Sjálflærðir menn og pólitískar skáldsögur

An illiterate, underbred book it seems to me; the book of a self taught working man, and we all know how distressing they are, how egotistic, insistent, raw, striking and ultimately nauseating. Virginia Woolf – dagbókarskrif um Ulysses Ætli séu ekki komnar tvær vikur frá því ég lauk við Ulysses (ekki það maður ljúki nokkurn tíma við Ulysses! Þvílík tilhugsun!) Og síðan þá er ég búinn að endurlesa þrjá kafla (af átján) og ýmislegt í kringum hana. Ég er enn hugsi og verð það sennilega bara; það er líka margt vitlausara hægt að gera við tíma sinn en að vera hugsi. Sem lestrarupplifun er hún einstök. Og einsog gerist um svo margt þá finnst mér hún ekki nærri því jafn torlesin nú þegar ég er búinn með hana og mér fannst þegar ég var að byrja að lesa hana. Að hluta til er það vegna þess að hún kennir manni smám saman að lesa sig – maður fær á endanum tilfinningu fyrir því hvenær er allt í lagi að sleppa takinu (maður þarf ekki að skilja allt) og hvenær maður þarf að grufla og endurlesa ef maður ætlar ekki að týnast. Að hluta til er það vegna þess að sumir kaflarnir eru margfalt skýrari í endurlestri. Og að hluta til er það vegna þess að maður (a.m.k. ég) hefur tilhneigingu til þess að gera lítið úr því sem maður lærir – finnast það sem maður veit, kann og skilur sjálfsagt, næstum einsog maður hafi alltaf kunnað það. Hin hliðin á því er óþolinmæði gagnvart því að aðrir viti/kunni/skilji ekki eitthvað sem manni sjálfum finnst sjálfsagt. Algengasta birtingarmynd þess er sjálfsagt pirringur yfir því að ungt fólk hafi ekki mikinn orðaforða eða sterka tilfinningu fyrir málfræði – það ímynda sér allir að þeir hafi verið miklu fróðari og klárari og sjálfstæðari þegar þeir voru ungir en þeir raunverulega voru. Ég rakst á þetta komment Virginiu Woolf einhvers staðar. Hún var ekki búin með bókina þegar hún skrifaði þetta og átti eftir að slá í og úr mörgum sinnum áður en yfir lauk – kallaði hana líka snilldarverk – einhver gerði því skóna að hún hefði verið í uppnámi því Joyce væri byrjaður að gera eitthvað sem hana dreymdi um að gera sjálf og hugsanlega betur en hún taldi sig sjálf geta gert. Og í sjálfu sér fannst mér ummælin um Ulysses ekki nærri því jafn svakaleg og afstaða hennar til sjálflærðra verkamanna. Ég dýrka Woolf og áttaði mig alveg á því að hún væri dálítið snobb – en þetta er nú samt svolítið yfirdrifið. Ekki það ég ætli að taka upp þann vana að dæma fólk (eða höfundarverk þeirra) út frá stökum setningum úr dagbókum þeirra. *** Fyrir helgi horfði ég á viðtal við Fríðu Ísberg á hinni rómuðu YouTube-rás Louisiana safnsins í Danmörku. Fríða er einn af mínum eftirlætis höfundum, svo það sé sagt. Í þessu viðtali sagði Fríða meðal annars eitthvað á þá leið margir forréttindahöfundar í okkar heimshluta hafi yfirgefið pólitíska debattinn – að miðaldra karlar hafi flúið inn í sögulegar skáldsögur og miðaldra konur flúið inn í frásagnir af sjálfinu eða fjölskyldunni, og að pólitíska umræðan eigi sér stað annars staðar, einna helst meðal höfunda sem tilheyra jaðarhópum, og lítið sé rætt í bókmenntum um það hvernig við viljum stýra þjóðfélaginu sem slíku. Ég staldraði við þetta. Sennilega vegna þess að ég er hvorki viss um að þetta sé rétt, né viss um að þetta sé alveg rangt heldur. Hún lýsir einhverri hreyfingu sem mér finnst kunnugleg en ber samt ekki alveg kennsl og get ekki sett fingurinn á. Það er ekki nýtt að ég staldri við hugtakið „pólitísk skáldsaga“ og þótt mig minni stundum að ég hafi einu sinni verið með henni í liði og jafnvel kallað eftir pólitískari bókmenntum þá hefur það líklega aldrei verið 100% einlægt ákall. Samt eru langflestar bækurnar mínar pólitískar. Það er bara þetta með fyrirvarana. Markmið slagorðasmiðs eða aktífista er að skapa vissu, en markmið bókmenntahöfundar er að rækta efa – eða í það minnsta að standa með honum, lifa í og sjá heiminn einsog hann er, skítugan og án vissu eða þeirra hreinu lína sem baráttufólk vill draga í kringum sína snyrtilegu málstaði. Aktífisti sem gefur færi á sér eða grefur undan eigin hugmyndum verður ekki langlífur – en það er akkúrat þar sem listin starfar, þar þjónar hún sérstökum tilgangi sem er ekki hægt að sinna neins staðar annars staðar, a.m.k. ekki með sama hætti. Skáldsaga sem leyfir sér einfaldlega að „hafa málstað“ ætti sennilega – einsog Milan Kundera orðaði það einhvern tíma – að hafa verið ritgerð. Ekki vegna þess að það sé eitthvað að ritgerðum – eða einu sinni slagorðum – heldur vegna þess að það er form sem hentar innihaldinu. Skáldsaga er einráð um sannleika sinn og verði einhver málstaður markmið hennar er hún eðli síns vegna alltaf á jaðri fasismans. En auðvitað eru fæstar „pólitískar skáldsögur“ svo predikandi. Ég hef ekki lesið margar pólitískar skáldsögur sem kunnu ekki að gefa perspektíf á sig, gefa færi á sér – þótt dæmi séu um bæði ágætis þannig bækur (1984) og síðri (Atlas Shrugged). Ég held að vel flestir höfundar sem leggi fyrir sig að skrifa skáldsögur með pólitískum þemum séu meðvitaðir um að reyna að forðast predikanirnar (og hafi jafnvel oft orð á því) – og það jafnt þótt þeir vilji bæta heiminn. Árangurinn er comme ci comme ca, einsog gengur. Það sem einum finnst óþolandi predikunartónn hreyfir ekki nálina á gremjumæli einhvers annars. Svo finnst okkur mjög einsog frægt er gaman að fá okkar eigin lífsviðhorf staðfest í skáldskap – það er hluti af þeirri huggun sem skáldskapur veitir (en auðvitað leita ekki allir huggunar í skáldskap, sumir þvert á móti) – og stundum tökum við ekki eftir fagurfræðilegum takmörkunum þess sem fróar velsæmi okkar eða hneykslunarkennd. Skáldsaga getur líka varla verið hrein pólitísk afurð – ekki einsog ljóð eru stundum (hræðileg, undantekningalaust, rímuð, oftast, flutt í viral-myndbandi af óhikandi sjálfsöryggi, já takk!) Það er bara hægara sagt en gert að vera nógu viss í meira en nokkrar blaðsíður í senn. Yfirleitt taka bókmenntirnar völdin fyrir rest, efinn. Ég átta mig ekki heldur vel á því hvar skilin eru – hvenær er skáldsaga nógu pólitísk til að vera „pólitísk“ – og staldra við þessi orð Fríðu um flóttann, sögulegu skáldsögurnar og sjálfs- og fjölskyldubækurnar. Ég verð að viðurkenna að mér finnst hæpið að draga þessa tvo flokka út fyrir sviga. Ég man ekki eftir mörgum sögulegum skáldsögum sem ég myndi ekki kalla pólitískar – mér detta í hug Mánasteinn og Tugthúsið sem nýleg og augljós íslensk dæmi, bækur Colsons Whitehead sem nýleg amerísk, Wolf Hall-trílógían í Bretlandi (þótt Mantel sé að vísu ekki miðaldra karl). Og sjálfið – er Chris Kraus ekki pólitísk? Elísabet Jökuls? Annie Ernaux? Og raunar sýnist mér flest genre eiga bæði rammpólitískar greinar og nær ópólitískar … Sem opnar auðvitað á hina hliðina á þessari sömu spurningu: getur skáldsaga verið ópólitísk? Getur hún verið frjáls undan þátttöku í samræðunni um það í hvers konar samfélagi við lifum og viljum lifa í? Og segjum að manni takist að skrifa skáldsögu sem er svo gersneydd allri byltingarhugsjón að hún styðji allt í veruleikanum nákvæmlega einsog það er – er það ekki rammpólitísk hugmyndafræði í sjálfu sér? Ekki þar fyrir að ég fæ alveg jafn ægilega aulahroll og aðrir þegar fólk spyr sposkt hvort það sé ekki líka óskaplega pólitískt að yrkja um fegurð blómanna. En það breytir því svo sem ekki heldur að það hvar við drögum línuna – hvert og eitt – er sjaldan rætt eða rökstutt.