólk.“ Ég hló eitthvað, einsog til þess að fullvissa mig (okkur) um að hún væri að gera að gamni sínu, en þá endurtók hún þetta bara. Og sneri sér svo í burtu og fór.

***

Ég kláraði Ulysses einhvern tíma um daginn. Og get ekki beðið eftir að lesa hana aftur. Ætla þá að taka SAM-þýðinguna. Er að sinna alls konar í millitíðinni – er búinn með Odysseifskviðu í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar (hef gluggað með í Chapman þýðinguna frá 17. öld), Í Dyflinni í þýðingu SAM og The Most Dangerous Book: The Battle for James Joyce’s Ulysses eftir Kevin Birmingham. Á nátthillunni bíða hin fræga ævisaga Richards Ellmans, A Portrait of the Artist as a Young Man (sem ég hef lesið en man illa) og Finnegan’s Wake – sem verður varla lesin fyrren eftir að ég er búinn að lesa Ulysses a.m.k. einu sinni í viðbót. Svo er ég búinn að horfa á þrjár Hamlet-kvikmyndanir – þá með Laurence Olivier frá 1948, þá með Ethan Hawke frá 2000 (sem gerist í Denmark Corporation) og þá með Smoktunovsky í leikstjórn Grigorís Kozintsev frá 1964. Ég ætla líka að horfa á þá með David Tennant frá 2009 og Hamlet liikemaailmassa (Hamlet Goes Business) með Pirrka Pekka Petelius í leikstjórn Akis Kaurismäki frá 1987. En sú gerist líka í viðskiptaheiminum einsog sú með Ethan Hawke – en ég held að þar sé ekki stuðst við texta Shakespeares einsog í hinum (sú rússneska notar þýðingu Borisar Pasternak – en undirtextinn (!) var frá Shakespeare sjálfum). En þessi verk hanga einsog frægt er svolítið saman. Þetta eru feðradrömu og ástardrömu. Hvað mega konur gera í fjarveru þeirra manna sem þær hafa heitist (fjarveran er ólík – dauði í Hamlet, týndur í stríði í Odysseifskviðu, og erótísk fjarvera og hjónabandsdoði í Ulysses). Og hvað ber sonum þeirra að gera í því til að vernda heiður feðra sinna (og að einhverju leyti mæðra líka)?

Ulysses er skrifaður ofan á Odysseifskviðu en með Hamlet-sprettum og vísunum. Einn kaflinn, Skylla og Karibdís, er bókmenntafræðilegar þrætur gáfumannasöfnuðar um feður og syni í Hamlet – þar sem kenningar Stephens Dedalusar (sem er Telemakkus, en líka Joyce sjálfur, og líka Hamlet, sem er líka Hamnet sonur Shakespeares, líka Shakespeare, sem er líka draugurinn og þar með líka afi sinn – ef eitthvað er að marka Stephen Dedalus – og eins myndi ég vilja segja að Joyce sé ekki bara Dedalus hinn ungi heldur líka Bloom hinn gamli og maðurinn í Macintosh frakkanum, að lágmarki) eru í aðahlutverki.

En Hamlet og Odysseifskviða tengjast líka sjálfstætt – ekki síst í gegnum Laertes, manninn sem drepur Hamlet, son Pólóníusar, því nafnið „Laertes“ fékk Shakespeare beint frá Hómer: Laertes er faðir Odysseifs, sem hefur dregið sig í hlé á býli sitt til að syrgja Odysseif, en vígbýst og berst með syninum endurkomna og sonarsyni fyrir rest.

Ég hef hins vegar ekkert séð út úr þessari tengingu – nöfnin í Hamlet eru sannarlega ekki mjög dönsk og ekki einu sinni með svipaðan uppruna, sum germönsk og önnur latnesk, og kannski eru þau bara gripin af handahófi (nema auðvitað Hamlet, sem er bæði Amlóði og Hamnet Shakespeare).

Hamlet er annars líka svolítið einsog hugartilraun um hvað hefði gerst ef Odysseifur hefði bara drepist (kannski í átökunum þegar hann kom heim) og Penelópa hefði gifst einhverjum biðlanna (Evrýmakkus er líkastur Kládíusi). Og Telemakkus hefði þá fyrst lufsast heim frá Spörtu án þess að vera með neitt plan (frekar en fyrri daginn). Það er talsverður væfilgangur – amlóðagangur, hamletska – í Telemakkusi.

En ef það er væfilgangur í Stephen Dedalus birtist hann á annan hátt. Í Ulysses er það faðirinn sem er passífur og fullur efasemda en sonurinn sem er fljótur að grípa til vopna – sem í tilfelli Dedalusar eru ógurlegar gáfur hans (og ef maður tekur honum sem staðgengli Joyce, þá á hann það líka sameiginlegt með Odysseifi, föðurnum, að vera mjög sjálfhælinn þegar hann segir „hlutlausar“ sögur af sjálfum sér; en alltaf þegar Odysseifur dulbýst nýtir hann tækifærið til að fara að tala um hvað Odysseifur sé mikill bógur).

Sonurinn í Ulysses er líka ofsalegasti drykkjurúturinn í bókinni og uppáferðir hans með mellunum í Nighttown eru kannski spegluð útgáfa af svallveislum biðlanna með ambáttunum í húsakynnum Odysseifs og Penelópu. Því ekki hagar Telemakkus sér svona og ekki einu sinni Hamlet, þótt hann fari óvarlega með Ófelíu sína – frægasti drykkurinn í leikritinu er svo auðvitað drykkurinn sem hann drekkur ekki. Það er altso nóg að hugsa um.

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Ég lá andvaka í nótt og fór að velta fyrir mér eðli paródíunnar – upp úr því að hafa annars vegar rifjað upp Silvíu Nótt með krökkunum og hins vegar verandi búinn með (þaðsemégheldaðséu) paródískustu kaflar Ulysses , Cyclops, Nausicaa og Oxen of the Sun.

Ég geri ráð fyrir að flestir þekki til Silvíu en ég skal fara stuttlega yfir þessa kafla.

Cyclops gerist á barnum Barney Kiernan’s. Sögumaður er nafnleysingi sem talar í fyrstu persónu („I“ verður „eye“ – auga kýklópsins) og kjarninn í kaflanum eru samræður manna á bar, ekki síst Leopolds Bloom, aðalsöguhetju Ulysses, og manns sem er kallaður „the citizen“ og er síns tíma írskur trumpisti – gyðingahatari og þjóðremba. Umræðuefnið er Írlands gagn og nauðsynjar – írsk menning, írskar íþróttir, innflytjendur (og hverjir séu innflytjendur) und so weiter. Fyrstupersónufrásögnin er síðan brotin upp af alls kyns milliköflum í ólíkum og afar ýktum stílum – t.d. er the citizen fyrst lýst svona:

The figure seated on a large boulder at the foot of a round tower was that of a broadshouldered deepchested stronglimbed frankeyed redhaired freelyfreckled shaggybearded widemouthed largenosed longheaded deepvoiced barekneed brawnyhanded hairylegged ruddyfaced sinewyarmed hero. From shoulder to shoulder he measured several ells and his rocklike mountainous knees were covered, as was likewise the rest of his body wherever visible, with a strong growth of tawny prickly hair in hue and toughness similar to the mountain gorse (Ulex Europeus)

Þetta heldur reyndar áfram lengi. Alls eru þessi frammígrip í kaflanum ríflega þrjátíu talsins og vel flest ef ekki öll í einhvers konar hetjusagnastíl.

Næsti kafli, Nausicaa, er sjálfsfróunarkaflinn frægi. Þá erum við stödd á Sandymount Strand og sagan er aftur í þriðju persónu. Fyrri hluta kaflans sjáum við atburði frá sjónarhorni ungrar stúlku, Gerty MacDowell, sem sér Leopold Bloom álengdar og gerir sér um hann ýmsar rómantískar hugmyndir. Kaflinn nær hámarki sínu þegar hún hefur beygt sig fram svo hann sjái vel upp um pilsið á henni meðan hann fróar sér og fær fullnægingu á sama tíma og flugeldasýning hefst niðri í bæ. Eftir fullnægingu förum við aftur inn í höfuðið á Bloom.

Allan tímann sem við erum í höfðinu á Gerty MacDowell er stíll bókarinnar paródía af ástarsögum 19. aldar – hýperrómantískur og afar upptekinn af allri ásýnd hluta. Ef the citizen minnir nútímamann á æstan trumpista minnir Gerty mann á áhrifavald á instagram. Stíllinn er tilgerðarlegur og ýtir jafnvel að einhverju leyti undir þá hugmynd að maður sé alls ekki í höfðinu á Gerty sjálfri, heldur sé þetta fantasía Blooms um hugsanir Gertys. Það þarf ekki að túlka það þannig – það er líka áhugaverður lestur að hún sé sitt eigið viðfang, hin frjálsa unga kona í kaþólsku landi, og þar með lýsing á því hvernig maður kúgar aldrei ímyndunaraflið – en mér finnst sannarlega opið fyrir hitt líka.

Loks er það Oxen of the Sun, sem mér skilst að sé almennt álitinn erfiðasti kafli bókarinnar. Sá kafli gerist á Holles Street fæðingarspítalanum þar sem hópur fullra karlmanna situr frammi á einhvers konar biðstofu og bíður þess að frú Purefoy eignist barn sitt – en hún hefur verið í hríðum í þrjá sólarhringa. Kaflinn byrjar sannarlega ekki mjög árennilega – byrjar á heiðnum þulum og fer svo beint út í langan texta sem er sennilega fyrst skrifaður á latínu og svo mjög-hráþýddur yfir á ensku, án beyginga. Svo tekur hver stíllinn við á fætum öðrum – engilsaxneskur, mið-enskur, artúrskur, miltonskur, swiftískur, dickenskur og svo framvegis – og ég held það sé rétt að við hvern stíl færumst við nær nútíma Joyce.

Einsog í frammígripunum Cyclops ræður stíllinn líka gjarnan því hvað er sagt – svona er til dæmis sagt frá því að Bloom hafi fáeinum dögum áður komið á spítalann til þess að láta líta á býflugnastungu:

And the traveller Leopold was couth to him sithen it had happed that they had had ado each with other in the house of misericord where this learningknight lay by cause the traveller Leopold came there to be healed for he was sore wounded in his breast by a spear wherewith a horrible and dreadful dragon was smitten him for which he did do make a salve of volatile salt and chrism as much as he might suffice.

Þetta mun vera í stíl ferðasagna frá miðöldum. Allar bera þessar paródíur merki djúprar ástríðu Joyce fyrir tungumálinu – en það er áhugavert að stundum er gengið út frá því að paródíurnar séu háð og stundum að þær séu tignun, án þess að ég sjái á því nokkurn mun annan en að sumt þykir fínt og sumt ekki (og kannski deildi Joyce þeim smekk síns tíma – en þess sér ekki endilega stað í því hvernig hann skrifar).

