Minn stærsti galli

Ég gerði þau mistök í vikunni að pikka fæting á Facebook. Sjálfsagt var það ekki alveg óþarft en ég nennti því samt ekki fyrir rest. Þetta formatt er eiginlega hannað til þess að maður endi einn á móti öllum – nema maður sé að segja eitthvað svo fullkomlega sjálfsagt að það er óþarfi að hafa orð á því (sem er mjög mikið gert auðvitað, enda vinsælt). En maður leiðréttir ekki internetið. Og eiginlega sannfærir maður heldur ekki fólk um neitt – fólk mætir í svona rifrildi með sína afstöðu og það er alveg sama hvað hún er út úr kú (einsog að það sé eðlileg niðurstaða að 90% listamannalauna endi á höfuðborgarsvæðinu þar sem 60% fólks á heima), það bara ver hana. Einu sinni las ég um rannsókn sem sýndi því meira sem rökrætt var við fólk sem trúði ekki á gagnsemi bólusetninga og því meira sem þeim voru sýndar niðurstöður rannsókna, því ólíklegri voru þau til að láta af skoðunum sínum. Þetta gildir um margt fleira.

Hér eru líka hagsmunir í húfi, og forréttindi. Höfuðborgin er mikil menningarborg vegna þess að að því er hlúð. Fólk óttast að verði hlúð að öðru missi það sjálft spón úr aski sínum – að stærð þess sé einungis til í samhengi við smæð annarra. Það er gömul saga og ný.

En ég er þreyttur á rifrildum. Nenni ekki að vera „fávitinn“ í samræðum annarra. Ég hef nefnt það áður, að mér fannst þetta einu sinni gaman. Kannski trúði ég því þá að það gerði meira gagn. En fyrst og fremst er óþolið meira. Ég var að reyna að orða þetta fyrir sjálfum mér og fannst þá einsog þetta snerist líka um óþol fyrir ósamræmi milli þess sem ég býst við af fólki og það sem ég fæ að heyra. Að ég hreinlega trúi því varla að fólk sé að segja hlutina sem það segir. Að það standi við eigin niðurstöður. Og gremjan snýst þá um að standa þarna og endurtaka: skilurðu ekki hvað þú ert að segja? Aftur og aftur. Einsog maður búist við því að fólk fatti það – og segi eitthvað á borð við: „Ó, nei, það er ekki það sem ég var að meina“ eða „ah, ég mislas upplýsingarnar, nú skil ég betur“. En fólk skilur alveg hvað það er að segja. Og meinar það.

Vandi minn er þá fólginn í því að læra að viðurkenna fyrir sjálfum mér að stundum sé fólk bara hálfvitar. Að það meini sennilega ekki vel. Sem er auðvitað ekki eitthvað sem er gott að segja í samræðum samt. Því væri ekki „vel tekið“.

Það versta við mig er sem sagt óbilandi og óverðskulduð trú mín á öðru fólki. Ég væri frábær ef ég væri ekki svona hógvær.

***

Er eitthvað annað að frétta? Ég sef illa. Eru það fréttir? Ég hef verið duglegur að halda dagbók sem aftur dregur úr bloggþrótti mínum. Er maður grafóman ef maður vinnur við að skrifa? Ég skrifa allan daginn frá morgni til kvölds, nema ég sé að lesa. Eða geispa. En það þýðir ekki að ég skrifi neitt af viti. Á morgun verða skorin laufabrauð. Í næstu viku verður Shining sýnd í Ísafjarðarbíói. Þegar ég er búinn að kaupa allar jólagjafirnar verða haldin jól.

Góðar stundir.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *