Völundarhús Rorschachs

Djasshausinn úr síðustu færslu var æfur eftir endursögn mína á forvitni hans um Ulysses í samdrykkjunni (gr. Συμπόσιον) á mánudagskvöld. Ég sagði einsog glöggustu lesendur minnast að hann hefði spurt hvort það væri eitthvað meira í henni en „vísanir og vesen“ – sem var í sjálfu sér hluti þess sem hann sagði – en ég sleppti úr því sem honum þótti vera lykilhluti spurningarinnar, og sneri að því hvort verk af þessu tagi væru kannski áþekk blekklessuprófum heilsugæsluforstjórans Hermanns Rorschachs. Klessur þær eru af sama tagi og klessan í andliti teiknimyndasögupersónunnar Rorschachs sem má sjá kúra sig ofan í Ulysses á myndinni sem fylgir þessari færslu. Um þessi próf segir Vísindavefurinn meðal annars: Rorschach-prófið er stundum notað af klínískum sálfræðingum, geðlæknum eða öðrum klínískum sérfræðingum til að reyna að skyggnast inn í hugarheim skjólstæðinga sinna, kynnast tilfinningum þeirra og löngunum og kanna tengsl þeirra við aðra. Sérfræðingurinn gæti sagt eitthvað á þessa leið: „Fólk sér ýmiss konar hluti út úr þessum myndum. Segðu mér hvað þú sérð, hvaða hugsanir það vekur og hvað þær tákna fyrir þig.“ Sérfræðingurinn reynir svo að finna þemu í svörum fólks, til að mynda hvort þau snúist flest um ofbeldi, kvíða eða kynlíf. Einnig athugar hann hvort fólk veiti smáatriðum myndanna athygli eða horfi fremur á heildarmyndina, og hvort fólk hiki við að svara hvað því detti í hug þegar það sér vissar myndir. Hvað varðar spurningu djasshaussins gekk hún út á að ákvarða hvort Ulysses væri hugsanlega svo torskilin að maður læsi bara úr textanum það sem maður vildi, enda illmögulegt að komast að því hvað rithöfundurinn meinti –  hún væri þannig meira einsog einhvers konar Rorschach-próf fyrir lengra komna. Þessu svaraði ég að mig minnir á þá leið að í raun væru öll listaverk þeim galdri gædd að við læsum sjálf merkingu í þau, bækur þyrftu ekki að vera torlesnar til þess, það ætti jafnt við um Bláu könnuna og Ulysses. Kannski tökum við því sem gefnu þegar við lesum Bláu könnuna að okkur sé frjálst að túlka hana að eigin vilja og færa rök fyrir því út frá því sem stendur í bókinni einmitt vegna þess að við eigum gott með að ná utan um allt sem í henni stendur – annars vegar vegna þess að hún er a.m.k. við fyrstu sýn frekar hrein og beint og hins vegar vegna þess að hún er svo stutt að jafnvel minnislausir fábjánar einsog ég gætu sennilega lagt hana alla á minnið á innan við korteri. Rorschachprófið er hins vegar ekki hreint og beint – frekar en Ulysses – og þess vegna þarf að gera fólki ljóst fyrirfram að það eru engin rétt og röng svör. Ef blekklessan minnir þig á magðalenukökurnar sem móðir þín færði þér einu sinni í rúmið er það bara rétt – og skiptir engu þótt þær minni næsta mann á hirðfífl úr barnæsku þess, einhvern taumlausan galgopa sem hafi djöflast með hann á bakinu. Svo einfalt er það yfirleitt ekki í listum – og nánast aldrei í löngum prósaverkum. Lausnirnar eru kannski ekki algildar, og stundum eru þær mjög loðnar, en þær eru til staðar. Kaflarnir í Ulysses byggja t.d. mismikið á ólíkum þáttum Odysseifskviðu og þeir gera það á ólíkan máta – Sírenukaflinn er í einhverjum skilningi hálfgert hljóðaljóð, á meðan Kýklópurinn birtist sem æfur þjóðernissinni og Odysseifur fer aldrei að Villuhömrum þótt Ulysses noti tækifærið. Stephen Dedalus ER heldur ekki Telemakkus og Leopold Bloom ER ekki Odysseifur – þeir eru ekki heldur Hamlet og Kládíus, James Joyce og faðir hans, Guð og Jesús – þeir eru bara Dedalus og Bloom. (Dedalus er heldur ekki James Joyce en það segir okkur eitthvað um Joyce að hann hafi valið alter-egói sínu nafn frægasta völundarhússmiðs goðafræðinnar – sem smíðaði líka vængi Íkarusar, sem notandinn skemmdi með gáleysislegri túlkun á notkunarmöguleikum þeirra). En okkur er boðið að spegla aðstæður þeirra og þá sjálfa í öðrum aðstæðum og öðrum sögupersónum – að bera þetta saman. Þetta er sérstaklega relevant þegar James Joyce er annars vegar vegna þess að hann beitti parallax (snara: „sýndarhliðrun, breyting á afstöðu tiltekins hlutar til annarra hluta þegar hann er skoðaður frá mismunandi stöðum“) grimmt í bókum sínum – ekki síst með því að sýna okkur sama atburðinn oftar en einu sinni, en líka með því að raða örlögum söguhetja sinna ofan á örlög annarra söguhetja. Án ólíkra sjónarhorna verður engin sýndarhliðrun – og án hennar engin dýpt (eða a.m.k. ekki jafn mikil). Tökum sem dæmi tvær frægar senur úr sitthvorri bókinni. Ég hef áður fjallað um Násikusenuna þegar Leopold Bloom starir á Gerty McDowell á ströndinni – senan er skrifuð út frá Gerty sem nýtur þess að láta horfa á sig, og beygir sig meira að segja fram svo Bloom sjái upp um pilsið á henni, meðan hann fróar sér og fær það um leið og það hefst flugeldasýning niðri í bæ (þetta er kaflinn sem Ulysses var upphaflega bönnuð vegna – svo komu aðrir enn verri). Í The Portrait of the Artist as a Young Man er svo sena þar sem Stephen Dedalus ráfar niður á strönd í mikilli tilvistarkrísu. Eftir að hafa skriftað mjög hressilega um lostafullar hugsanir sínar og gjörðir og eignast þar með endurnýjað tækifæri til himnaríkisvistar í framtíðinni gerist hann um hríð ógurlega guðrækinn, af umhyggju fyrir ódauðlegri sálu sinni, enda þykist hann vita að þótt hann fari ekki til helvítis verði dvölin í hreinsunareldinum varla stutt. Svo vel gengur honum í þessari guðrækni að jesúítarnir sem reka skólann taka hann á endanum á eintal og spyrja hvort hugsast geti að hann hafi verið útvalinn af Guði til þess að gerast prestur. Í fyrstu ölvast hann af tilhugsuninni en boðið verður samt á endanum til þess að hann lætur af guðrækninni – hann áttar sig á því að þetta er ekki eðli hans, hann hefur verið að gera sér þetta upp, hann mun falla (og kannski eru prestarnir heldur ekkert merkilegir). Það er í þessu ástandi sem hann kemur niður á strönd og sér þar stúlku sem hefur vaðið út í sjó og er með pilsið upp um sig – langt upp á mjaðmir. Stephen hefur ekki svo mikið sem litið framan í kvenkyns veru vikum saman – hann hefur horft niður fyrir sig þegar hann gengur eftir götum og gætt sín að öllu leyti að láta ekki lostann ná tökum á sér. Og það er ekki beinlínis losti sem heltekur hann þarna á ströndinni, frammi fyrir þessum lærum, heldur einhver hugmynd um fegurðina. Hann horfir á hana – hlutgerir hana – í dálitla stund. Svo verður hún vör við hann: She was alone and still, gazing out to sea; and when she felt his presence and the worship of his eyes her eyes turned to him in quiet sufferance of his gaze, without shame or wantonness. Long, long she suffered his gaze and then quietly withdrew her eyes from his and bent them towards the stream, gently stirring the water with her foot hither and thither. The first faint noise of gently moving water broke the silence, low and faint and whispering, faint as the bells of sleep; hither and thither, hither and thither; and a faint flame trembled on her cheek.

—Heavenly God! cried Stephen’s soul, in an outburst of profane joy. Svo snýr hann sér undan og hleypur í burtu og sofnar á endanum úrvinda af ástríðu annars staðar á ströndinni. Það er á þessari stundu sem Stephen finnur köllun sína, að vera listamaður – hann bæði hafnar og fagnar lostanum, hafnar og fagnar hinu guðdómlega – „He felt above him the vast indifferent dome and the calm processes of the heavenly bodies; and the earth beneath him, the earth that had borne him, had taken him to her breast.“ Einsog að með því að játast augnaráði hans hafi stúlkan gefið honum leyfi til þess að finna til losta án þess að vera saurugur. Senuna með Bloom og Gerty má útvíkka með því að lesa hana saman við uppljómun Dedalusar – þetta er ekki sama senan, en ólík viðbrögð þeirra, sextán ára unglingsins og fertuga karlsins (sem hafa báðir óþroskaðar langanir til þess að skrifa) við „holdsins lystisemdum“ segja eitthvað um persónuleika þeirra og aðstæður. En það er ekki heldur neitt „rétt svar“ í þeim samlestri – bara stækkun myndlíkingarinnar og nokkrar áberandi spurningar um samband hafs og erótíkur, um hold og klæðnað, sjálfsstjórn og hedónisma, list og losta og bælingu. Og þar sem að Gerty kaflinn byggir á Násikukaflanum í Odysseifskviðu er alveg spurning hvort það megi líka lesa „fuglastúlku“-kaflann í Portrettinu út frá Násiku – að mörgu leyti passar hann nefnilega betur. Eftir að Odysseifur sleppur frá Kalypsó, sem hefur haldið hann sem elskhuga í sjö ár, lendir hann í sjávarháska og skolar loks upp á eyjunni Skerju, þar sem Feakar eiga heima. Þar ræður ríkjum Alkinóus nokkur og á hann dóttur sem heitir Násíka. Stríðsgyðjan Aþena, sem er að reyna að koma Odysseifi heim til sín í trássi við vilja Neptúnusar, fer að hitta unglingsstúlkuna Násíku og segir henni að fara niður á strönd (ekki reyndar fyrren hún er búin að skamma hana fyrir að taka aldrei til í herberginu sínu!) Þar finnur Násíka Odysseif nakinn og fer með hann til föður síns, þar sem hann rekur sögu sína frá því Trójustríðinu lauk (hér koma sögurnar um kýklópana og sírenurnar og lótusæturnar og allt hitt). Þegar hann hefur sagt sínar sögur fær Alkinóuss honum skip og hann kemst loksins heim. Násíka og Odysseifur fella vel að merkja hugi saman en Odysseifur lætur ekki freistast – hann á konu heima sem bíður og skilur hana eftir með góð ráð um það hvernig velja skuli annan mann. Hér finnst mér Dedalus og Odysseifur að mörgu leyti líkari en Bloom og Odysseifur. Í fyrsta lagi af því Dedalus fellur ekki í freistni þótt hann felli hug til stúlkunnar en ekki síst vegna þess að þessi atburður verður í báðum tilvikum til þess að Dedalus/Odysseifur fer og segir heiminum/Feökum sögur sínar. Og það verður þeim til frelsunar. Þá má sjá Trójustríðið sem lostatímabil Dedalusar, veruna hjá Kalypsó sem guðræknitímabilið og sjávarháskann sem tilvistarkrísuna sem skolar honum upp á þessa strönd. Það þarf kraftmeiri túlkun – meira Rorschach – til að koma Bloom hérna fyrir. Svo er auðvitað líka áhugavert að í báðum dæmum hjá Joyce er það nekt stúlkunnar sem vekur losta – en hjá Hómer er það nekt mannsins sem vekur ógn (vinkonur Násiku flýja) sem stúlkan yfirstígur. En raunar má sjá heilmikla storkun við samfélagsleg gildi – og hugrekki – í því hvernig Gerty sýnir upp um sig og því hvernig fuglastúlkan horfir á Dedalus til baka og fylgist með tignun hans án skammar eða girndar. Hvað segir þetta okkur um Hermann Rorschach? Sennilega ekki nokkurn skapaðan hlut. TL;DR útgáfan af þessari færslu er að auðvitað sé list túlkanleg en hún sé þó tilraun til að vekja ákveðið samhengi og hugrenningartengsl frekar en bara eitthvað samhengi og einhver hugrenningartengsl. Og hún á helst ekki að hafa eina afmarkaða merkingu – merking skáldsögu verður til í samstarfi við lesandann og best er ef báðir leggja sig svolítið fram. Og Joyce lagði sig mikið fram.