
Við skildum við Ódysseif Hómers þar sem áhöfn hans hafði sleppt mótvindum Eólusar lausum og þeir blásið öllum skipunum aftur til baka – þegar þeir voru svo gott sem komnir heim til Íþöku. Halda þeir áfram förinni (róandi, því vindarnir vilja ekki þýðast þá lengur) og koma til Telepýlsborgar í Lestrygónalandi. Þar sendir Ódysseifur menn í land til að forvitnast um hvað þar búi „mennskra manna“. Njósnarar Ódysseifs finna þar fyrst „hina sköruglegu“ dóttur Antífatesar, sem beinir þeim að fara heim til foreldra sinna, þar sem þeir finna eiginkonu Antífatesar. Hún „var mikil að vexti, sem fjallshnúkur væri, og stóð þeim mikill geigur af henni.“ Eiginkonan (sem einsog dóttirin er auðvitað nafnlaus) kallar á Antifates sjálfan sem gerir sér lítið fyrir og grípur einn njósnarann og „býr sér til matar“ (það er orðalag Sveinbjörns; ég sé fyrir mér að hann hafi verið snöggsteiktur á báðum hliðum með smjöri og estragoni, aðallega af því það hljómar einsog lestrygóni). Hinir stökkva á flótta. Nú birtast gígantar úr öllum áttum og byrja að grýta björgum og éta menn – „stungu þeir skipverja í gegn, eins og fiska, og höfðu á burt með sér, var það ófagur veizlukostur“. Ódysseifur sker á landfestar og siglir í burtu – en öll önnur skip hans, ellefu talsins, farast.
Hin hversdagslega hliðstæða Ódysseifs í Ulysses, Leopold Bloom, lét í síðasta kafla, Eólusi, feykja sér um ritstjórnarskrifstofur The Evening Telegraph og nágrennis, sem lýkur þegar „alvöru karlarnir“, að Stephen meðtöldum, fara á krána til þess að væta kverkarnar.
Það er komið hádegi. Bloom hefur ekki gefið auglýsinguna upp á bátinn og þarf að fara á bókasafnið til þess að finna eldri útgáfu hennar í blaðinu The Kilkenny People. Hann er líka svangur en virðist ekki alveg meðvitaður um það sjálfur í fyrstu. Kaflinn hefst fyrir utan nammibúð – „Sykurkámug stúlkan eys ausufylli eftir ausufylli af rjómakaramellum fyrir félaga úr kristbræðrareglunni“ og á leið sinni um borgina leitar hugurinn stöðugt til matar og hungurs sem birtist í öllu myndmáli – lögreglan gengur „gæsagang“ með andlit „heit af áti“ og John Howard Parnell er lýst þannig að hann hljóti að hafa „étið úldið egg“ og svo framvegis og svo framvegis. Þegar hann kemur að ánni Liffey sér hann bruggpramma fara hjá og fer að hugsa um geyma af porteröli, sem honum þykja dásamlegir í fyrstu, en er svo fljótlega farinn að hugsa að rotturnar komist áreiðanlega þá. „Drekka svo stíft að þær tútna út einsog vatnsdauðir hundar.“ Og svo drekkum við ölið sem rotturnar hafa drepist í. Þannig er allt þetta át sem hann hugsar um bæði dásamlegt og nærandi og viðbjóðslegt. Kannski einsog mannát gígantana hefur verið eðlilegur hádegisverður fyrir þeim en viðbjóðslegur hryllingur fyrir Ódysseifi.
Við Liffey fylgist Bloom líka með mávunum. Hann kaupir kökubita, mylur hana niður og kastar ofan í ána og horfir ´a mávana steypa sér gráðugir á eftir þeim. Hann hugsar líka til sonar Reubens J. – þess sem sagt var frá í Hades og reyndi að drekkja sér – að hann hafi „svelgt góða magafylli af þessu skolpi“. Ég held það sé alveg óhætt að fullyrða að meiripartur þessara matarvísana sé fremur ólystugur – en tilvist þeirra undirstrikar engu að síður sívaxandi svengd Blooms.
Á göngunni sinni hugsar hann um eitt og annað. Til dæmis hvort Molly sé gáfuð eða ekki og hvort Boylan sé með kynsjúkdóm. Hann rifjar líka upp einu sinni þegar þau voru að ganga saman þrjú og Boylan og Molly létu hendur snertast á gangi einsog hikandi elskendur. Svo hugsar hann hvort hann geti farið heim klukkan 18 – sem hann telur óhætt (fundur Blazes og Molly er kl. 16). Hann sér líka margar auglýsingar sem hann hugsar um og þá ber helst að nefna fimm menn sem ganga hver um sig með einn stóran bókstaf sem myndar H E L Y S, en það er ritfangaverslun þar sem Bloom vann einu sinni. Nema mennirnir eru í vitlausri röð af því Y-ið hefur dregist aftur úr, er að maula brauð. Verður þetta til þess að hann rifjar upp hugmynd sem hann hafði að betri auglýsingu en þessari þar sem snotrar stúlkur væru í gagnsæjum sýningarvagni að skrifa sendibréf. Hann rifjar líka almennt upp þessa tíma þegar hann vann hjá Hely’s og Millý var lítil (og Rudy þar með hvorki fæddur né látinn) og kemst að þeirri niðurstöðu að þá hafi hann og þau verið hamingjusamari. Hugsanir hans verða fljótt blautlegar og hann rifjar upp hvernig Mollý losar af sér lífstykkið – áður en hann er truflaður.
Það eru ekki margar persónur sem birtast í þessum kafla og ekki mikill eiginlegur söguþráður. En nú rekst Bloom á fyrrverandi kærustu, frú Josie Breen, og þau taka hvort annað tali. Josie segir frá því að maðurinn sinn sé á barmi þess að missa vitið. Hann hafi fengið ómerkt póstkort með stöfunum „U.P.“ (eða hugsanlega stóð „U.P.: UP“) og tekið því sem einhvers konar hræðilegri móðgun. Hann sé nú á fundi með lögfræðingnum Menton – þeim sem birtist í Hadesarkaflanum og þolir ekki Bloom, finnst hann óverðugur Mollyar og er sennilega gyðingahatari – til þess að sjá hvort hann geti ekki kært þessar ofsóknir.
Breen og Bloom tala líka um Minu Purefoy, sem er á fæðingardeildinni og gengur heldur illa að klára þar sín mál – Bloom kallar hana reyndar óvart Beaufoy og nefnir hana bara til þess að skipta um umræðuefni (sem var UP-póstkortið). Beaufoy er vel að merkja nafnið á manninum sem skrifaði söguna sem Bloom skeinir sér á í Kalypsó. (Í næsta kafla, þar sem Stephen Dedalus er í fókus og Hamlet er umræðuefnið, segir Stephen vel að merkja: „Snillingi verða ekki á mistök. Yfirsjónir hans eru að yfirlögðu ráði og eru dyrnar að uppgötvunum.“ Þetta má líka spegla í því að á fáeinum stöðum í Ulysses eru „mistök“ – t.d. stafsetningarvillur – sem Joyce neitaði að láta leiðrétta og má því geta sér til að hafi einhvers konar merkingu, þótt hún sé ekki alltaf ljós).
Einsog ég kom inn á í Lótusætuyfirferðinni þá er þetta „up“-stef einhver standpínuvísun en líka tengt vergirni kvenna (þeir ná honum upp – eða ekki – og þær halda pilsunum uppi – eða ekki). Af bræði Denis Breen að merkja er einhver annað hvort að gefa í skyn að hann nái honum ekki upp eða að frú Breen sé að sleppa einhverjum upp um pilsið á sér.
Ég held okkur sé alveg óhætt að spegla Breen-hjónin í bæði Antifatesarhjónum Hómers og í Leopold og Molly sjálfum (og þar með föður Hamlets og Geirþrúði, auðvitað; Ódysseifi og Penelópu; og Joyce og Noru). Leopold er ófær um að elska sína konu sem hleypir (hugsanlega) öðrum upp um sig. Og þá mætti túlka afstöðu Joyce hérna sem póliamóríska – í öllu falli er viðbragð Denis Breen augljóslega hið ósívilíseraða mannætuviðbragð, en (dálítið nevrótísk) yfirvegun Blooms það viðbragð sem siðmenningin er reist á. Sjálfsstjórnin. Ef við svo speglum það í Ódysseifi þá hjó hann alla vonbiðla Penelópu í miklu blóðbaði; faðir Hamlets lét hins vegar vonbiðilinn myrða sig; og ólátabelgurinn Joyce hvatti Noru sína til að halda framhjá sér svo hann gæti betur skilið afbrýðissemi. Sem hún lét víst ekki eftir honum.
Bloom gengur líka framhjá skrifstofum Irish Times. Þar auglýsti hann eftir vélritunarstúlku fyrir bókmenntalega sinnaðan mann – sem var yfirvarp til að finna sér pennavin. Hann fékk 44 svör og valdi Mörthu Clifford, og skrifa þau hvort öðru fremur hófstillt en vandlega blautleg bréf (einsog kom fram í Lótusætunum). Hann íhugar að líta inn og athuga hvort það hafi borist fleiri svör en gerir það ekki.
Bloom rekst á þrjár frægar manneskjur á gangi. Rétt eftir að hann hugsar til hans sér hann John Howard Parnell, sem er bróðir frelsishetjunnar Charles Parnell (nefndur í Hades). Og rétt eftir að hann hugsar um hann líka sér hann skáldið A.E. (nefndur í Eólus) og kollega hans Lizzy Twigg. Tilviljun á tilviljun ofan. Skáldin eru á reiðhjólum og að koma af einhverjum grænmetisveitingastað („Coming from the vegetarian“ þýðir SAM reyndar sem „Þau eru að koma úr náttúrulækningum“).
„Ekkert nema grasmeti og góðaldin“, skrifar Joyce. „Ekki neyta nautasteikur. Ef þú gerir það munu augu bolans leggja þig í einelti um alla tíð.“ Hann vill auðvitað alls ekki segja manni hvað textinn sé – hverjum hann tilheyri, hvort hann sé rödd sögupersóna, bókarinnar sjálfrar eða hvað. En hér erum við líklega komin einu lagi neðar – og þetta sem sagt Joyce að skrifa texta (plús-X) sem lýsir hugsunum Blooms sem ímyndar sér hugsanir A.E. og Lizzie Twigg. Sem honum finnst svolítið (óþægilega) heilög. „Þetta bókmenntafólk er allt svo loftkennt. Draumlynt, óljóst, þrungið táknsæi. Eintómir fagurkerar. Það kæmi mér ekki á óvart þó það væri einmitt þessháttar fæði sem framleiðir heilabylgjur fyrir skáldlegar hugsanir.“
Siðleysið birtist svo aftur þegar Bloom kemur ´a áfangastað, veitingastað Burtons, og ofbýður smjattið.
Karlmenn, karlmenn, karlmenn.
Þeir tróna á háum stólum við barinn með hattana afturá hnakka, hrópa frá borðunum eftir meira ókeypis brauði, svolgra, háma í sig stóra gutlandi diska af subbulegum mat, augun standa á stilkum, þurrkandi á sér vott yfirskeggið. Fölur og skænislegur ungur maður þurrkaði glasið hnífinn gaffalinn og skeiðina með munnþurrkunni. Ný samstæða af sýklum. Maður með sósublettaðan smekk um hálsinn mokaði skvampandi súpu niðrí kokið á sér. Maður skyrpti aftur á diskinn sinn: hálftuggið brjósk: gómar: engar tennur til að tyggjatyggjatyggja það. Feit rifjasneið úr grillinu. Gleypir hana ótuggna til að ljúka sér af. Döpur drykkjumannsaugu. Hefur bitið stærra stykki en hann fær tuggið. Er ég svona?
Svona heldur þetta áfram í rúma síðu áður en Bloom lætur einsog hann hafi verið að leita að einhverjum þarna inni, sem sé ekki þar – „Augu hans sögðu: Ekki hér. Sé hann ekki“ – og gengur út. Hann fer yfir götuna á siðsamari krá Davys Byrne og fær sér vegetaríska samloku eftir hugleiðingu sem hefst svona:
Dósakjöt. Hvað er dugleg húsfreyja án dósakjöts frá Plumtree? Stygg og stúrin af því. Þvílík dómadags auglýsing! Og hafa sett hana undir dánarfregnirnar. Útí hött. Dósakjöt Dignams. Gott handa mannætum með sítrónu og hrísgrjónum. Hvítur kristniboði of saltur. Einsog súrsað svínakjöt. Býst við að höfðinginn éti tignustu líkamspartana. Hljóta að vera seigir vegna brúkunar.
Og endar svona:
Fastan á Jom Kippúr, innvortis vorhreingerning. Stríð og friður velta á meltingu einhvers einstaklings. Trúarbrögðin. Jólakalkúnar og gæsir. Slátrun sakleysingja. Et, drekk og ver glaður. Slysavarðstofurnar fullar á eftir. Höfuð vafin sárabindum. Ostur meltir allt nema sjálfan sig. Sníklaostur.
–Eruð þið með ostasamloku?
Við munum að þessi Plumtree auglýsing undir dánartilkynningu Paddy Dignams er líka vísun í yfirvofandi ástarfund Mollyar með Boylan, einsog kom fram í Lótusætunum og hjá Joyce er ekki húsfreyjan stygg og stúrin heldur heimilið „incomplete“ – dósakjöt Boylans uppfyllir einfaldlega þörf á heimilinu, hversu óþægileg sem hún má vera fyrir suma heimilismenn (stygg og stúrin lýsir engan veginn Molly Bloom, einsog við eigum eftir að kynnast betur síðar).
Samlokan sem Bloom pantar sér er með gorgonzola og sinnepi og er enn þann dag í dag það sem Ulyssesferðalangar fá sér á Davy Byrne, sem er enn í rekstri og hafði þá verið í rúm hundrað ár. Og búrgúndarvín með. Ef bókin gerðist í dag hefði Bloom áreiðanlega fengið sér veganost. Ef ekki bara avokadó-toast.
Hér er vert að hafa í huga að nú hefur Bloom misboðið bæði hamslaust kjötátið á Burton og loftkennt grænmetisát fagurkeranna. Maðurinn sem hóf innkomu sína í bókina á að lýsa dálæti sínu á innmat, steikti sér nýra í morgunmat, en fékk sér sjálfur kjötlaust í hádeginu. Bloom er ekki með neinum í liði, hann er sinn eigin maður. Og kannski birtist þarna einhver kjarni sem er dæmigerður fyrir það það hvernig Joyce nálgast heiminn – bókmenntin sem tilraun til þess að fá panoptíska sýn á heiminn. Að umfaðma allt. Þetta má allavega spegla í mörgu fleiru, ekki síst því hvernig sjálfstæðisbarátta Íra birtist bæði sem sjálfsagt og fallegt ídeal, sem söguleg nauðsyn þjakaðrar þjóðar og sem ógurleg og eyðileggjandi þjóðremba. Og svo er Bloom auðvitað graðasti getuleysingi í gervallri klámbókmenntasögunni, ekkert nema kurteisi, mýkt, nærgætni og viðstöðulaust glápandi pervert.
En hér má líka hafa í hug að eitt af því fyrsta sem gerist í kaflanum er að Bloom tekur við kristilegu dreifiriti þar sem koma Elía er boðuð. Hann les textann og heldur fyrst að hann sé að lesa sitt eigið nafn. „Bloo“ hugsar hann en áttar sig svo á að þarna stendur ekki Bloom heldur „Blood of the lamb“. Ekki blómi Leopolds – grasmeti – heldur blóð lambsins. Og blómi Leopolds er auðvitað líka kyngetan – og blóð lambsins fórnin (svo tignar Bloom ástina að hann fórnar henni heiðri sínum, svo hún megi hljóta eilífan unað).
Þetta „Elía kemur“ birtist síðan af og til aftur í bókinni – en dreifiritinu kastar Bloom í Liffey um svipað leyti og kökubitunum. Það svo að segja flýtur í gegnum bókina.
Dreifiritið er kristið en Bloom er gyðingur (að ætt fremur en uppeldi). Margir kristnir túlka það sem svo að Elía hafi þegar snúið aftur, hann hafi verið Jóhannes skírari (þótt Jóhannes hafi neitað því sjálfur). En gyðingar bíða hans enn. Þá er markvert að koma hans er boðuð í síðustu bók gamla testamentisins sem heitir Malakí – en „Buck“ Mulligan, vinur Stephens Dedalusar, heitir réttu nafni Malachi Mulligan. Ekki það ég viti hvernig eigi að leggja út af því og kannski gerði Joyce það ekki heldur.
Sjá, ég sendi Elía spámann til ykkar áður en hinn mikli og ógurlegi dagur Drottins kemur.
Malakí 3: 23.
Og hver er það sem er að koma þennan ógurlega dag? Blazes fokkings Boylan. Það segir líka að Elía muni sætta feður við syni og syni við feður – og Ulysses er auðvitað mjög mikið um feður og syni, Stephen sem á reiða liðleskju fyrir föður, Bloom sem á dáinn son og dáinn föður, og þá tvo sem rekja sig að endingu saman. Í Ulysses er þó ekki víst að það hafi mikið með Blazes að gera – að minnsta kosti hef ég ekki komið auga á tenginguna.
Á Davy Byrne spallar Bloom við Nosey Flynn (sem statisti í „Counterparts“ úr Dubliners), meðal annars um Molly og söngferðalagið. Nosey – sem er frekar glötuð týpa – er augljóslega að fiska eftir einhverju slúðri um Boylan. Svo borðar Bloom og verandi í senn fullkominn sveimhugi og fullkominn núvitundarmaður fylgir því löng hugleiðing um mat – hvað sé eitrað og hvað ekki, að kínverjar éti 30 ára gömul egg, hvernig ostrur orki á kynhvötina o.s.frv. – sem leiðir hann að endurminningu um stefnumót þeirra Mollyar á Howth Head (Howth er skandinavíska – Howth Head væri rétt þýtt sem Höfðahöfði) – sem virðist hafa verið í meira lagi heitt.
Hamslaus lá ég yfir henni, kyssti hana: augun, varirnar, þaninn og titrandi hálsinn, stælt brjóstin í fínofinni kasmírpeysu, útstæðar brjóstvörturnar stinnar. Heitur lét ég tunguna leika um hana. Hún kyssti mig. Ég var kysstur. Hún gaf sig alla og ýfði á mér hárið. Kysst, kyssti hún mig.
Kurteislegri mynd af þessu stefnum´óti á Höfðahöfða má sjá á púslin uppi í hægra horninu.

Bloom hugsar líka um stytturnar á National Library Museum – safnahúsinu sem hann ætlar að heimsækja í næsta kafla.
[S]tanda í hringlaga salnum, naktar gyðjur. Örva meltinguna. Þær kæra sig kollóttar hvaða karl horfir á þær. Allt sést. […] Ódauðlega fagrar. Og við troðum mat í eitt gat og kemur út að aftan: matur, iðramjólk, blóð, tað, mold, matur: verður að fóðra hann einsog þegar kynt er undir vél. Þær hafa ekkert. Hef aldrei athugað það. Ætla að athuga það. Vörðurinn sér það ekki. Beygja mig, láta eitthvað detta. Athuga hvort hún.
Akkúrat á þessari stundu þar sem hann er að íhuga að líta undir stytturnar á safninu verður honum mál að míga og fer á klósettið. Nosey Flynn og Davy Byrne nota tækifærið til að baktala vin sinn, sem þeir segja meðal annars að sé frímúrari og frímúrarnir hugsi um sína. „Þeir hlaupa undir bagga þegar hallar á hestinum.“ Það er stef í bókinni að fólk virðist almennt halda að gyðingurinn Bloom eigi meira fé en raunin er – á meðan okkur sem þekkjum hann betur er ljóst að þótt hann sé nægjusamur er líf hans talsvert basl. Segja þeir líka að hann skrifi ekki undir samninga af því hann sé gyðingur. En þeir tala ekki bara illa um hann – þeir segja líka að hann sé háttprúður og hæglátur og bæta svo við að „sjálfur Guð almáttugur gæti ekki hellt hann fullan“ (sem er ekki endilega hrós). Mest bulla þeir bara og þekkja hann greinilega lítið þótt þeim þyki létt að fullyrða alls konar um hann.
Nú koma Paddy Leonard og Bantam Lyons inn og fara að tala um veðhlaupin – Gullbikarinn – einsog við munum úr Lótusætunum lánaði Bloom Lyons blaðið og Lyons misskildi athugasemd hans um að hann ætlaði hvort eð er bara að henda blaðinu („throw it away“) þannig að Bloom væri að gefa sér tips um að hrossið Throwaway myndi vinna veðhlaupin. Þessu ráði deilir Lyons með hinum sem taka það mistrúanlegt.
Þegar Bloom kemur af klósettinu yfirgefur hann krána. Það fyrsta sem hann sér úti á götu er „gráðugur terríer“ sem ælir „viðbjóðslegri kjúkutuggu á götugrjótið og sleikti hana af ferskum ákafa. Ofsaðning.“
Í lok kaflans sér hann síðan ungan sjónlausan mann. Hann fylgist með honum og veltir því fyrir sér hvernig hann fari að því að spjara sig og eðli skilningarvitanna almennt. Skömmu síðar hjálpar Bloom honum yfir götu – það er ekki alveg víst að sá blindi vilji neina hjálp, en hann er henni ekki mjög mótfallinn og þakkar fyrir sig. (Joyce var vel að merkja sjálfur mjög sjóndapur vegna veikinda og stundum nær blindur). Þá sér hann Sir Frederick Falkiner fara inn í Frímúrarahöllina. „Eftir góðan málsverð í Earlsfort Terrace. […] Þeir vilja fá rétta árganga af víni með ártalið skráð á rykfallna flöskuna.“
Að allra síðustu, rétt við bókasafnið, gengur Bloom svo næstum í flasið á kunnuglegum manni.
Stráhattur í sólskini. Brúnir skór. Uppbrot á buxum. Það er. Það er.
Blazes Boylan. Blazes sér ekki Bloom og Bloom lætur ekki vita af sér. Þreifar í ofboði í vasa sér eftir sápunni sem hann keypti fyrir Molly – einsog einhvers konar akkeri – og lætur sig svo hverfa inn fyrir hlið safnsins.
* * *
Ef vitnað er til Ódysseifskviðu á íslensku er það úr prósaþýðingu Sveinbjörns Egilssonar.
Ef vitnað er til Ódysseifs á íslensku er það úr þýðingu Sigurðar A. Magnússonar.
* * *
Yfirferðin 2025:
Ulysses: Lestrardagbók, 1. hluti (Telemakkos, Nestor og Próteus á hundavaði – verður gert betur síðar).
* * *
Eldri bloggfærslur um Ulysses: