Sírenur, væl og reykur: Dyflinni syngur

God made the country man the tune.

Ellefti kafli Ulysses er kenndur við sírenurnar. Söguþráðurinn hjá Hómer er sirka þannig að gyðjan Kirka, sem ráðleggur Ódysseifi á ferðum sínum, biður hann að gæta sín þegar hann siglir hjá eyjunni þar sem sírenurnar búa. Viðvörun þessi hljómar svo í fornyrðislagsþýðingu Sveinbjarnar (sem verður stundum að fá að vera með):

Fyrst muntu, frægr
fylkir, koma
sætrómaðra
Sírena til.
Unaðsfullum þær
ómi seiða
fíra hvern,
er þeirra fund sækir.

Ef einhverr óvörum
at þeim kemr,
ok róm Sírena
sætan heyrir,
honum heim komnum
hvorki munu
börn né beðja
á bæ fagna.

Því Sírenur
sitja í grasi
og seggi seiða
saungva hreimi;
ok há hrúga
hjá þeim liggr
skinna skorpinna,
beina skinnina,
seggja, er seiddir
saungvi snjöllum
á foldu þar
fúnat hafa.

Kirka mælist til þess að Ódysseifur bræði hunang og hafi í eyrum sér meðan hann siglir hjá eyjunni. Ódysseifur er hins vegar forvitinn og lífsþyrstur maður og vill heyra þennan fagra söng svo hann bregður á það ráð að bræða hunang í eyru manna sinna og láta þá sjá um siglinguna – og binda sig við siglutréð svo hann geti ekki skipt sér af.

Hjá Joyce erum við nýsloppinn frá Skellibjörgum, sem fólust í siglingu um Dyflinni alla, stukkum milli hausa hinna ólíku persóna og fylgdum einhverjum þeirra á ferðalagi um borgina – ekki síst landstjórunum sem fara um borgina í hestvagni og sjá allar persónurnar aftur á leið sinni. Nú gerist dálítið óvenjulegt í bókinni: Næsti kafli hefst þar sem þeim síðasta lauk og á sama stað. Það er ekkert hopp í tíma eða rúmi. Í lokabroti Skellibjarga sáum við fröken Douce og fröken Kennedy (sem ég kallaði áreiðanlega báðar „frú“ í yfirferð síðasta kafla og mun sjálfsagt laga) sem stóðu úti í glugga á Ormondhótelinu og fylgdust með fylkingunni aka hjá.

Fröken Lydia Douce er líka stundum kölluð „brons“ og fröken Mina Kennedy er líka stundum kölluð „gull“ – þetta er áreiðanlega líka vísun í hárlit þeirra en fröken Kennedy er þess utan nýkomin úr sumarfrí í strandbæ 100 km norður af Dyflinni og verður tíðrætt um að hún sé svolítið sólbrennd.

Þær stöllur eru augljós sírenulíking – aðlaðandi konur sem knæpugestir heillast af og daðra við – en í forgrunni er samt hljómur og tónlist. Bæði er prósinn dýrt ortur og fullur af hljóðleik og svo er einhver óhemja af vísunum í alls kyns óperur og sönglög – auk þess sem leikið er á píanó og sungið. Þá er líka aðeins étið (Bloom er aftur kominn í innyflin) og drukkið – enda er Ormondhótelið knæpa og fyrir flestar persónur bókarinnar er 16. júní mikill fylleríisdagur og sennilega verður talsvert drukkið í flestum þeim köflum sem eftir eru af bókinni. Líklega er það samt hér sem menn verða fyrst fullir fyrir alvöru og einsog það tengist er það líka hér sem prósi Joyce verður tilraunakenndur fyrir alvöru. Altso, sírenurnar eru ekki eitthvað eitt, þær eru næstum allt.

Ormondhótelið er sem sagt bæði bar og veitingastaður og rýmið tví- ef ekki þrískipt – það eru víst engar heimildir um innanstokksmuni á þessum tíma aðrar en Ulysses, vegna þess hve tíðar og miklar endurbætur fóru fram á þessum tíma (og mætti hér því augljóslega láta reyna á kenningu Joyce um að Dyflinni mætti endurbyggja upp af síðum bókarinnar – hótelið er reyndar í einhvers konar endurbyggingu líka í dag, það er búið að rífa mikið af því en lítið endurbyggja og gengur víst ekkert ægilega vel).

Bróðurpart kaflans situr Bloom í einum hluta staðarins og heyrir mest það sem gerist í hinum hlutanum – en sér líka eitthvað af því í gegnum dyr sem skilja rýmin að. Það er líka píanó sem er kannski í þriðja rýminu og kannski á barnum. Svona teiknar YouTubarinn Adam Savage upp rýmið í yfirferð sinni yfir kaflann (B og G eru Bloom og Goulding).

Kaflinn hefst á tveimur fullkomlega óskiljanlegum síðum.

Bronze by gold heard the hoofirons, steelyringing.
Imperthnthn thnthnthn.
Chips, picking chips off rocky thumbnail, chips.
Horrid! And gold flushed more.
A husky fifenote blew.
Blew. Blue bloom is on the.
Goldpinnacled hair.
A jumping rose on satiny breast of satin, rose of Castile.
Trilling, trilling: Idolores.
Peep! Who’s in the… peepofgold?

O.s.frv. Hvert einasta brot reynist síðan tekið úr öðrum stað annars staðar í kaflanum – um daginn heyrði ég mjög skemmtilega ræðu frá ljóðskáldinu Heiðrúnu Ólafsdóttur, sem var að kynna Kvennakór Ísafjarðar til leiks með þessari aðferð, og hrærði svona saman línum úr hinum ólíku lögum kórsins. Þessu hefur verið líkt við forspil að óperu þar sem stefin hljóma mörg í fyrsta sinn eða hreinlega við fyrstu augnablik sinfoníutónleika á meðan sveitin er enn að stilla – eða renna í gegnum einhverjar trillur og erfið stef – og áhorfendur sitja í miðri kakófóníunni (sem hefur ekkert með kakóseremónóníur að gera) og bíða þess að sjálft verkið hefjist. Þessum skrítna kafla lýkur síðan á orðinu: „Begin!“ – sem maður gæti þá ímyndað sér að sé hljómsveitarstjórinn að lyfta sprotanum. Og hefst þá havaríið.

Bronze by gold, miss Douce’s head by miss Kennedy’s head, over the crossblind of the Ormond bar heard the viceregal hoofs go by, ringing steel.

Hér fáum við sem sagt strax enduróm af upphafsorðum kaflans. Brons og Gull horfa út um gluggann og einhver maður með pípuhatt horfir á þær til baka. Þær fíflast. „Aren’t men frightful idiots?“ – snúa upp á hárið á sér, hér er dæmi um músíkina í málinu:

Miss Kennedy sauntered sadly from bright light, twining a loose hair behind an ear. Sauntering sadly, gold no more, she twisted twined a hair. Sadly she twined in sauntering gold hair behind a curving ear.

Þetta er nú eiginlega meiri djass en klassík – spunnin tilbrigði við stef – og var djassinn samt varla til þegar þetta var skrifað. Fröken Kennedy (Gull) bætir við: „It’s them has the fine times.“

Við sjáum Bloom ganga hjá með Sweets of Sin í brjóstvasanum. Vikapiltur kemur með te fyrir dömurnar og spyr hvort þær séu að gægjast út um gluggann eftir kærastanum sínum. Þær skammast í honum:

A haughty bronze replied:
—I’ll complain to Mrs de Massey on you if I hear any more of your impertinent insolence.
—Imperthnthn thnthnthn, bootssnout sniffed rudely, as he retreated as she threatened as he had come.

Og þá vitum við hvað hin óskiljanlega önnur lína kaflans þýðir. Hún er vikapilturinn að herma eftir Brons („Óskammmmmm ffff“ er þetta í þýðingu SAM – fyrir „óskammfeilna frekju“).

Þær skammast meira yfir körlum og ræða sólbruna og sumarfrí og svo er Bloom skotið aftur inn þar sem hann gægist í búðarglugga (sem eru auðvitað sírenur) og rifjar upp tilraun sína til þess að sjá upp um stytturnar á Þjóðarsafninu, hvort þær væru anatómískt rétt samansettar, og nú vitum við að hann varð einskis vísari („I could not see“). En hann sá Buck Mulligan líka – sem sagðist hafa séð Bloom gægjast á stytturnar – og veit að hann er vinur sonar Dedalusar.

Brons og Gull halda áfram að f´íflast og ræða hversu hræðilegt það væri að vera giftar einhverjum lyfsala sem seldi Brons sólkrem. Simon Dedalus kemur inn og spyr hvort ekki hafi verið gaman í strandbænum – hann er augljóslega fastakúnni – Brons segist hafa legið á ströndinni allan daginn og Simon svarar: „That was exceedingly naughty of you […] Tempting poor simple males.“ Brons segir honum að hætta þessari vitleysu og hann pantar sér viskí og vatn og spyr hvort George Lidwell hafi komið við – og hann mun hafa verið þarna í hádeginu.

Þá kemur Lenehan og spyr hvort Boylan hafi komið að leita sín (einsog hljóðfæraleikari að endurtaka stef). Í síðasta kafla hringdi Boylan í ritarann sinn sem sagði Lenehan hafa komið við og að hann yrði á Ormondhótelinu klukkan 16. En það er einmitt klukkan 16 – núna – sem Boyle á að mæta á ástarfund með Molly, eiginkonu Bloom. Og hann hefur ekki komið á Ormondhótelið, segja Brons og Gull.

Fröken Kennedy les mikið í kaflanum og hunsar Lenehan sem er að stríða henni („reyna við hana“).

Lenehan heilsar Simon: „Greetings from the famous son of a famous father.“ Simon spyr hver það sé og Lenehan útskýrir að það sé auðvitað Stephen og þeir hafi verið saman á kránni fyrr um daginn (með hópnum sem fór af skrifstofum The Freeman’s Journal). Nema hann drakk ekki bara bjór – þetta er Joyce og þetta eru sírenurnar svo hann „quaffed a nectarbowl“.

Simon tekur eftir því að búið er að flytja píanóið og Brons svarar að píanóstillingamaðurinn hafi komið í dag – og okkur skilst smám saman í þessum kafla að það er blindi maðurinn sem Bloom hjálpaði yfir götu og Boylan gekk næstum um koll. Þær eru sammála um það Brons og Gull að hann hafi verið stórkostlegur píanóleikari að auki, varla tvítugur að aldri.

Þjónninn Pat birtist – hann þvælist fram og aftur í kaflanum og afgreiðir fólk í sal – nær í bjór og fer aftur.

Við sjáum Bloom á ný. Hann er í ritfangaverslun og er að kaupa bréfsefni til þess að geta svarað sínum erótíska pennavini, Mörthu, á einmitt þeirri stundu sem Molly á að vera að hitta Boylan. Hann er mjög vandræðalegur í búðinni, kurteis og vinalegur – allt sem Boylan var ekki í blómabúðinni þar sem hann daðraði við afgreiðslukonuna.

Píanóstillingamaðurinn virðist hafa gleymt tónkvíslinni sinni, sem einhver slær tón á, og Simon Dedalus tekur að syngja ástarsöng og spila undir á nýstillt píanóið. Lenehan heldur áfram að reyna við Gull með engum árangri, hún klárar bókina. Og svo birtist Boylan. Lenehan heilsar honum: „See the conquering hero comes.“

Fyrir utan gengur Bloom – „the unconquered hero“ – og sér vagninn sem Boylan er nýstiginn út úr („jaunting car“ – tveggja sæta hestvagnataxi). Bloom veit að Boylan á að vera við það að skríða upp á konuna hans og veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið – að grípa elskhuga hennar við þetta óhugsandi athæfi, in flagrante delicto, að fara einn inn á bar. Hann rekst á Richie Goulding, frænda Dedalusar, sem er svangur einsog Bloom. Bloom ákveður að fylgja honum inn á Ormond hótelið, fá sér að borða og njósna um Boylan í leiðinni. Þeir fá sér sæti í matsalnum.

Gull brosir breitt til Boylans (eftir að hafa hunsað Lenehan) en Brons brosir enn breiðar og fær alla athyglina. Lenehan og Boylan ræða veðreiðarnar – úrslitin eiga að berast klukkan 16, það er allt að gerast núna. Bloom hlerar og skilur ekkert hvað Boylan er að gera. Þegar Gull hverfur í augnablik grátbiður Lenehan Brons um að gera trikkið sitt, með orðunum „sonnez la cloche“ – látið klukkuna glymja (og klukkan er einmitt að glymja 16). Brons lyftir pilsinu upp fyrir hné, dregur í sokkabandið og lætur það smella á lærinu. „La cloche“ æpir Lenehan – en Brons brosir til Boylans. „You’re the essence of vulgarity“ segir hún við Lenehan á meðan Boylan virðir hana lostafullur fyrir sér:

Boylan, eyed, eyed. Tossed to fat lips his chalice, drank off his chalice tiny, sucking the last fat violet syrupy drops. His spellbound eyes went after, after her gliding head as it went down the bar by mirrors, gilded arch for ginger ale, hock and claret glasses shimmering, a spiky shell, where it concerted, mirrored, bronze with sunnier bronze.

Og svo kveður Boyle – sigrast á einni sírenu til þess að fara að hitta aðra. Lenehan fylgir honum út og þar mæta þeir Ben Dollard og föður Cowley – Ben Dollard er nýbúinn að bjarga Cowley frá eignaupptöku, einsog við sáum í síðasta kafla, og þeir eru væntanlega komnir til að fagna.

Dollard sest við píanóið og þeir rifja upp þegar hann átti að koma fram á tónleikum og var buxnalaus og kom við hjá Molly Bloom – sem seldi notuð föt undir slagorðinu „Mrs. Marion Bloom has left off clothes of all descriptions“. Þar fékk hann alltof litlar og þröngar buxur (af Bloom?) sem „skildu lítið eftir fyrir ímyndunaraflið“ einsog sagt er í dag.

Bloom fær sér lifur og beikon, Goulding steik og nýru. Þeir borða þegjandi. Ben Dollard spilar og syngur. George Lidwell kemur inn og er sendur inn til vina sinna (sem gæti bent til þess að píanóið sé ekki við barinn – þótt það hljóti að vera í sjónmáli við barinn).

Af og til heyrum við orðið jingle – gling gló hjá SAM – sem er hljóðið í vagni Boylans sem nú nálgast Eccles stræti 7, heimili Bloom hjónanna.

Simon Dedalus er beðinn um að syngja M’appari úr óperunni Martha eftir Flotow – og Bloom gefur þjóninum Pat merki að hafa hurðina inn að barnum opna svo þeir geti heyrt. Bloom er snortinn af laginu og finnst Simon hafa fagran tón – að hann hefði getað grætt mikið á henni. Og einsog gerist svo gjarnan í þessum kafla verður textinn að hreinni tónlist:

Tenderness it welled: slow, swelling, full it throbbed. That’s the chat. Ha, give! Take! Throb, a throb, a pulsing proud erect.
Words? Music? No: it’s what’s behind.
Bloom looped, unlooped, noded, disnoded.
Bloom. Flood of warm jimjam lickitup secretness flowed to flow in music out, in desire, dark to lick flow invading. Tipping her tepping her tapping her topping her. Tup. Pores to dilate dilating. Tup. The joy the feel the warm the. Tup. To pour o’er sluices pouring gushes. Flood, gush, flow, joygush, tupthrob. Now! Language of love.

Þetta er ölvandi.

Þarna rétt fyrir ofan gerist líka eitt áhugavert sem setur nördinn í manni alveg á hliðina. Í ljósprentuninni af orginal textanum frá Shakespeare & Company – sem er að finna í Cambridge Centenary útgáfunni, stærstu bókinni sem ég á – er bókstafur á hvolfi. Þetta er errata-útgáfa – með athugasemdum Joyce um allar breytingar sem átti að gera fyrir aðra prentun – og hann gerði enga athugasemd við þetta. Svo ég hlýt að gera ráð fyrir að þetta hafi a.m.k. verið viljandi látið vera, hvort sem „mistökin“ eru prentarans eða ekki (ég minni á skemmtilegu söguna af því þegar Beckett tók upp eftir honum „kom inn“ þegar hann var að diktera Finnegans Wake). Þetta er vel að merkja ekki svona í neinni annarri útgáfu sem ég á og ég hef ekkert fundið skrifað um þetta heldur.

Ein áhrifin af því að lesa Ulysses – og það hefur með orðsporið að gera, sannarlega, Rorschach heilkennið, en magnast eftir því sem maður áttar sig á því hvað Joyce hefur raunverulega smurt þessa brauðsneið mörgum lögum – er að maður fyllist bæði spurn og uppljómun af svonalöguðu, auk þess að verða mjög vandræðalegur og sjálfsmeðvitaður um að nú haldi kannski allir að maður sé orðinn geðveikur (af því stundum finnst manni kannski sjálfum svona kenningar annarra hljóma dálítið sturlaðar). En fyrirgefið mér þetta „iʇ“ er auðvitað svolítið einsog haus og það er svolítið einsog hann sé að snúast. Og minnir síðan á hið fræga myndljóð Steve’s McCaffery, William Tell: A Novel.

En aftur að óperunni. Bloom áttar sig á tilviljuninni að Lionel – persónan í óperunni – er að syngja um sína Mörthu akkúrat þegar Bloom er að fara að skrifa sinni Mörthu. Bloom hugsar um Mörthu og um Molly og fyrsta fund þeirra (það var heima hjá Mat [svo] Dillon [svo]; þau fóru í stólaleik). Lagið nær hápunkti sínum og nöfn Leopolds og söngvarans Simon renna saman: Siopold! Og allir klappa.

Leopold og Simon eru líka hvor á sinn hátt hinn týndi og ófundni faðir hins föðurlausa Stephens – þeir eru báðir vofa konungsins.

Á sama tíma nálgast Blazes Boylan enn frekar heimili Bloom hjónanna.

Allan þennan tíma er Richie Goulding að láta móðan mása um músíkina og fleira en Bloom virðist lítið hlusta á hann. Karlarnir halda áfram að spila og syngja en Bloom biður Pat um blað og penna og ákveður að byrja bréfið til Mörthu – Goulding er samt ekki farinn, svo Bloom þykist vera að semja auglýsingu. Í bréfinu daðrar hann og talar um refsingar og segist vera leiður og er búinn að innsigla bréfið þegar honum fer að finnast það of ljóðrænt að hafa sagst vera leiður. „Music did that. Music hath charm, Shakespeare said.“ Annars fær maður á tilfinninguna að hann sé ekki bara leiður þegar hann skrifar Mörthu heldur að honum beinlínis leiðist það – það veitir honum ekki þá fró eða ró sem hann hefur líklega verið að vona.

Þá hugsar hann sér til hreyfings – hugsar að hann ætli að hitta einhvern á annarri krá, Barney Kiernans (það reynist síðar vera Martin Cunningham, til að ræða fjársöfnunina fyrir ekkju Paddy Dignams).

Brons sýnir körlunum skel sem hún fann á ströndinni og þeir bera hana upp að eyrum sér til að hlusta á sjávarniðinn. Þetta sér Bloom, vel að merkja – svo eitthvað sér hann inn á barinn. Á sama tíma og karlarnir biðja Ben Dollard að syngja Croppy Boy segist Bloom þurfa að fara en staldrar svo aðeins við til þess að heyra lagið – þar er meðal annars sungið um mann sem hefur misst föður sína og bræður í stríði og er síðastur síns nafns og kyns. Bloom hugsar að hann sé það líka (Milly er stúlka og heldur ekki nafni föður síns; og Rudy er dáinn). Hér byrjum við að heyra „tap“ – sem er „bank“ hjá SAM – og vegna þess að Boylan er kominn að Eccles-stræti grunar mann að hann sé að banka á dyrnar hjá Molly, og kannski er það einhver þessara sífjölgandi banka, en að endingu reynist það þá líka vera hljóðið í blindrastaf píanóstillingarmannsins sem færist nær og er að koma til að sækja tónkvíslina sem hann gleymdi.

Bloom fer og áttar sig á að sápan sem hann er í vasanum er orðinn klístruð og ályktar að líklega hafi hann svitnað svona. Hann minnir sig á að fara og sækja kremið til lyfsalans (en gleymir því strax aftur). Úti á götu mætir hann píanóstillingarmanninum með bæði bréfið til Mörthu og Sweets of Sin fyrir Molly í vasanum.

Karlarnir, sem tóku eftir Bloom þegar hann fór, ræða hann aðeins. Simon segist hafa verið með honum í jarðarförinni. Þeir segja Molly syngja vel.

Very, Mr. Dedalus said, staring hard at a headless sardine.
Under the sandwichbell lay on a bier of bread one last, one lonely, last sardine of summer. Bloom alone.
– Very, he stared. The lower register, for choice.
Tap. Tap. Tap. Tap. Tap. Tap. Tap. Tap. Tap.

Píanóstillingarmaðurinn fer framhjá ritfangaversluninni. Bloom lætur hugann reika. Svo rekst hann á vændiskonu – „a frowsy whore“ – sem hann virðist kannast við en það er ekki ljóst á samhenginu nákvæmlega hvað fór þeim á milli. „The appointment we made. Knowing we’d never, well hardly ever. Too dear too near to home sweet home.“ Hann snýr sér undan og horfir í búðarglugga á forngripaverslun svo hún sjái hann ekki. Þar sér hann einhvers konar harmonikku sem SAM segir vera með „ormétnum belgjum“ en orðrétt hjá Joyce er það svona:

Leopold Bloom envisaged battered candlesticks melodeon oozing maggoty blowbags.

Sem í mínum huga er martraðarkenndari sýn – og kallast kannski á við komandi ofsjónir í Kirkukaflanum (sem gerist í rauða hverfinu).

Píanóstillingarmaðurinn mætir á Ormond hótelið.

An unseeing stripling stood in the door. He saw not bronze. He saw not gold. Nor Ben nor Bob nor Tom nor Si nor George nor tanks nor Richie nor Pat. Hee hee hee hee. He did not see.

Hér er Joyce meira að segja farinn að flissa að sínum eigin aulabröndurum. Og ekki lái ég honum.

Bloom er að verða illt í maganum, sennilega af sídernum sem hann fékk sér með matnum en hann kennir sjálfur um búrgúndarvíninu sem hann fékk sér með hádegismatnum. Hann sér líka í glugganum mynd af frelsishetjunni Robert Emmet og hugsar um fræg lokaorð hans: „When my country takes her place among the nations of the earth, then and not until then let my epitaph be written. I have done.“

Nations of the earth. No-one behind. She’s passed. Then and not till then. Tram kran kran kran. Good oppor. Coming. Krandlkrankran. I’m sure it’s the burgund. Yes. One, two. Let my epitaph be. Kraaaaaa. Written. I have.

Pprrpffrrppffff.

Done.

Þetta Pprrpffrrppffff er Bloom að reka við. Og lokaorðið „Done“ kallast á við lokaorð forspilsins „Begin!“ – aftur sér maður hljómsveitarstjórann fyrir sér sveifla sprotanum.

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * * 

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Hades: Undirheimarnir

Eólus: M´ótvindar frelsis

Lestrygónar: Að éta á sig gat

Skylla og Karybdís: Je est une autre

Villhamrar og Skellibjörg

* * * 

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

Villihamrar og Skellibjörg

Það kalla hinir sælu guðir Villihamra. Þar kemst ekki framhjá fuglinn fljúgandi, og ekki einu sinni þær styggu dúfur, er færa föður Seifi ódáinsfæðuna, því hinn eggslétti hamar þrífur ávallt einhverja af þeim burt, en faðir Seifur sendir aðra í skarðið, til að fylla töluna. Þar hefir enn ekkert skip klaklaust afkomizt, sem þar fer um, því haföldur og hættulegar eldstrokur sópa með sér jafnt skipsflökum og mannabúkum. Eitt hafskip er það, sem þar hefir um siglt; það var hin þjóðkunna Argó, er kom siglandi frá Eetes, og mundi þó brimið skjótt hafa rekið hana þar upp að hinum stóru hömrum, ef Hera, sem var vinveitt Jasoni, hefði ekki greitt för hennar þar fram hjá.

Kirka varar Ódysseif við hættum hafsins.

Hinir sælu guðir kalla það kannski Villihamra en Sveinbjörn Egilsson bætir skýringu við eigin þýðingu og segir að eiginlega heiti það Skellibjörg eða Planctae – Πλαγκταὶ – upp á forngrísku. Wandering Rocks er þetta á ritmáli Joyce. Grískusérfræðingur Fjallabaksleiðarinnar stakk upp á beinþýðingunni „gangandi eða hreyfanlegur steinn“ og benti mér á að planctae sé skylt orðinu „plancton“ – sem þýðir svif á ensku. Hjá Hómer þjóna Skellibjörg því eina hlutverki að koma ekki við sögu. Ódysseifi er ráðlagt að fara aðra leið – hjá Skyllu og Karybdís – og fer að þeim ráðum. Hjá Joyce var sá kafli að klárast – nær bókstaflega þegar Bloom sigldi milli Mulligans og Dedalusar í anddyri þjóðarbókasafnsins og allir héldu þeir út á stræti Dyflinnar.

Nema hvað.

Joyce notar tækifærið til að bregða á leik – sem hann gerir auðvitað eiginlega við hver einustu kaflaskipti (ef ekki í hverri einustu setningu). Skellibjargarkaflinn gerist milli klukkan 15 og 16 síðdegis og skiptist í nítján brot þar sem litið er við hjá nánast öllum sögupersónum bókarinnar. Í hverju þeirra er einn eða fleiri í fókus en oft kemur líka málsgrein sem er einsog upp úr einhverju hinna brotanna. Stundum er það vegna þess að sögupersónur eru að rekast á – einhver sér Bloom út undan sér – og stundum er það bara brot sem er að eiga sér stað á nákvæmlega sama tíma einhvers staðar annars staðar í borginni, og opnast inn í það einsog fyrir einhverja galdra. Ég nefni ekki nema brot af þessum innskotum í yfirferðinni hér að neðan en læt nægja að nefna tilvist þeirra og þetta stílbragð að vefa frásagnirnar saman með því að draga bókstaflega þræði á milli þeirra.

Brotin eru eftirfarandi:

1.

Faðir John Conmee gengur um, hugsar um munaðarleysingjana hans Dignams og söfnunina sem herra Cunningham stendur fyrir. Hann heilsar frú Sheehy, fær þrjá drengi til að fara með bréf fyrir sig í póstkassa, sér veðlánarann frú M’Guinnes, heilsar hópi skóladrengja, skoðar forsíður dagblaða (þar sem sagt er frá hörmulegu stórslysi í New York), sér Corny Kelleher krota tölur í sjóðbók, mætir lögreglumanni, lítur í gluggann hjá slátrara og tekur síðan sporvagn frá Newcomenbrúnni að Howthgötu. Á leiðinni virðir hann fyrir sér farþegana og hugsar um „sálir svartra, brúnna og gulra manna“ og hvort fólk sem hafi ekki kynnst fagnaðarerindinu komist til himnaríkis. Þegar hann er farinn úr vagninum hugsar hann um endurminningarbók sem hann skrifaði einu sinni og hvort greifynjan af Belvedere hafi verið ótrú manni sínum (sem hann telur einungis að geti verið hafi hún framið „algert hjúskaparbrot, eiaculatio seminis inter vas naturale mulieris“ – altso hafi sæði verið sprautað í náttúrulegt ílát konunnar). Svo horfir hann á skýin, les úr bænabókinni og sér rjóða elskendur koma út úr rjóðri. Konan er með dálitla grein fasta í pilsinu.

2.

Corny Kelleher gengur frá sjóðbókinni. Hann heilsar lögregluþjóni og spyr hvað sé að frétta. „Ég sá umrædda persónu í gærkvöldi,“ segir lögregluþjónninn. Og þar lýkur þeim kafla. Corny Kelleher er undir grun hér og víðar um að vera uppljóstrari fyrir konunglegu lögregluna – Írland er auðvitað í sjálfstæðisbaráttu sem hefur verið blóðug og á eftir að verða blóðugari.

3.

Einfættur sjóari ráfar um, betlar og syngur rámur „Fyrir England, föðurlandið og fegurðina.“ Dæmi um innskot – annars staðar í borginni er J.J. O’Molloy (sem er blankur og fer um milli kunningja til að reyna að snapa lán) sagt að Ned Lambert sé í „vörugeymslunni“. Voldug dama gefur sjóaranum pening í húfuna. Tveir strákar glápa á stúfinn á honum. Kona tekur skilti úr glugga „Íbúðir án húsgagna“ – þetta er Molly Bloom – og stingur síðan handleggnum út um glugga, lætur pening falla niður á götuna. Einn strákanna tekur peninginn og réttir sjóaranum.

4.

Katey og Boodý Dedalus (systur Stephens) koma inn heima hjá sér. Þriðja systirin, Maggý, stendur yfir tveimur pottum. Hún sýður skyrtur í einum og baunasúpu í hinum. Baunasúpuna þáði Maggý frá systur Mary Patrick. Boodý spyr Maggý hvort hún hafi veðsett bækurnar (hans Stephens, sennilega verðlaun sem hann hlaut fyrir námsárangur) en Maggý segir frú M’Guinnes ekki hafa viljað gefa neitt fyrir þær. Það reiðir Boody („Fjandinn hirði hennar feita fés!“). Þær spyrja hvar fjórða systirin, Dillý, sé og Maggý svarar að hún hafi farið að sækja föður þeirra (sem er einsog venjulega úti í bæ að drekka). Boodý svarar: „Faðir vor, þú sem ert ekki á himnum“ og Maggý skammar hana – annað hvort fyrir guðlast eða vanvirðingu við föður sinn eða bæði. Kaflanum lýkur á innskoti þar sem kristilega dreifiritið – „Elía kemur“, sem Bloom þáði í Lestrygónum – flýtur niður Liffey.

5.

Hér sjáum við í fyrsta sinn almennilega til flagarans í bókinni, Blazes Boylan. Klukkan er að ganga fjögur og hann er að búa sig undir að líta við hjá Molly Bloom sem hann ætlar einsog frægt er að leggjast með. Hann er staddur í blóma-og-ávaxtaverslun til þess að ganga frá sendingu sem á að koma á undan honum að Ecclesstræti. Hann pantar ávaxtakörfu og lætur afgreiðslustúlkuna – sem hann daðrar stíft við og gægist mikið niður hálsmálið á – setja flösku af portvíni og einhverja krukku, kannski krem eða ilmvatn, á botn körfunnar. Blazes segir að karfan sé „fyrir öryrkja“ (e. invalid). Hér er innskot af „dökkbúnum manni“ sem er að skoða bækur á vagni götusala. Þetta er Bloom að leita að nýrri bók fyrir Molly. Innskotin eru oft einhvers konar tenging – juxtaposition – til þess að varpa ljósi á einhvern hluta þess sem er að gerast á meginsenunni. Blazes lætur hringla í peningunum í vasa sér áður en hann borgar – augljóslega ekki ófjáður – fær svo að hirða rauða nelliku („er þessi handa mér?“) áður en hann biður um að fá að nota símann.

6.

Stephen Dedalus rekst á söngkennarann sinn, Almidano Artifoni. Þeir tala ítölsku – sem ég skil ekki. En af öðrum ritum (The New Bloomsday Book) telst mér til að Almidone sé að hvetja Stephen til þess að sinna tónlistarferli sínum í Dyflinni. Stephen er snortinn af hlýju Almidones – sem ráfar í burtu á eftir sporvagni, gefur merki um að hann eigi að stoppa, en ökumaðurinn tekur ekki eftir því og Almidone missir af vagninum.

7.

Fröken Dunne, ritari Blazes Boylan, stingur sjoppuróman ofan í skúffu og byrjar að vélrita. Auglýsingamennirnir frá HELY’S eru fyrir utan. Fröken Dunne horfir á veggspjald af söngkonunni Marie Kendall, sem henni finnst „ekkert augnayndi“ en íhugar sjarmann sem hún hefur. Spyr sig hvort einhver strákur komi á ballið í kvöld og hvort hún geti útvegað sér flott harmonikkupils. Þá hefur hún áhyggjur af því að Blazes Boylan haldi henni í vinnu til sjö. Síminn hringir: Það er Blazes sjálfur. Það er út af einhverjum bókunum. Hún tekur niður upplýsingar og lætur hann vita að Lenehan – leiðindagrínistinn úr Eólusi – hafi komið við og sé að leita að honum og hann verði á Ormond (sem er hótel og krá) klukkan fjögur. Við vitum að klukkan fjögur á Boylan að vera hjá Molly.

8.

Ned Lambert er að sýna presti ráðsalinn í Klaustri Heilagrar Maríu – „þar sem Silki-Thomas kunngerði uppreisnina 1534 – þetta er sögulegasti blettur Dyflinnar“. Silki-Thomas er Thomas Fitzgerald 10. jarl af Kildare. Faðir hans var hæstráðandi á Írlandi en þegar hann var kallaður til Englands til þess að svara fyrir ásakanir um landráð við Hinrik áttunda tók Thomas yngri við eyjunni. Eftir að (rangur) orðrómur barst síðan til Írlands um að faðirinn hefði verið tekinn af lífi og það sama biði Thomasar og hans frændgarðs kallaði Thomas sína menn saman í Klaustri Heilagrar Maríu og lýsti því yfir að hann væri skilinn að skiptum við Hinrik. Þeir riðu strax af stað, hernámu Dyflinni og drápu erkisbiskupinn. En þessi uppreisn gekk verr en vonir stóðu til og ári síðar voru Thomas og frændur hans allir líflátnir (faðirinn dó af náttúrulegum orsökum einhvern tíma í millitíðinni). Presturinn er að skrifa bók um þessa atburði og spyr hvort hann megi koma aftur og taka ljósmyndir. J.J. O’Molloy birtist og fylgir þeim eftir. Presturinn fer og Ned man eftir góðu gríni sem hann gleymdi að segja (um það hvernig jarlinn hefði brennt kirkju og beðist afsökunar: „Mér þykir helvíti leitt að hafa gert það, ég sver fyrir Guði almáttugum, að ég hélt erkibiskupinn væri þarna inni.“) Svo fer Ned að hnerra svo mikið að O’Molloy kemst aldrei að til þess að biðja hann um lán.

9.

Uppfinningamaðurinn Tom Rochford sýnir Nosey Flynn, Lenehan og M’Coy nýja uppfinningu sem á segja manni hvaða atriði er á sviðinu í leikhúsi eða tónleikasal. Á þessu tæki eru alls kyns handföng og skífur og hvaðeina. Nosey Flynn er týpan af kránni Davy Byrne sem var að reyna að fá eitthvað slúður um Boylan og Molly upp úr Bloom. Lenehan er grínistinn úr Eólusi. M’Coy er maðurinn sem ku alltaf að stela skjalatöskum og fékk Bloom til að ljúga því að blaðamanninum að hann hefði verið við jarðarför Dignams. Lenehan og M’Coy fara fljótlega og ræða saman um hetjudáð sem Tom Rochford framdi í raunveruleikanum (en átti sér reyndar ekki stað fyrren tæpu ári eftir að bókin gerist) þegar hann fór ofan í holræsi með kaðal um sig miðjan til þess að bjarga mönnum sem urðu þar máttvana eftir gasleka. Þessi díteill – holræsið og reipið – eru á púslinu góða. Annar díteill er bananahýðið – Lenehan fer inn á veðmálastofu til að athuga með veðreiðarnar en M’Coy potar í hýðið fyrir utan og hefur áhyggjur af því að einhver gæti slasað sig á því. Inni rekst Lenehan á Bantam Lyons – sem ætlar að veðja á Throwaway af því hann misskildi orð Blooms sem einhverja dulda vísbendingu í Lótusætunum – eða „einhverja bölvaða truntu sem hann fékk bendingu um og á ekki minnsta möguleika.“ Næst sjá þeir Bloom hjá bóksalanum og tala um hvað hann sé „óður í útsölur“ og hafi gert ótrúleg bókakaup hjá einhverjum „nagla í Liffeystræti.“ Í kjölfarið fara þeir að ræða Molly og Lenehan segist hafa einu sinni farið heim með þeim hjónum og fjórða manni eftir einhverja flotta veislu, og meðan að Bloom hafi verið að sýna manninum stjörnurnar (og þekkingu sína á þeim) hafi hann sjálfur nýtt hvert tækifæri til þess að káfa á frúnni. „Helvísk var sú unun! Hún er búin tveimur úrvals, Guð blessi hana.“ Að síðustu draga þeir svo aðeins í land og Lenehan segir hann þrælmenntaðan í öllum greinum. „There’s a touch of the artist about old Bloom.“

10.

Það sést ekki á myndinni en titillinn Sweets of sin er á bókarkápunni.

Bloom er að skoða bækur fyrir Molly – og kannski líka fyrir sig. Það má lesa heilmikið í titlana. Meðal annars Hræðilegar uppljóstranir Maríu Monk og Snilldarverk Aristótelesar (Stephen – sem smám saman verður sonarígildi hans – sýndi sig vera mikinn Aristótelesarmann í bæði Skyllu og Karybdís og í Próteusi (sem ég fer betur út í síðar)) en líka Sögur úr gyðingahverfinu eftir Leopold von Sacher Masoch. Ég hef oft heyrt því fleygt að Bloom heiti Leopold í höfuðið á einhverjum vini Joyce frá Trieste – en mér finnst nú líka liggja beint við að tengja hann við Leopold von Sacher Masoch, sem masókisminn er kenndur við (reyndar í óþökk Leopolds, sem sá sína nautnahyggju í ívið fjölbreytilegra ljósi en sem einfalda tignun sársaukans). Og síðan Fagrir harðstjórar eftir James Lovebirch (höfundurinn er til og skrifaði sjoppuerótík en titilinn bjó Joyce til sjálfur). Hann velur að síðustu Sætleika syndarinnar – The Sweets of Sin – sem er áreiðanlega einhver yfirlýsing um hvernig hann vill sjá þennan flókna Bloomsdag. Hvorki sem harðstjórn eða masókisma heldur í ljósi nautnarinnar og þeirra verðlauna sem henni fylgja. Bókin er ekki til en hún mun – samkvæmt gægjuflettingum Blooms – fjalla um hjón og Raoul elskhuga eiginkonunnar. Setningarnar sem hann les munu skjóta upp kollinum af og til í næstu köflum. Bóksalanum finnst þetta vel valið hjá Bloom.

11.

Dillý Dedalus, sem er einsog við vitum úti að leita að pabba sínum, stendur fyrir utan uppboðssal niðri í bæ. Simon Dedalus birtist og fer strax að segja dóttur sinni að standa ekki svona asnalega. „Réttu úr þér, stelpa. Þú færð hryggskekkju með þessu móti. Veistu hvernig þú lítur út?“ Hún segir honum að hætta þessu og biður um peninga. Hann segist enga eiga en hún segir að hann eigi þá víst og hann segir nei og hún segir jú og þá gefur hann henni skilding og segir: „You’re like the rest of them. An insolent pack of little bitches since your poor mother died“ og sakar hana um að standa á sama þótt hann dræpist. Hann gengur í burtu og hún þrífur í hann og segir að hann eigi meira og eigi að láta hana fá meira. Þau rífast meira og hann gefur henni tvö penní til viðbótar. Hún segist viss um að hann eigi meira en hann gefur sig ekki.

12.

Sölumaðurinn Tom Kernan – sem er frægastur fyrir að hafa dottið fullur niður stiga í smásögunni Grace í Dubliners og bitið í sundur á sér tunguna – er á gangi glaður með að hafa gert samning við mann að nafni herra Crimmins fyrir fyrirtækið Pulbrook Robertsson. Þeir Crimmins ræddu sama hörmulega stórslys og faðir Conmee sá á fors´íðum blaðanna (sjá fyrsta brot hér að ofan og hlekk þar) og drukku svolítið gin (í Grace eru vinir hans að reyna að fá hann til að hætta að drekka). Kernan er mjög ánægður með sjálfan sig og finnst hann flottur í tauinu og hugsar að kannski hafi það hjálpað til. Hann gengur hjá þeim stað er írska þjóðhetjan Robert Emmet var „hengdur, iðadreginn og hlutaður sundur.“ Og sér Denis Breen – sem fékk „U.P: UP“ miðann sem ræddur var í Lestrygónum – ganga yfir götuna með konu sinni. Loks sér hann skrúðfylkingu landstjórans – sem hefur aðeins brugðið fyrir áður í kaflanum; ég hef ekki nefnt það af því það er bara ekki hægt að nefna allt, en hún verður í fókus í nítjánda og síðasta brotinu.

13.

Stephen Dedalus stendur við búðarglugga og virðir fyrir sér gimsteina. Hann rifjar upp einhverja síðnótt á hóruhúsi þar sem ein starfskonan dansaði fyrir rauðskeggjaðan sjómann (sem er kannski sá sami og þeir Bloom hitta á leiguvagnastöðinni síðar í bókinni). „Langæ sæborin orðlaus gredda. Hún dansar, skoppar af gáska, vaggar gyltukynjuðum lendum og mjöðmum og á voldugri vömbinni danglar rúbínrautt egg.“ Hann hugsar að hann stýrist af innri hvötum og ytri „hjartsláttur ævinlega fyrir utan þig og hjartsláttur ævinlega innra með þér. Þú syngur um hjarta þitt. Ég meðal þeirra. Hvar? Milli tveggja glymjandi heima þarsem þeir þyrlast, ég.“ Og lætur sig dreyma um að splundra þeim. Fer niður Bedfordgötu, sér eldgamla mynd af hnefaleikurum og kemur síðan að bókavagni. Skoðar bækurnar: Írski býflugnabóndinn. Presturinn frá Ars, ævi hans og undur. Vasaleiðarvísir fyrir Killarney. Þessa titla finnst mér erfiðara að ráða í en hina hjá Bloom. Hann veltir því fyrir sér hvort hann muni finna þarna eitthvað af bókunum sínum – sem systur hans hafa veðsett. Loks rekst hann á Dillý í tötrugum kjól. Hún hefur tekið annað penníið frá pabba sínum og keypt sér kennslubók í frönsku (Stephen hefur vel að merkja hlotið menntun og búið í París um stund – kom heim þegar móðir hans lá fyrir dauðanum). Hann sér sig í henni. „Það er sagt hún hafi augun mín.“ Hann segir henni að gæta þess að Maggý veðsetji ekki bókina og hann búist við því að bækurnar hans séu farnar þá leið. „Sumar,“ svarar Dillý. „Við máttum til.“ Og þá kemur lokakaflinn, sem er frægur: „Hún er að drukkna. Þyrnibroddur. Bjargaðu henni. Þyrnibroddur. Allt er okkur öndvert. Hún drekkir mér með sér. Óliðaðir lokkar af þanghári kringum mig, hjarta mitt, sál mína. Saltgrænn dauði. / Við. / Þyrnibroddur samviskunnar. Samviskubroddur. / Volæði! Volæði!“ Þessi þyrnibroddur er þýðing á hugtakinu „agenbite of inwit“ – sem er einhvers konar samviskubitsyfirlýsing – og ku upprunalega hafa verið „again bite of inner wit“, einhvers konar endurbit innra (skilningar)vits. Stephen er einfaldlega örvilnaður gagnvart örbirgð systra sinna. En gerir ekki meira til að hjálpa þeim en pabbi þeirra, þótt hann sé kurteisari – og er þó með launin í vasanum.

14.

Faðir Cowley hittir Simon Dedalus og segir honum fréttir. Faðir Cowley skuldar Reuben J. Dodd peninga og sá hefur sent tvo menn heim til hans þar sem þeir „sniglast“ og reyna að komast inn til að hirða af honum eigur upp í skuldina. Cowley er að bíða eftir Ben Dollard sem hefur farið að hitta yfirvöldin og tala máli Cowleys og fá þau til að stíga inn í. Þegar Ben kemur hefur hann hitt lögfræðinginn John Henry Menton (sem þolir ekki Bloom – eða bara gyðinga – og var að ráðleggja Breen um meiðyrði vegna U.P: UP miðans). Menton hefur bent á að þar sem Cowley skuldi þegar leiguráðanda sínum pening gangi sú skuld fyrir og þar með sé eignaupptökuheimild Reuben J. Dodd einskis virði (fyrren leigan hefur verið gerð upp, vænti ég).

15.

Martin Cunningham og Jack Power – sem eru mennirnir sem reyndu að fá Tom Kernan til að hætta að drekka í Grace og sem voru í hestvagninum með Bloom á leiðinni í jarðarförina í Hades) – fara út um hliðið á Dyflinnarkastala. Cunningham er enn með hugann við söfnunina fyrir munaðarleysingja Dignams og segir Power að hann hafi talað máli þeirra við föður John Conmee. Innskot með þjónustustúlkunum Brons og Gulli – frú Kennedy og frú Douce – sem koma ekki almennilega fyrir fyrren í næsta kafla, Sírenum. Þær gægjast út um gluggann á Ormondhótelinu. Félagarnir ræða að Bloom hafi gefið fimm skildinga í söfnunina og greitt þá á staðnum (það örlæti má spegla í nísku Simons Dedalusar, hins raunverulega föður Stephens). Þeir koma að vínkrá og Cunningham reynir að fá tvo menn þar, Jimmy Henry og Langa-John Fanning, til þess að leggja söfnuninni lið en þeir koma sér báðir undan því.

16.

Buck Mulligan og Haines, sambýlingar Stephens, eru á veitingastað og sjá þar John Howard Parnell (bróður hins látna Charles Stewart Parnell sem kemur m.a. fyrir í Hades) sem er að tefla. Stephen berst í tal og Haines segir um Hamletkenningar hans: „Shakespeare is the happy hunting ground of all minds that have lost their balance.“ Og það er alveg óhætt að heimfæra það líka á Joyce – í hann sækja fallvaltir hugar. Mulligan kennir jesúítunum um. „Þeir afvegaleiddu vitsmuni hans með helvítissýnum. Hann á aldrei eftir að ná attíska tóninum. Tóni Swinburnes, allra skálda, hvíta dauðanum og rjóða burðinum. Það er harmleikur hans. Hann getur aldrei orðið skáld.“ Attíski tónninn – „the attic note“ – er aþenskur gullaldartónn (ákall Írlands um sjálfstæði, einsog ákall Íslands á svipuðum tíma, er á menningarlegum grunni og ímyndin sem Joyce sér yfirleitt fyrir sér er Grikkland til forna – þess vegna er hann að reyna að stæla Hómer). Haines heldur því fram að Stephen muni skrifa eitthvað eftir tíu ár. Sem væri þá 1914 – árið sem Dubliners kom út, sem og fyrstu kaflarnir úr Portrait birtust í tímariti, og árið sem hann byrjar á Ulysses.

17.

Söngkennarinn Almidano Artifoni fer yfir götu. Fyrir aftan hann er Cashel Boyle O’Connor Fitzmaurice Tisdall Farrell – raunverulegur maður sem var þekktur á götum Dyflinnar fyrir litríkan klæðnað og alltof lítinn hatt. Hann gengur framhjá tannlæknastofu Blooms – sem er ekki Bloom okkar, heldur annar Bloom, sem Bloom okkar á reyndar eftir að þykjast vera síðar í bókinni – og blinda manninum sem Bloom hjálpaði yfir götu. Farrell rekst utan í hann og sá blindi bölvar honum. „You are blinder than I am, you bitch’s bastard.“

18.

Patrick Aloysius Dignam, sonur Paddy Dignams sem grafinn var í Hadesarkaflanum, er nýkominn frá slátraranum með um 600 grömm af grísasteikum. Hann ráfar um og langar ekki að fara heim og sitja þar í sorginni með ættingjum sínum. Hann sér auglýsingu fyrir hnefaleika og verður spenntur að fara og sjá þá en áttar sig svo á að auglýsingin er gömul og hnefaleikarnir hafa þegar farið fram. „Í Graftonstræti sá Dignam litli rautt blóm í munninum á spjátrungi sem var í svakalega flottum skóm og hlustaði á það sem róninn var að segja við hann.“ Þetta er Blazes Boylan og róninn er Bob Doran – sem er á sínum árlega bender. Dignam yngri rekst á nokkra skólastráka og veltir því fyrir sér hvort þeir átti sig á því að hann sé sorgarklæddur. Hann hugsar um andlit föður síns í kistunni – grátt en ekki rautt einsog það átti að sér að vera. Og svo: „Síðasta kvöldið, þegar pabbi var fullur, stóð hann á stigapallinum og æpti eftir stígvélunum sínum til að fara til Tunneys að drekka meira […] Ég vona að hann sé í hreinsunareldinum núna, afþví hann fór og skrifaði hjá föður Conroy á laugardagskvöldið.“

19.

Í síðasta brotinu birtast okkur William Humble, jarl af Dudley, ásamt lafði sinni og Hesseltine undirofursta frá landstjórasetrinu, í einum vagni, og í þeim næsta á eftir koma frú Paget, fröken de Courcy og hæstvirtur Gerald Ward A.D.C. Þetta er fínasta og valdamesta fólkið í landinu. Þau fara í gegnum bæinn á þremur blaðsíðum og láta veifa til sín – við sögu koma næstum allir sem hafa komið við sögu í bókinni hingað til. Sumir sjá fylkinguna og veifa, sumir taka ekki eftir neinu og sumir – einsog Gerty McDowell, sem á eftir að koma meira við sögu í Násikukaflanum – reyna að sjá fylkinguna en geta það ekki (það keyrir gulur vagn veg fyrir hana, einsog sjá má á púslinu góða). Og með þessari ferð er þá dreginn þráður í gegnum hina átján hlutana og kaflanum lokað.

Kannski er það í Skellibjörgum sem maður fær skýrast tilfinningu fyrir sannferðugleika þeirrar kersknu staðhæfingar Joyce að ef Dyflinni færist í eldsvoða mætti endurbyggja hana stein fyrir stein með bókina til hliðsjónar. Samt eru það síður húsin eða göturnar sem eru í forgrunni, og frekar fólkið. Megnið af sögupersónum hérna var líka raunverulegt fólk. En sjónarhornið og frásagnaraðferðin eru í senn míkróskópísk og yfirsýnsk – hér er borgin bæði kortlögð og litið við í innstu hugskotum hennar.

Kaflinn hefst á fulltrúa kaþólsku kirkjunnar – manni sem Joyce stóð í þakkarskuld við, það var faðir John Conmee sem sá til þess að James og br´óðir hans Stanislaus fengju gjaldfrjálsa menntun í Belvedere skólanum og faðir Conmee stendur með James í Portrait þegar honum er refsað af öðrum presti. En hann er samt fulltrúi kirkjunnar og James Joyce fyrirleit kirkjuna – og, sem er mikilvægara fyrir symbolíska samhengið hérna, þá var hún (og er) gríðarlega valdamikill aðili í írsku samfélagi. Og kaflanum lýkur svo á hinu stóra valdinu – landstjórafólkinu, breska aðlinum, nýlenduherrunum. Það er ramminn – rock and a hard place, milli Villihamra og Skellibjarga. Þar ´a milli sjáum við alls konar fólk. Drykkjumenn og syrgjendur, kostulega kynjaherra, flagara og flögð, okurlánara og örláta, fátæklinga og fjáða, auðmjúka og roggna – og kannski situr maður uppi með mynd af því hvernig fólk byggði þessa borg, sem er auðvitað miklu merkilegra en það hvernig veggir hennar voru samsettir (þótt við fáum smá af því líka).

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * * 

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti 
(Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Hades: Undirheimarnir

Eólus: M´ótvindar frelsis

Lestrygónar: Að éta á sig gat

Skylla og Karybdís: Je est une autre

* * * 

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

Skylla og Karybdís: Je est une autre

Það vill til að bókasafnið er nú næstum komið. Það er þarna ofan við risastóra gula sápustykkið, neðarlega fyrir miðri mynd. Stephen stendur og baðar út höndunum en á þakinu situr sj´álft skáldið frá Avonbökkum.

Ódysseifur er nýkominn úr heimi hinna dauðu en Stephen Dedalus var að koma af kránni. Við skildum við hann í 7. þætti, Eólusi, þar sem hann arkaði út af ritstjórnarskrifstofum The Freeman’s Journal, með hálfri ritstjórninni. Hann er búinn að drekka þrjá stóra bjóra – er ölhreifur en þyrstir í meira, þótt ýmislegt bendi til þess að hann vilji helst ekki að það sjáist á sér hvað hann er drukkinn. Á meðan Ódysseifur sest niður með gyðjunni Kirku sem ræður henni heilt er Stephen kominn í Safnahús Dyflinnar, nánar tiltekið á skrifstofu bókavarðar í bókasafnsbyggingunni (The National Museum og The National Library eru tvö aðskilin hús sem deila garði). Ódysseifur hlustar en Stephen heldur miklar ræður og rökræðir grimmt.

Einsog við munum lauk síðasta kafla á því að Leopold Bloom skaut sér inn á bókasafnið, eftir að hafa rekið augun í Blazes Boylan fyrir utan, þar sem hann á það erindi að finna auglýsingu fyrir vínsalann Keyes í gömlu dagblaði. Klukkan er 14 og það eru tveir tímar í að Blazes eigi stefnumót við konu Blooms, Molly. Við sjáum hins vegar lítið til Bloom í þessum kafla þótt hann sé á bókasafninu og skjóti tvisvar upp kollinum – fyrst birtist hann í bakgrunni rökræðanna sem einhver maður sem er að spyrja um tölublað af The Kilkenny People, og svo í lokin.

Kirka varar Ódysseif við þeim hættum sem muni verða á leið hans. Meðal þeirra er siglingin milli Skyllu og Karybdísar. Skylla er skrímsli með „ekki færri en tólf ólögulegar lappir og sex afarlanga hálsa, en á hverjum hálsi er ógurlegur haus, og í margar og þéttar tennur þrísettar, fullar dimmum dauða.“ Framhjá henni verður ekki siglt án þess að hún hirði a.m.k. eitt mannslíf per haus (þ.e. sex). Karybdís er annað eins skrímsli nema hún „sogar í sig sæinn“ og „jafnvel Jarðarskelfir mundi þá ekki fá forðað þér við fjörtjóni.“ Mælir Kirka heldur með því að Ódysseifur sigli hjá Skyllu „því miklu er betra, að missa einna sex manna af skipi sínu, en allra saman.“ Þiggur hann þau ráð en segir ekki mönnum sínum að sex þeirra muni þá farast „svo félagar mínir skyldu ei æðrast, hætta róðri og hneppa sig niður í skip.“

Bókasafnið mun vel að merkja hafa verið dálítið átakarými Dyflinni – þar réðu engil-írskir mótmælendur ríkjum en þar var líka hjarta írsk-kaþólskrar bókmenningar. Ævintýri Stephens á bókasafninu eru ævintýri gáfumannsins – rökræður. Skylla er (m.a.) hin aristótelíska staðreyndahyggja en Karybdís er (m.a.) fulltrúi platónsks ídealisma. Og má halda því fram að Stephen sé fremur fulltrúi Skyllu hérna en Ódysseifs, og ódysseifska hetjan hérna sé einfaldlega sannleikurinn, sem megi velja milli þess að komast laskaður til skila eða alls ekki (og ef hann er bundinn í karakter, þá væri það líklega Bloom, sem kemur lítið fyrir – en siglir milli skers og báru í restina). En svo er þetta sérstaklega vandasamur kafli þegar kemur að því að púsla því saman hver sé hver, ef ekki varasamur og vafasamur líka, því ræða Stephens botnar í þeim ómögulegu möguleikum öllum saman.

Textinn er líka í stóru hlutverki þótt enn sé Joyce ekki búinn að sprengja skáldsöguna í tætlur – sem hann gerir síðar. Fyrir utan að vera bæði þriðju persónu þátíðar frásögn og fyrstu persónu nútíðar hugsanir – einsog hefur mestmegnis verið modus operandi hingað til í bókinni – þá er hann bæði prósi og ljóð, bæði bundin og frjáls, á einum stað verður hann leiktexti og á öðrum söngtexti með nótum og hann er svo stappfullur af tilvitnunum (réttum og röngum) og vísunum í önnur bókmenntaverk – aðallega Shakespeare en líka samtímamenn Shakespeares, ýmsa heimspekinga og skáld, að ótöldum skrifum Joyce sjálfs – að í Ulysses: Annotated er yfirferðin 66 síður og athugasemdirnar ríflega tólfhundruð. Kaflinn sjálfur er bara 29 síður.

En við skulum ekki drolla heldur drífa okkur inn á bókasafnið. Stephen hefur notað lesendabréfið frá hr. Deasy – sem hann fór með á The Freeman’s Journal – sem til þess að komast inn í þennan selskap, undir því yfirskini að hann sé að hugsa um að fá það birt í The Irish Homestead (sem hann var ekki beðinn að gera og hann afhendir aldrei bréfið – hann er sennilega ekki einu sinni með afrit, enda kom hann því til skila á Freeman’s Journal). Með honum á skrifstofunni eru skáldið A.E. (George Russel, sem vann á The Irish Homestead), bókavörðurinn Richard Best, aðstoðarbókavörðurinn Thomas William Lyster, bókmenntagagnrýnandinn John Eglinton og svo birtist Buck Mulligan um miðjan kafla. Að Stephen og Buck undanskildum er þetta allt raunverulegt fólk. Eftir því sem ég kemst næst eru allir hérna engil-írskir og mótmælendatrúar að uppruna nema Stephen – sem er vantrúa/hálftrúa/ringlaður kaþólikki – og Bloom sem er gyðingur að uppruna en skírður til mótmælendatrúar.

Þegar kaflinn hefst eru þeir að ræða Wilhelm Meister eftir Goethe og þá sérstaklega þann hluta þeirrar bókar sem fjallar um Hamlet. Ég hef ekki lesið Wilhelm Meister en hef eftir „Giffordinum“ – Ulysses: Annotated, sem er stór og mikil biblía um vísanirnar í Ulysses, eftir Don nokkurn Gifford, en þá bók hef ég nýverið eignast – að í þeim allstóra hluta (frá 13. kafla í fjórðu bók að 12. kafla í fimmtu bók) þýði Wilhelm og endurskapi Hamlet og taki svo þátt í sviðsetningu þeirrar útgáfu. Þá segir Gifford að Lyster (sem hefur máls á þessu) og félagar hafi almennt litið svo á að þessi hluti Wilhelms Meister sé mestmegnis „lítt duldar persónulegar athugasemdir og viðbrögð Goethes við Hamlet.“

A great poet on a great brother poet. A hesitating soul taking arms against a sea of troubles, torn by conflicting doubts, as one sees in real life.

Og augnabliki síðar:

One always feels that Goethe’s judgments are so true. True in the large analysis.

Að þessu hæðist Stephen – finnst þetta of augljós sannindi til að hafa á þeim orð.

Einsog áður segir eru átökin í þessum rökræðum helst á milli Platónista, sem telja að listin eigi að vera hrein upplifun – með orðum A.E.:

Art has to reveal to us ideas, formless spiritual essences. The supreme question about a work of art is out of how deep a life does it spring. The painting of Gustave Moreau is the painting of ideas. The deepest poetry of Shelley, the words of Hamlet bring our minds into contact with the eternal wisdom, Plato’s world of ideas. All the rest is the speculation of schoolboys for schoolboys.

Og Aristótelista sem sjá í listinni beinni tengingu við raunveruleikann, hún sé umorðun á tiltekinni mannlegri reynslu sem megi para við tiltekið fólk, annað hvort listamennina sjálfa eða fólkið sem þeir eiga samneyti við. Stephen tekur sér stöðu með hinu aristótelíska viðhorfi – en það er alls ekki víst að hann aðhyllist það af öllu hjarta.

Best nefnir að Haines – enski fræðimaðurinn sem gistir hjá Stephen og Buck í Martello turni, sá sem er svo æstur í írska menningu – hafi skotist í bókabúð til þess að kaupa bók.

I was showing him Jubainville’s book. He’s quite enthusiastic, don’t you know, about Hyde’s Lovesongs of Connacht. I couldn’t bring him in to hear the discussion. He’s gone to Gill’s to buy it.

Flestir virðast ganga út frá því að Haines hafi farið til að kaupa ljóðabókina Lovesongs of Connacht – sem eru enskar þýðingar Douglas Hyde (sem síðar varð fyrsti forseti Íra) úr írskum kvæðum. Ég las þetta hins vegar þannig að það væri eitthvað í bók Jubainville’s – Best þýddi sjálfur frægustu bók hans, sem fjallaði um írskar goðsagnir – sem varpaði ljósi á yrkisefnin í Lovesongs of Connacht (sem Haines hefur dálæti á og hlýtur að eiga) og hann hafi farið til þess að útvega sér hana – og mér hefur ekki alveg tekist að hafa sjálfan mig ofan af þeirri sannfæringu þótt ég sjái líka hinn möguleikann. Jubainville var vel að merkja helsti fræðimaður Frakka um írska menningu. Þannig er enskur fræðimaður með vandræðalegt írlandsblæti kannski að fara af bókasafni í bókabúð til þess að kaupa sér bók eftir franskan fræðimann til þess að skilja ljóð sem hafa verið þýdd úr gelísku. Í ofanálag er það þá þýðandi bókarinnar sem hefur sent hann út í búð. Þetta finnst mér mjög Joyceísk flækja. Haines fæst ekki til þess að koma á fundinn og missir þar af leiðandi af einhverju sem við gætum kallað „lifandi írska menningu“: umræðum írskra menntamanna um enska skáldið Shakespeare.

En Haines getur ekkert rétt gert á Írlandi, frekar en aðrir Englendingar.

Stephen fer að ræða Hamlet og þá kenningu sem Buck Mulligan umorðaði svo í fyrsta þætti:

It’s quite simple. He proves by algebra that Hamlet’s grandson is Shakespeare’s grandfather and that he himself is the ghost of his own father.

Mulligan var auðvitað að gera gys að Stephen, sem hann gerir svo gjarnan að maður fer á endanum að fyrirgefa Stephen fyrir að vera dálítið húmorslaus. En kenningin er líka skrítin þótt Stephen flytji hana af miklum þrótti. Í grunninn gengur hún út á að hafna þeirri afstöðu, sem mun hafa verið algeng, að í prinsinum Hamlet hafi Shakespeare endurskapað sjálfan sig og sína angist – eða í öllu falli benda á að nærtækara væri að sjá Shakespeare í föður Hamlets, kónginum og draugnum, sem mæli til sonar síns, Hamlets einsog William mæli með leikritinu til sonar síns, Hamnets (já, Shakespeare átti son sem hét Hamnet með n-i). Hamnet lést 11 ára gamall, 1596, fáeinum árum áður en Shakespeare skrifaði Hamlet.

Annar hluti kenningar Stephens gengur út á að í Hamlet sé fólgin ásökun á hendur Anne Hathaway, eiginkonu Shakespeares – sem var eldri, flekaði Shakespeare ung, en var svo skilin eftir blönk í Stratford á meðan Shakespeare lagði undir sig leikhúsheiminn – um að hún hafi haldið framhjá honum. Hann sé vofan, hún sé Geirþrúður og Hamnet sé Hamlet.

Þriðji hluti kenningarinnar gengur svo út á að framhjáhaldið hafi verið við bróður Williams, Richard (en nafn hans – og Edmunds – notar William oft á illmenni sín, en aldrei nafn þriðja bróður síns, Gilberts). Sem sé flón. Þessa ásökun getur Shakespeare augljóslega ekki flutt látnum syni sínum nema í gegnum listina (ekkert talar inn í eilífðina, þar sem dauðinn býr, nema listin).

Dáinn sonur, dáið foreldri og ótrú eiginkona – þetta eru mest áberandi stefin í allri bókinni. Móðir Stephens er nýlátin, Bloom missti son og á föður sem framdi sjálfsmorð, auk konu sem liggur og bíður ástarfundar við annan mann. Og þetta eru líka stefin sem tengja Ulysses, Ódysseifskviðu og Hamlet.

Þessar ræður Stephens eru nærri því hálfur kaflinn – og sækja þeir Stephen/Joyce víst mikið af upplýsingum sínum um líf Shakespeares til Georgs Brandesar. Og þegar Stephen er svo spurður að þeim loknum hvort hann leggi trúnað á þetta sjálfur svarar hann einfaldlega: „Nei.“ Hann er að skylmast, hann er að leika sér – en hann er líka að hugsa um heiminn sem slíkan og nota Shakespeare/Hamlet til þess. Og heimur Stephens er bókmenntir James Joyce.

En ýmislegt gerist líka þarna á meðan hann er að tala – aðallega í höfðinu á Stephen. Á einum tímapunkti fer hann til dæmis að íhuga það hvenær maður sé maður sjálfur og hvenær maður verði annar. Þetta gerist fyrst þegar hann man alltíeinu að hann skuldar A.E. pening en kemst að þeirri kímlegu niðurstöðu að kannski hafi það verið annar maður sem fékk þessa peninga lánaða – önnur mólekúl sem kölluðu sig líka Stephen Dedalus, en þau mólekúl sem hann sé núna skuldi þá engum neitt. Sú hugleiðing endar á fleygum orðum:

I, I and I. I.

Það er að segja égið sem komma í setningu, einfalt hik, eða sem punktur og nýtt upphaf. Ef það er komma skuldar hann kannski enn, ef það var punktur tilheyrir skuldin öðru sjálfi. Þetta rímar við hugleiðingu Blooms úr síðasta kafla þar sem hann rankar við sér upp úr blautlegri minningu um stefnumót þeirra Mollyar í Howth og hugsar:

Me. And me now.

Orð Blooms og Stephens ríma gjarnan svona – til dæmis er það Bloom sem fyrst vitnar í vofukónginn í Hamlet („ég er andi föður þíns“) í síðasta kafla, áður en Stephen gerir það í þessum kafla.

Enn fremur kemur Stephen inn á síbreytilegt eðli listamannsins í verkum sínum þegar Eglinton hefur sagt meira þurfa til að hann falli frá þeirri trú að Shakespeare sé Hamlet.

As we, or mother Dana*, weave and unweave our bodies, Stephen said, from day to day, their molecules shuttled to and fro, so does the artist weave and unweave his image. And as the mole on my right breast is where it was when I was born, though all my body has been woven of new stuff time after time, so through the ghost of the unquiet father the image of the unliving son looks forth. In the intense instant of imagination, when the mind, Shelley says, is a fading coal, that which I was is that which I am and that which in possibility I may come to be. So in the future, the sister of the past, I may see myself as I sit here now but by reflection from that which then I shall be.

* Dana er bókmenntatímarit og hef ekkert með dani – þjóð Hamlets – að gera. Þetta verður eðlilega pínu truflandi í íslensku þýðingunni – en annað áhugavert þar er að fæðingarblettinn þýðir SAM sem „móðurmerki“. Sem setur auðvitað hugann á heilmikið flug.

Á eftir Guði skapaði Shakespeare flesta – vitna þeir félagar líka í Alexandre Dumas. Og ef Shakespeare er þannig allt í senn „faðir“ (skapari) kóngsins og líka kóngurinn og líka Hamlet er hann orðinn afi sinn. Og erum við þá farin að nálgast útúrsnúning hins stríðna Bucks.

Í þessu öllu saman er Joyce auðvitað að bjóða okkur upp í dans, bjóða okkur að velta því fyrir okkur hvort hann sé Dedalus eða Bloom eða báðir; og hvort hann sé þeir á einhverjum tilteknum tíma, hvort Ulysses-Dedalus sé sami Dedalus og í Æskumynd listamannsins eða nýr Dedalus. Hvort hann sé „Dedalus, Dedalus“ eða „Dedalus. Dedalus“. Eða jafnvel „Dedalus. Bloom“ – eða einhver önnur samsetning úr þessum feðrum og sonum. Og það er ekki alveg tilviljun að augnabliki síðar hugsar Stephen líka: „He is in my father. I am in his son.“ Eða biblíuvísunin þegar Stephen hefur fyrirlestur sinn – og ímyndar sér Shakespeare sjálfan að leika vofuna (sem hann gæti hafa gert) þar sem hún ákallar son sinn („Ég er andi föður þíns):

To a son he speaks, the son of his soul, the prince, young Hamlet and to the son of his body, Hamnet Shakespeare, who has died in Stratford that his namesake may live for ever.

Því svo elskaði guð heiminn að hann gaf son sinn …

Í ofanálag verður maður svo að hafa í huga að Joyce er með augljósan sonarkomplex gagnvart Shakespeare – og kannski að írskar bókmenntir/írar hafi verið með sonarkomplex gagnvart enskum bókmenntum/englendingum sem gegna á þessum tíma eins konar föðurhlutverki í landinu. Og skildu líka erfðaefnið sitt hressilega eftir í landinu með tungumálinu – ef Írar hefðu ekki misst tungumálið hefði Shakespeare ekki verið jafn augljós forfaðir Joyce (og vegna þess að þeir misstu það fannst skjólstæðingi Joyce, Samuel Beckett, alveg jafn eðlilegt að skrifa á frönsku).

Þá er líka skemmtilegur díteill – í kafla sem fjallar svona mikið um samræmi milli manna, sjálfa og persóna í riti – að tvær af þeim sögulegu persónum sem birtast í kaflanum gegna öðru nafni í riti. George Russell skrifaði undir nafninu A.E. og John Eglinton hét réttu nafni William Magee. Þeir eru kallaðir þessum nöfnum til skiptis – en Russell þó oftar kallaður sínu rétta nafni en Eglinton sínu höfundarnafni.

Að síðustu þarf að hafa í huga að Stephen er jafn meðvitaður um að ræðan er performans og Joyce er meðvitaður um að kaflinn er performans – báðir eru að segja sögu (og báðir að segja sögu um listina að segja sögur). Stephen hugsar:

Local colour. Work in all you know. Make them accomplices.

Þegar hann er að segja þeim frá leikhúsinu í London – hann vill mála upp smáatriðin og gera þá þátttakendur í frásögninni. Sem er auðvitað nákvæmlega það sem Joyce gerir – með því að tala annars vegar til hjartans, um hluti sem skipta máli, og hins vegar til heilans og þarfar hans til þess að leika sér við mynstur. Og sviðsetja sig grimmt. Þannig gera þeir okkur samsek.

Kaflanum lýkur á því að Stephen og Buck fara út af bókasafninu. Stephen finnur fyrir einhverjum nálgast að baki sér. „My will: his will that fronts me. Seas between.“ (Will er í þessum kafla aldrei bara viljinn heldur líka Will Shakespeare). Maður stingur sér á milli þeirra Bucks og Stephens, hneigir sig og heilsar. „The wandering Jew“ hvíslar Buck að Stephen „með trúðslegri lotningu“ þegar hann sér hver þetta var (Bloom). „He looked upon you to lust after you.“ Og svo lýkur kaflanum með línum úr Cymbeline:

Laud we the gods
And let our crooked smokes climb to their nostrils
From our bless’d altars

Það er reyndar heilmikið enn órætt (ég hef ekkert rætt erfðamálin – næstbesta rúm Shakespeares, sem hann eftirlét Anne í erfðaskránni, og hvers vegna hún fékk ekki besta rúmið; eða að Buck birtist vegna þess að Stephen var að skrópa á stefnumót með honum á krá, þar sem hann hafði lofað að borga umgang; að Buck sá Bloom gægjast undir styttuna af Afródítu – einsog hann íhugaði að gera í síðasta kafla – og segir hann „grískari en allir grikkir“; eða ádeiluna á blóðsúthellingar). En heilinn í mér þolir ekki mikið meira í bili. Það bíður allt næsta lesturs.

Ég er búinn að fara yfir níu þætti og það eru níu þættir eftir af þessum þriðja endurlestri. Og segja má að bókin sé þar með hálfnuð. En næstu kaflar eru lengri og sumir þeirra talsvert brjálaðri – ég er á síðu 209 af 732.

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * * 

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti 
(Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Hades: Undirheimarnir

Eólus: M´ótvindar frelsis

Lestrygónar: Að éta á sig gat

* * * 

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

Lestrygónar: Að éta á sig gat

Hvað hefur breyst frá því síðast? Þarna í vinstra horninu niðri má allavega lesa miðann sem Denis Breen fékk og gerði hann vitlausan: „U.P.: Up“. Þá er þarna líka Elijah is coming dreifiritið – flýtur í Liffey vinstra megin undir hestvagninum. Ýmislegt er eðlilega skýrara en kannski hefur fátt nýtt bæst við.

Við skildum við Ódysseif Hómers þar sem áhöfn hans hafði sleppt mótvindum Eólusar lausum og þeir blásið öllum skipunum aftur til baka – þegar þeir voru svo gott sem komnir heim til Íþöku. Halda þeir áfram förinni (róandi, því vindarnir vilja ekki þýðast þá lengur) og koma til Telepýlsborgar í Lestrygónalandi. Þar sendir Ódysseifur menn í land til að forvitnast um hvað þar búi „mennskra manna“. Njósnarar Ódysseifs finna þar fyrst „hina sköruglegu“ dóttur Antífatesar, sem beinir þeim að fara heim til foreldra sinna, þar sem þeir finna eiginkonu Antífatesar. Hún „var mikil að vexti, sem fjallshnúkur væri, og stóð þeim mikill geigur af henni.“ Eiginkonan (sem einsog dóttirin er auðvitað nafnlaus) kallar á Antifates sjálfan sem gerir sér lítið fyrir og grípur einn njósnarann og „býr sér til matar“ (það er orðalag Sveinbjörns; ég sé fyrir mér að hann hafi verið snöggsteiktur á báðum hliðum með smjöri og estragoni, aðallega af því það hljómar einsog lestrygóni). Hinir stökkva á flótta. Nú birtast gígantar úr öllum áttum og byrja að grýta björgum og éta menn – „stungu þeir skipverja í gegn, eins og fiska, og höfðu á burt með sér, var það ófagur veizlukostur“. Ódysseifur sker á landfestar og siglir í burtu – en öll önnur skip hans, ellefu talsins, farast.

Hin hversdagslega hliðstæða Ódysseifs í Ulysses, Leopold Bloom, lét í síðasta kafla, Eólusi, feykja sér um ritstjórnarskrifstofur The Evening Telegraph og nágrennis, sem lýkur þegar „alvöru karlarnir“, að Stephen meðtöldum, fara á krána til þess að væta kverkarnar.

Það er komið hádegi. Bloom hefur ekki gefið auglýsinguna upp á bátinn og þarf að fara á bókasafnið til þess að finna eldri útgáfu hennar í blaðinu The Kilkenny People. Hann er líka svangur en virðist ekki alveg meðvitaður um það sjálfur í fyrstu. Kaflinn hefst fyrir utan nammibúð – „Sykurkámug stúlkan eys ausufylli eftir ausufylli af rjómakaramellum fyrir félaga úr kristbræðrareglunni“ og á leið sinni um borgina leitar hugurinn stöðugt til matar og hungurs sem birtist í öllu myndmáli – lögreglan gengur „gæsagang“ með andlit „heit af áti“ og John Howard Parnell er lýst þannig að hann hljóti að hafa „étið úldið egg“ og svo framvegis og svo framvegis. Þegar hann kemur að ánni Liffey sér hann bruggpramma fara hjá og fer að hugsa um geyma af porteröli, sem honum þykja dásamlegir í fyrstu, en er svo fljótlega farinn að hugsa að rotturnar komist áreiðanlega þá. „Drekka svo stíft að þær tútna út einsog vatnsdauðir hundar.“ Og svo drekkum við ölið sem rotturnar hafa drepist í. Þannig er allt þetta át sem hann hugsar um bæði dásamlegt og nærandi og viðbjóðslegt. Kannski einsog mannát gígantana hefur verið eðlilegur hádegisverður fyrir þeim en viðbjóðslegur hryllingur fyrir Ódysseifi.

Við Liffey fylgist Bloom líka með mávunum. Hann kaupir kökubita, mylur hana niður og kastar ofan í ána og horfir ´a mávana steypa sér gráðugir á eftir þeim. Hann hugsar líka til sonar Reubens J. – þess sem sagt var frá í Hades og reyndi að drekkja sér – að hann hafi „svelgt góða magafylli af þessu skolpi“. Ég held það sé alveg óhætt að fullyrða að meiripartur þessara matarvísana sé fremur ólystugur – en tilvist þeirra undirstrikar engu að síður sívaxandi svengd Blooms.

Á göngunni sinni hugsar hann um eitt og annað. Til dæmis hvort Molly sé gáfuð eða ekki og hvort Boylan sé með kynsjúkdóm. Hann rifjar líka upp einu sinni þegar þau voru að ganga saman þrjú og Boylan og Molly létu hendur snertast á gangi einsog hikandi elskendur. Svo hugsar hann hvort hann geti farið heim klukkan 18 – sem hann telur óhætt (fundur Blazes og Molly er kl. 16). Hann sér líka margar auglýsingar sem hann hugsar um og þá ber helst að nefna fimm menn sem ganga hver um sig með einn stóran bókstaf sem myndar H E L Y S, en það er ritfangaverslun þar sem Bloom vann einu sinni. Nema mennirnir eru í vitlausri röð af því Y-ið hefur dregist aftur úr, er að maula brauð. Verður þetta til þess að hann rifjar upp hugmynd sem hann hafði að betri auglýsingu en þessari þar sem snotrar stúlkur væru í gagnsæjum sýningarvagni að skrifa sendibréf. Hann rifjar líka almennt upp þessa tíma þegar hann vann hjá Hely’s og Millý var lítil (og Rudy þar með hvorki fæddur né látinn) og kemst að þeirri niðurstöðu að þá hafi hann og þau verið hamingjusamari. Hugsanir hans verða fljótt blautlegar og hann rifjar upp hvernig Mollý losar af sér lífstykkið – áður en hann er truflaður.

Það eru ekki margar persónur sem birtast í þessum kafla og ekki mikill eiginlegur söguþráður. En nú rekst Bloom á fyrrverandi kærustu, frú Josie Breen, og þau taka hvort annað tali. Josie segir frá því að maðurinn sinn sé á barmi þess að missa vitið. Hann hafi fengið ómerkt póstkort með stöfunum „U.P.“ (eða hugsanlega stóð „U.P.: UP“) og tekið því sem einhvers konar hræðilegri móðgun. Hann sé nú á fundi með lögfræðingnum Menton – þeim sem birtist í Hadesarkaflanum og þolir ekki Bloom, finnst hann óverðugur Mollyar og er sennilega gyðingahatari – til þess að sjá hvort hann geti ekki kært þessar ofsóknir.

Breen og Bloom tala líka um Minu Purefoy, sem er á fæðingardeildinni og gengur heldur illa að klára þar sín mál – Bloom kallar hana reyndar óvart Beaufoy og nefnir hana bara til þess að skipta um umræðuefni (sem var UP-póstkortið). Beaufoy er vel að merkja nafnið á manninum sem skrifaði söguna sem Bloom skeinir sér á í Kalypsó. (Í næsta kafla, þar sem Stephen Dedalus er í fókus og Hamlet er umræðuefnið, segir Stephen vel að merkja: „Snillingi verða ekki á mistök. Yfirsjónir hans eru að yfirlögðu ráði og eru dyrnar að uppgötvunum.“ Þetta má líka spegla í því að á fáeinum stöðum í Ulysses eru „mistök“ – t.d. stafsetningarvillur – sem Joyce neitaði að láta leiðrétta og má því geta sér til að hafi einhvers konar merkingu, þótt hún sé ekki alltaf ljós).

Einsog ég kom inn á í Lótusætuyfirferðinni þá er þetta „up“-stef einhver standpínuvísun en líka tengt vergirni kvenna (þeir ná honum upp – eða ekki – og þær halda pilsunum uppi – eða ekki). Af bræði Denis Breen að merkja er einhver annað hvort að gefa í skyn að hann nái honum ekki upp eða að frú Breen sé að sleppa einhverjum upp um pilsið á sér.

Ég held okkur sé alveg óhætt að spegla Breen-hjónin í bæði Antifatesarhjónum Hómers og í Leopold og Molly sjálfum (og þar með föður Hamlets og Geirþrúði, auðvitað; Ódysseifi og Penelópu; og Joyce og Noru). Leopold er ófær um að elska sína konu sem hleypir (hugsanlega) öðrum upp um sig. Og þá mætti túlka afstöðu Joyce hérna sem póliamóríska – í öllu falli er viðbragð Denis Breen augljóslega hið ósívilíseraða mannætuviðbragð, en (dálítið nevrótísk) yfirvegun Blooms það viðbragð sem siðmenningin er reist á. Sjálfsstjórnin. Ef við svo speglum það í Ódysseifi þá hjó hann alla vonbiðla Penelópu í miklu blóðbaði; faðir Hamlets lét hins vegar vonbiðilinn myrða sig; og ólátabelgurinn Joyce hvatti Noru sína til að halda framhjá sér svo hann gæti betur skilið afbrýðissemi. Sem hún lét víst ekki eftir honum.

Bloom gengur líka framhjá skrifstofum Irish Times. Þar auglýsti hann eftir vélritunarstúlku fyrir bókmenntalega sinnaðan mann – sem var yfirvarp til að finna sér pennavin. Hann fékk 44 svör og valdi Mörthu Clifford, og skrifa þau hvort öðru fremur hófstillt en vandlega blautleg bréf (einsog kom fram í Lótusætunum). Hann íhugar að líta inn og athuga hvort það hafi borist fleiri svör en gerir það ekki.

Bloom rekst á þrjár frægar manneskjur á gangi. Rétt eftir að hann hugsar til hans sér hann John Howard Parnell, sem er bróðir frelsishetjunnar Charles Parnell (nefndur í Hades). Og rétt eftir að hann hugsar um hann líka sér hann skáldið A.E. (nefndur í Eólus) og kollega hans Lizzy Twigg. Tilviljun á tilviljun ofan. Skáldin eru á reiðhjólum og að koma af einhverjum grænmetisveitingastað („Coming from the vegetarian“ þýðir SAM reyndar sem „Þau eru að koma úr náttúrulækningum“).

„Ekkert nema grasmeti og góðaldin“, skrifar Joyce. „Ekki neyta nautasteikur. Ef þú gerir það munu augu bolans leggja þig í einelti um alla tíð.“ Hann vill auðvitað alls ekki segja manni hvað textinn sé – hverjum hann tilheyri, hvort hann sé rödd sögupersóna, bókarinnar sjálfrar eða hvað. En hér erum við líklega komin einu lagi neðar – og þetta sem sagt Joyce að skrifa texta (plús-X) sem lýsir hugsunum Blooms sem ímyndar sér hugsanir A.E. og Lizzie Twigg. Sem honum finnst svolítið (óþægilega) heilög. „Þetta bókmenntafólk er allt svo loftkennt. Draumlynt, óljóst, þrungið táknsæi. Eintómir fagurkerar. Það kæmi mér ekki á óvart þó það væri einmitt þessháttar fæði sem framleiðir heilabylgjur fyrir skáldlegar hugsanir.“

Siðleysið birtist svo aftur þegar Bloom kemur ´a áfangastað, veitingastað Burtons, og ofbýður smjattið.

Karlmenn, karlmenn, karlmenn.

Þeir tróna á háum stólum við barinn með hattana afturá hnakka, hrópa frá borðunum eftir meira ókeypis brauði, svolgra, háma í sig stóra gutlandi diska af subbulegum mat, augun standa á stilkum, þurrkandi á sér vott yfirskeggið. Fölur og skænislegur ungur maður þurrkaði glasið hnífinn gaffalinn og skeiðina með munnþurrkunni. Ný samstæða af sýklum. Maður með sósublettaðan smekk um hálsinn mokaði skvampandi súpu niðrí kokið á sér. Maður skyrpti aftur á diskinn sinn: hálftuggið brjósk: gómar: engar tennur til að tyggjatyggjatyggja það. Feit rifjasneið úr grillinu. Gleypir hana ótuggna til að ljúka sér af. Döpur drykkjumannsaugu. Hefur bitið stærra stykki en hann fær tuggið. Er ég svona?

Svona heldur þetta áfram í rúma síðu áður en Bloom lætur einsog hann hafi verið að leita að einhverjum þarna inni, sem sé ekki þar – „Augu hans sögðu: Ekki hér. Sé hann ekki“ – og gengur út. Hann fer yfir götuna á siðsamari krá Davys Byrne og fær sér vegetaríska samloku eftir hugleiðingu sem hefst svona:

Dósakjöt. Hvað er dugleg húsfreyja án dósakjöts frá Plumtree? Stygg og stúrin af því. Þvílík dómadags auglýsing! Og hafa sett hana undir dánarfregnirnar. Útí hött. Dósakjöt Dignams. Gott handa mannætum með sítrónu og hrísgrjónum. Hvítur kristniboði of saltur. Einsog súrsað svínakjöt. Býst við að höfðinginn éti tignustu líkamspartana. Hljóta að vera seigir vegna brúkunar.

Og endar svona:

Fastan á Jom Kippúr, innvortis vorhreingerning. Stríð og friður velta á meltingu einhvers einstaklings. Trúarbrögðin. Jólakalkúnar og gæsir. Slátrun sakleysingja. Et, drekk og ver glaður. Slysavarðstofurnar fullar á eftir. Höfuð vafin sárabindum. Ostur meltir allt nema sjálfan sig. Sníklaostur.

–Eruð þið með ostasamloku?

Við munum að þessi Plumtree auglýsing undir dánartilkynningu Paddy Dignams er líka vísun í yfirvofandi ástarfund Mollyar með Boylan, einsog kom fram í Lótusætunum og hjá Joyce er ekki húsfreyjan stygg og stúrin heldur heimilið „incomplete“ – dósakjöt Boylans uppfyllir einfaldlega þörf á heimilinu, hversu óþægileg sem hún má vera fyrir suma heimilismenn (stygg og stúrin lýsir engan veginn Molly Bloom, einsog við eigum eftir að kynnast betur síðar).

Samlokan sem Bloom pantar sér er með gorgonzola og sinnepi og er enn þann dag í dag það sem Ulyssesferðalangar fá sér á Davy Byrne, sem er enn í rekstri og hafði þá verið í rúm hundrað ár. Og búrgúndarvín með. Ef bókin gerðist í dag hefði Bloom áreiðanlega fengið sér veganost. Ef ekki bara avokadó-toast.

Hér er vert að hafa í huga að nú hefur Bloom misboðið bæði hamslaust kjötátið á Burton og loftkennt grænmetisát fagurkeranna. Maðurinn sem hóf innkomu sína í bókina á að lýsa dálæti sínu á innmat, steikti sér nýra í morgunmat, en fékk sér sjálfur kjötlaust í hádeginu. Bloom er ekki með neinum í liði, hann er sinn eigin maður. Og kannski birtist þarna einhver kjarni sem er dæmigerður fyrir það það hvernig Joyce nálgast heiminn – bókmenntin sem tilraun til þess að fá panoptíska sýn á heiminn. Að umfaðma allt. Þetta má allavega spegla í mörgu fleiru, ekki síst því hvernig sjálfstæðisbarátta Íra birtist bæði sem sjálfsagt og fallegt ídeal, sem söguleg nauðsyn þjakaðrar þjóðar og sem ógurleg og eyðileggjandi þjóðremba. Og svo er Bloom auðvitað graðasti getuleysingi í gervallri klámbókmenntasögunni, ekkert nema kurteisi, mýkt, nærgætni og viðstöðulaust glápandi pervert.

En hér má líka hafa í hug að eitt af því fyrsta sem gerist í kaflanum er að Bloom tekur við kristilegu dreifiriti þar sem koma Elía er boðuð. Hann les textann og heldur fyrst að hann sé að lesa sitt eigið nafn. „Bloo“ hugsar hann en áttar sig svo á að þarna stendur ekki Bloom heldur „Blood of the lamb“. Ekki blómi Leopolds – grasmeti – heldur blóð lambsins. Og blómi Leopolds er auðvitað líka kyngetan – og blóð lambsins fórnin (svo tignar Bloom ástina að hann fórnar henni heiðri sínum, svo hún megi hljóta eilífan unað).

Þetta „Elía kemur“ birtist síðan af og til aftur í bókinni – en dreifiritinu kastar Bloom í Liffey um svipað leyti og kökubitunum. Það svo að segja flýtur í gegnum bókina.

Dreifiritið er kristið en Bloom er gyðingur (að ætt fremur en uppeldi). Margir kristnir túlka það sem svo að Elía hafi þegar snúið aftur, hann hafi verið Jóhannes skírari (þótt Jóhannes hafi neitað því sjálfur). En gyðingar bíða hans enn. Þá er markvert að koma hans er boðuð í síðustu bók gamla testamentisins sem heitir Malakí – en „Buck“ Mulligan, vinur Stephens Dedalusar, heitir réttu nafni Malachi Mulligan. Ekki það ég viti hvernig eigi að leggja út af því og kannski gerði Joyce það ekki heldur.

Sjá, ég sendi Elía spámann til ykkar áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur. 

Malakí 3: 23.

Og hver er það sem er að koma þennan ógurlega dag? Blazes fokkings Boylan. Það segir líka að Elía muni sætta feður við syni og syni við feður – og Ulysses er auðvitað mjög mikið um feður og syni, Stephen sem á reiða liðleskju fyrir föður, Bloom sem á dáinn son og dáinn föður, og þá tvo sem rekja sig að endingu saman. Í Ulysses er þó ekki víst að það hafi mikið með Blazes að gera – að minnsta kosti hef ég ekki komið auga á tenginguna.

Á Davy Byrne spallar Bloom við Nosey Flynn (sem statisti í „Counterparts“ úr Dubliners), meðal annars um Molly og söngferðalagið. Nosey – sem er frekar glötuð týpa – er augljóslega að fiska eftir einhverju slúðri um Boylan. Svo borðar Bloom og verandi í senn fullkominn sveimhugi og fullkominn núvitundarmaður fylgir því löng hugleiðing um mat – hvað sé eitrað og hvað ekki, að kínverjar éti 30 ára gömul egg, hvernig ostrur orki á kynhvötina o.s.frv. – sem leiðir hann að endurminningu um stefnumót þeirra Mollyar á Howth Head (Howth er skandinavíska – Howth Head væri rétt þýtt sem Höfðahöfði) – sem virðist hafa verið í meira lagi heitt.

Hamslaus lá ég yfir henni, kyssti hana: augun, varirnar, þaninn og titrandi hálsinn, stælt brjóstin í fínofinni kasmírpeysu, útstæðar brjóstvörturnar stinnar. Heitur lét ég tunguna leika um hana. Hún kyssti mig. Ég var kysstur. Hún gaf sig alla og ýfði á mér hárið. Kysst, kyssti hún mig.

Kurteislegri mynd af þessu stefnum´óti á Höfðahöfða má sjá á púslin uppi í hægra horninu.

Bloom hugsar líka um stytturnar á National Library Museum – safnahúsinu sem hann ætlar að heimsækja í næsta kafla.

[S]tanda í hringlaga salnum, naktar gyðjur. Örva meltinguna. Þær kæra sig kollóttar hvaða karl horfir á þær. Allt sést. […] Ódauðlega fagrar. Og við troðum mat í eitt gat og kemur út að aftan: matur, iðramjólk, blóð, tað, mold, matur: verður að fóðra hann einsog þegar kynt er undir vél. Þær hafa ekkert. Hef aldrei athugað það. Ætla að athuga það. Vörðurinn sér það ekki. Beygja mig, láta eitthvað detta. Athuga hvort hún.

Akkúrat á þessari stundu þar sem hann er að íhuga að líta undir stytturnar á safninu verður honum mál að míga og fer á klósettið. Nosey Flynn og Davy Byrne nota tækifærið til að baktala vin sinn, sem þeir segja meðal annars að sé frímúrari og frímúrarnir hugsi um sína. „Þeir hlaupa undir bagga þegar hallar á hestinum.“ Það er stef í bókinni að fólk virðist almennt halda að gyðingurinn Bloom eigi meira fé en raunin er – á meðan okkur sem þekkjum hann betur er ljóst að þótt hann sé nægjusamur er líf hans talsvert basl. Segja þeir líka að hann skrifi ekki undir samninga af því hann sé gyðingur. En þeir tala ekki bara illa um hann – þeir segja líka að hann sé háttprúður og hæglátur og bæta svo við að „sjálfur Guð almáttugur gæti ekki hellt hann fullan“ (sem er ekki endilega hrós). Mest bulla þeir bara og þekkja hann greinilega lítið þótt þeim þyki létt að fullyrða alls konar um hann.

Nú koma Paddy Leonard og Bantam Lyons inn og fara að tala um veðhlaupin – Gullbikarinn – einsog við munum úr Lótusætunum lánaði Bloom Lyons blaðið og Lyons misskildi athugasemd hans um að hann ætlaði hvort eð er bara að henda blaðinu („throw it away“) þannig að Bloom væri að gefa sér tips um að hrossið Throwaway myndi vinna veðhlaupin. Þessu ráði deilir Lyons með hinum sem taka það mistrúanlegt.

Þegar Bloom kemur af klósettinu yfirgefur hann krána. Það fyrsta sem hann sér úti á götu er „gráðugur terríer“ sem ælir „viðbjóðslegri kjúkutuggu á götugrjótið og sleikti hana af ferskum ákafa. Ofsaðning.“

Í lok kaflans sér hann síðan ungan sjónlausan mann. Hann fylgist með honum og veltir því fyrir sér hvernig hann fari að því að spjara sig og eðli skilningarvitanna almennt. Skömmu síðar hjálpar Bloom honum yfir götu – það er ekki alveg víst að sá blindi vilji neina hjálp, en hann er henni ekki mjög mótfallinn og þakkar fyrir sig. (Joyce var vel að merkja sjálfur mjög sjóndapur vegna veikinda og stundum nær blindur). Þá sér hann Sir Frederick Falkiner fara inn í Frímúrarahöllina. „Eftir góðan málsverð í Earlsfort Terrace. […] Þeir vilja fá rétta árganga af víni með ártalið skráð á rykfallna flöskuna.“

Að allra síðustu, rétt við bókasafnið, gengur Bloom svo næstum í flasið á kunnuglegum manni.

Stráhattur í sólskini. Brúnir skór. Uppbrot á buxum. Það er. Það er.

Blazes Boylan. Blazes sér ekki Bloom og Bloom lætur ekki vita af sér. Þreifar í ofboði í vasa sér eftir sápunni sem hann keypti fyrir Molly – einsog einhvers konar akkeri – og lætur sig svo hverfa inn fyrir hlið safnsins.

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * * 

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Hades: Undirheimarnir

Eólus: M´ótvindar frelsis

* * * 

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

Eólus: Mótvindar frelsis

Hér er ýmislegt að gerast. Það glittir í kýklóp. Sítrónusápan hvílir í lundi. Fólkið við vitann er Molly og Leopold á sínu fyrsta stefnumóti löngu áður. Samuel Beckett stendur uppi á húsi. Þar beint fyrir ofan eru skrifstofur Freeman’s Journal og Evening Telegraph. Molly hvílir í rúmi sínu og Bloom tekur til morgunmatinn. Séra Conmee er á stjái. Bókin The Sweets of Sin stendur opin. Í vinstra horninu niðri eru Flann O’Brien og fleiri rithöfundar á frægri ferð um söguslóðir Ulysses sem endaði á einhverjum afar viskílegnum villigötum. Þá er þetta Bloom þarna undir blóminu stóra með bréfið frá Mörthu í höndunum.

Ég segi ekki að það erfiðasta við Aeolus sé að stafsetja heitið á kaflanum rétt en það er allavega á topp fimm listanum. Ef marka má árangur minn (ég kíki alltaf og leiðrétti en virðist ekki geta gert þetta rétt í fyrsta skipti). Enda hefur Sveinbjörn ákveðið að kalla manninn bara Eólus. Hippótesson. Ástvin hinna ódauðlegu guða.

Í kviðu Hómers segir frá því er Ódysseifur hittir vindguðinn Eólus. Eólus gefur Ódysseifi poka fullan af mótvindi sem þá hindrar hann ekki á heimleiðinni – og sendir góðan vestanvind á eftir honum. Þetta er vel að merkja fljótlega eftir að Trójustríðinu l´ýkur, rétt eftir að Ódysseifur sleppur frá kýklópnum Pólyfemusi. Með hjálp hagstæðra vinda sækist ferðin vel og þegar Íþaka er í sjónmáli ákveður Ódysseifur – illu heilli fyrir sig en góðu heilli fyrir sadíska lesendur ævintýra – að fá sér bara ogguponsu lúr. Á meðan lúrnum stendur kíkja skipverjar í pokann, af því þeir telja að þar megi finna fjársjóð, með þeim afleiðingum að mótvindarnir sleppa út og skipið feykist alla leið aftur til baka. Eólus finnst þetta ekki fyndið – „goðagremi veldur því, að þú ert hingað kominn“ – og neitar að hjálpa Ódysseifi frekar. Enn eru sjö ár í að Ódysseifur komist heim.

Sögusvið Eólusarkafla Joyce eru skrifstofur The Freeman’s Journal og The Evening Telegraph – morgunblaðið og síðdegisblaðið deila kontór. Vindur er aðalhreyfiafl og höfuðmyndlíking kaflans. Vindurinn feykir fólki inn og út úr herbergjum. Það er stanslaus umgangur og erfitt að fylgjast með hverjir eru inni á sviðinu. Fólkið sem þeytist fram og til baka blæs líka út úr sér heilum ósköpum af heitu lofti og gaspri og það eru gjarnan fleiri en ein samræða að eiga sér stað samtímis.

Bloom er hins vegar blásið áfram af launaþörfinni – auglýsingasalan er greinilega illa launað skítadjobb og hann ræður litlu og enginn ber minnstu virðingu fyrir honum. En það eru þannig störf sem feykja manni af mestum krafti, störfin sem maður hefur ekki efni á að missa.

Ulysses er í eina af sínum fjölmörgu röndum saga um framfarir og nútíma. Og það hvernig nútíminn tekur við af fortíðinni, breytir venjum og hefðum og hugsunarhætti. Og hún boðar framtíðina sem mun gera það sama við nútímann og hann gerði við fortíðina. Valta yfir hann. Það eru fáir höfundar á þessum tíma – 1914-1922 – sem skrifa af sama áhuga fyrir tækninýjungum og Joyce. Einsog við sáum í síðasta kafla er aðalsöguhetjan, Leopold Bloom, t.d. áhugamaður um vélvæðingu dauðans – og sennilega einlægur í þeim áhuga þótt Joyce sé kannski pínu að gera gys líka. Hér örlar hins vegar fyrir því að Bloom dáist ekki bara að tækninni heldur fyrirlíti eða óttist hana líka. Í prentsmiðjunni kemur til dæmis þessi kafli:

Machines. Smash a man to atoms if they got him caught. Rule the world today.

Örskömmu síðar bætir hann við þessari lýsingu á vélunum:

The machines clanked in threefour time. Thump, thump, thump. Now if he got paralysed there and no one knew how to stop them they’d clank on and on the same, print it over and over and up and back.

Tveimur blaðsíðum síðar koma prentvélarnar enn eina ferðina inn og þá er einsog Bloom sé farinn að skilja þær.

Sllt. Almost human the way it sllt call to attention. Doing its level best to speak. That door too sllt creaking, asking to be shut. Everything speaks in its own way. Sllt.

Ég held að þetta „sllt“ hljóð hljóti að vera skurðarvél. Hvað um það. Í fjórða kafla bókarinnar, þegar við hittum Bloom, á hann í samskiptum fyrst við köttinn sinn sem mjálmar og svo við Molly, sem muldrar orðaleysur – og alltaf skilur Bloom það sem við hann er sagt þótt orðin sé ekki að finna í orðabókum. Hér er undirstrikuð mennska Blooms og þörf hans fyrir tengsl, fyrir að skilja heiminn – en líka lýst ákveðinni kenningu um lestur: Kannski er ekki hægt að lesa (Ulysses/neitt) nema maður treysti eigin innsæi til að túlka upplýsingarnar sem maður fær.

Yfirgengilegur textaveruleiki aldamótanna 1900 tröllríður auðvitað bókinni. Það var ekki að dagblöð og auglýsingar væru nýmæli, þótt ekki væru þau mjög gömul heldur, heldur að það stóð stöðugt fleirum til boða að skrifa, lesa og auglýsa. Út um allt er texti. Á öllum veggjum eru tilkynningar og auglýsingar og skilti og Bloom les það allt. Bloom er svo auðvitað sjálfur auglýsingasali (milligöngumaður milli auglýsenda og Freeman’s Journal, sem gefur út The Evening Telegraph – hleypur á milli og semur um birtingu og vinnur fyrir prósentur). Og sem slíkur hefur hann einlægan áhuga á texta og framsetningu. Hann gengur auk þess um með upprúllað dagblað undir hendinni alla bókina – og það er yfirleitt kallað „newspaper baton“ og á einum stað „freeman baton“ og það er áreiðanlega ekki óviljandi – baton er bæði tónsproti, sá sem í hann heldur s´týrir verkinu, og barefli eða kylfa. Textinn leiðbeinir, stýrir og meiðir jafnvel.

Stephen – sem snýr aftur í Eólus – er menntamaður og skáld og sem slíkur upptekinn af annars konar textagreiningu. Hann íhugar Aristóteles og Boehme og Shakespeare – og raunar er hann í hinum frægu upphafsorðum Próteusar um „the ineluctable modality of the visible“ – („óumflýjanlegan hátt þess sem er sýnilegt“) – að reyna að komast handan hins sjáanlega út í einhvers konar „hreina hugsun“ – hugsun um hugsun, hugsun um heimspeki og listir. Eða í það minnsta að sjá sýnileikann í hinu sýnilega – sjá sig sjá. Það er öfugt við Bloom sem baðar sig í hinu sjáanlega – starir jafn hispurslaust á auglýsingar sem kvenmannsleggi – og er alltaf með hugann við það sem er fyrir framan nefið á honum.

Erindi Stephens í Eólus er að koma til skila aðsendri grein frá yfirmanni sínum, hr. Deasy, um gin- og klaufaveiki. Ekki sínum eigin skrifum, sem þó er gengið eftir. Hins vegar reif skáldið smá rifrildi af pappírnum sem greinin er skrifuð á – í Próteusarkaflanum – og orti á það ljóð sem hann rifjar upp hér þegar ritstjórinn spyr hvers vegna bréfið sé rifið.

On swift sail flaming
From storm and south
He comes, pale vampire,
Mouth to my mouth.

Bókin sjálf vekur líka sífellt meiri athygli á sjálfri sér eftir því sem líður á hana. Fyrst með því að beita óvenjulegum frásagnaraðferðum sem leyfa Joyce að dvelja við og stökkva inn í jafnvel smávægilegustu hugsanir sögupersóna sinna – sem verða þar með texti – og svo síðar með augljósari aðferðum. Þetta verður fyrst dagljóst jafnvel fimm ára börnum í Eólus þar sem frásögninni er skipt upp í fréttir með fyrirsögnum á borð við „Lost Causes Noble Marquess Mentioned“ og „Only Once More That Soap“ sem standa reyndar í misaugljósu samhengi við textann. Textann gæti maður alveg lesið án þeirra einsog hvern annan kafla í þessari bók – og raunar bætti Joyce fyrirsögnunum bara við í próförk til þess að undirstrika textúalítetið og búa mann undir næstu stökk í þá átt. Og auðvitað vegna þess að það er viðeigandi fyrir sögusviðið. Dagblaðaheiminn. Heim framtíðarinnar: auglýsinga og prentlista. Blaðaskrif og auglýsingar eru stöðugt rædd, hávaðinn í prentsmiðjunni og gasprið í blaðamönnunum eru alltumlykjandi. Og á einum stað dáist Bloom líka að því hvernig setjararnir geta raðað upp stöfunum aftur á bak – mangiD kcirtaP – ef bókin hefði verið prentuð í dag hefði Joyce sennilega látið spegla stafina líka.

Félagar Blooms úr jarðarförinni eru farnir á pöbbinn en Bloom hefur ekki efni á að slæpast, hann þarf að sinna vinnunni. Hann er með hugmynd að auglýsingu fyrir te- og vínsalann Alexander Keyes sem felur í sér að endurnýta gamla auglýsingu úr öðru blaði, tvo lykla í kross innan í hring. Sams konar merki mun hafa verið notað af þeim sem studdu írska heimastjórn. Og Bloom segir við yfirmann sinn, Nannetti, að þetta sé daður við slíka pólitík – sem er þeim greinilega öllum að skapi. En heimastjórn þýðir áreiðanlega eitthvað fleira fyrir kokkálnum og ástarbréfaskrifaranum en bara sjálfstjórn þjóðarinnar. Og tveir lyklar í bók um tvo lyklalausa menn – Stephen og Bloom fara báðir að heiman lyklalausir – er nú kannski ekki flóknasta táknið í ljóðráðningabókinni. Nannetti samþykkir auglýsinguna ef Keyes fæst til að kaupa þriggja mánaða endurnýjun. Bloom rýkur af stað til að athuga með það.

Augnabliki síðar tekur Bloom upp vasaklútinn og finnur lykt af sítrónusápunni sem hann keypti fyrir Molly – rifjar upp spurningu Mörthu um hvaða ilmvatn kona hans notar – íhugar í örskotsstund að gera sér upp afsökun fyrir að líta við heima, þar sem Molly bíður Boylans, en hættir jafn harðan við.

Hjá Hómer ferðast Ódysseifur og félagar um langa leið – fram og til baka. Það fer hins vegar enginn mjög langt í Joyce því enda þótt litlu megi muna að Bloom fari til Ballsbridge (sem er dálítið ferðalag) til þess að semja við Alexander Keyes hjá House of Keyes þá ákveður hann á síðustu stundu að hringja og kemst að því að því að Keyes er staddur handan við hornið á uppboðshúsi. Hann rýkur þangað en við erum skilin eftir á skrifstofunni á meðan. Hinir horfa á eftir honum út um gluggann þar sem strákastóð gerir gys að honum og hermir eftir göngulaginu.

– Lítið bara á strákskrípið þarna sem æpir og skrækir fyrir aftan hann, sagði Lenehan, og þér fáið hláturskrampa. Æ hamingjan sanna, hermir meiraðsegja eftir ilsignu göngulaginu og öllu heila klabbinu. Sá kann loddarabrögðin.

Á skrifstofunum er einsog áður segir stöðugur umgangur. Simon Dedalus er þarna en fer fljótlega á barinn. Lenehan – fremur vonlaus týpa sem er í aðalhlutverki í Two Gallants úr Dubliners – reynir að segja orðagrín en gengur illa að koma því til skila og svo reynist það ekkert mjög fyndið. Hynes er að skila af sér greininni um jarðarför Paddys Dignam. Ritstjórinn, Myles Crawford (sem á eftir að þurfa að staðfesta auglýsingasölu Blooms) er þarna, sem og lögfræðingurinn J. J. O’Molloy. Og fleiri og fleiri. Það er rifist um Írland og Róm („Salerna- og holræsasmiðir verða aldrei andlegir feður okkar“) og Grikkland og Egyptaland og Ísrael – og allt má lesa sem komment um Írland og Bretland – og mikið gaman hent að ræðunni hans Dans Dawson sem var nefnd í Hadesarkaflanum. Ætli þetta sé ekki það óþolandi stílbragð sem Þórbergur kallaði „uppskafningu“? Eða var það eitthvað sértækara – í öllu falli mætti það alveg heita uppskafning mín vegna:

Eða virðið aftur fyrir ykkur bugður niðandi lækjarsprænu þarsem hún hjalar álengdar, þótt hún deili við grýtta þvergirðinga, á leið sinni til hinna úfnu vatna í bláu ríki Pósídons, hlykkjast milli mosavaxinna bakka, kæld af mildum andvara, og er lýst upp af dýrlegu sólskini eða líður undir skugga sem varpað er yfir djúphugulan barm hennar hvelfdu laufskrúði skógarrisanna.

Fleiri textar eru ræddir – meðal annars blaðagreinar eftir mann sem heitir Ignatius Gallaher (úr Little Cloud í Dubliners) sem menn eru afar ánægðir með og A.E. (þeósófistann sem hét réttu nafni George William Russell), sem hefur nefnt Stephen í einhverju viðtali, J. J. O’Molloy vitnar í Seymour Bushe („einhver hnökralausasta málsgrein sem ég held ég hafi nokkurn tímann hlustað á“) og Stephen kemst við og roðnar („þareð blóð hans heillaðist af þokka máls og látbragðs“) og MacHugh vitnar í John F. Taylor, texta sem fær Stephen til að velta því fyrir sér í augnablik hvort hann ætti að gerast blaðamaður – en hafnar því svo. Man þá að hann á pening (hann fékk útborgað hjá hr. Deasy í Nestorkaflanum) og spyr hvort það sé ekki ástæða til þess að færa fundarhöldin út á næsta pöbb. Þeirri uppástungu er tekið með afbrigðum vel.

Stephen segir síðan undarlega dæmisögu um tvær írskar vestumeyjar sem klifra upp í Nelsonsúluna og éta þar plómur og skyrpa steinunum yfir grindverkið. Aðspurður segist hann kalla dæmisöguna „Palestína séð frá Pisgah eða Dæmisagan um plómurnar“. Söguna má sennilega túlka í ljósi textabrotsins eftir Taylor þar sem Írum var líkt við Ísraelsmenn sem neituðu að gangast undir stjórn Egypta. Nelson, sem stendur á súlunni, er breski flotaforinginn Horatio Nelson. Þessi mikilfenglega og risastóra súla var mjög umdeild meðal Íra og var á endanum sprengd af IRA árið 1966 – og ákveðið að gera enga tilraun til þess að laga hana eða endurreisa.

– En dömur mínar og herrar, hefði Móse hinn ungi lagt eyrun við og fallist á þessa lífssýn, hefði hann beygt höfuð sitt og beygt vilja sinn og beygt anda sinn fyrir þessari drambsömu áminningu, þá hefði hann aldrei leitt útvalda þjóð sína burt úr húsi ánauðarinnar né fylgt skýstólpanum á daginn. Hann hefði aldrei talað við hinn Eilífa meðal eldinga á Sínaífjalli né nokkurntíma komið niður með birtu innblásturs geislandi af ásjónu sinni og töflur lögmálsins í fangi sér, meitlaðar á tungu útlagans.

Því má svo halda til haga að þótt Joyce sé í þessum kafla frekar hallur undir sjálfstæðisbaráttu Íra þá gerir hann mjög hressilega upp sakirnar við þjóðrembuna sem henni fylgir síðar í bókinni.

Á leiðinni út rekast félagarnir á Bloom sem er að koma aftur af fundi sínum með Keyes. Bloom segir Crawford að Keyes sé til í tveggja mánaða endurnýjun á auglýsingunni og hvort það sé nóg – en Crawford segir honum að Keyes megi sleikja á sér rassinn. Bloom fattar að Crawford er að fara á barinn og það verði kannski ekki auðvelt að hindra þá för til þess að klára auglýsingasöluna.

Allir á leið í sollinn. Leiða hver annan. Lenehan með siglingakaskeitið þarna fyrir handan að sníkja. Alltaf sama smjaðrið. Ætli Dedalusdrengurinn eigi upptökin að þessu. […] Hirðulaus piltungur.

Bloom býðst til að halda áfram að vinna í auglýsingunni en Crawford endurtekur bara skilaboðin um rassinn á sér.

Ætli blaðamannatýpurnar á leiðinni á barinn séu þá ekki skipverjarnir að opna pokann og Bloom Ódysseifur sem tekst ekki að komast á áfangastað, sem að þessu sinni var að selja þessa auglýsingu. Og hvað var auglýsingin? Tveir lyklar í kross innan í hring: merki fyrir sjálfstætt Írland. Og drykkjuskapurinn í kjaftöskunum var mótvindurinn í pokanum – ég held það sé alveg ljóst að þótt Joyce hafi sjálfur verið frekar góðglaður maður leit hann á áfengisbölið sem mikinn dragbít á Írum. En lyklarnir eru líka lyklarnir sem Dedalus og Bloom vantar – þeir eru báðir bókstaflega lyklalausir og metafórískt heimilislausir menn, annar landlaus gyðingur sem er hafnað af þjóð sinni Írum (og sennilega gyðingum líka), hinn skáld á leiðinni að yfirgefa þjóð sína, halda út í heim – og heimastjórn einsog áður segir eitthvað fleira fyrir kokkálnum Bloom en bara sjálfstjórn þjóðarinnar. Eða fyrir Stephen, sem býr með hinum yfirgangssama Mulligan og er með hinn yfirlátssama Haines sem gest. Dedalus og Bloom eru heimastjórnarlausir menn í fleiri skilningi en einum (eða tveimur).

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * *

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Hades: Undirheimarnir

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

Hades: Undirheimarnir

Þarna í vinstra horni uppi er Glasnevin kirkjugarður. Bloom stendur einn.

En er eg hafði beðizt fyrir og heitið á draugasæginn, tók eg kindurnar og skar þær á háls ofan í gröfina svo dökkur dreyrinn rann; flykktust þá að vofur hinna dauðu drauga neðan úr Myrkheimi: ógefnar meyjar og frumvaxta sveinar, raunamædd gamalmenni, og ungar stúlkur, hugsárar af nýfengnum harmi: margir vopnbitnir menn, vegnir með eirslegnum spjótum, og báru blóðstorkin vopn; þeir komu flokkum saman úr sinni átt hverr, og flykktust að gröfinni með geysimiklum gný; greip mig þá bleikur ótti.

Úr 11. þætti Ódysseifskviðu

Í kviðu Hómers fer Ódysseifur til undirheima – eða særir þá eiginlega fram – og fær þar að vita hvernig sé best að komast heim til Íþöku og að ástæðan fyrir óförum hans hingað til sé sú að Póseidon sé að refsa honum fyrir að hafa blindað son hans, kýklópann Pólyfemus.

Þemað í kaflanum hjá Joyce er einsog gefur að skilja dauðinn. Við höfum vitað frá því í fyrsta kafla að Leopold Bloom er á leiðinni í jarðarför Paddys Dignam klukkan 11. Kaflinn hefst á því að Bloom – sem er nýkominn úr tyrkneska baðhúsinu – og vinir hans, Jack Power, Martin Cunningham og Simon Dedalus, stíga upp í hestvagn sem mun flytja þá þvert yfir bæinn upp í Glasnevin kirkjugarð, þar sem Dignam verður jarðsunginn.

Lesendur Joyce þekkja alla þessa menn. Simon er auðvitað pabbi Stephens – sterkgáfaður, íronískur, skemmtilegur en dómharður og hræðileg fyllibytta sem er flestum í lífi sínu til óþurftar. Hann hefur verið nefndur fyrr í bókinni og kemur líka fyrir í Portrait of the Artist as a Young Man. Power og Cunningham koma fyrir í smásögunni Grace úr Dubliners. Þar reyna þeir, ásamt M’Coy úr síðasta kafla, að fá Tom Kernan til þess hætta að drekka. Við vitum af frásögu M’Coy í síðasta kafla að Tom Kernan er á bender – svo þetta plan hefur ekki tekist sem skyldi.

Okkur verður síðan fljótt ljóst á tóni samræðanna í vagninum að þótt mennirnir fjórir séu vinir þá er Bloom utanveltu. Hinir þrír eru meiri vinir – Bloom er bara „með“.

Vagninn ferðast yfir fjórar ár – eða tvær ár og tvö síki – einsog það eru fjórar ár í Hades.

Eitt af því fyrsta sem gerist er að gömul kona gægist út um gluggatjöld á þá sorgarklæddu félagana í vagninum – „Nefið hvítflatt á rúðunni“ – og Bloom hugsar að þær (konur, væntanlega) séu líklega „glad to see us go we give them such trouble coming“.

Á leiðinni sjá þeir Stephen sem er á leiðinni niður á Sandymount strand – þar sem hann dólar í þriðja kafla (á þessum stað í bókinni renna sögur þeirra saman í tíma). Klukkan er rétt tæplega ellefu að morgni. Bloom kemur auga á Stephen og nefnir það við félaga sína og Simon spyr hvort „lubbinn hann Mulligan“ hafi verið með syni hans í för – og rantar síðan yfir því hvað Stephen umgangist mikinn „trantaralýð“ og kallar Mulligan samansaumaðan falskan djöfuls fant. „I’ll tickle his catastrophe, believe you me“ þýðir SAM skemmtilega sem „Sanniði til, ég skal dusta á honum drundinn.“ Þetta eru bæði svívirðingar sem ég ætla að hafa á hraðbergi héðan í frá.

Annað þema í kaflanum er vel að merkja hræsni – Simon er alger lubbi og landeyða sjálfur og á lítið með að dæma aðra.

Stephen er vel að merkja líka svartklæddur – klæddur sorginni – einsog mennirnir á leiðinni í jarðarförina. En Stephen er svartklæddur til lengri tíma – í ár minnir mig – því hann syrgir móður sína. Stephen og Bloom eru sem sagt báðir í sorgarklæðnaði alla bókina og báðir lyklalausir.

Reiðikast Simons verður til þess að Bloom fer að hugsa um sinn eigin son og hvernig það væri að eiga hann 11 ára gamlan í Etonbúningi. „My son. Me in his eyes. Strange feeling it would be.“ Og svo fer hann að hugsa um það hvernig hann kom undir. Þá hafði Molly staðið við gluggann og fylgst með hundum eðla sig og kallað á Leopold. „Give us a touch, Poldy. God I’m dying for it.“ Það er alveg ljóst að Bloom telur þetta ekki hafa verið fyrirmyndargetnað og hann tekur það samt alfarið á sig að sonur þeirra hafi dáið („If it’s healthy it’s from the mother. If not from the man.“)

Þeir spjalla um hverjir komi í jarðarförina. Martin Cunningham spyr hvort þeir hafi lesið ræðu Dan Dawson’s í blaðinu – Bloom segir nei og tekur upp blaðið en er sagt að líta á þetta síðar (ræðan kemur aftur upp í næsta kafla). Hann skannar þess í stað dánartilkynningarnar. Svo lætur hann hugann reika og augnabliki eftir að honum verður hugsað til Mollyar og Blaze Boylan („He’s coming in the afternoon. Her songs.“) sér Cunningham Boylan og reynir að heilsa honum en fær ekkert svar. („Just that moment I was thinking.}

Herra Bloom skoðaði neglurnar á vinstri hendi sér, síðan þeirri hægri. Neglurnar, já. Er eitthvað meira í hann spunnið sem þeir hún sér? Hrifning. Versti maður í Dyflinni.

Bloom dvelur aldrei lengi við þessar hugsanir um Boylan og Molly. Ekki einu sinni þótt félagar hans fari í framhaldinu að spyrja hann út í söngferðalagið.

Um leið og þeir aka framhjá styttunni af þjóðernissinnanum sir John Gray sjá þeir mann sem er lýst svo: „Hávaxinn svartskeggjaður maður hökti kengboginn við staf sinn.“ Okkur skilst fljótt að þetta sé gyðingur og okurlánari að nafni Reuben J. Dodd og hafa félagarnir um hann ljót orð en segja líka að þeir hafi allir einhvern tíma þurft að snúa sér til hans eða „Well, nearly all of us“, segir Martin Cunningham. Bloom er auðvitað gyðingur og þeir telja greinilega að það þýði að hann sé ekki líklegur til að verða fórnarlömb félaga sinna. Þarna undirstrika þeir hressilega að Bloom er ekki einn þeirra. Kaldhæðnin er svo reyndar líka að Reuben J. Dodd var raunverulegur maður og alls ekki gyðingur þótt margir héldu það. Bloom byrjar ákafur að segja slúðursögu um Reuben og son hans – sem hafi verið í kvennavandræðum og hafi átt að flytja til Manar – en hinir eru alltaf að grípa fram í og á endanum tekur Martin Cunningham að sér að klára söguna, sem er þannig að strákurinn reyndi að drekkja sér á leiðinni en bátsmaðurinn bjargaði honum og fékk eina flórínu að launum (sem þykir smánarlegt).

Jack Power notar tækifærið til þess að fordæma sjálfsmorð – engin smán sé meiri. Cunningham maldar í móinn og talar um tímabundna geðbilun og maður verði að líta á þetta af samúð. Bloom ætlar að segja eitthvað en hættir við. Hann hugsar vel til Cunninghams og nefnir að hann eigi í svolítið erfiðu hjónabandi – konan hans er áfengissjúklingur sem hefur í sexgang selt undan þeim húsgögnin til þess að fjármagna drykkju sína, en alltaf kaupir hann ný „Það gæti fengið steinhjarta til að bráðna.“

Í síðasta kafla komumst við að því að pabbi Blooms er dáinn og það var voðalegt og „kannski honum fyrir bestu“. Nú áttum við okkur á því – í hugsunum Blooms – að hann framdi sjálfsmorð – drakk eitur á hótelherbergi. Og skildi eftir bréf til sonar síns.

Vagninn tefst dálítið þegar þeir mæta nautgripahjörð sem er á leið til slátrunar. Bloom spyr hvers vegna borgin sé ekki með sporvagna til þess að flytja svona nautgripi niður að höfn. Cunningham tekur undir. Þá bætir Bloom um betur og stingur upp á útfararsporvögnum til að flytja syrgjendur í kirkjugarðinn (og nefnir að þannig sé í Mílanó). Power lýst ekkert á það en hinir eru heldur jákvæðari og Cunningham segir að þá myndu ekki gerast atvik einsog einu sinni þegar líkvagni hvolfdi og kistan „skopraði“ út á götuna.

Nú byrjar Bloom aftur að hugsa. Ímyndar sér að vagninn með Dignam velti. Spyr sig hvort líkum geti blætt. Íhugar að fara að heimsækja Millý í Mullingar. En afræður svo að láta það vera: „She mightn’t like me to come that way without letting her know. Must be careful about women. Catch them once with their pants down. Never forgive you after. Fifteen.“ Millikaflinn þarna um konur með buxurnar á hælunum á augljóslega líka við um Molly.

Næst koma þeir að stað þar sem framið var morð og ræða það – morðinginn var sekur en sýknaður. Bloom veltir fyrir sér hrifningu fólks á svona löguðu. „Menn eru sólgnir í að lesa um það. Mannshöfuð finnst í garð. Hún var klædd í. Hvernig hún varð við dauða sínum. Síðasti glæpurinn. Vopnið sem beitt var. Morðinginn gengur enn laus. Vísbendingar.“

Eitt sem er vert að nefna: Bloom er alltaf með sápuna sem hann keypti handa Molly í vasanum. Stundum truflar hún hann – hann hefur setið á henni alla ferðina. Nú koma þeir í kirkjugarðinn og hann notar tækifærið til þess að flytja hana í brjóstvasann.

Bloom finnst jarðarförin lítil. Martin Cunningham segir Power frá því að sér hafi dauðbrugðið þegar hann fór að tala um sjálfsmorð fyrir framan Bloom – það kemur í ljós að Power hafði ekki hugmynd um sjálfsmorð föður hans.

Næst fara þeir að ræða líftryggingu Dignams og barnafjöldann sem hann skilur eftir sig. Cunningham ætlar að safna peningum fyrir börnin og Bloom gefur duglega í sjóðinn. John Henry Menton, vinnuveitandi Dignams, hefur skráð sig fyrir pundi.

Séra Coffey les yfir líkinu („I knew his name was like a coffin. Domine-namine.“ Bloom veltir því fyrir sér hvers vegna presturinn sé svona þaninn, einsog hann sé fullur af gasi, og að það hljóti að vera allt fullt af gasi og eiturgufum á svona stað. „Down in the vaults of saint Werburgh’s lovely old organ hundred and fifty they have to bore a hole in the coffins sometimes to let out the bad gas and burn it it. Out it rushes: blue. One whiff of that and you’re a goner.“ Dauðinn: Bráðdrepandi.

Bloom finnst annars lítið til Coffey koma. Finnst þetta allt frekar andlaust og leiðinlegt og virðist ekki alveg skilja hvernig nokkur maður nennir þessu eilífa kirkjuhjakki.

Á einum stað nefnir Simon að „hún“ sé grafin þarna – konan hans, heitin, móðir Stephens – og á öðrum nefnir Bloom að hann eigi reit þarna, þar sem foreldrar hans hvíla, og sonurinn Rudy sem dó ellefu daga gamall.

John Henry Menton spyr hver Bloom sé og Ned Lambert svarar því og þeir virðast sammála um að Molly sé alltof „finelooking woman“ fyrir hann. Menton segist hafa lent upp á kant við Bloom einu sinni í keiluspili. Bætir svo um betur gagnvart Bloom og kallar hann „halanegra“.

Blaðamaðurinn Hynes segir brandara um mann sem kom fullur í kirkjugarðinn að leita að leiði vinar síns og kvartaði svo undan því að jesúlíkneskið við leiðið væri alls ekkert líkt honum.

Bloom hugsar málin einsog honum er vant – hingað og þangað. Hugsar um auglýsinguna fyrir Keyes sem hann þarf að selja. Molly virðist hafa truflað hann þegar hann var að skrifa heimilisfangið á svarbréfið til Mörthu. Hvort það væri hægt að ná sér í „unga ekkju“ á þessum stað. „Ástir innanum legsteina“. „In the midst of death we are in life.“ Svo fer hann að íhuga hvort ekki væri hægt að spara pláss með því að grafa fólk upprétt. Og hvort líkin séu ekki góður áburður – grasagarður borgarinnar er rétt hjá. Einhver hefur sagt honum að valmúi vaxi vel í kínverskum grafreitum og sá valmúi verði besta ópíumið. En það sé auðvitað mikið af möðkum í jörðinni. Hugsar um grafarana í Hamlet (það ku vera stytta af frægum írskum leikara í garðinum, klæddum upp einsog Hamlet).

Og þá er komið að kallinum í Macintosh frakkanum. Regnfrakka hefur SAM það í fyrstu – sem það kannski er – en allavega hefur nafnið þýðingu. Bloom sér hann álengdar og veltir því fyrir sér hver þetta sé. Hann kemur svo aftur og aftur fyrir í bókinni án þess að því sé nokkurn tíma svarað hver hann sé eða neinn eigi (eftir því sem ég man best) nokkur samskipti við hann. Sumir segja að þetta eigi að vera vofan af föður Bloom – einsog vofa föður Hamlets ofsækir hann – aðrir að þetta sé Joyce sjálfur (hann var á kreiki í Dublin þennan dag, 16. júní, 1904, þetta er dagurinn sem hann fór á fyrsta stefnumótið með eiginkonu sinni Noru Barnacle). Því verður aldrei svarað en gátan er þarna. Og Bloom telur „bera hausana“ (karlana) og kemst að því að þeir eru tólf, þrettán með Macintosh-manninum: „Tala dauðans.“

Ofan í gripasporvagna fyrir naut til slátrunar og útfararsporvagna til að flytja líkin í kirkjugarðinn þar sem þau ætti helst að grafa upprétt veltir Bloom því nú fyrir sér hvort ekki sé hægt að straumlínulaga þetta ferli enn frekar:

Aumingja Dignam! Hinsta hvíla hans í jörðinni í þessum kassa. Þegar hugsað er til þeirra allra virðist það vera hreinasta sóun á tré. Allt sundurnagað. Það mætti finna upp fallegar líkbörur með rennibraut og fellihurð svo hægt væri að skurra þeim niður. Já, en þá kynnu menn að heimta hver sína eigin rennihurð. Þeir eru svo smámunasamir.

Í smástund hefur hann svo áhyggjur af því að verið sé að grafa Dignam lifandi. Og stingur upp á lausn á því líka:

Það ættu að vera lög um að hjartað sé gegnumstungið til öryggis eða höfð sé rafmagnsbjalla eða sími í kistunni og einhvers konar loftrenna úr segldúk.

Blaðamaðurinn Hynes kemur og man greinilega ekki hvað Bloom heitir – en spyr bara um fornafnið til að fá bæði. Bloom biður hann að skrifa líka niður nafn M’Coys, einsog hann var beðinn um í síðasta kafla. Hynes spyr hvort hann viti hver þetta sé þarna maðurinn í … „the Macintosh?“ spyr Bloom og Hynes, viðutan, svarar: „M’Intosh. Ég veit ekki hver hann er. Heitir hann það?“ Þegar Bloom svarar er Hynes horfinn á braut.

Það er mokað í gröfina. Syrgjendur halda sinn veg. Félagarnir rölta yfir að gröf „Leiðtogans“ – Charles Stewart Parnell. Sá kemur ítrekað fyrir í Ulysses og raunar hinum ´bókunum líka. Hann var eins konar frelsishetja sem miklar vonir voru bundnar við áður en hann lenti í slaufun fyrir að vera í tygjum við gifta konu (í strangkaþólsku landi). Hann missti æruna en gafst ekki alveg upp en lagði svo hart að sér í næstu kosningabaráttu að hann veiktist – stóð úti í rigningunni of lengi – fékk lungnabólgu og drapst. Hann er einhvern veginn í senn píslarvottur frelsisbyltingarinnar og allar hennar brostnu vonir.

Herra Power segir:

„Sumir segja að hann sé alls ekki í gröfinni. Að kistan hafi verið fyllt grjóti. Að hann birtist aftur einn góðan veðurdag.“

Hynes segir að svo verði ekki. „Friður sé með dufti hans.“

Bloom byrjar aftur að velta vöngum. Hugsar meðal annars um að það þyrfti að taka upp raddir hinna látnu svo maður gleymi þeim ekki.

Eftir mat á sunnudögum. Leggja veslings gamla langafa á fóninn. Kraahraark! Hallóhallóhall, enhvaðþaðergaman kraark virkilegaman hallóhalló égeróg kopþsj. Minnir mann á röddina einsog ljósmyndin minnir mann á andlitið.

Í lok kaflans snýr Bloom sér að Menton til þess að segja honum að hann sé með beyglu í hattinum. „John Henry Menton starði á hann stutta stund án þess að hræra legg eða lið.“ Það er ekki fyrren Martin Cunningham bendir honum á beygluna að hann réttir hana og þakkar (Martin) fyrir.

„Herra Bloom var daufur í dálkinn og dróst nokkur skref afturúr til að heyra ekki um hvað þeir voru að tala.“

Svo ganga þeir að hliðinu og yfirgefa Hades.

Af öllum köflum Ulysses er Hades sá sem á sér flestar beinar samsvaranir í kviðu Hómers. Og þetta er líka fyrsti kaflinn sem Joyce byrjaði að plotta – upprunalega átti þetta að vera smásaga um kokkálaðan gyðing sem fer í jarðarför og þaðan með vinum sínum á krá þar sem gert er lítið úr því að hann sé alvöru Íri (seinni hlutinn kemur síðar). Og hefði þá líklega endað í Dubliners.

Dignam er Elpinor, stríðsmaður Ódysseifs sem datt fullur í sjóinn og drukknaði (það er talað um að hjartað hafi drepið Dignam en af ítrekuðum vísbendingum í gegnum bókina má fullyrða að það sem hafi drepið hjartað hafi verið brennivínsdrykkja).

Cunningham er Sýsifos – sá sem veltir steininum ítrekað upp fjallið til þess að endurtaka leikinn síðar. Konan hans, fyllibyttan, er brekkan og húsgögnin eru steinninn.

Árnar eru fjórar, einsog áður segir.

Reuben, sem gaf bátsmanninum flórínu – bátsmaðurinn er Karon (sem þiggur mynt til að flytja menn yfir Styx – sú mynt er gjarnan lögð á augu hinna látnu).

Séra Coffey er hundurinn Cerberus – honum er lýst sem hundslegum. Og það er bara fyrir hans orð/blessun sem maður fær að fara yfir í ríki hinna dauðu.

John O’Connell – raunverulegur maður – er umsjónarmaður kirkjugarðsins og sjálfur Hades, undirheimakóngur. Hades er giftur frjósemisgyðju og kona O’Connells hefur borið honum átta börn.

Parnell er Agamemnon – hjúskaparbrot kostuðu hann lífið (Agamemnon er reyndar myrtur af eiginkonu sinni og elskhuga hennar).

Menton er Ajax sem neitaði að tala við Ódysseif út af einhverjum gömlum smámunum.

Og svo framvegis.

Við færumst sífellt nær Bloom, sem er einhvern veginn alltaf í senn þjakaður en samt að axla byrðina. Hann er ægilega breyskur og mannlegur og það er alveg lífsins ómögulegt annað en að finna til með honum. Honum finnst að hann hafi stuðlað að dauða sonar síns. Konan hans er að fara að halda framhjá honum. Dóttir hans, sem hann er náinn, er að fjarlægjast og fullorðnast. Vinir hans eru lélegir vinir. Hann er gyðingur og Írar hafa upp til hópa fordóma gagnvart gyðingum. Og hann er gyðingur en samt kristinn og á ekkert samneyti við aðra gyðinga (í sláturhúsinu um morguninn ætlar hann eitthvað að fara að tala við slátrarann, sem er gyðingur, en lætur það svo vera á síðustu stundu). Og finnst trúarbrögð öll hálfgert húmbúkk – en samt stundum vinalegt húmbúkk. Borgin í kringum hann er þjökuð af áfengissýki og fátækt en hann hefur ekki einu sinni vit á að drekka það frá sér. Og einsog honum finnst þetta allt erfitt sligar það hann ekki – það sigrar hann ekki – það er einsog hann andvarpi svolítið, sjái ljósu hliðarnar, dökku hliðarnar, skrítnu hliðarnar, og taki svo annað skref, haldi áfram. Honum þykir augljóslega vænna um fólkið í kringum hann en fólkinu þykir um hann og kannski líður honum betur þess vegna – það fyllir hann a.m.k. ekki beiskju. Hann nýtur kærleikans og sennilega er það kærleikinn sem bjargar honum.

Bloom fær hins vegar engar vísbendingar um það í heimi hinna dauðu um það hvernig hann eigi að komast heim, né heldur fær hann neinar upplýsingar um það hvers vegna allt gangi á afturfótunum hjá honum. Það er ekkert samsæri, enginn Póseidon sem hefur lagt á hann bölvun. Ég held ég taki samt undir með bloggaranum „Kelly“ á Blooms&Barnacles sem skilur kaflann svona:

The rituals on offer to soothe the grief of losing a friend are of no use to Bloom because he doesn’t believe in their power – they’re simply a bunch of nominedomines. He doesn’t have intimate connections with his fellow mourners to lean on for support. Even poor Paddy seems like an acquaintance at best. Odysseus traveled to the underworld to learn his fate from the seer Tiresias, but Bloom leaves Glasnevin with no such illumination. He re-emerges, instead, with the knowledge of pain of the living world and his place within it. He is not engulfed in supernatural horror or a fear of hell. He does the most life-affirming thing that he can: he goes on living.

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar. 

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

* * *

Yfirferðin 2025:

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).

Ulysses: Kalypsó

Lótusæturnar

Eldri bloggfærslur um Ulysses:

Gerty MacDowell, Silvía Nótt og list paródíunnar

Hið samhengislega líf

Torlestur

Völundarhús Rorschachs

Að feðra föður sinn

Svartsýni og blinda

Lótusæturnar

Púslið. Þarna hægra megin má sjá Stephen horfa út á hafið á Sandymount Strand og fyrir ofan hann er Bloom að horfa upp pilsið hennar Gerty McDowell, þar fyrir ofan er flugeldasýningin og svo þessir elskendur undir vitanum sem ég er ekki alveg viss hvað sé – Blazes Boylan er reyndar með svona hatt – en mér finnst ég eigi að vita þetta og það rifjast ábyggilega upp.

Þótt kaflarnir í Ulysses eigi sér samsvaranir í köflum Ódysseifskviðu þá birtast þeir ekki í sömu röð. Hins vegar byrja sögurnar og enda á svipuðum stað. Segja má að atburðarásin sé í réttri (eða réttari) röð hjá Joyce af því stór hluti Ódysseifskviðu er Ódysseifur að rekja raunir sínar fyrir Alkinóa í endurliti. Því má svo halda til haga að Joyce skrifaði ekki nein kaflaheiti inn í bókina, þeir eru bara kallaðir þetta (Próteus, Kalypsó, Lótusæturnar o.s.frv.), út frá skema sem Joyce sannarlega gerði – og þetta eru lausar vísanir en ekki harðar, Ulysses er ekkert paint-by-numbers og það er ekki víst að allir lyklar í Hómer opni neitt hjá Joyce.

Hvað sem því líður er fimmti þáttur Ulysses Lótusæturnar.

Í kviðu sinni segir H´ómer frá því er Ódysseifur kom að eyju „Lótófaga“. Þar tók hann land og sendi menn sína að athuga með heimamenn, sem reyndust meinlausir en gáfu mönnunum lótus að éta. Lótusinn gerði þá svo værukæra að þá langaði ekki lengur að sigla heim. Ódysseifur dró þá aftur út í skip („svo nauðugt, að þeir grétu“) með hörðu og hreinlega batt þá við árarnar.

Joyce notar þessa sögu sem stökkpall að því að skrifa um vímu og það sem kalla mætti sjálflækningar – ópíum fólksins í víðustu skilgreiningu: lótusinn sem slævandi meðal við óförum hins mennska ævintýris. Og sendir sinn Ódysseif – Leopold Bloom – edrú af stað:

By lorries along sir John Rogerson’s quay Mr Bloom walked soberly, past Windmill lane, Leask’s the linseed crusher, the postal telegraph office.

Þýðing SAM – sem er að mestu leyti frábær, fyrir utan að vera þrekvirki – hefur þetta „rölti ráðsettur“ sem mér finnst alls ekki nógu gott. Það er kannski ekki auðvelt að þýða „soberly“ en það þyrfti samt að hafa vísun í að vera allsgáður – og rölti er allavega of kæruleysislegt. En þetta er auðvitað hálfóþýðanleg bók og þótt ég hnýti hér af og til í lausnir SAM þá er það úr óþægilega þægilegri stöðu manns sem þurfti ekki að gera þetta sjálfur, hefði aldrei getað það og aldrei einu sinni þorað.

Það fyrsta sem Bloom sér er reykjandi smástrákur með fötu af görnum (það er óljóst hvort hann er kyrr, t.d. að hreinsa garnirnar, eða hvort hann er að flytja þær eða hvað – en margir lesa í þetta eitthvað, af einhverjum orsökum, og fullyrða í allar áttir hvað hann hafi verið að gera). Bloom íhugar að segja honum að ef hann hætti ekki að reykja hætti hann að vaxa en ákveður að láta það vera – l´ífið sé víst nógu erfitt án þess að fullorðnir karlar séu nöldrandi yfir smámunum (les: leyf fólkinu að njóta sinna lótusblóma). Svo gengur hann áfram og fer framhjá The Belfast and Oriental Tea Company – sem hefur augljósar tengingar við lótusinn. Þá dagdreymir hann um te og ilmolíur og um ljúfa lífið í austrinu þar sem allt sé betra en heima í eymdinni.

Í kaflanum á undan fengum við að vita að Bloom væri með eitthvað í hattinum. Nú kemur hann á pósthús, tekur fram hlutinn – nafnspjald – réttir afgreiðslumanninum. Nafnið á nafnspjaldinu reynist vera dulnefni Blooms – Henry Flower. Henry fær greinilega ekki sín bréf heim einsog Leopold heldur á pósthúsið. Áður en Bloom er afhent bréfið óttast hann að hann hafi kannski gengið of langt í síðasta bréfi og það verði ekkert svar. En það reynast sem sagt óþarfa áhyggjur.

Hann stingur bréfinu á sig og áður en hann fer skoðar hann auglýsingaskilti frá hernum á veggnum. Bloom, sem selur auglýsingar, er alltaf að skoða auglýsingar og lesa texta (þetta er eitt af því sem ég tengi mest við – ég er meira að segja gjarn á að lesa upphátt á skilti þegar ég er á gangi, samferðamönnum mínum til undantekningalausrar ánægju og upplýsingar). Þar lýsir hann hermönnunum meðal annars svona: „Half-baked they look: hypnotised-like.“ Altso, þeir hafa greinilega komist í lótusinn.

Næst rekst Bloom á kunningja sinn, M’Coy að nafni. Sá kom meðal annars fyrir í smásögunni Grace í Dubliners þar sem hann fékk það hlutverk að reyna að fá Tom Kernan nokkurn til að hætta að drekka. Bloom virðist ekki mikið um hann gefið og það er sterklega gefið í skyn að hann sé þjófóttur (og steli skjalatöskum, hvað sem það á að þýða). M’Coy segist hafa rekist á tvo aðra menn sem við þekkjum líka úr Dubliners – Bob Doran, sem þar sængaði hjá konu og lét svo móður hennar neyða sig til að giftast henni og hefur síðan hrunið mjög hressilega í það einu sinni á ári og drekkt þannig sorgum sínum; og Bantam Lyons, sem birtist þar mest í framhjáhlaupi. Þetta er í sögunni The Boarding House. M’Coy færir Bloom þær fréttir að Bob Doran sé á rassgatinu. Hann blaðrar og blaðrar og á meðan er Bloom að reyna að girnast með glyrnunum óþekkta konu handan götunnar.

High brown boots with laces dangling. Well turned foot. […] He moved a little to the side of M’Coy’s talking head. Getting up in a minute.

„Getting up in a minute“ á auðvitað líka við Bloom og hans … ástríður, skulum við segja … en það á aðallega við að konan er að stíga upp í hestvagn (og þá missir hann sjónar á henni).

Svo spyr M’Coy hvað sé að frétta af Molly og þá fer Bloom (enn eina ferðina) að hugsa um auglýsingu – í þetta sinn slagorð:

What is home without
Plumtree’s Potted Meat?
Incomplete.
With it an abode of bliss.

Það þarf vonandi ekki mikið ímyndunarafl til þess að skilja hvað þetta dósakjöt á að fyrirstilla. Og einsog við vitum verður Molly innan skamms alsæl. Alsæluð. Og við vitum að það er ekki Bloom sem alsælar hana og er sennilega ekki einu sinni fær um það.

SAM þýðir slagorðið þannig að það sé „dugleg húsfreyja“ sem sé „stygg og stúrin“ án dósakjötsins – og sú þýðingaskekkja verður kannski til þess að vekja athygli mína á því sem þarna stendur aðeins nákvæmlegar: Það er ekki bara húsfreyjan heldur heimilið sem er ekki fullkomnað án „dósakjötsins“. Og á þessu heimili á Leopold líka heima og raunar Milly einnig – það er heimilisfriðurinn sem er í húfi, ekki bara nautn húsfreyjunnar. Og sennilega er það þess vegna sem Bloom gerir ekkert í því þótt hann viti að Molly eigi von á Blazes Boylan.

Bloom svarar M’Coy og segir að hún sé að fara í söngferðalag og M’Coy – sem greinilega veit allt, Dublin Joyce er slúðurtunna – spyr: „Who’s getting it up?“ Aftur er hér standpínulíking – og þetta „up“ er gegnumgangandi í bókinni uppfrá þessu, shorthand fyrir standpínu, a.m.k. í minni sóðalegu túlkun (Joyce er oft með góðar fjarvistarsannanir fyrir sínum dónaskap, þótt það sé alls ekki alltaf þannig) – en í bókstaflegri merkingu er M’Coy auðvitað bara að spyrja um skipuleggjandann. Sem vill til að er sami maður og væntanlegi elskhuginn, flagarabeinið hann Blazes Boylan.

M’Coy nefnir að konan hans sé líka söngkona og það er augljóst á hugsunum Blooms (eftir að M’Coy er farinn) að honum þykir sá samanburður ekki alveg eðlilegur – enda séu þær fullkomlega ósambærilegar konur og enn ósambærilegri söngkonur (Bloom-hjónunum í hag – Leopold metur sína konu mjög hátt og elskar hana heitt).

Loks ræða þeir jarðarför Dignams og M’Coy biður Bloom að láta skrá sig „á samúðarlistann“ („put down my name at the funeral“ er það í orginalnum – blaðamaðurinn Hynes tekur niður nöfn fyrir grein í blaðinu, þar sem þuldir eru upp viðstaddir). M’Coy segist ætla að reyna að koma en það er greinilegt að hann ætlar alls ekki að reyna.

Bloom gengur áfram. Sér auglýsingu (!) fyrir leikhús. Frú Bandman Palmer leikur Leu í kvöld en lék Hamlet í gærkvöldi.

Male impersonator? Perhaps he was a woman. Why Ophelia committed suicide?

Það er dálítið um kynskipti síðar í bókinni – en þetta er áhugaverðast fyrir þær sakir að seinna mun Stephen líka eiga í löngum samræðum um eðli Hamlets (sú kenning var að vísu viðruð stuttlega minnir mig í upphafsköflunum í Martello-turni). Sú kenning snýst eiginlega um að Hamlet sé afi sinn – og á meta-levelinu um það hver sé staðgengill Joyce í Ulysses. Og ef Hamlet getur verið kona þá geta aðrir í feðgatvennum Joyce líka verið það – Dedalus/Íkarus, Bloom/Rudy, Bloom/Stephen, Hamlet/kóngurinn, Ódysseifur/Telemakkos, Stephen/Simon og svo framvegis.

Upp úr þessu verður Bloom hugsað til pabba síns og það er ljóst að pabbi hans er dáinn og það hefur bæði verið voðalegt og „kannski var það honum fyrir bestu“.

Tvisvar á göngutúrnum fer Bloom að raula lögin sem hann veit að Molly er að fara að syngja – flagarasönginn úr Don Giovanni og Love’s Old Sweet Song. Þannig – og á fleiri vegu – sjáum við að ástarfundur hennar með Blazes Boylan er honum alltaf ofarlega í huga án þess að hann hafi beint orð á honum.

Bloom stoppar afsíðis við lestarstöðina og dregur upp bréfið til Henry Flower. Það reynist frá konu sem kallast Martha Gifford (sem er kannski ekki áreiðanlegra nafn en Henry Flower – hún svaraði víst upprunalega kalli eftir ritara í smáauglýsingu). Martha segist mjög reið og sér þyki leitt að honum hafi ekki líkað síðasta bréf frá henni. Svo talar hún um að refsa honum, kallar hann „naughty boy“, spyr hvenær þau geti hist, biður um lengra bréf (og endurtekur að hún muni refsa honum ef hann hlýði ekki). Í ps.inu biður hún hann að segja sér hvers konar ilmvatn konan hans noti.

Sennilega er þetta eini staðurinn í kaflanum þar sem segja má að Bloom ölvist. Martha er hans lótus – eða kannski perversjónin sem slík, að gera það sem er bannað. Við sjáum það auðvitað ekki utanfrá, af því við erum í hausnum á Bloom, en það má gera sér það í hugarlund útfrá textanum (það var blóm fast við bréfið, hann heitir Bloom, kallar sig Flower, svo er l´ótusinn auðvitað blóm):

Angry tulips with you darling manflower punish your cactus if you don’t please poor forgetmenow how I long violets to dear roses when we soon anemone meet all naughty nightstalk wife Martha’s perfume.

Hins vegar íhugar hann hvort hann eigi að hitta hana og ákveður að gera það ekki. „Thank you: not having any.“ Heilindi Blooms eru lykilatriði í persónuleika hans – hann vill gjarnan stíga á ´línuna en aldrei yfir hana.

Í kjölfarið rifjar hann upp dónavísu um tvær drósir sem týndu títuprjóni úr nærbuxunum sínum og gátu ekki haldið þeim uppi („keep it up“). Aftur, þetta up, en nú líka tengt vergirni kvenna.

Næst hugsar hann aðeins um kapítalismann og ekki síst gróðann af ölgerð. Þá sér hann auglýsta messu hjá séra John Conmee og ráfar þar inn. Séra Conmee var raunverulegur maður og birtist undir sínu eigin nafni bæði hér og í A Portrait of the Artist as a Young Man – Stephen leitar til hans eftir að séra Dolan hýðir hann (og fer frá honum sáttur við að séra Dolan verði áminntur). Nema hvað. Bloom hlýðir á messuna, veltir fyrir sér guðdómnum – sem reynist vera enn einn lótusinn (nema hvað). Ekki bara messuvínið (sem hann segir „aristókratískara“ en hefðbundnari drykkir, svo sem Guinnes) heldur líka skriftirnar og allt hitt:

Confession. Everyone wants to. Then I will tell you all. Penance. Punish me, please. Great weapon in their hand.

Eftir messuna þarf hann að drífa sig. Hann hefur lofað að láta útbúa smyrsli fyrir Molly og fer í apótek – þar er allt fullt af lótus, auðvitað, lyfjum og jurtum og allra handa smyrslum. Bloom reynist ekki muna uppskriftina að smyrslinu en reynir að rifja hana upp og kemur einhverju upp úr sér. Hann er ekki með flösku undir smyrslið en ætlar að koma aftur síðar – hann gleymir því þegar þar að kemur – tekur með sér sápu líka og lyfsalinn segir best að hann borgi bara bæði þegar hann komi til að sækja smyrslið. Lótusinn veldur vel að merkja gleymsku hjá Hómer – smyrslið (sem tengist kannski ilmvatninu sem Martha spurði út í – er allavega vellyktandi) hverfur ofan í óminnishegrann.

Fyrir utan rekst hann á Bantam Lyons. Sá fær lánað dagblað sem Bloom er búinn að vera með í höndunum frá því hann fór að heiman. Bantam vill skoða veðhlaupasíðuna og athuga með eitthvað franskt hross. Bloom svarar að hann hafi ætlað að henda blaðinu – „throw it away“ – Bantam hváir hressilega – og Bloom endurtekur að hann hafi ætlað að henda því. „Ég tek áhættuna“ segir Bantam og rýkur í burtu. (Síðar kemur í ljós að það er hross sem heitir Throwaway í keppninni – og Bantam heldur að Bloom hafi verið að gefa honum heitt tipp um hver vinni veðhlaupin – sem eru enn annar lótusinn – og koma ítrekað upp í bókinni).

Bloom dregur engan með sér aftur út á sjó, bindur engan við árarnar og enginn fer að gráta. Allir halda bara áfram að taka sinn lótus og slævast. Hann ákveður hins vegar að fara í tyrkneska baðhúsið og þrífa sig fyrir jarðarförina og kaflinn endar á þessum sjálfsástarorðum, þar sem hann sér sjálfan sig fyrir sér í baðinu (sem er kannski einhvers konar brottsiglingarlíking):

He saw his trunk and limbs riprippled over and sustained, buoyed lightly upward, lemon-yellow: his navel, bud of flesh: and saw the dark tangled curls of his bush floating, floating hair of the stream around the limp father of thousands, a languid floating flower.

* * *

Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.

Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.

Ulysses: Kalypsó

Ramminn á Ulysses-púslinu samansettur.

Ég hef nefnt að Kalypsó væri eftirlætiskaflinn minn í Ulysses. Frásagnaraðferðin er passlega brjáluð og talsverður léttir eftir erfiðan Proteus, þar sem intellekt hins unga Stephens fær að skríða í yfirgír. Og það sem meira er, í Kalypsó kynnumst við líka fyrst aðalsöguhetju bókarinnar, auglýsingasölumanninum Leopold Bloom, sem og eiginkonu hans, söngkonunni Molly – sem er einhvers konar nöf í bókinni, eða hjarta hreinlega, viðfang lengst af en fær svo að vera innilegasta og kannski byltingarkenndasta persónan fyrir rest. En það er þessi rólegi, hlýi, snjalli og passlega pervertíski hugur hans Leopold Blooms sem birtist hér – og það er af honum sem ég hrífst. Frásagnaraðferð Joyce – að skjóta inn hugsunum hér og þar, oft án þess að útskýra við hvað þær eigi, og taka þær svo aftur upp aftur af og til í skeytastíl – gerir tvennt. Annars vegar birtist heildarmyndin af sögunni hægt sem veldur því líka að þegar hún er kominn á skrið er skriðþunginn mikill. Hins vegar þá performerar hún miklu eðlilegri upplifun af heiminum en gerist í hefðbundnum skáldsögum og því fylgir alveg furðulega mikil nánd – þegar maður er kominn inn. Manni finnst ekki bara að maður þekki Leopold Bloom þegar maður er búinn með Ulysses, eða að maður hafi leikið hann – manni finnst pínulítið einsog maður hafi verið hann. Það eru töfrar.

Leopold og Molly búa á Eccles stræti nr. 7. Leopold er nývaknaður, stendur í eldhúsinu, hugsar til morgunverðar og sinnir kettinum – og fílósóferar um ketti einsog hann fílósóferar um allt, hversdagslega og mótsagnakennt og vinalega en án þess að ritskoða sig. Fyrst segir hann ótrúlegt að fólk telji ketti vitlausa, hún sem skynjar allt, hugsar hann, en í næstu setningu segir hann köttinn alveg hræðilega vitlausan. Og sér enga ástæðu til þess að hafa orð um mótsagnakenndar hugsanir sínar.

Molly liggur í rúminu – og sést raunar lítið annars staðar alla bókina. Leopold spyr hvort hún vilji eitthvað í morgunmat og hún svarar með einhverju muldri „mn“ og raunar má halda því til haga að kötturinn svarar honum með álíka mjálmi svo enginn talar við Leopold með orðum fyrstu síðurnar, þótt hann tali og aðrir svari með sínum hætti. Og þótt Molly og kötturinn muldri bara og mjálmi þá skilur Leopold alltaf hvað þau eru að reyna að segja. Hans helsta karaktereinkenni – ofan í lágværa skömm og greddu – er samlíðan, þolinmæði og skilningur gagnvart verum heimsins og þeirra mjálmi.

Muldur Mollyar þýðir nei, hún vill ekkert (mjálm kattarins var já, ég er svangur). En Leopold, sem hefur kaflann á að lýsa dálæti sínu á innyflamat, ákveður að fara til slátrarans til að kaupa sér svínsnýra sem hann hyggst steikja með smjöri og pipar. Slátrarinn er, vel að merkja sennilega gyðingur – og selur samt svínsnýru – og Leopold er sjálfur af gyðingaættum í föðurætt og á það eftir að skipta máli í sögunni.

Hjá slátraranum kynnumst við fyrst holdlegum fýsnum Leopolds sem horfir á konuna fyrir framan sig í röðinni með sinni sérstöku tegund af greddu, sem er einhvern veginn alltaf í senn kurteisleg og ruddaleg (Woods er nafnið á vinnuveitanda stúlkunnar, sem hann virðist kannast við – en það er líka standpína, hér og síðar).

His eyes rested on her vigorous hips. Woods his name is.
Wonder what he does. Wife is oldfish. New blood. No followers allowed.
Strong pair of arms. Whacking a carpet on the clothesline. She does whack it, by George. The way her crooked skirt swings at each whack.

The ferreteyed porkbutcher folded the sausages he had snipped off with
blotchy fingers, sausagepink. Sound meat there like a stallfed heifer.

Þetta er mjög holdlegt allt án þess að Leopold sé mikið að tala um hana beint. Viðurinn. Nýtt blóð. Flengingarnar. Pylsur og pylsulitir fingur. „Beinlaust hold þarna, einsog á stríðaldri kvígu“ (einsog það er´ í þýðingu SAM). Örlitlu síðar beinir hann orðum sínum beint að henni – þegar hann langar að drífa sig og elta hana út til að geta horft á eftir henni – „behind her moving hams. Pleasant thing to see first thing in the morning.“

Leopold er dálítið með kynlíf á heilanum. Það skýrist að hluta af því að þau Molly hafa ekki átt holdlegt samneyti frá því þau misstu nýfæddan son sinn, Rudy, ellefu árum fyrr, og sorgin sem því fylgir veldur því að Leopold óttast að eignast annað barn. Það er gefið í skyn að hið sama gildi um Molly en hún virðist ekki láta óttann stoppa sig (og raunar er ekki ólíklegt að Leopold finni ekki til sama ótta gagnvart öðrum konum – en hann er engu að síður uppteknari af að horfa og að eiga í fjarsamböndum).

Það er einhvers konar masókisti líka í Leopold – ekki bara í mottuflengingarfantasíunum. Þegar stúlkan hjá slátraranum er horfin án þess að gefa honum auga til baka hugsar hann: „The sting of disregard glowed to weak pleasure within his breast.“ Og í upphafi kaflans þegar hann er að tala um hvað hann elski innyflamat endar hann málsgreinina á orðunum: „Most of all he liked mutton kidneys which gave to his palate a fine tang of faintly scented urine.“ Þráin og nautnin í Leopold eru alltaf blönduð einhverju létt pervertísku – einhverju blæti – og það er alltaf dálítil bæling með líka. Á leiðinni heim þráir hann líka að komast aftur í návígi við hold Mollyar – sem hann mun samt ekki snerta. Hann langar að langa og langar að neita sér um úrlausn sinna fýsna.

Þegar Leopold kemur aftur heim bíða tvö bréf og eitt póstkort í anddyrinu. Annað bréfið og póstkortið eru frá Milly, dóttur Leopolds og Molly – bréfið til pabba en póstkortið til mömmu. Hitt bréfið er frá Blazes Boylan sem er kaupsýslumaður og umboðsmaður og verðandi elskhugi Mollyar. Það er margoft gefið í skyn að Leopold geri sér grein fyrir að þau séu að draga sig saman og hann er af einhverjum orsökum ekki beinlínis mótfallinn því, þótt hann sé kannski ekki heldur hrifinn af því. Hugsanlega er það vegna væntumþykju fyrir Molly, hugsanlega vegna þess að hann hafi haldið framhjá sjálfur og sé með samviskubit, hugsanlega vegna þess að þetta framhjáhald sé bara allt orðið normalíserað, hugsanlega bara af því hann er masókisti. Í bréfinu kemur fram að Blazes sé væntanlegur klukkan 16 (þessi kafli gerist sirka milli 8 og 9 að morgni).

Molly er vel að merkja minniháttar stjarna. Hún er söngkona á leiðinni á túr með Blazes. Það virðast allir í bókinni þekkja til hennar og margir dást að henni og hugsanlega þrá hana og einhverjir telja sig kannski vita að Leopold sé kokkáll – það er reglulega gefið í skyn. Hún þykir enn afar fögur – hún er 33 ára (en Leopold 38).

Leopold spyr hvað hún eigi að syngja og hún nefnir La Ci Darem – sem er tælingarsöngur úr Don Giovanni – og Love’s Old Sweet Song sem er lag um að jafnvel hin þreyttu og öldnu þurfi að elska.

Molly er búin að lesa bók sem heitir Ruby, Pride of the Ring – sem er ekki raunveruleg en mun eiga sér fyrirmynd í sögu um stúlku sem er misnotuð í sirkus – og biður Leopold að útskýra fyrir sér orð sem hún rakst á í bókinni – metempsychosis –  sálflutning þann sem á sér stað við endurholdgun. Leopold útskýrir það en man ekki orðið „reincarnation“ fyrren seinna. Svo biður hún hann að útvega sér nýja bók eftir sama höfund.

Molly biður svo Leopold að útvega sér „aðra bók“ eftir mann sem heitir Paul de Kock („nice name“ segir hún, sem er talsvert óbældari en maður hennar). Sá var franskur metsöluhöfundur sem skrifaði bókmenntir sem þóttu heldur ómerkilegar – þunnildisleg afþreying – en vakti sennilega öfund meðal kollega sinna því bæði Dostójevskí og Thackeray sáu sér ástæðu til þess að hreyta í hann ónotum (ein af söguhetjum Dostó í Fátæku fólki segir meira að segja að bækur Paul de Kocks séu ekki „við hæfi kvenna“ – sem gerir hann auðvitað að viðeigandi höfundi fyrir Molly).

Bæði Ruby og de Kock eiga eftir að skjóta upp kollinum í hugsunum Leopolds yfir daginn.

Nýrað er farið að brenna á pönnunni þegar Leopold stekkur aftur niður í eldhús. Þar tekur hann til morgunverðinn og les bréfið frá dóttur sinni. Milly, 15 ára, er í Mulligar á ljósmyndanámskeiði. Hún hefur það gott á námskeiðinu, hefur kynnst dreng og Leopold veltir því fyrir sér hvort hún sé byrjuð að gera dodo með strákum.

Í lok kaflans tekur Leopold með sér tímarit á kamarinn. Þar kúkar hann „í hægðum sínum“, fremur grafískt, og les smásögu í blaðinu. Hann öfundar höfundinn af höfundalaununum og lætur sig dreyma um að skrifa sjálfur í blaðið – jafnvel með Molly. Þannig á hann, einsog Stephen, sína eigin skáldadrauma.

Quietly he read, restraining himself, the first column and, yielding but resisting, he began the second. Midway, his last resistance yielding, he allowed his bowels to ease themselves quietly as he read, reading still patiently that slight constipation of yesterday quote gone. Hope it’s not too big bring on piles again.

Þeir draumar botna þó í því að Leopold rífur söguna úr blaðinu og skeinir sér með henni. Ef það er ekki táknrænt fyrir eitthvað þá er ekkert táknrænt fyrir neitt.

Kaflinn endar á orðunum „Poor Dignam“ – sá hefur verið nefndur tvisvar á hlaupum – klukkan 11 ætlar Leopold að fara í jarðarför þessa kunningja síns. Af þeim sökum endar Leopold lyklalaus – lyklarnir eru í hversdagsbuxunum – einsog Stephen (sem lætur Buck Mulligan fá sinn lykil).

Í Kalypsó hluta Ódysseifskviðu lendir Ódysseifur – sem er að reyna að komast heim til Íþöku – hjá dísinni Kalypsó sem heldur honum föstum og býður honum eilíft líf í skiptum fyrir að vera hjá sér. Hún heldur honum föngnum í heil sjö ár og neyðir hann til að sofa hjá sér. Það er ýmislegt sem rímar í þessum frásögum þótt allt krefjist það dálítilla túlkunarfimleika. Maður upplifir Leopold ekki beinlínis fastan í hjónabandi sínu – nema að svo miklu leyti sem allir eru fastir í hjónabandi kaþólskunnar á þessum tíma – og ekki neyðir Molly hann til samræðis. Auk þess er Eccles stræti augljóslega ekki bara eyja Kalypsó heldur líka Íþaka – þangað stefnir hann aftur. Ódysseifur er að koma heim úr Trójustríðinu en Leopold hefur ferðalag sitt á sama stað og það endar. En kannski sér Joyce hjónabandið sem kalypsóskt ástand og Leopold sem mann sem er meðvirkur með örlögum sínum – ófær um að sjá kvöl sína öðruvísi en sem nautn. Í Ódysseifskviðu grípa guðirnir inn í og láta Kalypsó sleppa Ódysseifi en í Ulysses fer Leopold einfaldlega af stað til að sinna erindum dagsins – ekki síst þessari jarðarför hans Dignams. Kannski er það dauðinn að frelsa hann. Dauðinn sem vili guðanna.

Hvað sem því líður er hann lagður af stað.

Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti

Ég byrjaði aftur á Ulysses í vikunni. Í þriðja sinn. Og þriðju útgáfu. Fyrst – fyrir rúmu ári – las ég Cambridge Centenary útgáfuna með löngum ritgerðum um hvern kafla og alls konar glósum. Það er stærsta bók sem ég á. Hún er hálfgert húsgagn. Svo las ég þýðingu SAM – eða eiginlega samtímis, meðfram. Nú er ég að lesa Wordsworth Classics útgáfuna sem er ívið þægilegri ferðafélagi en Cambridge-mublan og sem ég keypti í svona setti – af því mig vantaði Finnegans Wake og Dubliners og það var ódýrara að kaupa settið með Ulysses og Portrait en þessar tvær stakar. Ég er búinn með formálann eftir Cedric Watts – sem var ágætis upprifjun en kannski engin uppljómun – og fyrstu þrjá þættina, Telemakkus, Nestor og Proteus. Sirka 50 síður – tveir fyrstu þættirnir eru til þess að gera venjulegur texti en sá þriðji er fyrsta vitundarflæði bókarinnar.

Hvað gerist í þessum þáttum? Eiginlega eru fræ að öllum helstu þemum og tæpt á því sem skiptir Stephen Dedalus mestu máli. Móðir hans er dáinn og það kemur fram að hann neitaði að biðja með henni á dánarbeðinu – af því hann hefur látið af trúnni. Þeir sambýlingarnir Buck Mulligan ræða þetta í Martello-turni og Buck álasar Stephen fyrir. Stephen virðist líka með samviskubit og í öllu falli neitar hann að klæðast öðru en svörtu – sem Buck finnst fyndið í ljósi hins.

Hjá Buck og Stephen gistir englendingurinn Haines. Sá er í Dyflinni til að nema gelísk mál og menningu og Buck og Stephen (eða kannski bara Buck?) siga honum á mjólkupóstinn, fullorðna konu, af því hún sé sérdeilis gott eintak af þvottekta Íra. Hún reynist auðvitað ekkert vita og ekki heldur kunna neina írsku. Í þessu kristallast eitthvað um samband hins imperíalíska við nýlenduna – heimsveldið hefur þurrkað út tungu heimamanna og svo snúið aftur til þess að hafa á henni lærðan áhuga, jafnvel ákveðið blæti, en þá er svo komið að heimamaðurinn er orðinn eitthvað annað, eitthvað sem vekur ekki sama áhuga lengur. Um þessa kúgun hefur Haines líka hin fleygu orð: „It seems history is to blame“ (sem ríma við orð Stephens síðar í kaflanum, þegar hann segir við hr. Deasy, yfirmann sinn í barnaskólanum: „History is a nightmare from which I’m trying to awake“). Skömmu áður hefur Stephen líka sagt við Buck að írsk list sé einsog brotinn spegill – „the cracked lookingglass of a servant“. Og það er í þann spegil kannski sem Haines horfir.

Annað við Haines er að hann þolir ekki gyðinga – þetta stef kemur aftur og aftur upp í bókinni. Allt versta fólkið í henni reynist vera gyðingahatarar. Og Leopold Bloom – sem er aðalhetjan í flestum köflunum – er auðvitað af gyðingaættum þótt hann praktíseri ekki.

Annar þátturinn gerist í skólanum þar sem Stephen kennir. Hann lætur skóladrengina fara með ljóð og leggur síðan fyrir þá gátu:

The cock crew
The sky was blue:
The bells in heaven
Were striking eleven.
Tis time for this poor soulto go to heaven.

Svarið, einsog þið hafið sjálfsagt getið ykkur til, er „the fox burying his grandmother under a holly bush“. Djók. Þetta er óleysanlegt rugl – og kannski fyrsta óleysanlega ruglið í bókinni (það verður nóg af því seinna). Fyrsta hreina ljóðræna upplausnin, skulum við segja, það er kurteislegra en „rugl“.

Svo fer hann að hitta skólastjórann til að fá laun og láta messa yfir sér um sparnað. Hr. Deasy er líka gyðingahatari sem endar sína innkomu í bókina á því að spyrja Stephen hvers vegna Írar hafi aldrei ofsótt gyðinga, og svarar gátunni sjálfur: Af því þeir hleyptu þeim aldrei inn til að byrja með. Í Ódysseifsskemanu er hr. Deasy Nestor – vitringurinn sem sonur Ódysseifs heimsækir og vonast til að geti sagt sér hvar faðir hans sé staddur. Hr. Deasy er skólastjóri í skólanum þar sem Stephen kennir og ætti að geta verið hinum unga Dedalusi einhvers konar mentor – en líkt og Nestor stendur hann á gati, veitir engin svör, bara meira tóm.

Þriðji þáttur fyrsta kafla segir frá gönguferð Stephens um Sandymount strand. Hér blandast saman það sem hann sér, það sem hann upplifir, það sem hann heyrir og svo framvegis. Hugsanir hans birtast manni einsog hugsanir gera – samhengislaust, vaða úr einu í annað, hugsa um fortíðina og skömmina og framtíðina og væntingarnar og allt sem fyrir augu ber jafn óðum og í einni bendu. Meðal annars hugsar Stephen um skáldsögur sem hann langar að skrifa og eiga allar að heita eftir bókstöfum – X og Q og svo framvegis – en Stephen er auðvitað staðgengill höfundar (og staðgengill Hamlets og Jesú Krists og fleiri). Hann sér dauðan hund, fólk sem er að tína skelfisk, konu sem hefur fest upp um sig pilsið og virðist vekja með honum einhverjar tilfinningar (þetta rímar við uppljómunina sem Stephen verður fyrir þegar hann sér konu við svipaðar aðstæður í lokin á A Portrait of the Artist as a Young Man og líka við glápið í Leopold Bloom síðar í Nausicaa kaflanum – og allt gerist á þessari sömu Sandymount Strand). Hann hugsar talsvert um drukknun og eðli drukknunar – hvað hún geri við líkama og sál – og að lokum borar hann í nefið og klínir horinu á stein. Og einhvern tíma um svipað leyti tekur hann ákvörðun um að snúa ekki aftur í Martello-turn um kvöldið – hann þolir hvorki Buck né Haines.

Mér finnst einsog þessi lestur hafi verið meiri glíma í fyrra. Mér var hins vegar talsverð nautn að stíga aftur inn í þennan heim og þetta rann allt mjög vel – meira að segja Proteus. Og ég hlakka mikið til að byrja á næsta kafla, Calypso, sem var minn eftirlætis í fyrra – sérstaklega upphafið. Þá birtist líka Leopold Bloom og með honum ný og æsileg þemu – skömm og hömluleysi. Bloom er heldur ekki jafn mikill intellektúal og hinn ungi Dedalus – hann er í sjálfu sér alveg jafn fastur í hausnum á sér, fastur í hugsunum sínum, en hann er ekki stanslaust að reyna að skilja þær eða setja þær í samhengi við heimsbókmenntirnar. Ætli maður að skilja innri mónólóg Dedalusar að einhverju marki þarf maður helst að vera með fimm doktorspróf í klassískum bókmenntum og tungumálum. Ekki þar fyrir að það er ýmislegt óskiljanlegt sem gerist í kollinum á Bloom líka – það er bara annars eðlis.

Að feðra föður sinn

Það eru tvenns konar rithöfundar í heiminum. Þeir sem þykjast vera skrítnari en þeir eru og þeir sem þykjast vera venjulegri en þeir eru.

***

Ulysses myndin frá 1967 með Milo O’Shea, Maurice Roëves og Barböru Jefford er mikið fyrirtak – eiginlega alveg dásamleg. Það er reyndar vel hugsanlegt að maður þurfi að hafa lesið bókina til þess að njóta hennar – og klámið er allt skorið út eða straumlínulagað, einsog við er að búast, en það hefði verið í anda bókarinnar að halda því, leyfa Bloom bara að rúnka sér í fullri reisn og Nighttown fantasíunum að spora út í argasta klám. En hafa allt hitt samt eins. En það hefði líka verið meiri áskorun.

Ég horfði líka á Heddu Gabler eftir Ibsen – uppfærslu aðlagaða fyrir sjónvarp með Ingrid Bergman í aðalhlutverki. Ég hef aldrei kynnt mér Ibsen neitt og geri það bara af því Joyce (sem ég er með á heilanum þessa dagana, einsog einhver kann að hafa tekið eftir) dýrkaði hann – lærði meira að segja norsku til þess að geta skrifað honum bréf á sínu eigin máli – til þess að tilkynna honum að hann gæti óhræddur farið að deyja, það væri kominn arftaki, hann myndi sjá um bókmenntirnar héðan í frá. Joyce var þá 19 ára og hafði nýverið skrifað afar lofsamlegan leikdóm um eitt af verkum Ibsens og Ibsen hafði litist svo á textann að hann skrifaði ritstjóranum og lofaði leikdómarann.

En sem sagt. Hedda Gabler? Mér fannst þetta nú heldur þunnt. Í sjálfu sér var uppsetningin ekki góð en þetta plott er líka alveg fáránlega dramatískt – ógurlegar póseringar yfir gáfum gáfumenna og viðkvæmum tilfinningum borgarastéttarinnar. Mér fannst verst hvað það voru fáir sem enduðu á því að fremja sjálfsmorð og voru það engu að síður þónokkrir. Óþolandi fólk. Og lélegur texti. Eftir að hafa horft á alla Hamlettanna um daginn með leikurum á öllum aldri – og eftir umræðu sem ég hef rekið mig á um aldur aðalleikarans í „netflix-seríu augnabliksins“, Ripley – þá fannst mér líka áhugavert að sjá Ingrid Bergman leika konu sem átti svo augljóslega að vera miklu yngri. Ég sló því upp áðan og Hedda var skrifuð 29 ára en Ingrid lék hana 48 ára. Það var reyndar ekki jafn truflandi og að sjá 41 árs Laurence Olivier leika þrítugan Hamlet – sennilega af því leikkonan sem lék mömmu hans var sjálf ekki nema þrítug. Tom Ripley á vel að merkja að vera 25 ára en er leikinn af 47 ára manni. Mér finnst reyndar vandræðalaust að aldra þann karakter. Annað en með Heddu og Hamlet þá er ekki þessi unglingslegi vanþroski lykilþáttur í persónuleika hans – þeirri tegund vanþroska fylgir mikill kraftur og sjarmi í ungu fallegu fólki, og hann getur gert að verkum að það kemst upp með ýmislegt sem það kæmist ekki upp með síðar (eftir einhvern tiltekinn aldur hættir fólk að komast upp með að „lofa góðu“ og samfélagið hættir að gúddera hortugheitin í þeim sem sæt).

***

Svar: Það þarf skáld til að skipta um // ljósar perur.

***

Ég dragnast í gegnum múrsteininn hans Richards Ellmans um Joyce. Þetta er feikna áhugavert og brjálæðislega vel gert – en líka rosalega ítarlegt og stundum ber túlkunargleðin sérfræðinginn ofurliði. Ég er að fara til Napóli eftir tvær vikur og ætlaði að endurlesa The Skin eftir Curzio Malaparte fyrir ferðina og jafnvel frumlesa líka Gomorrah eftir Roberto Saviano en það er spurning hvort það verður nokkuð af því. Ég er líka að fara til Grikklands eftir viku og læt duga að vera nýbúinn að lesa Odysseif!

Annars fór ég í bókabúð í Aþenu í fyrra og lét mæla með fyrir mig The Flaw eftir Antonis Samarakis – sem er einsog Kafka hittir Chandler hittir …. segjum bara Schnitzler. Kannski fer ég í einhverja álíka meðmælaferð í Skopelos.

Ellmann er augljóslega – einsog ævisagnahöfundar þurfa áreiðanlega oftast að vera – frekar mikið í „ævisögulegu aðferðinni“. Hann leitar fyrirmynda í lífi Joyce að öllu sem hann hefur skrifað og rekur hvernig ólíkar persónur séu samansettar úr t.d. pabba hans, honum sjálfum, einhverjum vini o.s.frv.

Joyce skrifaði auðvitað talsvert um „sjálfan sig“ – sérstaklega undir heitinu Stephen Dedalus – og svo er frægustu bókmenntafræðiskrif hans sjálfs ræða Dedalusar um hver sé fyrirmynd Hamlets, þar sem fram kom að Shakespeare væri draugurinn, faðir Hamlets, og raunar sem skapari/faðir draugsins líka afi Hamlets. En þá ber auðvitað að hafa í huga að þá ræðu flutti ekki Joyce (þótt hann hafi sagt eitthvað líkt sjálfur) heldur staðgengill hans Dedalus. Og vegna þess að Joyce skrifaði þetta er líka freistandi að skoða „föðurinn“ í Ulysses, Leopold Bloom, sem hinn eiginlega Joyce-staðgengil bókarinnar – og það má sannarlega finna hellings mikið af sjálfsævisögulegum smáatriðum til þess að ýta undir þá kenningu (Joyce og Nora sváfu til dæmis andfætis einsog Leopold og Molly).

Ef Joyce er þá Bloom er hann líka skapari/faðir Blooms og þar með afi Dedalusar! Sem er hann sjálfur! Og svo er auðvitað forvitnilegt að Leopold skuli ekki heita Ulysses – Stephen, sem smíðar sér vængi og flýgur burt frá Dublin, fær að heita Dedalus. Hver er þá Ulysses?

Og auðvitað er þetta meðal þess sem Joyce dregur fram í lesendum sínum – löngun til þess að uppgötva einhverjar tengingar (sennilega er engin kenning um Joyce lengur ný, en það er gaman að hugsa sig fram til einhvers sem maður vissi ekki sjálfur um áður). Ellmann er sem sagt vorkunn.

***

Ljóðskáld, ljóðmælandi og plús-x komu inn á bar.

***

Menningarstríðin halda áfram. Einu sinni var Eurovision ein til tvær kvöldstundir yfir sjónvarpinu. Nú eru ótal undankeppnir, símakosningar og símakosningasvindl, blogg og youtuberásir, sérstakir sjónvarpsþættir um undankeppnirnar í öllum hinum löndunum og nú síðast siðferðislegt sprengjusvæði. Fokkins Eurovision. Það er líka allt á hvolfi í Svíþjóð út af nýjum lögum um kynskráningu. Lágmarksaldur til þess að sækja um breytingu á kynskráningu var í dag færður niður í 16 ár – en foreldrar þurfa samt að sækja um. Hitt skiptir sennilega meiru að fólk þarf ekki lengur að vera með greindan kynama til þess að fá að breyta kynskráningu heldur á nú að duga stutt læknisskoðun. Lögin á Íslandi eru vel að merkja þannig að allir yfir 15 ára aldri geta sótt um breytta kynskráningu án nokkurra hindrana og foreldrar barna undir 15 ára geta sótt um fyrir viðkomandi. Þeir sem eru yfir 18 ára geta bara sótt um breytta kynskráningu einu sinni. Einhvern tíma voru Svíar nú mest líberal í þessum efnum.