
Hefst þá heimferðin – nostos – og tekur yfir þrjá síðustu kaflana.
Í Ódysseifskviðu er Evmeus svínahirðir Ódysseifs/Penelópu á Íþöku og fyrsti maðurinn sem Ódysseifur hittir þegar hann snýr aftur. Þá er Ódysseifur dulbúinn sem betlari – hann er að kanna stöðuna – svo hvorki Evmeus né Telemakkos átta sig á því að Ódysseifur er snúinn aftur. Telemakkos kemur vel að merkja líka heim í þessum kafla – hann hefur verið að leita upplýsinga um föður sinn á Spörtu og Pýlos. Telemakkos og Evmeus hjálpa svo Ódysseifi við slátrunina miklu í lok bókarinnar, þegar Ódysseifur gerir loks út af við vonbiðla Penelópu.
En snúum okkur að Joyce. Klukkan er að ganga tvö að nóttu, aðfararnótt 17. júní, 1904. Svallinu er lokið og hefst þá heimferðin. Stephen Dedalus og Leopold Bloom yfirgáfu rauða hverfið Nighttown í síðasta kafla. Þeir eru þreyttir og slæptir og Stephen enn nokkuð drukkinn, þótt hann sé ekki jafn frávita af drykkju og í síðasta kafla. Þeir ráfa inn í skýli ætlað hestvagnaeklum – „a cabman’s shelter“, kúskaskýli, kallar SAM það, en kúskur er gamalt orð fyrir ekil – og hitta þar fyrir sjómann sem raupar mikið (og er sennilega að villa á sér heimildir – segist heita eitt en svo er annað nafn á póstkorti sem honum var sent) og gamlan kúsk sem rekur skýlið, og sem þeir hafa grunaðan um að vera kannski „Skin-the-goat“ („Fláðu-geitina“), frægur flóttabílstjóri sem tók þátt í því sem kallað var Phoenix Park-morðin (og var raunveruleg persóna – ræddur í Eólusarkafla). Allra handa minni karakterum er hér einnig reglulega ruglað saman – menn heita sama nafninu – og það er almennt mikill hringlandi á ídenítetum.
Mikið meira gerist ekki í raun, ekki á yfirborðinu, en það eru sagðar sögur og bollalagt – sem allt er þó því marki brennt að vera fram úr hófi óáreiðanlegt. Sögurnar sem eru sagðar eru langsóttar – sjómaðurinn segir t.d. sögu af Simoni Dedalusi (föður Stephens), að hann hafi séð Simon með ferðasirkus í Stokkhólmi og hann hafi verið ótrúleg skytta – kenningar Blooms og Dedalusar sömuleiðis, meira að segja tungumálið í kaflanum er langsótt. Í upphafi kaflans er Bloom t.d. sagður vera „an orthodox samaritan“ – en samverjar voru auðvitað ekki orþódox, ef maður er samverji er maður skilgreiningunni samkvæmt einmitt alls ekki orþodox. (Þessu nær SAM ekki að snúa og hefur það „ósvikinn samverji“ – sem er auðvitað það sem var meint svona „bókstaflegast“). Það úir og grúir af svona „villum“ í kaflanum – snobbuðustu Ulysses-áhangendur þola hann ekki, af því textinn er „lélegur“, myndlíkingarnar nykraðar, staðreyndirnar rangar og svo framvegis, og skiptir engu máli þótt það sé allt augljóslega með vilja gert.
„Feðgarnir“ tengjast fyrst almennilega í þessum kafla – nú þegar Stephen er ekki lengur ofurölvi – og maður finnur enn meira fyrir löngun Blooms til þess að sjá um unga manninn. Hér verður mín freistað að ítreka að þeir eru báðir útgáfa af Joyce – og umhyggjan og áhyggjurnar sem Bloom sýnir Dedalus eru kannski einhvers konar sjálfsást fullorðins manns á sjálfum sér ungum, sem er ekki minna fögur fyrir það. Á einum tímapunkti jaðrar líka við að Bloom bjóði Stephen sína Penelópu, Molly – sem kallar á skyldan lestur en segir líka eitthvað um Ödipusarduldir almennt sem og hin sértæku pervertísku djúp sem búa innra með Bloom.
Í þessum kafla fáum við enn fremur dálitlar útskýringar á því hvers vegna það skildu leiðir með Stephen annars vegar og Buck Mulligan og Haines hins vegar – en svo virðist sem þeir hafi lent í rifrildi, jafnvel átökum, og Bloom fullyrðir að jafnvel þótt Dedalus fyndi nú far út í Martello-turn þá myndu þeir ólíklegir til að hleypa honum inn. Það kemur fram að Stephen hefur ekkert borðað frá því í gær – sem er þá ekki 16. júní (fyrir miðnætti) einsog Bloom heldur fyrst, heldur 15. júní. Bloom étur mikið á Bloomsdegi en Dedalus drekkur bara (Bloom drekkur mjög hóflega en eitthvað þó). Í ljósi alls þessa ákveður Bloom að bjóða Stephen gistingu – eftir að hafa sýnt honum átta ára gamla mynd af Molly (og myndin er sögð líkjast henni „þá“).
Svo halda þeir áleiðis. Og ef við rímum þetta við Hómer þá er ekki bara faðirinn/Bloom/Ódysseifur að fara heim heldur líka sonurinn/Dedalus/Telemakkos.
Þetta er ekki uppáhalds kaflinn minn í bókinni og það hefur ekkert að gera með „vitleysurnar“ – sem eru eiginlega það skemmtilegasta í honum, þegar maður kemur auga á þær (en margar þeirra fara framhjá manni – þetta er oft mjög „lært“). Það er bara eitthvað lágt á honum risið, kannski vegna þess að þreyta og doði þeirra fósturfeðga endurspeglast í textanum – kannski vegna þess að hann er til þess að gera „skýr“ þrátt fyrir ruglinginn, en án þess þó að verða „tær“ einsog t.d. í Dubliners (ef það meikar eitthvað sens). Hann er hálfgerður millikafli. En það er meira stuð í næstu tveimur.
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.
* * *
Yfirferðin 2025:
Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti
(Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði).
Skylla og Karybdís: Je est une autre
Sírenur, væl og reykur: Dyflinni syngur
Auga sjáandans: Þjóðremba og heift
Nekt og fró: Násika á ströndinni
* * *
Eldri bloggfærslur um Ulysses: