Hið samhengislega líf

Áðan heyrði ég ungling æpa á vin sinn úti á götu að þetta (hvað sem „þetta“ nú var) væri það „samhengislegasta sem [hann hefði] á ævinni upplifað.“ Og það var á honum að heyra að nú væri komið nóg – hann gæti bara ekki meira samhengi. Svona líður mér oft. Einsog dagana skorti fleiri tilviljanir. Þetta var augnabliki eftir að ég gekk framhjá hópi leikskólastúlkna og heyrði eina þeirra hvísla að vinkonu sinni „hann er mjög suspicious“. Ég var að sönnu með sólgleraugu og hatt og þannig fólk er jafnan mjög suspicious. En kannski var hún ekki að tala um mig. Það er kannski óþarfa sjálfhverfa – kannski mér hafi liðið eitthvað suspicious. Sjálfur tala ég oft um að hitt eða þetta sé „söspekt“ og meina það saman, en segi þetta vegna þess að mér finnst þessi -cious ending falla illa að máli mínu. Á laugardaginn var ég á Aldrei fór ég suður þegar til mín kom ónefnd íslensk stórstjarna (það var krökkt af þeim á svæðinu, eðli málsins samkvæmt) til þess að þakka mér fyrir Náttúrulögmálin. Viðkomandi stjarna lagði meira að segja upp mikla stílgreiningu og hafði augljóslega velt því fyrir sér hvað hún ætlaði að segja – þetta var ekki úr lausu lofti gripið, heldur sýndi skilning og innsæi, og var afar höfðinglega mælt. Eftir dálítil ræðuhöld, sem ég þakkaði fyrir með kurteislegum hneigingum – við stórstjarnan erum málkunnug en þekkjumst ekki beinlínis, pissuðum einu sinni í kross að sumarnóttu fyrir margt löngu síðan og höfum aldrei orðið nánari en sem því nam – hætti stjarnan að tala í miðri setningu og sagði við félaga sína, sem stóðu þarna líka, að hún þyrfti að fara. „Eiríkur er svo órólegur.“ Ég hváði. „Það er svo óróleg orka í þér“, hélt stjarnan áfram. Ég baðst velvirðingar, kannaðist við þetta – var eitthvað vandræðalegur – og sagði, einsog ég geri oft, að það væri ekki tilviljun að ég ynni við að fá ofsjónir, lokaður einn inni í herbergi, stundum dögum, jafnvel vikum (!), saman, ég kynni ekkert að vera innanum fólk og reyndi að gera ekki of mikið af því. „Þú ert ekkert innanum fólk“, sagði stjarnan þá. Ég leit í kringum mig. Ég veit ekki hvað það voru mörg þúsund manns á svæðinu. „Ha?“ sagði ég (við vorum samt ekki í hávaðanum, ég heyrði ágætlega, við stóðum við barinn frammi, en samt umkringd fólk). „Þú ert ekki…“, sagði stjarnan og hikaði í augnablik. „… innanum fólk.“ Ég hló eitthvað, einsog til þess að fullvissa mig (okkur) um að hún væri að gera að gamni sínu, en þá endurtók hún þetta bara. Og sneri sér svo í burtu og fór. *** Ég kláraði Ulysses einhvern tíma um daginn. Og get ekki beðið eftir að lesa hana aftur. Ætla þá að taka SAM-þýðinguna. Er að sinna alls konar í millitíðinni – er búinn með Odysseifskviðu í þýðingu Sveinbjarnar Egilssonar (hef gluggað með í Chapman þýðinguna frá 17. öld), Í Dyflinni í þýðingu SAM og The Most Dangerous Book: The Battle for James Joyce’s Ulysses eftir Kevin Birmingham. Á nátthillunni bíða hin fræga ævisaga Richards Ellmans, A Portrait of the Artist as a Young Man (sem ég hef lesið en man illa) og Finnegan’s Wake – sem verður varla lesin fyrren eftir að ég er búinn að lesa Ulysses a.m.k. einu sinni í viðbót. Svo er ég búinn að horfa á þrjár Hamlet-kvikmyndanir – þá með Laurence Olivier frá 1948, þá með Ethan Hawke frá 2000 (sem gerist í Denmark Corporation) og þá með Smoktunovsky í leikstjórn Grigorís Kozintsev frá 1964. Ég ætla líka að