Torlestur

Í gær vorum við Aino ein í kvöldmat og ég eldaði kjúkling eftir uppskrift frá vini mínum Alberti „eldar“ . Á meðan ég var að preppa og svo gera salatið þegar kjúklingurinn var kominn í ofninn horfði ég á spjall þeirra Johns Banville og Will Self – ásamt stýrlinum (hann var stýrill, frekar en spyrill, og það er eiginlega betra) Carlo Gébler um Dubliners. Self og Banville voru ekki alveg á sömu línu um gæðin í ferli Joyce – hvort hann hefði batnað eða versnað – og ég veit ekki hvort það var rétt skynjað hjá mér að Self hefði eiginlega ekki þorað að hjóla í Írann sem dæmdi eiginlega allt eftir fyrsta þriðjung Ulysses sem glatað. En þetta var fjarska gott spjall og ánægjulegt að fá afstöðu einhvers sem dýrkar Joyce en þolir ekki Ulysses. Fyrir þá sem ekki vita þá skrifaði Joyce sem sagt fjögur prósaverk. Fyrst kom Dubliners (Í Dyflinni, í þýðingu SAM) – smásagnasafn um fólk í Dyflinni. Hann sendi hana fyrst til útgefanda 1905 en hún kom ekki út fyrren 1914, út af erjum um málfar og umfjöllunarefni, aðallega í sögunni Two Gallants, sem fjallar um tvær ólystugar týpur sem ætla að féfletta „léttúðardrós“ sem annar þeirra er í tygjum við. Maður gæti sagt að þetta væri fremur „venjuleg“ bók en hún mun samt að mörgu leyti byltingarkennd í frásagnartækni og umfjöllunarefni. Í fyrsta lagi er hún um mjög „venjulegt“ fólk – ekki kónga, ekki hetjur, ekki fólk sem lifir óvenju dramatískum lífum – heldur bara fólk sem er venjulegt (en samt einstakt) og gerir venjulega hluti. (Að vísu mun Joyce hafa haldið því réttilega fram einhvern tíma að það væri ekki til neitt „venjulegt fólk“ – og segja má að bækur hans sýni það). Þá færir hann sjónarhorn bókarinnar fremur frjálslega til og beitir mikið því sem heitir á ensku „free indirect speech“ – eða frjálst óbeint ávarp og lýsir sér þannig að í miðri setningu frá ósýnilegum 3. persónu höfundi birtist formálalaust hugsun sem augljóslega tilheyrir persónunni sem er verið að segja frá. Þetta er ekki nærri því jafn torlesanlegt og maður gæti ímyndað sér. Dæmi: Hann lagði niður skófluna og þurrkaði svitann af brá sér. Myndi þessu eilífa striti aldrei linna? Það sem sagt þarf ekki að setja hugsunina í gæsalappir eða skrifa „hugsaði hann“ – við föttum þetta alveg svona, þó engin greinileg skil séu sett í textann. Joyce er ekki fyrstur til að beita þessu þótt hann hafi gert mikið af því – Jane Austen gerði þetta til dæmis mikið. Joyce gengur svolítið lengra – í því að hann fer með okkur fjær persónum sínum á milli, skapar fjarlægð til þess eins að steypa okkur svo ofan í persónurnar fljótlega síðar. Næst kemur Portrait of the Artist as a Young Man (Æskumynd listamannsins í þýðingu SAM). Hún kemur fyrst út í köflum í tímariti (1914-1915) og svo á bók ári síðar. Þetta er hálfævisöguleg skáldsaga þar sem kynnumst Stephen Dedalus, fulltrúa Joyce, og fylgjum honum í gegnum unglingsárin. Hann er miklum gáfum gæddur og þegar faðir hans, Simon Dedalus, er ekki í tómum vandræðum sækir hann jesúískan heimavistarskóla með sér talsvert ríkari drengjum. Stephen er gríðarlega trúaður en líka andsetinn af losta og smám saman flæðir þessi trúarlega og kynferðislega orka út í