***

Nú man ég auðvitað ekki hvað það var sem hélt fyrir mér vöku – það var einhver algerlega snilldarlegur samanburður við paródíur nútímans. Það eina sem ég man var að ég hugsaði talsvert um stílinn á sögu Gerty. Þegar ég las hann þótti mér ekki endilega víst að Joyce væri að paródísera hann, frekar en bara sökkva tönnunum í hann – einsog hann gerir svo víða í bókinni, sem er auðvitað í og með ástaróður til enskrar tungu. Textinn er heldur ekkert væmnari eða „hallærislegri“ endilega en margt af því sem þykir gott og gilt í fagurbókmenntunum 21. aldarinnar. Og þegar ég las síðan ritgerðina sem fylgir kaflanum í bókinni minni, eftir Vicki Mahaffay, gladdi það mig að sjá að hún tók í sama streng og sagði raunar kominn tími til að hvíla þann lestur að hér væri Joyce að hæðast (frekar en annars staðar) og benti á rætur orðsins paródía, sem er „para“ (það er að segja „með“ eða „til hliðar við“) og oide, sem er sama orð og óður. Að paródísera er þannig í grunninn „að syngja með“ og þarf ekki að fela í sér háð (hvort það sé svo hægt að herma eftir einhverjum algerlega sviðalaust er önnur spurning).

Silvía Nótt kom síðan sem sagt til tals við kvöldverðarborðið í gærkvöldi og við horfðum á Til hamingju, Ísland og það sló mig að hún höfðaði á sínum tíma auðvitað í senn til fólks (barna, ungra stúlkna) a.m.k. hálf óírónískt – sem bara kúl gella – og til fullorðinna gagnkynhneigðra karlmanna sem óírónískt kyntákn – en fyrst og fremst sem einhvers konar gagnrýni á allt saman. Og auðvitað er paródía líka einhvers konar tignun, alveg sama hvað maður hæðist. Sennilega er meira að segja auðveldara að svipta paródíuna háðinu en tignuninni.

Og nú, hvað 15 árum síðar eða svo, má segja að þessi paródía hafi snúið aftur sem einlæg tignun. Ef að LXS, Æði, Prettiboitjokkó og allt áhrifavaldagengið í Instagram vikunnar hefði stigið fram fyrir 15 árum hefðum við áreiðanlega flest skilið það sem parodíu, einsog við skildum Silvíu Nótt, Johnny Naz, Ali G eða Tískubloggarann sem paródíu. En við gerum það ekki – eða, a.m.k. ekki sem háð, en kannski sem samsöng, eftirhermu, stælingu? Það er líka áhugavert að halda því til haga að ef Silvía notaði húmor til þess að afhjúpa og svíða, draga línu í sandinn og gagnrýna, þá nota áhrifavaldarnir húmor til þess að breiða yfir ákveðið innihaldsleysi. (Öll notuðu þau svo húmor sennilega fyrst og fremst til þess að skemmta, enda er það ekki ómerkilegasta hlutverk húmors).

Annað sem sló mig er að þessi tegund paródíu – sú grimma, sú sem bítur – sé tja … segjum að minnsta kosti í talsverðri lægð. Maður þarf að vera syndugur á allt annan hátt – það er ekki nóg að vera yfirborðskenndur eða vitlaus eða hégómagjarn eða efnishyggjusinnaður til að eiga skilið grimma paródíu (þar sem maður þekkist), heldur þarf almenningi – sem er uppistaðan í „góða fólkinu“ – líka að finnast viðkomandi vondur. Það verður að vera hafið yfir vafa að hann eigi það skilið.

Kannski erum við líka komin ofan af heimspekilega sviðinu um hýpóþetískar almennar syndir og niður í eitthvað meira konkret. Og persónulegra. Við segjum kannski ekki lengur að hégómi, hroki, öfund, bræði og ágirnd séu ámælisverðir eiginleikar – heldur að Siggi sé fáviti. Sennilega er það ástæðan fyrir því að PBT er í spilun en ekki Megas.

En þá er ég kominn aðeins út fyrir þessa paródíupælingu. Fyrst og fremst finnst mér í raun hressandi að hugsa um paródíuna sem eitthvað annað en háð – eða í það minnsta að háðið sé aukahlutverk við hliðina á samsönginum. Og svo spurningin: er hægt að búa til paródíu algerlega án þess að hæðast að frummyndinni; og er hægt að búa til paródíu algerlega án þess að tigna frummyndina?