horfa á þá með David Tennant frá 2009 og Hamlet liikemaailmassa (Hamlet Goes Business) með Pirrka Pekka Petelius í leikstjórn Akis Kaurismäki frá 1987. En sú gerist líka í viðskiptaheiminum einsog sú með Ethan Hawke – en ég held að þar sé ekki stuðst við texta Shakespeares einsog í hinum (sú rússneska notar þýðingu Borisar Pasternak – en undirtextinn (!) var frá Shakespeare sjálfum). En þessi verk hanga einsog frægt er svolítið saman. Þetta eru feðradrömu og ástardrömu. Hvað mega konur gera í fjarveru þeirra manna sem þær hafa heitist (fjarveran er ólík – dauði í Hamlet, týndur í stríði í Odysseifskviðu, og erótísk fjarvera og hjónabandsdoði í Ulysses). Og hvað ber sonum þeirra að gera í því til að vernda heiður feðra sinna (og að einhverju leyti mæðra líka)? Ulysses er skrifaður ofan á Odysseifskviðu en með Hamlet-sprettum og vísunum. Einn kaflinn, Skylla og Karibdís, er bókmenntafræðilegar þrætur gáfumannasöfnuðar um feður og syni í Hamlet – þar sem kenningar Stephens Dedalusar (sem er Telemakkus, en líka Joyce sjálfur, og líka Hamlet, sem er líka Hamnet sonur Shakespeares, líka Shakespeare, sem er líka draugurinn og þar með líka afi sinn – ef eitthvað er að marka Stephen Dedalus – og eins myndi ég vilja segja að Joyce sé ekki bara Dedalus hinn ungi heldur líka Bloom hinn gamli og maðurinn í Macintosh frakkanum, að lágmarki) eru í aðahlutverki. En Hamlet og Odysseifskviða tengjast líka sjálfstætt – ekki síst í gegnum Laertes, manninn sem drepur Hamlet, son Pólóníusar, því nafnið „Laertes“ fékk Shakespeare beint frá Hómer: Laertes er faðir Odysseifs, sem hefur dregið sig í hlé á býli sitt til að syrgja Odysseif, en vígbýst og berst með syninum endurkomna og sonarsyni fyrir rest. Ég hef hins vegar ekkert séð út úr þessari tengingu – nöfnin í Hamlet eru sannarlega ekki mjög dönsk og ekki einu sinni með svipaðan uppruna, sum germönsk og önnur latnesk, og kannski eru þau bara gripin af handahófi (nema auðvitað Hamlet, sem er bæði Amlóði og Hamnet Shakespeare). Hamlet er annars líka svolítið einsog hugartilraun um hvað hefði gerst ef Odysseifur hefði bara drepist (kannski í átökunum þegar hann kom heim) og Penelópa hefði gifst einhverjum biðlanna (Evrýmakkus er líkastur Kládíusi). Og Telemakkus hefði þá fyrst lufsast heim frá Spörtu án þess að vera með neitt plan (frekar en fyrri daginn). Það er talsverður væfilgangur – amlóðagangur, hamletska – í Telemakkusi. En ef það er væfilgangur í Stephen Dedalus birtist hann á annan hátt. Í Ulysses er það faðirinn sem er passífur og fullur efasemda en sonurinn sem er fljótur að grípa til vopna – sem í tilfelli Dedalusar eru ógurlegar gáfur hans (og ef maður tekur honum sem staðgengli Joyce, þá á hann það líka sameiginlegt með Odysseifi, föðurnum, að vera mjög sjálfhælinn þegar hann segir „hlutlausar“ sögur af sjálfum sér; en alltaf þegar Odysseifur dulbýst nýtir hann tækifærið til að fara að tala um hvað Odysseifur sé mikill bógur). Sonurinn í Ulysses er líka ofsalegasti drykkjurúturinn í bókinni og uppáferðir hans með mellunum í Nighttown eru kannski spegluð útgáfa af svallveislum biðlanna með ambáttunum í húsakynnum Odysseifs og Penelópu. Því ekki hagar Telemakkus sér svona og ekki einu sinni Hamlet, þótt hann fari óvarlega með Ófelíu sína – frægasti drykkurinn í leikritinu er svo auðvitað drykkurinn sem hann drekkur ekki. Það er altso nóg að hugsa um.