þrá hans að verða listamaður. Bókin er intensífari en Dubliners og höfundurinn eftirlátssamari við tungumálið – stundum brestur á með mónólógum, ræðum frá prestum eða þjáðum hugsunum Stephens, sem eru jafnvel lengri en heilu sögurnar í Dubliners. Setningarnar eru líka lengri og óstýrilátari – lýsingarnar ítarlegri, þroskaðri en líka óhóflegri – og tungumálið fylgir þroska Stephens, orðaforðinn stækkar eftir því sem líður á bókina. Will Self held ég hafi sagt að textinn í Portrait væri þannig að hann gæti verið skrifaður af færum fagurbókmenntahöfundi í dag – þarna væru uppfylltar (og kannski að miklu leyti líka skapaðar) allar þær kröfur sem við gerum til fagurbókmenntatexta á 21. öldinni. Og bætti við eitthvað á þá leið að hjá Joyce (og hugsanlega öllum alvöru nútímahöfundum) væru sögurnar ekki UM eitthvað tiltekið, heldur væru þær sjálfur hluturinn, hið tiltekna. Ulysses er frægasta verk Joyce. Hún byrjaði að koma út í köflum árið 1918, kom út í heild 1922 en var bönnuð mjög víða í hinum enskumælandi heimi – þar sem hún birtist fyrst (í löglegri útgáfu og óritskoðuð) 1934. Í sjálfu sér er söguþráðurinn einfaldur. Tveir menn, ungi drykkfelldi listamaðurinn og gáfumennið Stephen Dedalus og kokkkálaði gyðingurinn Leopold Bloom ráfa í sitthvoru lagi um Dyflinni frá morgni og fram á nótt. Þeir eru byggðir á grunni Telemakkusar og Odysseifs í Odysseifskviðu Hómers. Annar er föðurlaus – eða á vonlausan föður – og hinn sonarlaus – missti sinn eina son ellefu daga gamlan fyrir áratug – og við bíðum þess að þeir finni hvor annan, faðirinn og sonurinn. Heima hjá Bloom bíður Molly, eiginkona hans, elskhuga síns (og þetta veit Leopold). Maður eyðir gjarnan mestu tíma í að ræða frásagnartæknina í þessari bók – enda er hún gersamlega trufluð, í öllum mögulegum merkingum þess orðs, og það gerast að minnsta kosti tíu byltingar áður en yfir lýkur. Þetta er svolítið einsog sami maðurinn hefði fundið upp bíboppið, tólf tóna tónlistina, pönkið og ambient techno og sett það allt á sama tvöfalda albúmið – sem á sama tíma segði magnþrungna sögu um eðli og sorgir mannsins og rammaði inn margslunginn pólitískan veruleika fullan af augljósum og duldum átökum á meðan hann undirstrikaði og spáði fyrir um firringu nútímamannsins næstu hundrað árin. Að minnsta kosti. Þetta er þannig bók. Það slær mig fyrst núna þegar ég skrifa þetta að Dubliners, Portrait og Ulysses birtust (eða byrjuðu að birtast) á einungis fjórum árum. Dubliners kemur öll í einu 1914 og fyrstu kaflar Ulysses byrja að birtast 1918. En nærri þrír áratugir líða frá því það á fyrst að gefa Dubliners út og þar til Ulysses berst frjáls um heimsins höf (og auðvitað viðeigandi að Ulysses sé týndur í stríði og á hafi í nærri tvo áratugi, einsog nafni sinn). Finnegan’s Wake hef ég ekki lesið. Hún kom út 1939, tveimur árum áður en Joyce dó. Það tók hann 17 ár að skrifa hana og hún ku innihalda fjöldann allan af ólíkum tungumálum, auk tilbúinna orða og endalausu upplýsingaflæði – hér er Joyce farinn að innbyrða svo mikið af upplýsingum að hann ræður ekki við að lesa þær sjálfur, er með fólk í vinnu við að lesa bækur og endursegja sér mikilvægu hlutanna (ég hef séð svona þjónustur auglýstar á YouTube í dag – hræðileg hugmynd). Tungumálið á henni er mjög torskilið og hún þykir miklu erfiðari viðfangs á allan hátt en Ulysses. Hún gengur líka í hring – fyrsta setningin í henni byrjar í miðju kafi („riverrun, past Eve and Adam’s, from swerve of short to bend of bay, brings us by a commodious vicus of recirculation back to Howth Castle and Environs“) og sú síðasta er augljóslega fyrri hlutinn af sömu setningu („A way a lone a last a loved a long the“). Það er vel að merkja á dagskránni að lesa hana. Nánar um það síðar! Nema hvað. Banville sem sagt hélt því eiginlega fram að Joyce hefði farið versnandi sem höfundur og raunverulegasta snilldarverk hans væri Dubliners – hann er alls ekki einn um að finnast það, vel að merkja, þótt hann bæðist ítrekað afsökunar á þessari heresíu – og sagði að Joyce hefði misst tökin á einhverju mennsku eftir því sem leið á ferilinn. Self maldaði meira í móinn en hann mótmælti, sem er honum ólíkt – mjög þráttgjarn maður. Svo í gærkvöldi var ég staddur í samdrykkju (gr. Συμπόσιον) með tryggum lesanda þessa bloggs sem fór að spyrja mig út í bókina. Ég man ekki hvernig hann orðaði það en hann vildi vita hvort Ulysses væri eitthvað meira en vísanir og vesen – hvort fróunin væri svipaðri því að hlusta á stórfenglega tónsmíð eða leysa erfiða krossgátu. Sem er í sjálfu sér svipuð spurning og Banville hefur spurt sig fyrir fordæmingu og svarað alveg öfugt við mig – sem finnst síðustu tveir þriðjungarnir á Ulysses vera þeir „mennskustu“. Þótt fyrsta senan með Bloom um morguninn í fjórða kafla sé raunar með því fallegasta sem ég hef lesið þá erum við enn svo langt frá honum. Þegar við erum farin að upplifa þrár hans í Nausicaa kaflanum eða komin ofan í óraplágur hans í hinu endalausa karnivali í kaflanum Circe – þvílíkt kaþarsis! – og fylgjumst svo með honum skríða aftur upp í hjá Molly sinni í Íþöku – þá erum við, einsog einhver orðaði það, farin að þekkja Bloom betur en við þekkjum nokkurn annan, að meðtöldum okkur sjálfum. Og ef það er ekki mennskt, menscht, human þá er engin mennska til. En svo er þetta auðvitað persónulegt og spurning um einhvern bakgrunn – hvað hefur maður lesið, hvað er maður vanur að lesa, hvers krefst maður af lestrarupplifuninni og hvað er dílbreiker. Það er sannarlega ýmislegt sem flækir lestur Ulysses og stundum er þetta einsog að ráfa um í myrkum helli án vasaljóss (en ef maður vill er nóg af vasaljósum til ). Fyrir sumum er djass eða pönk líka bara hávaði á meðan fyrir öðrum eru þau æðst lista, fegurst í ómstríðleika sínum og færust um að tjá angist og unað hins mannlega ástands, og langdýpst í sinni empatíu (þess má geta að áðurnefndur tryggur lesandi er mikill djasshaus en þolir ekki pönk). Ég hef tvisvar lesið Dubliners. Fyrst fyrir 25 árum og svo aftur um daginn, beint í kjölfarið á Ulysses – og ég rek mig á að ég hef eiginlega farið of áreynslulaust í gegnum hana og þar með gleymt sögunum óþarflega hratt. Ég bara svona sporðrenndi henni án þess að finna af henni bragðið almennilega. Sem er auðvitað alls ekki nógu gott – og ég ætla að lesa hana aftur mjög fljótlega til þess að bæta upp fyrir þetta.