Bamm

Ráðherra vill að leigubílstjórar tali íslensku. Er fyrirsögn í einhverju blaðanna sem ég sá áðan. Mér finnst svo sem ástæða til þess að fólk sem stundar þjónustustörf á Íslandi geri það á íslensku, einsog það ræður við. Mér finnst ekkert óeðlilegt að gerð sé krafa um það. En er ekki dálítið skrítið að setja lög um það?

Síðast þegar ég var í Reykjavík þurfti ég sjálfur að stimpla götuheitið inn í google maps leigubílstjórans af því hann skildi ekki hvað ég var að segja – altso götuheitið. Og rataði auðvitað ekkert sjálfur. Mér varð hugsað til skáldsögunnar The Book of Dave eftir Will Self sem fjallar um leigubílstjóra í London fyrir tilkomu gps-tækja (a.m.k. í hverjum vasa). Og prófsins sem allir leigubílstjórar þurftu að taka. The Knowledge, var það kallað, Þekkingin – og var nánast guðleg að stærð. Að rata um London. Hugsa sér. En þeir þurftu auðvitað ekki að gera það á íslensku.

Vill ráðherra að rithöfundar tali íslensku? Ég hjó eftir því að dagskrá Bókmenntahátíðar var sem fyrr öll á ensku. Meira að segja pöbbkvissið. Þó gat ég ekki séð að þar væru neinir íslenskir rithöfundar að tala hver við annan á ensku einsog hefur gerst og er mjög lúðalegt. Í ár voru einfaldlega engir viðburðir nema með erlendum gestum. Upplestrar fóru reyndar fram á móðurmáli höfunda. Þetta er held ég af því að Bókmenntahátíð í Reykjavík er í raun eins konar sölumessa. Stór hluti gesta eru erlendir útgefendur. Erlendu höfundarnir presentera sig fyrir íslenskum lesendum – sumir með bók á málinu, aðrir ekki – og íslensku höfundarnir presentera sig fyrir erlendum útgefendum. Það skýtur þannig skökku við að á meðan mér finnst lúðalegt að hátíðin fari fram á ensku þá saknaði ég þess líka að vera ekki boðinn – ég vildi líka fá að kynna mig fyrir erlendum útgefendum. Meðal annars vegna þess að mér gengur bölvanlega að koma Náttúrulögmálunum út á öðrum málum. Ég átti erindi í ár. Hefði getað selt mig! Að vísu myndi bókmenntahátíð kannski ekki hjálpa þar mikið til af því staðreyndin er einfaldlega sú að útgefendur eru mjög hikandi gagnvart löngum bókum. Og hún verður ekkert styttri við að ég fái að tala um hana á ensku í Iðnó. Og ég er líka hræðilegur networker – er feiminn og kem illa fyrir og segi bara vitlausa hluti eða ekkert (ég skrifa af því ég kann ekki að tala). En af því það var ekki í boði að koma og kynna sig þá finnst mér endilega einsog það hefði auðvitað gert herslumuninn.

Er dagskrá Iceland Noir öll á ensku líka? Það er eina hátíðin (í heiminum) sem ég hef beðið um að fá að taka þátt í – og eina sem hefur synjað mér. Að minnsta kosti persónulega. Bókmenntahátíð á Flateyri, sem skartaði þónokkrum erlendum höfundum, var á íslensku alls staðar þar sem það gekk – sem var langoftast. Um aðrar alþjóðlegar bókmenntahátíðir á þessu landi er víst ekki að ræða. Svo ég viti.

Stundum hugsa ég að það væri ágætt að hafa einhvern vettvang þar sem íslenskir rithöfundar gætu mæst án þess að vera í jólabókaflóðsgírnum eða réttindasölugírnum. Kannski er það bókaballið? Ég hef bara einu sinni farið á það – 2011 var mér boðið að lesa ljóð á hátíðinni. Man eftir útlenskum höfundi sem öllum fannst voða fyndið að væri að klípa í allar konurnar á dansgólfinu. Þetta var fyrir metoo og ég man ekki hver höfundurinn var og sá þetta ekki – stóð úti og reykti bróðurpartinn af kvöldinu og fylgdist með konunum koma út, krossa sig og segja „hann er rosalegur þessi maður!“ Og svo var hlegið. Fílingurinn var svolítið einsog á góðu sveitaballi.

Mér var reyndar – svo því sé haldið til haga – boðið að spila í bókabandinu. Sem hefði verið geðveikt. En ég hefði þurft að koma í bæinn á þriðjudag eftir páska til að æfa og það bara gekk ekki.

Kannski finnst mér bara svolítið billegt að ætlast til þess að leigubílstjórar tali íslensku og hía á forsetann fyrir að segja „pope Francis“ ef maður getur svona auðveldlega gert hana að aukaatriði sjálfur. Og kannski myndi það gera heilmikið fyrir tungumálið ef við myndum temja okkur að nota túlka meira – einsog er gert mjög víða. Okkur vantar fagstétt af túlkum – og hún verður ekki til nema einhver skapi störfin.

p.s. Það kemur áreiðanlega ekkert um Lestrygónakaflann í Ulysses fyrren í næstu viku.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *