Ulysses: Kalypsó

Ramminn á Ulysses-púslinu samansettur.

Ég hef nefnt að Kalypsó væri eftirlætiskaflinn minn í Ulysses. Frásagnaraðferðin er passlega brjáluð og talsverður léttir eftir erfiðan Proteus, þar sem intellekt hins unga Stephens fær að skríða í yfirgír. Og það sem meira er, í Kalypsó kynnumst við líka fyrst aðalsöguhetju bókarinnar, auglýsingasölumanninum Leopold Bloom, sem og eiginkonu hans, söngkonunni Molly – sem er einhvers konar nöf í bókinni, eða hjarta hreinlega, viðfang lengst af en fær svo að vera innilegasta og kannski byltingarkenndasta persónan fyrir rest. En það er þessi rólegi, hlýi, snjalli og passlega pervertíski hugur hans Leopold Blooms sem birtist hér – og það er af honum sem ég hrífst. Frásagnaraðferð Joyce – að skjóta inn hugsunum hér og þar, oft án þess að útskýra við hvað þær eigi, og taka þær svo aftur upp aftur af og til í skeytastíl – gerir tvennt. Annars vegar birtist heildarmyndin af sögunni hægt sem veldur því líka að þegar hún er kominn á skrið er skriðþunginn mikill. Hins vegar þá performerar hún miklu eðlilegri upplifun af heiminum en gerist í hefðbundnum skáldsögum og því fylgir alveg furðulega mikil nánd – þegar maður er kominn inn. Manni finnst ekki bara að maður þekki Leopold Bloom þegar maður er búinn með Ulysses, eða að maður hafi leikið hann – manni finnst pínulítið einsog maður hafi verið hann. Það eru töfrar.

Leopold og Molly búa á Eccles stræti nr. 7. Leopold er nývaknaður, stendur í eldhúsinu, hugsar til morgunverðar og sinnir kettinum – og fílósóferar um ketti einsog hann fílósóferar um allt, hversdagslega og mótsagnakennt og vinalega en án þess að ritskoða sig. Fyrst segir hann ótrúlegt að fólk telji ketti vitlausa, hún sem skynjar allt, hugsar hann, en í næstu setningu segir hann köttinn alveg hræðilega vitlausan. Og sér enga ástæðu til þess að hafa orð um mótsagnakenndar hugsanir sínar.

Molly liggur í rúminu – og sést raunar lítið annars staðar alla bókina. Leopold spyr hvort hún vilji eitthvað í morgunmat og hún svarar með einhverju muldri „mn“ og raunar má halda því til haga að kötturinn svarar honum með álíka mjálmi svo enginn talar við Leopold með orðum fyrstu síðurnar, þótt hann tali og aðrir svari með sínum hætti. Og þótt Molly og kötturinn muldri bara og mjálmi þá skilur Leopold alltaf hvað þau eru að reyna að segja. Hans helsta karaktereinkenni – ofan í lágværa skömm og greddu – er samlíðan, þolinmæði og skilningur gagnvart verum heimsins og þeirra mjálmi.

Muldur Mollyar þýðir nei, hún vill ekkert (mjálm kattarins var já, ég er svangur). En Leopold, sem hefur kaflann á að lýsa dálæti sínu á innyflamat, ákveður að fara til slátrarans til að kaupa sér svínsnýra sem hann hyggst steikja með smjöri og pipar. Slátrarinn er, vel að merkja sennilega gyðingur – og selur samt svínsnýru – og Leopold er sjálfur af gyðingaættum í föðurætt og á það eftir að skipta máli í sögunni.

Hjá slátraranum kynnumst við fyrst holdlegum fýsnum Leopolds sem horfir á konuna fyrir framan sig í röðinni með sinni sérstöku tegund af greddu, sem er einhvern veginn alltaf í senn kurteisleg og ruddaleg (Woods er nafnið á vinnuveitanda stúlkunnar, sem hann virðist kannast við – en það er líka standpína, hér og síðar).

His eyes rested on her vigorous hips. Woods his name is.
Wonder what he does. Wife is oldfish. New blood. No followers allowed.
Strong pair of arms. Whacking a carpet on the clothesline. She does whack it, by George. The way her crooked skirt swings at each whack.

The ferreteyed porkbutcher folded the sausages he had snipped off with
blotchy fingers, sausagepink. Sound meat there like a stallfed heifer.

Þetta er mjög holdlegt allt án þess að Leopold sé mikið að tala um hana beint. Viðurinn. Nýtt blóð. Flengingarnar. Pylsur og pylsulitir fingur. „Beinlaust hold þarna, einsog á stríðaldri kvígu“ (einsog það er´ í þýðingu SAM). Örlitlu síðar beinir hann orðum sínum beint að henni – þegar hann langar að drífa sig og elta hana út til að geta horft á eftir henni – „behind her moving hams. Pleasant thing to see first thing in the morning.“

Leopold er dálítið með kynlíf á heilanum. Það skýrist að hluta af því að þau Molly hafa ekki átt holdlegt samneyti frá því þau misstu nýfæddan son sinn, Rudy, ellefu árum fyrr, og sorgin sem því fylgir veldur því að Leopold óttast að eignast annað barn. Það er gefið í skyn að hið sama gildi um Molly en hún virðist ekki láta óttann stoppa sig (og raunar er ekki ólíklegt að Leopold finni ekki til sama ótta gagnvart öðrum konum – en hann er engu að síður uppteknari af að horfa og að eiga í fjarsamböndum).

Það er einhvers konar masókisti líka í Leopold – ekki bara í mottuflengingarfantasíunum. Þegar stúlkan hjá slátraranum er horfin án þess að gefa honum auga til baka hugsar hann: „The sting of disregard glowed to weak pleasure within his breast.“ Og í upphafi kaflans þegar hann er að tala um hvað hann elski innyflamat endar hann málsgreinina á orðunum: „Most of all he liked mutton kidneys which gave to his palate a fine tang of faintly scented urine.“ Þráin og nautnin í Leopold eru alltaf blönduð einhverju létt pervertísku – einhverju blæti – og það er alltaf dálítil bæling með líka. Á leiðinni heim þráir hann líka að komast aftur í návígi við hold Mollyar – sem hann mun samt ekki snerta. Hann langar að langa og langar að neita sér um úrlausn sinna fýsna.

Þegar Leopold kemur aftur heim bíða tvö bréf og eitt póstkort í anddyrinu. Annað bréfið og póstkortið eru frá Milly, dóttur Leopolds og Molly – bréfið til pabba en póstkortið til mömmu. Hitt bréfið er frá Blazes Boylan sem er kaupsýslumaður og umboðsmaður og verðandi elskhugi Mollyar. Það er margoft gefið í skyn að Leopold geri sér grein fyrir að þau séu að draga sig saman og hann er af einhverjum orsökum ekki beinlínis mótfallinn því, þótt hann sé kannski ekki heldur hrifinn af því. Hugsanlega er það vegna væntumþykju fyrir Molly, hugsanlega vegna þess að hann hafi haldið framhjá sjálfur og sé með samviskubit, hugsanlega vegna þess að þetta framhjáhald sé bara allt orðið normalíserað, hugsanlega bara af því hann er masókisti. Í bréfinu kemur fram að Blazes sé væntanlegur klukkan 16 (þessi kafli gerist sirka milli 8 og 9 að morgni).

Molly er vel að merkja minniháttar stjarna. Hún er söngkona á leiðinni á túr með Blazes. Það virðast allir í bókinni þekkja til hennar og margir dást að henni og hugsanlega þrá hana og einhverjir telja sig kannski vita að Leopold sé kokkáll – það er reglulega gefið í skyn. Hún þykir enn afar fögur – hún er 33 ára (en Leopold 38).

Leopold spyr hvað hún eigi að syngja og hún nefnir La Ci Darem – sem er tælingarsöngur úr Don Giovanni – og Love’s Old Sweet Song sem er lag um að jafnvel hin þreyttu og öldnu þurfi að elska.

Molly er búin að lesa bók sem heitir Ruby, Pride of the Ring – sem er ekki raunveruleg en mun eiga sér fyrirmynd í sögu um stúlku sem er misnotuð í sirkus – og biður Leopold að útskýra fyrir sér orð sem hún rakst á í bókinni – metempsychosis –  sálflutning þann sem á sér stað við endurholdgun. Leopold útskýrir það en man ekki orðið „reincarnation“ fyrren seinna. Svo biður hún hann að útvega sér nýja bók eftir sama höfund.

Molly biður svo Leopold að útvega sér „aðra bók“ eftir mann sem heitir Paul de Kock („nice name“ segir hún, sem er talsvert óbældari en maður hennar). Sá var franskur metsöluhöfundur sem skrifaði bókmenntir sem þóttu heldur ómerkilegar – þunnildisleg afþreying – en vakti sennilega öfund meðal kollega sinna því bæði Dostójevskí og Thackeray sáu sér ástæðu til þess að hreyta í hann ónotum (ein af söguhetjum Dostó í Fátæku fólki segir meira að segja að bækur Paul de Kocks séu ekki „við hæfi kvenna“ – sem gerir hann auðvitað að viðeigandi höfundi fyrir Molly).

Bæði Ruby og de Kock eiga eftir að skjóta upp kollinum í hugsunum Leopolds yfir daginn.

Nýrað er farið að brenna á pönnunni þegar Leopold stekkur aftur niður í eldhús. Þar tekur hann til morgunverðinn og les bréfið frá dóttur sinni. Milly, 15 ára, er í Mulligar á ljósmyndanámskeiði. Hún hefur það gott á námskeiðinu, hefur kynnst dreng og Leopold veltir því fyrir sér hvort hún sé byrjuð að gera dodo með strákum.

Í lok kaflans tekur Leopold með sér tímarit á kamarinn. Þar kúkar hann „í hægðum sínum“, fremur grafískt, og les smásögu í blaðinu. Hann öfundar höfundinn af höfundalaununum og lætur sig dreyma um að skrifa sjálfur í blaðið – jafnvel með Molly. Þannig á hann, einsog Stephen, sína eigin skáldadrauma.

Quietly he read, restraining himself, the first column and, yielding but resisting, he began the second. Midway, his last resistance yielding, he allowed his bowels to ease themselves quietly as he read, reading still patiently that slight constipation of yesterday quote gone. Hope it’s not too big bring on piles again.

Þeir draumar botna þó í því að Leopold rífur söguna úr blaðinu og skeinir sér með henni. Ef það er ekki táknrænt fyrir eitthvað þá er ekkert táknrænt fyrir neitt.

Kaflinn endar á orðunum „Poor Dignam“ – sá hefur verið nefndur tvisvar á hlaupum – klukkan 11 ætlar Leopold að fara í jarðarför þessa kunningja síns. Af þeim sökum endar Leopold lyklalaus – lyklarnir eru í hversdagsbuxunum – einsog Stephen (sem lætur Buck Mulligan fá sinn lykil).

Í Kalypsó hluta Ódysseifskviðu lendir Ódysseifur – sem er að reyna að komast heim til Íþöku – hjá dísinni Kalypsó sem heldur honum föstum og býður honum eilíft líf í skiptum fyrir að vera hjá sér. Hún heldur honum föngnum í heil sjö ár og neyðir hann til að sofa hjá sér. Það er ýmislegt sem rímar í þessum frásögum þótt allt krefjist það dálítilla túlkunarfimleika. Maður upplifir Leopold ekki beinlínis fastan í hjónabandi sínu – nema að svo miklu leyti sem allir eru fastir í hjónabandi kaþólskunnar á þessum tíma – og ekki neyðir Molly hann til samræðis. Auk þess er Eccles stræti augljóslega ekki bara eyja Kalypsó heldur líka Íþaka – þangað stefnir hann aftur. Ódysseifur er að koma heim úr Trójustríðinu en Leopold hefur ferðalag sitt á sama stað og það endar. En kannski sér Joyce hjónabandið sem kalypsóskt ástand og Leopold sem mann sem er meðvirkur með örlögum sínum – ófær um að sjá kvöl sína öðruvísi en sem nautn. Í Ódysseifskviðu grípa guðirnir inn í og láta Kalypsó sleppa Ódysseifi en í Ulysses fer Leopold einfaldlega af stað til að sinna erindum dagsins – ekki síst þessari jarðarför hans Dignams. Kannski er það dauðinn að frelsa hann. Dauðinn sem vili guðanna.

Hvað sem því líður er hann lagður af stað.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *