Hamlet

Þegar ég var í menntaskóla. Svona ættu allar bloggfærslur miðaldra manna að hefjast. Þegar ég var ungur maður. Fullur af æskuþrótti. Kynorku! Þegar ég var framsækinn og stæltur. Þegar ég var á þeim aldri að ég hefði getað leyst upp veröldina með því einu að einbeita mér svolítið. Þá fór ég ásamt bekknum mínum í svokallaða „menningarreisu“ til Reykjavíkur. Tilgangur þessa ferðalags var að líta við á því sem hét áreiðanlega „háskóladagar“ eða eitthvað álíka – að kynna sér starf þeirrar menntastofnunar – og að sjúga í sig borgarmenninguna. Eftirminnilegasta augnablik þessarar helgar er þegar við stóðum saman fjórir-fimm góðir vinir fyrir utan veitingastað sem hét einhverju ítölsku nafni í einni af hliðargötum Laugavegs, biðum eftir leigubíl í slabbi og regni að lokinni veglegri máltíð. Þetta var lokakvöldið. Kannski höfðum við verið afgreiddir um bjór á barnum. Svona höfðum við áreiðanlega fram til þessa aðallega staðið í útlöndum – á Benidorm í þriðjubekkjarferðalagi eða í Kaupmannahöfn á einhverri Hróarskeldureisu – en aldrei í höfuðborginni. Og einn vina minna dæsti þunglega, en á sama tíma saddur og glaður, og sagði: Reykjavík. Heimsborg smáborgaranna. Og við hinir kinkuðum kolli. Mér fannst þetta gáfulega mælt – sennilega aðallega af því ég var Ísfirðingur og það er rígur, en líka af því þetta var einhvern veginn bæði í senn einsog að vera í útlöndum og alls ekki. Þetta var ekki alveg nógu framandi en samt ekki heima.

Það sem ég man ekki alveg nógu vel eftir er Hamlet Baltasars Kormáks sem við sáum í Þjóðleikhúsinu. En hann rifjast nú samt aðeins upp fyrir mér núna í umræðunni um Hamlet Kolfinnu Nikulásdóttur (af hverju finnst mér þessi nöfn svona skyld – Kolfinna Nikulás og Baltasar Kormákur – það er einhverjir ljóðstafir í þessu)? Af því að í minningunni eru umræðurnar um þær svo svipaðar. Að það þurfi að færa hverri kynslóð sinn Hamlet. Að það þurfi að ögra hefðinni (eða ekki). Þurfi pönk og læti (eða ekki). Samtíma. Það viti engin hver hin „Shakespearska“ hefð sé, viti enginn hvernig hann setti upp þessi verk – og að hefðin eigi sér líf sjálfstætt frá William sjálfum og hans uppsetningum og það skipti engu máli fyrir hefðina hvernig hann gerði það. Und so weiter.

Það sem slær mig núna, miðaldra mann án lífsþróttar og kynorku, er að svona uppfærslur skuli alltaf gerðar á sömu forsendum og með svipaðar hugmyndir um æskuna eða almenning að vopni. Einsog æskan sé fasti. Eitthvað fyrirbæri sem gegni pönkhlutverki – og þá felast í því hlutverki væntingar um að vaxa úr grasi, hætta að vera pönkari (mér er sagt það sé ekkert hallærislegra en fimmtugur pönkari – enda eru allir pönkararnir hættir að vera pönkarar, eða réttara sagt búnir að rebranda pönkið sem eitthvað sem hentar betur fimmtugum – eða réttara sagt sextugum – körlum og konum).

Spurningin sem ég spyr mig er einfaldlega hvort þetta sé í samræmi við veruleikann eða hvort þetta sé leikur með einhverjar persónugerðir sem eru ekki til lengur. Við lifum ekki á tímum agressífrar ögrunar – ekki listavinstramegin við miðju, í dag er það fyrst og fremst afturhaldshægrið sem ögrar vísvitandi, rekur upp vísifingur og segir fólki að fokka sér. Og kannski einhverjir inselar, þá sjaldan þeir manna sig upp. Fyrir þessu eru ýmsar ástæður – ekki síst bara sú að viðstöðulaust áreitið sem fylgir tækjabúnaðinum okkar, galdrastöfunum, gerir þögnina að stærstu mögulegu byltingunni. Rónna.

Ég upplifi æskuna og nútímann sem mjúk – ekki transgressíf heldur tillitssöm og stundum taugaveikluð og stundum low-key reið og stundum lost. Það er þessi lostleiki sem gerir Hamlet tímalausan – það er hann sem við eigum alltaf sameiginlegan og hann sem bergmálar í öllu frá Ulysses til 101 Reykjavík. Og þennan lostleika – þessi týndheit – þarf áreiðanlega að finna og orða upp á nýtt fyrir hverja kynslóð. En kannski er hættan alltaf sú að maður detti inní einhverja Shakespearska hefð – skrúfi bara Prodigy í botn, vísi í klám og pólitík og láti alla fá nútímavopn, af því það sé þannig sem æskuþróttur og týndleikinn birtist (öllum kynslóðum).

Ég ætlaði að fara suður og sjá Hamlet Kolfinnu. Það var á haustplaninu. En svo er ég bæði úrvinda eftir ferðalög haustsins og í svo djúpri skuld við bankann og skattinn og lífeyrissjóðina að mér finnst ósennilegt að ég splæsi á mig svo mikið sem notaðri bók fyrren einhvern tíma í vor. Það er líka eiginlega alveg sama hvað hún hefur gert við hann, mig hefði samt langað að sjá það, og hefði alltaf notið þess – og ég hef fulla trú á að mjög margt af því sé líka mjög gott, ég hef lesið bæði sóknardóma og varnardóma og fundist það skemmtilegur fagurfræðilegur debatt, og það hefði verið gaman að fá að máta sínar Hamlethugmyndir við niðurstöðuna á sviðinu. Og sennilega er ég bara að skrifa þetta til þess að syrgja glatað tækifæri.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *