Það er fyrsti maí. Apríl búinn. Svo ég tíðfæri frægt ljóð eftir Andra Snæ. Svona fer tíminn með bókmenntirnar. Það ætti kannski einhver að skrifa bók um það.
Ég stend mig stundum að því að íhuga hvort ég meini vel. Ég veit ekki hvers vegna það blasir ekki við. Kannski vegna þess að ég tel að maður sé alltaf að einhverju leyti líka fórnarlamb fleiri hvata. Eða fýsna. Ég finn alveg að það er eitthvað innra með mér sem glennir upp augun af spenningi þegar allt fer til andskotans. Sem hrópar jei! þegar Trump er kosinn forseti. Af hreinum og klárum leiða, býst ég við. Megirðu lifa áhugaverða tíma – var ekki kjaftæði að það sé kínversk bölvun? Las ég það ekki einhvers staðar? En það er allavega áhugaverð spurning hvort maður vilji eða vilji ekki lifa áhugaverða tíma. Og hvort áhugaverðir tímar séu nokkurn tíma trámalausir. Ég er að horfa á Say Nothing og stend mig að því að halda stundum með IRA. Eða allavega Dolours. Og þegar einhver er á flótta undan löggunni vona ég að viðkomandi komist undan. Samt veit ég að þau hafa kannski verið að sprengja fullt af saklausu fólki í loft upp. Myndi nokkur hugsa svona, sem meinti vel? Kannski er það þess vegna sem ég efast.
En sennilega vill maður nú samt bara lifa svona mátulega áhugaverða tíma. Það er gaman í rússíbönum alveg þar til vagnarnir fara að þeytast af teinunum á fullri ferð.
Svo er spurning hvað það er sem gildir. Að meina vel við enda dags. Þegar er allt kemur til alls. Eða hvort maður þurfi að meina vel í hverju skrefi, hverja sekúndu, hverri hugsun. Og hvort maður eigi að refsa sér – með skömm, ef ekki öðru – fyrir allar ljótar hugsanir. Sekúndubrotin sem maður brýtur af sér.
En kannski er það líka vegna þess að ég kæri mig illa um að láta segja mér hvað mér eigi að finnast um hitt og þetta. Eða að ég megi ekki efast um hitt og þetta. Megi ekki einlæglega krefjast þess að ég sé sannfærður með rökum frekar en siðferðislegu skylduboði. Ég held ég hafi nú samt mannúð og jöfnuð og virðingu að leiðarljósi og niðurstöðurnar séu eftir því.
Ætli það sé til fólk sem hugsar aldrei ljótt? Það er víst stutt frá hugsun að gjörðum líka svo maður ætti i sj´álfu sér að gæta sín að því hvað maður hugsar. Jafnvel þótt það sé smátt.
Annars hugsaði ég ekkert lj´ótt í dag. Ég veit ekki hvers vegna ég er að spá í þessu. Ég fór í ræktina og vinnuna og kröfugöngu og horfði á son minn spila með lúðrasveitinni og konuna mína syngja í kvennakórnum og hlustaði á ræður og skemmtiatriði og borðaði kökur í Guðmundarbúð og spjallaði við kanadískan rithöfund um sköpunargáfuna og gerði tómatsúpu í kvöldmat og æfði mig á kontrabassann og á eftir ætla ég í ókeypis bíó í boði verkalýðsfélagsins. Þetta var góður dagur, fullur af fallegum hugsunum.