Eólus: Mótvindar frelsis

Hér er ýmislegt að gerast. Það glittir í kýklóp. Sítrónusápan hvílir í lundi. Fólkið við vitann er Molly og Leopold á sínu fyrsta stefnumóti löngu áður. Samuel Beckett stendur uppi á húsi. Þar beint fyrir ofan eru skrifstofur Freeman’s Journal og Evening Telegraph. Molly hvílir í rúmi sínu og Bloom tekur til morgunmatinn. Séra Conmee er á stjái. Bókin The Sweets of Sin stendur opin. Í vinstra horninu niðri eru Flann O’Brien og fleiri rithöfundar á frægri ferð um söguslóðir Ulysses sem endaði á einhverjum afar viskílegnum villigötum. Þá er þetta Bloom þarna undir blóminu stóra með bréfið frá Mörthu í höndunum.

Ég segi ekki að það erfiðasta við Aeolus sé að stafsetja heitið á kaflanum rétt en það er allavega á topp fimm listanum. Ef marka má árangur minn (ég kíki alltaf og leiðrétti en virðist ekki geta gert þetta rétt í fyrsta skipti). Enda hefur Sveinbjörn ákveðið að kalla manninn bara Eólus. Hippótesson. Ástvin hinna ódauðlegu guða.

Í kviðu Hómers segir frá því er Ódysseifur hittir vindguðinn Eólus. Eólus gefur Ódysseifi poka fullan af mótvindi sem þá hindrar hann ekki á heimleiðinni – og sendir góðan vestanvind á eftir honum. Þetta er vel að merkja fljótlega eftir að Trójustríðinu l´ýkur, rétt eftir að Ódysseifur sleppur frá kýklópnum Pólyfemusi. Með hjálp hagstæðra vinda sækist ferðin vel og þegar Íþaka er í sjónmáli ákveður Ódysseifur – illu heilli fyrir sig en góðu heilli fyrir sadíska lesendur ævintýra – að fá sér bara ogguponsu lúr. Á meðan lúrnum stendur kíkja skipverjar í pokann, af því þeir telja að þar megi finna fjársjóð, með þeim afleiðingum að mótvindarnir sleppa út og skipið feykist alla leið aftur til baka. Eólus finnst þetta ekki fyndið – „goðagremi veldur því, að þú ert hingað kominn“ – og neitar að hjálpa Ódysseifi frekar. Enn eru sjö ár í að Ódysseifur komist heim.

Sögusvið Eólusarkafla Joyce eru skrifstofur The Freeman’s Journal og The Evening Telegraph – morgunblaðið og síðdegisblaðið deila kontór. Vindur er aðalhreyfiafl og höfuðmyndlíking kaflans. Vindurinn feykir fólki inn og út úr herbergjum. Það er stanslaus umgangur og erfitt að fylgjast með hverjir eru inni á sviðinu. Fólkið sem þeytist fram og til baka blæs líka út úr sér heilum ósköpum af heitu lofti og gaspri og það eru gjarnan fleiri en ein samræða að eiga sér stað samtímis.

Bloom er hins vegar blásið áfram af launaþörfinni – auglýsingasalan er greinilega illa launað skítadjobb og hann ræður litlu og enginn ber minnstu virðingu fyrir honum. En það eru þannig störf sem feykja manni af mestum krafti, störfin sem maður hefur ekki efni á að missa.

Ulysses er í eina af sínum fjölmörgu röndum saga um framfarir og nútíma. Og það hvernig nútíminn tekur við af fortíðinni, breytir venjum og hefðum og hugsunarhætti. Og hún boðar framtíðina sem mun gera það sama við nútímann og hann gerði við fortíðina. Valta yfir hann. Það eru fáir höfundar á þessum tíma – 1914-1922 – sem skrifa af sama áhuga fyrir tækninýjungum og Joyce. Einsog við sáum í síðasta kafla er aðalsöguhetjan, Leopold Bloom, t.d. áhugamaður um vélvæðingu dauðans – og sennilega einlægur í þeim áhuga þótt Joyce sé kannski pínu að gera gys líka. Hér örlar hins vegar fyrir því að Bloom dáist ekki bara að tækninni heldur fyrirlíti eða óttist hana líka. Í prentsmiðjunni kemur til dæmis þessi kafli:

Machines. Smash a man to atoms if they got him caught. Rule the world today.

Örskömmu síðar bætir hann við þessari lýsingu á vélunum:

The machines clanked in threefour time. Thump, thump, thump. Now if he got paralysed there and no one knew how to stop them they’d clank on and on the same, print it over and over and up and back.

Tveimur blaðsíðum síðar koma prentvélarnar enn eina ferðina inn og þá er einsog Bloom sé farinn að skilja þær.

Sllt. Almost human the way it sllt call to attention. Doing its level best to speak. That door too sllt creaking, asking to be shut. Everything speaks in its own way. Sllt.

Ég held að þetta „sllt“ hljóð hljóti að vera skurðarvél. Hvað um það. Í fjórða kafla bókarinnar, þegar við hittum Bloom, á hann í samskiptum fyrst við köttinn sinn sem mjálmar og svo við Molly, sem muldrar orðaleysur – og alltaf skilur Bloom það sem við hann er sagt þótt orðin sé ekki að finna í orðabókum. Hér er undirstrikuð mennska Blooms og þörf hans fyrir tengsl, fyrir að skilja heiminn – en líka lýst ákveðinni kenningu um lestur: Kannski er ekki hægt að lesa (Ulysses/neitt) nema maður treysti eigin innsæi til að túlka upplýsingarnar sem maður fær.

Yfirgengilegur textaveruleiki aldamótanna 1900 tröllríður auðvitað bókinni. Það var ekki að dagblöð og auglýsingar væru nýmæli, þótt ekki væru þau mjög gömul heldur, heldur að það stóð stöðugt fleirum til boða að skrifa, lesa og auglýsa. Út um allt er texti. Á öllum veggjum eru tilkynningar og auglýsingar og skilti og Bloom les það allt. Bloom er svo auðvitað sjálfur auglýsingasali (milligöngumaður milli auglýsenda og Freeman’s Journal, sem gefur út The Evening Telegraph – hleypur á milli og semur um birtingu og vinnur fyrir prósentur). Og sem slíkur hefur hann einlægan áhuga á texta og framsetningu. Hann gengur auk þess um með upprúllað dagblað undir hendinni alla bókina – og það er yfirleitt kallað „newspaper baton“ og á einum stað „freeman baton“ og það er áreiðanlega ekki óviljandi – baton er bæði tónsproti, sá sem í hann heldur s´týrir verkinu, og barefli eða kylfa. Textinn leiðbeinir, stýrir og meiðir jafnvel.

Stephen – sem snýr aftur í Eólus – er menntamaður og skáld og sem slíkur upptekinn af annars konar textagreiningu. Hann íhugar Aristóteles og Boehme og Shakespeare – og raunar er hann í hinum frægu upphafsorðum Próteusar um „the ineluctable modality of the visible“ – („óumflýjanlegan hátt þess sem er sýnilegt“) – að reyna að komast handan hins sjáanlega út í einhvers konar „hreina hugsun“ – hugsun um hugsun, hugsun um heimspeki og listir. Eða í það minnsta að sjá sýnileikann í hinu sýnilega – sjá sig sjá. Það er öfugt við Bloom sem baðar sig í hinu sjáanlega – starir jafn hispurslaust á auglýsingar sem kvenmannsleggi – og er alltaf með hugann við það sem er fyrir framan nefið á honum.

Erindi Stephens í Eólus er að koma til skila aðsendri grein frá yfirmanni sínum, hr. Deasy, um gin- og klaufaveiki. Ekki sínum eigin skrifum, sem þó er gengið eftir. Hins vegar reif skáldið smá rifrildi af pappírnum sem greinin er skrifuð á – í Próteusarkaflanum – og orti á það ljóð sem hann rifjar upp hér þegar ritstjórinn spyr hvers vegna bréfið sé rifið.

On swift sail flaming
From storm and south
He comes, pale vampire,
Mouth to my mouth.

Bókin sjálf vekur líka sífellt meiri athygli á sjálfri sér eftir því sem líður á hana. Fyrst með því að beita óvenjulegum frásagnaraðferðum sem leyfa Joyce að dvelja við og stökkva inn í jafnvel smávægilegustu hugsanir sögupersóna sinna – sem verða þar með texti – og svo síðar með augljósari aðferðum. Þetta verður fyrst dagljóst jafnvel fimm ára börnum í Eólus þar sem frásögninni er skipt upp í fréttir með fyrirsögnum á borð við „Lost Causes Noble Marquess Mentioned“ og „Only Once More That Soap“ sem standa reyndar í misaugljósu samhengi við textann. Textann gæti maður alveg lesið án þeirra einsog hvern annan kafla í þessari bók – og raunar bætti Joyce fyrirsögnunum bara við í próförk til þess að undirstrika textúalítetið og búa mann undir næstu stökk í þá átt. Og auðvitað vegna þess að það er viðeigandi fyrir sögusviðið. Dagblaðaheiminn. Heim framtíðarinnar: auglýsinga og prentlista. Blaðaskrif og auglýsingar eru stöðugt rædd, hávaðinn í prentsmiðjunni og gasprið í blaðamönnunum eru alltumlykjandi. Og á einum stað dáist Bloom líka að því hvernig setjararnir geta raðað upp stöfunum aftur á bak – mangiD kcirtaP – ef bókin hefði verið prentuð í dag hefði Joyce sennilega látið spegla stafina líka.

Félagar Blooms úr jarðarförinni eru farnir á pöbbinn en Bloom hefur ekki efni á að slæpast, hann þarf að sinna vinnunni. Hann er með hugmynd að auglýsingu fyrir te- og vínsalann Alexander Keyes sem felur í sér að endurnýta gamla auglýsingu úr öðru blaði, tvo lykla í kross innan í hring. Sams konar merki mun hafa verið notað af þeim sem studdu írska heimastjórn. Og Bloom segir við yfirmann sinn, Nannetti, að þetta sé daður við slíka pólitík – sem er þeim greinilega öllum að skapi. En heimastjórn þýðir áreiðanlega eitthvað fleira fyrir kokkálnum og ástarbréfaskrifaranum en bara sjálfstjórn þjóðarinnar. Og tveir lyklar í bók um tvo lyklalausa menn – Stephen og Bloom fara báðir að heiman lyklalausir – er nú kannski ekki flóknasta táknið í ljóðráðningabókinni. Nannetti samþykkir auglýsinguna ef Keyes fæst til að kaupa þriggja mánaða endurnýjun. Bloom rýkur af stað til að athuga með það.

Augnabliki síðar tekur Bloom upp vasaklútinn og finnur lykt af sítrónusápunni sem hann keypti fyrir Molly – rifjar upp spurningu Mörthu um hvaða ilmvatn kona hans notar – íhugar í örskotsstund að gera sér upp afsökun fyrir að líta við heima, þar sem Molly bíður Boylans, en hættir jafn harðan við.

Hjá Hómer ferðast Ódysseifur og félagar um langa leið – fram og til baka. Það fer hins vegar enginn mjög langt í Joyce því enda þótt litlu megi muna að Bloom fari til Ballsbridge (sem er dálítið ferðalag) til þess að semja við Alexander Keyes hjá House of Keyes þá ákveður hann á síðustu stundu að hringja og kemst að því að því að Keyes er staddur handan við hornið á uppboðshúsi. Hann rýkur þangað en við erum skilin eftir á skrifstofunni á meðan. Hinir horfa á eftir honum út um gluggann þar sem strákastóð gerir gys að honum og hermir eftir göngulaginu.

– Lítið bara á strákskrípið þarna sem æpir og skrækir fyrir aftan hann, sagði Lenehan, og þér fáið hláturskrampa. Æ hamingjan sanna, hermir meiraðsegja eftir ilsignu göngulaginu og öllu heila klabbinu. Sá kann loddarabrögðin.

Á skrifstofunum er einsog áður segir stöðugur umgangur. Simon Dedalus er þarna en fer fljótlega á barinn. Lenehan – fremur vonlaus týpa sem er í aðalhlutverki í Two Gallants úr Dubliners – reynir að segja orðagrín en gengur illa að koma því til skila og svo reynist það ekkert mjög fyndið. Hynes er að skila af sér greininni um jarðarför Paddys Dignam. Ritstjórinn, Myles Crawford (sem á eftir að þurfa að staðfesta auglýsingasölu Blooms) er þarna, sem og lögfræðingurinn J. J. O’Molloy. Og fleiri og fleiri. Það er rifist um Írland og Róm („Salerna- og holræsasmiðir verða aldrei andlegir feður okkar“) og Grikkland og Egyptaland og Ísrael – og allt má lesa sem komment um Írland og Bretland – og mikið gaman hent að ræðunni hans Dans Dawson sem var nefnd í Hadesarkaflanum. Ætli þetta sé ekki það óþolandi stílbragð sem Þórbergur kallaði „uppskafningu“? Eða var það eitthvað sértækara – í öllu falli mætti það alveg heita uppskafning mín vegna:

Eða virðið aftur fyrir ykkur bugður niðandi lækjarsprænu þarsem hún hjalar álengdar, þótt hún deili við grýtta þvergirðinga, á leið sinni til hinna úfnu vatna í bláu ríki Pósídons, hlykkjast milli mosavaxinna bakka, kæld af mildum andvara, og er lýst upp af dýrlegu sólskini eða líður undir skugga sem varpað er yfir djúphugulan barm hennar hvelfdu laufskrúði skógarrisanna.

Fleiri textar eru ræddir – meðal annars blaðagreinar eftir mann sem heitir Ignatius Gallaher (úr Little Cloud í Dubliners) sem menn eru afar ánægðir með og A.E. (þeósófistann sem hét réttu nafni George William Russell), sem hefur nefnt Stephen í einhverju viðtali, J. J. O’Molloy vitnar í Seymour Bushe („einhver hnökralausasta málsgrein sem ég held ég hafi nokkurn tímann hlustað á“) og Stephen kemst við og roðnar („þareð blóð hans heillaðist af þokka máls og látbragðs“) og MacHugh vitnar í John F. Taylor, texta sem fær Stephen til að velta því fyrir sér í augnablik hvort hann ætti að gerast blaðamaður – en hafnar því svo. Man þá að hann á pening (hann fékk útborgað hjá hr. Deasy í Nestorkaflanum) og spyr hvort það sé ekki ástæða til þess að færa fundarhöldin út á næsta pöbb. Þeirri uppástungu er tekið með afbrigðum vel.

Stephen segir síðan undarlega dæmisögu um tvær írskar vestumeyjar sem klifra upp í Nelsonsúluna og éta þar plómur og skyrpa steinunum yfir grindverkið. Aðspurður segist hann kalla dæmisöguna „Palestína séð frá Pisgah eða Dæmisagan um plómurnar“. Söguna má sennilega túlka í ljósi textabrotsins eftir Taylor þar sem Írum var líkt við Ísraelsmenn sem neituðu að gangast undir stjórn Egypta. Nelson, sem stendur á súlunni, er breski flotaforinginn Horatio Nelson. Þessi mikilfenglega og risastóra súla var mjög umdeild meðal Íra og var á endanum sprengd af IRA árið 1966 – og ákveðið að gera enga tilraun til þess að laga hana eða endurreisa.

– En dömur mínar og herrar, hefði Móse hinn ungi lagt eyrun við og fallist á þessa lífssýn, hefði hann beygt höfuð sitt og beygt vilja sinn og beygt anda sinn fyrir þessari drambsömu áminningu, þá hefði hann aldrei leitt útvalda þjóð sína burt úr húsi ánauðarinnar né fylgt skýstólpanum á daginn. Hann hefði aldrei talað við hinn Eilífa meðal eldinga á Sínaífjalli né nokkurntíma komið niður með birtu innblásturs geislandi af ásjónu sinni og töflur lögmálsins í fangi sér, meitlaðar á tungu útlagans.

Því má svo halda til haga að þótt Joyce sé í þessum kafla frekar hallur undir sjálfstæðisbaráttu Íra þá gerir hann mjög hressilega upp sakirnar við þjóðrembuna sem henni fylgir síðar í bókinni.

Á leiðinni út rekast félagarnir á Bloom sem er að koma aftur af fundi sínum með Keyes. Bloom segir Crawford að Keyes sé til í tveggja mánaða endurnýjun á auglýsingunni og hvort það sé nóg – en Crawford segir honum að Keyes megi sleikja á sér rassinn. Bloom fattar að Crawford er að fara á barinn og það verði kannski ekki auðvelt að hindra þá för til þess að klára auglýsingasöluna.

Allir á leið í sollinn. Leiða hver annan. Lenehan með siglingakaskeitið þarna fyrir handan að sníkja. Alltaf sama smjaðrið. Ætli Dedalusdrengurinn eigi upptökin að þessu. […] Hirðulaus piltungur.

Bloom býðst til að halda áfram að vinna í auglýsingunni en Crawford endurtekur bara skilaboðin um rassinn á sér.

Ætli blaðamannatýpurnar á leiðinni á barinn séu þá ekki skipverjarnir að opna pokann og Bloom Ódysseifur sem tekst ekki að komast á áfangastað, sem að þessu sinni var að selja þessa auglýsingu. Og hvað var auglýsingin? Tveir lyklar í kross innan í hring: merki fyrir sjálfstætt Írland. Og drykkjuskapurinn í kjaftöskunum var mótvindurinn í pokanum – ég held það sé alveg ljóst að þótt Joyce hafi sjálfur verið frekar góðglaður maður leit hann á áfengisbölið sem mikinn dragbít á Írum. En lyklarnir eru líka lyklarnir sem Dedalus og Bloom vantar – þeir eru báðir bókstaflega lyklalausir og metafórískt heimilislausir menn, annar landlaus gyðingur sem er hafnað af þjóð sinni Írum (og sennilega gyðingum líka), hinn skáld á leiðinni að yfirgefa þjóð sína, halda út í heim – og heimastjórn einsog áður segir eitthvað fleira fyrir kokkálnum Bloom en bara sjálfstjórn þjóðarinnar. Eða fyrir Stephen, sem býr með hinum yfirgangssama Mulligan og er með hinn yfirlátssama Haines sem gest. Dedalus og Bloom eru heimastjórnarlausir menn í fleiri skilningi en einum (eða tveimur).

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * *

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Hades: Undirheimarnir

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *