Á laun

Ég byrjaði daginn á því að blása af Dyflinnarferðina. Ég mun samt klára endurlesturinn á Ulysses og koma hérna inn umfjöllun um síðustu kaflana. En árlega listamannalaunabréfið barst í dag og ég lækka víst í launum um 25% á næsta ári – og var ég fyrir að reka mig með tapi, standandi ofan í sístækkandi holu. Ég veit ekki alveg hvernig maður lifir af 400 þúsund kalli á mánuði – í verktakalaun – með tvö börn og húsnæðislán. Þetta gerir samt fólk. En þá fer það áreiðanlega ekki í óþarfa utanlandsferðir.

Það tók Joyce sjö ár að klára Ulysses. Mér fannst það einhvern tíma langur tími en hafandi lesið bókina – og sjálfur eytt fjórum í Illsku, þremur í Náttúrulögmálin og þremur í Hans Blæ – finnst mér það eiginlega bara frekar stutt. Hann hefur áreiðanlega ekki verið á Facebook. Ekki bloggað.

Þetta er leiðindadagur. Ég hef heyrt í fleirum sem hafa lækkað í launum. Haukur Már fékk n´úll mánuði – sem er sturlað. Alveg kengruglað.

En sem sagt. Joyce var sjö ár með Ulysses. Það tók Ódysseif 20 ár að komast heim. Ég kemst áreiðanlega til Dyflinnar einhvern tíma (við frestuðum vel að merkja líka síðasta vor).

***

Ég er að lesa Marx. Eða hlusta á Marx. Ekki Karl samt heldur W. David Marx. Davíð Marx! Einn af sænsku menningarritstjórunum mælti með bókinni Blank Space: A Cultural History of the 21st Century. Bókin er sögð vera hörð gagnrýni á fyrsta aldarfjórðung nýrrar aldar, þar sem popptimismi (sú hugmynd að það sem er vinsælt hljóti að vera gott), omnivorismi (öll genre eru góð genre) og sjálfhverfa eru sögð grafa undan eðlilegri framþróun í listum – nýtt tekur aldrei við af gömlu, listamenn endurnýja sig ekki að ráði (nema kannski lúkkið), hlutir detta ekki úr tísku o.s.frv. Listamenn eru pikkaðir upp út frá samfélagsmiðlavinsældum og samfélagsmiðlavinsældir gera út á hið kunnuglega og ófrumlega annars vegar, og ósjálfbær hortugheit hins vegar (hinir hortugu þurfa að ganga langt til að vekja athygli, verða vinsælir og svo fer einhver að skoða hvað þeir sögðu til að vekja athygli og upp úr því er þeim slaufað).

Að mörgu leyti er þetta áhugaverð bók. Það er gaman að rifja upp þessi ár – þetta eru sirkabát fullorðinsár mín hingað til. En hún einblínir rosalega mikið á kúltúr sem frægðarfyrirbæri og segir þar með afar takmarkaða „menningarsögu“ – þeir sem eru teknir til skoðunar eru eiginlega undantekningalítið tónlistarmenn og það sem er fjallað um meðfram ferli þeirra er tíska, stjórnmál og tækninýjungar. Ég á tvo tíma eftir af bókinni (af 12 minnir mig) og það hefur enn ekki verið nefndur einn einasti rithöfundur, enginn myndlistarmaður – m.a.s. lítið verið fjallað um Hollywood og þá bara til að nefna Marvel eða Avatar. Tónlistarmennirnir eru allir súpersúperstjörnur – Taylor Swift og Kanye. Og svo eyðir hún talsverðu púðri í fólk einsog Paris Hilton og Kardashian-fjölskylduna. Bókin gengur með öðrum orðum út á að gagnrýna samfélag sem er með þráhyggju fyrir frægð og athygli, þar sem popptimisminn trónir, en er nákvæmlega sama marki brennd sjálf – sýnir ekki minnsta áhuga á neinu nema því sem er sensasjónalt eða viral. Nú má vel vera að þessi hluti menningarinnar hafi verið meira áberandi síðustu 25 árin en 25 árin þar á undan – en það þýðir hvorki að þannig selebkúltúr hafi ekki verið til á árunum 1975-2000 né að það hafi ekki verið gerð eftirminnileg list á síðustu 25 árum, sem vert sé að minnast (og sem verður minnst þegar rykið er fallið).

***

Annars langar mig ekki að skrifa í dag.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *