Nautn í flagi

Það er endurtekið efni að fólk játi á sig að finnast eitthvað ekki skemmtilegt sem öðrum finnst skemmtilegt, sérstaklega í tónlist. Ég hef nú aldrei þolað Bítlana/Bob Dylan er sjálfsagt algengasta formið af þessari íþrótt. Ég rakst á tvær svona sennur í vikunni, annars vegar sagðist rithöfundurinn (bankamaðurinn?) Sverrir Norland ekki fíla Tom Waits og einhverja fleiri tónlistarmenn – ég er svo sjúkur Tom Waits aðdáandi að mér sortnaði bara fyrir augum og missti alveg af því hverja aðra hann fílar ekki. Hitt var grínistinn Bill Burr ásamt einhverjum vini sínum á YouTube að tala um vinsæl en óþolandi lög – þar sárnaði mér líka eitt og annað, Blister in the Sun er kannski ekki besta lag Violent Femmes og áreiðanlega ofspilað, en það eru nú margir sem verðskulda svona spark meira en þeir (þær?).

Jú og svo sat ég í gömlum vinahóp fyrir nokkrum vikum þar sem fór mikið púður í að ræða hvað hitt og þetta væri leiðinlegt og ofmetið – bíómyndir og tónlistarmenn aðallega.

Hvað um það. Ég er ekki illa haldinn af neinu svona óþoli sem er ekki nánast úniversal – getur einhver hlustað a Lemon Tree lengur? Mmm mmm mmm? Don’t Speak? Kannski er það persónubundnara en ég hef talið hingað til – ég veit það ekki. En svo hljóta svona „ofspiluð“ lög líka að hverfa með annarri útvarpshlustun. Hvað er yngsta raunverulega „ofspilaða“ lagið? Shake it off? Eurovision lögin? Raunar segir það talsverða sögu að fari maður á ball með til þess gerðu ballbandi eru litlar líkur á því að bandið spili lag sem er yngra en 10-15 ára. Kannski eitt (Shake it off? Það er 11 ára). Á gullöld ballbandanna – segjum 1987 til 1997 – voru áreiðanlega sjaldan spiluð lög sem voru eldri en 15 ára. Og sveitaballaböndin spiluðu bara líka Rage Against the Machine ef þeir skriðu upp vinsældalistana (sem er ástæðan fyrir því að Eyþór Arnalds getur sungið það á valdeflingarsamkomum Sjálfstæðisflokksins, einsog það væri Piano Man með Billy Joel (sem er frábært lag!)).

Altso – við eigum enga sameiginlega poppupplifun lengur og þar með hverfa bæði súperhittararnir sem lifa af og þeir sem hverfa í mók vandræðaleikans og heiftarský óþolsins. Eftir sitja einhverjar svona opnar spurningar – hefur þú heyrt í Viagra Boys? Wet Leg? Hvað er þetta Benson Boone?

Það eru svo sem til gamlar vinsælar hljómsveitir sem ég hef ekki náð sambandi við. Oasis til dæmis. En það er alls ekki þannig að mér standi ekki á sama þótt öðrum finnist hún skemmtileg – og ekki heldur þannig að ég skipti um rás ef hún kemur í útvarpinu. Fínt band. Svo er alls konar dót sem ég hef reynt að hlusta á í gegnum börnin mín. Það var þarna Imagine Dragons tímabil sem var dálítið erfitt. Og tónlist sem er samin fyrir börn – það er furðu mikið af því metnaðarlaus leiðindi. Alls ekki allt auðvitað – en það er hægt að ná athygli barna með því að keyra froðuna bara í botn. En það er svo blessunarlega músík sem þau gleyma hratt sjálf (einsog við gleymum megninu af öllum poppkúltúr – þess vegna finnst okkur horfnir áratugir svona glimrandi fínir, við munum bara gullin en ekki innanhola síbyljuna).

Annars er ég líka viðkvæmur fyrir þessu. Þegar fólk segist ekki fatta mína eftirlætis tónlist – hvort sem það eru Guns eða Waits eða Son House eða Art Blakey. Ég þarf meira að segja að verja – sjúgandi upp í nefið – tónlist sem er augljóslega búið að útjaska. Mér finnst nú Piano Man bara fínt lag. Ég fór á Green Day og Weezer tónleika í sumar með Aram og hef hálfskammast mín fyrir hvað mér fannst það gaman. Líka á Green Day segi ég þegar vinir mínir fitja upp á nefið. Sumum þeirra finnst svo alveg jafn ómögulegt af mér að finnast gaman á einhverjum tilraunadjassi. Ég er engin alæta á músík, ég laðast að því sem ég laðast að og held hinu frá mér, en ég hef frekar breiðan smekk og ég hef áhuga á tónlistarsögu og því að mennta sjálfan mig, skilja hvað það er sem ég fíla og hvernig tónlistarheimur minn getur stækkað – hvernig fagurfræðin hangir saman (þess vegna finnst mér allt með Tom Waits skemmtilegt – af því það hangir saman, hvert einasta lag segir eitthvað um hin – ég hef ekki þannig áhuga á öllum tónlistarmönnum en ég held að það ættu allir að eiga a.m.k. einn þannig eftirlætis listamann).

Á hinn bóginn hef ég getað verið mjög esóterískur og dómharður í málum ljóðsins – og finnst margt af því sem er haft í miklum metum vera mjög ómerkilegt. Þar er mikið leitað í lága samnefnara – að fella ódýrar keilur og predika fyrir kóra. Ég er hins vegar nær alveg hættur að tjá mig um það og kannski hreinlega hættur að spá í því. Á löngu tímabili las ég alveg óhemju af ljóðum – öllu sem ég komst í – einsog maður sem spænir sig í gegnum mykjuhaug í leit að gylltum tannstöngli. Og lét mykjuna fara í taugarnar á mér. Nú leita ég miklu minna – pirra mig minna en það er líka færra sem kemur mér á óvart. Les bara það sem ég veit að gleður mig.

Áður en ég leysist upp

Ég er enn í hægagangi. Hugsanlega var ég bara lasinn í dag. Aram Nói fór í morgun – hann ætlar að vera eitt ár í Svíþjóð, fyrsta árið í menntaskóla. Ég er ekki frá því maður verði lasinn af því að missa son sinn að heiman. Ég þurfti allavega að fá mér langan lúr eftir hádegið. Einsog tappinn hefði verið tekinn úr mér. Þetta heitir víst að verða fyrir geðvefrænum áhrifum. Ég segi síkósómatískt áfall en það er talmál og þetta er ritmiðill og því heitir það geðvefræn áhrif.

Helgin var á hlaupum. Act Alone á Suðureyri en ég þurfti að spila – með ánægju, þetta „þurfti“ er ekki alveg heiðarlegt, þetta var ekki herskylda – í djassbandi í fertugsafmæli Lísbetar vinkonu minnar. Ég náði fimmtudeginum á Actinu – þar sem Bernd Ogrodnik kom m.a. fram og var hreint ótrúlegur – æfði með djassbandinu allt föstudagskvöldið og renndi svo yfir í skáldastund með Óskari Árna á laugardeginum en þurfti að fara snemma til að verða ekki seinn á giggið sem stóð með hléum frá 18 til 23.

Ég get með góðri samvisku sagt að ég hafi kunnað annað hvert lag. Þriðja hvert mátti svo svinga en fjórða hvert fór út í skurð – en þá voru færari menn en ég í þessu bandi sem héldu lögunum á floti. Og svo var þetta afmæli og fólk að syngja mest fyrir gamanið – eiginlega var það bakgrunnsmúsíkin sem var mest æfð og sem rann ljúfast. Visa från Utanmyra, Blue Bossa, Fly me to the moon, Norðurljósablús og fleira þesslegt. Ég þarf að bæta svolítið lagalistann hjá mér, læra fleiri lög og æfa mig í að lesa s.k. lead sheet – ég spjara mig alltaf nokkra takta en villist svo gjarnan, stundum af því ég kann ekki fingrum mínum forráð og vil spila flóknari hluti en ég ræð við.

Úr fertugsafmælinu fórum við hjónin á tónleika hjá Aram Nóa og Axel vini hans – sem kalla sig Ulla. Það var í Tjöruhúsinu, hart rokk – trommur og bassi, þeir skiptust á að syngja en fengu líka gestasöngvara. Og ferfalt uppklapp. Enduðu á hópsöng í Gúanóstelpunni, sem var viðeigandi af því Mugison og Rúna – sem sömdu lagið með Ragnari Kjartanssyni, og áttu heima í næsta húsi þar til fyrir skemmstu, voru að gifta sig þetta sama kvöld.

Á sunnudeginum var kveðjukvöldverður fyrir Aram. Í gær var slakað á en í kvöld fórum við Aino á nýjan farsa sem Ísleikhúsið setti upp í Edinborgarhúsinu – „Til hamingju, þú varst að eignast Ísfirðing“. Það var stórskemmtilegt. Á morgun ætlum við að horfa á fyrstu Hungurleikamyndina – Aino er að klára að lesa þriðju bókina og hefur beðið í ofvæni eftir að fá að horfa á myndirnar. Á fimmtudag ætla ég á ADHD – en Ásta vinkona mín er líka með spilunarpartí, einhvers konar hjólaferð um bæinn sem endar með diskói bakvið slökkvistöðina, og svo er uppistand í Kómedíuleikhúsinu í Haukadal. En ég ætla að skrópa á því báðu og fara á ADHD af því maður getur ekki gert allt og verður að velja. Á föstudag fer ég að hjálpa vini mínum að tyrfa eftir vinnu og fram á kvöld, vænti ég. Veit ekki með laugardag – allavega kvöldið, ég ætla í 26 km langhlaup yfir daginn – en á sunnudag ætla ég á Ástin sem eftir er, nýju myndina hans Hlyns Pálmasonar.

Annars þarf ég að finna einhvern tíma fljótlega til að kjarna mig, einsog þeir segja í sjálfshjálparbókunum. Áður en ég leysist upp.

Vegaleysur

Ég hef aldrei áttað mig alveg á kallinu eftir því að innflytjendur eða hælisleitendur eða flóttamenn sem brjóti af sér missi dvalarleyfið – hvað þá að fólk sem hefur hlotið ríkisborgararétt missi hann við tiltekin brot. Ég átta mig bara ekki á því hvernig þetta tvennt hangir saman. Og finnst svona almennt að eitt eigi yfir alla að ganga – og sömu reglur að gilda. Að ef ég, sem íslenskur gangster, lendi í ofbeldisfullum útistöðum við erlendan gangster – þá meiki lítið sens að hann verði „sendur heim til sín“ en ég fái bara að halda áfram að terrórísera nágranna mína í Tangagötunni. Og reyndar skil ég ekki hvers fólkið, sem býr „heima hjá“ þessum erlenda gangster – eða hvert hann er sendur – á að gjalda að fá einhvern fávita aftur í hausinn, sem vill ekki einu sinni vera þar. Hvað hefur það til saka unnið? Hvers vegna er betra að einhver nauðgari búi á götunni í Aþenu eða í flóttamannabúðum í Sýrlandi en að hann búi í Kópavogi? Eða bara á Hrauninu.

Ríkisborgararéttur er líka undarlegt fyrirbæri. Erich afi minn fæddist í Þýskalandi sonur ´ísfirskrar konu og súdeta-Þjóðverja – sem var sem sagt tékkóslóvakískur ríkisborgari, af því þegar langafi fæddist voru súdetahéruð í Austurríki-Ungverjalandi, og þótt hann væri fluttur til Þýskalands varð hann tékkóslóvakískur ríkisborgari 1918. Á árunum eftir stríð gilti að ríkisborgararéttur fylgdi fæðingarlandi – af því það voru allir út um allt og allt komið í rugl – svo afi var þýskur. Þegar mamma fæddist á Íslandi 29 árum síðar voru lögin á Íslandi þannig að ríkisborgararéttur fylgdi föður. Svo mamma var þýsk. Þegar Dóra systir fæddist 19 árum eftir það var búið að breyta lögunum þannig að ríkisborgararéttur fylgdi móður. Svo Dóra systir var líka þýsk. Þær fengu ríkisborgararétt í maí 1978 með samþykkt frá alþingi – nokkrum mánuðum áður en ég fæddist, sem hefði annars líka verið þýskur ríkisborgari. Af því að langafi minn var fæddur í Austurríki-Ungverjalandi á nítjándu öldinni. Var kannski bóhem, einsog ég, án þess ég viti það.

Þegar við fjölskyldan vorum í Hondúras heyrðum við mikið af fólki sem var verið að vísa frá Bandaríkjunum – mágur minn vann við flóttamannaaðstoð – og mikið af því fólki hafði aldrei til Hondúras komið frá því það fæddist, átti þar enga fjölskyldu eða tengsl, talaði jafnvel ekki einu sinni spænsku. Neyðin sem hefur skapast víðs vegar í veröldinni vegna þess að það er verið að vísa fólki í burtu af öllum mögulegum tylliástæðum – af því „innflytjendamálin“ eru í svo miklum „ólestri“ og það má ekki taka þau „neinum vettlingatökum“ – er afar raunveruleg og ekki til þess að vel meinandi fólk fari að bæta á hana. En það segir eitthvað um súra – eða réttara sagt brúna – stemninguna í vestrænum þjóðfélögum að þegar ráðherra stígur fram með þessar hugmyndir sínar um að „fækka innflytjendum“ (eða „velja betur“ – fá bara menntaða efri millistétt en halda láglaunafólkinu úti) þá réttir fyrst formaður Sjálfstæðisflokksins upp hönd til þess segjast nú eiginlega eiga höfundarrétt á þessum hugmyndum, og svo lýsir formaður stærsta verkalýðsfélagsins, sem jafnan er álitin róttækur sósíalisti, því yfir að gagnrýni á þessa stefnu – sem er ekki bara útlendingafjandsamleg, heldur fyrst og fremst stéttfjandsamleg – sé eitthvað „woke gone mad“.

Trump er altso víða. Og allir vildu Lilju kveðið hafa.

Það er ágætt að halda því til haga að fjölgun innflytjenda á Íslandi er alls ekki vegna dvalarleyfa frá fólki utan EES svæðisins, hvorki innflytjenda, flóttamanna eða hælisleitenda – enda er algert hell fyrir það fólk að flytja hingað, einsog allir sem þekkja einhvern sem það hefur reynt geta borið vitni um – heldur vegna frjálsrar farar verkafólks innan EES. Og það er enginn að tala um að ganga úr EES – það er ekki hluti af neinum tillögum. Opnu samfélagi fylgja augljóslega alls konar áskoranir. En maður þarf að vera minnislaus fáviti – eða illa innrættur – til þess að vilja hækka aftur múranna milli Evrópulanda eða flækja þessi kerfi og gera þau dýrari.

Fréttir úr feluleiknum

Heimska er gefin út af Marpress í Póllandi og þýdd af Jacek Godek.

Það varð kaldara í gær. Sjötti ágúst er fullsnemmt fyrir haustið til þess að ganga í garð – en það er farið að minna á sig. Ég veit ekki hvort ég er undir það búinn. Ég er hættur að vera í sumarfríi – hættur að frílysta mig og hættur að sinna húsinu – og farinn að hanga á skrifstofunni, einsog virðulegum rithöfundi sæmir. En mig langar í fleiri sumardaga. Langar að grilla á pallinum. Það gæti reyndar sloppið í dag. Svo er Act Alone að byrja. Ég kemst sennilega lítið á morgun og hinn og ætla því að reyna að ná öllu í kvöld.

Maður er líka farinn að íhuga haustið. Plönin. Ég verð svolítið á ferð og flugi frá miðjum september og fram undir lok nóvember. Heimska kemur út í Póllandi 21. ágúst og Náttúrulögmálin í Svíþjóð 1. september. Það eru fjögur ár frá því það kom síðast út bók eftir mig á öðru tungumáli en íslensku – þegar Hans Blær kom á frönsku og spænsku og Brúin á sænsku – og því gleður þetta mig mjög. Það var líka von á Óratorrek á finnsku í ár en forlagið þar virðist hafa lent í einhverjum ógöngum. Sem er auðvitað verra, en þetta er þannig bransi. Bókin er þýdd – það gerði Tapio Koivukari – og kannski finnur hún sér heimili einhvers staðar fyrir rest.

Ég finn það samt að heilinn á mér er ekki alveg kominn í stellingar. Sköpunargleðin er í felum. Ég er með tvö verkefni á borðinu, annað liggur beinna við en hitt – það er að segja það kallar meira á útfærslur en nýjar hugmyndir og ég potaði aðeins í það í gær. Hitt bíður þess að allar vélar verði komnar á fullt.

Þannig var það – Jon Fosse – 10. júlí, 2025

Ég ætlaði að fara að skrifa að það væri ekki á hverju ári sem íslensk leikhús sviðsettu leikverk nóbelsverðlaunaskálda en svo mundi ég að það var áreiðanlega bara í fyrra sem ég sá Hassið hennar mömmu eftir Dario Fo á Flateyri. Og í gærkvöldi fór ég í Haukadal og sá Þannig var það eftir Jon Fosse. Svo kannski er þetta bara árlegt fyrirbrigði.

Nei, sló þessu upp. Það var í hittifyrra. Verk nóbelsleikskálda eru sett upp annað hvert ár. Á Vestfjörðum – ekki veit ég hvernig þessu er háttað í öðrum landsfjórðungum. Mér er sagt að þar sé allt miklu verra en hér en ég reyni að kanna það helst aldrei.

Sá er þó munurinn á þessum tveimur uppsetningum að Elfar Logi er að frumsýna verkið á Íslandi, sem kom út á bók hjá Espolín útgáfunni í þýðingu Kristrúnar Guðmundsdóttur 2019, en Dario Fo var þýddur fyrir löngu og var held ég á tímabili mjög vinsæll, ekki síst hjá áhugaleikhúsum einsog því á Flateyri. Hassið hennar mömmu hefur margsinnis verið sviðsett. Annar munur er jú að Kómedíuleikhúsið er atvinnuleikhús.

Annars hefur Dimma verið ötul í útgáfu verka Fosse síðustu ár og þá held ég alltaf í þýðingu Hjalta Rögnvaldssonar. Það er líka merkilegt í því samhengi að flestar þessar bækur komu út áður en Fosse hlaut Nóbelsverðlaunin – útgáfan er sem sagt ekki afleiðing af þeim. Ég hef aðeins litið í þær en ekki alveg náð sambandi – sem segir áreiðanlega jafn mikið um mig og þær.

Hvað um það. Þannig var það er stutt verk sem fjallar um gamlan listmálara sem býr einn en á bágt með að sjá um sig sjálfur. Þegar verkið hefst liggur hann í rúminu og á leiktímanum tekst honum að setjast upp, skrönglast upp á staf, færa sig yfir í göngugrind, þaðan í hjólastól og enda svo á gólfinu eftir að hafa reynt að leggjast aftur, úrvinda eftir hamaganginn. Hann veltir fyrir sér merkingu lífs síns og ber sig illa – hann þolir ekki konuna sem kemur til að líta til með honum, en hún er samt greinilega eini félagsskapurinn sem hann nýtur, því börnin hans nenna honum ekki og konurnar hans þrjár gáfust allar upp á honum – að sögn af því hann gaf sig allan málverkinu, var hvergi til annars staðar. Hann er trúaður en hefur meira að segja gefist upp á að fara með faðirvorið – það sé tilgangslaust, einsog allt annað.

Textinn er endurtekningasamur og sveiflast milli röfls og galdraþulu, ljóðs og heimspeki – hann er ekki beinlínis á leiðinni neitt og þótt myndin af manninum skýrist smám saman þá fáum við aldrei neinar greinargóðar útskýringar ´á því hvernig er fyrir honum komið. Kannski er þetta í aðra röndina verk bara um það hvernig „hlutirnir geta farið“ – án þess þó að höfundur, eða raunar sögupersóna, reyni að bera neitt blak af sér eða hafna eigin sök. Hann er hundfúll yfir aðstæðum sínum – að vera einn, að deyja einn, dáður út í bæ en fyrirlitinn heima, af sjálfum sér og öðrum – en fljótur að koma auga á hvernig hann kom sér í þær – þótt það sé auðvitað gott að vera vitur eftirá. Og svo bara syngur hann eða þylur eða röflar eða ljóðar og fyrtist og bölvar eða hvað það er sem hann er að gera.

Uppfærsla Kómedíuleikhússins er stórkostleg. Leikmyndin er einföld – rúmið og göngugrindin og stafurinn og hjólastóllinn á litlu sviði leikhússins í Haukadal (sem gefur sýningunni alveg áreiðanlega aukinn kraft – þetta er göldrótt hús). Stutt fiðlustef Unnar Birnu Björnsdóttur, falleg og passlega sársaukafull, styrktu tilfinningar verksins án þess að bæta við þær upphrópunarmerki, einsog oft vill annars verða raunin. Náttföt listamannsins voru við það að gera sjóveikan – niðri var einsog þau væru vitlaust hneppt en uppi rétt, sennilega voru þau bara hönnuð skökk – skemmtilegur og metafórískur díteill.

En mestu munaði um Elfar Loga sem átti stórleik –  svona verk stendur og fellur með (ein)leikaranum á sviði – hann sveiflaðist inn og út úr harmi og húmor, beiskju og hlýju í einhverjum galdri sem gerði það að verkum, sem ég hef annars varla upplifað í leikhúsi áður, að í stað þess að áhorfendur væru alltaf í „sömu“ tilfinningunni, hlæjandi saman og grátandi saman, voru þeir augljóslega oft hlæjandi og grátandi á víxl að sömu senunum. Eina mínútuna hló ég að geiflandi beiskju gamalmennisins meðan maðurinn fyrir framan mig tók andköf af meðlíðan, en þá næstu tók ég andköf meðan hann hló. Það var einsog hvert augnablik hefði jafnsterka kómíska og tragíska vídd og tilviljun ein réði því hvorumegin maður lenti (og fékk mig til að hugsa um söguna um að Chekhov hefði gengið út af frumsýningu Kirsuberjagarðsins, sem hann skrifaði sem kómedíu, en leikhópurinn ákvað að sviðsetja sem tragedíu, eftir að hafa farið að hágrenja við fyrsta leiklestur – það er ekki alltaf langt þarna á milli og stundum er þetta bara sami bletturinn).

Kómedíuleikhúsið, sem á tvö ár í þrítugt, hefur vaxið mikið á síðustu árum – ekki síst með uppsetningunni á Ariasman og nú Fosse. Það er í sjálfu sér kraftaverk að reka svona „fyrirtæki“ – atvinnuleikhús í Haukadal, með kannski 20 sæti – og væri það áfram þótt sýningarnar væru ekki í þokkabót jafn listrænt metnaðarfullar og verið hefur upp á síðkastið. Að ég segi nú ekkert um hliðarbarnið Act Alone. Ég tek hatt minn ofan.

Ég reiknaði fyrirfram með því að verkið myndi skila sér til Reykjavíkur fyrir rest – en það stendur víst á heimasíðu leikhússins að það verði bara sýnt í Haukadal í sumar. Ég ímynda mér að það sé eitthvert leyfisspursmál. Það eru þrjár sýningar eftir – 17. 24. og 31. júlí. Ég myndi ekki missa af þeim.

***

Þannig var það – Kómedíuleikhúsið

Leikari: Elfar Logi Hannesson
Höfundur: Jon Fosse
Þýðing: Kristrún Guðmundsdóttir
Tónlist: Unnur Birna Björnsdóttir
Búningar: Þ. Sunnefa Elfarsdóttir
Ljósameistari: Siguvald Ívar Helgason
Leikmynd og leikstjórn: Marsibil G. Kristjánsdóttir

Sumarfrí

Ég held að heilinn á mér sé enn í sumarfríi. Í gærmorgun tók ég eftir öri eftir nýlegt sár á kinninni á mér – ég mundi eftir sárinu, það er varla nema tveggja-þriggja vikna gamalt, en ég mundi ekkert hvar ég hefði fengið það. Af hverju var ég með sár á kinninni? Ekki var þetta uppklórað skordýrabit? Hafði ég dottið? Rekið mig í hillu? Einhvern veginn klaufað eldhúshníf upp í andlitið á mér (ekki að ég hafi eldað mikið í sumarfríinu)? Þetta olli mér „talsverðum heilabrotum“ einsog maður segir – hvað sem það nú þýðir, heilabrot – ég sem sagt hugsaði um þetta og var farinn að hafa alvarlegar áhyggjur af heilsu minni (sérstaklega eftir að ég ætlaði að taka íbúfen við höfuðverk og mundi ekki hvort ég hefði fengið mér íbúfen eða hvort ég hefði bara fengið mér vatnsglas og gleymt íbúfeninu – ég fékk mér allavega aðra nema það hafi verið fyrsta). Síðan kom kvöld. Og þ´á mundi ég hvað hafði gerst. Ég skar mig við rakstur. Er það ekki svolítið einsog að uppgötva eftir langa rannsókn að það var brytinn sem framdi glæpinn? Hefði það, altso, ekki átt að blasa við? Sár í andliti karlmanns = rakstur? Ég er að vísu ekki vanur að skera mig við rakstur en ég keypti einhvern plastpoka fullan af einnota rakhnífum í Coop Konsum í Rejmyre, Östra Götaland (mitt á milli Finspång og Norrköping) og þeir voru bara alls ekki brúklegir miðað við þá lúxushnífa sem ég á að venjast. Og því fór sem fór. Ráðgátan leyst.

***

700 síður búnar í Books of Jacob. Einu sinni skrifaði ég alltaf jafn ´óðum um þær bækur sem ég var að lesa en var skammaður fyrir að vera að skrifa um bækur sem ég væri ekki búinn að lesa – þótt ég væri bara að skrifa um þær síður sem ég væri þá búinn með. Það eru enn 300 blaðsíður eftir af Books of Jacob og um þær get ég ekki tjáð mig, eðli málsins samkvæmt.

Ég veit ekki hvort ég á neitt að vera að leggja mat á hvað mér „finnst“ – enn sem komið er – það kemur í ljós bara á næstu mánuðum og árum. Þegar rykið sest. Þetta er augljóslega stórvirki og miklu „módernískari“ bók en ég átti von á eftir Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu. Einsog margar – flestar? – svona langar bækur er hún að reyna að vera einhvern veginn komplett og alltumlykjandi, ná utan um bæði augnablikin og aldirnar.

Hún fjallar einsog áður segir um spámanninn/messíasinn Jakob Frank – sem var til – og hana má augljóslega lesa frá mörgum sjónarhornum en eitt sem blasir við mér er að spegla hana í guðspjöllunum. Sem eru auðvitað líka módernísk, á sinn hátt – ef við tökum þeim sem einu verki – þar sem sama sagan er sögð fjórum sinnum með tilbrigðum, en á þveröfugan hátt við Jakobsbækurnar. Hvert guðspjall er frekar stutt og lítið dvalið við hversdagslega hluti heldur vaðið milli kraftaverka, dæmisagna og sögulegra stórviðburða. Jakobsbækurnar eru fimm og þær sem ég hef komist í gegnum fjalla allar um sögulegan tíma ´Jakobs Frank – þótt ég þykist vita að bókin fari nær okkur í tíma í restina.

Saga Jakobs er í grunninn bara saga hvers messíasar – stundum finnst manni hann vera djúpvitur frelsari, jafnvel kraftaverkamaður, og stundum kynóður megalóman og stundum allt í senn – fólkið í kringum hann er ýmist blindað af trú á hann eða í baráttu við efann; þeir sem fjær standa óttast hann eða eru forvitnir. Hann safnar um sig lærisveinum og endar ofsóttur. Þar sem ég er staddur í bókinni er búið að fangelsa hann og lýsa því formlega yfir í dómi að það verði að „eilífu og þeirri ákvörðun aldrei snúið“. Ég þekki ekki sögu Franks nema úr þessari bók og veit ekki hvort hann verður drepinn eða honum sleppt eða hvað. Ég veit það samt af reynslunni að það þarf ekkert mjög margt að gerast á þessum 300 síðum sem eru eftir – en samt allt!

Sjónarhornið er á sinn hátt alsjáandi án þess að vera alviturt – sögumaður er öldruð kona sem liggur fyrir dauðanum og öðlast alsjón – hún svífur beinlínis yfir sögusviðinu. Við fáum litla innsýn í hugarheima fólks nema það sem maður gæti giskað sig upp á út frá svipbrigðum og málrómi og þvíumlöguðu. Hins vegar leitar þessi alsjón uppi allt sem gæti nokkru máli skipti – fer um í tíma og rúmi, alls lags aukapersónur detta inn og út úr fókus, rýmum og hlutum og náttúru og veðri og göngulagi og fatnaði og svo framvegis er lýst í smáatriðum, guðfræðilegar og fagurfræðilegar og heimspekilegar deilur eiga sér stað í samræðum og bréfum. Engar endurtekningar, sem sagt, og í stað þess að söguþráðurinn birtist manni á þrjátíu síðum á hröðu tempói – einsog í þeim guðspjöllum sem maður á að venjast – er hann á þúsund síðum.

Það er mjög hægt.

***

Danirnir koma til mín á morgun. Ég hef ekkert lesið neina danska bók einsog ég ætlaði að gera. Kíkti aðeins á danska duolingo og ætli ég lesi ekki fréttirnar í kvöld á dönsku vefmiðlunum. Og svo bjarga ég mér ábyggilega á sænsku með dönskum hreim og les eitthvað fyrir þá úr þýðingum Nönnu Kalkar.

Það rifjast upp fyrir mér að Melli vinur minn sagði á sínum tíma að það væri ekkert mál að tala sænsku – maður talaði bara dönsku og gerði svona skrítin hljóð á eftir, hann hermdi þau bara – å o å o – svona einsog maður gæti ímyndað sér að selur myndi breima, kannski. En fyrsta setningin sem duolingo kenndi mér á dönsku eftir stöðupróf var „Svenskeren kan ikke førstå danskeren når de taler sammen“.

Ég hef einu sinni talað sænsku í sjónvarpsviðtali í Danmörku. Það gekk alveg en ég veit auðvitað ekkert hvort sjónvarpsáhorfendur skildu mig (það er líka alltílagi þótt fólk skilji ekki alveg rithöfunda). Mestar áhyggjur hef ég haft af fordómum dana og svía gagnvart hvor öðrum – það fylgir því ákveðinn farangur ef danir telja mann sænskan (eða hliðhollan svíum) og öfugt. Að vísu var mér sagt í vor að menningarsvíar væru að verða mjög danskir og menningardanir að verða mjög sænskir – og ef maður veit ekki hvað það þýðir væri kannski gott að rifja upp debattinn í kringum danska höfundinn Yahya Hassan, sem orti fjálglega um ofbeldi í innflytjendasamfélögum og lýsti föður sínum sem „loðnum apa“, og var skammaður fyrir af svíum með áþekkan bakgrunn sem sögðu hann beinlínis vera að hlaða byssur rasistana fyrir þá. Og hafi danir verið beinskeyttir en svíar viðkvæmir hefur það þá snúist við – er mér sagt og sel ekki dýrara en ég keypti það.

***

Ég hef annars veitt því athygli að ég hef ákveðna tilhneigingu síðustu misserin til þess að forðast pólitískar yfirlýsingar. Sennilega er það bara innbyggður mótþrói gagnvart ofsanum sem umlykur mann alla daga – frá Gaza til Washington inn á Alþingi og upp í Bolholt. Ég er orðinn mjög þreyttur á froðufellandi jarðýtum. Ég er líka orðinn furðu mikill both-sider í samræðu – finnst ekki þægilegt að tala í alhæfingum eða of mikilli vissu og hvað þá kraftmikilli hneykslan. Sérstaklega ekki um litlu málin. Þegar kemur að stóru málunum – Gaza er stærst – fyllist ég bara vonleysi og líður einsog húðin ætli að leka utan af mér og ég sökkva ofan í jörðina. Ég man eftir að hafa lesið sannfærandi rök Amosar Oz um að Evrópumenn – sem hefðu barist á banaspjótum árhundruðum saman, í átökum sem hefðu endað með seinni heimsstyrjöldinni – ættu lítið með að lýsa því yfir að það væri „ómögulegt“ að sjá fyrir sér endalok átakanna í Palestínu. En ég er samt svolítið þar. Ég hef ekki ímyndunarafl í að sjá fyrir mér neinn frið eftir atburði síðustu tveggja ára.

Sósíalismi í einu húsfélagi

Stundum hvarflar að manni að valdið í heiminum – eða á Íslandi, Reykjavík, Ísafirði, í húsfélögum, stökum fjölskyldum – sé valdið vegna þess að það kann að skipuleggja sig. Og það segir sig eiginlega sjálft að skipulag virkar best með valdi – það er hægt að ræða hvert eigi að keyra bílnum en ef allir ætla að keyra hann í einu er ekki líklegt að vel fari. En svo ég haldi þessari vafasömu líkingu til streitu þá vill sá sem heldur í stýrið oft bara ráða þessu sjálfur (oft var það þannig sem hann valdist til að stýra í upphafi). Og ráða meiru. Keyra fleiri bíla á fleiri vegum. Fljúga bílunum til stjarnanna. Alveg sama þótt farþegana vanti bara að komast í skólann. Eða til læknis. Bíllinn skal til Mars. Það er framtíðin, segir metnaðarfullur bílstjórinn. Og þá verður að gera byltingu. Sameinast í aftursætinu og skjóta bílstjórann. En bíllinn er á fullri ferð til Mars og nú erum við þrjú í aftursætinu að kljást við fjórða mann í farþegasætinu fram í – allir með eina hönd á stýrinu og aðra upp á móti hinum – rúðan er sprungin, allt í blóði alls staðar, við reynum að snúa við, komast í skólann og til læknis, helst bæði í einu, á meðan bíllinn brennur upp á leiðinni inn í lofthjúpinn aftur.

Er þetta góður tími til að vera sósíalisti? Það er allavega umbreytingarskeið. Ef mann langaði að verða sósíalistaleiðtogi væri kannski ráð að grípa til aðgerða núna. Fylgið vantar heimili. VG er í molum. Sósíalistaflokkurinn varla nema mylsna. Héðan af væri sennilega mestur missir af Samstöðinni – hún er mikill afbragðsfjölmiðill, ekki síst þessi löngu og ítarlegu viðtöl við alls konar fólk, og væri synd ef hún breyttist í málfundafélag skinhelgra sósíalista eða eitthvað þaðan af verra. Ég er ekki sannfærður um að VG eigi eftir neina upprisu – þótt það sé ekki útilokað – en yrði enn meira hissa ef Sósíalistaflokkurinn nær sér eftir þetta epíska rugl síðustu vikna, og skiptir þá litlu hver „vinnur“ þessar húsfélagsþrætur núna.

***

Sumarfríið er að verða búið. Við Aram höldum heim á föstudag. Ég er varla nema rétt rúmlega hálfnaður með sumarfrísbókina – 500 síður búnar af Books of Jacob en 500 enn eftir. Keypti að vísu líka Ulysses þýðingu Eriks Andersson, sem ég hef heyrt mjög vel af látið, og byrjaði að glugga í Násikukaflann, sem er næstur á dagskrá, og endaði á að klára hann bara. Var bara furðu þjált. Sinni þessu betur í næstu viku. Nema það verði mjög gott málningarveður – þá fer kannski allur frítíminn í það. Svo ætlaði ég reyndar að lesa líka eitthvað á dönsku til að hreyfa við dönskuhluta heilans í mér áður en ég hitti nokkra danska menningartúrista á Ísafirði – annars tala ég bara sænsku. Og ég á víst enn 500 síður eftir af Tokarczuk. Og er að æfa fyrir maraþon. Heima bíður mín kontrabassi sem vill að ég spili á sig. Það er enginn tími, verður enginn tími, en það verður gaman.

Allt er synd

The further north you go, the more people concentrate on themselves, and in some sort of northern madness (no doubt due to the lack of sun) they ascribe themselves too much. They make themselves responsible for their actions. Fatum is punctured by raindrops, then farther on, snowflakes making a final incursion, and soon it disappears altogether. What remains is the conviction that destroyes every person, supported by the Ruler of the North, the Church, and its ubiquitous functionaries, that all evil is in man yet can’t be fixed by man. It can only be forgiven. But can it be forgiven? Hence comes that tiring, destructive feeling that one is always guilty, from birth, that one is stuck in sin and that everything is sin – doing something, not doing it, love, hate, words, and even thoughts. Knowledge is a sin, and ignorance is a sin.

Ég held ég hafi aldrei lesið greinarbetri lýsingu á norrænu hugarfari en þessa, sem kemur úr The Books of Jacob eftir Olgu Tokarczuk í þýðingu Jennifer Croft. Hún nær einhvern veginn utan um þessa undarlegu blöndu af botnlausri sjálfhverfu og umhyggju fyrir heiminum – og útskýrir hvernig sjálfhverfan verður að umhyggju og umhyggjan að sjálfhverfu og allt saman verður alltaf á endanum að samviskubiti, einmitt af því við sjáum okkur sjálf sem trónandi fólk, blöndu af yfirmennum og hálfgerðum skyldufyrirmyndum. Við fyrirgefum í orði kveðnu en í raun fyrirgefum við aldrei neitt og allra síst okkur sjálfum. Á norðurlöndum sjá sig allir í Atlas – sem er óforskammað mikilmennskubrjálæði – og fullyrðinguna „allir eiga að skipta máli“ má alltaf sjóða niður í: „Ég á að skipta máli“ eða „Ég skipti máli“ og jafnvel „Ég skipti víst máli!“. Og ekkert gæti verið verra fyrir hinn norræna mann en að skipta ekki máli.

Ég er kominn fjórðung inn í þennan þúsundblaðsíðna hnullung um 18. aldar spámanninn Jakob – sem er kannski Messías – og hafi manni ekki þótt skrítið fyrir að Tokarczuk hafi hlotið nóbelinn við lestur annarra bóka hennar þá finnst manni það enn minna skrítið þegar maður stendur í miðju svona verki. Stærðin er einhvern veginn ógurleg. Maður stendur uppi á fjalli í norður Póllandi og sér niður að Bosporussundi, ef ekki lengra. Og sannarlega er ég oft villtur. En samt ratar ég einhvern veginn áfram. Þetta er að mörgu leyti trúarheimspekileg bók – og andleg slík, ekki jafn greinandi og hún er trúandi og þreifandi. En hún átti að vera hvíld frá Ulysses – sumarfríslesturinn – og er nú eiginlega ekki mikill hvíldarlestur. Næst tek ég bara með mér Andrés.

Og nei, hún fjallar nú ekki mikið um „hinn norræna mann“. Minna en til dæmis Andrés.

***

Ég er í sænskri sveit. Gulu viðvaranirnar eltu mig hingað. Það eru þrumur og eldingar og stefnir í ógurlega rigningu innan skamms. Búið að taka öll tæki á heimilinu úr sambandi. Allir með svona loftþrýstingshausverk sem mér skilst að hafi verið vísindalega afsannaður en það eru allir með hann samt. Þetta er áreiðanlega einhvern veginn mér að kenna. Bæði veðrið og hausverkurinn og gula viðvörunin.

Páfagaukagarðurinn

En um hvað er Páfagaukagarðurinn eftir Akörn (Braga Pál / Steinar Braga / Guðna Elísson / Hauk Ingvarsson / Hermann Stefánsson / Kviksögukrakkana / Jón Örn Loðmfjörð / Skólastjóra Grunnskóla Reyðarfjarðar / Mengellu / Jóhannes frá Kötlum)?

Bókin hefst einsog allar glæpasögur á morði. Fíll treður niður auðkýfing að fjórum vitnum ásjáandi. Næst hittum við hóp ofbeldismanna sem vinna fyrir albönsku mafíuna á Blönduósi – þar eru meðal annars parið Jenna og Róbert. Jenna er dóttir manns sem heitir Baba O’Riley (eftir laginu) – sá rekur fyrirtæki sem tekur að sér að myrða fólk. Þetta er dýr þjónusta og fyrirtækið myrðir auk þess bara þá sem eiga það raunverulega skilið, þá sem eru heiminum til óþurftar og hvers dauði bætir heiminn. Venjuleg illmenni – nauðgarar og ofbeldismenn – koma til greina en eru vandræðakeis af ýmsum orsökum. Stórkostleg illmenni í stjórnmálum koma til greina en hætt er að þau verði að píslarvottum og því hætta verkkaupendur yfirleitt við. Algengustu fórnarlömbin eru alls kyns kaupsýslumenn sem stuðla að hlýnun jarðar – olíubarónar og þess lags fólk. Fyrir Baba vinnur maður að nafni Bogi – siðfræðingur sem sér um að kanna hvort tilvist fórnarlambanna sé veröldinni til nægs ama að þeim megi stúta.

Jennu og Róbert er rænt (frá albönsku mafíunni, eiginlega) af Baba – sem er faðir Jennu. Bogi er faðir Róberts. Baba vill að þau komi að vinna fyrir fjölskyldufyrirtækið.

En málið rannsaka lögreglumaður að nafni Ægir og Bergþóra aðstoðarkona hans. Ægir er með skemmtilegri sögupersónum sem ég man eftir í dálítinn tíma. Hann er þeim ósköpum búinn að vera svo ólíkur á innra og ytra byrði. Að innan er hann mjúkur og tillitssamur en alltaf þegar hann opnar munninn kemur það út einsog tómur fantaskapur og alfa-karlmennska. Þetta er dásamleg togstreita.

Meiru spilli ég ekki – af þessari bók sem mér skilst að enginn nema við í bókmenntaelítunni fái að lesa.

Bókin er krimmi en hún er líka – og sennilega meira – farsi. Þótt undir liggi auðvitað tortíming veraldarinnar allar og þessi grundvallarspurning – sem kemur alltaf upp í bókmenntum af og til, var til dæmis í fókus í Kötu – að hversu miklu leyti það sé réttlætanlegt að nota ofbeldi til þess að leysa heimsins vandamál.

Mín afstaða í því efni er fengin að láni hjá Leopold Bloom í Ulysses sem sagði, aðspurður um það hvort Gyðingar ættu ekki að mæta hörðu með hörðu:

But it’s no use [..]. Force, hatred, history, all that. That’s not life for men and women, insult and hatred. And everybody knows that it’s the very opposite of that that is really life.

Hvað varðar höfundinn þá þekkti ég handbragðið einfaldlega. Ég las bókina tvisvar og í fyrra skiptið hugsaði ég mikið um það hver það væri – ég held að annað sé varla hægt en það þvælist fyrir. Í seinna skiptið, þegar ég taldi mig hafa leyst gátuna, var það minna atriði. Þetta er virkilega góð bók – létt og frjáls og stingandi og sprenghlægileg – og auðvitað á það að vera í forgrunni.

Ég ætla ekki að koma upp um neinn.

***

Annars hringdi útvarpið í mig áðan til að ræða þessa bók. Það verður einhver rannsókn í Bara bókum á morgun þar sem ég og fleiri skoða þetta mál.

***

Ég hef verið að reyna að rifja upp svona mál. Hvað maður kallar það. Bókmenntahrekki. Bókmenntagöbb.

Síðasta ljóðabók Sjóns eftir Celidonius – þá gáfu Lommi og Arngrímur Vídalín sig fram.

Lausnin eftir Evu Magnúsdóttur – þar var stóri skandallinn að „Eva“ fór í blaðaviðtal og þóttist vera til. Druslubækur og doðrantar feðruðu þá bók og eignuðu Steinari Braga.

Ljósgildran var auglýst vikum saman án þess að höfundarnafnið kæmi fram – stóð bara eitthvað um að hún myndi skekja íslenskan bókmenntaheim. Það var Guðni Elísson og kom í ljós áður en bókin kom út – en það var samt augljóslega tilgangurinn að fólk myndi byrja að giska.

Ég man aldrei hvað hann hét ljóðskáldið sem tveir blaðamenn Mannlífs bjuggu til – það var dæmi einsog Ernst Malley, tveir menn ortu ljóðabók á kvöldstund og fóru svo og báðust álits á henni. Höfundar Ernst Malley gáfu reyndar bókina út en blaðamenn Mannlífs fóru bara og spurðu eldri höfunda – eða sendu ungan mann með handritið. Þeir sögðu þetta allir efnilegt og voru „afhjúpaðir“ í blaðinu.

Stella Blómkvist er höfundanafn sem enginn hefur afhjúpað þrátt fyrir ótal bækur.

Jóhannes úr Kötlum gaf út bækur undir nafninu Anonymus.

Fyrir rúmum áratug birtist bók á Borgarbókasafninu sem heitir Riddarinn sem var ekki eftir Italo Calvino. Sem sagt ekki Riddarinn sem var ekki til eftir Italo Calvino heldur Riddarinn sem var ekki eftir Italo Calvino eftir einhvern annan. Ég á líka eintak af þeirri bók (ég hef verið í bókmenntaelítunni lengi) og hún er frábær en mér vitanlega hefur hulunni aldrei verið flett af þeim höfundi.

Ég man ekki fleiri dæmi svona í fljótheitum en það má endilega rifja þau upp fyrir mér sem ég hef gleymt.

Menningarvikan

Ég fékk senda bók í síðustu viku. Hún heitir Páfagaukagarðurinn og er eftir höfund sem kallar sig „Akörn“. Hún virðist hafa verið send eitthvað aðeins hingað og þangað og svo sá ég á Facebook að bókabúðin Skálda hefur fengið eitt eintak sem á að selja á 30 þúsund krónur – hún birtist bara þar og þetta var sett sem skilyrði. Ágóðinn fer til búðarinnar. Ég er búinn að lesa þessa bók – hún er ekki nema 100 síður – og hún er mikið afbragð. Svolítið einsog ef Cesar Aira myndi vinna með Yrsu að James Bond mynd. Eða ef Yrsa myndi skrifa handrit að James Bond mynd sem Cesar Aira væri látinn skrifa upp eftir minni. Eða jafnvel án þess að hafa séð myndina. Honum væri bara gert að ímynda sér þetta: Hvernig myndi James Bond mynd vera ef Yrsa skrifaði hana. Með cli-fi þema.

Mitt eintak er ekki til sölu.

***

Skólastjóri fyrir austan notaði gervigreindina til að skrifa fyrir sig útskriftarræðuna. Gervigreindin fann fyrir hana ljóð – greip sennilega það sem hendi var næst, sem var nafn digitalskáldsins Jóns Arnar Loðmfjarðar og einhver random lína um að vera næs. Þetta minnti mig á þegar forsetinn vitnaði í lokalínur Sumardagsins eftir Mary Oliver og sneri eiginlega merkingu þeirra á hvolf – sem fólk gerir reyndar, þessar línur eru í tilvitnanabókum – „Segðu mér, hvað ætlar þú að gera / við þitt eina, villta og verðmæta líf“ – og fólk tekur þeim sem „hvatningu“ þótt þær séu það augljóslega ekki í samhenginu. Í stað þess að fara í tilvitnanabækurnar fer fólk núna bara til gervigreindarinnar. Ég veit ekki hvort það er neitt verra. En mér finnst mjög fyndið að skólastjóri viðhafi vinnubrögð sem myndu kosta nemendur fall (sem er ekki að „nota“ gervigreindina – heldur að treysta henni blint og láta hana gabba sig).

Annars verður þetta vonandi til þess að fólk lesi ljóðin hans Lomma.

***

Það er Náttúrulögmálavika. Í dag er 11. júní, síðasti dagur Náttúrulögmálanna – dagur 7. Það er lengsti dagurinn í bókinni – honum er meira að segja skipt í tvennt. Í ár eru liðin akkúrat 100 ár frá sumrinu 1925. Af því tilefni fór ég upp á Gleiðarhjalla í gær. Sennilega í fjórða skiptið á ævinni – í eitt skiptið fór ég reyndar ekki alveg alla leið upp, lenti í ógöngum í ís og skrönglaðist aftur niður. Það er líka í eina skiptið sem ég hef ekki farið einn. Þá var ég í menntaskóla. Í næsta skipti þar á eftir fór ég á strigaskónum beint eftir vinnu í grunnskólanum – það var líka í snjó en í það skiptið komst ég upp og settist niður í klakann og skrifaði bréf. Og gekk svo aftur niður. Næst var líklega 2013, að sumri til, loksins. Ég ætlaði að fara meðan ég var að skrifa Náttúrulögmálin en fyrst sleit ég í mér krossband og svo eyddi ég heilu sumri með slæman hælspora og svo var bókin bara komin út.

Ég hef alltaf lent í ógöngum á leiðinni þarna upp, ef mig misminnir ekki. Í gær var ég kominn hálfa leiðina upp bratt moldarbarð/grjóturð þegar ég uppgötvaði að ég var hvorki með fótstöðu né grip neinsstaðar. Ég ofandaði svolítið þegar ég áttaði mig á því að ef ég færi að renna af stað myndi ég sennilega ekki stoppa neitt strax – og minnti mig svo á að það vitlausasta sem ég gæti gert væri að panikka. Stikaði síðan varlega niður aftur og fór upp í stórgrýtinu – sem er langskynsamlegast. Ég hafði dálitlar áhyggjur af niðurleiðinni en rataði miklu betri leið þá. Svo sér maður líka betur til þegar maður fer niður. Einhvern veginn er maður alltaf hálfblindur að klöngrast upp svona brattar brekkur. Í eitt skiptið fór ég upp vitlausa urð sem leiðir að ókleifu bjargi.

En þetta var gaman og fólk sem fer oftar en ég ratar léttari leiðir. Ég las aðeins úr bókinni og setti á samfélagsmiðla en aðaltilgangurinn var að taka upp smá kynningarmyndband fyrir sænska bókasafnsverði. Útgefandinn bað mig um þetta. Hann er mikill vinur minn og ég geri allt sem hann biður mig um.

***

Ég hef lítið lesið í vikunni. Annað en Páfagaukagarðinn. Nadja fór til Frakklands í síðustu viku og ég hef verið að vesenast alls konar. Í dag bar ég á pallinn og garðhúsgögnin. Á helginni reif ég upp ógurlegt hlass af kerfli, felldi eitt tré og hjó þriðjung af greinum annars. Garðurinn er allur annar á eftir. Svo hef ég verið að reyna að vinna en það er svolítið erfitt. Ég fer í sumarfrí í næstu viku og ég veit ég næ ekki að klára það sem ég er að reyna að gera og einhvern veginn verður það alveg til að stoppa mig af. Ég sest samt niður og reyni.

Eitthvað hef ég þó verið að líta í Kýklópinn – sem er næsti kafli Ulysses. Og horfa á bíómyndir. Fór á nýju Wes Anderson myndina í fyrrakvöld – The Phoenician Scheme – einsog með síðustu, Asteroid City, þá hefur henni víst ekkert verið alltof vel tekið en báðar þóttu mér afbragð. Ekki veit ég hvað það er sem fólk er ekki að sjá. En eitthvað er það. Kannski finnst fólki bara að það þurfi að skilja alla hluti – það finnst mér ekki. Mér getur alveg þótt gaman að lesa aftur og horfa aftur og skilja meira. En það truflar mig ekki neitt þótt eitthvað sé bara óskiljanlegt. Þannig er það líka í lífinu. Það er mjög margt sem ég skil ekki.

Í gærkvöldi horfði ég á American Beauty og spurði sjálfan mig hvort Kevin Spacey hefði verið svona góður í öllu sem hann gerði. Eða hvort mér þætti hann bara svona svakalegur af því það er auka-spenna í kringum hann út af skandölum einkalífsins. Einsog eitthvað undarlegt krydd. Hann er allavega alveg rosalegur í þessari mynd. Maður hefur í senn enga og alla samúð með honum – allt í botni og allt á botninum, dásamlegi aumingi, frjálsi sjálfhverfusjúklingur, hvataþræll úr böndum, skemmtilegasti og leiðinlegasti maðurinn í öllum samkvæmum.

Og svo af því ég var ekki kominn með nóg af miðaldra körlum sem þrá menntaskólastelpur sem þrá þá á móti horfði ég 25th hour. Þar er sá þráður reyndar ekki í fókus – Anna Paquin að reyna við ó-til-misviljugan Philip Seymour Hoffmann bara hliðarspor í sögunni um eiturlyfjasalann sem er á leiðinni í fangelsi. Það eru til margar kvikmyndir sem fjalla um eiturlyfjasala sem enda á því að eiturlyfjasalinn næst. Og það er til hellingur af myndum sem gerast í fangelsi. En það eru fáar sem gerast í bilinu þarna á milli – frá því hann næst og er dæmdur og þar til hann fer inn. Þetta er svona kveðjumynd – maður að yfirgefa líf sitt. Og kannski er hliðarsporið með Önnu og PSH önnur leið til þess að sýna okkur hversu lítið skilur að feigan og ófeigan – ef hann lætur freistast gæti hann glatað öllu einsog vinur hans. Þriðji vinurinn er svo hlutabréfasali sem manni finnst eiginlega alveg jafn mikið eyðileggingarafl – en hann er líka sá sem dæmir eiturlyfjasalann harðast. Þar er líka áhugaverð speglun.

***

Ég fór á frábæra djasstónleika í Hömrum á sunnudag. Bassaleikarinn Sigmar Þór Matthíasson fór þar fyrir sveit sem innihélt Inga Bjarna Skúlason á píanó, Hauk Gröndal á klarinett, Magnús Tryggvason Eliasen á trommur og Ásgeir Ásgeirsson á oud. Ég keypti plötu og sá eftir því einu að hafa ekki keypt tvær en ég var búinn að bjóða tveimur með mér og þetta var að verða svolítið dýrt.

***

Enn eitt árið missti ég af Skjaldborg. Sennilega hefði ég farið a.m.k. einn dag ef Nadja hefði farið fyrir helgi – en hún fór á laugardag og hefði ekki komist með mér og það hefði verið glatað að fara frá henni. Hvernig ætli fari annars fyrir Blús milli fjalls og fjöru – það er hátíð sem ég hef heldur aldrei komist á. Maðurinn á bakvið hana hét Palli – Spursari sem ég fór í nokkrar fótboltaferðir með, á meðan við pabbi vorum enn að láta sjá okkur í London af og til – og hann varð bráðkvaddur um daginn.

***

Orri Harðar er líka látinn. Orri var mikill öðlingur einsog ég held að allir sem hann þekktu geti borið vitni um. Og hafi gert, bæði síðustu daga og þennan tíma sem hann hefur verið veikur. Ég þekkti Orra mest úr fjarlægð. Hann bað mig að lesa yfir fyrir sig bækur – fyrst Alkasamfélagið og svo skáldsögurnar tvær, Stundarfró og Endurfundi. Mér fannst hann alltaðþví roskinn þá – eldri maður að söðla um. Hann var 36 ára þegar Alkasamfélagið kom út, ekki nema 6 árum eldri en ég.

Svo hitti ég hann stundum á förnum vegi. Fyrst fullan og svo edrú og svo aftur fullan og loks bara edrú í mörg ár. Þegar ég gaf út lag í tengslum við Frankensleiki fékk ég hann til að mastera það fyrir mig – sem hann gerði án þess að rukka krónu fyrir, vel að merkja, bara vessgú góði vin, takk fyrir og gúdd lökk.

***

Í sömu viku fóru Sly Stone og Brian Wilson. Þeir voru svo sem komnir á tíma – þrjátíu árum eldri en Orri. En það má minnast þeirra fyrir því.