Woke er ekki hugmyndafræði heldur heiti á tilhneigingu. Hnjóðsyrði, fyrst og fremst, til þess að hafa um hina skinhelgu. Þá sem eru stöðugt að leita að misfellum í hegðun náungans. Þá sem eru með prótókol og siðferðislega fágun á heilanum. Hnjóðsyrðið þjónar þeim tilgangi að tjá gremju yfir því að við sem þjóðfélag séum of æst í að dæma rangstæðu hvert á annað. Réttlætanlega gremju, finnst mér, því þótt ég myndi áreiðanlega sjálfur mælast frekar hátt á wokeskalanum í hvaða skoðanakönnun sem er, þá finnst mér þetta oft verða óþolandi lögguleikur.
Mörgum finnst að þeir geti ekki „verið þeir sjálfir“ innanum hina skinhelgu – ekki vegna þess að þeir þurfi stöðugt að vera að segja einhverja rasistabrandara heldur vegna þess að maður verður (eðlilega) svo sjálfsmeðvitaður þegar manni finnst að fólkið í kringum mann sé í lögguleik, verður hræddur um að stíga á línur sem einhver annar hefur teiknað, sem maður veit ekki nákvæmlega hvar liggja fyrren það er búið að flauta (og einsog gildir um rangstæðuregluna færist línan líka stöðugt til í leiknum eftir því hvar hinir leikmennirnir eru staddir). Maður veit að það hefur enga þýðingu að „hafa meint vel“ og það skiptir engu máli hver bakgrunnur manns er – hversu læs maður er á þessa prótokolla, hversu vanur maður er. Það er brot í sjálfu sér að kunna þá ekki.
Skinhelgin er síðan líka óþægileg vegna þess að við vitum öll að hin skinhelgu eru ekki syndlaus sjálf (engin er syndlaus; en þau eru heldur ekki syndlausari en aðrir). Hin skinhelgustu reynast meira að segja stundum vera svona upptekin af eigin skinhelgi einmitt vegna þess að þau eru að breiða yfir eitthvað ljótt í eigin fari. Þau eru að tryggja stöðu sína í hjörðinni – markera sér stað með „góða fólkinu“ vegna þess að þau óttast að verða útlæg ger. Og stundum eru þau að vinna yfirbót – svona einsog manni gæti dottið í hug að ganga í klaustur af því maður gerði eitthvað ljótt, og endað svo í heiftúðugu og fanatísku stríði við syndina í fari annarra. Með reyr og belti.
Þetta er að mörgu leyti skiljanleg og jafnvel nauðsynleg hegðun í hjörð. Að hjörðin setji sér reglur um rétta framkomu og einstaklingarnir framfylgi þeim með skömm og jafnvel útskúfun. En dómharka og fyrirgefningarleysi á samt ekki að vera dyggð og skömm er ekki gagnlegt stjórntæki til lengdar. Ekki heldur þegar hún birtist okkur í nafni kærleikans.
Að því sögðu finnst mér rétt að taka fram að mannréttindabarátta sem er ekki líka transréttindabarátta er ekki neitt sem maður ætti að taka mark á. Og mannréttindabarátta sem gerir í því að skilja transréttindi – eða önnur réttindi minnihlutahópa – útundan er belgingsleg minnimáttarkennd sem á heima á bekkjum sálfræðinga en ekki pistladálkum dagblaðanna.
Því má svo líka alveg halda því til haga að mannréttindabarátta getur verið frekari á athygli en hin efnahagslega barátta og það getur alveg verið ástæða til þess að markera henni tiltekið pláss innan t.d. verkalýðshreyfingarinnar, svo hún taki ekki yfir þá mikilvægu baráttu heldur styðji hana frekar. Við sjáum að fjölmiðlar veita mannréttindabaráttu meiri athygli en stéttabaráttu – það er meira krassandi að skrifa um einhvern sem var laminn fyrir það hver hann er en allt það fólk sem þarf að lifa af smánarlaunum eða bótum. Bæði er allrar athygli vert, bæði eru systemísk vandamál sem þarf að leysa – en annað er frétt vegna þess að það brýtur á velsæmishugmyndum okkar flestra og hitt er veruleiki sem við virðumst hafa sætt okkur við. Það er hægt að halda hundrað ráðstefnur um launamun kynjanna – sem er mannréttindamál – en það eru engar ráðstefnur haldnar um launamun stéttanna. Fyrirtæki, smá og stór, eyða peningum í að vera (og sýnast) græn og feminísk og hossa sér fyrir að veita fólki af ólíkum bakgrunni tækifæri – en það þætti hálfgert brjálæði að reyna að jafna laun skúringakonunnar og forstjórans (og reyndar ímynda ég mér að mörg þeirra fyrirtækja sem hafa jafnlaunavottað sig hafi meðal annars gert það með því að „útvista“ skúringunum – skítadjobbin, sem eru oft kvennastörf, tilheyra öðrum fyrirtækjum).
Við þær aðstæður skil ég að hin frjálslynda skinhelgi fari í taugarnar á þeim sem standa í því stappi að reyna að hífa upp laun skúringakvenna. Afsakið, skúringastarfsfólks.