Jólabókaflóðið: Pardusdýr

Ég er varla búinn að skrifa jó þegar autocomplete bætir við labókaflóðið.

Ég er ekkert búinn að lesa nema frábærar bækur. Staðreyndirnar hans Hauks Más, til dæmis, Fyrir vísindin eftir Önnu Rós – sem ég vona að sé lesin í Kurt Schwitters – Hvalbak eftir Maó Alheimsdóttur, Mara kemur í heimsókn eftir Natösju S, Gakk eftir Guðrúnu Brjánsdóttur og Tími til neins eftir Elínu Eddu. Ég er með einhver tilskrif um ljóðalandslagið í bígerð (fyrir sænskt tímarit) og hef ekki fleiri orð um þessar bækur í bili – mæli bara með þeim! – og kærleikar okkar Hauks Más gera mig ómarktækan, þótt ég standi við að bókin finnist mér frábær, segi kannski það eitt annað að hún er alls ekki um vitvélar eða hvað þær eru vitlausar (eða líklegar til að gera okkur vitlaus) heldur um það hvernig við bregðumst við staðreyndum sem við kunnum ekki að meðtaka – þegar það birtist alltíeinu einhver sem „kann ekki að lesa herbergið“ heldur dælir bara úr sér upplýsingum um eitthvað sem sannanlega gerðist og dregur af þeim rétt svo augljósustu ályktanir. Hún fjallar um vandræðasvipinn á okkur. Og mætti kannski lesa hana saman við kvikmyndina Festen.

***

Bjarni mundi ekki nákvæmlega hvað það var sem hafði fyrst leitt hann inn í veröld síðari heimsstyrjaldar þar sem hann dvaldi mestöll unglingsárin en mundi augnablikið þegar hann áttaði sig á því að stríðið var ekki bara atburðurinn sjálfur heldur líka sagan af honum.

Í fyrrakvöld las ég Bláa Pardusinn: Hljóðbók eftir Sigrúnu Pálsdóttur. Þetta er bók um þrjá hljóðbókahlustendur sem eru allir að hlusta á samnefnda bók á einhverri streymisveitu. Hljóðbókin er „söguleg skáldsaga“ um íslenska konu sem hefur lifað ævintýralegu lífi – meðal annars kennt dóttur Mussolinis ensku! – sem einhvern veginn í huga mínum rímaði við raupsögur íslenskra sjómanna, en það er bókmenntagrein sem hefur lítið farið fyrir síðustu 30 árin eða svo. Það er svolítill rómantískur sjoppustíll á hljóðbókinni sjálfri, hún er vel skrifuð en á sama tíma sensasjónalísk – og einhvern veginn skrifuð einsog á táberginu, einsog það sé eitthvað rosalegt að fara að gerast (sem það og er).

Unnur Andersen Jones hlustar á bókina af því hún óttast að hún fjalli um það sem hún hugsanlega fjallar um – ég get varla sagt meira án þess að skemma endann – en hún hlustar líka til þess einfaldlega að sofna (og gerir það á 45 sekúndum).

Bjarni Borg er skipreka sagnfræðingur og erfingi að súkkulaðiverksmiðju sem hlustar á söguna af ástríðu fyrir því að finna á henni sagnfræðilegu veikleikana – enda hafði skipbrot hans í námi sannfært hann um að „það væru hinar hráu skjalföstu staðreyndir, og tengsl þeirra við ótal smáatriði fortíðar, sem gerðu söguna í skýrri framsetningu að lyklinum að þeirri lausn sem samtíminn þurfti á að halda. Nú þegar þessi skelfilega saga gerði sig líklega til að endurtaka sig.“

Elín Helena Lacroix les hins vegar bókina – eða hlustar – af ástríðu fyrir einhverjum innri sannleika skáldskaparins og finnst jafnt smávægileg söguleg atriði bókarinnar sem og stórvægilegur búningur hennar litlu skipta – seinni heimsstyrjöldin og allt hitt er bara rammi til þess að segja eitthvað um mennskuna og þar hlýtur „sagnfræðin“ að lúta í lægra haldi fyrir „sögunni“.

Þessir þrír lesendur eru auðvitað á „collision course“ einsog það heitir – þeir hljóta að lenda í árekstri, allir að keyra í sitthvora áttina á sömu akreininni (?). Þetta er stutt bók og snörp og einhvern veginn rúmar hún samt alls konar útúrdúra – en fjallar í kjarnann um muninn á því að segja satt og því að segja satt eða segja satt. Hún er með alvarlegt heimspekilegt hjarta en líka sprenghlægileg í gegn.

***

p.s.

(Og svo ég haldi áfram að vera ósammála túlkunum annarra – án þess að vísa til þeirra – þá er Blái Pardusinn alls ekki melódrama um persónur – og við verðum að fara að hvíla þessar endalausu klisjur um að tengja eða tengja-ekki við persónur – þær eiga alls ekki við um jafn margar bækur og þeim er beitt á, það eru ekki allar bækur um persónur, og stundum – þegar persónurnar eru ógeðfelldar, til dæmis – þá snýst þetta meira um lesandann en bókina, sumir hafa enga samúð með syndurum. Það eru persónur í Bláa pardusnum, alls ekki ógeðfelldar, og við dveljum ekki lengi hjá þeim – fáum af þeim snappsjott – en heildin, rímið/speglunin, í mis-passífri hlustun þeirra þriggja og aktífum ævintýrum Guðrúnar, er það sem krefst lesturs. Yfir og út.)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *