Þreytan er raunveruleg og þreytan er djúp. Síðasta vika var rosaleg.
Aino kom heim á miðvikudag. Hún hafði verið á sundm´óti í Ungverjalandi og orðið 12 ára í ferðinni. Á pálmasunnudag. Fyrsta mál á dagskrá var að fagna því með pompi og prakt. Út að borða og svo morgunmatur og gjafir að morgni skírdags.
Sama dag lék Aram á tónleikum við setningu Skíðavikunnar. Fyrst sem trommari Lúðrasveitar tónlistarskólans og síðan sem trommari og söngvari í bílskúrsbandinu Ulla (ekki nefnd eftir sænskum konum, heldur sögninni – sem mér skilst að sé bara til á íslensku). Þau eru botnlausir snillingar, með skemmtilegra fólkið og hafa leikið nokkrum sinnum áður koverlög en voru nú í fyrsta sinn með eitt frumsamið á prógraminu. Og stóðu sig ótrúlega vel – þótt það hafi verið afar kalt í veðri (sem kallaði á stillingarvesen) og hljóðkerfið hafi verið með ákveðin leiðindi. Og sérstaklega var frumsamda lagið gott.
Á skírdag var generalprufa hjá Gosa. Vinkona Arams kom líka í heimsókn að sunnan og við fengum af því tilefni unglingastóð í kvöldmat. Já og samdægurs birtust vinir mínir Jóel og Michael (sem ég var reyndar að kynnast þar) óvænt í kaffi.
Á föstudaginn langa byrjaði Aldrei fór ég suður. Þar naut ég þeirra forréttinda að fá að spila á bassa með Gosa og gosalýðnum – sem var óvenju stór í þetta skiptið, auk okkar Andra og Baldurs voru Ásta Kristín á víólu og röddum, Sara Hrund á lykla og röddum, Valgeir Venna á slagverk og Marta í röddum. Við lékum sjö lög, mest af væntanlegri plötu, Á floti, sem kemur á vínyl og stafrænu í maí (það verða rosalegir útgáfutónleikar, sennilega í júní). Og stóðum okkur bara mjög vel, þótt ég segi sjálfur frá. Ég var frekar rólegur á sviðinu eftir að hafa fengið hálfgert spennufall á sándtestinu um daginn – í tveggja hljóma byrjunarlaginu varð hugurinn á mér svo heiður að ég mundi aldrei hvaða hljómur átti að koma næsta (sem var þá alltaf bara hljómurinn sem ég var ekki að spila, hinn hljómurinn í laginu). Og eftir sándtestið fór ég heim, lagðist í rúmið dauðuppgefinn – klukkan 15 um daginn – og steinsvaf í 90 mínútur. En var þá bara búinn með stressið um kvöldið, sem var ágætt.
Um kvöldið buðu himinhvolfin upp á stærstu og fallegustu norðurljós sem ég hef séð síðan 1994.
Á laugardeginum byrjaði ég á því að drífa mig upp í netagerð að þeyta skífum fyrir Skúla frænda minn mennska sem var þar með plötumarkað. Svo f´ór ég að róta trommusetti með Aram – sem var aftur að spila með lúðrasveitinni en nú á Dokkunni. Þaðan lá leiðin upp í Oddfellowhús þar sem við Ingi Björn söxuðum grænmeti af miklum móð, til þess að preppa fyrir hádegisverð á poppstefnu AFÉS daginn eftir. Svo beint á lúðrasveitartónleika og að róta settinu aftur til baka með trommuprinsinum.
Um kvöldið las ég ljóð með hljómsveitinni Reykjavík! Við erum vinir frá því á menntaskólaárunum og gerðum þetta oft í gamladaga, bæði þannig að þeir komu á ljóðahátíð með mér og drógu mig á svið á tónleikum hjá sér. Ég skrifaði líka „liner notes“ fyrir allar plöturnar þeirra. Ég átti meira að segja að gera þetta á Aldrei 2005 eða 2006 en gleymdi mér eitthvað og var bara á Langa Manga (hellaður) þegar ég var kallaður á svið – og varð auðvitað ekkert úr neinu. Það var því sérstaklega ánægjulegt að fá loksins að bæta upp fyrir það lúðalega klúður. Og alveg burtséð frá minni eigin þátttöku í gigginu var brjálæðislega gaman að sjá hljómsveitina aftur – sem ég hef líklega síðast séð spila á Norræna bókasafninu í Helsinki 2007 (Aino finnst mjög fyndið að Reykjavík! hafi spilað á bókasafni, og það er rétt, það er mjög fyndin tilhugsun).
Eftir ofsalegt lokaatriði kvöldsins – FM Belfast – fór ég heim að klára krossgátuna mína á meðan Nadja fór út á lífið. Ég er í seinni tíð undir áhrifum einhverrar bölvunar sem veldur því að ég sofna aldrei fyrren hún kemur heim – bara einhver algerlega óþörf óró (Nadja er ekki týpan sem fer sér að voða). Og af því ég er miðaldra karl vakna ég samt klukkan sjö. Ég sem sagt svaf alveg fáránlega lítið.
Það var samt meira að gera á sunnudaginn. Það byrjaði á því að við Ingi og Geiri kláruðum að gera matinn. Svo var poppstefna þar sem við Kristján Freyr – hinn ótrúlega ötuli rokkstjóri – reyndum að hafa smá fororð og stýra samræðum við tónlistarmennina. Ég gekk út frá pistli sem ég flutti fyrir mörgum árum en tókst ekki að finna – reyndi bara að muna pælingarnar. Eftir matinn fórum við Smári Karls svo með hersinguna í sögugöngu um Ísafjörð – ég sagði frá árinu 1925 (sem er árið sem Náttúrulögmálin gerast) en Smári tók að sér að fjalla um „gasasvæðið“, sem er staðurinn á milli Krúsarinnar og Sjallans þar sem Jet Black Joe voru gasaðir á sínum tíma.
Eftir göngu var farið í siglingu. Í svona klukkustund húktum við úti á þilfari úti á miðju djúpi og horfðum á hnúfubaka skemmta okkur. Og fallegustu raddir landsins sungu saman lagið um hann Jörund hundadagakonung. Í blíðskaparveðri. Um þetta væri áreiðanlega hægt að kveða mörg falleg ljóð og sannarlega var ég hrærður en þetta er þess konar fegurð sem þarf aðra fagurfræði til að miðla en þá sem ég kann – ég verð bara vandræðalegur þegar ég byrja að tvinna saman nógu mikið af lýsingarorðum til að ná utan um þetta. En þetta verður í minnum haft og maður verður áreiðanlega alltaf svolítið mjúkur inni í sér af tilefninu.
Næst var áð við Vébjarnarnúp til að dást að fjallinu. Svo var sangría á Verbúðinni í Bolungarvík og Pálmi Gests hélt tölu um bæinn og sýndi svo fólki húsið sitt. Fordrykkur var drukkinn á Skarfaskeri – í blíðskaparveðri, það var alltaf blíðskaparveður, lognið sinnti sínu lögheimili alla helgina. Og kvöldmatur og partí í Félagsheimilinu í Hnífsdal. Þar var mikið sungið og dansað og meira að segja samin lög og stofnaðar hljómsveitir og einsog það hafi ekki verið nóg var farið á Pallaball í Edinborgarhúsinu og ég leit meira að segja við í eftirpartí með eftirlætis tónlistargagnrýnandanum mínum.
Einsog gefur að skilja gerði ég ekki margt annan í páskum. En nú, á þeim þriðja, er ég allur að skríða saman. Næstu páska verð ég áreiðanlega orðinn svo gott sem nýr.