Fyrirmyndarfjörður

Í fyrsta skipti sem ég kom til Ísafjarðar, steig út úr flugvélinni og horfði í kringum mig, lömdu fjöllin mig í hausinn og spurðu: Hvar í helvítinu hefurðu eiginlega verið? Ég áttaði mig strax á því að ég yrði einhvern tímann að skrifa um þennan stað 

– Jón Kalman Stefánsson, Fréttablaðinu, 15. desember, 2007. 

* * *

Einu sinni fyrir margt löngu síðan hét Ísafjarðardjúp bara Ísafjörður – Ísafjarðardjúpin voru firðirnir inn af honum, Skötufjörður, Hestfjörður, og svo framvegis. Á endanum sneru örnefnavilltir kortagerðarmenn þessu á haus og Ísafjörður varð Ísafjarðardjúp en Ísafjörður innsti fjörður þessa djúps. Þegar danskir kaupmenn tóku síðan að stunda verslun frá Eyri í Skutulsfirði, ysta firðinum, kenndu þeir verslun sína við djúpið þar sem viðskiptavinir þeirra bjuggu, og kölluðu Ísafjarðarverslun. Í fyrstu var byggðin sem myndaðist í kringum þessa verslun kölluð Eyri í Skutulsfirði en á endanum hafði „Ísafjörður“ yfirhöndina. Ísafjarðarnafnið breiddi sig næst – einsog vírus – yfir nágrannasveitirnar til vesturs þegar Ísafjarðarsýsla var mynduð, sem síðar var skipt upp í Norður-Ísafjarðarsýslu og Vestur-Ísafjarðarsýslu. Sú síðarnefnda innihélt engan Ísafjörð – hvorki kaupstaðinn né fjörðinn og lá ekki heldur við Ísafjarðardjúp. Síðar varð svo Ísafjarðarbær til við sameiningu sumra sveitarfélaganna úr Ísafjarðarsýslum. Í dag er enginn staður frá innanverðu Ísafjarðardjúpi norður að Reykjarfirði á Hornströndum, vestur að Lokinhömrum og inn að Dynjanda, sem hefur ekki verið kenndur við þetta nafn. 

* * *

Arnrún frá Felli kallar bæinn Sandfjörð. Rúnar Helgi Vignisson kallar hann Pláss og Jón Kalman Stefánsson Plássið með greini. Böðvar frá Hnífsdal talar um Eyrarkaupstað í Eyrarfirði í sínum drengjabókum. Sögur Guðmundar G. Hagalín gerast í og í kringum Tangakaupstað. Hansdætur eftir Benný Sif Ísleifsdóttur gerist í Arnarfirði. Kvóteyri Reynis Traustasonar er á svæðinu. Sviðinsvík og Óseyri Halldórs Laxness eru í senn kunnuglegar og langt undan. En í Grísafirði eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttir heitir bærinn samt bara Ísafjörður.

Fjölmörg skáldverk sem eiga stór-Ísafjarðarsvæðið að sögusviði gerast síðan bara í ótilteknu „þorpi á Vestfjörðum“ eða „bæ fyrir vestan“ – sem minnir oft á einhvern tiltekinn stað og stundum tvo-þrjá. Gróflega talið er skipt um heiti í þriðja hverju skáldverki og mikilvægustu örnefni látin ónefnd í öðrum þriðjungi – í síðasta þriðjungi eru kaupstaðir nefndir sínum réttu nöfnum. 

* * *

Hér köllum við hann Fyrirmyndarfjörð. Þær sögur sem gerast í Fyrirmyndarfirði eru sögur af samspili kyrrðar og ógnar. Eina stundina er ekkert að gera og þá næstu aftakaveður, það fellur snjóflóð og ferst skip. 

Svo er aftur ekkert að gera, eins langt og augað eygir. 

Og þannig koll af kolli.

* * *

Fyrirmyndarfjörður tilheyrir fortíðinni, ekki síður þegar sagan gerist í samtímanum. Þar skoðum við hver við vorum. Fólk slúðrar um framhjáhöld og smákóngapólitík, þiggur uppáhellt kaffi frá móðurlegri konu sem gengur um með svuntu og skenkir í fanta. Kaffið keypti það í til þess gerðu kaupfélagi, þangað sem það gekk í gúmmístígvélum í lopapeysu og gamalli úlpu. Á leiðinni fór það framhjá frystihúsi og svo stóru einbýlishúsi sem tilheyrir eldri manni sem á bókstaflega allt í bænum, líka fólkið. Næst mætti það manni sem var að verka hákarl og að síðustu átti það orðaskipti við lífsleiða unglingsstúlku sem afgreiddi það um kaffið (Braga). Stúlkan er ólétt og það er eitthvað vesen með pabbann – kannski á hann kærustu, kannski er hann giftur, kannski er hann farinn, kannski eru þau skyld og kannski var barnið ekki getið með samþykki. Annað foreldri stúlkunnar er meðvirkt og hitt er fyllibytta. Þau eru bæði bæld. Allir vinna í slorinu eða einhverri grunnþjónustu nema einn aðkomumaður sem á samt ættir að rekja til bæjarins. Hann er kominn til að reyna að finna sig. 

* * *

Stundum er þetta fábreytileg veröld sem þolir illa eðlilegan fjölbreytileika mannlífsins; og stundum fjölskrúðugt athvarf undan einsleitni borgarinnar. Kynsegin fólk hrekst á brott undan fordómum í Sterk eftir Margréti Tryggvadóttur á meðan allir heimsins kynlegu kvistir virðast koma saman í Stjórnlausri lukku Auðar Jónsdóttur. Fólk hýsir ókunnuga strandaglópa umyrðalaust í Góðum Íslendingum Huldars Breiðfjörð, veröldin er endalaust ævintýri ástar og orða – einsog í 1983 eftir Eirík Guðmundsson – en að sama skapi er þetta veröld þar sem allir sem á annað borð teljast málsmetandi geta ekki þrifist nema í huganum. Allir með vængi stefna burt. Fólkið í Fyrirmyndarfirði er leiksoppar tragískra örlaga sinna og undir slorkóngana sett – frá Grjóti og gróðri Óskars Aðalsteins að Engu slori Rúnars Helga að Brimhólum Guðna Elíssonar. Í þeim tveim fyrstnefndu missa verkakonur fóstur í kjölfar mikillar vinnu – í þeirri síðustu hrekur kvótaslektið verkakonu til sjálfsvígs. Byggðin verður líka eins konar metafóra fyrir krísur einstaklingana sem með henni dvelja, einsog í Djúpinu eftir Bennýju Sif Ísleifsdóttur, Stjórnlausri lukku Auðar Jónsdóttur eða Eftirbát Rúnars Helga Vignissonar. Veðrið er gjarnan óblítt – ef það er ekki beinlínis að murka úr fólkinu líftóruna einsog í Vestfjarðaþríleik Jóns Kalmans Stefánssonar þá má í öllu falli búast við því að fólk verði veðurteppt, einsog kærasti aðalsöguhetjunnar í Vetrarsól Auðar Jónsdóttur, það verði innlyksa í óbyggðum einsog í Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur, það berjist yfir ómokaðar heiðar á Chevrolet Chevelle einsog Hörður Stefáns Mána í Feigð – sem hefur bæði lifað af sjávarháska og snjóflóð – eða það sitji fast í brekku í vetrarhálku á ónegldum Volvo Lapplander einsog Huldar Breiðfjörð í sínum Góðu Íslendingum. Fyrsta nútímalega skáldverkið sem fjallar um svæðið – sem reyndar gerist að mestu nær Lokinhömrum, heimkynnum skáldsins Guðmundar G. Hagalín – er frá árinu 1925 og heitir einmitt Veður öll válynd. Og á 100 árum hefur veðrið ekkert skánað. Hvorki í fjörðunum, sálunum eða bókunum.  

* * *

Aðspurð hvers vegna þau skipti út örnefnum svara skáldin gjarnan eitthvað á þá leið að þótt þau sæki sér innblástur í þorp og bæi, fjöll, fólk og fjörur, vilji þau líka vera frjáls undan aðfinnslum heimamanna eða annarra sem kunnugir eru staðháttum – svo að lesendur festist ekki í samanburði raunveruleika og skáldskapar, sem geri varla annað en að trufla söguna. Þá er alkunna að skáldskapurinn kviknar helst á einhverjum undarlegum stað mitt á milli hins sanna og hins logna – er alltaf hvorugt og bæði í senn – og þar geta þorp sem eru til en á sama tíma ekki-til komið í góðar þarfir. 

 Í viðtali í DV árið 1999 segir Jón Kalman Stefánsson (um söguheim sinn í Dölunum): „[Hann] á sér auðvitað ákveðna fyrirmynd og kallast á við ýmislegt í fortíð minni en því er sem betur fer oft þannig farið að þegar maður horfir til fortíðar getur verið erfitt að greina á milli raunverulegra atburða og ímyndaðra. Ætli óvissan þarna á milli sé ekki oft uppspretta skáldskapar.“

* * *

Skáldaðir kaupstaðir eru (augljóslega) ekki séríslenskt fyrirbæri og það er heldur engin regla að þetta séu smábæir. Gotham, Springfield, Hogsmeade, Castle Rock, Andabær, Cabot Cove og Middlemarch – listinn er endalaus og stundum tilheyra þeir skálduðum löndum í skálduðum heimsálfum á skálduðum plánetum í skálduðum sólkerfum. 

Á Wikipediu er eftirtöldu haldið fram um tilgang skáldaðra borga:

Skáldaðar borgir líkja oft af ásettu ráði eftir raunverulegum stöðum, skopstæla þá eða standa sem tákn fyrir þá, eða sýna af þeim útópíska eða dystópíska mynd sem innlegg í samræðu. Nöfn þessara borga sýna stundum skýrt hvaða borg er höfð að fyrirmynd, til dæmis er Las Venturas, úr tölvuleiknum Grand Theft Auto, byggð á Las Vegas, og í leiknum má sjá mörg þekkt kennileiti borgarinnar, þar með talin spilavíti. Með því að nota skáldaða kaupstaði í stað raunverulegra auka höfundar umtalsvert frelsið sem þeir hafa til þess að beita sköpunargáfu sinni á sögupersónur, atburði og umhverfi á meðan þeir njóta þess á sama tíma að geta farið með lesendur á kunnuglega staði sem þeir bera kennsl á. Skálduð borg frelsar höfundinn undan klyfjum raunverulegrar mannkynssögu, stjórnmála og menningar, og gefur söguþræðinum meira svigrúm, auk þess sem hún kemur í veg fyrir að í textanum felist ófræging á raunverulegu fólki eða þjóðfélagshópum.

Og þá spyr maður sig hvort sögurnar sem sagðar eru um slíka fyrirmyndarstaði séu ekki bundnar sömu lögmálum og annar skáldskapur – eru þær ekki raunsæisbókmenntir, jafnvel þegar þær eru það að öðru leyti? Er „þorpið“ bara myndlíking fyrir stærra samfélag og þar með ekki lengur marktækt sem lýsing á sjálfu sér – ekki lengur þorp sem þarf að vera þorpi líkt? Hvers eðlis eru þær myndir sem málaðar eru upp af íbúum og aðstæðum? Hvaða máli skipta „mistök“ og „rangfærslur“ þegar þorpið er ekki lengur það sjálft? Er hugsanlegt að nýju nöfnin og nafnleysið séu – eða geti verið – fjarvistarsönnun fyrir fullyrðingum um íbúa sem enginn kærir sig um að standa skil á? Ber höfundinum að gæta sín að nota ekki skáldskapinn til þess að einfalda, reka áróður, exótísera eða mála upp fordóma sína sem heilagan sannleik – eða er skáldaða borgin einmitt verkfæri til þess að varpa slíkum alhæfingum fram svo þær megi grannskoða, ískalt og án tilfinningasemi? Verkfæri til þess að segja óþægilega hluti upphátt – með því að rista upp pakkninguna, henda henni og snúa sér beint að innihaldinu? Er yfir höfuð hægt að segja ævintýri eða epíska sögu – eða nokkra sögu – án þess að ýkja hið góða og hið vonda?

Kannski er líka ástæða til þess að spyrja sig hvort höfundar vilji með þessu í senn éta kökuna og eiga hana til góða.

* * *

En ef okkur er þá að einhverju marki ljós tilgangurinn með því að nota raunverulegan stað sem fyrirmynd að ímynduðum stað – hið rótfasta frelsi, hið stabíla flug, kraftur þversagnarinnar – hver er þá tilgangurinn með því að fela örnefnin? Hann skarast augljóslega að einhverju leyti við tilganginn með því að búa til nýtt nafn en hefur á sér annan blæ. 

Þegar sögupersónur eru annars vegar er nafnleysi til marks um einhvers konar sjálfsmyndarkrísu viðkomandi karakters og þykir skapa dystópíska og/eða ljóðræna stemningu. Þá ber að geta þess að þótt nafnlausa sögupersónan sé eðli málsins samkvæmt „dularfull“ þegar hún er í fókus – þegar hún er aðalatriði – þá hefur hún fyrst og fremst praktískan tilgang þegar hún er aukaatriði. Sá sem kemur með póstinn getur vel bara heitið „pósturinn“, sá sem setur fólk í gips „læknirinn“ og svo framvegis, en nafnleysi þess sem ferðast um í kastljósi sögunnar er merkingarbærara. Það að hán heiti ekkert getur verið til marks um að hán vilji dyljast, að hán viti ekki hver hán er eða vilji vera, að hán lifi í heimi sem ber ekki kennsl á hán eða sé svo mikill sveimhugi – einsog börn oft eru – að hán gleymi einfaldlega að kynna sig. 

Staðir í bókmenntum eru oftast nær bæði í og úr fókus – þeir umlykja sögupersónur sínar öllum stundum en eru ekki endilega gerendur eða söguhetjur (þótt þeir geti verið það). Þannig eru nafnlausir staðir bæði hlutlausir og merkingarþrungnir, og ekki síður þótt fyrirmyndin (eða fyrirmyndirnar) sé augljós. Í þeim tilvikum fylgir staðnum líka ákveðin saga – hann verður stað-gengill fyrir annan stað, hvers saga verður þá almenn og í einhverjum skilningi sameiginleg öðrum álíka stöðum. Í íslenskum bókmenntum er þetta fyrst og fremst „sjávarþorpið“ – enda fáum öðrum bæjartegundum til að dreifa, bæir af öðru tagi verandi of fáir til að mynda mengi. 

* * *

Og kannski er nafnlausi smábærinn einmitt gjarnan allt í senn:

Dystópískur 

Hvað sem líður þróun systurbæja hans í raunveruleikanum er Fyrirmyndarfjörður yfirleitt á hverfandi hveli – ef ekki hreinlega feigur. Fyrirtækin fara á hausinn og önnur koma ekki í staðinn. Fólkið flytur burt en enginn kemur í staðinn. Stundum þurrkast hann einfaldlega út í náttúruhamförum og þótt það sé aldrei sagt berum orðum veit lesandinn að þessi bær verður aldrei endurreistur. Ef aðalsöguhetjan sker á  tengslin við bæinn (og þar með þrúgandi fortíð sína), sem hún gerir gjarnan, losnar hún þar með undan þeim örlögum að hverfa með honum. Hún eignast framtíð. The end

Dularfullur

Í Fyrirmyndarfirði eru fréttir sagðar með hvískri yfir kaffibollum því Fyrirmyndarfjörður brimar af leyndarmálum. Undan gluggatjöldunum gægjast forvitnar kellingar. 

Ljóðrænn 

Fyrirmyndarfjörður er umlukinn stórbrotinni náttúru og náttúruöflum. Þeir sem eru ekki ómálga af leiðindum eru talandi skáld. 

Þrunginn sögu 

Í míkrókosmos Fyrirmyndarfjarðar speglum við öfl, uppbyggingu og krísur kapítalískra afla og stéttabaráttu – kvótakerfið er undir, útgerðin er undir, atgervisflótti 20. aldarinnar er undir, sjálfsmyndarkrísur þjóðarinnar eru undir. 

Og praktískur

Fyrirmyndarfjörður er passlega stór og passlega fjölbreyttur. Við eina og sömu götuna geturðu fundið stórgrósserinn og bæjarrónann, erlenda verkamenn og útlenska draumóramenn, kjarnafjölskyldur og bóhem. Það er stutt á pósthúsið, stutt á bæjarskrifstofuna, stutt upp á fjall og út í sjó. „Smábærinn er viðráðanlegur söguheimur“, sagði Sindri Freysson einu sinni í viðtali (um Augun í bænum). „Og það er hægt að gera ákveðna stúdíu á honum sem hefur miklu víðari skírskotun út í stærra þjóðfélag.“

* * *

Þrátt fyrir allar þessar klisjur og endurtekningar er ágætt að halda því til haga að þau skáldverk sem gerast í Fyrirmyndarfirði (og nágrenni) eru að öðru leyti býsna fjölbreytt að efni og formi. Frá drengjasögum Böðvars frá Hnífsdal að togarasögum Eyvindar P. Eiríkssonar og Njarðar P. Njarðvík, frá krimmum Árna Þórarinssonar, Yrsu Sigurðardóttur og Stefáns Mána að kómískum smásögum Arnrúnar frá Felli, frá feminískum frásagnarbókmenntum Bennýjar Sifjar Ísleifsdóttur að allegóríum Guðna Elíssonar og Reynis Traustasonar, frá trans þroskasögu Margrétar Tryggvadóttur að sósíalrealisma Óskars Aðalsteins, líkt og frá kvenskörungamyndum Guðmundar G. Hagalín að póstmódernískri auto-fiksjón Huldars Breiðfjörð er hvað sem öðru líður langur vegur. Þá er því heldur alls ekki svo farið að „utanbæjarmenn“ skrifi á einn veg um svæðið og „heimamenn“ á annan – þótt kannski séu kunnuglegu smáatriðin fleiri hjá þeim sem þekkja betur til. 

* * *

Fyrirmyndarfjörður er rannsóknastofa fyrir drauma landsmanna, óuppfyllta og/eða uppleysta. Í honum eru særðar fram ljúfsárar fortíðir sem virðast til góðs og ills hafa verið einfaldari og kraftmeiri en samtíminn, einfaldari og kraftmeiri en nafnlaust fjölmennið, einfaldari og kraftmeiri en umferðarteppur á slabbsósa hraðbrautum á leiðinni frá einu neyslumusteri til þess næsta, en líka grimmari og þröngsýnni, forneskjulegri og veiklundaðri. Fyrirmyndarfirðingurinn gegnir hlutverki „hins“ – líka fyrir okkur sem höldum stundum að við búum þar, að við „séum hann“, en það er ekki þannig – enginn er hann. Fyrirmyndarfjörður undirstrikar bara það sem við erum ekki. Hann er það sem við vorum til þess að getum verið – hann er ljótur þegar við viljum segjast orðin falleg, og fallegur þegar við viljum segjast orðin ljót. Ef líf okkar eru óspennandi eru lífin í Fyrirmyndarfirði æsileg; ef líf okkar eru yfirþyrmandi eru lífin í Fyrirmyndarfirði huggandi. Bældu karlarnir og ófullnægðu konurnar eru dormandi eldfjöllin sem við vonum að við séum, kjaftforar slordísirnar og upprennandi athafnaskáldin eru kraumandi eldfjöllin sem okkur dreymir um að verða, kvótakóngarnir frekjuleg sprengigosin sem við viljum geta kveðið niður. Hvort sem það tekst eða ekki verður lífið í Fyrirmyndarfirði aldrei leiðinlegt – nema inn á milli og þá verður það háskalega drepleiðinlegt. Og hvað sem því líður verður alltaf slegist á næsta balli, við vitum þetta, það verður riðið á bak við hús, kannski til skiptis en sennilega bæði í einu. Og síðan gerir aftakaveður. Það verður ekki næs en það verður allavega eitthvað. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *